Er Covid-19 verra en flensa? Líklega fer að eftir því við hvaða flensu og hvaða land er miðað

Margir hafa sagt að Covid-19 sé ekkert verri en venjuleg flensa.  Ég er ekki alveg sammála því.

En er Covid-19 verri en mjög slæm flensa?  Ef þannig væri spurt ætti ég erfiðara með því að gefa ákveðið svar.

Tökum sem dæmi flensuna sem geysaði 1968.  Hún var gjarna kölluð "Hong Kong flensan" og sumir kölluðu hana jafnvel "Maó flensuna".  Það var auðvitað áður en en sú hugsun læddist að nokkrum manni að það samræmdist ekki "nútíma hugsunarhætti" að kenna veikindi við uppruna þeirra, hvað þá "sósíalíska leiðtoga sem veittu sólskini yfir jarðarkringluna".

Hún þótti "nýjung" þá, en er eftir því sem ég kemst næst nákskyld því sem við köllum influensu A, í dag.

En hvað veiktust margir af "Hong Kong" flensunni og og hvað margir létust?

Um það er alls ekki einhugur. Lægstu tölur segja ríflega milljón einstaklinga hafa látist, en hæstu tölur eru í kringum 4. milljónir.  Það voru líklega ekki birtar daglegar tölur þá, eins og tíðkast nú.

Engin virðist hafa nokkra hugmynd um hvað margir veiktust.

Líklega hefðu áhrif "Hong Kong flensunnar" orðið mun meiri og alvarlegri, hefði bóluefni ekki komið til sögunnar 4. mánuðum eftir að hennar varð fyrst vart.

Það sama má reyndar segja um "venjulegu flensuna" sem herjaði á heimsbyggðina árið 1957.

Rétt er að hafa í huga að árið 1968 voru íbúar heimsins álitnir u.þ.b. 3.5 milljarðar, eða vel undir helmingi af þeim 7.5 milljörðum sem taldir eru búa þar í dag.

Árið 1957 voru íbúar heimsins taldir tæplega 2.9 milljarðar.

Það má því vera nokkuð ljóst að flensurnar 1957 og 1968 hjuggu líklega stærri skörð í íbúafjölda heimsins heldur en Covid-19 hefur náð að gera, en vissulega er heimsbyggðin ekki búin að bíta úr nálinni með Covid-19 enn.

Ef miðað er við hærri tölurnar um dauða 1957 og 1968, þyrftu dauðsföll að ná fast að 10. milljónir, til að vera hlutfallslega sambærileg.

Enn sem komið er er því Covid-19 verra en hefðbundin flensa, en ekki eins slæmt eða svipað og "slæm flensuár".

En þá eins og nú urðu lönd mjög misjafnlega fyrir barðinu á "óværunni".  Talið er að t.d. 100.000 einstaklingar hafi látist í Bandaríkjunum 1968/69/70 (tveir vetur) af völdum flensunar.  Þá voru íbúar þar í kringum 200 milljónir.  Það er því nokkuð ljóst að Bandaríkin eru að fara heldur verr út úr "kófinu" en flensunni 1968.

En sé litið til Þýskalands er talið að í kringum 60.000 einstaklingar hafi látist í Austur og Vestur Þýskalandi. 

Það er mikið hærri tala en nú af völdum Kórónuveirunnar. Þó hefur íbúum sameinaðs Þýskalands fjölgað verulega.

Til dæmis er talað um að dauðsföll hafi verið svo mörg í Berlín að líkum hafi verið staflað í neðanjarðarlestargöngum.  Ekki hafi hafst undan við að grafa þá sem dóu og sorphreinsunarmenn hafi verið "shanghæjaðir" í störf grafara.

Í Frakklandi var talið að allt að helmingur vinnandi fólks hafi lagst í rúmið.

Það var einnig mjög mismunandi eftir löndum hvort að fyrri bylgjan (68/69) olli fleiri dauðsföllum en seinni bylgjan (69/70).

En yfirleitt var gripið til lítilla eða engra sóttvarnaraðgerða, þó að vissulega færu margir varlega.

Það er til dæmis vert að hafa í huga að á milli fyrri og seinni bylgjunnar í Bandaríkjunum, eða sumarið 1969, nánar tiltekið í ágúst, var blásið til Woodstock.  Það var síðan í október sem seinni bylgjan fór á fulla ferð.

Eins og velþekkt er úr sögunni vantaði heldur ekki mótmælasamkomur á þessum árum, hvorki í Bandaríkjunum eða Evrópu.

Bæði forseti og varaforseti Bandaríkjanna smituðust af flensunni og yfirleitt er talið að geimfari, sem varð veikur á braut um jörðu hafi smitast af þeim. Hann var þó aðeins 1. af 3.

Þeir sem kannast við hugtakið "68 kynslóðin" gera sér líklega grein fyrir því að fjölmenn mótmæli áttu sér stað bæði austan hafs og vestan á þessum árum.

Það er reyndar eftirtektarvert hve erfitt er að finna yfirgripsmiklar heimildir um þessa faraldra sem þó kostuðu svo mörg mannslíf.

En líklega var tíðarandinn annar. 

Samfélagsmiðlar þekktust ekki, fjölmiðlun var allt önnur og samfélagið sömuleiðis.

Hvernig skyldi verða fjallað um "kófið" að 50. árum liðnum?  Verður fókusinn á hættuna?  Eða viðbrögðunum?

Eða verður þetta að mestu leyti gleymt?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Líklega myndu 4-5 milljónir deyja úr covid í heildina ef ekki kæmi fram bóluefni. Þá miða ég við að dánarhlutfallið héldist óbreytt eins og ætla má að það hafi verið síðustu tvo mánuði, um 0,07%, um 15% hafi þegar smitast, 1,4 milljónir látist, og ónæmi næðist við 60-70%. Þetta miðast við að óbreyttar hindranir haldi áfram. Talan myndi hækka eitthvað ef ekki væru neinar hindranir til staðar, því þá kæmu upp punktar þar sem heilbrigðiskerfið réði ekki við ástandið. Væru viðkvæmir hópar hins vegar verndaðir með markvissum hætti yrði dánartalan miklu lægri.

Það er svo enginn vafi á að takmarkanirnar draga langtum fleiri til dauða en sjúkdómurinn getur nokkurn tíma gert.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.11.2020 kl. 11:42

2 identicon

Ég var 15 ára þegar Hong Kong flensan reið yfir og hún fór algjörlega framhjá mér. Maður bara heyrði ekkert um þetta. Þeir sem dóu úr þessari óvenju skæðu flensu dóu bara í kyrrþey, að virðist. Ef maður fer inn á timarit.is sést hversu ótrúlega lítið var um þennan faraldur fjallað í íslenskum fjölmiðlum. Blaðamönnum virðist t.d. ekki hafa hugkvæmst að leita til lækna eða heilbrigðiskerfisns til að afla upplýsinga um t.d. fjölda smitaðra eða dánartölur. Það var ekki fyrr en bóluefni kom og Reykvíkingar stóðu í löngum biðröðum eftir að fá flensusprautu að blaðamenn tóku við sér og birtu myndskreyttar uppsláttarfréttir. Þetta var fréttamatið í þá daga: óvenju langar biðraðir töldust til tíðinda. Menn virðast hafa forðast að leiða hugann að því hversu grátt þessi faraldur lék þjóðina eða tefla fram tölum og staðreyndum. En annars skil ég ekki af hverju menn eru alltaf að bera saman flensur og Covid og láta eins og þetta tvennt sé raunverulega samanburðarhæft. Fyrir það fyrsta eru þetta tvær eðlisólíkar veirur með eðlisólíkt útbreiðslumynstur; Covid er t.d. miklu miklu smitnæmsari en flensur. Flensur eru óumdeilanlega öndunarfærasjúkdómar en í ljós hefur komið að Covid er ekki bara öndunarfærasjúkdómur, veiran getur lagst á mörg önnur líffæri líkamans og skaðað þau, hugsanlega til langs tíma. Og að bera saman dánartölur (flensur versus Covid) segir manni sama og ekkert. Það hefur ekki gerst í manna minnum að þjóðfélög hafi búist til varnar gegn skæðum inflúensufaröldrum með yfirgripsmiklum sóttvarnaaðgerðum og alls kyns boðum og bönnum. Það er aldrei gert. Flensur fá mestmegnis að hafa sinn gang. En í tilfelli Covid hafa þjóðir gripið til mjög margþættra sóttvarnaaðgerða til að halda faraldrinum niðri, menn einfaldlega vita að það væri katastrófískt að leyfa þessari veiru að hafa sinn gang. ÞETTA er ástæðan fyrir því að staðfest Covid smit eru svo "fá" og dauðsföll líka svo "fá" (miðað við einhverja skæða flensufaraldra fortíðar). 

Anna (IP-tala skráð) 30.11.2020 kl. 21:54

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Það eru margar óþekktar breytur og erfitt að reikna "jöfnuna".

Sums staðar hafa mótefni í blóði mælst í ótrúlega háu hlutfalli, s.s. í "slömmum" Mumbai.  https://indianexpress.com/article/cities/mumbai/mumbai-75-test-positive-for-covid-19-antibodies-sero-survey-finds-7072331/

Það er einnig allt eins líklegt að dánartíðni muni lækka þegar líður á faraldurinn, en um slíkt er alls ekki hægt að fullyrða.

En það er ljóst að afleiðingar aðgerðanna munu fylgja heimsbyggðinni lengi.

@Anna, þakka þér fyrir þetta. Það er einmitt eitt af því sem mér finnst stórmerkilegt er hvernig stórir flensufaraldrar sem kostuðu allt að 4 milljónir einstaklinga lífið (þá miðað við hæstu tölur) eru taldir svona varla þess virði að minnast á.

Enginn virðist vita hvað margir smituðust, enda líklegt að margir þeirra hafi aldrei leitað heilbrigðisþjónustu.

Flensur og "Covid" eru ekki sami hluturinn, en það er ekkert óeðlilegt að bera saman slíka faraldra.

3 stærstu faraldrarnir sem komu upp á síðustu öld (og ég man eftir að hafa lesið um) voru "flensur", 1918, 1957 og 1968.

1918 er talið að hálfur milljarður einstaklinga hafi smitast.  Það myndi jafngilda 2.5 milljörðum í dag, miðað við höfðatölu.

Ég held því að það sé varla hægt að segja að flensur séu minna smitandi en "Covid".

Vissulega hefur verið gripið til aðgerða, en það er vert að hafa í huga að t.d. á Íslandi hefur "veiran" "geysað" í u.þ.b. 10 mánuði og 98.5% Íslaendinga hafa ekki smitast af henni, sé miðað við opinberar tölur.

Þó er vissulega líklegt að mun fleiri hafi smitast.

Flensur hafa sömuleiðis því miður margvísleg eftirköst og auka t.d. líkur ýmsum sjúkdómum, sérstaklega hjá þeim eldri.

Það verður sömuleiðis að hafa það í huga þegar skoðaðar eru dánartölur "Covid", að ótrúlega hátt hlutfall víða um heim er af hjúkrunarheimilum eða sambærilegum stofnunum.

Því miður virðist svo ekki hafa tekist að verja slíkar stofnanir.

G. Tómas Gunnarsson, 1.12.2020 kl. 01:22

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Skv. eftirfarandi er covid mun skæðari en flensa, en umfram allt er samanburður erfiður. (Og má líka velta fyrir sér hvaða tilgangi hann þjóni).

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/12/01/er_vaentanlega_mun_skaedari_en_flensa/

Kristján G. Arngrímsson, 1.12.2020 kl. 10:55

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Samkvæmt fréttinni sem þú visar til er "Covidið" skæðara en "árstíðabundin flensa", svona rétt eins og ég segi í upphafi færslunnar.

Það þýðir ekki að "veiran" sé nauðysnlega verri en "skæðustu flensurnar" (þó að við teljum þá sem kom 1918 ekki með).

Gríðarlega skæðar flensur (eins og minnst er á í fæslunni) komu 1957 og 1968.  EF (rétt að undirstrika ef) hæstu tölur eru teknar af áætluðum dauðsföllum af þeirra völdum, jafngildir það í kringum 10.000.000. miðað við fólksfjölda í dag.

Samt kom bóluefni við flensunni 1968 fram eftir 4 mánuði. 

Auðvitað er svona samanburður alltaf takmörkunum háður. En það er ágætt að velta því fyrir sér hvers vegna t.d. flensan 1968 vakti svona lítil viðbrögð og er eiginlega "footnote" í sögunni.

Það hefði líklega verið erfitt að fá leyfi fyrir Woodstcck síðasta sumar.

G. Tómas Gunnarsson, 1.12.2020 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband