Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006
27.6.2006 | 03:46
Gulblátt hverfi
Það varð hreint allt vitlaust hér í hverfinu okkar í dag. Þegar við vorum á ferðinni stuttu fyrir 7 að staðartíma, hverfið var hreinlega á hvolfi, umterðarteppa og flautur þeyttar án afláts. Þarna voru á ferðinni hinir fjölmörgu ukrainumenn sem hér búa, heldur en ekki stoltir af sínum mönnum. Hverfið sem við búum í er nokkurs konar hjarta samfélags þeirra hér í Toronto. Hér er Ukrainski sparisjóðurinn, ukrainskir veitingastaðir og "deli" og ukrainskir barir. Hvert sumar er haldin ukrainsk götuhátíð, 2004 skemmti sjálf Ruslana hér við feykilegar undirtektir.
En þetta er feykilega góður árangur hjá ukrainumönnum, og eðlilegt að fólkið sé stolt. Það var fremur lágt á þeim risið eftir 4-0 ósigurinn gegn spánverjum, en hakan hefur liftst með hverjum leik síðan.
Annars held ég að stoltið sé ekki síst komið til af því að Ukraina skuli vera að keppa á meðal þeirra bestu, á meðan Rússland komst ekki til Þýskalands.
Annars er það helst í fréttum að við sóttum lyklana til lögfræðingsins okkar í dag, fórum og keyptum málningu á loftin, og fórum með litaspjöld um húsið. Svo skipti ég um læsingar, bara svona til að vera viss.
Úkraína áfram í vítakeppni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2006 | 19:38
Fête à Montréal - Verður er verkamaðurinn launanna
Þó að sigur Alonso í kanadíska kappakstrinum hafi aldrei verið í hættu, var kappaksturinn þrælskemmtilegur á að horfa. Það sást þó glitta í framúrakstur og keyrt var hratt og ákveðið. En það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast svo að Alonso og Renault hampi ekki titlunum tveimur.
Ég fann dálítið til með Villeneuve, hrikalega leiðinlegt að enda svona illa á heimavelli, eftir mjög góðan akstur, en dekkjakurlið lét ekki að sér hæða, enda lentu margir í vandræðum út af því. "Track recordið" hans Villeneuve er annars frekar dapurt á heimavelli þetta er í 5. sinn á síðastliðnum 6. árum sem hann líkur ekki keppni.
"Kurlið" náði líka Raikkonen, sem telst líklega seint með heppnari ökumönnum, og olli því að hann missti 2. sætið til Schumacher, sem var mér að sjálfsögðu að meinalausu, en samt ekki hægt annað en að finna aðeins til með honum.
Þá er það svo "Indy" eftir viku, ég hlakka til, en veit ekki hvernig mér tekst til að skipuleggja flutningana í kringum formúluna. En ef Alonso vinnur, eða verður í 2. sæti þar, held ég að titillinn sé endanlega hans. Ef einhver spenna á að koma í keppnina verður hann að falla úr leik, en það er ekki líklegt. Renaultbílinn hefur verið ákaflega áreiðanlegur.
Annars fórum við í morgun og týndum u.þ.b. 3. kíló af jarðarberjum, en þær birgðir hafa þegar látið verulega á sjá. En nýtýnd jarðarber eru sannkölluð kjarnafæða, og bragðast að sjálfsögðu enn betur týnd eigin hendi. En handvalinn jarðarber eru að sjálfsögðu best, engir grænir toppar, aðeins alrauð, safarík og bragðmikil ber enda í körfunni. Þannig sit ég og gæði mér á berjunum og veit að verður er verkamaðurinn launanna.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2006 | 03:08
Að búa til söguna
Ég má til með að vekja athygli á stórgóðu viðtali við nýútskrifaðan sagnfræðing sem birtist á vefsíðunni visir.is.
Sagnfræðingurinn er enginn annar en Ingólfur Margeirsson, sem flestir ættu líklega að kannast við, alla vegna þeir sem hafa fylgst með stjórnmálum og tengdum efnum undanfarin ár. Viðtalið er fróðlegt og fjallar að miklu leyti um lokaritgerð Ingólfs sem fjallar um meinta "sprengingu" ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, "í beinni", eins og margir eflaust minnast.
En vitnum smá í viðtalið:
" kjölfarið gerðist það að Þorsteinn missti fótanna innan Sjálfstæðisflokksins, Davíð bauð sig fram gegn honum og varð formaður. Þar með fékk flokkurinn alveg nýja ásýnd. Því má segja að fall Þorsteins hafi rutt Davíð braut og frjálshyggjunni sem honum fylgdi. Davíð myndaði síðar stjórn með Alþýðuflokknum árið 1991. En eftir kosningarnar 1995 voru Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur bara með einn mann í þingmeirihluta. Davíð þorði því ekki að halda áfram meirihutasamstarfi með þeim eftir kosningarnar 1995 og sneri sér til Framsóknarflokks. Það stjórnarform er enn í gangi. Vinstri flokkarnir fóru í stjórnarandstöðu og tóku að endurskilgreina sig sem svo leiddi til myndunar Samfylkingarinnar. Ég tel að Samfylkingin hafi orðið til vegna áhrifa þess að Þorsteinn hætti sem formaður Sjálfstæðisflokksins og Jón Baldvin leiðir einnig líkum að því í viðtali sem ég tók við hann vegna ritgerðarinnar."
Ingólfur tók viðtöl við helstu þátttakendur í atburðarásinni í ritgerðinni.
Þeir eru Steingrímur Hermannsson, þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi fjármálaráðherra, spyrlarnir tveir í sjónvarpsþættinum sem voru Helgi Pétursson og Ólafur E. Friðriksson og svo Þorsteinn Pálsson, sem var ekki í sjónvarpsþættinum."
""Það sem ég spurði sjálfan mig var hvort ríkisstjórnin hafi í raun sprungið í þessari beinu útsendingu og ég rek bæði rök með og á móti í ritgerðinni. Ég komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði ekki sprungið í útsendingunni heldur var hún þegar sprungin, og viðmælendur mínir taka undir það. Stjórnarslitin má rekja til þess að allt var búið að vera í upplausn hjá ríkisstjórninni og menn gátu ekki komið sér saman um efnahagsaðgerðir."
"Í viðtali Ingólfs við Jón kemur fram að hann hafi fengið tillögurnar afhentar sem trúnaðarmál og hafi viljað tíma til að fara yfir þær ásamt sínu fólki. Jón segist hafa gert ráð fyrir að hafa sólarhring til þess áður en Þorsteinn myndi leggja þær fyrir ríkisráðsfund. En þegar hann hafi heyrt fjallað um tillögurnar í útvarpsfréttum um kvöldið gerði hann ráð fyrir að Þorsteinn hefði lekið þeim í fjölmiðla og afréð því að mæta í sjónvarpsþáttinn með Steingrími til að skýra sína hlið. Síðan kemur í ljós að þessi leki kom frá Alþýðuflokknum að sögn Ingólfs. "Ég tók viðtal við Ólaf, sem var annar spyrla í þættinum, vegna ritgerðarinnar og hann segist hafa fengið tillögurnar frá Alþýðuflokksmönnum sem stóðu nærri Jóni Baldvin. Þetta er alveg nýr punktur í umræðuna þar sem þetta fríar Þorstein af þeim ásökunum að hafa lekið tillögunum í fjölmiðla. En eftir stendur ásökunin um að Þorsteinn hafi komið með þá tillögu um að fella matarskattinn til að skapa sér vinsældir.""
"Það voru stórar yfirlýsingar í sjónvarpsviðtalinu á sínum tíma og fjölmiðlamenn eru svo spenntir fyrir fjölmiðlum að þeir taka þetta náttúrulega upp að ríkisstjórnin hafi sprungið í beinni. Þetta verður svo að goðsögn sem allir þekkja. Að mínu mati er þetta einn af örfáum viðburðum sem standa upp úr í íslenskri fjölmiðlasögu sem goðsögn sem hefur haft gríðarleg áhrif. Þess vegna langaði mig að kanna hvort þessi túlkun fjölmiðla hefði verið byggð á misskilningi. Þannig er þetta ritgerð um hvernig nýir miðlar geta skekkt söguna.""
Viðtalið í heild sinni má svo finna hér.
Viðtalið er gott og vil ég hvetja alla til að lesa það, en sjálfur myndi ég gleðjast ef hægt væri að finna sjálfa lokaritgerð Ingólfs einhvers staðar á netinu og myndi þiggja með þökkum upplýsingar þar að lútandi, ef svo er.
24.6.2006 | 21:35
Allt að gerast - jarðarberjatíminn - Grand Prix du Canada
Við erum önnum kafinn þessa dagana, líklega verður ekki mikið um blog á næstunni. Fórum til lögfræðingsins okkar í morgun, með mest alla okkar peninga í einni ávísun. Fórum yfir öll smáatriði hvað varðar kaup okkar á "Bjóránni". Það er í ýmis horn að líta, lögfræðingurinn búinn að prenta út "bakgrunn" seljanda og okkar. Kanna eignarhald og veðbönd á fasteigninni o.s.frv. Skrifuðum undir skjöl hægri vinstri, allt í þríriti. Síðan getum við líklega sótt lylana til lögfræðingsins seinnipart á mánudaginn.
Á mánudaginn þurfum við að ganga frá kaupum á rafmagni, gasi, vatni, og gera eitthvað í síma og sjónvarpsmálum.
Á þriðjudag verður síðan hafist handa við að mála, en flutningar verða vonandi um næstu helgi, ef illa tekst til þá þarnæstu. Það styttist því í að "Bjórárbloggið" komi raunverulega frá "Bjórá".
En þetta er skemmtilegur tími, nú eru jarðarberin í blóma hér, og verða næstu vikur. Hægt að kaupa (eins og ég gerði í gær) jarðarber fyrir lítið fé. Stefnan fyrir fyrramálið hefur reyndar verið mörkuð, eldsnemma af stað og út í sveit, heimsækja þar bóndabæ sem leyfir lúnum borgarbúum að týna eigin jarðarber gegn vægu gjaldi (reyndar varla hægt að segja að það sé ódýrara en að kaupa þau út í búð, en það er skemmtilegt að velja sín ber sjálfur og týna bara það sem lítur best út). Líklega verð ég þó einn í tínslunni þetta árið, verð að vona að konan og foringinn éti þau ekki öll jafnóðum á hliðarlínunni. En að ganga inn í jarðarberjailminn sem liggur yfir svæðinu er unaðsleg upplifun, og að setja heitt sólbakað jarðarber í munninn stórkostlegt.
Stefnan er svo að vera komin heim fyrir kappaksturinn, en ég missti af tímatökunni í dag út af lögfræðistússinu. "Skósmiðurinn" er nú ekki alveg að gera sig í 5. sætinu, en það verður að vona það besta. Ég verð eingöngu fyrir framan sjónvarpið þetta árið, tók mig þó skratti vel út í stúkunni í fyrra, en það verður ekki á allt kosið.
Alonso datt úr keppni í fyrra, einhvern veginn hef ég ekki trú á því að það gerist í ár, þó að það kæmi sér vel fyrir minn mann, en Alonso er langsigurstranglegastur í ár, en Raikkonen og Schumacher gætu komið á óvart.
23.6.2006 | 04:03
Hiti í Miami - Enn eru fyrirhuguð hryðjuverk
Enn koma fréttir af fyrirhuguðum hryðjuverkum, nú eru 7 meintir hryðjuverkamenn handteknir í Miami. Sagðir hafa ætlað að ráðast að Sears turninum í Chicago.
En sem betur fer virðist löggæslan hafa náð að stoppa þetta áður en nokkuð gerðist og samkvæmt fréttum halda handtökurnar áfram. Það virðist því ekki ætla að verða nokkuð hlé að ráðagerðum um hryðjuverk. Þeir handteknu eru að meirihluta bandaríkjamenn, en jafnfram múslimir ef marka má fréttir. Fréttir segja jafnfram að hættan hafi ekki verið "bráð", ef svo má að orði komast. Sömuleiðis kemur fram að um hafi verið að ræða "sting operation", en sumar fréttirnar segja að FBI maður hafi "komið fram " sem útsendari frá Al Queda.
Það kemur fram í fréttum að fyrirhuguð eru stór hátíðarhöld í Miami til að fagna sigri Miami Heat í NBA deildinni, en fyrirhuguð hryðjuverk virðast þó ekki hafa tengst þeim.
Hér má sjá fréttir Globe and Mail, CNN, BBC og Miami Herald.
22.6.2006 | 20:22
Góður "díll"
Mér sýnist þetta innlegg ríkisins í kjarasamninga vera hið besta mál.
Hækkun skattleysismarka hækkar ráðstöfunartekjur hjá öllum um jafna krónutölu, og verðtrygging á þau er sanngjörn, ekki kemur fram við hvaða vísitölu er miðað, en eðlilegast væri líklega að miðað við vísitölu framfærslu. Þetta er góð búbót fyrir hina lægri launuðu og kemur sér án efa vel.
Vonandi verður þó ákveðið að halda áfram með skattalækkanir þær sem boðaðar voru um áramót, þó eðlilegt sé að þær verði eitthvað lægri en áður hafði verið ætlað.
Það er mikill misskilningur að lækkun skatta sé svo mikill þennsluhvati, eyðsla á peningum er jafn mikill eða lítill þennsluhvati, hvort sem hún fer fram hjá hinu opinbera eða einstaklingum.
Að hækka aldursmörk barnabóta getur ekki talist óeðlileg breyting (þar sem lögum samkvæmt eru einstaklingar börn lengur en áður), en er þó ekki eitthvað sem ég tel æskilegt. En auðvitað felst í samningum að farinn er ákveðinn millivegur og menn ná samkomulagi.
Það verður líka að teljast fagnaðarefni að útlit sé fyrir áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði á Íslandi, það er það sem skiptir mestu máli, og skapar auðlegð og velferð fyrir íslendinga.
Það sem ætti svo að koma í kjölfarið á þessum samningum, er tilkynning frá ríkinu og gjarna sveitarfélögum líka, um að unnið sé hörðum höndum að því að minnka útgjöld hins opinbera, ýmsum framkvæmdum verði slegið á frest, og umsvif þessara aðila minnkuð langvarandi. Ég býst reyndar ekki við því, en skrifa ef til vill meira um það síðar.
Því miður er líklega of seint að hætta við Héðinsfjarðargöng.
P.S. Ég gleymdi alveg að minnast á "vaxtabætur". Það er líklega rétt að hlaupa undir bagga, þegar markaðsástæður breytast jafn hratt og hefur gerst undanfarin ár. En auðvitað ætti að draga úr þeim á einhverju fyrirfram ákveðnu árabili, þangað til þær falla niður. Það er auðvitað ekki rétt að ríkið umbuni þeim sem skulda, sé með öðrum orðum að hvetja til lántöku hjá almenningi.
Samkomulagi náð um kjarasamninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2006 | 19:46
Gamalkunnur hrollur
Það var ekki laust við að um mig færi hrollur þegar ég las þessa frétt. Ekki það að vín eða vínrækt, eða lestur um vín gefi mér yfirleitt hroll, nema þá þann sem flokkast undir ánægju. En þegar ég les um fyrirætlanir hins opinbera (sama hvar það er) um að skipuleggja landbúnaðarframleiðslu fæ ég alltaf hálfgerðan hroll.
Mér er það alfarið óskiljanlegt hvernig það getur komið til að á svo stórum hluta jarðar þá séu bændur og stjórnmálamenn þeirrar skoðunar að landbúnaðarafurðir eigi ekki lúta markaðslögmálum.
Það er auðvitað hið besta mál að "taka til" í vínrækt, en það á auðvitað að vera verk bændanna sjálfra en ekki hins opinbera.
Auðvitað kemur svo "menning" í spilið og bændurnir ekki ánægðir með það sem framkvæma á, líklega vilja þeir halda áfram sem áður, með þeim formerkjum að senda reikninginn fyrir starf sitt til skattborgaranna.
ESB leggur til róttæka uppstokkun á vínrækt í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2006 | 19:37
Á " bráfsinu"..... Frakkland - Ung kona sem vill bjarga því frá sjálfu sér - og opinberum starfsmönnum. Að elska að hata Ronald McDonald
Ég rekst oft á athygliverða hluti þegar ég flakka um vefinn, það gera líklega flestir. Ég hef nú um all langan tíma fylgst þannig með frönskum stjórnmálum úr fjarlægð. Það er ekki einfalt að setja sig inn í málin þar, en þó virðast þó oft vera sama vitleysan, sama flækjan, og sama fólkið og þega ég bjó þar fyrir u.þ.b. 8 árum, en það er þó vissulega nokkur einföldun.
En það hefur ekki mikið farið fyrir frjálslyndum hægrimönnum í Frakklandi, alla vegna ekki svo að ég hafi eftir tekið. Frönsk stjórnmál hafa gjarna verið í skrýtnum skotgröfum, "ríkissinnaðir" "hægrimenn" eins og Chirac verið við völd, vinstri menn sem ennþá eru hallir undir kommúnisma, og svo öfgamenn eins og LePen, sem nýtur svo mikils fylgis að undrum sætir. Í blönduna bætast svo verkalýðsfélög sem hafa nokkurt kverkatak á þjóðinni, auk þess sem nokkur hluti almennings og bænda virðist reiðubúinn til að storma um göturnar af minnst tilefni.
Ég hefur glatt mig að fylgjast örlítið, annað slagið með ungri konu og flokki sem ætla að reyna að breyta þessu aðeins, en Sabine Herold hefur vakið vaxandi athygli undanfarin ár. Henni hefur verið bæði Jóhönnu af Örk og Margareti Thatcher. Hún hefur verið óhrædd við að ráðast að verkalýðsfélögunum sem hún telur eitt allra stærsta mein Frakklands í dag.
Greinar um Sabine má finna hér, hér, hér, hér og hér
En hér er síða fyrir flokkinn Alternative Liberale
Það verður fróðlegt að fylgjast með Sabine og Alternative Liberale á næstu árum, hvort að þeim takist að gera sig gildandi í frönskum stjórnmálum, Frakklandi veitti ekki af svolítilli tilbreytingu.
En fyrst búið er að minnast á frakka og mótmæli, kemur McDonalds ósjálfrátt upp í hugann, enda McDonaldsstaðir nokkuð vinsælir hjá Frökkum til að skeyta skapi sínu á. Það er þó nokkurs konar ástar/haturs samband á milli frakka og Ronalds, eins og lesa má í þessari grein í NYT.
20.6.2006 | 21:59
Heimsendir er alltaf handan við hornið - er olían á þrotum?
Þau eru býsna mörg vandræðin sem hafa sótt svo að mannkyninu í gegnum tíðina. Mörg hver hafa jafnvel verið talin "óumflýjanleg, af færustu vísindamönnum" svo notuð sé orð sem álík þeim sem oft heyrast.
Margir muna eflaust eftir "mannfjöldasprengingunni" svokölluðu, þar sem mannfjöldi yrði skjótt allt of mikill til að jörðin gæti borið hann. Á áttunda áratugnum var þó nokkuð mikið fjallað um að kuldakast væri óumflýjanlegt á jörðinni, líklega skylli á ísöld. Flestir kannast svo við 2000 vandann, yfirvofandi hlýnun jarðar, og svo það sem hefur verið ofarlega í umræðunni undanfarin misseri, að jarðarbúar séu í þann veginn að klára alla olíu sem til er, það er að segja innan nokkurra áratuga.
Þessi vandamál eiga það sameiginlegt að það er nokkuð vonlaust fyrir "bol" eins og mig að að mynda mér sjálfstæða skoðun á þessum málum. Gagnaaðgangur okkar "bolanna" er frekar takmarkaður og við höfum hvorki tíma né fé til að þeytast heimshornanna á milli til að skoða aðstæður, né höfum við peninga til að kaupa dýr mælitæki.
Því verðum við "bolirnir" að treysta á aðra, við verðum að treysta því að þeir upplýsi okkur um ástandið og reynum svo eftir besta megni að móta okkar eigin skoðanir út frá því. Stundum er það þó ískyggilega nærri því að við veljum okkur einhvern til að "halda með", því þegar svo misvísandi skoðanir koma fram, erum við "bolirnir" í raun ekki þeim vanda vaxnir að meta hver hefur rétt fyrir sér.
Ég hef þó leyft mér að hafa þá skoðun að (byggða þó á upplýsingum frá öðrum, en ekki eigin athugunum) að olíuskorturinn sé orðum aukin. Til sé mun meiri olía á jörðinni en "heimsendaspámennirnir" vilji vera láta. Mín skoðun sé sú, að það sé spurning um betri tækni, við leit og olíuvinnslu sem sé það sem skipti máli, olíu sé víða að finna.
Það sýnir sig að nokkru marki í olíusöndunum hér í Kanada, vinnslan þar er að stóraukast með bættri tækni, auk þess sem hátt olíuverð hefur gert hana mun áhugaverðari en áður var. Olíusandar munu víst líka vera gríðarmiklir í Venezuvela. Það mátti sömuleiðis sjá afar áhugaverða frétt á vef BBC fyrir nokkrum dögum.
Þarna er verið að tala um gríðarlegt magn af olíu, en tæknin til að vinna hana á hagkvæman máta er ekki til staðar - enn.
Hitt er þó líklegt að olíuverð eigi eftir að haldast hátt um fyrirsjáanlega framtíð, þó að vonir standi til að það lækki eitthvað, fer það ábyggilega ekki í fyrra horf.
Það er líka ljóst að þó að olíubirgðir jarðar séu meiri en margir vilja telja, er engin ástæða til að slá slöku við að hagnýta aðra og vistvænni orkugjafa.
En það er heldur engin ástæða til að mála í sífellu skrattann á vegginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.6.2006 kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2006 | 20:06
Vinyllinn í laserspilara
Margir hafa ábyggilega heyrt einhvern tjá sig um hvað gömlu vinyl plöturnar hafa fram yfir geisladiskana. Vinur minn vakti athygli mína á því að nú er hægt að sameina þetta tvennt, fá geislaspilara fyrir gömlu vinylplöturnar mínar. Hljómgæðin eiga víst að vera ótrúleg.
Það sem helst mun líklega koma í veg fyrir að ég fjárfesti í þessum gæðagrip á næstunni, mun víst vera verðið, en það byrjar víst í kringum milljón íslenskar krónur, og færist svo upp.
En þeir sem vilja sjá gripinn á netinu geta það hér. Svo er spurning hvort að ég nái einhvern tíma að heyra í slíkum undragrip.