Færsluflokkur: Sjónvarp
1.2.2009 | 06:32
Á Dagvaktinni
Af tilefni væntanlegra stjórnarskipta tók ég mig til og byrjaði að horfa á Dagvaktina um leið og tekist hafði að koma börnunum í rúmið, rétt um 8, en ég fékk DVD diskinn í jólagjöf, en hafði ekki gefið mér tíma til að horfa fyrr en nú. "Vaktinni" lauk núna, rétt um 1:30.
Þetta var hin prýðilegasta skemmtun, góður húmor og kolsvartar senur. Góður leikur og umgjörð öll hin fagmanlegasta. Þá litlu hnökra sem ég tók eftir tekur ekki að minnast á.
Það var líka tilhlýðilegt að hlusta á Georg Bjarnfreðarson flytja 17. júni erindi í lokin, það tryggir að ég sef eins og steinn.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2009 | 06:24
Það er margt okið
Það er merkilegur fögnður að losna undan oki þeirra sem aldrei hafa haft nein afskipti af viðkomandi.
Það var alla vegna það sem Sigmundur Ernir lét hafa eftir sér þegar Einar Már ásakaði hann um að hafa rekið sig sem pistlahöfund í Mannamáli, að kröfu "auðjöfra". Engin hafði nokkurn tíma sett á hann pressu, eða skipt sér af störfum hans. En nú er Sigmundur feginn að vera laus undan okinu.
En það eru ákveðin kaflaskil sem verða hjá Stöð 2, þegar Sigmundur hverfur af skjánum, ég er nokkuð viss um að margir eiga eftir að sakna hans. Hann hefur verið akkeri stöðvarinnar á meðan aðrir hafa komið og farið.
En mér sýnist að Stöð 2 sé að breyta um stefnu, líklega verður hún keyrð æ meira á léttmeti og afþreyingu og minni áhersla lögð á það efni sem skilar ekki áskrifendum, s.s. það sem er í opinni dagskrá.
Í þessu árferði er líklega hætt við að auglýsingar dragist verulega saman og erfiðara að reka þætti á slíkum tekjum.
Frjáls undan oki auðjöfra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.11.2008 | 21:48
Eru Egill, Samfylkingin og Sigrún Elsa að reyna að endurrita söguna?
Það vakti athygli mína nú þegar ég var að horfa á Silfur Egils á netinu að Egill virtist þakka Sigrúnu Elsu Smáradóttur að REI og GGE voru ekki sameinuð og þekking og viðskiptavild Orkuveitunnar komst ekki í hendur "útrásarvíkinganna".
Elsa vildi nú ekki viðurkenna að hún hefði gert það ein og sér, en virtist nú samt vilja eigna sér einhvern heiður af þessu.
Einhvern veginn get ég ekki skilið hvernig minnihlutinn fór að því að stöðva málið.
En þessi frétt RUV skýrir ef til vill málið að einhverju marki.
Fréttin sem heild er hér:
Fyrst birt: 12.10.2007 12:05Síðast uppfært: 12.10.2007 14:50Dagur B. Eggertsson, verðandi borgarstjóri Reykvíkinga, telur að sé ekki sé unnt að koma í veg fyrir samruna REI og Geysis Green Energy; bíða verði niðurstöðu dómsmáls sem Svandís Svavarsdóttir hefur höfðað.
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem greiddi atkvæði með samrunanum, segist enn sömu skoðunar. Nýr meirihluti fer brátt í heildarstefnumótum í málefnum Orkuveitunnar undir forystu Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa VG, sagði Dagur í gærkvöldi.
Dagur segir að eins mikill tími verði tekinn í það eins og þurfi. Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sat eigendafundi OR þegar samruni Geysis Green og REI var samþykktur.
Sigrún Elsa greiddi atkvæði með samrunanum og sagði í viðtali á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun að hún hefði ekki skipt um skoðun. Hún á von á því að eigendafundurinn verði endurtekinn. Þá ætli nýi meirihlutinn að fara vel yfir málið. Sigrún Elsa segir Björn Inga hafa gengist undir það að nú verði það sem gerðist á lokuðum stjórnarfundum REI dregið fram í dagsljósið.
Dagur segir ekkert athugavert við það að mynda nú meirihluta með Birni Inga Hrafnssyni þótt hann hafi átt virkan þátt í því að samþykkja samruna REI og Geysis Green Energy og heimila kaup einstaklinga, þar á meðal Bjarna Ármannssonar og Jóns Diðrik Jónssonar, á stórum hlutum í REI.
Einhvern veginn fæ ég ekki skilið hvernig borgarfulltrúinn sem greiddi atkvæði með samrunanum og segist 12. október 2007 ekki hafa skipt um skoðun (þá var fyrsti meirihlutinn sprunginn) hafi bjargað miklu í þessu máli.
Sjónvarp | Breytt 3.11.2008 kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.10.2008 | 14:55
Björn (Ingi) á Markaði
Ég var að enda við að horfa á nýja spjallþáttinn, Markaðinn á Stöð 2. Þátturinn var að mörgu leyti ágætur, enda alltaf fróðlegt að heyra mismunandi sjónarhorn.
Það sem stóð upp úr í þættinum mínu mati var innlegg Gylfa Zoega. Hann talaði af þekkingu, án upphrópana, skýrði málin og líklega sá eini í þættinum sem ekki blandaði pólítík í mál sitt.
En það er einmitt líklega helsti galli þáttarins. Pólítíkin er þar yfir, undir og allt um kring. Björn Ingi svissar á milli þess að vera þáttastjórnandi og Framsóknarmaður og virkar langt í frá traustvekjandi, enda man almenningur hann líklega betur sem aðstoðarmann Halldórs Ásgrímssonar og borgarfulltrúa heldur en sem blaðamann. Sem borgarfulltrúi var hann einn helsti hvatamaður þess að útrásinni væri hleypt af stað hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Nú situr hann og "kryfur" málin og veltir upp hagsmunum þeirra "sem ekki tóku þátt í veislunni". Trúverðugt?
Ég held ekki.
En þetta er líklega eitt af vandamálum Íslendinga, samþáttun stjórnmála, viðskipta og fjölmiðla. Þar er fátt sem skilur á milli.
Góður punktur sem kom út hjá mér hlátrinum var þegar Þorsteinn Pálsson sagði eitthvað á þessa leið við Björn Inga: Og auðvitað er þetta líka bara ég og þú sem hafa eytt of miklu. Björn Ingi svaraði "örugglega" og hélt áfram að ráðast á Seðlabankann.
En í stíl við tíðarandann ætti þátturinn auðvitað að heita "Björn á markaði".
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.8.2008 | 19:31
Á allt að gerast í beinni?
Það hefur verið svolítið skondið að fylgjast með umræðunni um myndun nýs meirihluta í Reykjavík.
Margir fjölmiðlamenn (og þá ekki síður bloggarar) hafa hamast á því að stjórnmálamenn segi ósatt. Taka þeir þá helst til að Hanna Birna (og líklega fleiri Sjálfstæðismenn) hafi nýlega talað eins og ekkert væri nema gott af frétta af meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og F-lista (hvað sem það nú er).
Einnig hafi Óskar Bergsson ekki viljað kannast við neinar viðræður fyrr en allt var að heita komið á koppinn og þar fram eftir götunum.
Vilja ýmsir meina að þetta séu ekki heiðarleg vinnubrögð og stjórnmálamenn segi ekki satt.
Líklega má til sanns vegar færa að ekki hefur allur sannleikurinn verið á borð borinn fyrir fréttamann, en það er eðli stjórnmála þegar vinna þarf með öðrum og mál kunna vera á viðkvæmu stigi.
Stjórnmál eru ekki endilega best komin í beinni útsendingu (þó að ýmsir stjórnmálamenn virðist hvergi kunna betur við sig).
Stjórnmál eru ekki raunveruleikaþáttur í sjónvarpi, þar sem öllu er varpað á skjáinn jafnóðum.
Auðvitað er eðlilegt að öll vandamál séu ekki borin á torg, heldur reynt að vinna úr þeim með samstarfsaðilum. Það sama gildir að sjálfsögðu um viðræður flokka á milli.
Það sama gildir reyndar oft í mannlegum samskiptum.
Þegar við mætum í vinnuna eftir helgina og erum spurð að því hvernig við höfum það, byrjum við ógjarna á því að segja að við höfum lent í rifrildi við makann eftir að hafa klúðrað grillinu á laugardagskvöldið. Sunnudeginum höfum við eytt í andlegri og líkamlegri þynnku og að helgin hafi í flesta staði verið ömurleg. Nei, við svörum auðvitað "bara fínt".
Ástandið í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki verið gott á yfirstandandi kjörtímabili (en horfir vonandi til betri vegar) en fjölmiðlar hafa því miður verið gjarnir á að hella olíu á eldinn, gengið hart fram og jafnvel legið á gluggum.
Það er ekkert eðlilegra en að stjórnmálamenn reyni að halda upplýsingum frá fjölmiðlum á ákveðnum tímum.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2008 | 03:53
Gamli góði Júlli
Það er bersýnilegt að það þykir "inn" að sjónvarpsstöðvar séu í stjórnmálabaráttu á Íslandi. Taki afstöðu og standi með henni. Ekkert að því ef það er gert á beinan og heiðarlegan máta eins og gert er hér.
En eins og eðlilegt er eru líklega fleiri en ein og fleiri en tvær skoðanir á því hver er best til þess fallin að leiða borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna.
Ég er ekki viss um að það teljist Júlíusi til framdráttar að helstu stuðningsmenn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar lýsi yfir stuðningi við hann, margir eru án ef þeirrar skoðunar að betra sé að láta aðra um valið.
Skyldu þeir kynna hann til sögunnar sem "Gamla góða Júlla"?
Að því leiti líkist þetta "kossi dauðans".
En auðvitað er eðlilegast að Hanna Birna sem skipaði 2. sætið taki við, en auðvitað má hugsa sér að aðal og varamenn í borgarstjórn greiði atkvæði, því mikilvægt er að næsti borgarstjóri njóti stuðnings alls hópsins.
En ég hjó eftir því í frétt í dag, að Geir Haarde talaði um að sá sem tæki við, myndi leiða flokkinn í gegnum prófkjör og næstu kosningar, árið 2010.
Það er eitthvað sem segir mér að það sé alls ekki gefinn staðreynd, að sá sem leiðir borgarstjórnarflokkinn þegar haldið er í prófkjör, leiði borgarstjórnarflokkinn að prófkjöri loknu.
Ef ég hefði atkvæðisrétt í því prófkjöri, yrði Júlíus ekki fyrir valinu.
Lýsir stuðningi við Júlíus Vífil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2008 | 23:51
Innanflokksátök eða þverpólítísk samstaða?
Ég get ekki annað en glott út í annað þegar ég sé Samfylkingarfólk fara hamförum yfir meintri pólítískri þátttöku fréttastofu Stöðvar 2. Öðruvísi mér áður brá.
En það skondnasta í þessu öllu fannst mér þó sú staðreynd að eftir að hafa farið og hlustað á fréttina á Vísi, þá gat ég ekki betur heyrt en að spyrjandinn sem Ingibjörg varð svona pirruð út í sé fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og hafi um hríð verið í framboði til varaformanns flokksins. Ef til vill flokkast þetta því sem innanflokksátök?
En það er þó ekki hægt að líta fram hjá því að viðkomandi er auðvitað ekki eini fréttamaðurinn á Stöð 2 sem hefur sterk tengsl í stjórnmálaflokk.
Því má ef til vill draga þá ályktun að það hafi náðst þverpólítísk samstaða á fréttastofunni um að gera Ingibjörgu lífið leitt.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2008 | 16:26
Á næturvaktinni
Það er orðið mun "auðveldara" að vera fjarri heimahögunum en áður var. Það er hægt að fylgjast vel með fréttum, lesa bæði blöð á netinu sem og horfa á sjónvarpsfréttir, umræðuþætti, og spurningaþætti ef svo ber undir, það er hægt að hringja "heim", án þess að það kosti nokkuð sem heitir og halda þannig sambandi við fjölskyldu og vini.
En eitt af því sem ekki er hægt er að njóta á netinu er leikið Íslenskt efni.
En í hálfgerðu letikasti settist ég niður í gærkveldi og horfði á Næturvaktina, en mér áskotnaðist DVD diskar með þættunum í jólagjöf, en hef ekki gefið mér tíma til að horfa fyrr en nú.
Mér þótti þættirnir fara hægt af stað, en hver þáttur betri en sá fyrri og áður en gengið var til náða hafði ég horft á 8. þætti. Það hlýtur að teljast meðmæli.
En þættirnir eru góðir, þó að ef áhugi er fyrir hendi megi finna ýmsa galla. En þröngt sögusvið og góðir karakterar er vel nýtt. Sú hugmynd að krydda þættina með raunverulegum "stjörnum" úr daglega lífinu tekst afar vel og lyftir þáttunum upp.
Nú þarf ég bara að finna mér tíma til að horfa á 4. síðustu þættina.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2008 | 20:12
Persónur og leikendur
Flestir hafa líklega heyrt af "eggjakasti Stöðvar 2" og eftirköst þess. Ég hlustaði í gærkveldi á vitöl við Láru Ómarsdóttur, fannst hún koma vel fyrir, útskýra vel sitt mál og hafa tekið rétta ákvörðun.
En nú í dag sá ég þessa frétt á Eyjunni, sem rekur uppruna sinn til Vefritsins.
Í greininni í Vefritinu segir orðrétt:
Hið meinta grín á sér hins vegar hliðstæða sögu sem var lítið grín, enda ekki tekin upp. Ekki ósvipuð atburðarás varð við ráðhús Reykjavíkur í janúar. Þegar boðuð mótmæli áttu að vera hafin var fátt að gerast fyrir utan ráðhúsið. Mótmælendur höfðu komið sér fyrir inni í húsinu enda vont veður og fólk stóð þar inni þögult og grafalvarlegt. Eitthvað þótti þetta óáhugavert sjónvarpsefni fyrir fréttastofuna sem hafði dröslað öllu sínu hafurtaski niður í bæ. Fréttamaðurinn skammaðist í þeim sem honum þótti bera ábyrgð á samkomunni og bað um að safnað yrði saman hópi fólks fyrir utan húsið sem væru með almennileg mótmæli fyrir myndavélarnar. Og það var gert.
Gjörningur fréttamannsins hafði ekki áhrif á eftirleikinn en gaf tóninn fyrir fréttir af mótmælunum.
Það er kannski ekki skrítið að fréttamenn freistist til svona leikstjórnartilburða, enda grútleiðinlegt að eyða hálfum vinnudegi í að segja ekki-fréttir. Íslenskir stríðsfréttaritarar hafa þar að auki ekki úr mörgu að moða. Auk þess, og það sem er áhugaverðast, verður skemmtanagildi frétta sífellt mikilvægara og samkeppni milli fréttastofa gerir það að verkum að fátt kemst í fréttir nema það sé í melódrama- eða sirkuslíki.
Persónulega finnst mér þetta ákaflega alvarleg fullyrðing. Ekki kemur fram hvor sjónvarpsfréttastofan á í hlut. En ásökunin er alvarleg.
Síðan má bæta við þeirri frásögn Péturs Gunnarssonar í sjónvarpi, að sjónvarpsfréttamaður hefði beðið Björn Bjarnason að endurtaka það þegar hann heilsaði upp á áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar hún hrapaði í sjóinn skammt frá Straumsvík. Björn á að hafa svarað að þetta væri ekkert leikhús.
Ég held að bæði RUV og Stöð 2 verði að framkvæma innanhússrannsókn hvað sviðsetningar varða. Er slíkt athæfi útbreitt? Er algengt að Íslendingum sé boðið upp á "sviðsettar" fréttir? Er siðferði Íslenskra fréttamanna stórlega ábótavant?
Ég tel að báðar fréttastofurnar þurfi að útskýra fyrir bæði áhorfendum og starfsfólki sínu hvaða reglur gilda við fréttaöflun. Ef starfsmenn hafa brotið þær ítrekað, eða gert sig líklega til þess, þarf að taka á því með viðeigandi hætti. Engin fréttastofa má við því að trúverðugleiki hennar sé settur í slíka hættu.
P.S. Best færi á því að greinarhöfundurinn á Vefritinu, Eva Bjarnadóttir, greindi frá því um hvaða fréttamann hún er að skrifa og frá hvaða fréttastofu, annars liggja etv. margir saklausir fréttamenn undir grun.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2008 | 02:59
Biturt Silfur
Ég var að enda við að horfa á Silfur Egils á netinu. Þó að mér þyki Silfrið yfirburðaþáttur á sínu sviði, þá verð ég að segja að mér þótti þátturinn einhvern veginn ekki gera sig að þessu sinni.
Ég fékk það allt að því á tilfinninguna að þátturinn hefði verið "settur upp". Það þyrfti eitthvað krassandi á nýja meirihlutann.
Ég held að Egill verði að vara sig á því að gera þáttinn að vettvangi fyrir bitra menn sem vilja ráðast á fyrrum samstarfsmenn.
En ég fékk líka tölvupóst í dag, þar sem mér er bent á umfjöllun um þáttinn. Skrifari tölvupóstsins vildi meina að fyrst að Stefáni Pálssyni þætti svona áberandi halli á þættinum, þá væri það líklega svo. Stefán væri ekki líklegur til að taka upp hanskann fyrir nýja meirihlutann, hann væri næsta örugglega ekki stuðningsmaður, hvorki dulinn né ódulinn.
Sjálfur hef ég miklar efasemdir um hinn nýja meirihluta, mér þykir lækkun á fasteignagjöldum til fyrirmyndar (það er reyndar lítið talað um hana), en er algerlega á móti "kofamenningunni" sem meirihlutinn stendur fyrir (kem líklega til með að skrifa meira um það).
En meirihlutinn og borgarstjórinn á rétt á heiðarlegri umfjöllun, rétt eins og allir aðrir.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)