"Græningjar" í Samfylkingunni

Undanfarin misseri höfum við séð ýmsum nýjum hugtökum skjóta upp kollinum í stjórnmálunum.  Þekktust eru líklega "hægri-bleik" og "hægri-grænir".

Nýjasta hugtakið sem ég heyrði var svo "Samfó græningjar".  Þetta kemur í kjölfar þess að Samfylkingin birti nú nýverið stefnu sína í umhverfismálum, undir heitinu "Fagra Ísland" ef ég man rétt.

Það sem mesta athygli hefur vakið í plagginu er að stjóriðjuáformum skuli öllum skotið á frest, í það minnsta í 5 ár ef ég skyldi rétt.  Það vakti ekki minni athygli að margir frammámenn í Samfylkingunni virðast ekki vera á þeirri sömu skoðun.  Bæði á Suðurnesjum og á Húsavík virðast margur Samfylkingurinn vera á þeirri skoðun að stóriðja sé býsna heilladrjúg.

Margir velta því líka fyrir sér hver afstaða Samfylkingarinnar í Hafnarfirði sé?  Ætla þeir að setja stækkun álversins í Straumsvík á "ís"?  Ætla þeir að leyfa Hafnfirðingum að kjósa um málið?  Gætu þeir hugsað sér að kosið yrði um stækkun álversins í Straumsvík jafnhliða alþingiskosningunum í vor?

Mun Gunnar Svavarsson fara í prófkjör með það að baráttumáli að frekari stjóriðjuppbygging sé stöðvuð?  Mun Tryggvi Harðarson gera það? 

Munu Hafnfirðingar kjósa Þórunni Sveinbjarnardóttur í fyrsta sæti á lista Samfylkingar ef hún lýsir sig eindregið á móti áframhaldandi uppbyggingu í Straumsvík, en Þórunn var ef ég man rétt ein af fáum í þingflokki Samfylkingarinnar sem greiddi atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun.  Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu í þessu höfuðvígi Samfylkingarinnar.

Það verður líka fróðlegt að fylgjast með málflutningi Samfylkingarmanna í Suðurkjördæmi og Norð-Austur, en í báðum kjördæmunum eru margir sem vonast eftir uppbyggingu stjóriðju, bæði innan Samfylkingar sem annara flokka. 

Sjálfsagt hefur mörgum í Samfylkingunni þótt nóg um uppgang Vinstri grænna í skoðannakönnunum á undanförnum mánuðum og brýnt að koma með útspil á móti. 

Einhverjum gæti ennfremur þótt þetta  gott innlegg í að "stilla saman strengi" stjórnarandstöðunnar og styrkt líkurnar á vinstri stjórn, en ég veit ekki hversu gott er að halda á sömu "atkvæðamiðin" í þeim tilgangi, en hitt er ég nokkuð viss um að þetta sendir nokkuð af fylginu hægra megin í flokknum af stað í leit að nýju "heimili".

Eins og einn kunningi minn sagði í tölvupósti, það á líklega eftir að koma í ljós hvaða skilning ber að leggja í orðið "græningjar" hjá Samfylkingunni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband