Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Hið dreifða vald

Eftir ábendingu fór ég og horfði á Kastljósið frá mánudegi.  Þar var rætt við Ólaf Þ. Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor um hvernig Kórónuveiran gæti haft áhrif á stjórnmálin, bæði innlend og erlend.

Spjallið var ágætlega fróðlegt, þó að Ólafur tæki rækilega fram að of snemmt væri að segja til um nokkuð hvernig myndi spilast úr málum.

Það er að mínu mati hárrétt og oft hálf vandræðalegt hvernig fjölmiðlafólk reynir að ýta viðmælendum sínum til að tala eins og framtíðin sé eiginlega ákveðin og hægt sé að segja hvernig hún komi til með að verða.

Við bestu aðstæður má segja að það sé næsta vonlaust verk, hvað þá undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja.

En besti punkturinn í þáttinum fannst mér þegar talið barst að því hvað valdið lægi víða í Bandaríkjunum.

Því mér finnst oft nokkuð augljóst að margir gera sér littla grein fyrir því hvernig valdið dreifist í ríkjum s.s. Bandaríkjunum og einnig t.d. Kanada.

Forseti Bandaríkjanna er vissulega valdamikill, en hin 50. ríki Bandaríkjanna passa þó svo sannarlega upp á sinn hluta valdsins, enda er landlægur ótti, réttlátur eða ímyndaður, við valda ásókn alrikisins víða um Bandaríkin.

Heilbrigðismál eru t.d. mál ríkjanna, þó að alríkið leggi vissulega til fé. Reyndar eru hlutfall fjármagns sem opinberir aðilar leggja í heilbrigðisþjónustu mun hærra en margir gera sér grein fyrir, eða u.þ.b. 40% af heildareyðslu.  En hún er það há per íbúa að líklega eyða opinberir aðilar littlu minna fé, ef nokkru, á íbúa en önnur ríki.

"Another way to examine spending trends is to look at what share of the economy is devoted to health. In 1970, the U.S. devoted 6.9% of its gross domestic product to total health spending (both through public and private funds). By 2018, the amount spent on healthcare had increased to 17.7% of GDP. Health spending as a share of the economy often increases during economic downturns and remains relatively stable during expansionary periods. From 2017 to 2018, the share of GDP attributable to health spending decreased slightly from 17.9% to 17.7% as the general economy outpaced health spending."

"Most of the recent health spending growth is in insurance programs, both private and public. Private insurance expenditures now represent 34% of total health spending (up from 21% in 1970), and public insurance (which includes Medicare, Medicaid, CHIP, and the Veterans Administration and Department of Defense), represented 41% of overall health spending in 2018 (up from 22% in 1970). Although out-of-pocket costs per capita have also been rising, compared to previous decades, they now make up a smaller share of total health expenditures."

Fengið héðan.

Og ríki Bandaríkjanna ráða hvernig "greiðsluformið" hvað varðar heilbrigðisþjónustuna er. Þannig gerði t.d. Vermont (heimaríki Bernie Sanders) tilraun með ríkisrekið heilbrigðiskerfi á síðasta áratug, en gafst upp.

Vald ríkjanna má líka sjá dæmi um nú nýlega þegar DJ Trump kastaði fram hugmynd um að loka landmærunum að New York, New Jersey og Connecticut.

Ríkisstjóri New York, Cuomo, aftók það með öllu og sagði að það jafngilti stríðsyfirlýsingu af hálfu alríkisstjórnarinnar.

Ekkert varð af lokuninni og ekki ætla ég að dæma um hvor hefur rétt fyrir sér, en mörg ríki í Evrópu virðast þeirrar skoðunar að það virki.

Það sama gildir um Quebec, sem hefur takmarkað (en ekki stoppað) ferðir á milli Quebec og Ontario.

Án þess að ég vilji fullyrða um málið, held ég að yfirvöld í Ontario hafi ekki verið látin vita af lokunum.

Eitt af minni sveitarfélögum í Ontario hefur svo ákveðið að loka fyrir vatn í sumarbústaði að sinni. Þar kæra menn sig ekkert um að "city slickers" komi og beri með sér veiruna frá borgunum.

Í Kanada stjórna fylkin (eða héruðin) sömuleiðis heilbrigðismálum.  Ríkið leggur hins vegar til mikið peningum.  En í Ontario er megnið greitt af ríkinu (líklega um 70% af heildar heilbrigðiskostnaði), en spítalar og læknastofur eru allar í einkaeigu.  Oft í eigu félaga sem eru ekki rekin í ágóðaskyni, en vilja að sjálfsögðu hafa rekstrarafgang til uppbyggingar.

Það má líka nefna að sveitarfélög reka sínar lögreglusveitir.  Það gera fylkin og ríkin einnig.  Síðan eru RCMP og FBI.

Ég efast ekki um að þegar Kórónuvírusinn verðu yfirgenginn mun hefjast umræða um að efla þurfi völd alríkjanna.

Þannig verði hægt að bregðast skjótar og öflugar við.

En ég hef enga trú á því að núverandi fyrirkomulagi verði breytt.

Vantraustið gagnvart alríkinu, bæði í Bandaríkjunum og Kanada er það ríkt.

P.S. Það er skiptar skoðanir um það hvort að ríki Bandaríkjanna geti lokað landamærum sínum, nú eða hvort forsetinn geti það.

Alríkið ræður hins vegar yfir ytri landamærum og getur þannig lokað flugvöllum og svo landamærunum að Mexíkó og Kanada.

Hér hefur aðeins verið stikklað á stóru, en valdskiptingin er fróðlegt fyrirbæri sem er vel þess virði að skoða.


Forsætisráðherra Ontario birtir spálíkan fyrir útbreiðslu og tímalengd kórónuveirunnar.

Forsætisráðherra Ontario, mannflesta fylkis (eða hérað) Kanada birti spálíkan hvað varðar Kórónuveiruna á blaðamannafundi í gær.

Það er óhætt að segja að rétt eins og annars staðar í heiminum er slíkt líkan enginn skemmtilestur.

Í stuttu máli gerir spáin ráð fyrir því að á milli 3.000 to 15.000 einstaklingar í Ontario deyi í faraldrinum.

Enn fremur er því spáð að faraldurinn geti varað í 18 til 24 mánuði.

Forsætisráðherrann, Doug Ford hefur fengið lof fyrir framgöngu sína hvað varðar baráttuna gegn Kórónuveirunni, hann hefur verið duglegur við að miðla upplýsingum.

Ontario er fyrsta fylki Kanada sem birtir slíkt spálíkan, ríkisstjórn Kanada hefur ekki gert slíkt, en kallað hefur verið eftir því.

Ríkisstjórnin hefur einmitt verið gagnrýnd fyrir frekar slælega upplýsingagjöf, en hún hefur þó lofað að birta slíka spá "á næstu dögum".

Ríkisstjórnin hefur einnig verið sökuð um að reyna að notfæra sér neyðarástandið og reyna að aftengja þingið, eins og með tillögu um að rikisstjórn yrði heimilt að hækka skatta, án samþykkis þingsins, út árið 2021.

Það er víða sem reynt er að aftengja lýðræðið að hluta undir þessum kringumstæðum.

En á blaðamannafundinum í Ontario voru einnig Matthew Anderson, yfirmaður "Ontario Health", Adalsteinn Brown rektor  "public health" deildar Toronto háskólans (hér vantar mig gott orð yfir "public health"). og Dr Peter Donnelly, yfirmaður "Public Health Ontario".

PDF skjal sem útskýrir spálíkanið betur má finna hér.

 

Þeir sem vilja horfa a lengra myndband af fréttamannafundinum geta gert það hér.

 

 

 

 


 P.S.  Nafn eins og Adalsteinn Brown vakti að sjálfsögðu athygli Íslendingsins í mér.  Ég þekki ekkert til hans, en mér þykir líklegt að hann sé einn af fjölmörgum Kanadabúum af Íslenskum uppruna.  Ekki síst vegna þess að örlítil hjálp frá Hr. Google, leiddi í ljós að hann er oft kallaður "Steini".

 


Kínverskur kattarþvottur

Það gengur margt þessa dagana "kórónutímar" kalla á breytingar og munu án efa hafa áhrif um víða veröld.

En það er líka áróðursstríð háð á sama tíma.

Pólítíkin hverfur aldrei alveg.

Hjálpargögn eru send, slúðri og falsfréttum er dreift.

Það má lesa að veiran hafi átt uppruna sinn í í Kína, sem er lang líklegast, en Kínverjar reyna að dreifa því á hún hafi átt uppruna sinn á Ítalíu eða hafi verið búin til af Bandaríkjamönnum. 

Síðan koma matarvenjur Kínverja til sögunnar og frekar "grótesk" matarmarkaðir þeirra.

Síðan kemur tilkyning um að borg í Kína hafi bannað hunda og kattaát.

Persónulega gæti mér ekki verið meira sama.

Vissulega finnst mér skrýtið að éta hunda, nú eða kettlinga, en í mínum huga er það ekki vandamálið.

Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaða dýr það eru sem eru étin.

Hundar eru étnir hér og þar og t.d. í Sviss, þykja kettlingar skemmtilegur jólamatur.

Ekki það sem ég myndi kjósa, en það er ekki það sem skiptir máli.

Sjálfur hef ég oft borðað hrossakjöt og geri mér grein fyrir því að mörgum þykir það ekki rétt.  Það sama gildir um hvalkjöt sem mér þykir herramannsmatur.

En þó að ég hafi ekkert á móti því að Kínverjar banni katta og hundaát, þá er það annað sem mér þykir mikilvægara að þeir taki föstum tökum.

Hreinlæti.

Hreinlæti á útimörkuðum og almennt.

Það gildir reyndar ekki eingöngu um Kína, en þar væri svo sannarlega tækifæri fyrir þá að ganga á undan með góðu fordæmi og herða reglur.

Það er mun mikilvægara að góðar hreinlætisreglur ríki t.d. um slátrun á fiðurfé, sem og öðrum dýrum, en hvort að hundar, kettir, rottur eða hvað annað sé étið.

Hreinlætið er lykilatriði.

Það ætti að vera forgangsatriði fyrir Kínverja, en hefur ekki verið og verður líklega ekki í bráð.

Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég hef sniðgengið öll matvæli sem líklegt er að hafi haft viðkomu í Kína í mörg ár.

Þeim er einfaldlega ekki treystandi.

Sjálfsagt hef ég neytt einhvers sem rekja má til Kína óafvitandi, en ég hef reynt að sneyða hjá slíku eftir fremsta megni.

 

 


mbl.is Banna át á hundum og köttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífshættulegur leiðangur - eða fór ég bara út í búð?

Ég fór út í búð i morgun. Margfaldaði reyndar áhættuna því ég fór í tvær búðir, fyllti bílinn af bensíni (fór inn og borgaði) og lagði leið mína í hraðbanka (fjórða staðsetningin)í sömu ferð.

Var þetta lífshættulegur leiðangur, eða nokkuð hefðbundin verslunarferð á föstudegi?

Á þessum síðustu og "verstu", þá fara hugsanir á flug ef maður gætir sín ekki.

Hugsið bara um hvað oft þið hafið notað hugtakið "síðustu og verstu", án þess að það væri á nokkurn hátt verðskuldað.

En vikuleg verslunarferð slagar hátt upp í það að vera hápunktur þeirra sömu viku hjá mér sem er einn í samgöngubanni.

En samt læðist alltaf að þessi hugsun, að það þurfi að fara varlega þó að það sé gaman að sjá annað fólk, þó að það sé bara starfsfólki í matvörubúð eða aðrir einstaklingar í matarinnkaupum.

En þessi verslunarferð var ánægjuleg.

Ekkert bólar á vöruskorti hér í Eistlandi.  Allir viðskiptavinirnir ganga rólega um búðina, þó að einstaka kunni ekki mannasiði (frekar en áður) og rekist út í annað fólk.

Hér mátti sjá góð tilboð á ýsmum vörum.

Mér kom til dæmis á óvart að sjá tilboð á makkarónum og pastaskrúfum.  En það freistaði mín ekki.

Gott tilboð á grísalundum gerði það hins vegar.  Það er gott á grillið. 

Svo rauk upp í mér Íslendingurinn, þegar ég sá hálfs líters vodka flöskur á tilboði á 7 euro.  Ég tók 3. síðustu flöskurnar í hillunni :-)

Gin var líka á tilboði svo ég tók eina flösku af því. Og smjör á lækkuðu verði.  Lét það ekki fram hjá mér fara. 

Nóg til af klósettpappír, það gildir líka hjá mér.

Rjómi á lækkuðu verði freistaði líka og það sama gilti um brauð. Nóg til af þurrgeri svo ég tók nokkra pakka af því.

Eitthvað í kringum helmingur viðskiptavinana (og hluti af starfsfólkinu) var með andlitsgrímur.  Ótrúlegur fjöldi af grímunum virtist vera af "medical standard", en það er önnur saga og útskýrir ef til vill að hluta til hvers vegna svo mikill skortur er á slíkum útbúnaði um víða veröld.

Báðar matvöruverslanirnar buðu upp á handspritt við innganginn, en engum virðist hafa dottið í hug að bjóða upp á hreinsiklúta til að hreinsa handföngin á innkaupakerrunum.

Ég hafði þá hins vegar með í í frystipoka. LOL

Önnur matvöruverslunin hafði reist plexiglas skjólvegg í kringum afgreiðslumanninn á kassanum, en hin ekki.

Bensínstöðin hafði sömuleiðis sett upp plexigler en hafði að öðru leyti ekki miklar áhyggjur og þar úðuðu viðskiptavinir í sig pylsum, sem voru réttar undir hið sama plexigler.

En það er eitthvað óþægilegt og óraunverulegt við að hugsa um að vita ekki hvor að búðarferðin var "lífshættulegur leiðangur" eða ekki, fyrr en eftir viku eða eða.

En auðvitað er lífshættulegt sömuleiðis að fara ekki og kaupa mat, það segir sig sjálft.

Þannig er lífið á þessu "síðustu og verstu", alls ekki alslæmt, en samt vissulega ýmsar áskoranir og betra að fara varlega.

En það er þessi tilfinning að labba um verslun og hugsa um alla sem þú sérð sem hugsanlga smitbera sem er svo óþægileg og ég reyni að ýta í burtu.

Og á leiðinni heim er maður feginn að enginn hnerraði eða hóstaði svo ég yrði var við.

Þetta eru skrýtnir tímar.

 

 

 

 


Samstaða og rausn

Það er ánægjulegt að lesa fréttir sem þessar og vonandi skilar lyfið sér fljótlega til Íslands.

En þetta er þetta er gott dæmi um þá samstöðu og útsjónarsemi sem getur skipt gríðarlegu máli á tímu sem þessum.

Þessi gjöf, hin nafnlausa gjöf á öndunarvélum til Íslands og samstarf Íslenskrar erfðagreiningar við hið opinbera heilbrigðiskerfi, er nokkuð sem er til fyrirmyndar.

Þessi rausnarskapur og samstarf er sannarlega betra en ekkert í baráttunni við veiruna.

 


mbl.is 50 þúsund pakkar til Íslands um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á viðsjárverðum tímum er þörf á traustum aðföngum

Það er mikið talað um að heimurinn muni ekki verða samur eftir að ógnir Kórónu vírussins hafa gengið yfir.

Líklega er margt til í því.

Ein af kröfunum sem mjög líklega mun koma fram er ríki tryggi framboð af lyfjum, tækjum og hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Hvernig það verður gert á eftir að koma í ljós, en líklega munu margar þjóðir auka framleiðslu innanlands (eða byrja á framleiðslu innanlands), þó að hún kunni að vera dýrari og einnig er ekki ólíklegt að birgðir verði almennt auknar.

Faraldurinn nú hefur leitt í ljós að útflutningur getur verið stöðvaður með skömmum fyrirvara og einnig að ekki er hægt að treysta gæðum búnaðar sem t.d. kemur frá Kína.

Þessi frétt um hlífðargrímur sem Hollendingar hafa dæmt ónothæfar, sem og fréttir um gölluð veirupróf sem notuð voru á Spáni, hlýtur að verða til þess að þetta verður einn af þeim þáttum sem verður ræddur og endurskoðaður þegar faraldurinn hefur gengið yfir.

Skortur á nauðsynlegum búnaði er nægilega slæmur svo ekki bætist við að ekki sé hægt að treysta þeim búnaði sem fæst keyptur.

 

 


Veiran getur breiðst hratt út á afmörkuðum svæðum - Eysýsla í "sóttkví"

Það er ekki ofsögum sagt að Kórónu veiran setji mark sitt á heimsbyggðina þessa stundina.

Eðlilega er mest fjallað um ástandið á þéttbýlum, mannmörgum svæðum enda margir veikir og andlát sömuleiðis.

En það er rangt að halda að dreifbýli sé ekki í sömu hættu og aðrar byggðir eða að þar þurfi ekki að sýna sömu varúð.

Eyjurnar Saaremaa og Muhu er því miður að verða dæmi um það.

Tvær eyjur undan vesturströnd Eistlands tengdar saman með brú.

Íbúafjöldi er 33.000.

Á til þess að gera fáum dögum eru smit þar komin yfir 240.  Það er yfir 70 smit á hverja 10.000 íbúa.

Til samanburðar eru smit í höfuðborginni Tallinn og nágrenni (Harjumaa)í kringum 230, en þar er íbúafjöldinn rúmlega 580 þúsund og smitin því tæplega 4 á hverja 10.000 íbúa.

Á meðal þeirra sem eru sýktir eru 25. af vistmönnum og starfsfólki á dvalarheimili á Saaremaa.

Eftir því sem ég kemst næst voru 2. fyrstu tilfellin greind á Saaremaa 11. mars.  Talið er (ósannað) að smitið hafi borist með blakliði frá Ítalíu sem tók þátt í móti þar viku áður.

Rétt rúmlega 2. vikum síðar er talan 240.

Nú hafa eyjurnar verið settar í sóttkví. Hámarksfjöldi á hverjum stað er 2., en undanþágur fyrir fjöldskyldur.

Allar verslanir eru lokaðar nema matvöru- og lyfjbúðir. Bankar, pósthús og símaverslanir geta verið opnar. Sömuleiðis gleraugnaverslanir.

 

Byggingavörurverslanir mega selja út um "lúgu" eða beint af lager.  Garðyrkuverslanir sömuleiðis.

Matsölustaðir eru lokaðir, en hægt er að sækja mat eða fá sent heim.

Skylda er að bera á sér skilríki ef verið er utandyra og sektir við ónauðsynlegum ferðum eða brotum geta orðið allt  250.000 kr ISK.

Aðeins íbúum eyjanna hefur verið leyft að koma með ferjum síðan 14. mars, en það dugar skammt þegar veiran er þegar kominn á staðinn.

En það er ekki bara í þéttbýlum svæðum þar sem veiran getur dreift sér á ógnarhraða og það er ekki að ástæðulausu að heimsóknir á dvalarheimili eru bannaðar.

 

Hafa verður í huga að tölur breyast hratt.  Eistlendingar hafa ágætis upplýsingasíður, t.d. hér og eru tölulegar upplýsingar fengnar að miklu leyti þaðan. Stjórnvöld eru býsna öflug í upplýsingum einnig: 

 

P.S. Þess má geta hér að Saaremaa kemur fyrir í Brennu Njáls sögu, í kafla 30.

"Annað sumar héldu þeir til Rafala og mættu þar víkingum og börðust þegar og fengu sigur. Síðan héldu þeir austur til Eysýslu og lágu þar nokkura hríð undir nesi einu."

Rafala er Tallinn, en Eysýsla er Saaremaa.  Enn má finna þessi orð í nútímanum, en Tallinn er oft kölluð Reval og Saaramaa Ösel í norrænum málum.

Saaremaa þýðir einnig svo gott sem það sama á Eistnesku, eða Eyjaland.

Þannig ná samskipti Íslendinga og Eistlendinga í kringum 1000 ár aftur í tímann. Þau eru þó mun vinsamlegri nú á dögum, en á dögum Gunnars á Hlíðarenda.

 


Undarlegir en breyttir tímar

Nú er hin nýja kórónaveira frá Wuhan búinn að vera með okkur í rétt um 3. mánuði, svona eins og við vitum en allt eins líklegt er að sameiginleg saga okkar sé eitthvað lengri.

Á þessum mánuðum hefur margt breyst og efast má um að hlutirnir verði eins og þeir voru áður.

Það er líklegt að breytingarnar, í það minnst margar þeirra, verði varanlegar, ja alla vegna þangað til þegar "ráðandi kynslóðir" nú, verða áhrifalittlar og þessi faraldur hefur fallið í gleymskunnar dá, rétt eins og fyrri faraldrar.

Þannig ganga hlutirnir oft fyrir sig.

Það er svo gott sem enginn á lífi sem man eftir síðasta alvarlega heimsfaraldri, enda eru rétt rúmlega 100 ár síðan "Spænska veikin" geysaði.

Og ríki heims virðast að mestu hafa verið alls óundirbúin undir þennan faraldur.  Flestir virðast hafa átt von á "minni háttar" veseni, svona svipað og varð þegar SARS og MERS skutu upp kollinum fyrr á öldinni.

Svona eitthvað sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af í Evrópu eða N-Ameríku.

En það gerist líka að allt í einu er að svo gott sem hvert land fyrir sig.  Undir svona kringumstæðum vill enginn senda mikilvægan búnað eða lækningatæki til annarra landa, því enginn veit hvenær þörf er á slíku heimafyrir.  Sem betur fer hafa þó verið einhverjar undantekningar slíkum hugsunarhætti, en þær eru ekki margar.

Þannig er auðvitað sjálfsagt að setja lög þar sem bannað er að selja lyf úr landi, en jafnframt brugðist hart við ef önnur ríki setja sambærileg lög.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við slíkt, enda hefur áður komið í ljós í kreppum (þó frekar efnahagslegum en á heilbrigðissviðinu) að hver er sjálfum sér næstur og að ríki eiga sér hagmuni, frekar en vini.

Það ætti ekki að koma Íslendingum á óvart og kom einnig vel í ljós í efnahagskreppunni 2008.

Það er líka umhugsunarvert að ýmsir kaupmenn og "braskarar" virðast hafa verið mun fljótari að átta sig á því en yfirvöld víða um heim, að gríðarleg eftirspurn yrði eftir hlífðargrímum og ýmsum öðrum varningi.

En það er líklegt að efnahagsáhrifin muni vara mun lengur en veiran sjálf verður á kreiki.

Það er ef til vill lýsandi að fyrir mánuði síðan voru flestir með áhyggjur yfir því að vörur og íhlutir bærust ekki frá Kína.

Nú þegar Kínverskar verksmiðjur eru hægt og rólega að komast í gang aftur sjá þær fram á verkefnaskort, vegna þess að Vestrænir viðskiptavinir eru að afpanta vörur og íhluti.

Bara það að Evrópumóti í knattspyrnu og Olympíuleikum hafi verið frestað, þýðir að þörfin fyrir varning fyrir milljarða gufar upp.  Ekki bara í Kína, heldur um allan heim.

Það er einnig næsta víst að margir munu endurskoða aðfangalínur sínar.

Það er líklegt að fram komi kröfur um að ríki verði í auknum mæli fær um að fullnægja grunnþörfum sínum hvað varðar heilbrigðismál.

En nú búa æ fleiri þjóðir við neyðarástand og þurfa að taka risa ákvarðanir, oft með littlum fyrirvara. 

Það gildir bæði um heilbrigðismál og efnahaginn.

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að slíkar ákvarðanir séu gagnrýndar og ræddar, en mikilvægt að það sé gert bæði af kurteisi og yfirvegun.

Það er líka rétt að hafa það í huga að það er við aðstæður sem þessar sem jafnvel röng ákvörðun í dag, getur verið betri en hárrétt ákvörðun sem er tekin eftir viku.

Að sjálfsögðu mun verða farið yfir öll viðbrögð og aðgerðir og vonandi dreginn lærdómur af þeim.

En nú, í storminum miðjum, er áríðandi að fylgja fyrirmælum og tilmælum hvort sem við erum sammála þeim eður ei.

 

P.S. Ég sjálfur fékk einhverja pesti og hef verið meira og minna veikur í 10 daga eða svo.  Ég held að ég hafi ekki verið "krýndur", heldur aðeins verið með slæma "venjulega" flensu.  En það er í raun ómögulegt að segja til um slíkt, enda einkennin æði svipuð.

En ég er við fína heilsu nú en hreyfi mig lítið út úr húsi.

 


Landabruggarar til aðstoðar?

Þessar leiðbeiningar eru auðvitað þarfaþing, enda er "handspritt" víða uppselt. Ég man þó ekki eftir því að "ríkið" selji áfengi sem hentaði til þessarar framleiðslu.

En þetta gæti auðvitað verið góð aukabúgrein fyrir landabruggara.

"Handspritt í heimsendingu"© væri líklega "hot" vara.

En gæðavara á við þessa er að ég best veit ekki á boðstólum á Íslandi, en hún væri auðvitað tilvalinn í þessa framleiðslu.

Sjálfur á ég yfirleitt eina flösku af 80°, og nota það einmitt til hreinsunar á alls kyns hlutum.

En líklega verður fljótlega skortur á þetta sterku áfengi, samanber þessa frétt frá Japan.

Það er því ef til vill ráð að fara að hvetja landabruggarana til að fara að hita upp græjurnar.

 

 


mbl.is Gerðu þitt eigið spritt með þessu þrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kórónaðar vangaveltur

Það er nokkuð sama hvar maður kemur vangaveltur og samræður snúast að miklu leyti um Kóranavírúsinn frá Wuhan og útbreiðslu hans.

Það nýmæli gerðist í gær þegar ég fór í búðina að mér var boðið af konu nokkurri við inngangsdyrnar að þrífa haldið á innkaupakerrunni með sótthreinsandi einnota klút.  Á meðan hún gerði það, benti hún mér á hvar í verslunni ég gæti náð í slíka klúta.

En hvað sé rétta "meðalhófið" til þess að hefta veiruna eru skiptar skoðanir um.

Sumir vilja hreinlega loka sem flestum landamærum og því sem næst "stöðva veröldina" á meðan aðrir vilja fara hægar í sakirnar og reyna að stemma stigu við útbreiðslunni með "hefðbundnari" aðgerðum, auknu hreinlæti, sóttkvíum, takmörkunum á fjöldasamkomum o.s.frv.

Alls konar tölfræði flýgur um bæði net- og lífheima.  En staðreyndin er sú að allir slíkir útreikningar eru lítils virði ef þeir eru ekki reiknaðir út frá réttum upplýsingum.

Og þar virðist vanta mikið á víða um heiminn.

Flestir vita nú hversu vitleysislega kommúnistastjórnin í Kína meðhöndlaði upplýsingar og þann einstakling sem fyrst varaði við veirunni.

Það hefur líka verið flestum ljóst að "ajatollarnir" í Íran eru ekki traustsins verðir þegar kemur að upplýsingum um útbreiðslu sýkinga þar í landi.

Eftir því sem ég kemst næst var fyrsta tilfellið í Íran tilkynnt opinberlega 19. febrúar síðast liðinn.

Þann 20. febrúar var fyrsta tilfellið í Kanada sem rekja má til ferðalags til Írans tilkynnt.

Tölfræðilega væri það varla mögulegt, en líklegra er að Íran hafi kerfisbundið vanmetið eða afneitað sjúkdómnum.

Síðast þegar ég gáði voru 2. tilfelli skráð í Egyptalandi og annar sjúklinganna útskrifaður.  Samt sem áður er komið upp tilfelli í Kanada sem er rakið til ferðalags til Egyptalands.

Hverjar skyldu tölfræði líkurnar á slíku smiti vera?

Nú þegar er farið að velta því fyrir sér hvort að útbreiðslan sé mikil eða lítil, hér eða þar, miðað við höfðatölu, verður einnig að taka tillit til fjölda sýna sem hafa verið rannsökuð.

Síðast þegar ég sá tölu í Kanada höfðu 520 sýni verið tekin og 27. smit fundist, eða í rétt um 20% tilfella.

Hverjar eru sambærilegar tölur á Íslandi.

Síðast þegar ég vissi til, voru u.þ.b. tvöfallt fleiri smit í Bandaríkjunum en í Kanada, en Bandaríkin eru ca. 10 sinnum fjölmennari.  Samt voru þegar dauðsföll í Bandaríkjunum en ekkert í Kanada.

Bendir það til þess að sýkingar séu vanmetnar í Bandaríkjunum?

Ég held að það sé afar erfitt að draga skynsamlegar tölfræðilegar niðurstöður án mun betri upplýsinga.

Án þess að áreiðanlegar upplýsingar séu til staðar, og það er fátt sem bendir til þess að svo verði á næstunni, er aðeins verið að reikna út líkindi með "eplum og appelsínum".

En sé litið á stöðu Íslands er sýnist mér að "WV (Wuhan Vírusinn)" sé kominn í öll lönd sem flogið er til frá Íslandi, nema Færeyjar, Grænland og Pólland.

Hvers líklegt er "tölfræðilega" að ekkert smit sé í Póllandi er svo annað mál.

Það er líka ljóst að á meðan Evrópusambandið (og að mig minnir eru öll lönd sem flogið er til frá Íslandi séu í "Sambandinu", nema US, Kanada, Færeyjar og Grænland), Bandaríkin og Kanada eru með "opin" landamæri, þá er vonlaust að vita hvaðan ferðalangar og Íslendingar eru raunverulega að koma.

Einstaklingur sem flýgur til Íslands frá Kaupmannahöfn, getur hafa verið á Ítalíu Egyptalandi, nú eða Íran fyrir skömmu síðan. Það sama gildir um flug frá London, Helsinki, Oslo, Frankfurt og svo má lengi telja.

Þannig eru að mér skilst all nokkur fjöldi einstalinga komnir í "heimasóttkví" í Þýskalandi, þar af stór hópur einstaklinga hjá bílaframleiðandanum BMW.

Heilt yfir sýnist mér Íslensk sóttvarnaryfirvöld hafa staðið sig með ágætum, þó eflaust megi gagnrýna einstakar ákvarðanir og það verður eflaust gert.

Þar starfa einstaklingar og hópar sem þurfa að taka erfiðar ákvarðanir sem geta valdið miklum erfiðleikum á margvíslegan hátt, á hvern veg sem þær eru teknar.

 


mbl.is Tilfelli kórónuveiru orðin ellefu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband