Fjöldamorðingi og hetja

Þeir eru ýmsir einstaklingarnir sem í gegnum söguna hafa áunnið sér að vera kallaðir bæði skúrkar og hetjur.

Líklega er óhætt að setja Joseph Stalín á meðal þeirra.

Annar á lista yfir "fjöldamorðingja" í sögunni, þó að persónulega hafi hann líklega ekki drepið marga, eru það milljónatugir sem hann þarf þó að hafa á samviskunni. Oft er sagt að hann beri ábyrgð á dauða í það minnsta 40 milljón einstaklinga, beint og óbeint.

En á hinn bóginn er hann virtur og dáður fyrir leiðtogahlutverk sitt í seinni heimstyrjöldinni, þar sem hann leiddi Sovétríkin, ásamt Bandamönnum, til sigurs gegn Þjóðverjum.

Þá gekk hann undir því vinalega nafni "Uncle Joe" á vesturlöndum.

Að sjálfsögðu má deila um hvað mikið hann lagði til sigursins, sem og vandræða Sovétmanna í upphafi árásar Þjóðverja.

En hann var óumdeilanlega sameiningartákn fyrir Sovétmenn tákn baráttu þeirra og þrautseigju. Slíkt er ómetanlegt á stríðstímum.

Þannig er arfleifð Stalíns skipt. Annars vegar er hann miskunarlaus fjöldamorðingi, á hinni hliðinni hetja móðurjarðarinnar (rodina á Rússnesku).

Var annar leiðtogi til sem hefði staðið sig betur en Stalín? Hefði stríðið ekki þróast á allt annan veg, ef Stalín hefði ekki verið búinn að láta myrða og fangelsa stóran hluta yfirmanna Rauða hersins? Átti hann ekki mikinn þátt í því að seinni heimstyrjöld hófst, með samningi Sovétríkjanna og Þýskalands?

Þegar Þýski herinn "rúllaði" yfir Niðurlönd og Frakkland, keyrði hann á Sovéskri olíu og hermennirnir átu brauð úr Sovésku korni.

Stalín sendi Hitler heillaóskaskeyti þegar Frakkland féll.

En Stalín og Sovétríkin voru líka árásaraðili. Réðust inn í Finnland, hernámu Eystrasalstríkin og réðust inn í Pólland.

Þannig má velta ótal hlutum fyrir sér.

En eftir stenda staðreyndirnar.

Að Stalín leiddi Sovétríkin fram til sigurs, þrátt fyrir hræðilegt gengi í upphafi. Líklega mátti ekki miklu muna að Sovétríkin féllu, þ.e.a.s. vestan Úralfjalla og hver veit hvað gerst hefði ef umfangsmikil aðstoð Bandaríkjanna og Breta hefði ekki komið til.

En ferill Stalíns, berandi ábyrgð á einhverjum umfangsmestu fjöldamorðum sögunnar er einnig staðreynd.

Þannig er Stalín hetja í augum margra, en skúrkur í hugum annara. Hjá sumum er hann jafnvel hvoru tveggja.

Sagan geymir fleiri dæmi um slíkt.

 

 

 


mbl.is Minntust Stalíns á ártíð hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einhver stærsta mótsögn okkar tíma er sú hræðilega staðreynd, að hefði Stalín ekki fórnað milljónum manna til að keyra iðnvæðingu Sovétríkjanna í gegn, hefði Hitler valtað yfir Rússsland austur til Úralfjalla. 

Ómar Ragnarsson, 8.3.2015 kl. 20:18

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Veltum nú fyrir okkur hversu vel Hitler & Co hefði gengið ef Romanovarnir hefðu enn verið við völd árið 1939.

Romanovarnir hefðu sennilega litið Nazistana hornauga.  Nokkra iðnvæðingu hefðu þeir þurft að hafa, af hreinum hernaðarlegum ástæðum.  Hún var að laumast inn, og ekki veit ég hve hratt hún hefði komið, en hún hefði náð í gegn, sama hvað.

Og ef Hitler hefði ákveðið að gera innrás í Romanov-Rússland, þá hefði tekið á móti honum talsvert fleira fólk, vegna þess að Lenín var búinn að láta myrða 10 milljón manns, og Stalín aðrar 10.  Romanov lét bara myrða 1000 manns á ári, mest.

Og þeim hefði verið stjórnað af kunnáttumönnum allan tímann, en ekki bara einhverjum.  Byltingin kostaði marga góða bardagamenn lífið.

Pólland hefði sennilega verið betur sett líka, vegna þess að það hefði aldrei þurft að díla við Lenín.  Hann var plága, sá þrjótur.

Nazistarnir hefðu líklegast haft vit á að láta Romanovana vera.  *Ef* þei hefðu þá náð í gegnum Pólland.  Pólverjar hafa alltof slæmt orð á sér - fólk virðist gleyma því að þeir urðu milli tveggja öflugustu herja á jörðinni.

Ásgrímur Hartmannsson, 8.3.2015 kl. 20:28

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir þetta báðir tveir. Það er "hættulegt", að fara mikið út í "ef" sagnfræði, en getur verið óendanlega skemmtilegt. En niðurstað fæst aldrei.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort að iðnvæðing Rússa hefði ekki gengið betur og hraðar fyrir sig en í Sovétríkjunum, og með minni "tilkostnaði". Romanovarnir og aðallinn voru þó ekki mjög framfarasinnaððir að flestu leyti, en það er spurningin hvort þeir hefðu "vitkast" eftir fyrri heimstyrjöldina. En það er allt eins líklegt að framleiðslugeta Rússa hefði verið mun meiri en Sovétsins.

En hefðu kommúnistar ekki komist til valda, hefði Pólland verið allt annað ríki, ef það hefði þá verið sjálfstætt. Eystrasaltslöndin hefðu sömuleiðis trauðla fengið sjálfstæði og það má sömuleiðis efast um Finnland.

Rússland hefði sömuleiðis verið ólíklegra til að semja sér frið á Austurvígstöðvunum.

Romanovarnir hefðu einnig verið ólíklegir til að hjálpa Þjóðverjum að brjóta Versalasamninga, með aðstöðu fyrir hergagnaverskmiðjur og þjálfun, eins og Sovétríkin gerður á þriðja áratugnum. En það þýddi að vopna og hertækni þekking kom til Sovétsins.

En það leiddi aftur för með sér tortryggni gagnvart þeim yfirmönnum hersins sem höfðu átt samskipti við Þjóðverja, sem aftur varð til þess að þeir urðu flestir illa úti í hreinsununum.

Romanovarnir hefðu einnig verið ólíklegri til að gera samning við Þýskaland (ekki síst vegna sögunnar), enda geopólítísk staða í Evrópu allt önnur.

En stóra spurningin í svona vangaveltum, er líka hvort að lýðræði hefði náð að þróast að einhverju marki í Rússlandi undir Romanovunum?

En það má lengi velta fyrir sér svona "afbrigðum".

G. Tómas Gunnarsson, 9.3.2015 kl. 05:40

4 identicon

Örjan Berner sem verid hefur ambassador baedi i Sovjetunionen og i Russlandi, auk Thyzkalands, skrifadi thessa grein i fyradag i SvD.
Vonandi lesa sem flestir saensku en skopmyndin er oborganleg!

http://www.svd.se/kultur/understrecket/250-ar-av-tysk-rysk-relationskris_4382073.svd

Kassandra (IP-tala skráð) 9.3.2015 kl. 05:59

5 identicon

Ny tilraun tvi hlekkurinn virkadi ekki. Sorry!

http://www.svd.se/kultur/understrecket/250-ar-av-tysk-rysk-relationskris_4382073.svd?utm_source=sharing&utm_medium=clipboard&utm_campaign=20150309

Kassandra (IP-tala skráð) 9.3.2015 kl. 06:10

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kassandra Takk fyrir hlekkinn. Ég er nú ekki 100% í Sænskunni, en næ meiningunni að mestu leyti.

Og já, skopmyndin er klassíks og lýsandi.

G. Tómas Gunnarsson, 9.3.2015 kl. 07:43

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hverjir eru bæði skúrkar og hetjur nú á dögum? Bandaríska leyniþjónustan sem beitir pyntingum til að koma í veg fyrir hryðjuverk? Íslensk stjórnvöld sem úthluta miklum gæðum til fárra til að viðhalda lifibrauði allrar þjóðarinnar?

Svona átök "realpólitíkur" og réttlætishugsjóna eru áreiðanlega enn í gangi þótt við sjáum þau yfirleitt ekki fyrr en í baksýnisspeglinum.

Kristján G. Arngrímsson, 9.3.2015 kl. 11:08

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Takk fyrir þetta. Nú á dögum? Í raun má líklega telja Bandaríkin sem heild, hafi verið í hlutverki bæði hetju og skúrks um langa hríð.

Putin kemur sömuleiðis upp í hugann. Castro, Chavez, þó að þeir séu reyndar ekki við völd í dag.

Þessi komu nú bara svona "spontant" upp í hugann. Sjálfsagt mætti týna fleiri til.

En svo má líka segja að býsna margt sem Stalín tók sér fyrir hendur, hafi haft lítið að gera með "realpólítík". Það er oft frekar erfitt að sjá "praktíkina" í hans gjörðum.

G. Tómas Gunnarsson, 9.3.2015 kl. 12:33

9 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Já það er margt skrítið sem gerist í hugum manna, Kristján G. En hvor skyldi hafa drepið fleiri Rússa, Stalín eða Hitler?

Svo er vert að huga að orðum síðuhöfundar varðandi Castro og vin hanns Chavez og ekki má gleima heiðurs félaganum Putin.

Hrólfur Þ Hraundal, 9.3.2015 kl. 17:54

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er ýmislegt sem bendir til að Stalín hafi verið sýkópati, þannig að eflaust hefur vantað töluvert uppá raunveruleikatengingu hjá honum. Slíkir menn leita sennilega oft skjóls i einhverju sem þeir kalla hugsjónir.

Stundum veltir maður því fyrir sér hvað menn hafi verið að hugsa hér áður fyrr, eins og til dæmis þeir sem börðust hart gegn því að íslensk alþýða nyti mannsæmandi kjara og lágmarksréttinda.

Eftir mörg ár hrista menn á sama hátt höfuðið yfir þeirri misskiptingu þjóðarauðs sem mörgum þótti sjálfsögð og eðlileg árið 2015.

Ekki þar fyrir, smám saman þokast þetta í rétt átt að meiri jöfnuði og réttindum. En hvað þeir eru að hugsa sem beita sér gegn slíku er ógerlegt að skilja.

Kristján G. Arngrímsson, 10.3.2015 kl. 13:28

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján. Bestu þakkir fyrir þetta.  Ekki treysti ég mér til að sálgreina félaga Stalín. Né heldur þá sem birtu þennan texta við andlát hans:

Vér minnumst mannsins Stalíns, sem hefur verið elskaður og dáður meir en flestir menn í mannkynssögunni áður og naut slíks trúnaðartrausts. sem fáir menn nokkru sinni hafa notið, — en lét sér aldrei stíga þá ást og aðdáun til höfuðs, heldur var til síðustu stundar sami góði félaginn, sem mat manngildið ofar öllu öðru, eins og þá er hann fyrst hóf starf sitt.

Gagnvart mannlegum mikilleik þessa látna baráttufélaga drúpum við höfði, — í þökk fyrir allt, sem hann vann fyrir verkalýðshreyfinguna og sósíalismann, — í djúpri samúð við flokk hans og alþýðu Sovétríkjanna.

Það gekk svo margt á í "gamla daga".

En það er líklega enn deilt um skilgreiningu á orðinu jöfnuður, og ekki notað í sömu merkingu af öllum.

Og hugtakið "jafnrétti", virðist í tungutaki ólíkra einstaklinga sömuleiðis gjarna hafa mismunandi merkingu.

Og margir sem eru fyljgandi jöfnum réttindum, eru ekki fylgjandi algerum jöfnuði. Líklega má telja mig í þeim hópi.

Og það er býsna algengt að bæði byltingar og ríki sem berjast undir merki "frelsis, jafnréttis og bræðralags", snúist upp í andstæðu sína og eftir ótaldar þjáningar og hörmungar falli saman. Ef til vill erum við nú að horfa upp á slíkt "endatafl" í "jafnaðarmannaparadísinni" Venezuela.

Og áður en þú bendir á Norðurlöndin, sem að mörgu leyti búa við gott þjóðskipulag, langar mig að benda þér (eins og ég hef gert áður) að lesa pistil eftir Stefan Snævarr, sem finna má hér: http://www.dv.is/blogg/stefan-snaevarr/2015/2/3/ad-trua-grylu-og-jolasveinana-um-eigna-og-tekjudreifingu/

Þeir eru margir "snákarnir" í "jafnaðarmannaparadísunum".

G. Tómas Gunnarsson, 11.3.2015 kl. 07:30

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég verð að viðurkenna að ég nenni ekki að lesa Stefán Snævarrrrrrr.

Enda ætla ég ekki að halda því fram að Skandinavía sé "draumalandð" en hinu verður ekki móti mælt að þar hefur tekist að koma á betri þjóðfélagsskipan en nokkurstaðar annarsstaðar í sögu mannkynsins. Ekkert fullkominni, en betri.

Og meginhugsjónin sem hefur drifið þetta áfram er kratisminn - kannski líka kristinn boðskapur um náungakærleik. En samt held ég aðallega einhverskonar pragmatismi og óljós hugmynd um að enginn sé í eðli sínu mikilvægari en annar (sbr. þessa ágætu lýsingu sem þú hefur á honum félaga Stalín)

Það er víða sem sumir eru jafnari en aðrir. Það er líklega mannlegt eðli, en jafnvel það breytist, hægt og rólega.

Kristján G. Arngrímsson, 11.3.2015 kl. 07:45

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján. Takk fyrir þettta. Ég held reyndar að þú hefðir gott af því að lesa Stefán, en það er mér að meinalausu að þú sleppir því.

"Skandinavíska" modelið er að mörgu leyti ágætt, þó að ekki sé það gallalaust, og vissulega hafa komið auknir brestir í "velferðarmodelið" undafarna áratugi og heldur fallið á "kratismann".

Það er ekki langt síðan þú sjálfur lést þau orð falla hér að í Noregi hefði venjulegt fólk ekki efni á að kynda heimili sín.

Mannlegt eðli breytist vissulega, en hvort að það sé til algers jöfnuðar leyfi ég mér að efast um sem og hvort að slíkt væri æskilegt.

G. Tómas Gunnarsson, 11.3.2015 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband