Færsluflokkur: Heilbrigðismál
29.2.2020 | 23:31
Lífið er lotterí
Það er engin spurning að "kórónavírusinn frá Wuhan" er að setja mark sitt á heimsbyggðina, bæði beint og óbeint.
Bæði er það svo að all margir veikjast, en ekki síður hitt að miklu fleiri verða hræddir og enginn veit með vissu hvað er að gerast.
Það er enda svo að "Wuhan vírusinn" virðist hegða sér með mjög mismunandi hætti eftir landsvæðum.
Þannig er t.d. rétt rúmlega mánuður síðan að vírusinn nam land í Kanada, sem kom fáum á óvart, enda mikill fjöldi Kanadabúa af Kínverskum uppruna og samgangur á milli landanna verulegur.
En síðan hefur lítið gerst í Kanada. Staðfest tilfelli sýkingar af völdum vírusins eru 20, ef ég man rétt og hefur lítið fjölgað. Þar af eru að ég held 11 í Ontario. En enn sem komið er hefur enginn smitast í Kanada, heldur hafa sjúklingarnir allir verið nýlega komnir frá áhættusvæðum.
Engin "masshistería" hefur orðið í Kanada.
Við feðgarnir skelltum okkur á bílasýninguna í Toronto um síðustu helgi, þar var fjölmenni og ekki grímu að sjá á nokkrum manni.
Íþróttaliðin hér um slóðir standa sig vel og ekki veit ég til að nokkrum atburðum hafi verið frestað, né heldur að miðaverðið í "eftirsölu" t.d. á "Leafs" leiki hafi lækkað um svo mikið sem dollar.
"Toronto Maple Leafs" eru reyndar að hefja leik eftir tæpan klukkutíma, þegar þetta er skrifað, og það verður ábyggilega fyrir fullri höll, enda leikurinn á móti "Vancouver Canucks", og verður sjálfsagt lítið gefið eftir, hvort sem er á svellinu eða í stúkunni.
Air Canada hefur vissulega aflýst öllu flugi til Kína, enda vafasamt að margir hafi hug á því að ferðast þangað þessa dagana, en það eru engar "risa sóttkvíar", eða það að bannað hafi verið að safnast saman.
Börnin fara á hverjum degi í skólann, lestirnar ganga (það hafa þó sumstaðar verið vandræði með lestirnar, en það er af öðrum örsökum), flugvélarnar fljúga (nema til Kína), "leikfimistöðvar" eru fullar af fólki og þannig má halda áfram.
Lífið heldur áfram.
En Kanadabúar gengu í gegnum ákveðna lexíu árið 2003, þegar SARS veiran breiddist út og yfir 400 smituðust og 44 létust.
Læknir sem ég kannast við sagði mér fyrir all mörgum árum að enginn einn atburður hefði kennt fleiri Kanadabúum að þvo sér reglulega um hendurnar.
En þó að daglegt líf haldi áfram þýðir það ekki að enginn hafi áhyggjur, eða að heilbrigðisyfirvöld hafi ekki gert víðtækar ráðstafanir.
Birtar hafa verið tilkynningar um að farþegar með tilteknum flugvélum og strætisvögnum, séu beðnir um að hafa samband við viðkomandi yfirvöld.
Auðvitað mega Íslendingar sjálfsagt vera ánægðir með hvað lítill hluti þeirra notar almenningssamgöngur, enda mun minni smithætta í einkabílnum :-), en staðreyndin er sú að eins og oft áður, getur hræðslan verið skeinuhættari en það sem við erum hrædd við.
"Stór sóttkví", myndi líklega gera lítið annað en að tryggja fleiri smittilfelli, rétt eins og gerðist um borð í skemmtiferðaskipinu, heitir það ekki "Diamond Princess".
En "lokun" landsins myndi auðvitað tryggja að efnahagslegar afleiðingar vírussins yrðu eins miklar og mögulegt er, en nóg verður líklega samt.
Hitt er svo að ef alþingismenn vilja flytja völd frá Sóttvarnarlækni og til alþingis, til að bregðast við farsóttum sem þessari, þá leggja þeir auðvitað fram lagafrumvarp þess efnis, því þeirra er jú löggjafarvaldið.
En ég hvet alla til að halda áfram með sitt daglega líf, hugsa vel um handþvott og hreinlæti.
Þeir sem vilja forðast mannfagnaði og söfnuði gera það, en aðrir njóta samvista við annað fólk.
Ef til vill mætti fresta fundum Alþingis, það gæti róað einhverja sem þar sitja og þeir gætu einangrað sig, þar sem þeim þykir best.
3.2.2020 | 12:45
Kínverskir "Stakhanovar" bretta upp ermarnar. En það er ástæða til að óttast að upplýsingar sé ekki sem skyldi
Það er ekki annað hægt en að dást að þessari uppbyggingu í Kína. Sannarlega "Stakhanovísk" vinnubrögð og sýnir vel hvað Kínverjar taka málið alvarlega, eftir umdeilanleg viðbrögð í upphafi.
En viðbrögð Kínverskra yfirvalda voru hæg í upphafi og viðeigandi ráðstafanir drógust á langinn.
En þegar ég lít á kortið sem John Hopkins sjúkrahúsið heldur úti, er það eitt sem vekur athygli mína öðru fremur.
Vírusinn virðist breiðast nokkuð hratt og sjúkdómstilfelli hafa fundist víða, nema að enn sem komið er hefur ekkert tilfelli verið tilkynnt í Afríku eða S-Ameríku.
Samt er vitað að í það minnsta kosti 1. milljón (líklega fleiri) Kínverja eru að störfum í Afríkuríkjum og talað um í það minnsta 200.000 Afríkubúa við nám eða störf í Kína.
Kína er nú talið stærsti einstaki viðskiptaaðili við Afríku.
En þar er ekkert tilfelli vírusins kominn fram.
Er það merkileg tilviljun að útbreiðslan er með þessum hætti eða er líklegra að heilbrigðiskerfin séu ekki með þeim hætti að veiran komi á "radar" þeirra?
Skyldi búnaður til að greina veiruna vera til víða í Afríku? Það er rétt að hafa í huga að það eru einungis fáir dagar síðan Íslendingar urðu þess megnugir.
Tókst að byggja sjúkrahús á 8 dögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2020 | 15:22
"Heimasíða kórónuveirunnar", í "rauntíma".
Það er fátt meira rætt þessa dagana en "kórónuveiran" og útbreiðsla hennar. Vangaveltur um hvert stefni, hvort hún verði að heimsfaraldri og hversu hættuleg hún sé - eða ekki.
Líklega er mikilvægast að allir haldi ró sinni.
Verst væri ef allir þeir sem kenna smá krankleika nú á kvef og flensutímabilinu flykkjast á neyðarmóttökur um víða veröld og hitta þar fyrir á biðstofunni, þá sem raunverulega hafa veikst.
Það er hætt við því, víða um heim, að samkomur og mannfagnaðir muni eiga erfitt uppdráttar á næstu vikum.
En eins og tíðkast á þeim tæknitímum sem við búum á, hefur verið sett upp heimasíða sem sýnir útbreiðslu hennar í rauntíma, eða eins og upplýsingar koma væri ef til vill rétt að segja.
Það er John Hopkins sjúkrahúsið í Bandaríkjunum sem hefur komið henni á fót og má finna hana hér.
106 dánir og yfir 4.500 smitaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2019 | 15:48
Skepna sem veldur ævilöngu ofnæmi fyrir kjöti
Þetta hljómar eins og vísindaskáldsaga, þar sem "vegan" vísindamenn ákveða að taka til sinna ráða og kenna mannkyninu lexíu.
Þeir búa til lítið skordýr, sem bítur einstaklinga og sýgur úr þeim blóð, og veldur um leið æfilöngu ofnæmi fyrir kjöti og mjólkurafurðum.
En skordýrið er til og er ekki "vísindaafurð", né skáldsaga.
Það hefur lengi verið þekkt í Bandaríkjunum og Mexíkó, en er nú komið til Kanada.
Það virðist þó ekki hafa neikvæð áhrif á át á fuglakjöti og fiski, þannig að snefill af matarhamingju er skilin eftir.
En ef þetta er ekki góð ástæða til þess að halda sig á "malbikinu", er hún ekki til.
20.3.2019 | 18:09
Hamingjusamir Finnar og sundlaugarpartýi
Finnskur kunningi minn sendi mér tölvupóst í morgunn þar sem hann sagði að þó að Finnar yrðu líklega seint taldir brosmildasta þjóð í heimi, þá væru þeir nú sú hamingjusamasta.
Hann taldi að það gæti ekki verið nema ein skýring á þessari hamingju, það væru sundlaugarpartýin þeirra og svo saunan.
Finnar hamingjusamastir þjóða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.1.2019 | 13:41
Undarleg stefna í heilbrigðismálum
Eins og kemur fram í viðhengdri frétt, nota æ fleiri Íslendingar rétt sinn til að notfæra sér heilbrigðisþjónustu erlendis.
Þetta er fylgifiskur hins Evrópska efnahagssvæðis og líkleg einn af þeim kostum þess samnings sem margir kunna að meta.
Heilbrigðisþjónusta er skilgreind svipuð og önnur þjónusta og sjálfsagt sé að sækja hana, eins og aðra þjónustu, yfir landamæri.
En ef hægt er að sækja þjónustu yfir landamæri, ætti þá ekki að vera hægt að sækja hana innan landamæra?
Eins og er virðast Íslensk stjórnvöld ekki vera þeirrar skoðunar.
Þeim virðist þykja sjálfsagt að Íslendingar geti sótt heilbrigðisþjónustu út til Evrópulanda (ef biðtími á Íslandi fer yfir ákveðin mörk), en þykir fráleitt að Íslendingar geti sótt sömu þjónustuna hjá einkareknum aðilum á Íslandi.
Einkarekin heilbrigðisþjónusta í Svíþjóð, Tékklandi eða Amsterdam er valkostur fyrir Íslendinga, en einkarekin þjónusta á Íslandi er fráleitur kostur að mati stjórnvalda.
Að sækja þjónustuna erlendis er þó mikið meira rask fyrir sjúklinga og oftast nær fylgir því meiri kostnaður (gjarna óbeinn).
En einhverra hluta vegna virðist einhver "hugsjón" standa í vegi fyrir einkarekinni heilbrigðisþjónustu, jafnvel þó að hún kosti þegar upp er staðið hið opinbera lægri fjárhæð.
Það virðist sem svo að sú tilhugsuna að einhver innanlands kunni að hafa hagnast á aðgerðinni sé svo ógeðfelld að það sé miklu æskilegra að einhver "erlendis" hafi hagnast á sömu aðgerð.
Er ekki eitthvað að slíkri hugsun eða "hugsjón"?
Sprenging í læknismeðferð erlendis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt 15.1.2019 kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.10.2017 | 18:18
Allt í hund og kött á kaffihúsum Íslendinga?
Ég las það á vef Vísis að nú hafi Umhverfisráðherra Íslendinga ákveðið að leyfa veitingahúsaeigendum náðarsamlegast að ákveða það sjálfir hvort að gæludýr séu leyfð á stöðum þeirra eður ei.
Þó að ég verði að viðurkenna að mér þykir það orka tvímælis að ráðherra í starfsstjórn og án að segja má nokkurrar umræðu (og engin umræða á þingi?) ákveði slíkar breytingar, þá fagna ég þeim.
Ekki það að ég eigi hund eða kött, heldur hitt að sú staðreynd að ákvörðunin skuli færð til eigenda veitingahúsanna hugnast mér afar vel.
Sjálfur fer ég af og til með börnunum mínum á kaffihús þar sem u.þ.b. tugur katta leikur lausum hala. Þau kunna vel nálegðinni við kisurnar og mér sýnist allir fara ánægðir þaðan á brott.
En það er spurning hvort að ekki sé rétt að leyfa eigendum veitingahúsa að ákveða fleira sem varðar rekstur þeirra og hvað sé leyft og hvað ekki í húsakynnum þeirra.
Er til dæmis ekki rétt að leyfa veitingahúsaeigendum að ákveða hvort að sé reykt í húsakynnum þeirra, nú eða veipað?
Sjálfur reyki ég ekki og hef ekki gert í u.þ.b. 15 ár, en ég get vel unnt reykingamönnum að hafa einhver kaffihús eða veitingastaði þar sem slíkt væri leyft.
Reykingamenn og "veiparar" eru vissulega ekki jafn krúttlegir og hundar og kettir, en ef við lítum fram hjá því, er ekki rétt að ákvörðunin sé þeirra sem standa í rekstrinum, þ.e. veitingamannana?
P.S. Vill einhver reyna að ímynda sér fjaðrafokið sem hefði orðið ef einhver ráðherra hefði nú talið sig geta leyft veitingahúsaeigendum að ákveða hvort gestir þeirra mættu reykja eða ekki, svona "þrjár mínútur" í kosningar?
Heilbrigðismál | Breytt 27.10.2017 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2017 | 10:23
Einstaklingssalerni eina lausnin?
Það er í sjálfu sér ekki þörf á flóknum aðgerðum til þess að allir geti verið sáttir og gert þarfir sínar óáreittir.
En það kostar örlítið meira pláss og þó nokkuð meiri fjárútlát.
Lausnin er einfaldlega að byggja einstaklingssalerni.
Þannig er málum t.d. háttað í skóla dóttur minnar og hefur verið í áratugi ef ég hef skilið rétt.
Vissulega er ekki hægt að leysa málin á þann hátt "yfir nótt", en ætti að vera sjálfsagt að marka stefnuna þangað.
Þeir sem vilja vera í friði fyrir hinu eða hinum kynjunum hljóta einnig að eiga sín réttindi, eða hvað?
Kynlaus klósett í Háskólanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2017 | 12:51
Svona eins og gerist í "samanburðarlöndunum"?
Það hefur oft verið rætt um hvort að auka ætti einkarekstur í íslenska heilbrigðiskerfinu, nú síðast hvort að leyfa ætti sjúkrarúm í einkaeigu þar sem sjúklingar gætu legið nokkra daga.
Í viðhengdri frétt má lesa um einkafyrirtæki í Svíþjóð sem hefur u.þ.b. 25% markaðshlutdeild í hryggskurðaðgerðum í Svíþjóð.
Í Stokkhólmi er fyrirtækð með tæplega 30 sjúkrarúm, 4. skurðstofur.
Stærsti eigandi fyrirtækisins er skráður í kauphöllina í Stokkhólmi, hann á rétt rúmlega 90% af fyrirtækinu. Ef ég hef skilið rétt dreifast hinir eignarhlutirnar aðallega á starfsfólk, en ég þori ekki að fullyrða um það hér.
Skyldi starfsemin vera ógn við sænska velferð eða lýðheilsu sænsku þjóðarinnar?
Ætli ríkisstjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð hafi það á stefnuskránni að færa þetta allt aftur undir sænska ríkið?
Ég held ekki.
Ef vilji er til þess að gera íslenska heilbrigðiskerfið líkara því sem gerist í nágrannalöndunum, eða "samanburðarlöndunum", er rými til að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, líklega all verulega.
P.S. Stuttu eftir að ég hafði póstað þessari færslu, rakst ég á stutta frétt frá Svíþjóð sem sýnir að vandamálin sem við er að eiga í heilbrigðiskerfinu eru ekki svo ósvipuð á Íslandi og í Svíþjóð.
Með 25% hryggskurðaðgerða í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2017 | 14:40
Sjúklinga frekar til Amsterdam heldur en í Ármúlann?
Umræða um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu fer oft út á undarlegar brautir á Íslandi. Í raun ætti þetta að vera nokkuð sjálfsagt mál.
Það ætti auðvitað ekki að eiga að vera nokkuð sem alþingismenn hafa áhyggjur af, eða eyða kröftum sínum í. Af nógu öðru er að taka sem þeir gætu notað starfskrafta sína til betrumbóta.
Auðvitað ætti það að vera í höndum Landlæknis en ekki ráðherra að ákveða hvort að sjúkrahús taki til starfa á Íslandi eður ei. Hvað þá að opnun slíks ætti að þurfa að kalla á umræður á Alþingi, eða í nefndum þess.
Nú þegar hafa hefur Alþingi samþykkt að Íslendingum sé heimilt að sækja sér heilbrigðisþjónustu víða um Evrópu. Hið opinbera greiðir fyrir slíka þjónustu til jafns og kostnaður við hana væri á Íslandi. Kostnað umfram það greiða sjúklingar sjálfir.
Allt er það enda samkvæmt tilhögun innan Evrópska efnahagsvæðisins, samkvæmt lögum og reglugerðurm frá Evrópusambandinu.
Hví ætti það að vera erfiðara fyrir Íslendinga að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Ármúlann en það er í Amsterdam?
Nú þegar sækja Færeyingar sér þjónustu í Ármúlann, hví skyldu Íslendingar ekki gera það sömuleiðis?
Sjúkratryggingar ættu að gera samning við Klíníkina á nákvæmlega sama grunni og gildir um heilbrigðisþjónustu á EEA/EES svæðinu, þar sem sjúklingur fær endurgreitt miðað við kostnaðargrunn á Íslandi.
Eftir allt saman þá er Ísland á því svæði.
Það væri óneitanlega nokkuð sérstakt ef heilbrigðisráðherra frá "Sambandssinnaflokknum" Bjartri framtíð, færi að neita Íslendingum um þann rétt innanlands, sem þeira njóta á EEA/EES svæðinu.
Bíða eftir svari ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)