Af meintum "kosningakaupum"

Mér þykir oft nokkuð merkilegt hvað margir hafa lítið álít á almenningi, nú eða kjósendum.

Vissulega verður ekki á móti því mælt að auglýsingar hafa áhrif, ég held að enginn geti neitað því.  En ég er þó þeirrar skoðunar að til að auglýsingar hafi veruleg áhrif verði eitthvað að búa að baki þeim.

Þó að ég hafi oft keypt eitthvað sem ég hefði ekki gert án þess að sjá auglýsingu um viðkomandi vöru, þá man ég ekki eftir því að hafa keypt eitthvað trekk í trekk, án þess að mér hafi þótt viðkoandi vara góð eða nýtileg.

Ég man líka eftir því að hafa séð ótal auglýsingar frá Framsóknarflokknum án þess að hafa nokkurn tíma látið glepjast til að kjósa þann flokk. 

Ég hef hlustað á margar ræður fluttar af Steingrími J. Sigfússyni, oft dáðst að mælsku hans og látbragði, en það hefur aldrei hvarflað að mér að kjósa VG.

Allar auglýsingarnar sem Ástþór birti fyrir forsetakosningarnar 1996 lét yfirgnæfandi stærstan hóp kjósenda ósnertan.

En skyndilega er allt vitlaust af því að Alcan vogar sér að gefa geisladisk, kosta umræðuþátt í sjónvarpi og hefur sömuleiðis boðið Hafnfirðingum á einhverja íþróttakappleiki.

Persónulega hef ég ekki trú á því að slík boð, eða slík kostun breyti skoðunum eins eða neins, ég hef meiri trú á kjósendum en það.  Hitt er ekki ólíklegt að slíkt fái fleiri til að hugsa málið, velta hlutunum fyrir sér, ja svona rétt á meðan rifið er utan af DVD disknum.  Gæti jafnvel fengið fleiri til að taka þátt í kosningunum, mæta á kjörstað.  Það væri sannarlega af hinu góða.

Auðvitað á umræðan ekki að snúast um hvort forsvaranlegt sé að þetta eða hitt fyrirtækið "kosti" einhverja þætti.  Ef menn vilja taka slíka umræðu á hún að snúast um hvort að forsvaranlegt sé að fyrirtæki séu að kosta þætti í sjónvarpi, og ef menn vilja geta þeir tekið umræðu eða fréttatengda þætti þar sérstaklega út úr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband