Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Kosningar í nánd

Það eru kosningar í nánd hér í Ontario, það er að segja kosningar hér í "próvinsinu", en hér í Kanada eru 3 stjórnsýslustig. "Alríkið", "fylkið" og svo borgar eða sveitastjórnir. Núna eru sem sé "fylkiskosningar".   Gengið verður til kosninga þann 10 október næstkomandi.

Aðalflokkarnir eru rétt eins og á landsvísu þrír, þó ekki alveg þeir sömu. Frjálslyndi flokkurinn (Liberal Party), Nýji Lýðræðisflokkurinn (New Democratic Party) og Framsækni íhaldsflokkurinn (Progressive Conservatives), en þeir eru að kalla má "systurflokkur" Íhaldsflokksins sem býður fram á landsvísu. Yfirleitt hefur einn flokkur náð meirihluta, en það eru margir sem spá því að annað gæti orðið upp á teningnum nú og spá minnihlutastjórn. Baráttan á milli Frjálslyndra og Framsækinna íhaldsmanna er hörð, en það gæti þó farið svo að NDP sæti uppi með flest "trompin", ef svo fer að hvorugur næði meirihluta.

Þó að ég geti ekki sagt að ég hafi "sökkt mér" niður í þesar kosningar, ég hef enda ekki kosningarétt hér, þá hef ég reynt að fylgjast aðeins með, enda erfitt að fygljast ekki með stjórnmálum í sínu nánasta umhverfi og vissulega eru þetta mál sem snerta okkur hér að Bjórá, jafnt sem aðra íbúa Ontario.

Stóru málin í baráttunni svikin loforð Dalton´s McGuinty, núverandi fylkisstjóra, sérstaklega hvað varðar skattamál, en hann undirritaði við hátíðlega athöfn fyrir síðustu kosningar,  loforð um að hækka ekki skatta.  Það stóð hann ekki við.  Fleiri svikin loforð eru í umræðunni, en skattarnir eru lang fyrirferðarmestir.  Kanadabúar enda frekar skattpínd þjóð.

Annar gríðarlega umdeilt mál er loforð John Tory, leiðtoga PC um að fjármagna einkaskóla rekna af trúfélögum af almanna fé.  Það er líklega vægt til orða tekið að segja að skiptar skoðanir séu um það mál.  Margir halda fram þeirri skoðun að þetta auki á sundrungu í þjóðfélgaginu og hindri aðlögun í samfélaginu.  Aðrir benda á að kaþólskir skólar njóta akkúrat þessarar fyrirgreiðslu frá hinu opinbera og það sé ekki nema sanngjarnt að allir sitji við sama borð.

Svo heyrist það líka að kosningarnar snúist að miklu leyti um persónur, þar þykir John Tory koma sterkastur út, en Howard Hampton leiðtogi NDP þykir sömuleiðis hafa "karisma" og einlægni sem skili honum vel.

Þó að ég komi ekki til með að greiða atkvæði, vona ég að Framsæknu íhaldsmennirnir vinni, það veitir ekkert af breytingum hér í Ontario, lækka skatta, auka á frjálsræði og þar fram eftir götunum.

Eins og oft vill verða þá er kosningabaráttan ekki síður á neikvæðu nótunum en þeim jákvæðu og það er hér eins og víða annars staðar að drjúgur hluti baráttunnar er að færast inn á miðla eins og YouTube.

Hér að neðan má finna 3 af þeim myndböndum sem hafa vakið athygli mína í þessari baráttu.  2 þau fyrstu hamra á Dalton McGuinty, leiðtoga Frjálslyndra en það síðast gerir út á það að MAC (guinty) er að kljást við PC og stælir nokkuð Macintosh auglýsingarnar.

 

 


Ósnortin náttúra eða?

Bjórstífla

Eins og sagði í síðustu færslu þá lagði Bjórárfjölskyldan land undir fót (fórum þó á Pontíaknum mest megnis) og heimsóttum Baptistevatn og ýmsa aðra merkisstaði þar um slóðir, þar á meðal Algonquin þjóðgarðinn.

Garðurinn er gríðarstór, eða rétt tæplega 8.000 ferkílómetrar og býður upp á ríkulega náttúru og dýralíf og sömuleiðis upp á nokkrar sýningar sem áhugavert er að skoða.

Eitt af því sem við skoðuðum í þessari ferð var einmitt skógarhöggssafnið, en þar má sjá sögu skógarhöggs á svæðinu, allt fram til dagsins í dag.  Sömuleiðis skoðuðum við sýningu um samspil gróðurs og dýranna í þjóðgarðinum. 

Þar var það ein setning öðrum fremur sem vakti athygli mína.  Ef henni væri snarað yfir á Íslensku hljóðaði hún eitthvað á þessa leið:

Það er algengur misskilningur hjá þeim sem heimsækja Algonquin þjóðgarðinn að hér sé náttúran ósnortin af mannavöldum.  Hið rétta er að maðurinn hefur sett svip sinn á nátturuna hér og sömuleiðis verið mótaður af henni í u.þ.b. 7000 ár.

Þetta fékk mig til að hugsa.  Það má líklega segja að ósnortin náttúra sé ekki til lengur.  Það er ekki til það svæði sem maðurinn hefur ekki sett mark sitt á með einum eða öðrum hætti, þó að "fótsporin" séu vissulega misjafnlega stór og djúp.

Annað dýr sem sömuleiðis hefur í för með sér miklar breytingar hvar sem það sest að, er bjórinn, með stíflum sínum breytir hann landinu og lífsmöguleikum fjölda annara dýra, ýmist til hins betra eða verra.

Meðfylgjandi mynd er af haganlegri bjórstíflu í Algonquin þjóðgarðinum.

 


Að hitta elginn

Moose on the LooseNú fyrir nokkrum vikum blogaði ég um að éta elginn, það var þegar við keyptum elgssteikur og grilluðum og snæddum með bestu lyst.

Nú bættum við um betur og hittum elginn.

Svona til að útskýra málið frekar, þá er Bjórárfjölskyldan nýkomin úr ferð norður á bóginn, á kunnuglegar slóðir við Baptiste vatn.

Þaðan var svo haldið í dagsferðir um nágrennið, þar á meðal í Algonguin þjóðgarðinn og þar var fjölskyldan svo heppin að rekast á tvo elgi (moose) á förnum vegi.

Nánar tiltekið voru þetta tvær elgskýr sem létu Bjórárfjölskylduna ekki trufla sig í matartímanum og héldu áfram sem ekkert hefði í skorist að háma í sig grængresið.

Það er óneitanlega eittvað heillandi við þessar stóru skepnur og ég get ekki neitað því að sú hugsun kom upp í hugann að þetta væri vissulega drjúgur vetrarforði af kjöti, ef svona skepna væri felld.

En ferðin í heild var bæði ljúf og ánægjuleg, bæði heimsóttir kunnir staðir sem og og fundnir nýjir.  Veðrið ljúft og haustlitirnir komnir nokkuð vel áleiðis.

Meðfylgjandi er svo eitt af "skotunum" af elgunum.

 

 

 


Ekki undarlegt

Það er ekki skrýtið að Eistlendingar vilji ekki fá Rússneska herinn innfyrir "þröskuldinn".  Síðast þegar þeir hleyptu honum (þá var hann reyndar kallaður sá Sovéski) innfyrir tók það þá yfir 60 ár að fá hann út fyrir aftur og reyndis þjóðinni dýrkeypt.

Í ljósi sögunnar er það því eðlilegt að Eistlendingar vilji ekki að Rússneski herinn gæti eins eða neins innan þeirra lögsögu.

P.S.  Í nöldurhorninu get ég svo ekki stillt mig um að minnast á ósamræmi í frétt og fyrirsögn, þar sem annarsvegar er talað um olíuleiðslu en hins vegar gasleiðslu (sem ég held að sé rétt).

Svo er líklegast ekki rétt að segja að Eistlendingarnir hafi bannað neina leiðslu í Eystrasaltinu, heldur eru þeir einvörðungu að hafna því að leiðslan sé lögð um þeirra lögsögu.

Einnig vil ég svo nota tækifærið og minnast á það baráttumál mitt að talað sé um Eistlendinga, en ekki Eista.  Það er ef til vill nokkuð persónulegs eðlis, en ég á afskaplega erfitt með að líta á konuna mína sem Eista, ekki frekar en ég hef nokkurn áhuga á því að vera nefndur Ísi í stað þess að vera Íslendingur.


mbl.is Eistar banna olíuleiðslu í Eystrasalti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Himbriminn enn á uppleið

Jamm, þá náðist það í dag.  Jöfnuður.

Kanadadollarinn náði hinum Bandaríska að verðmæti og reyndar örlítið betur.  Hærra hefur sá Kanadíski ekki staðið gegn Bandarískum "starfsbróður" sínum síðan 1976.  Sjá frétt Globe and Mail hér.   Hér má svo sjá hæðir og lægðir í lífi Kanadíska dollarans síðastliðin 30 ár.

En aðalfyrirsögnin á prentútgáfu blaðsins var:  "Prices staying put despite dollar´s climb", og undirfyrirsögnin "Loonie has appreciated 15 per cent this year, study finds, but benefits of stronger currency are not being passed on to consumers."

Fyrir þá sem ekki vita, er Kanadíski dollarinn gjarna kallaður "Loonie" eftir Himbrimanum (Common Loon) sem prýðir 1. dollara peningin.  Við Íslendingar ættum auðvitað að tala um Kanadíska Himbrimann.

En þetta var nú útúrsnúningur, en fréttin í prentútgáfunni fjallar um hve lítið að styrkingu C$ hefur skilað sér til neytenda.  Hljómar kunnuglega ekki satt.

En síðan var önnur frétt um hve illa Kanada stæði gagnvart öðrum löndum hvað varðaði skattheimtu á fyrirtæki.  Sagðir reka lestina af 80 þjóðum.  Þá frétt má lesa hér.

Þegar ég las þessar fréttir kom upp í hugann að talað var um það fyrir nokrum misserum að fyrirtæki ætluðu að fara að flytja sig frá Íslandi yfir til Kanada, aðallega að mér skyldist vegna þess hve krónan væri sterk.

Skrýtið ekki satt?

 


Létt og ljúft

Það var óneitanlega ljúft að horfa á Ferrari sigra 1 -2 á Spa brautinni í morgun.  Þó að hressleikinn hafi ekki verið yfirþyrmandi tæplega átta í morgun, var það óneitanlega þess virði.

Kappaksturinn var eins og oftast í Spa, skemmtilegur á að horfa, þó að tilþrifin og spennan hafi oft verið meiri.  Yfirburðir Ferrari voru einfaldlega of miklir til að virkilega spenna væri í toppslagnum og Alonso hafði sömuleiðis afgerandi yfirburði gegn Hamilton, ef frá eru taldir fyrstu metrarnir, þegar Hamilton reyndi, en Alonso lét hann vita að að hann gæfi ekkert eftir.

Þetta hefur líkega verið "moment of truth" fyrir Hamilton.  En ég er sammála því að þetta hafi verið eðlilegur kappakstur og hefði líklega ekki vakið sérstaka athygli, hefði ekki verið um þá tvo að ræða.

En nú er aðeins þrjár keppnir eftir.  Það verður fróðlegt að fylgjast með þeirri næstu, í Japan, allir ökumenn ókunnugir brautinni og ekki að vita hverju er að búast við.

Að sjálfsögðu vonast maður eftir því að Ferrari haldi áfram sigurgöngunni, en það verður örugglega hörku keppni.

Vandamálið er auðvitað að fáir eða engir sénsar eru teknir, því miður er uppbyggingin á Formúlunni orðin þannig að það skiptir meira máli fyrir toppökumennina að koma í mark (í þokklegu sæti) heldur en að knýja fram sigur.  Í annari hverri keppni þarf svo að hlífa vélunum.


mbl.is Öruggur sigur hjá Räikkönen og yfirburðir Ferrari miklir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessað gengið

Stundum finnst mér umræðan hér í Kanada og á Íslandi með eindæmum keimlík.  Það er verið að ræða sömu hlutina og sömu vandamálin.

Eitt af því sem Ísland og Kanada eiga sameiginlegt er að gjaldmiðillinn hefur verið gríðarsterkur undanfarin misseri og það svo að mörgum hefur þótt nóg um.  Nokkur merki eru þó um að krónan sé að gefa eftir, en lítill bilbugur virðist vera á Kanadíska dollaranum.

Þannig hefur Kanadíski dollarinn hækkað um 14% gagnvart þeim Bandaríska það sem af er árinu og stendur nú í rétt rúmlega 97 centum. 

Það er hæsta gengi C$ í um 30 ár, og fjármálaspekingar spá því að þeir standi á sléttu eða því sem næst seinna á árinu eða snemma á því næsta.  Það væri í fyrsta sinn sem það gerðist síðan 1976.

Þetta er hvorki meira né minna en 56% hækkun frá því að C$ stóð sem lægst árið 2002, en þá fengust aðeins 62 Bandarísk sent fyrir einn Kanadískan.

Rétt eins og á Íslandi hefur þetta valdið mörgum útflutningsfyirtækjum (en Bandaríkin eru lang stærsti viðskiptaaðili Kanada) miklum erfiðleikum og mörg þeirra hafa hreinlega lagt upp laupana.  Yfir 100 verksmiðjur lokuðu fyrir fullt og allt á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs.

Ferðamannaiðnaðurinn býr sömuleiðis við samdrátt, enda hefur komum Bandarískra ferðamanna fækkað gríðarlega, nú þegar gengismunurinn er þeim óhagstæðari.  Ferðum Kanadabúa suður á bóginn hefur hins vegar fjölgað, verslunareigendum til armæðu.

Það er sömuleiðis það sama upp á teningnum þegar kemur að vöruverði, en innflytjendur jafnt sem smásalar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að gengishækkunin skili sér illa í lækkuðu vöruverði.  Þeir sem vel þekkja til á markaðnum segja að nú greiði Kanadamenn að meðaltali 10%hærra verð heldur en Bandaríkjamenn fyrir sömu vöru.

Það sem sem veldur þessari gríðarhækkun C$ er tiltrú manna á kanadísku efnahagslífi, sterk staða ríkissjóðs, hátt verð á hrávörumarkaði t.d. olíu, gulli og hveiti.  Eða eins og sagði í grein í Globe and Mail nýlega:  ""Aside from lumber, newsprint and Celine Dion, practically everything Canada produces is now in piping hot demand."".   Vantrú á Bandaríska hagkerfinu spilar svo líka sína rullu.

Það hljómar líklega sömuleiðis kunnuglega að þrýstingurinn á hagkerfið og "góðærið" er ekki jafnt yfir landið.  Þennslan er í Alberta og Ontario, en á mörgum öðrum svæðum er jafnvel samdráttur.  Enda eru fólksflutningar miklir og algengir hér.

En ég hef engan heyrt tala um að það þurfi að skipt um gjaldmiðil, eða að tengja C$ við þann Bandaríska.

P.S. Þessi færsla er að mestu leyti byggð á frétt Globe and Mail, sem finna má hér.


Hvar Davíð keypti....

Eins og kom fram í síðustu færslu þá missti ég því sem næst af öllum tímatökunum í morgun vegna anna við uppeldi ómegðarinnar á heimilinu.

Ég sá því ekki Raikkonen tryggja sér pólinn í morgun.  En þetta voru vissulega gleðifregnir, þegar ég loks hafði tíma til að skreppa á netið um 5 leytið. 

Það var líka tími til kominn að við næðum 1 - 2 á startlínu á árinu (þetta er í fyrsta sinn) og vonandi veit það á gott fyrir morgundaginn og Massa og Raikkonen sýni McLaren hvar "Davíð keypti upplýsingar".

En þetta verður án efa spennandi keppni, ekki bara á milli Ferrari og McLaren heldur einnig sömuleiðis á milli Alonso og Hamilton, því spennan og togstreitan er ekki minni þar.  Eftir því sem getgáturnar eru, þá eru McLaren bílarnir líklega með heldur meira bensín, þannig að þeir munu keyra lengur inn í keppnina, en spurningin hvort að Ferrari nær að byggja upp nægt forskot áður en til þjónustuhléa kemur.

Kubica hefði verið líklegur til að geta gert "stóru" liðunum skráveifu, en fyrst að skipta þurfti um vél er hann líklega úr sögunni, spurning hvað Heidfeld og Rosberg geta gert.

En þetta verður vonandi fínn morgun.


mbl.is Räikkönen býst við tvísýnni keppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikskóli

Nú fórum við feðgar í fyrsta skipti í leikskóla í morgun.  Þetta er nú ekki "alvöru" leikskóli, heldur aðeins rétt um 2 og hálfur tími, Eistneskur leikskóli sem er aðeins starfræktur á laugardögum.

Þetta gefur Foringjanum kærkomið tækifæri til að hitta fullt af öðrum krökkum og ekki er verra að Eistneska er "opinbera" tungumálið í leikskólanum þannig að hann fær góða þjálfun í málinu.

Ég vildi óska að það væri sambærilegur Íslenskur leikskóli sem ég gæti sent hann í sömuleiðis.

En Foringinn var eins og "fiskur í vatni", enginn vandamál á þeim bænum.  Þó að hann blandaði sér ekki í hópinn alveg strax og vildi frekar keyra bílana en að föndra með fóstrunum, þá kunni hann frá upphafi vel við sig og var sáttur þegar pabbi fór eftir ca. 20 mínútur.

Svo var hann sóttur ríflega 2 tímum seinna, sæll og glaður og farinn að hlakka til að fara aftur eftir viku.

Þetta þýddi svo auðvitað að ég missti hér um bil alveg af tímatökunum í morgun, en það er ekki ástæða til annars en að líta á björtu hliðarnar, leikskólinn er þó á laugardögum en ekki sunnudögum.


... og minni aura í vasann....

Það er auðvitað hárrétt hjá Bernie að það hefði verið gríðarlegt áfall fyrir Formúluna ef McLaren hefði verið dæmt í keppnisbann, eins og þeir hafa þó ef til vill átt skilið.

Þess vegna vil ég nú meina að þetta hafi verið hálfgerður "Salómon", eins og ég bloggaði um hér.

Fjárhagstjónið hefði orðið mun meira fyrir McLaren, áhorf hefði minkað og þar með líklega tekjur allra liðanna og auðvitað ekki síst Bernies, því sjónvarpsrétturinn hefði líklega sömuleiðis lækkað í verði.


mbl.is Ecclestone barðist fyrir því að McLaren fengi að keppa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband