Færsluflokkur: Sjónvarp

Að frelsa konur frá ríkisrekstri - Pólitík í NorðAustri.

Í gærkveldi eftir að ró fór að færast yfir Bjórá og ég var að bíða eftir að Formúlan hæfist, fór ég að horfa á Íslenskt sjónvarp.  Horfði meðal annars aðeins á Silfrið frá því á síðasta laugardag, og svo kosningaþáttinn frá NorðAustrinu á Stöð 2.

Ég verð að segja að mér fannst Margrét Pála og það sem hún hafði fram að færa ákaflega áheyri- og merkilegt.  Tölurnar sem hún nefndi yfir muninn á konum og körlum sem starfa hjá hinu opinbera var líka sláandi, fast að 60% kvenna en rétt ríflega 20% karla vinna hjá hinu opinber..

Það verður fróðlegt að sjá hvort að það verða umræður í þessa átt á næstunni, sérstaklega nú fyrir kosningar.  Það verður sömuleiðis fróðlegt að sjá hvernig "kvenfrelsisflokkarnir" bregðast við við þessari umræðu.  Það er líklega flestum í fersku minni hvernig R-listaflokkarnir reyndu að virtist að bregða fæti sem oftast fyrir einkarekstur, t.d. í skólakerfinu.

Enda virtist fulltrúum Samfylkingar og VG í Silfrinu ekki líka þessi málflutningur, enda ekki þekktir fyrir stuðning við einkarekstur, þó að þeir tali líklega þega "mikið liggur við".

En ég myndi segja að það væri þarft að ræða þetta frekar.  Háskólasamfélagið á Íslandi hefur tekið gríðarmiklum breytingum með tilkomu einkareksturs og eftir því sem ég heyri hefur skólum og leikskólum Margrétar Pálu verið afar vel tekið.

Kosningaþátturinn frá NorðAustri var nokkuð sléttur og felldur, þó að það færi ekki fram hjá neinum að Steingrímur og Valgerður létu hvort annað fara í taugarnar á sér, snertiflöturinn hjá kjósendahópnum enda stór í kjördæminu.

En niðurstaðan úr þeirri skoðankönnun var ótrúleg og niðurlæging Valgerðar og Framsóknar algjör.  Þó að ég hafi nú trú á því að Framsókn "skrapi" inn 2. mönnum í kjördæminu er staðan augljóslega ekki góð.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig umræðan um álver á Bakka á eftir að þróast, en mér þykir líklegt að hún verði fyrirferðarmikil fyrir kosningar. Ég yrði ekki hissa þó að það yrði stærsta málefnið í þessu kjördæmi.  Athyglisverð sú hugmynd sem Kristján Þór skaut fram í þættinum,  að kosið yrði á meðal Húsvíkinga um byggingu álvers, samhliða þingkosningum.

Allir þeir sem voru fylgjandi því að Hafnfirðingar fengju að segja sitt álit á stækkun Alcan þar, hljóta að óska þess að Húsvíkingar fái sömuleiðis að greiða atkvæði.

Mín spá fyrir þetta kjördæmi er Sjálfstæðisflokkur 3, Framsókn, Samfylking og VG 2 hver, erfiðara eins og gefur að skilja að spá fyrir um jöfnunarmanninn.

 

 

 


Hver næst?

Eins og svo marga sunnudagsmorgna er ég að horfa á Silfur Egils á netinu, það er venjulega ágætis skemmtun. 

Það virðist vera að komast á hefð að í þáttinn komi Samfylkingarmenn og gefi yfirlýsingar um að þeir séu búinir að segja sig úr flokknum.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér, hver verður næstur?


Af meintum "kosningakaupum"

Mér þykir oft nokkuð merkilegt hvað margir hafa lítið álít á almenningi, nú eða kjósendum.

Vissulega verður ekki á móti því mælt að auglýsingar hafa áhrif, ég held að enginn geti neitað því.  En ég er þó þeirrar skoðunar að til að auglýsingar hafi veruleg áhrif verði eitthvað að búa að baki þeim.

Þó að ég hafi oft keypt eitthvað sem ég hefði ekki gert án þess að sjá auglýsingu um viðkomandi vöru, þá man ég ekki eftir því að hafa keypt eitthvað trekk í trekk, án þess að mér hafi þótt viðkoandi vara góð eða nýtileg.

Ég man líka eftir því að hafa séð ótal auglýsingar frá Framsóknarflokknum án þess að hafa nokkurn tíma látið glepjast til að kjósa þann flokk. 

Ég hef hlustað á margar ræður fluttar af Steingrími J. Sigfússyni, oft dáðst að mælsku hans og látbragði, en það hefur aldrei hvarflað að mér að kjósa VG.

Allar auglýsingarnar sem Ástþór birti fyrir forsetakosningarnar 1996 lét yfirgnæfandi stærstan hóp kjósenda ósnertan.

En skyndilega er allt vitlaust af því að Alcan vogar sér að gefa geisladisk, kosta umræðuþátt í sjónvarpi og hefur sömuleiðis boðið Hafnfirðingum á einhverja íþróttakappleiki.

Persónulega hef ég ekki trú á því að slík boð, eða slík kostun breyti skoðunum eins eða neins, ég hef meiri trú á kjósendum en það.  Hitt er ekki ólíklegt að slíkt fái fleiri til að hugsa málið, velta hlutunum fyrir sér, ja svona rétt á meðan rifið er utan af DVD disknum.  Gæti jafnvel fengið fleiri til að taka þátt í kosningunum, mæta á kjörstað.  Það væri sannarlega af hinu góða.

Auðvitað á umræðan ekki að snúast um hvort forsvaranlegt sé að þetta eða hitt fyrirtækið "kosti" einhverja þætti.  Ef menn vilja taka slíka umræðu á hún að snúast um hvort að forsvaranlegt sé að fyrirtæki séu að kosta þætti í sjónvarpi, og ef menn vilja geta þeir tekið umræðu eða fréttatengda þætti þar sérstaklega út úr.


Nú árið er liðið í ....

Það tíðkast að líta til baka á áramótum og "melta" árið sem er að líða.

Það verður að segjast eins og er að árið sem nú nýverið kvaddi var okkur að Bjórá ákaflega gott.  Það sem stendur auðvitað upp úr er að í fjölskyldunni fjölgaði um einn, Jóhanna Sigrún Sóley fæddist 9. ágúst og kom hingað heim að Bjórá fáum dögum síðar.

Leifur Enno sem var þar með hækkaður í tign, upp í "Stóri bróðir" átti líka gott ár, náði þeim merka áfanga á árinu að fara yfir meterinn í hæð, tók hálfan mánuð í að venja sig af bleyjum og kopp og hélt áfram tilraunum sínum við að stjórna fjölskyldunni.

Það var einnig stór atburður fyrir okkur persónulega þegar við festum kaup á Bjórá 49, fyrsta húsinu sem við eignumst.  Það fylgir því ákveðin vellíðan að vera í eigin húsnæði.  Það fylgir því mikil vinna og mikill lærdómur, það eru mörg "projectin" sem eru á hugmyndastiginu. Fyrr á árinu seldum við  þá íbúð í Reykjavík sem fylgdi með mér í okkar búskap.

Þeir atburðir sem sitja í minninu úr fréttum á árinu eru eftirtaldir.

Hér var skipt um stjórn í Kanada.  Minnihlutastjórn Íhaldsflokksins tók við af skandalahlöðnum Frjálslyndaflokknum.

Lögreglunni tókst að koma í veg fyrir áætlanir um hryðjuverk hér í Kanada.

Michael Ignatieff náði því ekki að verða formaður Frjálslynda flokksins.

Hvað Íslenska atburði varðar er eitt og annað sem kemur upp í hugann.

Sveitarstjórnarkosningar og afsögn Halldórs Ásgrímssonar í kjölfarið á þeim.  Ágætis kosningar en líklega einhver afleitasta skipulagning afsagnar sem sést hefur lengi.

Varnarliðið ei meir.  Líklega það sem stendur upp úr á árinu til lengri tíma litið.  Þetta bitbein sem hefur verið til staðar frá því að ég man eftir mér (og gott betur) er bara farið, búið, hættir, farnir heim.

Hálslón, fylling þess, Kárahnjúkavirkjun og allt það dót.  Hugmyndin um að láta stífluna standa sem minnismerki að mínu mati bæði geggjaðasta og heimskasta hugmynd ársins.  Ýmsir fjölmiðlamenn lýstu því yfir á árinu að hér eftir yrðu þeir ekki hlutlausir í umfjöllun sinni um virkjunina, líklega með það að markmiði að fá almenning til að trúa því að þeir hefðu verið það hingað til.

NFS ei meir. Lokað og að lokum kom í ljós að "Kæri Jón" réði þessu öllu.  Fréttamennirnir á NFS þó líklega með þeim seinustu að uppgötva þá staðreynd.  Óneitanlega á elleftu stundu, en betra seint en aldrei, eða hvað?

Auðvitað er hellingur til viðbótar, hvalveiðar, prófkjör, leyniþjónusta og hleranir og lengi mætti sjálfsagt upp telja.

 En viðburðaríkt og skemmtilegt ár er liðið nú gildir hins vegar að horfa fram veginn.


Dagur vs Björn Ingi

Af því að ég sá að rifrildi þeirra Dags BE og Björns Inga hafði vakið svona mikla athygli og umtal, þá varð ég auðvitað að athuga málið og horfa á Kastljósið.

Þetta var svo sem ekki stórmerkilegt.  En ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að Dagur átti ekki mikið í Björn, og það þó að hann hefði í málefnið með sér.  Hann er einfaldlega ekki góður eða sannfærandi pólítíkus.  Það hljómar heldur ekki trúverðuglega að halda að allir bitlingar séu úr sögunni við það eitt að R-listinn sé leystur upp og hverfi frá völdum.

Ég verð þó að segja að mér finnst staða Óskars Bergssonar ekki ásættanleg, og raunar með eindæmum að Degi tækist ekki að standa sig betur með það "vopn" í höndunum.

Hins vegar gef ég ekki mikið fyrir þá hneykslun að einhver hafi verið ráðinn til tímabundinna verkefna varðandi vefsíður eða annað slíkt.  Slíkir "bitlingar" hafa alltaf verið til staðar og verða alltaf til staðar. 

Ekki man ég eftir því að hafa heyrt neina Samfylkingarmenn reka upp hneykslunaróp þegar Róbert Marshall var ráðinn í slík verkefni hjá Náttúrufræðistofnun, en þar mun víst vera við stjórnvölinn góður Samfylkingarmaður, eiginmaður Margrétar Frímannsdóttur.  Það sannar alla vegna að menn þurfa hvorki að vera í ríkisstjórn eða borgarstjórn til þess að skemmtilegar "tilviljanir" komi upp í mannaráðningum.

Slíkar ráðningar hafa einfaldlega alltaf verið til staðar og verða líklega alltaf til staðar svo lengi sem stunduð ver

En Degi tókst ekki að koma málflutningi sínum til skila með eftirminnilegum hætti, heldur fór umræðan út um víðan völl og skildi lítið sem ekkert eftir sig.  Ef rétt væri haldið á spöðunum, sem ennþá er vissulega möguleiki á, ætti að hitna undir Óskari.

En talandi um borgarfulltrúa, þá sá ég líka að Stefán Jón er á leið til Afríku.  Ekki held ég að það hafi verið pólítísk ráðning, en það sakar þó aldrei að vera vel tengdur.  En hafi Sighvatur Björgvinsson ætlað að gera Samfylkingunni stóran greiða, þá hefði hann líklega sent Dag til Afríku, það kæmi betur út fyrir flokkinn í heild.

P.S. Persónulega fannst mér þessar umræður koma illa út fyrir Kastljósið.  Fóru úr böndunum og einhvern veginn fékk ég það svo sterkt á tilfinninguna, að frumkvæðið að "úttektinni" hefði ekki komið frá starfsmönnum RUV.  En það var bara tilfinning.

P.S.S.  Svona af því að margir stjórnmálamenn tala sínkt og heilagt um að allt eigi að vera "gegnsætt" og "uppi á borðinu", væri ef til vill ekki óeðlilegt að setja þær reglur að borgarfulltrúar og alþingismenn, sem eru jú á fullum launum hjá almenningi, verði að skila til þar til bærra aðila, samningum hvað varðar öll aukastörf sem þeir taka sér fyrir hendur.  Bara svona upp á "gegnsæið".

 


Fjölmargir miðlar

Eins og frem hefur komið í fréttum og ég reyndar bloggaði um fyrir stuttu, er komin ný alþjóðleg fréttarás, þar sem litið er á fréttirnar frá Frönskum sjónarhóli.  Rásin er samvinnuverkefni Group TF1 og Franska ríkissjónvarpsins og kemur Franska ríkið til með að borga brúsann, svona alla vegna að mestu leyti.

En það hefur fjölgað alþjóðlegu fréttarásunum og er jafnvel útlit fyrir að svo verði frekar.  Allir þekkja CNN og BBC, nú hefur eins og áður sagði France24 (þessi rás er sögð hafa verið sérstakt áhugamál Chirac forseta og hefur ýmist verið kölluð "Chirac TV" "Jaques TV" eða "Not The English News") bæst í hópinn og sömuleiðis alþjóðleg rás Al Jazeera.  Fyrir u.þ.b. ári byrjaðu Rússar að senda út alþjóðlega fréttarás, Russia Today en hún hefur ekki vakið mikla athygli og þykir hlutdræg.

Iran er sagt vera að undirbúa fréttarás, sem yrði kölluð "Press" og Kínversk stjórnvöld eru sömuleiðis sögð vera að hugleiða að setja á stofn rás.  Verða ekki allir að eiga eina?  Sömuleiðis eru víst einhverjar þreifingar um að setja á sérstaka fréttarás fyrir Afríku, én fjármögnun mun víst vera meira vandamál þar.

Sömuleiðis berast svo fréttir af mikilli útþennslu á Íslenskum fjölmiðlamarkaði, þó þar sé þennslan einskorðuð við prentmarkaðinn.  Ljósvakamarkaðurinn þykir varla árennilegur þar.

En nýtt vikublað, og líklega tvö ný dagblöð (þó að þau að einhverju marki byggi á gömlum grunni) er ekki lítil viðbót fyrir þjóð sem eingöngu telur u.þ.b. 300.000.

Það er nokkuð merkilegt að þetta skuli allt vera að gerast í einu, en líklega þykir mörgum að einhver "eyða" sé á markaðnum, en ólíklegt verður að teljast að öll áform gangi upp.

Það er þó ljóst að nýju alþjóðlegu fréttarásunum er ekki ætlað að skila hagnaði, þeim er ætlað að skila áhrifum.  Hvað Íslensku miðlana varðar, þá veit ég minna um það, en líklega er þeim þó ætlað hvoru tveggja.  Það hafa líklega fáir hug á því að borga lengi með blöðum á Íslenskum markaði, en það hafa  fáir efnast á blaðaútgáfu á Íslandi, en það er ekki hægt að neita því að útgáfunni geta fylgt áhrif.

 
mbl.is Viðskiptablaðið fimm sinnum í viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En auðvitað er þetta RUV að kenna

Ég hef fylgst með nokkurri undrun með þróun umræðu um RUV, veru þess á auglýsingamarkaði og stöðu samkeppnisaðila þeirra.

Hver þingmaðurinn og ráðherrann á fætur öðrum eru teknir í viðtöl í hinum ýmsu þáttum Stöðvar 2, og barið á þeim varðandi RUV, þannig að tilfinningin sem áhorfendur fá, er að RUV sé hreinlega að drepa alla keppinauta sína, mest aðkallandi sé að koma því af auglýsingamarkaði.  Stöð 2 og 365 veldið allt geti hreinlega ekki keppt við "Risann" og því sé viðvarandi taprekstur á fyrirtækinu og ekki gæti hreinlega stefnt í þrot.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að best færi á að selja RUV, en það er önnur saga sem ég blogga ef til vill um síðar, en ég kaupi samt ekki þessar röksemdafærslur að RUV sé stærsta ógnin sem standi að öðrum ljósvakamiðlum.

Nefnum nokkur dæmi.

Það er farið í risafjárfestingu, startað nýrri fréttastöð.  Til verksins er fenginn fréttamaður sem stuttu áður hafði hrakist úr starfi vegna ónákvæmni í vinnubrögðum og að því er hægt var að álíta, að láta tilganginn helga meðulin.  Tilraunin var skammvinn, fréttastöðin var lögð niður en líklega tapaði fyrirtækið hundruðum milljóna króna.  Þá geri ég ekki einu sinni tilraun til þess að verðmeta trúverðugleikatapið sem stöðin olli fyrirtækinu.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Það er keypt prentsmiðja í Bretlandi. Síðan á að selja hana nokkrum mánuðum síðar.  Líklega með hundruð milljóna tapi, ef ekki milljarða.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Það er startað nýrri sjónvarpsstöð, sem sendir út frítt. Eftir því sem mér hefur skilist þá skilar hún litlu í kassann og hefur jafnvel verið rekin með tapi.  Hún heggur að öllum líkindum skarð í bæði áskrifendur, áhorf og auglýsingasölu á Stöð 2.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Í uppboði gegn annari frjálsri sjónvarpsstöð er verð á Enska boltanum keyrt upp úr öllu valdi.  Margir efast um að mögulegt verði að láta það dæmi skila hagnaði.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Það er keypt tölvufyrirtæki á því sem margir telja uppsprengt verð (allt betra en að keppinauturinn kaupi fyrirtækið), útlit er fyrir að tap á því ævintýri kosti stórar upphæðir.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Staðreyndin er sú að vissulega nýtur RUV forskots, ríkisfyrirtæki gera það öllu jafna.  Þó ekki meira forskots heldur en að vitað var þegar 365 (eða öll þau fyrirtæki sem eru fyrirrennarar þess) var sett á laggirnar. 

Vandi 365 er fyrst og fremst sjálfskaparvíti.

Það eru teknar rangar ákvarðanir, boginn spenntur allt of djarft, allt of mikið fé sett í óraunhæfar hugmyndir og í hendur manna sem ekki kunna með það að fara.

En auðvitað er það RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Mín skoðun er að Dagsbrúnar/365 fólki myndi gefast betur að líta í eigin rann, og vinna út frá því sjónarmiði, að örlög þeirra séu í þeirra eigin höndum, en stjórnist ekki af því hvað gert verður eða ekki gert við keppinautinn með lagasetningum.

Ég man þá tíð að bæði fréttastofa Stöðvar 2 og Sjónvarpsins voru með um og yfir 40% áhorf, og Stöð 2 hafði jafnvel heldur betur á stundum.

En hvernig er staðan nú?  Fréttastofa NFS/Stöðvar 2 var síðast þegar ég vissi (í sumar) hálfdrættingur á við fréttstofu Sjónvarpsins, og náði ekki nema rétt ríflega 20% áhorfi, á meðan Sjónvarpið er rétt undir 40%.

Fréttastofa NFS/Stöðvar 2 hefur sem sagt tapað u.þ.b. helmingi af áhorfi sínu á fáum árum.

Það þarf ábyggilega meira en þá "andlitslyftingu" sem fréttirnar hafa nú nýverið fengið.  Ég held að það þurfi að stokka þær upp frá grunni og leggja áherslu á það að segja fréttir, það er ekki tilgangur fréttastofa að fella ríkisstjórnir, til þess fara menn í framboð.  Það þarf sömuleiðis að ritstýra fréttum með þeim hætti að ekki sé um hagsmunatengsl að ræða hvað varðar fréttamanninn og þeirra persónulega skoðun skíni ekki í gegn.

Ekkert er mikilvægara fyrir Stöð 2 en fréttastofan, að hún sé trúverðug, njóti trausts og byggi upp áhorf.  Fréttirnar eru grunnurinn að því að stöðin sé öflug. 

Njóti fréttastofan ekki trausts, nýtur sjónvarpsstöðin ekki trausts.


Heimurinn með augum Frakka

Þetta er auðvitað ágætis viðbót, sem að Chirac lætur Franska skattborgara greiða fyrir okkur hin. 

Þetta er áhugaverð tilraun, að leggja áherslu á útsendingar á netinu og sýnir hvað hlutirnir hafa breyst og hverju háhraðatengingar breyta landslaginu bæði á netinu og í fjölmiðlun almennt.  Þó verður stöðin einnig send út um gervihnetti og mun sjást á kapalrásum og nást á loftnet víða um heim.

Sjá nánari upplýsingar um stöðina á Wikipedia.

Ég trúi því þó varla þeim upplýsingum sem koma fram Wikipedia, að "budgetið" eigi ekki að vera nema 80 milljónir Evra á ári, ekki nema um 7400 milljónir ISK.  Ég held að það hljóti að vera rangar upplýsingar.

"Setuppið" er velþekkt, fréttalesari fyrir sitjandi fyrir framan glervegg, þar sem sjá má fréttamenn að störfum og hlaupa fram og til baka.  Þetta virðist eiga að vera 3. rásir, ensk, frönsk og arabísk, en þó virtist enska rásin og sú arabíska vera samkeyrðar á ensku þegar ég skoðaði málið. Mér skilst að arabíska rásin eigi að byrja útsendingar á næsta ári.

Vefsíðan kemur ekki upp í fullri útgáfu fyrr en á morgun, en útsendingar eru þegar hafnar.

Þó að sumir fréttaþulirnir tali enskuna með full miklum frönskum hreim, er þetta fín víðbót í flóruna.

Vefsíðan er:  http://www.france24.com 

 


mbl.is Ný alþjóðleg sjónvarpsfréttastöð hefur útsendingar frá Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á aðlögunarhæfni?

Ég var að hlusta á viðtal Evu Maríu við Margréti Sverrisdóttur í Sunnudagskastljósinu og svo aftur á viðtal við Guðjón Arnar í Kastljósi kvöldsins.

Það er mikið að í litlum flokki (sem sækir að vísu í sig veðrið í skoðanakönnunum).

En það er nokkuð ljóst að aðlögunarvandi (eins og Margrét komst að orði í Kastljósinu) Frjálslynda flokksins og meðlima Nýs Afls, er mun meiri en sá aðlögunarvandi sem erlent starfsfólk á Íslandi glímir við.

Þegar forystumenn flokksins ná svo ekki einu sinni að vera sammála um hugtökin "sagt upp" eða "rekin" er ekki von á að samkomulag náist í stærri málum.


The Rock N Roll Kid

Ég horfði á í ríkissjónvarpinu hérna í Kanada heimildamynd um rokkstjörnu, sem er rétt skriðinn á táningsaldur.

CBC sýndi í kvöld "The Rock & Roll Kid", þar sem  viðfangsefnið er 13. ára drengur sem þykir eitthvert mesta gítarleikaraefni sem sést hefur lengi.  Danny Sveinson hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað með hljómsveitum í nokkur ár, troðið upp í næturklúbbum og "túrað" víða um Kanada. Hann spilaði lengst af með hljómsveitinni "Sonic City", en hljómsveitin lagði upp laupana og ef marka má heimildamyndina, eru umboðsmaður Danny og Warner Brothers hér í Kanada að reyna að setja saman nýja hljómsveit í kringum strákinn.

Það verður að teljast afar líklegt að það eigi eftir að heyrast meira í Danny Sveinson í framtíðinni, en hér er umfjöllun um hann í Globe and Mail í dag og hér er frétt úr "lókalblaði" í Vancouver, en Danny býr með foreldrum sínum í Surrey B.C.

Það má finna þó nokkuð af klippum með Danny og Sonic City á YouTube, en geislaplöturnar þeirra fást ekki víða skilst mér.

Ef einhverjir eru síðan að velta því fyrir sér hvaðan nafnið Sveinson kemur, þá er það auðvitað ofan af Íslandi, en ég þekki þá sögu ekki til hlýtar, en drengurinn er af Íslenskum ættum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband