Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Vantar ekki eitthvað?

Mér þykir þessi frétt mbl.is frekar þunn í roðinu.  Vissulega virðist FIA taka þann pól í hæðina að ekki sé hægt að hafa upplýsingar um tæknihönnun undir höndum, án þess að nota hana beint, eða óbeint.  Ég get tekið undir það, enda hef ég áður lýst þeirri skoðun minn að slíkt sé varla mögulegt.

En það er fróðlegt að bera þessa frétt saman við frétt The Times um sama mál.  Þá frétt má finna hér.

Þar má m.a. lesa eftirfarandi:

 "In their 15-page judgment released today, the FIA have published details of emails exchanged between Alonso and test driver Pedro de la Rosa regarding the Ferrari secrets, which were initially received by McLaren's chief designer, Mike Coughlan, who has been suspended, from the former Ferrari chief mechanic, Nigel Stepney.

“The emails show unequivocally that both Mr Alonso and Mr de la Rosa received confidential Ferrari information via [Mike] Coughlan," the statement said.

“Both drivers knew that this information was confidential Ferrari information and that both knew that the information was being received by Coughlan from [Nigel] Stepney.”

Coughlan was suspended from his position as McLaren chief designer on July 3, the same day Ferrari sacked Stepney as their head of performance development.

It is understood Stepney forwarded a 780-page technical dossier to Coughlan, an accusation the former continues to deny.

But one email exchange between De La Rosa and Alonso dated March 25, 2007, is particularly damning. It initially relates to the weight distribution of Ferrari’s cars as set up for the Australian Grand Prix on March 18.

De La Rosa then concludes: “All the information from Ferrari is very reliable. It comes from Nigel Stepney, their former chief mechanic - I don’t know what post he holds now.

“He’s the same person who told us in Australia that Kimi [Raikkonen] was stopping on lap 18. He’s very friendly with Mike Coughlan, our chief designer, and he told him that.”

On the eve of testing the McLaren car in a simulator, De la Rosa wrote an e-mail to Coughlan on March 21 to provide information about the red Ferrari setup, according to another section of the FIA ruling.

It said: “Hi Mike, do you know the Red Car’s Weight Distribution? It would be important for us to know so that we could try it in the simulator. Thanks in advance, Pedro.” "

Ef þetta eru ekki sannanir um grófar iðnaðarnjósnir og "óíþróttamannslega" framkomu, þá veit ég ekki hvernig sú framkoma er.

Trúir einhver að þetta hafi verið að gerast án þess að Ron Dennis og aðrir yfirmenn liðsins hafi vitað nokkuð?

Í ljósi þessa er refsing McLaren síst of þung.  Í raun sleppa ökumennirnir (í það minnsta Alonso og De La Rosa) of auðveldlega.

 P.S.  Það má bæta hér við að fróðlegt er að lesa frétt ITV um þetta sama mál, en hana má finna hér.

Þar er farið betur yfir málið og meiri upplýsingar sem renna stoðum undir sekt McLaren.

Það er ljóst að með framferði sínu hefur McLaren stórskaðað íþróttina.


mbl.is Íþróttaráð FIA viðurkennir að hafa engar sannanir fyrir gagnanotkun af hálfu McLaren
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótt ef satt er

Ef þetta er rétt er það vissulega hið merkilegasta mál.  Það hafa margir velt yfir því vöngum hvernig FIA hafi komist á snoðir um tölvupóstana.

En mér þykir þessi setning í fréttinni athygliverð:  "Með því vildi hann og undirstrika að lið hans hafi sýnt fullan heiðarleika við rannsókn njósnamálsins."

Þetta sýnir að að mínu mati hve (ef það er satt að upplýsingarnar hafi komið frá Ron Dennis) hve ákaflega óheiðarlega McLaren og Ron Dennis hafa komið fram í þessu máli.

Það má telja næsta víst að Dennis hafi vitað allan tíman af því að McLaren hafði þessar upplýsingar undir höndum (ótrúlegt ef ökumenn eru að senda upplýsingar sín á milli, en "bossinn" veit ekki neitt), en leikur sakleysingja fram í rauðan dauðan. 

Ég get því ekki verið sammála þeirri túlkun mbl.is, að með þessu hafi Dennis sýnt einhver heilindi, enda líkist þetta meira í mínum huga því að reyna að lágmarka tjónið, sem auðsýnilega er yfirvofandi.  Svona eins og mafíósi sem gefur sig fram þegar handtaka er yfirvofandi.

En hvernig baráttan á milli Dennis og Alonso fléttast inn í þetta er athygliverð kenning.  Skýrir líka ef sönn er hvers vegna Alonso var ekki viðstaddur dóminn í gær.

Í mínum huga undirstrikar þetta sekt Mclaren ef satt reynist.


mbl.is Ron Dennis ljóstraði sjálfur upp um rafpósta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salómon eða hvað?

Ég er ábyggilega ekki einn um að þykja þessi niðurstaða skrýtin.  Það er margt sem vekur athygli þarna.

FIA virðist sannfært um sekt McLaren, sem mér þykir ekki skrýtið, þó með þeim fyrirvara að ég hef vissulega ekki séð gögnin sem dæmt er eftir.

Það er hins vegar nokkuð ljóst í mínum huga að það er ekki hægt að hafa undir tæknigögn eins og hér um ræðir, án þess að þau sé notuð, meðvitað eða ómeðvitað. 

Ef eitthvað frá Ferrari hefur siðan verið að finna í tölvupóstum sem gengið hafa á milli ökumanna McLaren þá segir þetta sig nokkuð sjálft.  Ég hef enga trú á því að FIA hafi krafist þess að fá þó gögn, án þess að hafa nokkuð rökstuddan grun að eitthvað óhreint væri í pokahorninu hjá Mclaren.

Eftir stendur spurningin hver lak þeirri vitneskju til FIA.

Það verður fróðlegt að sjá hvað verður lagt fram á morgun, en ef það er hafið yfir vafa að McLaren hafi notað upplýsingar frá Ferrari, á FIA ekki marga kosti nema að taka hart á málinu.  Persónulega finnst mér afar eðlilegt að taka stigin af liðinu, en set spurningamerki við sektarupphæðina.  Hún er gríðarlega há, en vissulega þarf að sýna að mál sem þetta sé meðhöndlað af fullri hörku.

Það má að sumu leyti teljast merkilegt að ökummen liðsins skuli fá að keppa áfram, rétt eins og ekkert hafi í skorist, á bíl sem samkvæmt þessari niðurstöðu er "illa fenginn".  Þar njóta ökumennirnir þess þó líklega að ef þeir hafa sýnt ýtrustu samvinnu við að afhenda gögnin, þá eigi þeir skilið að fá nokkurs konar sakaruppgjöf, og svo hitt að það hefði verið því sem gríðarlegt högg á íþróttina, ef tveir stigahæstu ökumennirnir hefðu verið dæmdir úr leik.  Þess utan eru þeir líklega 2. af vinsælustu ökumönnunum nú um stundir, ef ekki þeir vinsælustu.

Það má því segja að það sé nauðsynlegt fyrir íþróttina að þeir haldi áfram keppni.  Þetta kann því að vera nokkurs konar "Salómonsdómur", þ.e.a.s. að harkalega er refsað, en reynt að halda tjóninu fyrir íþróttina og aðdáendurna í lágmarki.  Titill ökumanna hefur enda í hugum flestra mun meiri vigt, og er það sem stendur upp úr eftir hvert tímabil.

Enn og aftur ber þó að hafa í huga að ég sem aðrir bíða spenntur eftir rökstuðningnum á morgun.

P.S.  Mér þykir orðalag mbl.is nokkuð sérstakt, þar sem segir í fréttinni:  "Með ákvörðun þessari kemur titill bílsmiða sjálfkrafa Ferrari í hlut."

Ekki hef ég séð þetta nokkurs staðar annars staðar, enda þótt að telja verði Ferrari sigurinn í keppni bílsmiða nokkuð vísan, hefði ég haldið að BMW ætti ennþá "fræðilegan" möguleika í þeirri keppni og því ótímabært að fullyrða um hvernig sú keppni fer.  Auðvitað er það afar ólíklegt, en fræðilega á BMW möguleika á 72 stigum, en munurinn á Ferrari og BMW er 57 stig.

Og auðvitað vinnst enginn titill sjálfkrafa.

 

 


mbl.is McLaren úr leik í ár og sektað um 100 milljónir dollara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liðin tíð

Það er víst liðin tíð að ég hafi komið upp í "hæstu frístandandi byggingu í heimi".  En eins og fram kemur í frétinni hefur það verið CN turninn hér í Toronto.

Ég hef farið nokkrum sinnum upp í turninn, þar sem gestakomur hingað eru varla fullkomnaðar án heimsóknar þangað.  Það er alltaf jafn skemmtilegt að koma þangað upp, og útsýnið á góðum degi óviðjafnanlegt.

Glergólfið, þar sem hægt er að horfa beint niður er sömuleiðis ótrúleg upplifun, sem verður varla jöfnuð í Burj turninum.

En það er spurning hvort að ég verði ekki að skella mér til Dubai, svona til að viðhalda þeirri staðreynd að hafa komið í "hæstu frístandandi byggingu heims".

En það verður þá varla fyrr en á næsta, eða þarnæsta ári.


mbl.is Burj-turninn í Dubai orðinn hæsta bygging í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hver er raunkostnaðurinn?

Mér er sagt að mjólk eigi eftir að hækka í verði víðast hvar um heiminn, vegna þess að nú vilja Kínverjar að börnin þeirra fari líka að drekka mjólk.

En það sem vantar í þessa frétt er hver raunkostnaðurinn er í hvoru landi um sig.  Hvert er raunverulega verðið?  Hvað nemur niðurgreiðsla á mjólk háum upphæðumá lítra á Íslandi og hvað í Bretlandi.

Á þeim grunni á að ræða málin.

Hitt er svo annað mál að mjólk er ekki sama og mjólk.  Mér stendur til boða að kaupa "venjulega" mjólk hér á u.þ.b. 70 kr lítrann.  En ég vel að kaupa mjólk sem kostar u.þ.b. 150 kr lítrinn.

"Venjuleg" mjólk hér í Kanada hefur aðeins 3.25% fituinnihald eða minna.  Þess vegna vel ég að kaupa "lífræna" mjólk sem hefur 3.8% fituinnihald og bragðast mun betur. 

Hlutirnir eru aldrei eins einfaldir og þeir sýnast.


mbl.is Mjólk ódýrari hérlendis en í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græna grasið

Mér hefur alltaf þótt það nokkuð merkilegt hvað stór hópur Íslendinga virðist sannfærður um hve slæmt sé að lifa á Íslandi og að meginþorri landsmanna hafi það skítt. 

Það má líka skilja á mörgum að víðast hvar annars staðar hafi menn það betra en á Íslandi. 

Þrátt fyrir þetta "skorar" Ísland gríðarlega hátt í öllum samanburðarrannsóknum á lifsgæðum sem ég hef séð.

Núna rétt áðan rakst ég svo á blog hjá Pálma Gunnarssyni, sem ég hlustaði einu sinni á um hverja helgi í Sjallunum, en það er önnur saga.  Þar kveður einmitt við þennan tón og er tíundað hve gott sé að búa í Kanada og að jafnvel sé þörf á "léttvopnaðri" byltingu á Íslandi.

Það er þó rétt að hafa í huga að Kanada er öllu jöfnu á svipuðum slóðum og Ísland í lífskjarasamanburðinum, gjarna þó nokkrum sætum neðar.

Ekki ætla ég að neita því að að ágætt er að lifa í Kanada, enda líður mér ágætlega hér.  Hér má fá, líkt og Pálmi nefnir dáyndis steikur á góðu verði (ég keypti í dag, beint frá kjötvinnslu, nautalund á ca. 1020 kr Íslenskar kílóið.  Svínalundir kosta hér gjarna um 600 kr kg.), hér kostar bensínlítrinn tæpar 60 krónur Íslenskar, hér er miklu hlýrra á sumrin (en að sama skapi miklu kaldara en á Íslandi á veturna), hér á hægt að kaupa sér föt fyrir lítinn pening, bílar kosta ekki nema brot af því sem þeir kosta á Íslandi, tölvur, sjónvörp og önnur rafmagnstæki kosta sama og ekki neitt og svo mætti lengi telja.

Heilbrigðiskerfið er ágætt og rétt eins og á Íslandi að mestu leyti frítt, en biðraðirnar plaga Kanadamenn, rétt eins og Íslendinga.

Húsnæðisverð (bæði kaup og leiga) er mun ódýrara hér í Toronto en í Reykjavík, en gæði húsnæðis eru hins vegar miklu meiri á Íslandi.

Þetta hljómar ljómandi ekki satt?  En hlutirnir eru ekki svona einfaldir. 

Fyrst ber að nefna að almennt eru laun lægri í Kanada en á Íslandi (best er auðvitað að hafa Íslensk laun og kaupa í matinn í Kanada).  Skattar eru svipaðir hér og á Íslandi (þó er kerfið flóknara og ekki eins auðvelt að átta sig á því).  Líklega eru skattar á meðallaun heldur hærri hér í Kanada en á Íslandi.  Sjá hér á Wikipedia.

Fasteignaskattar eru víðast mun hærri en á Íslandi (enda ein af fáum tekjulindum sem sveitarfélögin hafa, þau fá ekki að leggja skatta á tekjur íbúanna), en eru verulega mismunandi eftir sveitarfélögum.

En viljirðu læra t.d. verkfræði við háskólann í Toronto, kostar það þig um það bil 440.000 á ári.  Langi þig til að læra lögfræði er gjaldið ríflega milljón á ári og þeir sem fara í tannlækningar borga ríflega 1200.000 á ári. Kostnaðinn er hægt að sjá hér.  Þetta eru tölur fyrir heimamenn.

Gjald fyrir dagvist hér í Toronto er ekki óalgengt á bilinu 70 til 95.000 fyrir hvert barn.  Þó myndi ég telja að gæði dagvistarinnar stæði langt að baki því sem gerist á Íslandi.

Bílatryggingar eru líklega þó nokkuð hærri en á Íslandi, ekki er óalgengt að borgað sé  fast að 200.000 fyrir kaskó og ábyrgðartryggingu á meðalstórum bíl (verðmæti bíls um 1.5 milljón).  Ef unglingur er í fjölskyldunni og keyrir bílinn er tryggingin yfirleitt mun hærri.

Yfirdráttur á bankareikningum er ekki svo algengur hér, en þess í stað eru tekin neyslulán á kreditkortin, sem segja má að svo sami eða svipaður hlutur.  Vextir á þeim eru algengir á bilinu 18 til 23%.  Verðbólga í Kanada er ca. 2%.

Það er hægt að halda lengi áfram með samanburðinn, sumt er Íslandi í hag, annað Kanada. 

Bæði löndin hafa stórkostlega náttúru, en það má heldur ekki gleyma lífsgæðum eins og að geta drukkið vatnið úr krananum (ekki það að það gera margir hér í Toronto, en ég get ekki fellt mig við klórbragðið) og nota bene, það er selt inn í eftir mæli. 

Ekki má heldur gleyma heitavatninu.  Það gerir það að verkum að mun ódýrara er að hita hús á Íslandi en hér í Kanada, að ógleymdum þeim lúxus að geta verið eins lengi í sturtu og manni þóknast, en hafa ekki bara hitavatnsdúnk.  Hitinn á sumrin er heldur ekki bara blessun, því að þó að tómatarnir og baunirnar spretti vel í garðinum, þá kostar stórar fjárhæðir að halda lífvænlegu innandyra þegar hitinn er um og yfir 30 stig.

Þannig er að það er misjafnt hvernig litið er á hlutina og hvort að "glasið er hálfullt eða hálftómt", lífið skítt eða hreinlega bærilegt.

Hitt er svo auðvitað rétt að það er engin ástæða til að gefast upp á því að berjast fyrir lægra matvöruverði á Íslandi og gera Ísland þannig að enn betra landi. 

Það væri auðvitað lang best að hafa Íslensk laun, matarverð eins og í Kanada eða bara Brasílíu, vexti eins og í Japan, atvinnuleysi eins og á Íslandi, vínverð eins og í Frakklandi og Spáni, vatn eins og á Íslandi og þar fram eftir götunum, en því miður er það líklega ekki raunhæft.

Að lokum má ég til með að minnast á símamálin sem Pálmi minnist á í blogginu sínu.  Það er alveg rétt að hér eru gjöld fyrir síma og internetnotkun mun lægri en á Íslandi, en að nota tölvuforrit til og borga mun minna fyrir símanotkun, t.d. um 10 evrur fyrir nokkra mánuði, er hægt að gera víðast hvar um heiminn og bæði á Íslandi og í Kanada.

 


Bréf frá dómsmálaráðuneytinu

Í morgun fékk ég bréf frá dómsmálaráðuneytinu.  Ég verð að viðurkenna að fyrsta hugsunin sem flaug í gegnum hugann var:  Hvern andsk..... hef ég nú gert af mér. 

Ég fór í huganum yfir liðnar vikur, nei, ég var búinn að greiða stöðumælasektina, hafði ekki verið tekinn fyrir of hraðan akstur eða verið til vandræða nokkurs staðar, svo að ég gæti munað.

En þegar ég opnaði bréfið kom hið sanna í ljós.  Í bréfinu var spurninglisti sem ég hef 5. daga til að fylla út og skila til ráðuneytisins.  Listinn á að leiða í ljós hvort að ég sé gott og æskilegt "material" til að nota í dómskerfi landsins.  Með öðrum orðum hvort að hægt sé að nota mig í kviðdómi.

Með fylgir að skili ég ekki spurningalistanum, geti ég verið sektaður allt að 5000 dollurum eða lent í fangelsi í  6 mánuði eða svo.

Auðvitað sér maður strax fyrir sér kviðdóm lokaðan í reykfylltu bakherbergi, rökræðandi fram og aftur um hvort að einhver sé morðingi eður ei.

En þetta er ekki eftirsóknarvert, alla vegna get ég ekki sagt að þetta heilli mig, þó að sjálfsagt sé boðið upp á ágætis samlokur.

En líklega verð ég dæmdur ónothæfur.  Ég hef nefnilega ekki haft fyrir því að sækja um Kanadískan ríkisborgararétt og slepp því líklega á því "tækniatriði" frá því að lenda á lista yfir vænlega kviðdómendur.

Það er þó gott.


3. metrar

Þá er Bjórárfjölskyldan búin að ákveða hvernig borðstofuborð framtíðarinnar verður.  Það var lagður grunnur að mögnuðum "erfðagrip" á föstudaginn.

Þá gengum við frá vali á við og lakki, lengd og breidd og hvernig framlengingarnar væru.

Eins og oft áður þá skoluðust hugmyndirnar sem farið var með af stað, aðeins til, en auðvitað til hins betra.

Upphaflega var meiningin að fá borð ca. 40" á breidd og ca. 90" á lengd, hugsanlega aðeins 72" og þá með 18" framlengingu.

Niðurstaðan, pantað var borð um 1 1/2" furuplönkum, 40" (1 m) á breidd), 80" á lengd (2 m) og með fylgja 2. framlengingar 20" hver (50 cm) sem gerir það að verkum að þegar á þarf að halda hefur fjölskyldan yfir að ráða 3ja metra borði.  Síðan voru pantaðir 4 stólar (við ætlum að nota eldri stóla sem að hluta til, svona til að byrja með). Allt þetta verður svo lakkað í dökkum valhnetulit.

Líklega kemur þetta allt saman heim að Bjórá eftir 6 til 8 vikur, ja nema blessaðir Mennonitarnir láti hendur virkilega standa fram úr ermum, en verkefnalistinn er víst víðast hvar langur hjá þeim.


McLies?

Það er nokkuð ljóst að langt frá því allt sem hefur komið fram í "stóra njósnamálinu" er sannleikanum samkvæmt.

Þessi framkoma Ítalska blaðamannsins er auðvitað fyrir neðan allar hellur, en það er ýmislegt sem bendir til þess að framkoma McLaren sé ekki heiðarleg heldur. 

Það er rétt að benda lesendum þessarar fréttar mbl.is, að blaðamaðurinn er ekki sakaður um að hafa falsað frétt um tölvupósta á milli ökuþóra McLaren, heldur falsaði hann frétt um innihald tölvupóstanna.  Á því er mikill munur.

FIA gerði þá kröfu á hendur ökuþórum McLaren að þeir afhentu tölvupósta sína og hefur bréfið verið birt opinberlega.  Þar segir víst m.a.:

“You will appreciate that there is a duty on all competitors and Super Licence holders to ensure the fairness and legitimacy of the Formula One World Championship. It is therefore imperative that if you do have such information, you make it available to us without delay.”

Hér er vísað til þess að ef ökumenn hafi vitneskju um ólöglegt athæfi (í þessu tilfelli af hendi McLaren) beri þeim skylda til að láta FIA þau gögn í hendur.

Hvað stendur í tölvupóstunum á hins vegar eftir að koma fyrir almenningssjónir, gerir það líklega á fimmtudaginn.

Hver kom þeim upplýsingum á framfæri við FIA að einhverjar upplýsingar gæti verið að finna í tölvupósti ökumanna McLaren er ekki vitað en væri vissulega fróðleg vitneskja.

En það er líklega best að láta dómstóla FIA eftir að dæma málinu og bíða spenntur fram á fimmtudag eftir fleiri fréttum.

 

 


Niðurlæging

Það getur varla talist neitt annað en niðurlæging fyrir Ferrari að láta McLaren sigra 1 - 2 í Monza.  Og það því sem næst baráttulaust, ef svo má að orði komast.

Vissulega reyndi Raikkonen að klóra í bakkann, en Hamilton sýndi honum hvers vegna hann og McLaren eru með forystu í titlakeppnunum og hvers konar yfirburði þeir hafa yfir Ferrari nú um stundir. 

Þetta er að ég held í fyrsta sinn sem McLaren vinnur 1 - 2 sigur í Monza, og því sérstakt gleðiefni fyrir þá, en að sama skapi súr stund fyrir Ferrari.

Enn einu sinni er áreiðanleiki Ferrari bilsins til vandræða, Massa fellur snemma úr keppni og undirstrikar á heimavelli hve mikil vandræði hafa verið með bílinn.

Þetta er keppni sem við Ferrari aðdáendur viljum gleyma sem fyrst, og raunar hygg ég að margir okkar séu að hugsa um 2008 tímabilið, sigur í ár er einfaldlega utan seilingar.

 

 


mbl.is McLaren gjörsigrar Ferrari í Monza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband