Færsluflokkur: Sjónvarp
22.11.2006 | 17:52
Silfrið fundið
Þá hafði ég það loksins af að horfa á nýjasta "Silfrið".
Það var nokkuð áhugaverður þáttur, sérstaklega fyrir áhugamenn um "armapólítík" og undirölduna í Samfylkingunni. Spjall Egils við Margréti Frímannsdóttur, Margréti Sverrisdóttur, Gísla Martein og Benedikt Sigurðarson var líflegt og skemmtilegt. Það var nokkuð merkilegt að heyra Margréti Sverris verja uppþotin og afsökunarbeiðnir innan Frjálslynda flokksins og ekki síður merkilegt að heyra Benedikt senda félögum sínum í Samfylkingunni, þá sérstaklega forystu flokksins í Norð-Austri og Össuri tóninn.
Ég gat ekki betur séð en að Margrét Frímanns væri nokkuð sposk á svipinn undir þessum lestri Benedikts, hefur ef til vill hugsað að það væri ekki alslæmt að vera á útleið úr argaþrasinu. En Margrét kannaðist þó ekki við lýsingar á innanflokksvandamálum í Samfylkingunni, og sagði þá leið að auðvitað stæðu þingmenn að baki formanni flokksins, sama hver hann væri.
Þeir sem hafa áhuga á því að lesa um skoðun Benedikts á Samfylkingunni og prófkjörinu í Norð-Austur finna hana hér.
Síðan komu í settið Ólöf Nordal og Kristján Hreinsson, Ólöf kom skemmtilega út og spái ég henni velgengni í prófkjörinu um helgina. Hreinskilnislega þá fannst mér Kristján koma út sem dónalegur frasakall. Sífelld frammíköll (Egill gat ekki einu sinni rætt um Margréti Frímanns um bókina hennar, án þess að Kristján þyrfti að grípa fram í) og frasarunur. Líklega vantaði að hann færi með kveðskap í þættinum, því hann er lipur á því sviði og hef ég oft haft gaman af kveðskap hans, en ekkert af þeim húmor og gleði sem oft einkennir skáldskap Kristjáns skilaði sér í framkomu hans þessum þætti.
Síðan var komið að þætti Valdimars Leós, það var óneitanlega nokkuð sérstakt að sjá hann taka niður Samfylkingarprjóninn í beinni og gefa Agli. Spurning hvort að Egill verði ekki að opna safn "pólítískrar memorabilju". Færi það ekki vel í glerskáp t.d. á Ölstofunni?
En það var ekki að heyra neitt sem sérstaklega réttlætti úrsögn Valdimars, nema auðvitað að fyrst að Samfylkingin vill hann ekki, vill hann ekki Samfylkinguna. Að það gangi betur að berjast fyrir "óhreinu börnunum" eins síns liðs eru ekki rök sem ég kaupi.
En það eru óneitanlega atvik sem þetta, sem og uppgjör og yfirlýsingar Benedikts sem gefa þætti Egils vikt. Þetta er þátturinn sem hluturnir heyrast í og gerast.
Það er ekki algengt að spjallþættir "skúbbi" sem þetta.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 17:24
Týnt Silfur
Hvað er þetta eiginlega með "Silfrið"? Hvers vegna er það ekki á vefnum? Veit einhver skýringuna á því?
Ég hef eiginlega aldrei horft á það "í beinni", en vanist því að geta gengið að því á vefnum, en nú er bara ríflega vikugamlan þátt þar að finna?
Ef einhver veit eitthvað um þetta mál eru útskýringar vel þegnar í athugasemdir.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2006 | 05:07
Slæmur atburður - Slæm fréttamennska
Ekki ætla ég að afsaka atburðina í Beit Hanoun, það er illa gerlegt. En mig langar þó að leggja orð í belg varðandi fréttaflutning af svæðinu og heimsókn sendiherra Ísraels til Íslands. Sumt sem ég hef séð varðandi þá heimsókn, vekur mér undrun og furðu á vinnbrögðum sumra íslenskra fréttamanna.
Hér má sjá umfjöllun í "Ísland í dag", um heimsókn Ísraelska sendiherrans og mótmæli sem voru fyrir framan Utanríkisráðuneytið. Í þessu samhengi er auðvitað ekki hægt að reikna með að fjallað sé um málið frá sjónarhóli beggja deiluaðila, enda stór partur af fréttinni mótmælin. En það er ekki nóg fyrir fréttamanninn, það þarf að ganga lengra.
Getur einhver útskýrt það fyrir mér hvaða fréttalega tilgangi örstuttur bútur úr "Hiroshima", lagi Bubba Morthens þjónar? "Ekkert svar, ekkert hljóð, bara blóð og eftirköstin frá Híróshima", hljómar undir myndunum. Tengist Hiroshima fréttinni á einhvern hátt?
Fyrst ég er byrjaður á að skrifa um þetta verð ég að benda á það sömuleiðis að viðbrögð Íslenskra stjórnmálaleiðtoga hafa verið frekar skrýtin. Sendiherrann kom fyrir í áðurnefndri frétt sem ákaflega góður diplómat, hófsöm og útskýrði mál sitt án ofsa. Samt sjá Íslenskir stjórmálaleiðtogar sér ekki fært að ræða við sendiherra erlends ríkis, jafnvel ekki þeir sem hæst hafa talað um "umræðustjórnmál". Steingrímur J. má eiga það að hann skiptist á skoðunum við hana á fundi utanríkismálanefndar, ef ég hef skilið rétt. Þær umræður voru nokkuð harðar eftir því sem ég hef frétt, en það er ekkert út á það að setja, það er allt í lagi að tala tæpitungulaust, en ég hef sjaldan heyrt um deilu, eða ósamlyndi sem færist til betri vegar án þess að málin séu rædd, eða eingöngu afhentar einhliða yfirlýsingar.
Bæði Valgerður Sverrisdóttir og Sólveig Pétursdóttir komu á framfæri mótmælum, eins og eðlilegt er, og ræddu við sendiherrann, það er jú yfirleitt þannig sem samskipti á milli ríkja fara fram.
Ekki gerir fréttamaðurinn nokkrar athugasemdir við þetta eða spyr leiðtogana óþægilegra spurninga, en það er svo sem ekki algengt í íslenkri fréttamennsku, en enn síður þegar fréttamaðurinn sat á lista sama flokks og einn stjórnmálamaðurinn sem hann ræðir við og bauð sig fram til varaformanns á sama tíma og stjórnmálaleiðtoginn var kjörinn formaður. Er ekki sagt: Já, svona er Ísland í dag!
En man einhver eftir ályktun frá Íslenskum stjórnmálaflokkum þar sem sprengjutilræði hryðjuverkasamtaka Palestínumanna er fordæmd, eða að þeir krefjist að Hamas viðurkenni tilvist Ísraelsríkis og setjist að samningaborðinu?
Nú eða krefjast þess að yfirvöld í Palestínu haldi uppi lögum og reglu á sínum svæðum og stöðvi árásir hryðjuverkasamtaka eins og lesa má í þessari frétt. Þau eru reyndar að hugsa um að hætta að skjóta eldflaugum. Í fréttinni kemur fram að Jihad séu ein af mörgum samtökum sem hafa staðið fyrir eldflaugaárásum á Ísrael. Sýnd er mynd frá bænum Sderot sem hefur samkvæmt fréttinni orðið fyrir nær daglegum eldflaugaárásum.
Það er svo, að þessi deila er eins og svo margar deilur, hatrömm og margslungin og báðir deiluaðilar eru vissulega sekir um mörg voðaverk. Það leggur ekkert til lausnar deilunnar að neita að ræða við sendiherra Ísraels og er að mínu mati einfaldlega rangt að leggja alla ábyrgð á þeirra hendur eins og sumir Íslensku stjórnmálaleiðtogana virðast vilja gera. Margir fréttamenn mættu líka skoða málið betur.
Hér sem oft áður gildir hið fornkveðna, sjaldan veldur einn þá tveir deila.
Ítrekað að Hamas muni ekki viðurkenna Ísrael | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2006 | 19:37
Nýr þáttur á Stöð 2?
Ég hef reyndar ekki heyrt neitt af þeim áformum, utan þess sem ég las hjá á blogginu hjá Steingrími.
Auðvitað er skynsamlegast að bíða frekari fregna og jafnvel horfa á einn þátt eða svo áður en dómur er felldur, en ég get ekki stillt mig um að segja að mér líst illa á það sem ég hef heyrt.
Er ekki of langt gengið ef stjórnmálmennirnir eru farnir að stjórna umræðuþáttunum líka? Persónulega finnst mér það hljóma hræðilega að formaður þingflokks Samfylkingarinnar, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og háskólarektor sem er örugg á þing, komi til með að stjórna pólítískum umræðuþætti.
Er mannvalið það "þröngt" fyir íslenskt sjónvarp? En auðvitað er þetta gott fyrir viðkomandi stjórnmálamenn, það er ekki amalegt fyrir þingflokksformann að að geta hegnt eða umbunað með framkomu í sjónvarpsþætti, allra síst á kosningavetri. Ekki slæmt heldur fyrir forseta borgarstjórnar sem er "einmanna" í borgarstjórn fyrir sinn flokk, nú eða fyrir frambjóðenda sem er hefur ekki þá athygli sem sitjandi þingmenn hafa.
En mér finnst þetta slæm þróun ef af verður. Raunar finnst mér fréttastofa Stöðvar 2/NFS hafa fetað nokkuð undarlegan veg hvað hlutleysið varðar, eins og ég benti á í bloggi fyrir ca. 2 mánuðum.
Hinu ber svo að fagna að stefnt sé að því að auka pólítíska umræðu, en ég held að lausnin sé ekki að setja hana undir atvinnustjórnmálamenn.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2006 | 06:07
Enn af "Prófkjörinu"
"Prófkjörið" ætlar ekki að deyja í umræðunni, enda "stór stofnun" í þjóðfélaginu.
Það var hreint með eindæmum að horfa á Kastljósið í kvöld. Ásakanirnar sem þar komu fram voru stórar, en ekki að sama skapi trúverðugar. En mikil verður framsýni þeirra að teljast sem sáu fram á það síðasta vor, að líklegt væri að félagaskráin sem unnið var að þá, yrði misnotuð nú í haust.
En það er ekki hægt að leiða svona ásakanir hjá sér eða láta sem ekkert sé. Það er því áríðandi að starfsfólk flokksins svari þessum ásökunum opinberlega.
En það er fyndið að fylgjast með Samfylkingum sem hafa mikið meiri áhuga og áhyggjur af prófkjörum í Sjálfstæðiflokknum en sínum eigin flokki.
Össur skrifar hreint frábæran pistil, andi Íslendingasagnanna svífur þar yfir vötnum. En skáldaleyfið hefur rekið þar hið forna málstæki, hafa ber það sem sannara reynist á brott. Össur lætur ekki atriði eins og þá staðreynd að Borgar Þór Einarsson lýsti yfir stuðningi við Sigurð Kára trufla sig neitt við að spinna þráðinn. Illuga Gunnarssyni virðist Össur ekki heldur hafa fundið stað í fléttunni og er það nokkur ljóður á sögunni, en samt sem áður er full ástæða til að hvetja menn til að lesa pistilinn, það er ekki á hverjum degi sem slík stílsnilld og andagift sést í pólítískri umræðu á Íslandi.
Það er ljóst að Össurar bíður góð framtíð sem pólítísks "krimmahöfundar", ef og þegar hann ákveður að hætta þingmennsku, bara ef hann kærir sig um. Bækur hans myndu án efa ekki gefa Arnaldi neitt eftir, nema síður væri.
Steinunn Valdís skrifar einnig um prófkjörið á heimasíðu sína og hneykslast á slæmu gengi kvenna.
Guðmundur Steingrímsson skrifar tvo pistla um "Prófkjörið".
Ekkert þeirra hefur bloggað um prófkjör Samfylkingarinnar í Norð-Vestur kjördæminu sem fór fram um sömu helgi.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 16:51
Sínum augum lítur hver á Silfrið
Ég náði loksins að klára að horfa á Silfur Egils á netinu. Þættir Egils eru alltaf skemmtilegir og áhugaverðir. Ég verð þó að segja að mér þykir "leiðarar" Egils ekki vera að gera sig. Slíkar hugleiðingar er ágætt að lesa á síðunni hans, en eru ekki sérlega áhugavert sjónvarpsefni að mínu mati.
En þátturinn er yfirleitt skemmtilegur og þátturinn í gær var þar engin undantekning. Það var nú reyndar hálf grátbroslegt að hlusta á Össur reyna að finna upp klofning í Sjálfstæðisflokknum, en Össur er að verða "sérfræðingur" í öllum flokkum nema sínum eigin.
Össur varð líka hálf kindarlegur þegar talið barst að Jóni Baldvini og þætti hans í öllum þessum umræðum.
Prófkjörshlutinn fannst mér nokkuð þunnur þó og áberandi lakasti parturinn í þessum þætti. Þó komu konurnar, Helga Vala Helgadóttir og Sigríður Andersen þokkalega út, en Glúmur Baldvinsson kom skringilega út, hálf partinn eins og út á þekju og klisjukendur.
Það vakti svo heilmikla athygli mína þegar talað var við Paul Nikolov, en hann er þátttakandi í prófkjöri hjá VG. Hann hefur reyndar verið sakaður um tækifærismennsku á ýmsum bloggsíðum, en hann hafði víst talað um að stofna innflytjendaflokk, en hætt við um leið og honum var boðið að taka þátt í prófkjöri hjá VG. Það kann að vera svolítill tækfærisblær á því, en jafnframt sönnun þess að hann hefur aðlagast íslensku samfélagi nóg til þess að taka þátt í pólítík.
Hann talaði vel, þó að ég væri ekki endilega 100% sammála honum, en það vekur vissulega athygli mína að frambjóðandi í prófkjöri á Íslandi skuli velja að tala ensku í viðtali. Ræður hann ekki við íslenskuna? Ég held að það hljóti að vera erfitt að vera í framboði ef vald á íslensku er ekki þokklegt.
En það er vissulega fagnaðarefni að innflytjendur taki þátt í stjórnmálum. Kona af pólskum uppruna, Grayna Okunlewska, býður sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Það er gott að innflytjendur taki þátt í þjóðfélaginu á öllum stigum, stjórnmálum sem annars staðar og jákvætt að þeir taki þátt í prófkjörum en sé ekki eingöngu stillt upp sem "skrautfjöðrum" aftarlega á lista.
Um þátttöku Jóns Baldvins í þættinum hef ég bloggað áður.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2006 | 14:39
Það var allt í lagi, það voru Bandaríkjamenn sem voru að hlera!
Það vakti nokkra athygli mína þegar ég kom inn í endan af Silfri Egils að þar var Jón Baldvin Hannibalsson að láta móðan mása um "njósnamálefni".
En þar gat ég ekki heyrt betur en að Jón segði, þegar Egill spurði hann að því hvers vegna hann hefði ekki kært eða tilkynnt að hann teldi sig hafa verið hleraðan, að hann hefði talið að það væru Bandaríkjamenn sem væru að hlera sig. Það hefði ekki verið fyrr en löngu síðar að hann hefði heyrt af hinni "Íslensku leyniþjónustu".
Utanríkisráðherra Íslendinga taldi sem sé ekki ástæðu til að aðhafast neitt, því það voru "bara" Bandaríkjamenn sem voru að hlera símann hans? Hann sá ekki ástæðu til að skýra samráðherrum sínum frá því, ekki ástæðu til að hafa samband við lögreglu, eða að skýra almenningi frá þessu?
Þessi málflutningur er með eindæmum.
Það vakti líka mikla athygli mína þegar Árni Snævarr skýrði frá því að hann hefði vitað af "leyniþjónustunni" og var undrandi á því að Jón Baldvin hefði ekki vitað af henni sömuleiðis. Sagði Árni að Árni Sigurjónsson hefði hringt í sig og viljað rekja minningar sínar, en hefði látist áður en af því varð. Er ekki þörf á leyniþjónustu fyrir hið opinbera ef blaðamenn eru svona mikið betur upplýstir en ráðherrar?
Þó að það sé ef til vill svo lítil hártogun, þá vakti líka athygli mína þær köldu kveðjur sem þeir einstaklingar sem hafa boðið sig fram í prófkjörum Samfylkingarinnar fengu frá Jóni, þegar hann sagði að prófkjör væru úrelt fyrirbrigði og "almennilegir menn" (eða eitthvað í þá áttina) fengjust ekki til að bjóða sig fram. Þar átti hann við Stefán Ólafsson prófessor.
En ég verð að bíða með að horfa á þáttinn í heild þar til seinna í dag.
Þór var að undirbúa farveginn fyrir frumvarp um öryggisgæslu, segir Jón Baldvin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2006 | 04:02
Margar "kanónur"
Það hafa þó nokkrir minnst á það við mig að það séu nokkuð margar "kanónurnar" sem séu að leitast við að hassla sér völl í pólítíkinni þessar vikurnar.
Það eru enda óvenju margir þingmenn að hætta, þannig að möguleikarnir eru meiri en endranær og stöður "héraðshöfðingja" víða lausar eða í uppnámi.
Meðal þessara "kanóna" má nefna Illuga Gunnarsson, Guðfinnu Bjarnadóttir, Valgerði Bjarnadóttur, Steinnunn Valdís Óskarsdóttir og svo auðvitað Róbert Marshall. Eflaust er ég að gleyma einhverjum og aðrir eiga eflaust eftir að stíga fram.
Þetta er auðvitað mjög jákvætt og gott að enn sækist fólk eftir því að taka sæti á Alþingi og sé reiðubúið til að berjast fyrir því.
Oft er reyndar rætt um að valdið hafi færst frá Alþingi yfir til fjármálaheimsins og stundum er talað um hvað fjölmiðlar séu valda og áhrifamiklir.
Talandi um vald fjölmiðla, einn góður sjálfstæðis kunningi minn, sagði í tölvupósti í dag, að hann væri ákaflega ánægður með að Róbert Marshall stefndi á þing. Hann vildi meina að hann hefði verið mun skeinuhættari sem "óháður" stjórnandi á fréttastofu, en hann yrði sem hugsanlegur þingmaður.
En ef að Róbert kemst á þing, þá fjölgar um einn á þingi af þeim sem finnst æskilegt að láta Kárahnjúkastífluna standa sem minnismerki í stað þess að snúa hverflum (Samanber "Kæri Jón" II). Það væri vissulega slæm þróun að mínu mati. Það verður því meira og meira aðkallandi að flokkar og frambjóðendur skýri skoðanir sínar í þessum efnum.
Kjósendur eiga rétt á því.
Býður sig fram í 1.-2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2006 | 11:53
Hálslón til vors eða eilífðar?
Nú þegar þetta er skrifað er Hálslón líklega orðið vel yfir 30 metra djúpt, stöðugt safnast vatn í lónið og mun líklega gera á næstu mánuðum.
Ef andstæðingar virkjunarinnar hafa sitt fram verður þó einungis safnað í lónið fram á vor. Þá, ef ekki fyrr, verður hleypt úr lóninu og stíflan látin standa sem minnismerki.
Það verður því að teljast áríðandi að almenningur á Íslandi verði upplýstur um það hvaða pólítíkusar vilji fara þessa leið og láta þessa stærstu framkvæmd íslandssögunnar vera ónýtta. Ég gat ekki betur séð en að Steingrímur J. Sigfússon væri í göngunni með Ómari, þýðir það að hann styður þær tillögur sem Ómar lagði fram?
Hér má sjá viðtal við Steingrím J. Sigfússon og Jón Sigurðsson í Íslandi í dag, ég get ekki betur séð en að Steingrímur taki undir þær hugmyndir að hleypa úr Hálslóni, þó að hann segi það ekki beinum orðum. Um afstöðu Jóns þarf ekki að efast.
Hér er svo aftur viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu og Guðjón Arnar. Guðjón segir að of seint sé að snúa við, en lærdóm þurfi að draga af þessu ferli. Ingibjörg segir einnig að lærdóm þurfi að draga af ferlinu en ég gat ekki heyrt að hún segði afdráttarlaust að stífluna bæri að nýta, né að hleypa ætti úr henni, heldur tvísteig hún (eins og oft áður) og reyndi að komast hjá því að taka skýra afstöðu.
En það hlýtur að teljast mikilvægt að þessi afstaða komi í ljós. Væru líkur á því að hleypt verði úr lóninu í júní næstkomandi ef stjórnarandstaðan kemst til valda? Myndi stjórnarmyndun hjá Steingrími verða háð því skilyrði? Myndi Ingibjörg Sólrún vera tilbúinn að fallast á það að hleypt yrði úr Hálslóni?
Þetta er ekki milljónaspurningin. Er ekki nær að segja að þetta sé hundrað milljarða spurningin og líklega dágott betur? Ef Kárahnjúkavirkjun er stærsta framkvæmd íslandssögunnar, verður þetta líklega að teljast með stærstu spurningum sögunnar.
Það hlýtur því að verða krafa um að allir frambjóðendur svari þessari spurningu á næstu dögum, vikum og mánuðum. Kjósendur eiga rétt á því að skoðanir frambjóðenda á þessum framkvæmdum liggi fyrir og séu skýrar.
P.S. Einhver sagði mér að virkjunarandstæðingar vilji "kaupa" virkjunina, með því að selja fólki um víða veröld nafnið sitt á stífluvegginn, gegn u.þ.b. 1200 króna gjaldi. Svona málflutningur er með eindæmum. Hvað skyldi nú stór partur af 1200 krónum fara í það að letra nafnið á vegginn, hvað yrði mikið eftir?
Hálslón sextán metra djúpt, Jökla er horfin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.9.2006 | 15:20
Veröld Uri´s
Ég var að lesa það í Fréttablaðinu í dag að auglýsingarnar fyrir Sm***off Ice sem ég hef svo oft séð í sjónvarpinu séu "íslenskar" að gerð. Það er að segja að leikarnir séu íslenskir og leikstjórinn sömuleiðis. Það kom svo fram í fréttinni að auglýsingarnar hafi verið bannaðar í Bretlandi.
En ég verð að óska þeim sem stóðu að þessum auglýsingum til hamingju, enda hafa þær vakið athygli mína, þegar ég hef séð þær í sjónvarpinu. Stórgóðar auglýsingar og sýna hvað íslenskir auglýsingamenn eru góðir. Leikararnir eiga reyndar líka frábæra spretti.
En ef einhverjir hafa áhuga á því að skoða umræddar auglýsingar, bið ég þá fyrst að hugleiða hvað þeir eru að fara að gera. Hafa í huga að áfengisauglýsingar eru bannaðar á Íslandi og með því að horfa á slíkt gerast þeir brotlegir við íslensk lög. Ef að þeim vangaveltum loknum þeir eru enn þeirrar skoðunar að þeim langi til að skoða auglýsingarnar, þá fara þeir á: www.uriplanet.com
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)