Færsluflokkur: Saga

Tjáningarfrelsi, Vinstri græn, Sovétríkin og kommúnisminn

Það hefur vakið all nokkra athygli í "netheimum" að einstaklingur sem er víst gjaldkeri Vinstri grænna bakaði köku með hamri og sigð, gömlu tákni Sovétríkjanna og "alheimskommúnismans".

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að ýmsum þótti það miður þekkileg iðja, enda Sovétríkin sálugu með afar vafasamt orðspor þegar kemur að mannréttindum, fjöldamorðum, ofsóknum og yfirgangi og voru í raun rekin sem eitt stórt fangelsi þegnanna.

Þó að hér og þar hafi kommúnistaflokkar (og tákn tengd þeim) verið bannaðir er ég ekki sammála slíkum aðgerðum, ég styð frelsi jafnt félaga í Vinstri grænum sem og annara til að vegsama kommúnismann og tákn hans.

En hitt er svo allt annað mál hvort að ég vijli að slíkir einstaklingar eða samtök komist til vegs og virðingar, eða eigi sæti á löggjafarsamkundum.  Persónulega kæri ég mig ekki um slíkt og vonast til þess að sem flestir séu sammála mér, en geri mér grein fyrir að svo er þó ekki um alla.

Það er líka jákvætt að tjáningarfrelsi sé það sterkt á Íslandi að einstaklingar geti bakað köku með tákni einhverrar mestu ógnarstjórnar sem fyrir hefur fundist, stjórnar sem hafði það sama tjáningarfrelsi að engu og fótum tróð það á hverjum degi sem og frelsi þegna þegna sinna.

En værum við einhverju bættari ef það væri bannað að birta myndir af táknmyndum Sovétríkjanna og kommúnismans?  Væri Ísland betri staður ef lögreglan væri nú á leiðinni til að handtaka gjaldkera vinstri grænna og færa hana til yfirheyrslu?

Ég segi nei.

En ég vona að að Vinstri græn velti því fyrir sér næst þegar hugmyndir vakna í þeirra röðum að þörf sé á banni á hinu eða þessu, að þrátt fyrir að "kommakakan" hafi ef til vill verið smekklaus, hafi hún þrátt fyrir það bragðast ágætlega.

Og svo komi tjáningarfrelsið ef til vill líka upp í huga þeirra.

 


Undarleg staðreyndavakt

Það er mikið í tísku að standa svokallaða staðreyndavakt, enda gerir internetið það mun auðveldara en oftast áður.  Eins og stundum er sagt gleymir það engu og hægt er að finna "staðreyndir" á augabragði.

Reyndar finnst mér þær "staðreyndir" sem hér eru taldar upp flestar skipta ákaflega litlu máli og ég leyfi mér að draga í efa að nema hörðustu fylgismönnum finnist svo.

T & C stadreynd mblEn það verður ekki fram hjá því litið, að vissulega er æskilegt að stjórnmálamenn (sem og aðrir) umgangist sannleikann af virðingu.

En það er ein "staðreyndin" sem birtist þarna sem vefst mikið fyrir mér og ég get séð betur en að hún sé röng, þ.e.a.s. ef minni mitt svíkur mig ekki alfarið.

Það er fullyrðingin: "Hið rétta er að Ríki íslams á ræt­ur sín­ar að rekja til hryðju­verka­sam­tak­anna Al-Kaída í Írak, sem sunní-múslim­ar stofnuðu þar í landi árið 2004 eft­ir að Banda­rík­in réðust inn í Írak."

Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að Al Qaeda samtökin hafi verið stofnuð ca. árið T & C stadreynd abc1988, af Osama Bin-Laden. Ég hef meira að segja staðið í þeirri meiningu að þau hafi skipulagt og borið (í það minnsta mesta) ábyrgðina á árásinni á World Trade Center, þann 11.september 2001.

Það er reyndar rétt að taka það fram að mbl.is gerir ekkert annað en að þýða frétt ABC sjónvarpsstöðvarinnar sem heldur því nákvæmlega sama fram.

En þetta breytir því ekki að Trump fer með rangt mál í þessu tilfelli, en það tel ég að skipti í raun ákaflega litlu máli.  Ég hef ekki trú á því að margir áhorfendur hafi litið svo á að Trump væri að halda því fram að Clinton hafi verið að berjast við ISIL frá 18 ára aldri.

En svo að búið sé til nýtt máltæki úr gömlu, hver á að staðreyndatékka staðreyndatékkarana.

Ef til vill er ekki vanþörf þar á.

 


mbl.is Staðhæfingar Trumps hraktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin frétt

Ég verð að viðurkenna að mér hefur alltaf þótt það frekar skrýtið að banna einstaklingum að hafa ranga skoðun, jafnvel á sögunni.

Þannig finnst mér einstaklingar sem afneita helförinni fyrst og fremst gera lítið úr sjálfum sér og greind sinni. Rétt eins og þeir sem afneita voðaverkum kommúnismans.

Munurinn á þessu tvennu er þó ef til vill fyrst og fremst sá að all víða er það fyrrgreinda bannað. Það seinna kann þó að vera bannað einnig á einstaka stað.

En í raun er óþarfi að mínu mati að slíkt varði við lög. Eins og áður sagði dæmir slík vitleysa sig sjálf.

Hvort að manngerð hungusneyð í Ukrainu hafi átt sér stað, eður ei, er að mínu mati engin spurning, en ekki ástæða til fangelsisvistar þó að einhver sér annarar skoðunar.

Það sama gildir um Helförina. Þar gildir engin vafi um sannleiksgildið, en vitleysingar munu alltaf verða til og afneitarar sömuleiðis.

En orðalag þessarar fréttar mbl.is vekur vissulega athygli mína.

Síðast málsgreinin vekur í raun furðu mína.

"Talið er að um 1,1 millj­ón,flest­ir evr­ópsk­ir gyðing­ar, hafi horfið á ár­un­um 1940-1945 í Auschwitz-Bir­kenau búðunum áður en þær voru her­tekn­ar af her Sov­ét­ríkj­anna."

Gyðingarnir í Auschwitz "hurfu" ekki, þeir voru myrtir. Myrtir með skipulögðum og iðnvæddum hætti.  Það var engin tilviljum og það er enginn vafi á hvernig á því stóð. Þeir hurfu ekki.

Það má síðan einnig deila um orðalagið að her Sovétríkjanna hafi hernumið búðirnarar í Auswitch. Réttara væri að segja að hann hefi frelsað þær.

Vissulega má margt misjafnt segja um framgöngu Rauða hersins á leið hans til Berlínar, en hann frelsaði vissulega stór landsvæði undan helsi nazista þó að stundum hafi hernám fylgt í kjölfarið. En ég tel ekki rétt að segja að hann hafi hernumið Auscwitch.

Þó að ef til vill sé þetta ekki stórkostlegt mistök, eru þau of stór fyrir fjölmiðil sem er vandur að virðingu sinni

P.S. Mbl.is ætti að leiðrétta þau sem fyrst.

 


mbl.is Nasista-amma afneitar helförinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndið hefur alltaf átt heimili í Sjálfstæðisflokknum

Frjálslyndisvindar virðast hafa átt allgreiða leið inn í Laugardalshöll, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt landsfund sinn um nýafstaðna helgi.

Það er vel.

En það er undarlegt að lesa fréttir og "spegúleringar" þess efnis að vegna þess að frjálslyndið hafi sótt á í ályktunum Sjálfstæðisflokksins hafi hann verið "Píratavæddur",eða tekið skarpa "vinstri beygju".

En Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina verið mannmargur flokkur, og mikil "breiðsíða". Þannig hafa frjálslyndir sjálfstæðismenn deilt flokki sínum og ýmsum skoðunum, með mörgum öðrum.

Þar með töldum íhaldsmönnum, kristilegum íhaldsmönnum og þeim sem ég kalla stundum í hálfkæringi "kristilega talíbana".

En styrkleiki hins frjálslynda hluta Sjálfstæðisflokks hefur farið upp og niður í gegnum tíðina, og það sem er talið frjálslyndi hefur sömuleiðis breyst.

Þannig hefur ytri ásýnd flokksins verið misjöfn, og frjálslyndið verið misjafnlega sýnilegt.

Það er óskandi að nú fari í hönd langt (ef ekki eilíft) tímabil þar sem frjálslyndið verður í fararbroddi í Sjálfstæðisflokknum.

Þó ávallt þannig að frelsi einstaklingsinga og réttindi þeirra séu í fararbroddi.

Ég hygg að það séu ekki endilega margir af sjálfstæðimönnum, eða þeim sem hafa kosið flokkinn í gegnum tíðina,  sem eru 100% ánægðir með ályktanir landsfundar.  Ekki er ég það.

En mér finnst samt að stefnan hafi að all nokkru leyti verið "leiðrétt" og kúrsinn settur fram á við.

P.S. Eitt af vandamálunum við umræðu sem þessa, er að sjálfsögðu mismunandi skilgreiningar á hugtökum eins og frjálslyndi og frelsi. Þar eins og mörgum öðrum málum eru skiptar skoðanir.


mbl.is Frjálslyndið í fyrirrúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kyrrstaða alræðisins betri?

Þegar sterkir ein- og alræðisherrar falla skapast oft ástand sem sýnist litlu eða engu betra en það alræði, misþyrmingar og kúgun sem þeir eða stjórnir þeirra standa fyrir.

Sterkt einræði er oft á yfirborðinu, stöðugt og "gott" stjórnskipulag. Þegar ein/alræðis fellur, fylgir gjarna upplausn, ringulreið og "grimmd" í kjölfarið, eða innan fárra ára.

Sagan geymir mörg dæmi um slíkt.

Franska byltingin sem er gríðarlegar mikilvægur atburður í sögu Evrópu (og í raun heimsins alls), fæddi af sér "hryðjuverkastjórn" og ekki löngu síðar var aftur komið á einveldi í Frakklandi.

Þó hygg ég að fáir séu þeirrar skoðunar að betur hefði farið á að Franska byltingin hefði aldrei orðið.

Rússneska byltingin hafði ekki síður blóðbað í för með sér, og þó að upphaflega byltingin hefði að mörgu leyti jákvæðar rætur, verður það sama ekki sagt um þá bolsevísku.

Í kjölfarið fylgdi blóðbað, og eyðilegging trúartákna og fornminja, sem helst minnir á framgöngu Talibana og ISIL í samfélagi nútímans.

Í kjölfar sigurs lýðræðisaflanna í fyrri heimstyrjöld, fylgdi uppgangur alræðisafla.

Í lok seinni heimstyrjaldar voru lýðræðisöflin illa undirbúin fyrir sigurinn, sem hafði í för með sér að þó að þau hefðu mikið lagt til hans, var eingöngu skipt um ein/alræðisherra í stórum hluta Evrópu.

En hið kommúníska heimsveldi sem byggðist upp eftir seinni heimstyrjöld fól í sér feigðina, þannig að frekar var spurning um hvenær en hvort það riðaði til falls.

En fallið þýddi í för með sér hörmungar, ofbeldi og í sumum tilfellum blóðug stríð. Afleiðingar þess að al/einræðisherra Júgóslavíu gekk á vit feðra sinna og "sterka aflið" sem hélt ríkinu "saman" hvarf er líkleg mörgum í fersku minni.

Í Rússlandi er ekki enn útséð um hvernig "spilast" úr kaosinu sem fylgdi hruni kommúnismans, og hvort að einræði eða lýðræði verður ofan á. Útlitið er þó ekki jákvætt þessa stundina.

Þannig er erfitt að sjá fyrir hvað gerist, og auðveldara að "vinna stríðið" en að "vinna friðinn"

Þannig veit enginn hvort að t.d. Kúbu tekst að feta leiðina til aukins lýðræðis án upplausnar.  Það sama gildir um hina "sósíalölsku paraadís" í Venezuela. Þar er upplausn þegar farin að festa rætur.

Það sama má segja um ein/alræðisríki eins og t.d N-Kóreu og olíuríkin við Persaflóa. Engin veit hvort að þau ná einhverntíma að snúast á lýðræðisbraut, eða hvort það verður án ofbeldis og upplausnar.

En slikt væri vissulega óskandi.

En frelsi og lýðræði eru gæði sem vissulega er ýmsu fórnandi fyrir.

Kyrrstaða og "svikalogn" eða "friður" ein/alræðis kann vissulega að virka heillandi, en oftar en ekki er það virði verulega fórna að fella það.

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Heimurinn betri með Saddam og Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir 24. árum

Í gær fögnuðu Eistlendingar því að 24. ár eru liðin frá því að þeim tókst að endurheimta sjálfstæði sitt og föðurlands síns úr klóm Sovétríkjanna/Rússa.

Í ríflega 50 ár hafði landið og fólkið mátt þola hersetu.

Lengst af af hendi Sovétsins/Rússa, en Þjóðverjar höfðu einnig hersetið landið af mikilli hörku um hríð.

Hildarleikur seinniTallinn tv tower 20. august heimstyrjaldar hersetan kostaði tugi þúsunda Eistlendinga lífið. Fjölmargir dóu í styrjöldinni og þúsundir á þúsundir ofan voru fluttir á brott í lestum gripaflutningavagna.

Oftar en ekki beið þeirra ómerkt gröf í Síberíu.

Það má segja að Eistlendingar eigi sér tvo þjóðhátíðardaga, 24. febrúar, daginn sem landið varð sjálfstætt og svo aftur gærdagurinn 20. ágúst, þegar landið endurheimti það.

En það eru líka 24. ár síðan Ísland viðurkenndi fullt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og tók upp formlegt stjórnmálasamaband við þau. Fyrir 24. árum viðurkenndi Ísland, fyrst allra ríkja, Eistland sem sjálfstætt ríki á ný.

Eistlendingar fundu að einhver stóð með þeim.  Íslendingar höfðu hugrekki til að standa með Eistlendingum og viðurkenna rétt þeirra til að ráða eigin landi og örlögum.

Ég hef ekki tölu á því hve oft mér hefur verið þakkað fyrir þennan stuðning Íslendinga. Nú síðast í gær.

Tallinn tv tower 20. august tanksÞað hefur margoft komið fram í fréttum að þessi viðurkenning og stuðningur Íslendinga var í óþökk Sovétsins/Rússa "harkalegum gagnaðgerðum" var hótað. Svo fór að sendiherra þeirra var "kallaður heim" um hríð.

Vissulega höfðu Íslendingar margvísleg viðskipti við Rússa þá sem nú. En Íslenskum stjórnvöldum varð ekki haggað.

Í dag er ekki hægt annað en að velta því fyrir sér hvort að Íslensk stjórnvöld myndu sýna sama hugrekkið nú?

Hefðu þau hugrekki og þor til að standa eins að málum?

Eða kysu þau að líta í "hina áttina" því það getur verið svo erfitt að selja makríl?

P.S. Myndirnar sýna ástandið við Sjónvarpsturninn í Tallinn þann 20.ágúst 1991. En turninn er einmitt einn af þeim stöðum þar sem Eistlendingar fögnðuð í gær.


Lofuðu Vesturveldin Sovétríkjunum að NATO myndi aldrei stækka til austurs?

Þegar reynt er að finna réttlætingu fyrir yfirgangi Rússa gagnvart nágrönnum sínum, er oft fullyrt að Sovétríkin hafi fengið loforð fyrir því að NATO myndi aldrei verða stækkað til austurs.

Það sé því að því er margir virðast telja, nokkuð sjálfsagt og eðlilegt að Rússar beiti nágrannalönd sín ofbeldi og yfirgangi til að tryggja hagsmuni sína.

Reyndar er það svo að finna má misvísandi heimildir um hvort að umrætt loforð hafi nokkru sinni verið gefið, og það virðist vera alveg ljóst að það varð aldrei hluti af neinum samningum.

Gorbachev, síðasti forseti Sovétríkjanna virðist ekki muna eftir slíku loforði, á síðasta ári svaraði hann spurningu þar að lútandi með eftirfarandi hætti í viðtali:

RBTH: One of the key issues that has arisen in connection with the events in Ukraine is NATO expansion into the East. Do you get the feeling that your Western partners lied to you when they were developing their future plans in Eastern Europe? Why didn’t you insist that the promises made to you – particularly U.S. Secretary of State James Baker’s promise that NATO would not expand into the East – be legally encoded? I will quote Baker: “NATO will not move one inch further east.”

M.G.: The topic of “NATO expansion” was not discussed at all, and it wasn’t brought up in those years. I say this with full responsibility. Not a singe Eastern European country raised the issue, not even after the Warsaw Pact ceased to exist in 1991. Western leaders didn’t bring it up, either. Another issue we brought up was discussed: making sure that NATO’s military structures would not advance and that additional armed forces from the alliance would not be deployed on the territory of the then-GDR after German reunification. Baker’s statement, mentioned in your question, was made in that context. Kohl and [German Vice Chancellor Hans-Dietrich] Genscher talked about it.

Everything that could have been and needed to be done to solidify that political obligation was done. And fulfilled. The agreement on a final settlement with Germany said that no new military structures would be created in the eastern part of the country; no additional troops would be deployed; no weapons of mass destruction would be placed there. It has been observed all these years. So don’t portray Gorbachev and the then-Soviet authorities as naïve people who were wrapped around the West’s finger. If there was naïveté, it was later, when the issue arose. Russia at first did not object.

The decision for the U.S. and its allies to expand NATO into the east was decisively made in 1993. I called this a big mistake from the very beginning. It was definitely a violation of the spirit of the statements and assurances made to us in 1990. With regards to Germany, they were legally enshrined and are being observed.
 
Það virðist því líklegra en ekki að ekkert slíkt loforð hafi verið gefið. Líklegt er hins vegar að talað hafi verið um að NATO byggði ekki upp hernaðarmannvirki, eða flytti kjarnorkuvopn til "austurs", og virðist ekki síst vera í merkingunni það landsvæði sem var A-Þýskaland.
 
Það er þó einnig vert að hafa í huga að fyrir hernað Rússa í Ukraínu, var enginn herafli, eða hergögn sem vert er að minnast á í ríkjum A-Evróu á vegum NATO. Hvernig háttar í austurhluta Þýskalands þekki ég þó ekki til.
 
En eðlilega hefur hann aukist hröðum skrefum, í takt við ógnanir Rússa í garð nágrannaríkja.
 
En það er rétt að það komi fram að vissulega má finna aragrúa af misvísandi heimildum í þessu efni.
 
Grein úr Spiegel má finna hérForeign Affairs og góða grein eftir Steven Pifer hér. Ótölulegan fjöld sem styður sitthvort sjónarmiðið má svo finna á netinu.
 
Það er ætti svo öllum að vera ljóst, að Rússum stendur engin ógn af hernaðarmætti nágranna sinna, sú ógn er öll á hinn veginn.
 
Það er einnig ljóst að hernaðarlega er Evrópusambandið engin ógn. Herir ríkja þess eru smáir og fjárhagslega sveltir. Flestir fréttir af þeim undanfarin misseri hafa verið þeim til háðungar, enda ástand flugvéla þeirra og annars vopnabúnaðar vægast sagt hörmulegur.
 
En innrás Rússa í Ukraínu og annar yfirgangur þeirra hefur að einhverju marki ýtt við sumum "Sambandsþjóðum", en þó ekki svo að fjárútlát hafi verið aukin. Ef ég man rétt, er það aðeins Grikkland og Eistland (af "Sambandsþjóðum" sem hafa eytt þeim 2% af þjóðarframleiðslu, sem NATO vill að miðað sé við.  Hvorug þjóðin hefur þó umtalsverða hernaðargetu.
 
NATO aðild þjóða A-Evrópu hefur hins vegar gert þau öruggari og sjálfstæðari gagnvart Rússum, og "Sambandsaðild" hefur fært efnahagstengsl þeirra vestur á bóginn.
 
Það er nokkuð sem Rússar eiga erfitt með að sætta sig við sem "fyrrverandi heimsveldi".
 
En svo vikið sé aftur að þeirri spurningu hvort að Rússar telji sig hafa fengið loforð fyrir því að NATO myndi aldrei stækka til austurs, þó að slíkt sé ólíklegt, þá eiga auðvitað ríkin sjálf að ráða sinni utanríkisstefnu, án þess að þurfa að bera hana undir Rússa.
 
Sumir vilja meina að Kohl Þýskalandskanslari hafi svo gott sem lofað slíku (munnlega), en það er rétt að hafa í huga að allt tal um leynilega samninga stórvelda, svo ekki sé minnst á Þýskalands og Sovétríkjanna/Rússlands, um skipan mála í A-Evrópu, vekur upp óþægilegar minningar, svo ekki sé sterkara að orði komist.
 
Það er eðlilegt að ríki mið og A-Evrópu hafi laðast að Vesturveldunum, NATO og Evrópusambandinu. Sé slíkur kostur borinn saman við nánara samstarf og samvinnu við Rússa, sjá flestir að valið er einfalt.
 
Rússar hafa einfaldega ekkert upp á að bjóða, nema gas,olíu, yfirgang og ofbeldi, ríkin þekkja það af fyrri reynslu.
 
Og þau þekkja það líka að það er ekki alltaf í þessari röð.
 
 

Verðlaunum við þjóðernishreinsanir?

Viðskiptaþvinganir sem Rússar hafa nú beitt gegn Íslendingum (og öðrum þjóðum) hafa sem von er vakið mikla athygli og umræður.

Eins og eðlilegt er um mál sem þetta og mikla hagsmuni eru skiptar skoðanir um hvernig standa ber að málum.

Persónulega þykir mér þó mörg þau rök sem hafa komið fram um hvaða afstöðu Íslendingar ættu að hafa til yfirgangs Rússa í Ukraínu, undarleg og jafnframt sum hver nokkuð ógeðfelld.

Ýmsir tala eins og Rússar hafi verið í fullum rétti til að "taka" Krím hérað. Það hafi lengi tilheyrt þeim, og þar að auki sé meirihluti íbúanna af Rússneskum uppruna og tali Rússnesku.

Þetta er vissulega rétt.

En þeir hinir sömu horfa framhjá sögunni, sem mig grunar þó að mörgum þeirra sé vel kunn.

Vissulega náðu Rússar að sölsa undir sig Krímskaga á keisaratímanum. En eftir byltinguna 1917, lýsti Krím yfir sjálfstæði sínu. En kommúnistarnir náðu þó að sölsa landið undir sig að nýju, en það var "sjálfstætt" Sovétlýðveldi, þó að vissulega hljómi það sem nokkurs konar þversögn.

Það var svo ekki fyrr en árið 1945, sem það var flutt undir Rússland að nýju. Þá eftir að meirihluti íbúanna hafði verið myrtur eða fluttur í útlegð af Sovétinu. Talið er að um helmingur þeirra hafi látist í þeim aðförum. Þar var um að ræða Tatara, og íbúa af Grískum, Armenskum og Búlgörskum uppruna.

Það er vegna morða og brottflutnings á íbúum Krímskaga sem Rússar eru þar í meirihluta.

Er æskilegt að verðlauna slíkar þjóðernishreinsanir?

Eigum við að líta svo á að ekkert sé sjálfsagðara en undir slíkum formerkjum ákveði landssvæði að vilja tilheyra þeim sem frömdu þjóðernishreinsanirnar?

Það sama gildir um héruðin í A-Ukraínu. Þar hafa fjöldamorð Sovétsins og Þýskalands (fyrir, í og eftir síðari heimstyrjöld) breytt íbúasamsetningunni, þannig að Rússar eru þar í meirihluta.

En gefur það þeim rétt til að reyna að innlima landsvæðin?

Þó að sterk rök liggi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa afmarkaðra landsvæða sé virtur, er að mínu mati nauðsynlegt að líta til sögunnar einnig.

Slíkur réttur hlýtur að vera mjög takmarkaður, ef nokkur, ef staðan er afleiðing þjóðernishreinsana.

Því miður er það svo að fullyrðingar Rússa um nauðsyn þess að "vernda" íbúa Ukraínu sem eru af Rússneskum uppruna, eru óþægilegt bergmál frá liðnum tíma. Tilraunir til að sameina þá í einu ríki eru það sömuleiðis.

Eins og áður sagði var Krímskagi "sjálfstætt Sovétlýðveldi", þar til það var innlimað í Rússland, árið 1945, eftir brottfluttning stórs hluta íbúanna, það var síðan "flutt" til Ukraínu árið 1954.

En þetta voru langt í frá einu breytingarnar sem gerðar voru á milli "Sovétlýðvelda".

Tekin voru landsvæði af bæði Eistlandi og Lettlandi svo dæmi séu tekin.

Það er engin áhugi á því á meðal Rússa að slíkt gangi til baka, og hinir smáu nágrannar þeirra gera sér grein fyrir því að ómögulegt er að sækja slíkt.

P.S. Að sumu leyti má segja að áframhald á þessu eigi sér stað í A-Ukraínu nú. Auðvitað flýtja flestir þeir sem vilja að Ukraína sé óbreytt, og halli sér til vesturs.

Eftir sitja "litlu grænu karlarnir hans Putins" og þeir sem vilja að héruðin tilheyri Rússlandi. Þannig styrkist meirihluti þeirra svo um munar.

Ólíklegt er að þeir sem flúið hafa snúi aftur.

 


mbl.is Stjórnvöld endurskoði afstöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að trúa að lausnin liggi í bönnum

Það er auðvelt að skilja að Sovétríkin og kommúnismi séu ekki í hávegum höfð hjá mörgum Ukraínubúum. Meðferð og og viðskilnaður hinna Sovésku kommúnista á Ukraínu og íbúum hennar var með þeim hætti að ekki er óeðlilegt að Ukraínubúar vilji sem minnst vita af Lenín og öðrum Sovétíkusum.

Vissulega er málin all nokkuð blandin, því um leið og Sovétið murkaði líftóruna úr innfæddum (sem hernám Þjóðverja bætti svo í enn frekar) fluttu þeir inn aðra íbúa sér þóknanlegri, sem eru þar enn ásamt afkomendum sínum.

Líklega hefur ekki á mörgum stöðum verið gengið rösklegar fram í því að "skipta um þjóð", þegar þjóðin vildi ekki "gera rétt" gagnvart valdhöfum

Því er skiljanlegt að tákn og merki kommúnisma og nazisma séu vekji litla hrifningu þarlendis og margir vilji banna þau, ásamt stjórnmálaflokkum þeim tengdum.

En það er ólíklegt að bönn leysi þann vanda í Ukráinu frekar en í öðrum löndum.

Skoðanir finna sér yfirleitt farveg þrátt fyrir bönn, það ættu þeir að vita sem hafa barist fyrir frelsi sínu til orðs og athafna, þrátt fyrir bönn, að vita betur en flestir aðrir.

Það hefur því yfirleitt takmörkuð áhrif að banna stjórnmálahreyfingar eða tákn, og stundum þveröfug.

Það ber einnig að hafa í huga að mörg tákn, s.s. hakakross og stjarna svo dæmi séu tekin, eru æfaforn og hafa margra alda sögu, í mismunandi menningarheimum. Eigi að banna öll tákn sem voðaverk hafa verið framin undir, væru líklega ekki mörg eftir.

Það þýðir ekki að hið opinbera geti gengið á undan með góðu fordæmi og fjarlægt opinber minnismerki og önnur tákn á opinberum vettvangi, ef ástæða þykir til.

Það er þó rétt að gjalda varhug við því að eyðilegggja þau, betra getur verið að færa þau til, eða koma þeim á safn.

Það er ekki rétt að afneita eða reyna að afmá "söguna".

Það gefst best að berjast gegn kommúnisma og nazisma með fræðslu og umræðu. Bönn hafa þar takmörkuð áhrif.


mbl.is Tákn um Sovétríkin bönnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf upprifjun

Nú þegar 70 ár eru liðin frá lokum seinni heimstyrjaldar er þarft að rifja upp hörmungar stríðsins, aðdraganda þess og eftirleik.

Og kvikmyndin sem fylgir fréttinni sem þessi færsla er hengd við sýnir vel eyðilegginguna sem blasti við í stríðslok.

Reyndar er hægt að finna margar slíkar heimildir á netinu, og hægt að eyða tíma sínum í meiri óþarfa en að skoða slíkt og fræðast um styrjöldina miklu.

Þessa mynd og margar aðrar má finna á síðum s.s. YouTube, t.d á þessari síðu.

En þegar við fögnum því að 70 ár séu séu liðin frá lokum seinni heimstyrjaldar, er hollt að leiða hugann að því hvernig ástandið var í stríðslok.

Það er þarft að leiða hugann að því að það fengu ekki allar þjóðir endurheimt frelsi sitt í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Sumum þjóðum má segja að hafi verið fórnað á "altari friðarins", því allir voru búnir að fá nóg af átökum.

Lok seinni heimstyrjaldrarinnar þýddi ekki endalok nauðungarflutninga einstaklinga í gripavögnum til nauðungarvistar. Búðirnar voru ekki "tæknivædd sláturhús" lengur, en þó voru þeir margir sem áttu þaðan ekki endurhvæmt.

Lok seinni heimstyrjaldarinnar þýddi ekki endalok gyðingahaturs, eða flótta þeirra frá Evrópu. Slíkt gerist enn þann dag í dag.

Og í mörgu er seinni heimstyrjöldin enn í umræðunni, rétt eins og umræða um stríðsskaðabætur sýnir okkur.

Og nýleg dæmi sýna okkur að hernám og innlimum landsvæða með valdi heyrir ekki sögunni til.

En þó að heimstyrjöldinni síðari hafi lokið fyrir 70 árum, má deila um hvenær eftirleik hennar (eða heimstyrjaldarinnnar fyrri) hafi lokið, eða hvort að eftirköst hennar séu enn að hrella Evrópu og heimsbyggðina.

 

 


mbl.is Svona var Berlín í júlí 1945
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband