Á allt að gerast í beinni?

Það hefur verið svolítið skondið að fylgjast með umræðunni um myndun nýs meirihluta í Reykjavík.

Margir fjölmiðlamenn (og þá ekki síður bloggarar) hafa hamast á því að stjórnmálamenn segi ósatt.  Taka þeir þá helst til að Hanna Birna (og líklega fleiri Sjálfstæðismenn) hafi nýlega talað eins og ekkert væri nema gott af frétta af meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og F-lista (hvað sem það nú er).

Einnig hafi Óskar Bergsson ekki viljað kannast við neinar viðræður fyrr en allt var að heita komið á koppinn og þar fram eftir götunum.

Vilja ýmsir meina að þetta séu ekki heiðarleg vinnubrögð og stjórnmálamenn segi ekki satt.

Líklega má til sanns vegar færa að ekki hefur allur sannleikurinn verið á borð borinn fyrir fréttamann, en það er eðli stjórnmála þegar vinna þarf með öðrum og mál kunna vera á viðkvæmu stigi.

Stjórnmál eru ekki endilega best komin í beinni útsendingu (þó að ýmsir stjórnmálamenn virðist hvergi kunna betur við sig).

Stjórnmál eru ekki raunveruleikaþáttur í sjónvarpi, þar sem öllu er varpað á skjáinn jafnóðum.

Auðvitað er eðlilegt að öll vandamál séu ekki borin á torg, heldur reynt að vinna úr þeim með samstarfsaðilum.  Það sama gildir að sjálfsögðu um viðræður flokka á milli.

Það sama gildir reyndar oft í mannlegum samskiptum.

Þegar við mætum í vinnuna eftir helgina og erum spurð að því hvernig við höfum það, byrjum við ógjarna á því að segja að við höfum lent í rifrildi við makann eftir að hafa klúðrað grillinu á laugardagskvöldið.  Sunnudeginum höfum við eytt í andlegri og líkamlegri þynnku og að helgin hafi í flesta staði verið ömurleg.  Nei, við svörum auðvitað "bara fínt". 

Ástandið í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki verið gott á yfirstandandi kjörtímabili (en horfir vonandi til betri vegar) en fjölmiðlar hafa því miður verið gjarnir á að hella olíu á eldinn, gengið hart fram og jafnvel legið á gluggum.

Það er ekkert eðlilegra en að stjórnmálamenn reyni að halda upplýsingum frá fjölmiðlum á ákveðnum tímum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Varstu kosinn af borgarbúum í þitt hjónaband?

Ertu virkilega að reyna að bera saman störf manna sem eru kjörnir af þjóðinni (eða hluta hennar) og einkalíf fólks?

Störf borgarfulltrúa/ráðherra eru ekki þeirra einkamál. Þess vegna segja menn í nær öllum siðmenntuðum ríkjum af sér þegar þeir gera í brækurnar.

Einar Jón, 20.8.2008 kl. 04:26

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Stjórnmál eru einfaldlega þess eðlis, að það fer ekki alltaf best að þau séu í beinni útsendingu.

Öll vandamál (hvort sem er í einkalífi eða stjórnmálum) eiga ekki endilega heima í fjölmiðlum.  Kjósendur þurfa ekki að vita um hver hafði hvaða skoðun i umræðum stjórnmálamanna á milli.  Það er niðurstaðan sem skiptir máli.

Rétt eins og allt sem gerist á milli hjóna á ekki erindi til vina eða vinnufélaga, þurfa öll samskipti á milli stjórnmálamanna ekki að rata í fjölmiðla.

G. Tómas Gunnarsson, 20.8.2008 kl. 05:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband