Mýtan um fylgistap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins er enn á ný komin á kreik

Nú eins og oft áður er mikið fjallað um meint fylgistap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnum.

Það er enda, nú sem endranær, mikilvægt í pólítískri skák að reka fleyga á milli samstarfsflokka. 

Jafnvel hefur mátt heyra "virta fræðimenn" taka undir þessa mýtu.

En er hið meinta fylgistap raunverulega til staðar?

Ef sagan er skoðuð er það alls ekki einhlýtt.

1959 byrjuðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í samstarfi, með 39.7 og 15.2% atkvæða á bak við sig.  Í kosningunum 1963 vann Sjálfstæðisflokkur á um 1.7% stig en Alþýðuflokkur tapaði 1% stigi.

Aftur var kosið 1967, þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.9% stigum, en Alþýðuflokkur vann á, 1.5% stig.  Þegar hér er komið í sögu Viðreisnarstjórnarinnar hefur Alþýðuflokkur því unnið á um 0.5% stig frá upphafi hennar, en Sjálfstæðisflokkur tapað 2.2% stigum. 

Enn er kosið 1971 og þá tapar Sjálfstæðisflokkur 1.3% stigi til viðbótar en Alþýðuflokkurinn tapar 5.2% stigum.

Á meðan þeir tóku þátt í Viðreisnarstjórninni, þá tapar Alþýðuflokkur því 4.7% stigum en Sjálfstæðisflokurrinn 3.5% stigum.  Það er allur munurinn.  Sé horft til þess að nýr flokkur var kominn fram á sjónarsviðið á vinstri væng stjórnmálanna, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna sem fékk 8.9% 1971, þá getur það varla talist stórundarlegt þó að Alþýðuflokkur hafi tapað örlítið meira.  Enginn talar þó um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að vera í samstarfi við Alþýðuflokkinn.

1974 vinnur svo Sjálfstæðisflokkurinn á um 6.5% stig, en Alþýðuflokkurinn heldur áfram að tapa, þá 1.4% stigi, án þess að hafa verið í stjórn, hvað þá með Sjálfstæðisflokki.

Þá tekur við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þegar kosið er svo 1978, tapar Framsóknarflokkur 8% stium en Sjálfstæðisflokkur tapar 10% stigum.  Sjálfstæðisflokkur tapaði sem sé 2% stigum meira heldur en Framsóknarflokkurinn.  Samt talar enginn um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að sitja í stjórn með Framsókn.  Alþýðuflokkurinn vinnur stórsigur, A-flokkarnir leiða Framsókn til öndvegis, vegna þess að þeir geta ekki komið sér saman um hvor þeirra eigi að fá forsætisráðuneytið.

Enn er kosið 1979.  Þá tapar Alþýðuflokkurinn 4.6% stigum, en Framsóknarflokkur vinnur á um 8% stig.  Engan man þó eftir að hafa talað um að það hafi verið Alþýðuflokknum sérstaklega slæmt að vera í stjórn með Framsókn.

Þá tekur við ríkistjórn Gunnars Thoroddsen.  Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og lítill hluti Sjálfstæðisflokks.

Síðan er kosið 1983.  Sjálfstæðisflokkur vinnur á, 3.3% stig, en Framsóknarflokkur tapar 5.9% stigum.  Þeir mynda saman stjórn.

1987, Sjálfstæðisflokkur tapar 11.5% stigum, en Framsóknarflokkur tapar aðeins 0.1% stigum.  Rétt er þó að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Borgaraflokkurinn fram og fékk 10.7%.  Þó að það sé tekið með í reikninginn, þá tapar Sjálfstæðisflokkurinn meira heldur en Framsóknarflokkurinn.

1991. Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir fyrri styrk og eykur fylgi sitt um 11.4% stig.  Framsóknarflokkur stendur í stað og Alþýðuflokkur eykur fylgi sitt um 0.3% stig.  Viðeyjarstjórnin er mynduð.

1995.  Sjálfstæðisflokkur tapar 1.5% stigi af fylgi sínu en Alþýðuflokkur tapar 4.1% stigi af sínu fylgi. Framsóknarflokkur eykur fylgi sitt um 4.4% stig og fær 23.3%  Það verður þó að hafa í huga þegar þessi úrslit eru skoðuð, að Alþýðuflokkurinn hafði klofnað, Jóhanna Sigurðardóttir hafði stofnað Þjóðvaka og fengið 7.2% atkvæða. Tap Alþýðuflokksins hlýtur því frekar að skrifast á Jóhönnu Sigurðardóttur heldur en samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.  Það er ekki alls ekki ólíklegt að ríkisstjórnin hefði haldið velli, og haldið áfram samstarfi ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki klofnað, en vissulega er engan veginn hægt að fullyrða um slíkt.

Þá hefst langt ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Kosið er 1999.  Þá vinnur Sjálfstæðisflokkurinn á um 3.6% stig fær 40.7% atkvæða en Framsókn tapar 4.9% stigum og fær 18.4%.  Nýtt flokkakerfi er komið til sögunnar, Samfylkingin fær 26.8%, VG 9.1% og Frjálslyndi flokkurinn 4.2%.

Komið er að kosningum 2003.  Þá fær Sjálfstæðisflokkur 33.7%, tapar 7% stigum og Framsóknarflokkur 17.8% og tapar 0.6% stigi. 

Hvor flokkurinn var að tapa meira?

Og Framsóknarflokkurinn tapaði í kosningum árið 2007. Ef ég man rétt tapaði Framsókn í kringum 6% stigum og Sjálfstæðisflokkurinn vann á í kringum 3% stig.  En þá, hafði Framsóknarflokkurinn átt í löngu basli og formannsskiptum sem ekki gengu eða virkuðu vel.

Þá tók við ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.  Ekki er hægt að segja Samfylkingin hafi riðið lakari hesti en Sjálfstæðisflokkurinn frá þeirri ríkisstjórn í kosningunum 2009. Þá tapaði Sjálfstæðisflokkurinn 12.9% stigum, en Samfylkingin bætti við sig 3.  En ég er ekki þeirrar skoðunar að það hafi verið samstarfsflokknum að kenna, hvernig fylgið reittist sf Sjálfstæðisflokknum.

Það er síðan óþarfi að rifja það upp sérstaklega hvernig fór fyrir þeirri ríkisstjórn sem var mynduð 2009, þegar kosið var 2013. Evrópumet í fylgistapi litu dagsins ljós og báðir stjórnarflokkarnir töpuðu gríðarlegu fylgi.  Engin talaði um það væri vegna samstarfslokksin, enda held að að báðir flokkarnir hafi átt fylgistapið skilið.

Samfylkingin tapaði ríflega helmingi fylgis síns, eða 16.9% stigum, en VG "aðeins", 10.8% stigum, rétt tæplega helming af fylgi sínu.

Sé aðeins litið til stjórnarsamstarfs, er það því Samfylkingu mun "hollara" að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokk en Vinstri græn, án þess að ég sé sérstaklega að mæla með slíku samstarfi.

Rétt er að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Björt framtíð fram, undir forystu fyrrum Samfylkingar og Framsóknarmannsins Guðmundar Steingrímssonar, og hlaut 8.2% atkvæða, sem líklega voru að einhverju marki frá Samfylkingu komin.

En bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur unnu á 2013, sérstaklega Framsóknarflokkurinn sem vann eftirminnilegan kosningasigur og bætti við sig 9.6% stigum.

Þeir mynduðu síðan ríkisstjórn.

Næst var síðan kosið 2016.

Sjálfstæðiflokkurinn vann lítillega á, bætti við sig 2.3% stigum, en Framsóknarflokkurinn, undir nýrri forystu, tapaði stórt, eða 12.9% stigum.  En ég held að fæstir sem fylgdust með stjórnmálum telji það að miklu leyti tengt við samstarf við Sjálfstæðisflokk.  Innanmein flokksins spiluðu þar líklega stærri rullu.

Samfylking hélt í þeim kosningum áfram að helminga fylgi sitt, og tapaði 7.2% stigum, og það þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu.

Viðreisn kom í fyrsta sinn til sögunnar og hlaut góðar undirtektir, hlaut 10.5% atkvæða.

Þá var mynduð skammlíf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjarrtar framtíðar.

Kosið var enn á ný 2017.

Þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.8% stigum og Viðreisn sömuleiðis 3.8%, stigum, í þeim kosningum undir nýrri forystu.

Björt framtíð tapaði 6% stigum, og náði ekki inn manni á þing og hvarf úr sögunni. Sjálfsagt má skrifa tapið að einhverju marki á ríkisstjórnarþátttöku.  Það var enda svo að á köflum var erfitt að sjá hvar BF endaði og Viðreisn byrjaði.  Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að flokkinn hafi jafnframt vantað "undirstöðu". 

En sjálfsagt kjósa einhverjir að skrifa þetta alfarið á samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.

Samfylkingin náði ágætri kosningu og tvöfaldaði fylgi sitt, jók það um 6.4% stig undir nýrri forystu.

Miðflokkurinn kom til sögunnar og hlaut góða kosningu, eða 10.9%.

Rikisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna var mynduð.

Við eigum svo eftir að ajá hvernig fer í næstu kosningum.

Meginlínan í Íslenskum stjórnmálum hvað tap varðar, er að ríkisstjórnarflokkar tapa fylgi, stjórnarandstöðu gengur betur.  Þó vissulega með athyglisverðum undantekningum, t.d. hjá Samfylkingu árið 2016.

Sé "góðæri" getur það einnig hjálpað stjórnarflokkum.

Samfylking hefur aðeins átt í stjórnarsamstarfi við tvo flokka, Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn.  Báðir flokkarnir fengu afleita kosningu eftir slíkt samstarf.  Sjálfsagt mundu einhverjir draga þá ályktun að samstarf við Samfylkingu væri "eitraður kaleikur", en það er ekki sanngjarnt, það verður eins og í öllum öðrum tilfellum að líta til kringumstæðna.

En það er heldur engin raunveruleg innistæða fyrir því að allir samstarflokkar Sjálfstæðisflokks tapi fylgi, sérstaklega þegar litið er til kringumstæðna, s.s. klofning samstarfslokka, nýrra flokka og annarar "vandræða" sem samstarfsflokkar hafa glímt við.

P.S. Þessi færsla er að stórum hluta byggð á færslum mínum um sama efni, árið 2007 og 2016.

 


mbl.is Grímuklætt ríkisráð fundaði á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegt, það lítur út fyrir að þú hafi jarðað þessa mýtu!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.1.2021 kl. 09:23

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni, þakka þér fyrir þetta.  Eins og kemur fram að ofan er þetta í raun í þriðja sinn á tæpum 13. árum sem ég skrifa "sömu færsluna".  Ég bæti aðeins örlítið í hvert sinn, aðallega um þau ár sem liðið hafa á milli.

Ég geri mér því engar grillur um að hafa "jarðað mýtuna", enda mýtur með þann titil, ekki síst vegna þess hvað lífseigar þær gjarna eru.

Ég reikna því með að þessu verði áfram haldið á loft, bæði af "hlutlausum" fræðimönnum sem fjölmiðlum.

En einn af kostum samtímans er hve auðvelt er að finna heimildir s.s. tölulegar staðreyndir um úrslit kosninga.

G. Tómas Gunnarsson, 1.1.2021 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband