En auðvitað er þetta RUV að kenna

Ég hef fylgst með nokkurri undrun með þróun umræðu um RUV, veru þess á auglýsingamarkaði og stöðu samkeppnisaðila þeirra.

Hver þingmaðurinn og ráðherrann á fætur öðrum eru teknir í viðtöl í hinum ýmsu þáttum Stöðvar 2, og barið á þeim varðandi RUV, þannig að tilfinningin sem áhorfendur fá, er að RUV sé hreinlega að drepa alla keppinauta sína, mest aðkallandi sé að koma því af auglýsingamarkaði.  Stöð 2 og 365 veldið allt geti hreinlega ekki keppt við "Risann" og því sé viðvarandi taprekstur á fyrirtækinu og ekki gæti hreinlega stefnt í þrot.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að best færi á að selja RUV, en það er önnur saga sem ég blogga ef til vill um síðar, en ég kaupi samt ekki þessar röksemdafærslur að RUV sé stærsta ógnin sem standi að öðrum ljósvakamiðlum.

Nefnum nokkur dæmi.

Það er farið í risafjárfestingu, startað nýrri fréttastöð.  Til verksins er fenginn fréttamaður sem stuttu áður hafði hrakist úr starfi vegna ónákvæmni í vinnubrögðum og að því er hægt var að álíta, að láta tilganginn helga meðulin.  Tilraunin var skammvinn, fréttastöðin var lögð niður en líklega tapaði fyrirtækið hundruðum milljóna króna.  Þá geri ég ekki einu sinni tilraun til þess að verðmeta trúverðugleikatapið sem stöðin olli fyrirtækinu.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Það er keypt prentsmiðja í Bretlandi. Síðan á að selja hana nokkrum mánuðum síðar.  Líklega með hundruð milljóna tapi, ef ekki milljarða.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Það er startað nýrri sjónvarpsstöð, sem sendir út frítt. Eftir því sem mér hefur skilist þá skilar hún litlu í kassann og hefur jafnvel verið rekin með tapi.  Hún heggur að öllum líkindum skarð í bæði áskrifendur, áhorf og auglýsingasölu á Stöð 2.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Í uppboði gegn annari frjálsri sjónvarpsstöð er verð á Enska boltanum keyrt upp úr öllu valdi.  Margir efast um að mögulegt verði að láta það dæmi skila hagnaði.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Það er keypt tölvufyrirtæki á því sem margir telja uppsprengt verð (allt betra en að keppinauturinn kaupi fyrirtækið), útlit er fyrir að tap á því ævintýri kosti stórar upphæðir.

En það er auðvitað RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Staðreyndin er sú að vissulega nýtur RUV forskots, ríkisfyrirtæki gera það öllu jafna.  Þó ekki meira forskots heldur en að vitað var þegar 365 (eða öll þau fyrirtæki sem eru fyrirrennarar þess) var sett á laggirnar. 

Vandi 365 er fyrst og fremst sjálfskaparvíti.

Það eru teknar rangar ákvarðanir, boginn spenntur allt of djarft, allt of mikið fé sett í óraunhæfar hugmyndir og í hendur manna sem ekki kunna með það að fara.

En auðvitað er það RUV að kenna að illa gengur að ná endum saman.

Mín skoðun er að Dagsbrúnar/365 fólki myndi gefast betur að líta í eigin rann, og vinna út frá því sjónarmiði, að örlög þeirra séu í þeirra eigin höndum, en stjórnist ekki af því hvað gert verður eða ekki gert við keppinautinn með lagasetningum.

Ég man þá tíð að bæði fréttastofa Stöðvar 2 og Sjónvarpsins voru með um og yfir 40% áhorf, og Stöð 2 hafði jafnvel heldur betur á stundum.

En hvernig er staðan nú?  Fréttastofa NFS/Stöðvar 2 var síðast þegar ég vissi (í sumar) hálfdrættingur á við fréttstofu Sjónvarpsins, og náði ekki nema rétt ríflega 20% áhorfi, á meðan Sjónvarpið er rétt undir 40%.

Fréttastofa NFS/Stöðvar 2 hefur sem sagt tapað u.þ.b. helmingi af áhorfi sínu á fáum árum.

Það þarf ábyggilega meira en þá "andlitslyftingu" sem fréttirnar hafa nú nýverið fengið.  Ég held að það þurfi að stokka þær upp frá grunni og leggja áherslu á það að segja fréttir, það er ekki tilgangur fréttastofa að fella ríkisstjórnir, til þess fara menn í framboð.  Það þarf sömuleiðis að ritstýra fréttum með þeim hætti að ekki sé um hagsmunatengsl að ræða hvað varðar fréttamanninn og þeirra persónulega skoðun skíni ekki í gegn.

Ekkert er mikilvægara fyrir Stöð 2 en fréttastofan, að hún sé trúverðug, njóti trausts og byggi upp áhorf.  Fréttirnar eru grunnurinn að því að stöðin sé öflug. 

Njóti fréttastofan ekki trausts, nýtur sjónvarpsstöðin ekki trausts.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband