Af fjármagnstekjuskatti, lífeyrisgreiðslum og skattalækkunum

Þeir sem hafa lesið þetta blogg reglulega vita að ég hef fjallað hér nokkuð oft um fjármagnstekjuskatt og jafnan varað við þeim hugmyndum að hækka hann til jafns við skatta á launatekjur.

Að vísu er rétt að taka það fram að mér væri í sjálfu sér ósárt um að þessir tveir skattar væru jafnháir, en þá einvörðungu ef tekjuskatturinn væri lækkaður niður í 10%.

Síðan sá ég þegar ég var að þvælast hér um blessað moggabloggið og leit á síðu Eyglóar Harðardóttur framsóknarkonu, að Morgunblaðið mun víst hafa verið að senda forsætisráðherra tóninn, og skamm hann fyrir tal um skattalækkanir og talar um að það eigi að skattleggja greiðslur úr lífeyrissjóðum með sama hætti og fjármagnstekjur.  Í það minnsta verðbótahlutann.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að framsóknarkonan og Morgunblaðið virðast vera sammála að þessu leiti.

Nú er að sjálfsögðu öllum frjálst að hafa þá skoðun að það beri að hygla þeim sem fá lífeyrisgreiðslur umfram aðra skattgreiðendur, en að segja að verðbætur á lífeyrisgreiðslur og verðbætur á hefðbundin sparnað, séu sambærilegar er auðvitað út í hött.

Hafi hlutirnir ekki breyst þeim mun meira frá því að ég flutti frá Íslandi, þá eru greiðslur í lífeyrissjóð ekki skattskyldar.  Skattgreiðslu á þeim er frestað uns byrjað er að greiða þær út. 

Sparnaður fólks er hins vegar almennt fé sem búið er að greiða skatt af.  Í því liggur munurinn.

Því má segja að þegar lífeyrisþegar greiða skatt af hvorutveggja höfuðstól og verðbótum, séu þeir að greiða skatt af sambærilegri upphæð og þeir drógu frá skattgreiðslu áður.

Það mætti hins vegar með skynsamlegri rökum halda því fram að ávöxtunin ætti aðeins að bera 10% skatt, þar sem þar er um fjármagnstekjur að ræða.  Hins vegar ber sömuleiðis að líta á það að ávöxtunin kemur af ósköttuðu fé.

Það sjá hins vegar flestir að ef ávöxtun á sparifé væri skattlögð sem launatekjur í dag, væri hvatinn til sparnaður enginn.

Ef 1 milljón er á sparisjóðsbók með 13% vöxtum, eru borgaðir út 130.000 í vexti í árslok.  Ef við reiknum með að verðbólgan sé 7% eru raunvextir 60.000.  Ef við reiknum svo með 37% skattlagningu á 130.000, heldi sparifjáreigandinn eftir 11.900.  Hið opinbera fengi 48.100 til sín.

Ég held að flestir geti verið sammála um að það er frekar ástæða til að hvetja til sparnaðar á Íslandi heldur en hitt.

En sem betur fer hafa Íslendingar (í það minnsta enn  sem komið er) lágan fjármagnstekjuskatt, en að sama skapi hafa tekjurnar af honum aukist með hverju árinu.

En ég hef áður sagt að það sé "ódýrt" að ráðast alltaf á hina "illu fjármagnseigendur" og tala um hækkun fjármagnstekjuskatts.  Það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart að slíkt tal komi frá vinstri mönnum og Framsóknarflokknum.  Það kemur mér í sjálfu sér ekkert sérstaklega á óvart, en þó finnst mér það til marks um almenna afturför að Morgunblaðið prediki slíka "eignaupptöku".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband