Slæmur atburður - Slæm fréttamennska

Ekki ætla ég að afsaka atburðina í Beit Hanoun, það er illa gerlegt.  En mig langar þó að leggja orð í belg varðandi fréttaflutning af svæðinu og heimsókn sendiherra Ísraels til Íslands.  Sumt sem ég hef séð varðandi þá heimsókn, vekur mér undrun og furðu á vinnbrögðum sumra íslenskra fréttamanna.

Hér má sjá umfjöllun í "Ísland í dag",  um heimsókn Ísraelska sendiherrans og mótmæli sem voru fyrir framan Utanríkisráðuneytið.  Í þessu samhengi er auðvitað ekki hægt að reikna með að fjallað sé um málið frá sjónarhóli beggja deiluaðila, enda stór partur af fréttinni mótmælin.  En það er ekki nóg fyrir fréttamanninn, það þarf að ganga lengra.

Getur einhver útskýrt það fyrir mér hvaða fréttalega tilgangi örstuttur bútur úr "Hiroshima", lagi Bubba Morthens þjónar?  "Ekkert svar, ekkert hljóð, bara blóð og eftirköstin frá Híróshima", hljómar undir myndunum.  Tengist Hiroshima fréttinni á einhvern hátt?

Fyrst ég er byrjaður á að skrifa um þetta verð ég að benda á það sömuleiðis að viðbrögð Íslenskra stjórnmálaleiðtoga hafa verið frekar skrýtin.  Sendiherrann kom fyrir í áðurnefndri frétt sem ákaflega góður diplómat, hófsöm og útskýrði mál sitt án ofsa.  Samt sjá Íslenskir stjórmálaleiðtogar sér ekki fært að ræða við sendiherra erlends ríkis, jafnvel ekki þeir sem hæst hafa talað um "umræðustjórnmál".  Steingrímur J. má eiga það að hann skiptist á skoðunum við hana á fundi utanríkismálanefndar, ef ég hef skilið rétt.  Þær umræður voru nokkuð harðar eftir því sem ég hef frétt, en það er ekkert út á það að setja, það er allt í lagi að tala tæpitungulaust, en ég hef sjaldan heyrt um deilu, eða ósamlyndi sem færist til betri vegar án þess að málin séu rædd, eða eingöngu afhentar einhliða yfirlýsingar.

Bæði Valgerður Sverrisdóttir og Sólveig Pétursdóttir komu á framfæri mótmælum, eins og eðlilegt er,  og ræddu við sendiherrann, það er jú yfirleitt þannig sem samskipti á milli ríkja fara fram.

Ekki gerir fréttamaðurinn nokkrar athugasemdir við þetta eða spyr leiðtogana óþægilegra spurninga, en það er svo sem ekki algengt í íslenkri fréttamennsku, en enn síður þegar fréttamaðurinn sat á lista sama flokks og einn stjórnmálamaðurinn sem hann ræðir við og bauð sig fram til varaformanns á sama tíma og stjórnmálaleiðtoginn var kjörinn formaður.  Er ekki sagt:  Já, svona er Ísland í dag!

En man einhver eftir ályktun frá Íslenskum stjórnmálaflokkum þar sem sprengjutilræði hryðjuverkasamtaka Palestínumanna er fordæmd, eða að þeir krefjist að Hamas viðurkenni tilvist Ísraelsríkis og setjist að samningaborðinu?

Nú eða krefjast þess að yfirvöld í Palestínu haldi uppi lögum og reglu á sínum svæðum og stöðvi árásir hryðjuverkasamtaka eins og lesa má í þessari frétt.  Þau eru reyndar að hugsa um að hætta að skjóta eldflaugum.   Í fréttinni kemur fram að Jihad séu ein af mörgum samtökum sem hafa staðið fyrir eldflaugaárásum á Ísrael.  Sýnd er mynd frá bænum Sderot sem hefur samkvæmt fréttinni orðið fyrir nær daglegum eldflaugaárásum.

Það er svo, að þessi deila er eins og svo margar deilur, hatrömm og margslungin og báðir deiluaðilar eru vissulega sekir um mörg voðaverk.  Það leggur ekkert til lausnar deilunnar að neita að ræða við sendiherra Ísraels og er að mínu mati einfaldlega rangt að leggja alla ábyrgð á þeirra hendur eins og sumir Íslensku stjórnmálaleiðtogana virðast vilja gera.  Margir fréttamenn mættu líka skoða málið betur.

Hér sem oft áður gildir hið fornkveðna, sjaldan veldur einn þá tveir deila.

 
mbl.is Ítrekað að Hamas muni ekki viðurkenna Ísrael
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já þetta með Bubbalagið var aldeilis absúrd. En ætli fréttamaðurinn sé ekki af yngri kynslóðinni - svoleiðis fréttamenn eru sumir svo yfirfullir af heilagri vandlætingu. Náttúrulega bara ungæðisháttur. En þetta var auðvitað umfram allt einstaklega vond fréttamennska. 

Kristján G. Arngrímsson, 18.11.2006 kl. 14:11

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég veit ekki hver "framleiðir" þessa frétt,eða hver "ritstýrir" henni, en hitt veit ég að Heimir Már, sem flytur þessa frétt telst varla til "yngri kynslóðar" fréttamanna.

G. Tómas Gunnarsson, 20.11.2006 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband