Af réttindum og leynifangelsum

Ég er frekar gamaldags maður, að ég held, ég trúi á ákveðin grunnréttindi, fyrir alla.  Oft hef ég sagt við menn sem ég hef rætt við að frelsi þeirra endi þar sem nefið á mér byrjar og öfugt  (þetta orðatiltæki má víst rekja til bandaríkjamannsins John R. Ashton, en má finna víða í mismunandi útgáfum.).  Á síðustu árum hef ég reynt að passa að þessi "frasi" eigi enn við nefið á mér, en maginn taki ekki yfir sem helsta "merkissteinn" helgi minnar, en það er önnur saga.

Þó er mér og flestum öðrum það ljóst að þessi skilgreining er ekki rétt, og stenst raunar ekki í nútíma samfélagi.  Ýmis réttindi eru tekin af einstaklingum og það talið í þágu heildarinnar, og þó að við séum mis sátt við frelsiskerðingarinnar, þá taka flestir þann kost að beygja sig undir þær.  Þetta er einn af fylgifiskum lýðræðisins, meirihlutinn (eða stærsti hlutinn) kemur sínum mönnum til valda og stjórnar landinu.  Við beitum þeim réttindum okkar að vera á móti, tjáum okkur í ræðu og riti, en göngumst undir ákvarðanirnar og beitum ekki ofbeldi.  Vonumst til að vinna okkar hugmyndum fylgi og komast í meirihluta og beygja þannig minnihlutann undir okkar vilja.  Svona virkar þetta í stórum dráttum, þó vissulega sé hér um einföldun að ræða.

En undanfarin misseri hefur verið mikil umræða um svokölluð "leynifangelsi" Bandaríkjanna, fanga sem þeir halda i Guantanamo, réttindi þeirra og svo fram eftir götunum. 

Þó að ég ætli mér ekki það hlutverk að verja allt þetta "batterí" þá get ég ekki neitað því að ég hef velt þessum hlutum mikið fyrir mér og frá mismunandi sjónarhornum, því satt best að segja hefur mér finndist megnið af fjölmiðlaumfjölluninni vera frekar einlit.

Eitt af því sem ég velti fyrir mér, er hvernig eru þessir menn flokkaðir?  Hvaða "catógoriíu" tilheyra þeir?  Eru þeir:

A:  Stríðsfangar.  Stærstur hluti þeirra (ef ég hef skilið málið rétt) var handtekin í Afghanistan, þar sem Bandaríkin og bandamenn þeirra réðust gegn stjórn Talibana, til að ná til hryðjuverkahóps Al Quaida.  En eru þessir menn hermenn?  Fullnægðu þeir þeim skilyrðum sem alþjóðalög gera til hermanna?  Til dæmis um að þeir séu einkennisklæddir og skeri sig þannig frá almennum borgurum.

Nú hafa margir þeirra verið látnir lausir, en stríðinu í Afghanistan er ekki lokið.  Telst það ekki nokkuð sérstakt ef stríðsfangar eru látnir lausir áður en friður er komin á?

B. Hryðjuverkamenn.  Ef við skilgreinum þá sem eru í haldi sem hryðjuverkamenn, þá verðum við að reyna að skilgreina hvaða réttindi hafa hryðjuverkamenn?  Hafa þeir öll sömu réttindi og "almennir" glæpamenn?  Hafa þeir sömu réttindi og stríðsfangar?  Eða hafa þeir á einhvern hátt minni eða öðruvísi réttindi en þeir hópar?

C.  Eitthvað annað.  Er einhver önnur skilgreining sem hér væri betra að notast við?

Sjálfur hef ég hallast að lið B., að skilgreina þá sem hryðjuverkamenn.  Í framhaldi af því hef ég líka velt því fyrir mér hvort að réttlætanlegt sé að brjóta á hryðjuverkamönnum einhver þau réttindi sem við viljum að "venjulegir" einstaklingar hafi?

Ef við segjum að það sé ekki réttlætanlegt að skerða réttindi eins né neins, þá kemur upp spurningin um væntaleg fórnarlömb, að því gefnu að talið sé að samverkamenn viðkomandi hryðjuverkamanna gangi enn lausir.  Hver eru réttindi "væntanlegra fórnarlamba"?  Hvernig vega þau réttindi á móti réttindum "meintra hryðjuverkamanna"?

Sé "nefið" aftur tekið inn í umræðuna, þá má spyrja, hver er réttur þess sem hefur þegar gefið mér "á´ann" og undirbýr frekari árásir á mig og vini mína?  Hver er réttur minn og vina minna til varna? 

Eins og sjá má á þessari frétt mbl.is telja menn árangur af þessum "réttindabrotum" umtalsverðan.  Hvað ef þotunum og farþegum þeirra sem talið er að hafi átt að sprengja yfir Atlantshafinu, var bjargað með upplýsingum sem rekja má til "réttindabrota" á hryðjuverkamönnum.  Myndi það réttlæta "réttindabrotin"?

Fjöldi annarra hryðuverkaárása hefur verið afstýrt undanfarin misseri og má áætla að tugum ef ekki hundruðum einstaklinga hafi verið bjargað frá dauða eða alvarlegum meiðslum.  Ef sú björgun er að einhverju leyti að þakka upplýsingum sem aflað var með "réttindabrotum", réttlætir það að einhverju marki "réttindabrotin"?

Er réttlætanlegt að vega "réttindabrot" á hryðjuverkamönnum gegn hugsanlegri björgun mannslífa?

Ég held að það séu ekki til nein "rétt" svör til við þessum spurningum.  Það verður hver og einn sem áhuga á því hefur að gera þetta upp við sig og sína samvisku, það er ekki að efa að svörin verða misjöfn.  En það hafa allir gott af því að hugsa um þessi mál.  Ég vil að lokum vekja athygli á ágætis bloggi eftir Kristján G. Arngrímsson sem fjallar um sama mál, á  dýpri fræðilegri grunni en ég geri hér..

Að lokum vil ég segja að það hefur oft vakið undrun mína að fólk sem hefur talað fjálglega í mín eyru um nauðsyn þess að taka afbrotamenn engum vettlingatökum, sérstaklega fíkniefnasala og kynferðisbrotamenn (ekki það að ég sé að taka upp hanskann fyrir þessa einstaklinga), hafa jafnvel talað um nauðsyn þess að snúa við sönnunarbyrðinni fyrir þá síðarnefndu, hafa miklar áhyggjur af réttindastöðu fanga í "leynifangelsum" Bandaríkjastjórnar.  Þá velti ég því fyrir mér hvort að það sé nálægðin sem skipti máli.

 


mbl.is Hryðjuverkamennirnir 14 við góða heilsu segir yfirmaður Guantanamo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband