Stjórnmál eru list hins mögulega - Meirihlutar hér og þar

Það er býsna merkilegt að fylgjast með "spunanum" sem hefur verið í gangi nú undanfarnar vikur eftir sveitastjórnarskosningar og eftirfarandi meirihlutamyndanir og svo aftur eftir "hrókeringarnar" í ríkisstjórninni.

"Spuninn" snýst um að sannfæra íslendinga um að stjórnarflokkarnir séu hræddir.  Að þeir hafi myndað "hræðslubandalag".  Það er líka reynt að færa úrslit kosninganna í Reykjavík upp á landið allt og kalla Framsóknarflokkinn "6% prósentaflokk".   Einnig er talað um B-deildina innan Sjálfstæðisflokksins,  og blágræna flokkinn,  svo ég nefni nú nokkur dæmi. 

Því er svo haldið fram að Framsókn eigi að fá minna út úr skiptum embætta í ríkisstjórn, nú en árið 2003, þegar hún var mynduð. Sjálfstæðismenn hafi "lúffað" með því að láta af hendi 1. ráðherraembætti. Með "spunanum" er líka reynt að ýta undir áframhaldandi úlfúð í Framsóknarflokki og reyna að telja almenningi trú um að óánægja ríki á meðal "almennra" sjálfstæðismanna.

Það þarf ekki að hugsa djúpt til þess að sjá að þetta á við fá, ef nokkur rök að styðjast.  Vissulega eru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í samstarfi víða.  Það er alveg ljóst.  En það er nú einu sinni svo að til að samstarf komi til, þarf samstarfsvilja.  Þegar Samfylking og VG mana sífellt hvorn annan til þess að lýsa því yfir að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn komi ekki til greina, á stærsti flokkurinn víðast um landið, ekki völ á samstarfi við marga.

Það er líka þekkt staðreynd í pólítík að stjórnmálamenn velja gjarna frekar 2ja flokka meirihluta, heldur en veikari 3ja og 4ja flokka samstarf.

Það er t.d. mynstrið sem Samfylking valdi á Akureyri.  Þar starfa saman Samfylking og Sjálfstæðisflokkur.  Þetta munstur taldi Samfylking betra en 3ja flokka samstarf með VG og L lista.  Perónulega gæti ég ekki verið meira sammála.  7 manna meirihluti D og S, á ábyggilega eftir að reynast Akureyringum betur heldur en 6 manna meirihluti S, L og V hefði gert. 

Svipað varð upp á teningnum í Mosfellsbæ, þar kaus VG að starfa með Sjálfstæðiflokki, frekar en að starfa "til vinstri". En þetta er eini staðurinn á Íslandi öllu, þar sem VG er í meirihluta undir eigin merki.

Hvort að um var að ræða "hræðslubandalag" á þeim stöðum þar sem Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin buðu fram sameiginlega í síðustu kosningum, er síðan eitthvað sem forsvarsmenn þessara flokka verða að segja frá sjálfir. Er ekki slíkt samstarf í meirihlutasamstarfi í Bolungarvík?  Hljóp svo Samfylking ekki undir bagga með Framsóknarflokknum, eftir að B-listinn vann góðan sigur í Skagafirði.  Er ekki Samfylking og Framsóknarflokkurinn saman í meirihluta á Hornafirði?  Ef ég man rétt, féll fyrrum meirihluti Framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokks ekki á Hornafirði.  Framsóknarflokkurinn ákvað einfaldlega að skipta um meirihlutafélaga. 

Er ekki eina meirihlutasamstarfið sem Samfylking á í, og er ekki með Framsóknarflokki á Akureyri?

Leiddi ekki meirihlutamyndum Fjarðalistans og Framsóknarflokks til þess að Sjálfstæðisflokkurinn, sem vann þó ágætlega á, situr í minnihluta.

Það virkar sömuleiðis hjákátlega að halda því fram að einhver önnur valdahlutföll séu á milli stjórnarflokkana nú en var árið 2003.  Ríkisstjórnarmeirihlutinn er byggður á þingmannafjölda, sama þingmannafjölda nú og var árið 2003. 

Ríkisstjórnir eru ekki myndaðar eftir skoðanakönnunum, eða úrslitum í byggðakosningum. 

Því hefur ekkert breyst í þessum efnum síðan 2003.  Vissulega er staða Framsóknarflokks ekki jafn sterk í augnablikinu, en það kemur fyrst og fremst til af innri illindum og óvissu þeirri sem ríkir þar um forystu.

Það bæri vott um óheilindi, ef samstarfsflokkur nýtti það tækifæri til að heimta meira til sín heldur en upphaflegt samkomulag gerði ráð fyrir.

En það er merkilegt að horfa upp á Samfylkingarfólk ásaka sinn helsta samstarfsflokk á byggðastjórnarstiginu, um að hafa myndað hræðslubandalag með Sjálfstæðisflokki.

Hvort að það mun hvetja til frekara samstarfs læt ég lesendum þessa "rants" eftir að dæma um sjálfum.

Þó að Samfylking hafi yfir litlu að gleðjast hvað varðar kosningarnar, er henni hollara að leita að orsökunum annarsstaðar en hjá Framsóknarflokki.

P.S. Það er nú líklega rétt að setja smá "disclaimer" hérna.  Þessi "rantur" er ekki byggður á vísindalegri athugun á niðurstöðum byggðakosninganna og meirihlutamyndunum eftir þær.  "Ranturinn" er skrifaður mest megnis eftir minni, frekar "spontant".  Ef einhverjum staðreyndum er hallað eru leiðréttingar vel þegnar í athugasemdir hér að neðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband