Færsluflokkur: Saga

Fyrir 60 árum

Það var aðfararnótt 13. ágúst að hafist var handa við að byggja Berlínar Múrinn. Bygging hans var samþykkt á Þingi Alþýðunnar (Volkskammer) í hinni "sósíalísku paradís" sem Austur Þýskaland var.

Í fyrst var hann lítið meira en staurar og gaddavír, en fljótlega var hann byggður úr meiri og öflugri efnum.

Fyrst hleðslusteinum og síðar steyptum einingum allt að 5 metra háum. Þróun múrsins hélt áfram allt til þess að hann féll 1989, var gerður tvöfaldur, með jarðsprengjum, hreyfiskynjuðum vélbyssum, varðturnum, varðhundum og ljóskösturum, að ónefndum þúsundum varðmanna.

Hvaða ógn beindist allur þessi viðbúnaður gegn?

Jú, því að almenningur skyldi vilja yfirgefa hina "sósíalísku paradís" sem Austur Þýsk yfirvöld töldu sig hafa byggt upp.

Ekki til að verjast innrás, ekki til þess að verjast að óboðnir gestir kæmust inn í landið, heldur til þess að hindra að "þegnarnir" gætu sótt sér frelsi.

Því öreigarnir eru víst nauðsynlegir fyrir sósíalismann, það gengur ekki að láta þá flýja.

Austur Þýskaland enda "útvörður sósíalismans".

En áður en "Múrinn" var reistur var talið að í kringum 2.5 milljónir hafi flúið sósíalismann og leitað betra lífs í Vestur Þýskalandi.

Það voru ekki síst þeir sem voru betur menntaðir, sem leituðu Vestur. En auðvitað voru það einstaklingar af öllum stéttum og stöðu sem flúðu. 

Sá sem fyrstur flúði yfir múrinn var A-Þýskur hermaður.

Það að flýja sósíalismann fer ekki í manngreiningar- eða stéttaálit, heldur snýst fyrst vilja, ásetning, hugrekki og þrá eftir frelsi og betri kjörum.

Múrinn var ekki reistur til varnar Austur Þýsku þjóðinni, honum var ætlað að loka hana inn í landinu.

Tölur eru á reiki, en gjarna er talað um að að í það minnsta sex hundrað einstaklingar hafi týnt lífinu við að reyna að komast yfir Múrinn (ekki bara í Berlín, heldur á landamærunum í heild).

En ríflega 5000 eru taldir hafa náð markmiðinu og komist yfir múrinn, í gegnum hann eða undir hann.  Flestir á fyrri árum Múrsins, en hann var stöðugt endurbættur og drápstæki tengd honum bætt og fjölgað.

Múrinn og Stasi, var það sem hélt Austur Þýskalandi saman í kringum 40 ár.  Stasi hafði í kringum 90.000 starfsmenn, tvöföld sú tala voru uppljóstrarar tengdir stofnuninni.  Samanlagt var það ca 1.7% af íbúafjöldanum.

 

 

 

 

 

 

 


Vinstri græn og samstarfið

All nokkuð hefur verið skrifað um mikið óþol stuðningsmanna VG við samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.  Í sjálfu sér er ekki erfitt að skilja að það er ef til vill ekki það sem stuðningsmenn flokksins kysu helst.

En ef gengið er út frá því að óraunhæft sé að VG nái hreinum meirihluta, með hvaða flokkum skyldu stuðningfólkið helst vilja samstarf?

Vissulega kvarnaðist úr þingflokknum þegar leið á kjörtímabilið, enda var ekki sátt um ríkisstjórnarsamstarfið frá upphafi.

Augljóslega hefur VG eitthvað þurft að gefa eftir, eins og ég held að flestir geti tekið undir að hinir flokkarnir hafa þurft að sætta sig við málamiðlanir sömuleiðis.

Það er vert að gefa því gaum að Vinstri græn hafa aðeins tekið þátt í stjórnarsamstarfi í tvígang.

Það er nú með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki og svo áður með Samfylkingunni.

Hvernig skyldi stuðningsfólk VG leggja mat á þessar tvær ríkisstjórnir sem flokkurinn hefur starfað í?

Hvað "hurfu" margir þingmenn flokksins á braut í hvoru tilfellinu um sig? 

Hvað missti VG stóran hluta fylgis síns eftir samstarfið við Samfylkingu?  Er hætta á að það fylgistap verði "toppað" nú?

Hvað þurftu Vinstri græn að gefa eftir í því stjórnarsamtarfi?  Var það alltaf ætlun flokksins að sækja um aðild að Evrópusambandinu? 

Svona má lengi ræða hlutina, en það voru vissulega skiptar skoðanir um samstarfið við Samfylkinguna ef ég man rétt.

Það er enda ekkert óeðlilegt að allir þurfi að gefa sitthvað eftir í ríkisstjórnarsamstarfi.  Ég held að það hafi Vinstri græn ekki gert í meira mæli en hinir samstarfsflokkarnir í núverandi ríkisstjórn og enn síður sé miðað við styrkleika.

En pólítík er list hins mögulega og flokkar reyna að sneiða hjá "ómöguleikanum".

Ríkisstjórnarsamstarf hlýtur alla jafna að taka mið af því sem er gerlegt og því sem er í boði.

P.S. Til að forða öllum misskilngi er rétt að taka fram að ég er ekki og mun líklega aldrei verða stuðningsmaður VG.

En finnst einfaldlega fróðlegt að fylgjast með umræðum um þann flokk eins og aðra flokka.

 

 


Fyrir áttatíu árum

Þann 14. júni 1941 hófust umfangsmiklir nauðungarfluttningar í Eystrasaltslöndunum, hersetnu Póllandi og í Hvíta Rússlandi og Ukraínu.

Tugþúsundir íbúa Eystrasaltsríkjanna voru fluttir í gripavögnum vinnubúðir eða fangelsi á afskektum stöðum í Sovétríkjunum.

Frá Eistlandi var í ríflega 10.000 einstaklingum pakkað í gripavagnana og þeir fluttir nauðugir á brott.  Fjölskyldur, einstaklingar, smábörn, öldungar, konur og karlar.

Í gripavögnunum mátti finna u.þ.b. 2500 börn undir 16 ára aldri og í kringum 5000 konur.

Aðeins í kringum 3400 áttu afturkvæmt til Eistlands.

Stuttu seinna réðust Þjóðverjar á Sovétríkin

Nauðungarflutningar í Gulagið héldu svo áfram eftir að heimsstyröldinni lauk.

Sem tengingu við nútímann má nefna að móðir Kaju Kallas, núverandi forsætisráðherra Eistlands, var þann 25. mars 1949, flutt nauðungarflutningum til Síberíu, ásamt móður sinni og ömmu.  Þá var hún 6. mánaða gömul.

Hún sneri aftur til Eistlands 10. ára.

Hér er heimasíða Hernáms- og frelsissafnsins í Tallinn.

Hér má sjá minnismerki um þá Eistlendinga sem týndu lífinu af völdum Sovétsins.

Hér er svo frétt Eistneska ríkisútvarpsins um minningarathafnir dagsins.

 


Söguleg en ekki svo óvænt úrslit í Hartlepool

Það eru vissulega söguleg úrslit að Íhaldsflokkurinn skuli hafa unnið yfirburðasigur í aukakosningum í Hartlepool, en ekki svo óvænt.

Allt frá því að kjördæmið varð til (um miðjan 8. áratuginn) hefur Verkamannaflokkurinn unnið þar sigur.  Mér skilst að Íhaldsflokkurinn hafi síðast átt þingmann á því sem getur kallast "svæðinu"  á Bítlatímabilinu.

En úrslitin eru ekki óvænt að því marki að skoðanakannanir höfðu bent til þessara niðurstöðu um langan tíma. 

En úrslitin eru mikið áfall fyrir Verkamannaflokkinn og sýnir veika stöðu hans.

Það má segja að enn einn steinninn sé horfinn úr "rauða veggnum", jafnvel einn af "hornsteinunum".

Verkamannaflokkurinn virðist aldrei hafa haft möguleika á því að vinna baráttuna í þetta sinn.  Þeir buðu fram yfirlýstan "Sambandssinna", en Hartlepool var "Brexit" svæði með all nokkrum mun.

Verkamannaflokkurinn er ekki í öfundsverðri stöðu, flokkurinn var í sárum eftir formannstíð Corbyn og Starmer hefur ekki náð að stýra honum á rétta braut.

Reyndar má segja að "verkalýðsflokkar" víða um heim, ekki síst í Evrópu, hafi átt erfiða daga á undanförnum árum.

Sósísalistaflokkurinn í Frakklandi er ekki svipur hjá sjón, það sama gildir um Sósíaldemókrata í Þýskalandi og á Norðurlöndunum eiga Sósíaldemókratar jafnframt misjafna daga. 

Það er deilt um hvað veldur. 

Breski Verkamannaflokkurinn á í miklum erfiðleikum sérstaklega utan stórborganna.  Hann hefur þó ekki misst sambandið við verkalýðshreyfinguna, sérstaklega herskárri hluta hennar. 

En margir vilja halda því fram að það sé flokknum ekki til framdráttar.

En gærdagurinn var mikill kosningadagur í Bretlandi og kosið til sveitarstjórna víða, kosið til þings í Skotlandi og Wales.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að einhver heildarmynd sjáist þegar fleiri úrslit koma í ljós.

 

 


mbl.is Óvænt úrslit í Hartlepool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slaufanir og nornaveiðar

Það hefur býsna mikið verið fjallað um svokallaðan "cancelkúltúr", eða "slaufunarmenningu eins og er byrjað að kalla fyrirbærið, upp á síðkastið.

Það kemur ef til vill ekki til af góðu, enda hefur fyrirbærinu vaxið hratt fiskur um hrygg á undanförnum misserum.

Margir hafa líkt þessu við fasisma, enda hefur "cancelkúltúr" líklega hvergi átt betra skjól en hjá alræðisstjórnum s.s. kommúnisma og fasmisma.

Kínverski kommúnistaflokkurinn er ekki síður duglegur við að "cancela" einstaklingum en "Twitterherinn".

Trúarbrögð hafa einnig ljóta sögu hvað slíkt varðar og "canceluðu" mörgum sér ekki þóknanlegum  bókstaflega endanlega, og slíkt virðist enn mæta velþóknun í sumum trúarbrögðum.

Ekki er úr vegi að minnast á nornaveiðar og -brennur í þessu samhengi, enda margt keimlíkt með athöfnunum, þó að nú á tímum séu bálkestirnir og heykvíslarnar næstum eingöngu "sæber".

Þessi árátta er lang mest áberandi nú á vinstri væng stjórnmálanna nú á dögum, en hægri menn hafa vissulega spreitt sig á þessum vettvangi á ýmsum skeiðum. 

Nægir þar að minna á "óameríkanska tímabilið" um miðja síðustu öld.  Þar naut "cancelkúlturinn" sín vel, þó að undir öðru nafni væri. Fáir voru þar líklega "dæmdir" saklausir, ef það að vera kommúnisti er talið saknæmt athæfi, en hversu eðlilegt er að telja stjórnmálaskoðanir saknæmt athæfi?

Reyndar má segja að ekkert sé nýtt í þessu efnum og allt snúist í hringi.  Eins og áður sagði hafa t.d. kristin trúarbrögð "cancelað" (t.d bannfært) marga einstaklinga í gegnum tíðina, en á upphafsárum þeirra trúarbragða létu (í það minnsta ef trúa má frásögnum) Rómverjar ljón sjá um að "cancelera" ýmsum áberandi kristnum einstaklingum.

Það sem ef til vill sker "cancel culture" nútímans hvað mest frá fornum tímum, er að nú á dögum nýtur hann alls ekki stuðnings, eða atbeina hins opinbera nema á stöku stað.

Líkamlegt ofbeldi, þó að það sé ekki óþekkt, er einnig sem betur fer fjarverandi í flestum tilfellum.

"Aftökustaðirnir" eru fjöl- og samfélagsmiðlar og refsingin smánun og atvinnumissir, frekar en "beinar aftökur".

"Athugasemdir" og "statusar" hafa leyst af "heykvíslar" og "kyndla", og vissulega má telja það að til framfara tæknialdarinnar:-)

En að sama skapi krefjast þær framfarir minna af þátttakendum í "blysförunum" sem þurfa ekki að einu sinni að hafa fyrir því að yfirgefa þægindi heimila sinna.

Það má "hafa allt á hornum" sér á sama tíma og steikin er í ofninum, nú eða vinnunni sinnt á "faraldurstímum".

En af hverju eiga svo margir erfitt með að umbera andstæðar skoðanir, önnur trúarbrögð, eða hvað það svo sem er sem fer í taugarnar á þeim?

Auðvitað er alltaf eðlilegt og sjálfsagt að ræða málin, rökræða, berjast um hugmyndir eða "fræði" þeim tengd.

En þýðir það að þeir sem eru andstæðrar skoðunar séu óalandi, óferjandi, eigi skilið að missa vinnunna, eða að engir eigi að kaupa hugverk þeirra?

Auðvitað verður hver að svara fyrir sig.

En frjálslyndi, umburðarlyndi og skilningur á mismunandi sjónarhornum virðast mér víða vera á undanhaldi.

Þó er eðlilegt að halda fram eigin skoðunum og mótmæla þeim sem viðkomandi er ekki sammála.

Jafnvel af festu, en ekki ofstæki.

 


Kosningavél Sjálfstæðisflokksins

Ég rakst á þessa skemmtilegu frétt á Vísi.  Þar er sagt frá því að Svavar Benediktsson, afabarn Svavars Gestssonar fyrrverandi alþingismanns hafi skrifað B.A. ritgerð um "kosningamaskínu" Sjálfstæðisflokksins á árunum 1929 til 1971.

Efnið vakti vissulega áhuga minn og ég fór á vef Skemmunnar og fann þar ritgerðina og hlóð henni niður.

Ritgerðina má einnig lesa hér.

Ég ætla ekki að fella neinn fræðilegan dóm yfir ritgerðinni, engin ástæða til þess af minni hálfu að elta ólar við slíkt, en ég naut lestursins og fannt hún lipurlega skrifuð.

Flest hafði ég heyrt minnst á áður og í raun lítið sem kom á óvart, en vissulega voru tímarnir aðrir.

En ég naut lestursins og kann höfundi bestu þakkir fyrir ritgerðarsmíðina.

Hjá sjálfum mér voru fyrstu "beinu" afskipti af Íslenskum stjórnmálum einmitt að sitja í kjördeild og fyljast með hverjir komu og greiddu atkvæði.  Þegar hugsað er til baka er það obbólítið merkileg lífsreynsla að hafa tekið þátt í slíkum "njósnum".

Þá var ég reyndar barn að aldri, en það kom lítið að sök. 

Áður hafði ég reyndar borið út Tímann og komst merkilega óskaddaður frá því.

En þeim fer líklega fækkandi sem muna eftir því að röð af fulltrúum flokkanna hafi setið í kjördeildum, nú eða eftir Tímanum.

Já, Þannig týnist tíminn.  

 


Þrjátíu ár - Litháen - Ísland

Það vermir vissulega hjartaræturnar að sjá kveðjuna sem Litháen sendir Íslendingum af því tilefni að þrjátíu ár eru liðin frá því að Ísland, fyrst ríkja viðurkenndi Litháen sem sjálfstætt ríki, eða öllu heldur endurheimt sjálfstæðis þeirra.

Að hernámi Sovétríkjanna væri lokið.

Það var vissulega stór atburður og markaði spor í heimsöguna. En Litháen hafði lýsti fyrir endurheimt sjálfstæði 11. mánuðum fyrr, eða 11. mars 1990. Fyrst "lýðvelda" Sovétsins sagði það sig frá því og endurheimti sjálfstæði sitt.

En baráttan var ekki án mannfórna og all nokkrir Litháar guldu með lífi sínu er Sovétið reyndi að kæfa sjálfstæðisvitund þeirra niður, en það var í heldur ekkert nýtt.

Næsta (1991) ár lýstu Lettland og Eistland yfir endurheimt sjálfstæðis síns og sögðu skilið við Sovétið.

Enn og aftur var Ísland í fararbroddi og viðurkenndi hin nýfrjálsu lönd og endurmheimt sjálfstæðis  og tók upp stjórnmálasambönd við þau fyrst ríkja.

Enn sem komið er hef ég ekki heimsótt Litháen, en ég hef ferðast víða í Lettlandi sem og Eistlandi, raunar búið í því síðarnefnda í all nokkur ár.

Í báðum þessum löndum hef ég fundð fyrir gríðarlega þakklæti í garð Íslands og Íslendinga.

Íbúum þessara landa fannst stuðningur Íslands ómetanlegur.

Þeir gerðu sér grein fyrir því að Ísland var ekki stórveldi og myndi aldrei ráða úrslitum í baráttu þeirra.

En að einhver hlustaði og stæði með þeim, "stæði upp" og segði að þeir hefðu rétt fyrir sér, það fannst þeim ómetanlegt og fyrir það eru þeir þakklátir.

Það var alls ekki sjálfgefið að Ísland viðurkenndi sjálfstæði Litháen 1991 og margir Íslenskir stjórnmálamann höfðu talið öll tormerki á því árið áður, það sama gilti reyndar um flesta (en ekki alla) stjórnmálamenn á Vesturlöndum.

En síðan þá hefur Ísland staðið með mörgum smáþjóðum og verið í fararbroddi að viðurkenna sjálfstæði þeirra.

En hvar standa Íslendingar í dag?

Myndu Íslendingar viðurkenna sjálfstæði Tíbet?  Viðurkenna að íbúar Taiwan eigi rétt á því að ákveða hvort þeir vilji vera sjálfstæðir eður ei?

Ótal ný ríki hafa litið dagsins ljós á undanförnum áratugum og útlit er fyrir að fleiri muni bætast í hópinn á þeim næstu.

Stuðningur Íslands við sjálfsákvörðunarrétt þeirra á enn erindi.

 

 


Mýtan um fylgistap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins er enn á ný komin á kreik

Nú eins og oft áður er mikið fjallað um meint fylgistap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnum.

Það er enda, nú sem endranær, mikilvægt í pólítískri skák að reka fleyga á milli samstarfsflokka. 

Jafnvel hefur mátt heyra "virta fræðimenn" taka undir þessa mýtu.

En er hið meinta fylgistap raunverulega til staðar?

Ef sagan er skoðuð er það alls ekki einhlýtt.

1959 byrjuðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í samstarfi, með 39.7 og 15.2% atkvæða á bak við sig.  Í kosningunum 1963 vann Sjálfstæðisflokkur á um 1.7% stig en Alþýðuflokkur tapaði 1% stigi.

Aftur var kosið 1967, þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.9% stigum, en Alþýðuflokkur vann á, 1.5% stig.  Þegar hér er komið í sögu Viðreisnarstjórnarinnar hefur Alþýðuflokkur því unnið á um 0.5% stig frá upphafi hennar, en Sjálfstæðisflokkur tapað 2.2% stigum. 

Enn er kosið 1971 og þá tapar Sjálfstæðisflokkur 1.3% stigi til viðbótar en Alþýðuflokkurinn tapar 5.2% stigum.

Á meðan þeir tóku þátt í Viðreisnarstjórninni, þá tapar Alþýðuflokkur því 4.7% stigum en Sjálfstæðisflokurrinn 3.5% stigum.  Það er allur munurinn.  Sé horft til þess að nýr flokkur var kominn fram á sjónarsviðið á vinstri væng stjórnmálanna, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna sem fékk 8.9% 1971, þá getur það varla talist stórundarlegt þó að Alþýðuflokkur hafi tapað örlítið meira.  Enginn talar þó um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að vera í samstarfi við Alþýðuflokkinn.

1974 vinnur svo Sjálfstæðisflokkurinn á um 6.5% stig, en Alþýðuflokkurinn heldur áfram að tapa, þá 1.4% stigi, án þess að hafa verið í stjórn, hvað þá með Sjálfstæðisflokki.

Þá tekur við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þegar kosið er svo 1978, tapar Framsóknarflokkur 8% stium en Sjálfstæðisflokkur tapar 10% stigum.  Sjálfstæðisflokkur tapaði sem sé 2% stigum meira heldur en Framsóknarflokkurinn.  Samt talar enginn um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að sitja í stjórn með Framsókn.  Alþýðuflokkurinn vinnur stórsigur, A-flokkarnir leiða Framsókn til öndvegis, vegna þess að þeir geta ekki komið sér saman um hvor þeirra eigi að fá forsætisráðuneytið.

Enn er kosið 1979.  Þá tapar Alþýðuflokkurinn 4.6% stigum, en Framsóknarflokkur vinnur á um 8% stig.  Engan man þó eftir að hafa talað um að það hafi verið Alþýðuflokknum sérstaklega slæmt að vera í stjórn með Framsókn.

Þá tekur við ríkistjórn Gunnars Thoroddsen.  Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og lítill hluti Sjálfstæðisflokks.

Síðan er kosið 1983.  Sjálfstæðisflokkur vinnur á, 3.3% stig, en Framsóknarflokkur tapar 5.9% stigum.  Þeir mynda saman stjórn.

1987, Sjálfstæðisflokkur tapar 11.5% stigum, en Framsóknarflokkur tapar aðeins 0.1% stigum.  Rétt er þó að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Borgaraflokkurinn fram og fékk 10.7%.  Þó að það sé tekið með í reikninginn, þá tapar Sjálfstæðisflokkurinn meira heldur en Framsóknarflokkurinn.

1991. Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir fyrri styrk og eykur fylgi sitt um 11.4% stig.  Framsóknarflokkur stendur í stað og Alþýðuflokkur eykur fylgi sitt um 0.3% stig.  Viðeyjarstjórnin er mynduð.

1995.  Sjálfstæðisflokkur tapar 1.5% stigi af fylgi sínu en Alþýðuflokkur tapar 4.1% stigi af sínu fylgi. Framsóknarflokkur eykur fylgi sitt um 4.4% stig og fær 23.3%  Það verður þó að hafa í huga þegar þessi úrslit eru skoðuð, að Alþýðuflokkurinn hafði klofnað, Jóhanna Sigurðardóttir hafði stofnað Þjóðvaka og fengið 7.2% atkvæða. Tap Alþýðuflokksins hlýtur því frekar að skrifast á Jóhönnu Sigurðardóttur heldur en samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.  Það er ekki alls ekki ólíklegt að ríkisstjórnin hefði haldið velli, og haldið áfram samstarfi ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki klofnað, en vissulega er engan veginn hægt að fullyrða um slíkt.

Þá hefst langt ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Kosið er 1999.  Þá vinnur Sjálfstæðisflokkurinn á um 3.6% stig fær 40.7% atkvæða en Framsókn tapar 4.9% stigum og fær 18.4%.  Nýtt flokkakerfi er komið til sögunnar, Samfylkingin fær 26.8%, VG 9.1% og Frjálslyndi flokkurinn 4.2%.

Komið er að kosningum 2003.  Þá fær Sjálfstæðisflokkur 33.7%, tapar 7% stigum og Framsóknarflokkur 17.8% og tapar 0.6% stigi. 

Hvor flokkurinn var að tapa meira?

Og Framsóknarflokkurinn tapaði í kosningum árið 2007. Ef ég man rétt tapaði Framsókn í kringum 6% stigum og Sjálfstæðisflokkurinn vann á í kringum 3% stig.  En þá, hafði Framsóknarflokkurinn átt í löngu basli og formannsskiptum sem ekki gengu eða virkuðu vel.

Þá tók við ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.  Ekki er hægt að segja Samfylkingin hafi riðið lakari hesti en Sjálfstæðisflokkurinn frá þeirri ríkisstjórn í kosningunum 2009. Þá tapaði Sjálfstæðisflokkurinn 12.9% stigum, en Samfylkingin bætti við sig 3.  En ég er ekki þeirrar skoðunar að það hafi verið samstarfsflokknum að kenna, hvernig fylgið reittist sf Sjálfstæðisflokknum.

Það er síðan óþarfi að rifja það upp sérstaklega hvernig fór fyrir þeirri ríkisstjórn sem var mynduð 2009, þegar kosið var 2013. Evrópumet í fylgistapi litu dagsins ljós og báðir stjórnarflokkarnir töpuðu gríðarlegu fylgi.  Engin talaði um það væri vegna samstarfslokksin, enda held að að báðir flokkarnir hafi átt fylgistapið skilið.

Samfylkingin tapaði ríflega helmingi fylgis síns, eða 16.9% stigum, en VG "aðeins", 10.8% stigum, rétt tæplega helming af fylgi sínu.

Sé aðeins litið til stjórnarsamstarfs, er það því Samfylkingu mun "hollara" að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokk en Vinstri græn, án þess að ég sé sérstaklega að mæla með slíku samstarfi.

Rétt er að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Björt framtíð fram, undir forystu fyrrum Samfylkingar og Framsóknarmannsins Guðmundar Steingrímssonar, og hlaut 8.2% atkvæða, sem líklega voru að einhverju marki frá Samfylkingu komin.

En bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur unnu á 2013, sérstaklega Framsóknarflokkurinn sem vann eftirminnilegan kosningasigur og bætti við sig 9.6% stigum.

Þeir mynduðu síðan ríkisstjórn.

Næst var síðan kosið 2016.

Sjálfstæðiflokkurinn vann lítillega á, bætti við sig 2.3% stigum, en Framsóknarflokkurinn, undir nýrri forystu, tapaði stórt, eða 12.9% stigum.  En ég held að fæstir sem fylgdust með stjórnmálum telji það að miklu leyti tengt við samstarf við Sjálfstæðisflokk.  Innanmein flokksins spiluðu þar líklega stærri rullu.

Samfylking hélt í þeim kosningum áfram að helminga fylgi sitt, og tapaði 7.2% stigum, og það þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu.

Viðreisn kom í fyrsta sinn til sögunnar og hlaut góðar undirtektir, hlaut 10.5% atkvæða.

Þá var mynduð skammlíf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjarrtar framtíðar.

Kosið var enn á ný 2017.

Þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.8% stigum og Viðreisn sömuleiðis 3.8%, stigum, í þeim kosningum undir nýrri forystu.

Björt framtíð tapaði 6% stigum, og náði ekki inn manni á þing og hvarf úr sögunni. Sjálfsagt má skrifa tapið að einhverju marki á ríkisstjórnarþátttöku.  Það var enda svo að á köflum var erfitt að sjá hvar BF endaði og Viðreisn byrjaði.  Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að flokkinn hafi jafnframt vantað "undirstöðu". 

En sjálfsagt kjósa einhverjir að skrifa þetta alfarið á samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.

Samfylkingin náði ágætri kosningu og tvöfaldaði fylgi sitt, jók það um 6.4% stig undir nýrri forystu.

Miðflokkurinn kom til sögunnar og hlaut góða kosningu, eða 10.9%.

Rikisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna var mynduð.

Við eigum svo eftir að ajá hvernig fer í næstu kosningum.

Meginlínan í Íslenskum stjórnmálum hvað tap varðar, er að ríkisstjórnarflokkar tapa fylgi, stjórnarandstöðu gengur betur.  Þó vissulega með athyglisverðum undantekningum, t.d. hjá Samfylkingu árið 2016.

Sé "góðæri" getur það einnig hjálpað stjórnarflokkum.

Samfylking hefur aðeins átt í stjórnarsamstarfi við tvo flokka, Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn.  Báðir flokkarnir fengu afleita kosningu eftir slíkt samstarf.  Sjálfsagt mundu einhverjir draga þá ályktun að samstarf við Samfylkingu væri "eitraður kaleikur", en það er ekki sanngjarnt, það verður eins og í öllum öðrum tilfellum að líta til kringumstæðna.

En það er heldur engin raunveruleg innistæða fyrir því að allir samstarflokkar Sjálfstæðisflokks tapi fylgi, sérstaklega þegar litið er til kringumstæðna, s.s. klofning samstarfslokka, nýrra flokka og annarar "vandræða" sem samstarfsflokkar hafa glímt við.

P.S. Þessi færsla er að stórum hluta byggð á færslum mínum um sama efni, árið 2007 og 2016.

 


mbl.is Grímuklætt ríkisráð fundaði á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Covid-19 verra en flensa? Líklega fer að eftir því við hvaða flensu og hvaða land er miðað

Margir hafa sagt að Covid-19 sé ekkert verri en venjuleg flensa.  Ég er ekki alveg sammála því.

En er Covid-19 verri en mjög slæm flensa?  Ef þannig væri spurt ætti ég erfiðara með því að gefa ákveðið svar.

Tökum sem dæmi flensuna sem geysaði 1968.  Hún var gjarna kölluð "Hong Kong flensan" og sumir kölluðu hana jafnvel "Maó flensuna".  Það var auðvitað áður en en sú hugsun læddist að nokkrum manni að það samræmdist ekki "nútíma hugsunarhætti" að kenna veikindi við uppruna þeirra, hvað þá "sósíalíska leiðtoga sem veittu sólskini yfir jarðarkringluna".

Hún þótti "nýjung" þá, en er eftir því sem ég kemst næst nákskyld því sem við köllum influensu A, í dag.

En hvað veiktust margir af "Hong Kong" flensunni og og hvað margir létust?

Um það er alls ekki einhugur. Lægstu tölur segja ríflega milljón einstaklinga hafa látist, en hæstu tölur eru í kringum 4. milljónir.  Það voru líklega ekki birtar daglegar tölur þá, eins og tíðkast nú.

Engin virðist hafa nokkra hugmynd um hvað margir veiktust.

Líklega hefðu áhrif "Hong Kong flensunnar" orðið mun meiri og alvarlegri, hefði bóluefni ekki komið til sögunnar 4. mánuðum eftir að hennar varð fyrst vart.

Það sama má reyndar segja um "venjulegu flensuna" sem herjaði á heimsbyggðina árið 1957.

Rétt er að hafa í huga að árið 1968 voru íbúar heimsins álitnir u.þ.b. 3.5 milljarðar, eða vel undir helmingi af þeim 7.5 milljörðum sem taldir eru búa þar í dag.

Árið 1957 voru íbúar heimsins taldir tæplega 2.9 milljarðar.

Það má því vera nokkuð ljóst að flensurnar 1957 og 1968 hjuggu líklega stærri skörð í íbúafjölda heimsins heldur en Covid-19 hefur náð að gera, en vissulega er heimsbyggðin ekki búin að bíta úr nálinni með Covid-19 enn.

Ef miðað er við hærri tölurnar um dauða 1957 og 1968, þyrftu dauðsföll að ná fast að 10. milljónir, til að vera hlutfallslega sambærileg.

Enn sem komið er er því Covid-19 verra en hefðbundin flensa, en ekki eins slæmt eða svipað og "slæm flensuár".

En þá eins og nú urðu lönd mjög misjafnlega fyrir barðinu á "óværunni".  Talið er að t.d. 100.000 einstaklingar hafi látist í Bandaríkjunum 1968/69/70 (tveir vetur) af völdum flensunar.  Þá voru íbúar þar í kringum 200 milljónir.  Það er því nokkuð ljóst að Bandaríkin eru að fara heldur verr út úr "kófinu" en flensunni 1968.

En sé litið til Þýskalands er talið að í kringum 60.000 einstaklingar hafi látist í Austur og Vestur Þýskalandi. 

Það er mikið hærri tala en nú af völdum Kórónuveirunnar. Þó hefur íbúum sameinaðs Þýskalands fjölgað verulega.

Til dæmis er talað um að dauðsföll hafi verið svo mörg í Berlín að líkum hafi verið staflað í neðanjarðarlestargöngum.  Ekki hafi hafst undan við að grafa þá sem dóu og sorphreinsunarmenn hafi verið "shanghæjaðir" í störf grafara.

Í Frakklandi var talið að allt að helmingur vinnandi fólks hafi lagst í rúmið.

Það var einnig mjög mismunandi eftir löndum hvort að fyrri bylgjan (68/69) olli fleiri dauðsföllum en seinni bylgjan (69/70).

En yfirleitt var gripið til lítilla eða engra sóttvarnaraðgerða, þó að vissulega færu margir varlega.

Það er til dæmis vert að hafa í huga að á milli fyrri og seinni bylgjunnar í Bandaríkjunum, eða sumarið 1969, nánar tiltekið í ágúst, var blásið til Woodstock.  Það var síðan í október sem seinni bylgjan fór á fulla ferð.

Eins og velþekkt er úr sögunni vantaði heldur ekki mótmælasamkomur á þessum árum, hvorki í Bandaríkjunum eða Evrópu.

Bæði forseti og varaforseti Bandaríkjanna smituðust af flensunni og yfirleitt er talið að geimfari, sem varð veikur á braut um jörðu hafi smitast af þeim. Hann var þó aðeins 1. af 3.

Þeir sem kannast við hugtakið "68 kynslóðin" gera sér líklega grein fyrir því að fjölmenn mótmæli áttu sér stað bæði austan hafs og vestan á þessum árum.

Það er reyndar eftirtektarvert hve erfitt er að finna yfirgripsmiklar heimildir um þessa faraldra sem þó kostuðu svo mörg mannslíf.

En líklega var tíðarandinn annar. 

Samfélagsmiðlar þekktust ekki, fjölmiðlun var allt önnur og samfélagið sömuleiðis.

Hvernig skyldi verða fjallað um "kófið" að 50. árum liðnum?  Verður fókusinn á hættuna?  Eða viðbrögðunum?

Eða verður þetta að mestu leyti gleymt?

 


Styttur bæjanna

Saga, söguskoðanir og styttur af ýmsu merku fólki hafa komið mikið inn í umræðuna á undafnförnum vikum, og reyndar oft áður.

Eins og oft þá er hetja eins skúrkur í augum annars.

Ef til vill er skemmst að minnast framgöngu Sovétmanna/Rússa á síðari árum síðari heimstyrjaldar.

Margir líta svo á að að Rauði/Rússneski herinn hafi verið frelsari stórs hluta Evrópu.  Í augum annara var hann kúgunartól sem hrakti á brott Þjóðverja til þess eins að hernema/kúga land þeirra.

Báðar skoðanir eru að mínu mati réttar og geta staðið hlið við hlið.

Það hernám/kúgun varði mun lengur en Þjóðverja og þegar Sovétveldið riðaði til falls suttu eftir 1990 mátti víða sjá fagnandi hópa rífa niður styttur af "hetjum/skúrkum" svo sem Lenín, Stalín og ýmsum stríðshetjum Sovétmanna.

Einhverjar voru vafalaust eyðilagðar í hita leiksins og er það miður.

Þar sem betur tókst til (að mínu mati) voru styttur af ýmsum "fyrirmennum" teknar niður og færðar í garðaGarðarnir eru of tengdir söfnum.

En það eru margir einstaklingar sem eru bæði "hetjur og skúrkar".  Þannig hefur frelishetja í augum margra Indverja fengið á sig skúrks stimpil í Afríku vegna viðhorfa sinna til svartra.

Stytta af honum var til dæmis tekin niður í Ghana fyrir fáum árum.

En Gandhi var Martin Luther King, einum merkilegasta leiðtoga réttindabaráttu svartra, innblástur í baráttu sinni.

Sagan getur vissulega verið flókin.

Einhverjir blettir mun ýmsum sömuleiðis þykja á kufli Gandhis hvað varðar afstöðu hans til kvenna.

En í mínum huga breytir það ekki að Gandhi er partur af sögunni og engin ástæða til að þurka út hans hluta, eða láta allar styttur af honum hverfa.

Hvar þær eru staðsettar er hins vegar sjálfsagt umræðuefni.

Það má líka nefna Karl Marx.  Það olli deilum þegar stytta af Marx  (gjöf frá Kínverjum) var reist í fæðingarbæ hans, Trier fyrir fáum árum.

En ég held að það verði ekki deilt um að Marx hefur haft umtalsverð áhrif á mannkynssöguna, þó að skiptar skoðanir séu um hvort að það hafi verið til góðs eða ills.

Ýmis af hræðilegustu stjórnkerfum sögunnar tengjast honum og kenningum hans með einum eða öðrum hætti.  En þrátt fyrir það eru styttur af honum að finna víðs vegar um heiminn. 

Þar gildir það sama, það er sjálfsagt að ræða staðsetningar styttna og minnismerkja, en það er engin ástæða til þess að eyðileggja þær eða skemma.

Skrílsháttur, skemmdarverk og ofbeldisfull framganga er engum málstað til framdráttar að mínu mati.

Það getur vel verið að ýmsar af "styttum bæjanna" eigi heima á "sögulegum Árbæjarsöfnum".  Þar geta þær sómt sér vel, jafnvel með tilhlýðilegum útskýringum.

Að vitna í Orwell á líklega ágætlega við hérna, "Who controls the past controls the future: who controls the present controls the past."

En þó sð skilningur okkar á fortíðinni og sögunni breytist stundum, er ekki réttlætanlegt að þurka hana út.

Stundum er hægt að leysa málin eins og gert var í Grænlandi fyrir stuttu síðan (sjá viðhengda frétt), og leysa málin með atkvæðagreiðslu íbúa.

Annars staðar geta yfirvöld lagt grunn að málamiðlunum.

Vonandi án þess að ofbeldi ráði ferðinni

 

 


mbl.is Vilja halda í styttu nýlenduherrans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband