Slaufanir og nornaveiðar

Það hefur býsna mikið verið fjallað um svokallaðan "cancelkúltúr", eða "slaufunarmenningu eins og er byrjað að kalla fyrirbærið, upp á síðkastið.

Það kemur ef til vill ekki til af góðu, enda hefur fyrirbærinu vaxið hratt fiskur um hrygg á undanförnum misserum.

Margir hafa líkt þessu við fasisma, enda hefur "cancelkúltúr" líklega hvergi átt betra skjól en hjá alræðisstjórnum s.s. kommúnisma og fasmisma.

Kínverski kommúnistaflokkurinn er ekki síður duglegur við að "cancela" einstaklingum en "Twitterherinn".

Trúarbrögð hafa einnig ljóta sögu hvað slíkt varðar og "canceluðu" mörgum sér ekki þóknanlegum  bókstaflega endanlega, og slíkt virðist enn mæta velþóknun í sumum trúarbrögðum.

Ekki er úr vegi að minnast á nornaveiðar og -brennur í þessu samhengi, enda margt keimlíkt með athöfnunum, þó að nú á tímum séu bálkestirnir og heykvíslarnar næstum eingöngu "sæber".

Þessi árátta er lang mest áberandi nú á vinstri væng stjórnmálanna nú á dögum, en hægri menn hafa vissulega spreitt sig á þessum vettvangi á ýmsum skeiðum. 

Nægir þar að minna á "óameríkanska tímabilið" um miðja síðustu öld.  Þar naut "cancelkúlturinn" sín vel, þó að undir öðru nafni væri. Fáir voru þar líklega "dæmdir" saklausir, ef það að vera kommúnisti er talið saknæmt athæfi, en hversu eðlilegt er að telja stjórnmálaskoðanir saknæmt athæfi?

Reyndar má segja að ekkert sé nýtt í þessu efnum og allt snúist í hringi.  Eins og áður sagði hafa t.d. kristin trúarbrögð "cancelað" (t.d bannfært) marga einstaklinga í gegnum tíðina, en á upphafsárum þeirra trúarbragða létu (í það minnsta ef trúa má frásögnum) Rómverjar ljón sjá um að "cancelera" ýmsum áberandi kristnum einstaklingum.

Það sem ef til vill sker "cancel culture" nútímans hvað mest frá fornum tímum, er að nú á dögum nýtur hann alls ekki stuðnings, eða atbeina hins opinbera nema á stöku stað.

Líkamlegt ofbeldi, þó að það sé ekki óþekkt, er einnig sem betur fer fjarverandi í flestum tilfellum.

"Aftökustaðirnir" eru fjöl- og samfélagsmiðlar og refsingin smánun og atvinnumissir, frekar en "beinar aftökur".

"Athugasemdir" og "statusar" hafa leyst af "heykvíslar" og "kyndla", og vissulega má telja það að til framfara tæknialdarinnar:-)

En að sama skapi krefjast þær framfarir minna af þátttakendum í "blysförunum" sem þurfa ekki að einu sinni að hafa fyrir því að yfirgefa þægindi heimila sinna.

Það má "hafa allt á hornum" sér á sama tíma og steikin er í ofninum, nú eða vinnunni sinnt á "faraldurstímum".

En af hverju eiga svo margir erfitt með að umbera andstæðar skoðanir, önnur trúarbrögð, eða hvað það svo sem er sem fer í taugarnar á þeim?

Auðvitað er alltaf eðlilegt og sjálfsagt að ræða málin, rökræða, berjast um hugmyndir eða "fræði" þeim tengd.

En þýðir það að þeir sem eru andstæðrar skoðunar séu óalandi, óferjandi, eigi skilið að missa vinnunna, eða að engir eigi að kaupa hugverk þeirra?

Auðvitað verður hver að svara fyrir sig.

En frjálslyndi, umburðarlyndi og skilningur á mismunandi sjónarhornum virðast mér víða vera á undanhaldi.

Þó er eðlilegt að halda fram eigin skoðunum og mótmæla þeim sem viðkomandi er ekki sammála.

Jafnvel af festu, en ekki ofstæki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Vandinn er ekki síst sá, að svo virðist sem ýmsir líti svo á að hugmyndin um "frjálslyndi, umburðarlynd og skilning á mismunandi sjónarhornum" sé í sjálfri sér ákveðin hugmyndafræði/valdatæki ráðandi hóps (vestrænna líberala) og því þurfi að berjast gegn henni, eða að minnsta kosti taka henni af mikilli varúð.

Svo má ekki gleyma því að því er stundum haldið fram að orðræða geti verið ákveðin tegund af ofbeldi og því sé nauðsynlegt að "aflýsa" og "de-platform" ákveðna orðræðu (þe. ákveðinna manna, t.d. kanadíska sálfræðingsins Jordan Peterson). 

Kristján G. Arngrímsson, 12.4.2021 kl. 17:42

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Amen.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.4.2021 kl. 18:52

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég get nú ekki nema að littlu leyti tekið undir hjá þér.

Persónulega sýnist mér að "vestrænir liberalir" sem þú nefnir svo (en vissulega má segja að það hugtak sé dulítið á reiki eins og mörg önnur) séu í fararbroddi "cancel kúltúrsins".

Því þegar á reynir virðast býsna margir þeirra hafa yfirgefið frjálslyndið og umburðarlyndið.

Þeim finnst engin ástæða til að hlusta á andstæðar skoðanir, en vilja frekar koma í veg fyrir að þeir sem þær hafa, geti talað eða gefið út verk sín.

Orð geta vissulega "meitt", eða sært og orðum fylgir ábyrgð.  Það er alla vegna mín skoðun.  Það þýðir hins vegar ekki að hver og einn hafi rétt til að velja og hafna hvað hann kann að heyra. 

Það þarf enginn að hlusta á Jordan Peterson (fyrst þú tókst hann sem dæmi), né kaupa bækur hans.  Ef hann birtist á sjónvarpsskjá hafa flestir þann hæfileika og getu að skipta um rás.

Það þótti t.d. mörgum ástæða til að "aflýsa" og "de-platforma" kommúnista t.d. í Bandaríkjunum um miðja síðustu öld.

En þeir höfðu í það minnsta flestir það "dísensí" að kalla sig ekki frjálslynda.

En það er (að minni skoðun) fólki frjálst að hafa "alræðis/kommúnískar/fasískar" skoðanir og vilja banna þessar skoðanir eða hinar.

En þá kalla ég það líka þeim nöfnum.

G. Tómas Gunnarsson, 12.4.2021 kl. 22:45

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Merking "liberalism" er svo sannarlega á reiki. En það sem ég átti við var að þau gildi sem þú talar um, umburðarlynd, málfrelsi og skilningur á mismunandi skoðunum, myndi ég telja vera kjarnann í liberalisma, en það eru jú eiginlega þessi gildi sem cancel kúlturinn hefur skorið upp herör gegn. Þar með gegn liberalisma, myndi ég segja. Hvort einhverjir sem héldu þessi gildi hafa snúið baki við þeim og gengið cancel kúlturnum á hönd er svo önnur saga. En ég myndi ekki kalla þá liberal lengur.

Mér hefur sýnst cancel kúlturinn byggja á þeirri "sjálfljósu" hugmynd að öll samskipti fólks séu valdabarátta og að hlutlaus samskipti séu ekki til. Svokallað "umburðarlyndi" og "málfrelsi" er skv. þessu ekki annað en dulin valdatæki. 

Ekki að ég sé þarna að lýsa minni eigin skoðun (þvert á móti). 

Mér hefur líka skilist að þessi hugmynd um valdabaráttuna sé runnin undan rifjum franskra heimspekinga á borð við Foucault. Það virðist vera farið með þessa hugmynd sem "sjálfljósa" staðreynd - svona eins og bandaríska stjórnarskráin segir það sjálfljóst að allir séu fæddir jafnir - og ekki færð nein sérstök rök fyrir þessu. Enda er sú hugmynd að maður eigi að færa rök fyrir skoðunum sínum ekki annað en enn eitt valdatæki þeirra sem eru góðir í að færa rök fyrir máli sínu.

Kristján G. Arngrímsson, 13.4.2021 kl. 07:13

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Náði í nokkra skilgreiningar á liberalisma,

Liberalism is a political and moral philosophy based on liberty, consent of the governed and equality before the law.[1][2][3] Liberals espouse a wide array of views depending on their understanding of these principles, but they generally support free markets, free trade, limited government, individual rights (including civil rights and human rights), capitalism, democracy, secularism, gender equality, racial equality, internationalism, freedom of speech, freedom of the press and freedom of religion.

Wikipedia

Liberalism, political doctrine that takes protecting and enhancing the freedom of the individual to be the central problem of politics. Liberals typically believe that government is necessary to protect individuals from being harmed by others, but they also recognize that government itself can pose a threat to liberty. As the revolutionary American pamphleteer Thomas Paine expressed it in Common Sense (1776), government is at best “a necessary evil.” Laws, judges, and police are needed to secure the individual’s life and liberty, but their coercive power may also be turned against him. The problem, then, is to devise a system that gives government the power necessary to protect individual liberty but also prevents those who govern from abusing that power.

Britannica

Svo eru auvitað til langar ritgerðir og bækur.  Kanadíski alfræðivefurinn er með söguskýringu á liberalisma í Kanada, sem finna má hér.  Lokaorðin þar eru:  The proudest achievement of Canadian liberalism has been, in the words of Sir Wilfrid Laurier, Canada's most eloquent liberal, the creation of this "regime of tolerance."

Það má t.d. líklega bæta sterkum rétti einstaklingsins við grunngildi liberalisma.

Jafnrétti, jafnur réttur fyrir lögum er einnig rauður þráður.  Persónulega finnst mér það annað hugtök sem er búið að "tvista og teygja" í vægast sagt umdeilanlegum pólítískum tilgangi.

Auðvitað getum við haldið því fram að allt lífið sé barátta um völd og hugmyndir/pólítík, ef við reynum að einfalda málið.

Er þá meginskilin í þeirri baráttu á milli þeirra sem vilja fá völd og vinna hugmyndum sínum fylgi á lýðræðislegan hátt og þeirra sem vilja banna og útiloka að aðrar hugmyndir en sínar eigin heyrist?

Einföld spurning ekki satt?  lol

En svo að ég prjóni aðeins við fræga setningu Heines....

Þar sem er verið að brenna bækur eða banna þær, munu þeir á endanum banna og brenna fólk.

G. Tómas Gunnarsson, 13.4.2021 kl. 12:08

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Er ekki tungumálið sem slíkt valdatæki samkvæmt postulum á borð við Foucault?

Þorsteinn Siglaugsson, 13.4.2021 kl. 22:11

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þorsteinn, jú samkvæmt þessum fræðum (ef fræði skyldi kalla) er tungumálið sennilega eitt allra öflugasta valdatækið til að halda "óæskilegum" öflum niðri. Því þetta snýst jú allt um "oppression", ekki satt? (Sbr. post-colonial studies).

Auðvitað má segja að tungumálið geti verið valdatæki í einmitt þessum tilgangi - tungumálið er tæki, að sumu leyti - en það er nú samt frekar mikil einföldun í skilningi á tungumálinu, myndi ég segja.

Þessi "fræði" eru stundum nefnd "gremjufræði" - á ensku grievance studies.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2021 kl. 07:10

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján og Þorsteinn, þakka ykkur fyrir þetta. Vandamálið er ef til vill ekki síst þegar eitthvað er talið algilt og þegar vilji er til að yfirfæra "aðstæður og forsendur" óbreyttar á milli svæða, landa eða t.d. tímabila.

Ég myndi ekki vilja neita því afdráttarlaust að tungumál geti verið kúgunar- og/eða valdatæki.

Ég hugsa að margir Ukraínumenn myndu taka undir það og sömuleiðis til dæmis íbúar Eystrasaltslandanna.  Þar var Rússneska eitt af valda og kúgunartækjunum.

Mörgum Finnum fannst Sænska vera "kúgunartæki". Gilti það sama á Íslandi með Dönskuna?  Veit það ekki en á tímabili kann að hafa verið erfitt að reka erindi sitt á Íslensku.

Getum við ekki talið að latína hafi verið eitt af kúgunartækjum kaþólskunnar og eitt af baráttumálum mótmælenda hafi verið að fá bíblíuna á eigin tungumáli?

En að það þýði að tungumál sé allstaðar, og hafi alltaf verið "kúgunartæki" er svo annað mál.

"Grievance studies" eru vissulega "merkilegt fyrirbæri og ég get ekki gert að því að "The Grievance Studies Hoax", kemur alltaf fyrst upp í hugann þegar ég heyri á þær minnst.

https://en.wikipedia.org/wiki/Grievance_studies_affair

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2021 kl. 13:41

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Svo er reyndar annar dálítið athyglisverður vinkill á þessum slaufunarkúltur og hann er að hversu miklu leyti slaufanir eiga sér ekki siðferðilegar rætur (af því að sá sem slaufað er er talinn hafa gert eitthvað siðferðilega rangt) heldur hreinlega eru taldar "good business sense" - eins og t.d. þegar háskólar (sem eru núorðið reknir eins og hver önnur fyrirtæki) slaufa starfsfólki til að hafa neytendur (nemendur) góða.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2021 kl. 18:57

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Þarna ertu að mínu mati að blanda saman ákvarðanatöku og kröfu.

Það að fyrirtæki ákveði að láta undan einhverjum þrýstingi er líklega, jafnvel oftar en ekki, tekin af viðskiptalegum grunni, frekar en "siðferðislegum" (sem er umdeilanlegt hvort að nota eigi í þessu tilfelli, er ekki bara verið að reyna að taka sér völd :-).

En krafan á fyrirtækið er þá byggð á "siðferðislegum" grunni, ef við leyfum okkur að nota það orð.

En hvað háskólana varðar, þá má ekki alhæfa, en mér sýnist að þetta gerist gjarna í skólum þar sem langur biðlisti er að komast inn í.  Það er því varla viðskiptahliðin sem vegur þyngst og getur jafnvel skaðað hana til langs tíma, því oft er um mjög "virta og þekkta" einstaklinga að ræða sem eru t.d. hrakktir frá kennslu.

En mér sýnist "siðferðiskrafan" oft ekki síður koma frá starfsfólki skólanna.  Hvers vegna?

Er ekki valdabarátta í því "híarkíi" eins og öðrum, og getur komið sér vel að losna við "samkeppnisaðila", jafnvel ekki síður ef hann þykir "fremri".   LOL

G. Tómas Gunnarsson, 15.4.2021 kl. 14:07

11 identicon

Það er orðið ekkert gaman að lesa þetta, þið eruð eiginlega svo svakalega sammála.

En það eru ýmsir fletir á þessu. Einn er að hvort sem um er að ræða skóla, fjölmiðil eða bara eitthvað fyrirtæki (svo ekki sé talað um einstaklinga), þá má viðkomandi alveg ákveða að styðja ekki einhverja þá orðræðu eða stefnu sem þeim finnst ganga gegn því sem þeim finnst rétt. T.d. með því að sleppa því að veita slíku pláss á sínum miðlum, húsakynnum eða einhverju.

ls (IP-tala skráð) 15.4.2021 kl. 20:07

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta. Það þýðir auðvitað ekkert að neita því að ég hafi orðið mildari og umburðarlyndari með árunum.

Þó er ekkert loku fyrir það skotið að ég og Kristján eigum eftir að verða ósammála á næstunni, ekki síst ef ég nenni að leggja mig fram.

En hvað hitt varðar þá eru eins og þú segir ótal fletir á málinu.  Háskóli eða menntaskóli þarf alls ekki að bjóða hinum eða þessum ræðumönnum að koma og messa yfir nemendum.  Í raun ættu þeir að mestu eða öllu leyti að sleppa slíku að mínu mati.

En ef skólinn neitar hins vegar félögum nemenda að um að "þessi" haldi ræðu, en "hinn" er í lagi, erum við að mínu mati kominn á grátt svæði.

Fjölmiðlar á "mission" eru að sjálfsögðu ekkert nýtt.  Greini þeir frá henni er það til fyrirmyndar.  Geri þeir það ekki, er slíkt langt í frá bannað og það er ekki eins og það séu ekki til nóg af slíkum fjölmiðlum.

Nú eru t.d. í gangi myndbönd af starfsmanni CNN, þar sem hann lýsir "missioni" stöðvarinnar.  Ég veit ekkert um hvort hann er að segja fullan sannleikann, eða vill ganga í augum á einhverjum og upphefja mikilvægi sitt.

En auðvitað er ekkert sem bannar "mission", en það dregur vissulega úr trúverðugleika stöðvarinnar, sem var ekki mikið fyrir í mínum huga.

En fyrirtæki taka ákvarðanir út frá hagsmunum sínum, að gera flestir ef út í það er farið, líka stjórnmálamenn.

Ég sé ekki að það muni breytast.

G. Tómas Gunnarsson, 15.4.2021 kl. 23:12

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má bæta við þeirri spurningu hvort að það geti t.d. talist eðlilegt að bankar á Íslandi geti neitað félagsskap á Íslandi sem hefur verið löglega stofnaður á Íslandi, fengið kennitölu o.s.frv. um bankaviðskipti?

Þá er ég ekki að tala um að að óeðlilegt sé að bankinn á einhvern hátt takmarki viðskiptin (lánafyrirgreiðslur, yfirdrátt o.s.frv), en einfaldlega neiti að eiga viðskipti við einhvern einstakling eða lögaðila?

Skiptir í slíkum kringumstæðum t.d. einhverju máli hvor að bankarnir eru í ríkiseigu eða ekki?

G. Tómas Gunnarsson, 16.4.2021 kl. 01:22

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Fyrirtækjum hlýtur að vera í sjálfsvald sett hvaða viðskiptavini það vill og hverja ekki. Sbr. t.d. fjárfestingastefnu norska olíusjóðsins.

Þetta er kannski frekar spurning um ástæður og aðferðir. Miklu skiptir að sæmileg rök (sannfærandi útskýringar) séu færð fyrir því að neita einhverjum um viðskipti. Persónulega finnst mér sjálfsagt að sannkristnir bakarar neiti að búa til köku handa samkynhneigðum hjónum ef slíkt sker þá í hið kristna hjarta (reyndar finnst mér svonalagað ekki mjög kristilegt, en það er bara mín skoðun). Samkynhneigðu hjónin ættu væntanlega kost á að finna annað bakarí og hinn kristni bakari nýtur jú trúfrelsis og trúarsannfæring er góð útskýring, svona per se. En ef maður ber fyrir sig trúarsannfæringu til að mega drepa einhvern eða meiða til að "vernda" guð sinn og trú fer þetta auðvitað að horfa öðru vísi við.

Svipað gildir um "aflýsingar" ræðumanna í skólum. Grunnreglan ætti að vera málfrelsi en eins og aðrar reglur hefur hún undantekningar. Málflutningur getur orðið hættulegur - sbr. þetta með að hrópa "eldur" í troðfullum samkomusal.

En hvers vegna aflýsa skólayfirvöld einhverjum ræðumanni? (Sbr. þegar Oxford aflýsti Jordan Peterson). Er það af því að umræddur maður hefur hættulegar skoðanir fram að færa eða er það af því að tiltekinn nemendahópur (kannski lítill og hávær) krefst þess? Fyrri ástæðan gæti verið fullgild, en sú síðari er í hæsta máta vafasöm.

Það er einhver "moral panic" í gangi og breiðist hratt út. Bent hefur verið á að woke-hreyfingin hafi "hitt á taug" sem er sektarkenndin. Með því að höfða til sektarkenndar þeirra sem ráða hefur tekist að ná á þeim hreðjataki og sveigja þá fram og til baka.

Kristján G. Arngrímsson, 16.4.2021 kl. 08:25

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Að hrópa "eldur" í troðfullum samkomusal er í mínum huga ekki málflutningur.  En "forvirkar refsingar", þegar ekkert afbrot hefur verið framið, heldur talin hætta á broti er annað mál.

Sagt er er að fyrirtæki geti valið sér viðskiptavini, og í grunninn er ég sammála því.

Getur ÁTVR neitað að selja einhverjum áfengi (undir öllum kringumstæðum) vegna þess að hann hafi komið "óorði á brennivínið"?

Ef að bankar, þar með talið ríkisbankar, geta neitað alfarið að eiga viðskipti við einstakling eða lögaðila, fyrirtæki mega neita því að taka við reiðufé (eins og nýleg dæmi sanna), hvernig verður þjóðfélagið þá?

Ég held alla vegna að þetta sé "nokkurra vangaveltna" virði.

G. Tómas Gunnarsson, 16.4.2021 kl. 11:36

16 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eins og ég nefndi held ég að þetta sé alltaf spurning um forsendur og aðferðir, frekar en einhver allsherjarsvör. Alveg má hugsa sér að Vínbúðin (eins og það heitir núna) neit einhverjum um viðskipti, en það væri þá væntanlega af góðum og gildum ástæðum (veit ekki hvort að "koma óorði á áfengið" telst gild ástæða, kannski helst til óljóst og almennt).

Svo er náttúrulega þetta klassíska svar að fyrirtæki gera það sem viðskiptavinirnir vilja - ef það að banna einn aðila gerir fyrirtækið þitt meira aðlaðandi í augum fjölda annarra sem koma þá í viðskipti við þig, er það þá ekki bara good business sense að banna þennan eina? Á að banna fyrirtækjum að banna óæskilega kúnna?

Ef banki neitar að taka við reiðufé, fer þá ekki bara kúnni með reiðuféð sitt í næsta banka? Á maður rétt á að tekið sé við reiðufénu manns?

Kristján G. Arngrímsson, 16.4.2021 kl. 20:39

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég held að það sé þarft að velta þessu fyrir sér.

Hvað ef veitur neita að selja fyrirtæki heitt og kalt vatn og rafmagn á þeirri forsendu að starfsemi fyrirtækisins samræmist ekki "samfélagslegri stefnu Reykjavíkurborgar"?

Hvað er allir bankar neita að skipta við einstakling eða lögaðila og fjöldi fyrirtækja afneita reiðufé?

Hvað væri gild ástæða fyrir ÁTVR að neita einstaklingi um viðskipti? (Það er að segja önnur en aldur?)

Í flestum tilfellum skiptir bann litlu eða engu máli, það að einhver Pizzastaður vilji ekki baka fyrir mig pizzu vegna þess að ég sagði að osturinn þeirra bragðaðist eins og gamlir sokkar, er líklega ekki stórt vandamál.

En ef "lykilstofnanir" í þjóðfélagi fara að beita slíku í stórum mæli, hvað þá?

Það er ýmsir stjórnamálamenn, aðallega í Viðreisn að ég tel, sem hafa haft uppi hugmyndir um að hindra notkun reiðufés, sérstaklega hvað stórar upphæðir varðar.

Hvað gera þá þeir sem bankar neita um viðskipti?

G. Tómas Gunnarsson, 16.4.2021 kl. 22:24

18 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nú veit ég ekki hvað lög og reglur segja um starfsemi Veitna og því spurning hvort fyrirtækinu væri stætt á því að neita einhverjum um þjónustu. 

Það hafa vaknað spurningar um réttmæti þess að skólar neiti börnum um hádegismat af því að foreldrarnir eru of fátækir til að borga matinn. En er þá stætt á því að lög skyldi börnin til að mæta í skóla?

Er opinberum stofnunum sætt á að neita fólki um þjónustu af því að það er of fátækt til að borga fyrir hana?

Ég hugsa að það sem helst gæti raunverulega orðið til þess að einstaklingum er neitað um þjónustu sé að þeir geti ekki borgað fyrir hana - t.d. sökum fátæktar. Er það gild ástæða til að neita um þjónustu?

Varðandi reiðufé: mig minnir að tilgangurinn með því að afnema það sé að auka öryggi í viðskiptum, og ef sá tilgangur gæti náðst væri það þá ekki alveg þess virði?

Kristján G. Arngrímsson, 17.4.2021 kl. 09:15

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég þekki ekki til laga um "almannaveitur", hef ekki haft fyrir því að kynna mér þær.  En hvað skólana varðar get ég ekki séð skylduna að gefa mat, nema það sé sérstaklega ákveðið (ekki það að ég sé á móti því). 

Ekki frekar en Veitur eru skyldugar til að sjá þeim fyrir rafmagni og heitu og köldu vatni sem segjast ekki hafa efni á því.

Svo má endalaust deila um hvort að um fátækt eða ranga forgangsröðun sé að ræða?

Það er t.d. stór munur á þessu í Eistlandi, þar sem öllum nemendum stendur til boða heit máltíð í hádeginu, eða Kanada, þar sem í sumum skólum er hreinlega ekkert í boði, ekki einu sinni til kaups.  Í öðrum er mestmegnis boðið upp "rusl".

En fer það það ekki að verða spurning um að skilgreina "lykilgreinar" þar sem bannað er að neita um þjónustu?

Þar gætu t.d. bankar fallið undir.  Þá er ég ekki að tala um að skylda banka til að veita lán eða kreditkort, heldur grunnþjónustu s.s. almennan reikning og debitkort (getur t.d. verið síhringikort).

Öryggi eykst lítið við að afnema reiðufé.  En þægindi aukast, bankaferðum fækkar, en tilgangurinn er ekki hvað síst að gera "svarta hagkerfinu" erfiðara fyrir.

En hvað gera þá þeir sem bankakerfið neitar að eiga viðskipti við, ef reiðufé er sömuleiðis bannað?

P.S. Þetta eru ekki eingöngu "hugarleikfimisæfingar".  Ég hlustaði á útvarpsviðtal, þar sem einstaklingur lýsti því hvernig félagasamtökum sem hann var félagi í, hafði verið neitað um bankaviðskipti.  Þó hafði félagið fengið skráningu hjá hinu opinbera, kennitölu o.s.frv.

Frá tveimur af stóru bönkunum, sagði hann félagið hafa fengið bréf, þar sem fram kæmi að það samræmdist ekki "samfélagslegri stefnu" bankans að veita félaginu bankaþjónustu.

Dálítið merkilegt ekki satt?  Í raun dálítið "skerí" að mínu mati.

Rétt að taka það fram að ég hef engar staðfestar heimildir fyrir þessu, nema útvarpsviðtalið, hef ekki séð bréfin o.s.frv.

G. Tómas Gunnarsson, 17.4.2021 kl. 12:17

20 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nú veit ég ekki hvaða félag þú ert að tala um, en rámar í að bankar hafi neitað að þjónusta smálánafyrirtæki á þeim forsendum að rekstur þeirra sé siðlaus - rökin eru á þá leið að smálánafyrirtæki líkt og sígarettuframleiðendur reyni að höfða til fólks sem getur ekki tekið sjálfstæða, upplýsta ákvörðun, t.d. vegna aldurs (held að það liggi fyrir að sígarettuframleiðendur reyndu beinlínis að ná til barna).

Ég veit ekki alveg hvernig væri hægt að banna t.d. bönkum að hafna viðskiptum við fyrirtæki sem stjórnendur bankanna telja stunda ósiðlega (eða jafnvel samfélagslega hættulega) starfsemi. Eigendur bankanna, hvort sem það er ríkið eða fyrirtæki eða einstaklingar, hljóta að hafa lokaorðið. Væri ekki annað óeðlilegt?

Kristján G. Arngrímsson, 17.4.2021 kl. 16:49

21 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég er reyndar ekki að tala um félag í merkingu hlutafélag, heldur félagasamtök.

En er það banka (eða annara fyrirtækja) að dæma um hvað er siðferðislega óásættanlegt, ósiðlegt eða samfélagslega hættulegt?

Það væri ekkert óeðlilegt við að Veitur neiti að selja til dæmis verlsun með kynlífshjálpartæki og "æsandi undirfatnað" heitt vatn, vegna þess að stjórnendum (eða eigendum fyrirtækisins) finnst starfsemin ósiðleg?

Þú álítur þá að það hafi ekki verið neitt óeðlilegt við að Samtökunum 78 hafi lengi vel verið neitað um að auglýsa hjá Ríkisútvarpinu?

Minnir mig á gamlan brandara eða flökkusögu.  Þá hafði hljómsveitin Sjálfsfróun ætlað að auglýsa tónleika sína í Ríkisútvarpinu, en fengið neitun, sökun nafnsins.

En auglýsingatextinn "Handriðið í Tunglinu" komst fram hjá haukfránum starfsmönnum auglýsingadeildarinnar.   Þessi er ekki seldur dýrari en hann var keyptur.

Spurningin er ef til vill ekki síst sú, hvort að t.d. bankaþjónusta sé í nútímasamfélagi orðin slík nauðsyn að hún eigi að flokkast með "réttindum", að í raun verði vart lifað án hennar.

Það var hún t.d. ekki á meðan reiðufé var alls ráðandi í viðskiptum.

Ef staðan er hins vegar sú að við viljum líta á slíka þjónustu sem réttindi, þá gæti það orðið hlutverk ríkisins, t.d. með lagasetningu að tryggja öllum slíka þjónustu.

G. Tómas Gunnarsson, 17.4.2021 kl. 19:19

22 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Almennt myndi ég segja að ef svona neitun um þjónustu er vel útskýrð og rökstudd þá geti hún verið réttmæt. Svo breytast tímarnir og siðferðið með.

En einföld "mér finnst" útskýring er ekki mjög sannfærandi. Ef hjálpartækjaverlsun yrði neitað um heitt vatn á einhverjum svona forsendum er ég hræddur um að stjórnendur Veitna yrðu ekki langlífir í starfi.

Það þarf svo ekki að taka fram að mér finnst óeðlilegt að Samtökunum 78 hafi verið meinað að auglýsa í Rúv. Ekki vill svo til að þú vitir hvernig það bann var útskýrt/rökstutt?

Talandi um þetta var athyglisverð frétt á mbl um daginn:

https://www.mbl.is/sport/enski/2021/04/14/hun_var_of_lettklaedd_fyrir_iranskt_sjonvarp/

Sjálfum finnst mér bankaþjónusta ekki vera sjálfsögð réttindi. Ég er til dæmis fylgjandi því að smálánafyrirtækjum verði meinað um bankaþjónustu, líka myndi ég vona að nasistaflokki yrði meinað um slíka þjónustu. Eða samtökum gyðingahatara, svo búin séu til dæmi.

Svona siðferðislegar ákvarðanir eru ekki endilega bara geðþóttaákvarðanir. Það þurfa að vera góðar og gildar ástæður fyrir þeim, eða amk. einhverj hugsun á bakvið þær. Svo verður að hafa í huga rétt fyrirtækjaeigenda til að ákveða hverra bisniss þeir kæra sig um, ekki satt? Mætti kannski velta fyrir sér hvort rétt sé að eilítið meiri krafa sé gerð til opinberra fyrirtækja í þessum efnum. 

PS: Dæmið sem ég nefndi áðan um fátækt var hugsað sem dæmi um eitthvað sem ég held að enginn myndi samþykkja sem gilda ástæðu fyrir höfnun þjónustu. Athugaðu að það hvort um er að ræða fátækt eða ranga forgangsröðun er í sjálfu sér annað mál. Við gefum okkur í dæminu að um sé að ræða fátækt.

Kristján G. Arngrímsson, 17.4.2021 kl. 20:01

23 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eiginlega má ég til með að taka dýpra í árinni: Siðferðislegar ákvarðanir geta aldrei verið teknar á forsendum geðþótta einhvers. Þær þurfa alltaf að vera rökstuddar og útskýrðar þannig að hægt sé að andmæla þeim. 

Kristján G. Arngrímsson, 17.4.2021 kl. 20:04

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Tímarnir breytast og siðferðið.  Breytast þá mannréttindin með þeim?

Ég hugsa að engum hjá Veitum myndi detta í hug að neita neinum um viðskipti, eða alla vegna vill trúa því.

Eins og staðan er í dag og ef ég yrði að velja á milli þess að njóta bankaþjónustu og fá kalt vatn úr krananum, myndi ég líklega skrúfa fyrir vatnið.

Það kostar ekki það mikið að kaupa vatn í "umbúðum"; þó að af því yrði verulegt óhagræði.

En að eiga engan möguleika á bankaviðskiptum ylli meiri vandræðum í lífi mínu.

Því myndi ég telja bankaviðskipti til grunnréttinda, ekki lánafyrirgreiðslu, ekki kreditkort, en að hafa t.d debitkort og geta lagt inn pening og tekið hann út og millifært.

Hafðu samband við launadeildina hjá þér og spurðust fyrir um að fá útborgað í reiðufé og prófað að vera  án bankaviðskipta í 2 eða 3 mánuði.

Ég er nú ekki sérfræðingur í samskiptum RÚV og Samtakanna 78.  En ef ég man rétt bar RÚV fyrir sig "almennt velsæmi" og á einhverjum tímapunkti gott málfar.  Þannig vildi RÚV nota orðið "kynvillingar", en Samtökin 78 "hommar og lesbíur", sem RÚV vildi ekki sætta sig við.

Þetta er nú bara si sona eftir minni frá því sem ég hef lesið og heyrt í gegnum tíðina, en líklga má finna fróðleik á netinu.  Ef þú kærir þig um að fræðast er eins og áður treystandi á Hr. Google

Talandi um "klerkaveldi".

Auðvitað væri mér að meinalausu að það væri bannað að vera kommúnisti á Íslandi og þeir fengju ekki að starfa eða eiga bankareikninga.

En þó að ég skaðist ekkert við slíkt og sé verulega andstæður kommúnisma myndi ég samt standa upp og verja rétt þeirra til að safnast í félög, opna bankareikninga o.s.frv.

"Heilinn" í mér segir það, þó að "hjartað" sé á móti þeim.  Ef hins vegar ríkisvaldið yrði svo illa þenkjandi að banna starfsemi þeirra, gætu þeir að sjálfsögðu ekki opnað bankareikninga, enda er lögleg Íslensk kennitala forsenda þess.

Telur þú að Íslensk stéttarfélög myndu samþykkja það að ef ég ræki "Vindla og Víski bar", og starfsmaður sem hefði verið hjá mér í 10 ár, kæmi til mín og segði mér að hann hefði gengið í Kommúnistaflokkinn, að ég ræki hann samstundis vegna þess að ég teldi að viðskiptavinir mínir vildu ekki hafa hann í kringum sig?

Væri eðlilegra að ég neitaði kommúnistum um afgreiðslu?

Eða er næg "siðferðisleg ástæða" að kommúnismi hefur leitt hörmungar yfir milljónir manna?

P.S. Það er ekkert "klín kött" á milli fátæktar og rangrar forgangsröðunar.  En ef um raunverulega fátækt er að ræða, kemur líklega til framfærsluskyldu sveitarfélaga, sem aftur reka skólana, ekki satta?

G. Tómas Gunnarsson, 18.4.2021 kl. 00:52

25 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má bæta því við hér að í þessu sambandi er ef til vill rétt að velta fyrir sér málinu á milli Datacell/Wikileaks og VisaIsland/Valitor.

https://wikileaks.org/Wikileaks-has-launched-a-case.html

Það voru býsna háar fjárhæðir sem Valitor þurfti að greiða í skaðabætur. Taldi Visa sig vera að styðja við ólöglega starfsemi?  Ósiðlega? Eitthvað sem ógnaði "gildum" samfélagsins?

Um það ætla ég ekki að fullyrða, en dæmið sýnir hvaða vald getur falist í bankaviðskiptum.

G. Tómas Gunnarsson, 18.4.2021 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband