Færsluflokkur: Sjónvarp

Ný lína í spjallþáttum í sjónvarpi?

Núna þegar ég var að flakka um netið og horfa á Íslenskt sjónvarp þá tók ég í fyrsta sinn eftir að þættir frá INN voru komnir á netið, undir flipanum VefTV hjá www.visir.is

Ég get ekki sagt að ég hafi hrifist af þeim þáttum sem ég kíkti á.  Engu líkara var en að ný stefna hafi verið mörkuð í spjallþáttunum, þ.e.a.s. sú að þáttastjórnendur tali ekki nema við samflokksmenn sína.

Hér má sjá varaformann VG tala við framkvæmdastýru þingflokks VG, hér má sjá þingmann Framsóknarflokksins tala við "Framsóknarmann til 40 ára", og hér má sjá fyrrum þingmann Samfylkingar tala við borgarstjóra Samfylkingarinnar.

Hér má svo sjá sama fyrrverandi þingmann Samfylkingar ræða við núverandi þingmann Samfylkingar og þingmann Sjálfstæðisflokksins um EES/ESB, hér ræðir hann við mann sem ætlaði að bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar en hætti við og hér ræðir hann við framkvæmdastjóra Landverndar en þingmaðurinn fyrrverandi er formaður "Græna netsins" sem eru umhverfisverndarsamtök innan Samfylkingarinnar.

Þetta gefur orðinu "drottningarviðtöl" því sem næst nýja merkingu, enda má á köflum varla á milli sjá hvorir eru meira fram um að boða "fagnaðarerindi", spyrjendurnir eða viðmælendurnir.

Það hefur verið nokkuð algengt að fjölmiðlafólk leiti eftir frama í stjórnmálum, og ekkert nema gott um það að segja,  en einhvern veginn þykir mér það ekki jafn álitlegt þegar straumurinn liggur í hina áttina og stjórnmálamenn ætla að hassla sér völl í fjölmiðlum

En auðvitað er öllum frjálst að byggja upp sjónvarp eins og þeim best þykir, en ég er hálf hræddur um að þessi tök á stjórnmálaumæðu sé ekki líkleg til vinsælda, alla vegna get ég ekki sagt að ég hrífist af þeim.


Íslendingabók á Háaloftinu

  Fyrr í kvöld horfði ég á þátt úr myndaflokknum "Ancestors in the Attic", sem sýndur er hér á "Sögusjónvarpinu" (History Television).

Í þættinum í kvöld var fjallað um á meðal annara hluta, Íslendingbók og gríðarlegan áhuga Íslendinga á ættfræði.  Vissulega var umfjöllunin hröð og ekki mjög djúp, en það mátti samt hafa gaman af þessu.

Í þættinum var spallað við væntanleg brúðhjón, Jónas og Lindu, rætt var við Véstein Ólason um Landnámu, Eiríkur Guðmundsson sýndi og ræddi um manntalið frá 1703 og loks var rætt við Friðrik Skúlason um Íslendingabók og ættfræðiáhuga hans.

Allt þetta fólk kom alveg prýðilega fyrir og útskýrði málin svo þekkilegt var.

Þetta er reyndar í fyrsta sinn sem ég sé einhvern af þessum þáttum, enda horfði ég eingöngu vegna þess að fjallað var um Ísland.  Ekki er það svo heldur að ég fylgist svona vel með sjónvarpsdagsskránni, heldur er forsagan sú að snemma á árinu hafði einn af þeim sem sinnir rannsóknarvinnu fyrir þáttinn, Chris Robinson,  samband við mig til að forvitnast um Íslendingabók.  Hann heimsótti mig svo og sýndi ég honum í hvernig vefsíðan virkar og sagði honum frá því sem ég vissi um sögu hennar.

Þessi færsla er endurbirt hér vegna þess að hún féll einhverra hluta út, líklega vegna minna eigin mistaka.


Með frelsið að leiðarljósi?

Ég var að enda við að horfa á Siflur Egils á netinu.  Eins og oft áður skemmti ég mér dável yfir þættinum.  Viðtölin við Laffer og Ólaf Teit ágæt, ef nokkuð fyrirsjáanleg, en vettvangur dagsins stal algerlega senunni í þetta skiftið.

Sérstaka athygli mína þar vakti framganga Atla Gíslasonar, lögmanns og alþingismanns fyrir VG. 

Það vakti athygli mína þegar hann hvatti til þess að frelsið væri haft að leiðarljósi þegar talað var um útlendinga og afbrot þeirra og "svörtu sauðirnir" mættu ekki verða til þess að lagðar væru hamlandi kvaðir á alla útlendinga og ferðafrelsi þeirra skert með einhverjum "síum" og eftirlitsaðgerðum.

Í stuttu máli sagt, þá er ég sammála Atla í þessum málum, lögum á að beita til þess að ná þeim sem brjóta þau, en ekki til að setja um stór "gangverk" til að finna alla þá sem "hugsanlega" gætu átt það til að brjóta lögin, eða að draga alla undir "sama hatt" og meina þeim eitt eða annað, vegna þess að einhverjir hafa brotið lögin.  Atli sagði eitthvað á þessa leið:  Ég vil ekki skerða frelsi út frá undantekningum, hvorki ferðafrelsi né annað.

Gott ef hann notaði ekki orð eins og upphaf að fasisma og um slíka tendensa.

Það vakti því ekki síður athygli mína síðar í þættinum þegar Atla virtist ekki finnast neitt athugavert við það að banna eða hindra starfsemi svokallaðra nektarstaða, að því að mér virtist á sömu forsendum.  Þar ætti sér stað mansal og þvinganir.  Þar ætti sem sé ekki að beita lögunum á þá sem brjóta þau, heldur slengja banni á atvinnugreinina, alfarið burstséð frá því hvort að farið væri að lögum eður ei.

Þar ættu undantekningarnar að ráða ferðinni.

Eitt í dag og annað á ......

 


En netið?

Þó að sjálfsagt verði erfitt að koma nýrri sjónvarpsstöð á traustan áhorfsgrundvöll, þá líst mér ágætlega á framtakið og hún á líklega þokkalega möguleika að hassla sér þröngan en góðan áhorfshóp.

Hins vegar gat ég hvergi séð að efnið ætti að vera aðgengilegt á netinu, alla vegna gat ég ekkert fundið á www.inntv.is  Ég held að það hljóti að vera mikilvægt fyrir stöð í þessum samræðu/pólítíska flokki að hafa efni sitt aðgengilegt á netinu.  Sjálfur er ég búsettur erlendis en horfi t.d. á nær alla þætti af Silfri Egils á netinu, kíki stundum á Fréttir, Kastljós, Ísland í dag og leyfi börnunum að horfa á Stundina okkar stöku sinnum.  Allt á netinu.

Ef einhver hefur upplýsingar hvað þetta varðar eru þær velþegnar á í athugasemdir.


mbl.is Ný sjónvarpsstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsingasvindlararnir - Blessaður Swindler

Auðvitað er það skiljanlegt að framleiðendur hafi áhyggjur af því að áhorfendur horfi ekki á auglýsingar, það er jú þær sem oft standa undir stærstum hluta framleiðslukostnaðarins. 

Sjálfur kann ég ákaflega vel að meta að horfa á sjónvarpsefni á netinu  (t.d. Silfrið og Kastljós) og geta þannig sleppt því að horfa á auglýsingarnar.  Af sömu ástæðu kaupi ég gjarna þær kvikmyndir sem ég hef áhuga á á DVD (við Bjórárhjónin förum ákaflega sjaldan í kvikmyndahús, sáum síðast Bjólfskviðu), því að horfa á í sjónvarpi er hrein hörmung og hreinlega tímaþjófur.

En það var þó þessi setning eða öllu heldur mannsnafnið sem kemur fram í henni sem vakti mesta athygli mína í þessari frétt.

Við þurfum öll að verða meira skapandi í því hvernig við komum kostun inn í sjónvarpsefni okkar,” segir Ed Swindler, ..."

 Þetta hlýtur að vera erfitt nafn að bera, sérstaklega þó í sjónvarps og auglýsingabransanum, og þó, það vekur vissulega athygli.

En það er gott að hann fór ekki í herinn, Major Swindler hefði eiginlega verið "overkill", General Swindler sömuleiðis.


mbl.is Reynt að koma í veg fyrir að áhorfendur sniðgangi auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju hefur Geir Haarde öll tromp á hendinni

Það hafa ýmsir verið hissa á því hve ýmsir meðlimir stjórnarandstöðunnar hafa fullyrt að Geir Haarde hafi öll tromp á hendi.

Sumir, s.s. Ómar Ragnarsson reyna að halda því fram að vinstristjórnin sé sterk í spilunum, það sé líklegur möguleiki og svipan sem sé hægt að nota á Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta hljómar ekki ólíklega, en það er tvennt sem mælir sterklega á móti þessum möguleika.  Í fyrsta lagi þá finnst mér frekar ólíklegt að framsóknarmenn og vinstri grænir hafi gríðarlegan áhuga á því að leiða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til hásætis í nýrri ríkisstjórn, minnugir reynslunnar úr R-listanum.

Svo fór það ekki fram hjá neinum sem horfði á leiðtogaumræðurnar a RUV í gærkveldi að það liggja engir leyndir ástarþræðir á milli Steingríms J. og Jóns Sigurðssonar.  Ég held að krafa Steignríms um afsökunarbeiðni frá Jóni og Framsóknarflokknum hafi sýnt og sannað það að mikið þurfi að ganga á til að þeir starfi saman í ríkisstjórn. 

Persónulega þætti mér ekki ólíklegt að það sé þegar búið að þreifa fyrir sér með þennan möguleika af hendi Samfylkingar.  Útkoman hafi verið neikvæð.

Þess vegna tala Samfylkingarmenn eins og Össur Skarphéðinsson í Silfrinu í gær um að Geir Haarde hafi öll tromp á hendi.

Þetta vita menn eins og Ómar Ragnarsson hins vegar ekki, að því virðist vera, staðan hans er auðvitað sú að hann er ekki í "lúppunni".


Kosningavaka að Bjórá

Það er ef til vill orðum aukið að það sé rífandi stemming á kosningavökunni hér að Bjórá.  Það háir henni mikið hve fámenn hún er.  Ég er eini heimilismaðurinn sem hefur verulegan áhuga á Íslenskri pólitík.

Ég sit því einn hér fyrir framan tölvuna og horfi sitt á hvað á kosningasjónvarp RUV og Stöðvar 2.  Það eru flögur í skálinni, salsa á boðstólum og Tékkneskur mjöður á borðinu.

Ég verð að segja að þó að "lookið" hjá Stöð 2 sé miklu svalara þá leita ég alltaf meira og meira yfir á RUV.  Einhvern veginn finnst mér betri stemmning þar og svo er Ólafur Þ. Harðarson ákaflega heimilislegur áheyrnar.

En spennan er gríðarleg, þó að heldur hafi dregið úr henni, það virðist vera nokkuð ljóst að stjórnin "lafi", þó að það sé ekki alveg útséð með það, en stærsta spurningin virðist vera hvort staðan hjá Sjálfstæðisflokki verði 24 eða 25 þingmenn, og 7 eða 8 hjá Framsóknarflokknum.

En þessu er vissulega ekki lokið fyrr en "feita konan" syngur.

P.S.  Var að heyra sigurlagið úr Eurovision, get ekki sagt að það hrífi mig.


Góður kosningaþáttur á Stöð 2

Ég var að enda við að horfa á þátt með stjórnmálaleiðtogunum á Stöð 2, og ég verð að segja að þetta er einhver sá albesti, ef ekki sá besti pólitíski þáttur sem ég hef séð í Íslensku sjónvarpi.  Engin spurning um að þetta er besti þátturinn sem ég hef séð fyrir þessar kosningar.

Þarna var bryddað upp á nýjungum og þáttastjórnunin var að mestu leyti til fyrirmyndar.  Hnitmiðuð og nokkuð snörp umræða og 5 mínútna "maður á mann" hlutinn góð viðbót.

Ef það er eitthvað sem mér finnst orka tvímælis, þá var það að vera með "dómara" á stjórnmálaforingjana.  Enda fannst mér þeir standa sig mun verr heldur en leiðtogarnir, og í raun óþarfi að vera að "barna" þetta góða sjónvarpsefni, kjósendur/áhorfendur eru full færir um að mynda sér skoðun á því hver stóð sig best, án hjálpar "álitsgjafa".

En enginn stóð sig illa í þættinum að mínu mati, en leiðtogarnir stóðu sig vissulega mismunandi vel. Auðvitað fara allir varlega, enda eins og oft er sagt, erfitt að vinna nokkuð í þætti sem þessum, en auðvelt að tapa verulega.

Persónulega fannst mér Geir Haarde standa sig best, en Ingibjörg Sólrún gaf honum þó eiginlega ekkert eftir.  Munar þar mestu að hún virðist hafa náð að pakka saman "Soffíu frænku" tóninum og er núna jákvæðari og léttari.  Að mínu mati allt annað að horfa á hana.

Botnin í mínu mati skröpuðu Ómar Ragnarsson og Jón Sigurðsson.  Ef til kemur það fram hve stuttur þeirra pólitíski ferill er, en þeir náðu einhvern veginn ekki takti í þættinum.  Steingrímur var vel mælskur eins og endranær, en einhver pirringur skein í gegn hjá honum í byrjun.  Guðjón sigldi lygnan sjó.

En mér leist feykivel á uppsetninguna hvað varðar kosningasjónvarpið hjá Stöð 2.  Nú er bara að vona að netþjónarnir standi sig vel á kosninganóttina svo að ég geti notið þess hér í Kanada.  Stemingin verður ef til vill ekki rífandi hjá mér einum, en næg samt til að kaupa bjór og snakk.  Svo er hægt að pirra vini og kunningja á Íslandi með því að hringja ótt og títt.


Er lýðræðið of mikilvægt til að hægt sé að treysta kjósendum fyrir því?

Ég horfði á Silfur Egils, svona á hlaupum með öðru í dag.  Ég verð að segja að í heild fannst mér þátturinn frekar dapur, þó að vissulega kæmu sprettir.

Vettvangur dagsins var ekki mjög skemmtilegur, þó kom Lýður mér skemmtilega á óvart, lang frambærilegasti forystumaður Frjálslyndra sem ég hef heyrt í fyrir þessar kosningar, ekki "smurðasta" sjónvarpsframkoman, en það sem hann hafði að segja var einhvers virði.

Síðan eitt enn viðtalið við Jón Baldvin, það er engu líkara en að Jón Baldvin sé á fullu að rukka inn gamla greiða hjá fjölmiðlafólki, persónlega næ ég því ekki hver tilgangurinn er með öllum þessum viðtölum við hann, nema að þetta eigi að uppfylla einhverja nostalgíu þörf hjá gömlum krötum.

A tímabili fannst mér eins og ég sæti á kaffihúsi og heyrði "óvart" samtal tveggja Samfylkingarmanna á næsta borði, þar sem þeir skeggræddu hvað gæti nú komið flokknum þeirra til hjálpar og hvað pólítíkin væri ósanngjörn.  Komment eins og um "ljóskuna í Menntamálaráðuneytinu" gerðu ekkert nema að undirstrika þá tilfinningu (ég býð eftir því að öll "kvenfrelsisfylkingin" særi Jón niður fyrir þetta orðbragð).

Annað sem mér fannst stórmerkilegt að heyra Jón segja, var að ef að ekki væri skipt um ríkisstjórn, væri lýðræðið ekki að virka.  Það er sem sé ekki almennilegt lýðræði, ef kjósendur kjósa ekki til að breyta.

Hvílíkt og annað eins rugl.

Þetta er eins og að segja að lýðræðið sé of mikilvægt til að treysta kjósendum fyrir því.

Auðvitað notar fólk kosningaréttinn til að velja þann kost sem hverjum og einum líst best á.  Eðli hlutanna samkvæmt endurnýja kjósendur umboð þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn, ef þeim þykir svo að betri kostir bjóðist ekki.

En það er einmitt meinið, vinstriflokkunum gengur illa að setja sjálfa sig fram sem betri og skynsamlegri kost, því eru þeir farnir að hamra á því að best sé að breyta, breytinganna vegna, enginn eigi að sitja lengi, heldur þurfi að breyta til.  Þetta er farið að hljóma hættulega nálægt pólitísku gjaldþroti ef þið spurjið mig.

Jón er að mínu mati reyndar farinn að hljóma eins og gamall þreyttur pólitíkus, sem er sársvekktur yfir því að þjóðin hefur plummað sig sem aldrei fyrr, eftir að hann hvarf frá stjórnvellinum, finnst eins og honum sé ekki nægur sómi sýndur, og reynir því eftir fremsta megni að troða sér í "spottið" og útdeila visku sinni, sem honum finnst of fáir fara eftir.

Langbesti partur þáttarins var hins vegar viðtalið við Slavoj Zizek, þó að ég sé ekki endilega sammála öllu því sem hann sagði, þá er ekki annað hægt en að hrífast af málflutningi hans og því af hvað miklum innileik hann setur fram mál sitt.  Hann veltir upp flötum og hlutum og kemur af stað hugsunum, ákaflega skemmtilegt að hlusta á hann.

Ég hef ekki lesið neitt efti Zizek, en keypti fyrir viku eða svo Revolution at The Gates, en þar velur hann úr ritverkum Lenins frá 1917, og skrifar inngang og eftirmála.  Líklega verð ég að fara að drífa í því að koma henni í lestur.

P.S. Ég hélt að flestum hefði verið það ljóst að hin "stóra sameining" vinstrimanna hefði mistekist þegar árið 1999, þegar Samfylkingin og VG buðu fram, en ekki einn flokkur.


Af kosningafundum - Stöð 2 að gera mun betur en RUV

Ég hef verið að rembast við að horfa á kosningafundina sem sjónvarpsstöðvarnar bjóða upp á af miklum myndarskap á netinu.

Ég get nú ekki sagt að mér finnist neinn hafa unnið mikla sigra þar og að sama skapi hafa ósigrarnir ekki verið stórir.  Stjórnmálaforingjarnir hafa komist þokkalega frá sínu, engin stór afglöp hafa litið dagsins ljós og engum sérstaklega stórum trompum spilað út.

Það fara líklega allir heldur varlega, enda oft verið sagt að nær engin leið sé að vinna kosningar á fundum sem þessum, en auðveldlega hægt að tapa þeim.

Ég verð þó að segja að mér finnst þættir Stöðvar 2 koma mun betur út.  Ekki það að spyrlar á báðum stöðum standa sig ágætlega, þó að vinningurinn fari frekar í átt til Stöðvar 2.  Það sem dregur RUV fundina fyrst og fremst niður að mínu mati er hið mislukkaða "borgarafundsform".

Það er ámátlegt að horfa upp á frambjóðendurnur og einhverjar "plöntur" flokkanna stand þar upp og vera með fyrirspurnir.  Það var líka ámátlegt í RUV þættinum að  sjá labbað um á Selfossi vegfarendur spurðir þar um landbúnaðarmál.  Er það sérmál Selffyssinga? 

Trompið hjá Stöð 2 er svo líklega Egill, hann nær því sem næst alltaf að búa til skemmtilegar umræður og er oft býsna lunkinn að koma með nýja fleti og sjónarhorn.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband