Færsluflokkur: Sjónvarp

Icelandic Honey Week

Þetta skýrir sig auðvitað alveg sjálft.


Hljómskálinn

Ég var að enda við að horfa á fyrsta þáttinn af Hljómskálanum á netinu.

Í stuttu máli sagt er þetta frábær þáttur, skemmtilegur og fræðandi.  Fæti drepið niður hér og þar í Íslenskri danstónlist og endað með feyki góðu lagi eftir Jóhann Helgason, flutt af honum og FM Belfast. 

Það skemmtilegasta sem ég hef séð í Íslensku sjónvarpi lengi.


Íslensku fasistarnir?

Góður kunningi minn sendi mér slóðina á myndbandið hér að neðan fyrir nokkrum mínútum.  Með fylgdi sú setning að það væri "hillarious".

Eftir að hafa horft á myndbandið verð ég þó að viðurkenna að mér var ekki skemmt.

Þeir sem þekkja mig eða hafa lesið þetta blogg, vita líklega að Jóhanna Sigurðardóttir getur ekki talist einn af mínum uppáhaldsstjórnmálamönnum.  Samfylkingin hefur heldur ekki verið ofarlega á vinsældarlistanum.

Stundum gæti ég jafnvel hafa hugsað mér að nota um Jóhönnu og Samfylkinguna einhver misfalleg orð, sum þeirra gætu jafnvel byrjað á F. 

En fasistar er ekki eitt af þeim og  er eitthvað sem ég átti ekki von á að sjá notað yfir Samfylkinguna eða formann hennar.  Allra síst af einhverjum sem titlar sig prófessor og kemur fram í einhverju sem líkist opinberum fréttatíma.

Persónulega finnst mér einstaklingar sem þessi gjaldfella sig og allt sem þeir segja með svona málflutningi.  Ég get einfaldlega ekki tekið mark á þeim sem svona tala. 

En nú eins og oft áður þegar ég hef séð einhverja vitleysuna um Ísland í fjölmiðlum, þá velti ég því fyrir mér hvers vegna þeir láta svona vitleysu út úr sér, hver veitir þeim upplýsingar um Ísland, hafa þeir einhverja Íslenska "heimildamenn" eða treysta þeir ef til vill mest á "Google translate"?

Vissulega hafa ótal margar rangfærslur birst um Ísland eftir fall bankanna og "hrunið", margar hreint skelfilegar og ef þær væru allar lagðar saman í eina grein, væri útkoman ekki falleg.  Ég hef áður sagt að Íslendingar hafa langt í frá staðið sig nægilega vel í því "stríði".

En hér er "fréttatíminn".

 

 


Hardtalk - Steingrímur J. Sigfússon á BBC

Fékk sendar slóðir á viðtalið sem var tekið við Steingrím J. Sigfússon í Hardtalk á BBC.  Ég vil hvetja alla til að horfa á viðtalið.  Ég þykist þess viss að það verða misjafnar skoðanir á frammistöðu Steingríms, enda gefur spyrjandinn honum ekki lausan tauminn, langt í frá.

En það er býsna margt sem ég hefði viljað sjá koma betur fram í þessu viðtali, en auðvitað er það hægara sagt en gert á 30 mínútum.

En það sem líklega vekur hvað mesta athygli í viðtalinu, og það ekki bara á Íslandi, er spurningarnar um afstöðu Steingríms/Íslendinga/Íslensku ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsaðildar. 

Líklegast er það einsdæmi að lykilráðherra og oddviti annars (af tveimur) stjórnarflokks, í ríkisstjórn sem ákveður að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sé andvígur aðild. 

Ég er ekki hissa þó að ýmsir innan Evrópusambandsins séu hugsi þessa dagana eftir að hafa horft á viðtalið.

En sjón er sögu ríkari.

 

 


Hayek vs Keynes - Hagfræði frá öðru sjónarhorni

Rakst á þessa stórskemmtilegu framsetningu á mismunandi skoðunum þeirra Keynes og Hayeks. Kenningar þeirra beggja eiga fullt erindi í nútímanum, enda líklega síst deilt minna um þær nú, heldur en á síðustu öld.

En hagfræðirap er eitthvað sem ég hef ekki rekist á áður og eitthvað segir mér að það eigi varla eftir að slá í gegn á almennum markaði. En þeir sem hafa áhuga að fræðast meira um tilurð þessarra myndbanda og mennina á bakvið þau, mæli ég með að heimsæki síðuna

http://econstories.tv/

 

 

 


Undarleg myndskreyting

Fréttir um niðurskurð eða samdrátt í heilbrigðiskerfinu er ábyggilega ekki það sem margir vildu helst lesa.  Fréttir um uppsagnir á vinnustað sínum gleðja heldur engan.

En líklega er staðan sú á Íslandi að velta þarf um hverju steini, þar er heilbrigðiskerfið ekki undanskilið.  Það er líka vert að hafa í huga að þó að fjárframlög færist til baka "nokkur ár", þá er ekki eins og steinöld hafi ríkt á þeim árum í Íslenska heilbrigðiskerfinu.  Það er heldur ekki saman sem merki á milli fjárútláta í heilbrigðisþjónust og gæða þjónustunnar.  Það kom skýrt fram í skýrslu sem unnin var um heilbrigðiskerfi í Evrópu.

En ég verð að segja að mér þykir myndskreytingin við þessa frétt nokkuð undarleg.  Framan af er hefðbundin myndskreyting, talað við lækna og starfsfólk sýnt að störfum.

Endirinn sýnir síðan Landsspítalahúsið á byggingastigi.  Ég velti fyrir mér hver er tilgangurinn með því að sýna húsið sem hálfkaraða byggingu?  Húsið sem skel með tómar gluggatóftir

Er verið að gefa í skyn að heilbrigðiskerfið muni ekki bera sitt barr, eftir niðurskurðinn?  Eftir verði tómar byggingar með takmarkaðri þjónustu?  Eða hverfur heilbrigðiskerfið aftur til þess tíma sem ríkti áður en Landsspítalinn var byggður?

Myndmál í fréttum er vissuleg vand með farið.


mbl.is Starfsfólk óttast uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þáði Samfylkingin 10. milljónir frá Landsbankanum árið 2006? "Ekki frétt" hjá Stöð 2?

stod 2 samfylkingÉg var rétt áðan, rétt eins og oft áður að horfa á fréttir á netinu.  Fyrst horfði ég á fréttir RUV og síðan á fréttir Stöðvar 2  á vef vísis.

Það var ein fyrirsögn á fréttum Stöðvar 2 sem vakti athygli mína.  En fyrirsögnin er:

Samfylkingin þáði 10 milljónir frá Landsbankanum 2006.

Síðan þegar hlustað er á fréttina er ekkert um það að Samfylkingin hafi þegið þessar milljónir frá Landsbankanum.

En það er vissulega merkilegt að þessi fyrirsögn hafi slæðst inn í fréttayfirlitið á netinu.

Spurningin er, hvernig geta mistök sem þessi orðið því hér er eitthvað mikið meira en innláttarvilla áf ferðinni. 

Er fréttin til og var ekki send út?  Ef enginn fótur er fyrir þessari frétt, hvernig stendur þá á því að þetta ratar inn í fréttayfirlitið?

Með tilliti til frétta undanfarinna daga, þá er ég ekki of trúaður á tilviljanir.

P.S.  Það er hægt að stækka myndina með því að klikka á hana.

P.S.S. Nú þegar klukkan er tuttugu mínútur yfir 10 (02.20 á Íslandi) er búið að breyta fyrirsögninni á vef Vísis.  Í stað:  "Samfylkingin þáði 10 milljónir frá Landsbankanum 2006", stendur nú "Þingmaður Framsóknar vill opna bókhald flokksins". 


Kastljósinu beint að Davíð

Það er ekkert nýtt að Davíð sé í kastljósinu, en viðtalið sem tekið var við hann í Kastljósinu í kvöld var skemmtilegt og fróðlegt.

Ekki eins skemmtilegt og fróðlegt og það hefði sjálfsagt getað orðið, en spyrillinn féll í þá gryfju sem svo margir Íslenskir fréttamenn "búa í" að telja það sitt helsta hlutverk að bera undir viðmælandann það sem aðrir hafa sagt, eða að reyna að fá viðmælanda sinn til að játa eða neita óstaðfestum fregnum eða "almannarómi".

Spyrillinn hafði lítið sem ekkert fram að færa sjálfur, færði ekki fram nein rök.  Davíð pakkaði honum enda snyrtilega saman og fór mest allan tímann með stjórn á viðtalinu. 

En það var ýmislegt athyglivert sem kom fram í þessu viðtali.

Það kom fram mjög hörð gagnrýni á síðustu ríkisstjórn og einstaka ráðherra sem í henni sátu.  Samkvæmt Davíð skeytti hún ekkert um viðvaranir og tók mun meira mark á viðskiptabönkunum en Seðlabankanum.

Perónulega skildi ég Davíð þannig að bankarnir hafi "keypt" stjórnmálamenn sem hafi í gegnum einkahlutafélög fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.  Þetta er mál sem allir fjölmiðlar á Íslandi hljóta að fylgja eftir.

Það var sömuleiðis fróðleg uppljóstrun að bréf til lögreglu um óeðlileg hlutabréfaviðskipti hins arabíska sheiks hafi komið frá Davíð, sem hafi fengið nafnlausa vísbendingu um þau. 

Umfjöllun Davíðs um Seðlabankafrumvarpið var sömuleiðis fróðleg og fagleg að mínu mati.  Ég held að flestum sé ljóst að upphaflega frumvarpið var samið með það eitt að markmiði að koma Davíð úr Seðlabankanum. 

Davíð viðurkenndi í þættinum að Seðlabankinn hefði líklega gert mistök, með því að einblína of mikið á verðbólgu í stað gengis (það er ekki rétt sem sum staðar er haldið fram, að Davíð hafi ekki viðurkennt nein mistök, enda sagði hann í þættinum að allir geri mistök).

Eflaust eigum við eftir að fá meiri upplýsingar á næstu dögum og sjónarhorn annarra á þau mál sem Davíð fjallaði um.

En það verður fróðlegt að fylgjast með hvert framhaldið verður.  Sérstaklega ef Davíð hættir í Seðlabankanum á næstu dögum og verður "frjáls".

En það verður sömuleiðis fróðlegt að fylgjast með hvaða stefnu "seðlabankamanía" núverandi ríkisstjórnar tekur.  Kemst frumvarpið úr nefnd?  Hverjir funda með AGS á fimmtudaginn?  Hver verður næsti leikur ríkisstjórnarinnar?

Það er orðið ljóst að einn af þeim seðlabankastjórum sem ríkisstjórnin telur "rúin trausti" er búinn að fá atvinnutilboð frá seðlabanka Noregs. 

Þetta eru spennandi tímar.


mbl.is Helgi Magnús: Davíð sendi bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt eða ekki Íslenskt?

Hún er nokkuð merkileg umræðan um hvort að vara sé Íslensk eða ekki Íslensk.  Merkileg en þörf.

Hvað gerir vöru Íslenska?  Er það hráefnið?  Er það að hún er unnin á Íslandi?  Eða eitthvað annað?

Auðvitað gera flestir sér grein fyrir því að appelsínusafi er ekki Íslenskur.  Appelsínurnar eru fluttar inn frá Bandaríkjunum, Brasilíu eða öðrum löndum þar sem vaxtarskilyrði eru þeim hagstæð.  Í sumum tilfellum eru fluttar inn appelsínur, í öðrum er innflutningurinn í formi frosins appelsínuþykknis sem blandað er vatni og sett á fernur eða flöskur.

Ef verð og gæði eru sambærileg er það auðvitað þjóðarhagur að neytendur velji ávaxtasafi sem skapar störf og verðmæti á Íslandi.

Ef grannt er skoðað er það ekki margt sem er 100% Íslenskt og verður til án þess að einhver innflutningur komi til

Blessuð mjólkin er þannig gjarna framleidd með aðstoð innflutts kjarnfóðurs, aflað er heyja með innfluttum tækjum sem brenna innfluttu eldsneyti.  Mjaltatæki eru innflutt, sömuleiðis bílarnir sem sækja mjólkina og eldsneytið sem þeir nota.  Tækjakostur mjólkurbúa er innfluttur og loks er mjólkinni tappað á innfluttar umbúðir.

En auðvitað er mjólkin samt Íslensk, á því leikur enginn vafi í mínum huga.

En fullunnin innflutt vara, þó með Íslenskum merkingum sé er ekki Íslensk.

En þetta er auðvitað ekki einföld skilgreining, og spurning hvort að þurfi að setja viðmiðunarreglur um hvenær vara er Íslensk og hvenær ekki.  En slíkt yrði aldrei einfalt mál.

En svo er spurning hvort að Íslenskir neytendur taki nokkuð mark á þessum "erlendu" sjónvarpsstöðvum sem eru að senda út á Íslandi.  Því sé litið á þær sömu augum, er sjónvarpsstöð sem sendir út að meirihluta til erlent efni, varla Íslensk.


Colbert Report: It Could Be Worse - Iceland - og skál af skyri

Stephen Colbert tók Ísland örlítið fyrir í gær, í þætti sínum, The Colbert Report.  Ekki hægt að segja að umfjöllunin sé á jákvæðu nótunum, en gamanið er græskulaust.

Ég horfði ekki á þáttinn í gær, en fékk sendan tengil á "sketsinn" rétt í þessu.  Þetta er tengill á sjónvarpsstöðina sem sýnir þáttinn hér í Kanada en ég held að hann sé opinn fyrir áhorfendur hvaðan æva að úr heiminum.

Njótið!

Ef marka má athugasemd sem hér hefur komið fram, þá virkar tengilinn ekki á Íslandi.  Biðst ég forláts á því.

Ef til vill virkar þetta, sjáum til


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband