Kosningar í nánd

Það eru kosningar í nánd hér í Ontario, það er að segja kosningar hér í "próvinsinu", en hér í Kanada eru 3 stjórnsýslustig. "Alríkið", "fylkið" og svo borgar eða sveitastjórnir. Núna eru sem sé "fylkiskosningar".   Gengið verður til kosninga þann 10 október næstkomandi.

Aðalflokkarnir eru rétt eins og á landsvísu þrír, þó ekki alveg þeir sömu. Frjálslyndi flokkurinn (Liberal Party), Nýji Lýðræðisflokkurinn (New Democratic Party) og Framsækni íhaldsflokkurinn (Progressive Conservatives), en þeir eru að kalla má "systurflokkur" Íhaldsflokksins sem býður fram á landsvísu. Yfirleitt hefur einn flokkur náð meirihluta, en það eru margir sem spá því að annað gæti orðið upp á teningnum nú og spá minnihlutastjórn. Baráttan á milli Frjálslyndra og Framsækinna íhaldsmanna er hörð, en það gæti þó farið svo að NDP sæti uppi með flest "trompin", ef svo fer að hvorugur næði meirihluta.

Þó að ég geti ekki sagt að ég hafi "sökkt mér" niður í þesar kosningar, ég hef enda ekki kosningarétt hér, þá hef ég reynt að fylgjast aðeins með, enda erfitt að fygljast ekki með stjórnmálum í sínu nánasta umhverfi og vissulega eru þetta mál sem snerta okkur hér að Bjórá, jafnt sem aðra íbúa Ontario.

Stóru málin í baráttunni svikin loforð Dalton´s McGuinty, núverandi fylkisstjóra, sérstaklega hvað varðar skattamál, en hann undirritaði við hátíðlega athöfn fyrir síðustu kosningar,  loforð um að hækka ekki skatta.  Það stóð hann ekki við.  Fleiri svikin loforð eru í umræðunni, en skattarnir eru lang fyrirferðarmestir.  Kanadabúar enda frekar skattpínd þjóð.

Annar gríðarlega umdeilt mál er loforð John Tory, leiðtoga PC um að fjármagna einkaskóla rekna af trúfélögum af almanna fé.  Það er líklega vægt til orða tekið að segja að skiptar skoðanir séu um það mál.  Margir halda fram þeirri skoðun að þetta auki á sundrungu í þjóðfélgaginu og hindri aðlögun í samfélaginu.  Aðrir benda á að kaþólskir skólar njóta akkúrat þessarar fyrirgreiðslu frá hinu opinbera og það sé ekki nema sanngjarnt að allir sitji við sama borð.

Svo heyrist það líka að kosningarnar snúist að miklu leyti um persónur, þar þykir John Tory koma sterkastur út, en Howard Hampton leiðtogi NDP þykir sömuleiðis hafa "karisma" og einlægni sem skili honum vel.

Þó að ég komi ekki til með að greiða atkvæði, vona ég að Framsæknu íhaldsmennirnir vinni, það veitir ekkert af breytingum hér í Ontario, lækka skatta, auka á frjálsræði og þar fram eftir götunum.

Eins og oft vill verða þá er kosningabaráttan ekki síður á neikvæðu nótunum en þeim jákvæðu og það er hér eins og víða annars staðar að drjúgur hluti baráttunnar er að færast inn á miðla eins og YouTube.

Hér að neðan má finna 3 af þeim myndböndum sem hafa vakið athygli mína í þessari baráttu.  2 þau fyrstu hamra á Dalton McGuinty, leiðtoga Frjálslyndra en það síðast gerir út á það að MAC (guinty) er að kljást við PC og stælir nokkuð Macintosh auglýsingarnar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband