Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

Þarna sést það svart á hvítu..

Mikið hefur verið rætt um "útrásina" undanfarin misseri.  Oft hef ég heyrt menn tala eins og þetta skipti hinn almenna íslending litlu eða engu máli.  Þetta séu "auðmenn landsins" að "leika" sér í útlöndum og þetta skili sér ekki heim.

Þessi frétt af mbl.is, sýnir það hins vegar svart á hvítu, hvaða máli "útrásin" skiptir fyrir efnahag landsins, og mun skipta æ meira máli á komandi árum, þó að það skipti vissulega miklu hvernig til tekst með fjárfestingar.

Það hefði líklega ekki hljómað ýkja líklegt fyrir t.d. 20 árum síðan, árið 1986 ef einhver hefði sagt að því sem næst jafn stór hluti gjaldeyristekna íslendinga kæmi frá fjárfestingum erlendis og lánveitingum erlendis og af fiskveiðum, en svona hljóma samt tíðindin árið 2006.

Þetta sýnir auðvitað svart á hvítu hvað frelsi í viðskiptum og öflugt atvinnulíf skilar þjóðarbúinu, sömuleiðis að hagsmunir atvinnulífsins og almennings eiga oftar en ekki samleið. 


mbl.is Fjármagnstekjur um fjórðungur gjaldeyristekna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að lifa með "villidýrinu".

Það er ekki laust við að ég velti því fyrir mér hvort að við hjónin höfum breyst í "party animals"?

Myndi það ekki þýðast sem "samkvæmisljón" yfir á íslenskuna?  En "villidýrinu" í okkur er alla vegna brynnt vel þessa dagana.  Þó er þetta líklega ekki alfarið sanngjörn setning.  Líklega væri nær að segja að "villidýrinu" í mér væri brynnt vel þessa dagana. Konan er frekar hógvær, ef ekki alveg.

En að sjálfsögðu fögnuðum við 17. júní hér, annaðhvort væri það nú.  Ég held að ég muni aldrei aftur kvarta yfir rigningu á 17. júni.  33°C stiga hitinn hér, + rakinn, gerði það að verkum að "lífið" var frekar erfitt í dag.  Það kom þó ekki í veg fyrir að fólk skemmti sér hér.  Það var í því formi að maður var manns gaman, snæddur góður matur, og allir skemmtu sér dátt.  Börnin þó að sjálfsögðu best, rétt eins og 17. júní á að vera.  Foringinn lét ekki sitt eftir liggja og hljóp út um allar trissur í High Park, en þar héldum við upp á Þjóðhátíðardaginn.

Um kvöldið buðum við svo heim finnskum vinum okkar, sem eru staddir hér í Toronto, og það var "a whole other ballgame" eins og sagt er.  Grillaðar grísalundir og kjúlli, rautt og hvítt rann ljúflega um kverkar, "Creme Brule" etið og varanlega sér á koníaksbirgðum heimilisins.  Sem sé, gott kvöld.

Á morgun erum við svo bókuð í léttan hádegisverð, og svo eistneskt samkvæmi um 4. leitið.  Ef ég drykki ekki staðfastlega í það minnsta fjóra kaffibolla á dag, færi ég líklega að óttast um heilsuna.

En eins og sagt er, lífið er ljúft.

Við vonum að þetta hafi veri íslendingum öllum gleðileg þjóðhátíð, þó að það sé aldrei eins og best verður á kosið þegar hún ber upp á helgi.


Að leyfa sér að hætta.

Það hefur mikið verið rætt um "spunameistara" á Íslandi, undanfarin ár og misseri.  Sýnist sitt hverjum um ágæti þeirra, en fáir efast um áhrif þeirra þegar vel tekst til.  Hefur á köflum varla mátt sjá hvar stjórnmálamenn "enda" og "spunameistarar" taka við.  Sagan segir að mörgum "spunameisturum" sé orðið "við" einna tamast.

Ég fékk sendan nýlega í tölvupósti þennan brandara, frá góðum vini mínum sem verður líklega seint talist vilhallur Framsókn. 

Spurt er:  Hvers vegna gat Halldór Ásgríms fyrst leyft sér að hætta núna,  þó að honum hafi langað til þess lengi?

 

Svar:  Þetta er nú svo einfalt, Björn Ingi var búinn að finna sér aðra vinnu.


Hvað gerist seinnipartinn í ágúst?

31. ágúst verður orðið ljóst hver verður nýr formaður Framsóknarflokksins.  Sem gæti þá þurft að segja sig frá seðlabankastöðunni.

Nú, svo ef vínberin reynast súr, þá er hægt að halda áfram í Seðlabankanum, eða hvað?


mbl.is Ingimundur Friðriksson verður Seðlabankastjóri tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagurinn sem hluthafar töpuðu 500 000 000 000!

Þegar stór verkefni tefjast, geta afleiðingarnar verið stórar. Þegar ég las um seinkun þá sem verður á afhendingum á nýju Airbus risaþotunni og það sem eftir fylgdi á hlutabréfamörkuðum, varð ég þögull í smá stund og reiknaði í huganum.

Það er þegar ég les fréttir sem þessar að ég gleðst yfir því að hafa ekki stórar upphæðir bundnar í hlutabréfum (núna er eiginlega allt komið í fasteign fjölskyldunar, og því best að krossleggja fingurna að fasteignverð fari ekki lóðbeint niður).  Þegar fyrirtæki lækkar í verði um fjórðung, er ekki ólíklegt að "stress" herji á einhverja hluthafa og reyndar fleiri.  Ef fyrirtæki eins og Airbus "hóstar", verða býsna margir með "kvef" um alla Evrópu.

Verðmæti EADS minnkaði um u.þ.b. 500 milljarða íslenskra króna, hlutabréf í félaginu lækkuðu um 26%, á einum degi. Félagið á 80% í Airbus verksmiðjunum, en verksmiðjurnar tilkynntu í dag (miðvikudag) um 7 mánaða seinkun á afhendingu nýju risaþotunnar, A380, til viðbótar við 6 mánaða seinkun sem tilkynnt var um á síðasta ári.

Þetta hljómar ef til vill ekki svo skelfilega en þetta hefur víðtækar afleiðingar.  Ekki nóg með að Airbus telji að þetta minnki hagnað félagsins um u.þ.b. 200 milljarða á árabilinu 2007 til 2010, heldur er einnig reiknað með að flugfélög sem þegar hafa pantað flugvélina muni sækja skaðabætur á hendur Airbus.  Hvaða upphæðir þar er um að ræða er erfitt að fullyrða, en flugfélög og flugvellir um víða veröld hafa nú þegar lagt í gríðarlegar fjárfestingar til að þjóna nýju þotunni, undirbúið breikkun flugbrauta og nýja landganga. Heathrow hefur reiknað með að kostnaður þar verði ríflega 60 milljarðar íslenskra króna.

En það er ekki bara A380 sem verður á eftir áætlun, A350, ca 300 manna vél, er líka orðin á eftir áætlun.

Það kom svo eins og salt í sárið, og herti á sölunni,  að Singapore Airlines tilkynntu um áætlanir um að kaupa 20 Dreamliner þotur frá Boing (með kauprétti á 20 til viðbótar), og fram kom í fréttum að OAO Aeroflot væri einnig í Boing hugleiðingum.

Þetta er gríðarhögg fyrir Airbus, mikill álitshnekkir fyrir stjórnendur þar, og að margra áliti stórt áfall fyrir Evrópu og Evrópusambandið í heild.

Loks er vert að geta að samsæriskenningasmiðir telja sumir að um vísvitandi lækkun sé að ræða, þar sem BAE Systems, hafa viljað selja sín 20% í Airbus, en flestir telja slíkt nokkuð fráleitt.

Svo er auðvitað rétt að hafa í huga að ómögulegt er að segja um hvort þessi lækkun er komin til að vera eða ei.  En líklega þurfa hluthafar að hafa "sætisbeltin spennt" ef svo má að orði komast, það er líklega ókyrð framundan. 

Fréttir Globe and Mail, The Guardian, The ToL og NYT.


Nefndaskipan - jafnrétti - Seðlabankastjóri - Fjárlaganefnd

Það kom þá í ljós að sögusagnir í þá átt að skipti væru 50/50 á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eiga ekki við rök að styðjast.  Þetta sýnir enn og aftur að það á enginn að hafa stórar áhyggjur af sögusögnum, sem svo gjarn reynast ósannar.  Þarna á ég söks eins og margir aðrir.  En ég hef nú ekki haft tíma til að fara yfir þessar skipanir, en sýnist þetta líta ágætlega út.

Þá kemur að þeirri gagnrýni minnihlutaflokkanna um að stórlega sé hallað á konur, og meirihlutinn sé að færa borgina langt aftur í tímann með misskiptingu nefndarstarfa á milli kynjanna.

Ég verð að segja að ég hef ekki af þessu áhyggjur.

Eigandi þessa bloggs hefur heldur aldrei verið talinn hallur undir "femínisma", þó að sjálfur telji hann sig jafnréttissinnaðan, og hefur talið það til kosta sinna.  En það gerir það ekki að verkum að hann hafi stórar áhyggjur af því hver hlutur kynjanna, hvors um sig, er í stjórnum fyrirtækja, nefndum sveitarfélaga, eða þeirra sem stunda háskólanám.  Skrifarinn er einnig þeirrar skoðunar að karlmenn séu jafn færir og kvenmenn til barnauppeldis. En líklega þarf ekki að lesa mikið af þessu bloggi til að sjá að hér er "pólítískur rétttrúnaður" ekki ýkja hátt skrifaður.

En hvað skyldi valda þessu misvægi í nefndarskipanir?  Er þátttaka karla og kvenna jöfn í stjórnmálum?  Hvert skyldi hlutfall flokksbundinna kvenna vera af heildarmeðlimafjölda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks? Skyldu þeir sem eru virkir í flokksstarfi sjá marktækan mun á fjölda karla og kvenna sem eru virkir félagar?

Ég hef ekki þessar tölur, hvorki fyrir þessa flokka né aðra.  Hitt er svo ábyggilega rétt að stjórnmálaflokkum veitti ekki af frekari þátttöku kvenna, sem og almennings alls.

Nú svo geta þeir sem áhugasamir eru um jafnrétti og lýðræði, dundað sér við að geta sér til um hverju það hefði breytt, varðandi hlutfall kynjanna hjá meirihlutanum, ef fyrrverandi borgarfulltrúi R-listans, Anna Kristinsdóttir, hefði unað niðurstöðu lýðræðislegs prófkjörs Framsóknar, og verið í 2. sæti listans, í stað þess að rjúka burt. Það getur varla hafa verið í þágu lýðræðis eða jafnréttis, eða hvað?  Ekki man ég þó eftir að "jafnréttissinnar" hafi vakið á því mikla athygli.

Sumir hafa hvíslað í eyra mitt að þar hafi hún tekið hagsmuni fyrrum R-listaflokka (utan Framsóknar), framar hagsmunum Framsóknarflokksins, en það er önnur saga.

Sjálfsagt skorar þetta einhverja "punkta" innanflokks hjá minnihlutaflokkunum, en ég held að borgarbúar láti sér þetta í léttu rúmi liggja - og er það vel.

Því meira sem ég hugsa og heyri um seðlabankastjórastöðuna, þá liggur það "í augum úti", að Halldór getur varla ætlað sér stöðuna.  Enda þörf á þvi að styrkja innviði flokksins og jafnvel afla nýrra félaga.

Svo sá ég í fréttum að yfirgnæfandi líkur eru á því að Birkir Jón Jónsson, verði næsti formaður fjárlaganefndar, það getur ekki talist slæmur áfangi á framabrautinni fyrir þingmann sem verður 27. ára í næsta mánuði og er á sínu fyrsta kjörtímabili.

 


Hljómar vel

Það er hægt að taka undir það sem segir í frétt mbl.is, að þetta hljómar eins og vísindaskáldsaga, en áhugavert er það.

Vissulega vantar mikilvægar upplýsingar, svo sem hvað slík díselolía myndi hugsanlega kosta í samanburði við aðra díselolíu, hver stofnkostnaðurinn er o.s.frv. En það hljómar því sem næst og gott til að geta verið satt, að íslendingar geti fullnægt þörfum fiskiskipaflotans með framleiðslu díselolíu á Grundartanga.  Það er hins vegar ljóst að með síhækkandi orkuverði, koma "alternatívir" orkugjafar og framleiðsla æ sterkar inn í myndina.

Það er augljóst að maður þarf að "googla" sér meiri upplýsingar um þetta, þegar tími gefst til (ef einhver hefur ábendingar um síður, eru þær vel þegnar).

En í fyrstu atrennu, þá fann ég þetta haft eftir Klaus Lackner:  

" Overemphasis on conservation and “idyllic” energy sources is harmful as it hampers urgently needed economic development. Fossil fuels with carbon capture and disposal, nuclear energy including fusion and large scale solar energy must become central themes in developing a large and sustainable energy base"


mbl.is Hugmynd um olíuframleiðslu á Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mars express? - Hefjast hvalveiðar að nýju? - "Sexý rauðvínshaf" - Heilsudrykkir

Hinn kunni vísindamaður Stephen Hawking segir að jarðarbúar verði að fara að hyggja að nýjum heimkynnum.  Hann segir að Tunglið og Mars, séu fyrstu staðirnir sem við ættum að "nýlenduvæða", en jafnframt að við verðum að fara í önnur sólkerfi til að finna jafn góðan stað og Jörðina. Og hvenær?  Tunglið innan 20 ára og Mars innan 40.  Þetta mun hafa komið fram í fyrirlestri Hawking í Hong Kong í síðustu viku.

Þetta mátti lesa í frétt á vef Toronto Star í dag. Reyndar eru skiptar skoðanir á meðal vísindamanna á þessu, rétt eins og svo mörgu öðru.  Ekki sé ég sjálfan mig flytja búferlum, en auðvitað á aldrei að segja aldrei, eða hvað?

Ég hef nú áður minnst á það hér, að það þyki ekki "PC" að segjast hafa alist upp á hvalkjöti í æsku, ekki einu sinni hér í þessu selveiðilandi.  Ég er ennþá þeirrar skoðunar að rétt sé að veiða hvali, þó að vissulega þurfi að stíga varlega til jarðar í þeim efnum. 

En þær hvalategundir sem hafa sterkan stofn, er sjálfsagt að nýta.  Rakst á grein um Alþjóða hvalveiðiráðið á vefsíðu The London Times, það er ekki hægt að segja að hún sé jákvæð í garð hvalveiðiþjóða, sérstaklega liggur þeim þungt orðið til Japans, en greinin er ágætis dæmi um hvernig "alþjóða ráð" virka oft á tíðum, en greinina má finna hér.  En það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi fundur ráðsins fer, hvort að "hvalveiðiþjóðirnar" ná yfirhöndinni, eður ei.

Fyrir nokkru bloggaði ég um, eimingu á góðum rauðvínum frá Frakklandi og Ítalíu, þar var fjallað um þetta í hektólítrum, en í frétt The London Times, er þetta sett í flöskur: 

"The Commission’s announcement that it would spend €131 million to distil 430 million bottles of French wine and 371 million bottles of Italian wine into fuel was met with protests by French wine growers, who demanded that European taxpayers should buy 1.1 billion bottles of their produce."

"The European Commission will then spend €2.4 billion (£1.65 billion) digging up vineyards across the continent. "

"Such “crisis distillations” are becoming increasingly common, with the commission spending about €500 million last year turning wine into petrol, and viticulturists now producing wine knowing that it will never be drunk. Nearly a quarter of all Spanish wine now ends up being used for industrial purposes."

"Mariann Fischer Boel, the European Agriculture Commissioner, said: “Crisis distillation is becoming a depressingly regular feature. While it offers temporary assistance to producers, it does not deal with the core of the problem — that Europe is producing too much wine for which there is no market.” "

"Under the Common Agricultural Policy, the farmers will then be paid for not producing wine but for keeping up environmental standards on their land instead. Brussels, which for years paid people to set up vineyards, believes there are now too many small-scale wine-makers producing poor wine, and that the industry needs to consolidate. In France, there is one worker per hectare of vineyards; in Australia, one worker for every 50 hectares.

Previous attempts at reform have been blocked by the powerful French wine lobby, but the industry is probably now in such a crisis that it might accept change. "

Ég skal fúslega viðurkenna að það er mun meira "sexý" sitja uppi með "rauðvínsstöðuvatn", heldur en "lambakjöts og smjörfjöll", eins og við íslendingar eigum minningar um, en niðurstaðan er svipuð.  Skattgreiðendur borga.  Það er reyndar sláandi, að í báðum tilfellum var bændum fyrst borgað til að auka framleiðsluna, en síðan til að draga hana saman.

Landbúnaðarpólítík lætur aldrei að sér hæða.

Margir hafa án efa tekið eftir fréttum i dag, þar sem fram kemur að u.þ.b. 17 flöskur af öli, geti minnkað líkur á blöðruhálskrabbameini.  Það er óneitanlega einstök tilviljun að sama dag kemur fram frétt um að ef drukknir eru í það minnsts 4 bollar af kaffi á dag, dregur það úr líkum á að skorpulifur myndist um u.þ.b. 80%.  Ef litið er svo til eldri frétta um hollustu rauðvíns og hve mikið drykkja þess dregur úr líkum á hjartasjúkdómum, þykir mér einsýnt að ég verði mun eldri en reiknað hefur verið með hingað til.  Líklega mun ég verða allra karla elstur.

Nú bíð ég bara eftir góðum fregnum af koníaki og "rare" nautasteikum, og þá verður "kúrinn" fullkomnaður.


Stjórnmál eru list hins mögulega - Meirihlutar hér og þar

Það er býsna merkilegt að fylgjast með "spunanum" sem hefur verið í gangi nú undanfarnar vikur eftir sveitastjórnarskosningar og eftirfarandi meirihlutamyndanir og svo aftur eftir "hrókeringarnar" í ríkisstjórninni.

"Spuninn" snýst um að sannfæra íslendinga um að stjórnarflokkarnir séu hræddir.  Að þeir hafi myndað "hræðslubandalag".  Það er líka reynt að færa úrslit kosninganna í Reykjavík upp á landið allt og kalla Framsóknarflokkinn "6% prósentaflokk".   Einnig er talað um B-deildina innan Sjálfstæðisflokksins,  og blágræna flokkinn,  svo ég nefni nú nokkur dæmi. 

Því er svo haldið fram að Framsókn eigi að fá minna út úr skiptum embætta í ríkisstjórn, nú en árið 2003, þegar hún var mynduð. Sjálfstæðismenn hafi "lúffað" með því að láta af hendi 1. ráðherraembætti. Með "spunanum" er líka reynt að ýta undir áframhaldandi úlfúð í Framsóknarflokki og reyna að telja almenningi trú um að óánægja ríki á meðal "almennra" sjálfstæðismanna.

Það þarf ekki að hugsa djúpt til þess að sjá að þetta á við fá, ef nokkur rök að styðjast.  Vissulega eru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í samstarfi víða.  Það er alveg ljóst.  En það er nú einu sinni svo að til að samstarf komi til, þarf samstarfsvilja.  Þegar Samfylking og VG mana sífellt hvorn annan til þess að lýsa því yfir að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn komi ekki til greina, á stærsti flokkurinn víðast um landið, ekki völ á samstarfi við marga.

Það er líka þekkt staðreynd í pólítík að stjórnmálamenn velja gjarna frekar 2ja flokka meirihluta, heldur en veikari 3ja og 4ja flokka samstarf.

Það er t.d. mynstrið sem Samfylking valdi á Akureyri.  Þar starfa saman Samfylking og Sjálfstæðisflokkur.  Þetta munstur taldi Samfylking betra en 3ja flokka samstarf með VG og L lista.  Perónulega gæti ég ekki verið meira sammála.  7 manna meirihluti D og S, á ábyggilega eftir að reynast Akureyringum betur heldur en 6 manna meirihluti S, L og V hefði gert. 

Svipað varð upp á teningnum í Mosfellsbæ, þar kaus VG að starfa með Sjálfstæðiflokki, frekar en að starfa "til vinstri". En þetta er eini staðurinn á Íslandi öllu, þar sem VG er í meirihluta undir eigin merki.

Hvort að um var að ræða "hræðslubandalag" á þeim stöðum þar sem Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin buðu fram sameiginlega í síðustu kosningum, er síðan eitthvað sem forsvarsmenn þessara flokka verða að segja frá sjálfir. Er ekki slíkt samstarf í meirihlutasamstarfi í Bolungarvík?  Hljóp svo Samfylking ekki undir bagga með Framsóknarflokknum, eftir að B-listinn vann góðan sigur í Skagafirði.  Er ekki Samfylking og Framsóknarflokkurinn saman í meirihluta á Hornafirði?  Ef ég man rétt, féll fyrrum meirihluti Framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokks ekki á Hornafirði.  Framsóknarflokkurinn ákvað einfaldlega að skipta um meirihlutafélaga. 

Er ekki eina meirihlutasamstarfið sem Samfylking á í, og er ekki með Framsóknarflokki á Akureyri?

Leiddi ekki meirihlutamyndum Fjarðalistans og Framsóknarflokks til þess að Sjálfstæðisflokkurinn, sem vann þó ágætlega á, situr í minnihluta.

Það virkar sömuleiðis hjákátlega að halda því fram að einhver önnur valdahlutföll séu á milli stjórnarflokkana nú en var árið 2003.  Ríkisstjórnarmeirihlutinn er byggður á þingmannafjölda, sama þingmannafjölda nú og var árið 2003. 

Ríkisstjórnir eru ekki myndaðar eftir skoðanakönnunum, eða úrslitum í byggðakosningum. 

Því hefur ekkert breyst í þessum efnum síðan 2003.  Vissulega er staða Framsóknarflokks ekki jafn sterk í augnablikinu, en það kemur fyrst og fremst til af innri illindum og óvissu þeirri sem ríkir þar um forystu.

Það bæri vott um óheilindi, ef samstarfsflokkur nýtti það tækifæri til að heimta meira til sín heldur en upphaflegt samkomulag gerði ráð fyrir.

En það er merkilegt að horfa upp á Samfylkingarfólk ásaka sinn helsta samstarfsflokk á byggðastjórnarstiginu, um að hafa myndað hræðslubandalag með Sjálfstæðisflokki.

Hvort að það mun hvetja til frekara samstarfs læt ég lesendum þessa "rants" eftir að dæma um sjálfum.

Þó að Samfylking hafi yfir litlu að gleðjast hvað varðar kosningarnar, er henni hollara að leita að orsökunum annarsstaðar en hjá Framsóknarflokki.

P.S. Það er nú líklega rétt að setja smá "disclaimer" hérna.  Þessi "rantur" er ekki byggður á vísindalegri athugun á niðurstöðum byggðakosninganna og meirihlutamyndunum eftir þær.  "Ranturinn" er skrifaður mest megnis eftir minni, frekar "spontant".  Ef einhverjum staðreyndum er hallað eru leiðréttingar vel þegnar í athugasemdir hér að neðan.


Ný borgarstjórn - Til loka kjörtímabilsins.

Þá er komið að því, sjálfstæðismenn setjast aftur í meirihluta í borgarstjórn Reykjvavíkur, en í þetta og sinn með stuðningi Framsóknarflokks, en ekki hreinan meirihluta.

Það verður gaman að sjá hvernig raðast í nefndir og ráð.

En ég get ekki stillt mig, svona af því hvernig umræðan var um 3. borgarstjóra síðasta kjörtímabils og svo umræðan um uppstokkunina í ríkisstjórninni hefur verið, að minnast á að að í fréttinni af mbl.is, er það tekið fram að borgarstjóri verði kosinn til enda kjörtímabilsins.

P.S. Það er tilhlýðilegt að óska nýkjörnum borgarfulltrúum til hamingju með kjör sitt og ég vona að störf þeirra verði borgarbúum til farsældar.

 


mbl.is Borgarstjóri kosinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband