Færsluflokkur: Ferðalög

Athyglisverð flugleið

Það verður gaman að sjá hvaða áfangastað, eða staði í Kanada Greenland Express hyggst bjóða upp á.

Án efa gæti þetta gengið vel, þó að vandi sé um slíkt að spá, eins og oft er sagt á þessum árstíma.

En það hefur oft verið sagt að það vanti tengingu á milli Kanada og Grænlands, ekki síst á milli hinna austlægari byggða Kanada.

En það verður fróðlegt að sjá hvaða mynd þetta tekur á sig og hvernig gengur.


mbl.is Hyggjast fljúga á milli Grænlands og Kanada
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af gistináttagjaldi - og fúsum og frjálsum vilja

Ég skrifaði um daginn örlítið um gjaldtöku á ferðamannastöðum á þetta blog.

Ef til vill var það út af þvís sem að kunningi minn sendi mér hlekk á blog Egils Helgasonar, þar sem fjallað er um gistináttagjald.  Hann vísaði þar til umfjöllunar á vefsíðunni turisti.is.

Þar var fjallað um hve algengt væri að gistináttagjald væri innheimt, m.a. á fjölmörgum áfangastöðum sem flogið er til frá Íslandi.

Ég ætla ekki að fullyrða um hversu áreiðanlegar þær upplýsingar eru í heild, enda veit ég lítið um það, og hef ekki ástæðu eða tíma til þess að kanna þær upplýsingar í heild sinni.

En ein af borgunum á listanum var Toronto, og sagt að þar væri innheimt gistináttagjald, 3%.

Þar þekki ég hins vegar örlítið til.

Eftir minni bestu vitneskju er enginn skattur á gistinætur í Toronto, né Ontario fylki.  Það er hins vegar rétt að mörg hótel í Toronto og Ontario leggja á 3% gistináttagjald.

En það er af fúsum og frjálsum vilja.  Hótelin hafa tekið sig saman um það og gjaldið er valfrjálst ef svo má að orði komast. 

Hið opinbera hefur ekkert með gjaldið að gera, leggur það ekki á og tekur engar ákvarðanir um hvernig því er ráðstafað.

Gjaldið er oft kallað DMP (Destination Marketing Program), og er notað til að markaðssetja Toronto (eða GTA) sem áfangastað.  Það er á vegum Greater Toronto Hotel Association.

Svipað er upp á teningnum í Ottawa.

Ef til vill er tímabært fyrir Íslenska ferðaþjónustu að standa örlítið á eigin fótum, félagsmenn leggi lítið gjald á þjónustu sína og myndi sjóði til styrktar innviðum og markaðssetningar ferðaþjónustu.

Það bæri vott um "sjálfbærni" og væri meiri reisn yfir, heldur en að horfa eingöngu til hins opinbera og skattgreiðenda.

P.S.  Gistináttaskattur hefur verið algengur í Bandaríkjunum um all nokkurt skeið, og rennur til margvíslegra verkefna, allt frá íþróttaleikvöngum til safna.  Hvað algengast er þó að hann renni beint til ríkis (state) eða borgarsjóða.

Það er ekki fyrr en nýverið að gistináttaskattar fóru að ryðja sér verulega til rúms í Evrópu og ullu þó nokkrum deilum.  Einnig þar er mjög misjafnt hvert þeir renna.

 


Er nauðsynlegt að hafa aðgangseyri að Þingvöllum?

Ég efa ekki að mörgum finnst það algerlega fráleitt að tekinn yrði aðgangseyrir við Þingvelli.

Það hefði enda líklega ekki borgað sig í aldanna rás.

En tímarnir breytast og mennirnir stundum með.

Það er ljóst að stóraukin ferðamannastraumur til Þingvalla krefst frekari uppbyggingar og töluverðra útgjalda.

Að mínu mati er það lang einfaldast og eðlilegast að afla þess fjár með hóflegum aðgangseyri að Þingvöllum.

Ef að vilji stendur til það heimsækja Stonehenge, kostar það hvern fullorðinn 14 pund.

Heimsókn í Yellowstone þjóðgarðinn í Bandaríkjunum kostar 25 dollara á bíl, og bætast 12 dollara á hvern fullorðinn farþega, ef um atvinnurekstur er að ræða.  Hver fótgangandi þarf að greiða 12 dollara.  En það er rétt að taka fram að sá passi gildir í viku.

Hægt er að kaupa ársmiða fyrir 50 dollara.

Hver rúta sem kemur með farþega í garðinn er rukkkuð um 300 dollara, en þá er ekkert "hausagjald".

Ég held að það væri engan veginn óeðlilegt að gjald fyrir aðgang að Þingvöllum væri á bilinu 500 til 700 krónur á einstakling og svo afsláttargjald fyrir hópa/rútur.

Það myndi jafnframt gefa tækifæri til að auka uppbyggingu og þjónustu á Þingvöllum.


mbl.is Fjölgun sem hefur áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki best að þeir sem njóti borgi?

Það er alltaf freistandi fyrir stjórnmálamenn að leysa málin með almennri skattlagningu. 

Náttúrupassi, Náttúrugjald og svo þar fram eftir götunum.

En hvað um að reyna eftir fremsta megni að þeir sem njóti náttúruperlanna borgi fyrir það og stuðli þannig að uppbyggingu þjónustu og aðstöðu í kringum þær.

Skyldu liggja fyrir einhverjar upplýsingar um þá sem kaupa gistingu á Íslandi og skoða ekki náttúrperlur?

Það að ætla að láta skatt á gistingu hlýtur að orka nokkuð tvímælis. 

Hvers vegna ætti sölumaður frá Akureyri, sem gistir eina nótt á hóteli á Egilsstöðum að borga sérstakan skatt til að byggja upp við náttúruperlur?

Verður lagt gistigjald, í samræmi við lengd dvalar, á alla húsbíla, hvert tjald og hjólhýsi sem kemur til landsins, eða verður treyst á að það verði innheimt á tjald og húsbílastæðum?

Þarf þá allt landsbyggðarfólk sem skreppur til höfuðborgarinnar og gistir á hóteli að borga skatt til að standa undir uppbyggingu í kringum náttúruperlur? 

Kosturinn við gistigjaldið, er að ríkið lætur aðra um að innheimta það og þarf ekki að leggja fram starfskrafta, tekur bara peninginn ef  svo má að orði komast.

Fyrir stjórnmálamenn hefur það líka þann kost að það er ekki "rekjanlegt" ef svo má að orði komast, það er að segja að það segir ekki söguna um hvaða náttúruperlur voru skoðaðir af þeim sem greiddu gjaldið, og auðveldara fyrir pólítíkusa að ráðstafa fénu, þangað sem þeir telja að það eigi að fara, heldur en t.d. til þeirra staða sem "öfluðu" mest af því.

En til lengri tíma litið tel ég að næsta óhjákvæmilegt að innheimta gjald á hverjum stað, á vinsælustu stöðunum, hvort sem þeir eru í eigu ríkisins eða einkaaðila.

Hvort að þeir sameinist svo um að gefa út sameiginleg kort eður ei, verður svo að koma í ljós hvort að áhugi er fyrir.

Það er sanngjörn lausn, að þeir borgi sem njóti og hefur að auki þann kost að eitthvert eftirlit og viðvera er tryggð á stöðunum.

P.S.  Gleymdi að minnast það hér í pistlinum og bæti því nú hér við.

Ef eingungis þeim sem gista á Íslandi, er ætlað að greiða fyrir uppbyggingu á ferðamannastöðum og náttúruperlum, tryggir það til dæmis að allir farþegar skemmtiferðaskipa, borga ekki krónu í þeirri uppbyggingu, þrátt fyrir að rútuferðir til að skoða náttúruperlur, séu afar vinsælar hjá slíkum ferðamönnum.

 

 


mbl.is Náttúrugjald í stað náttúrupassa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inn um einn, út um annan?

Það er ekki hægt að reikna með því að ekki fjölmennari þjóð en Íslendingar standi undir því að reka marga alþjóðlega flugvelli, þó að ferðamanna fjöldinn fari sífellt vaxandi.

Og stór partur af viðskiptamódeli stærsta flugfélagsins, Icelandair, byggir á því að vera með einn flugvöll, þar sem skipt er um flugvél, til að að halda áfram annaðhvort til Evrópu eða N-Ameríku, eftir ástæðum.

Eftir því sem mér skilst stefnir WOW á svipaða uppbyggingu.

Það er því á brattann að sækja að fá flugfélög til að nýta aðra flugvelli en Keflavíkur til millilandaflugs.

Þó væri það tvímælalaust til bóta og yrði eins og vítamínsprauta fyrir ferðaþjónustu víðar um landið.

Eitt af því sem flugfélög og ferðaþjónustuaðilar gætu velt fyrir sér og sameinast um að bjóða ferðafólki um háannatímann, væri að lenda á einum flugvelli fara í ferðalag um landið og fljúga svo heim frá öðrum.

En hvort að það er viðskiptahugmynd sem vert væri að athuga nánar verða einhverjir aðrir að komast að en ég.

 

 

 


mbl.is Einnar gáttar stefna skaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru margir "ferðamannadagar" á Íslandi?

Það hefur mikið verið rætt um sívaxandi fjölda ferðamanna á Íslandi og hefur mörgum þótt nóg um fjölgun þeirra og jafnvel talið að draga þurfi úr fjölda þeirra, alla vegna um háannatímann.

En það skiptir ekki síður máli hvað um er að ræða marga daga sem ferðamenn dvelja á Íslandi.

Einhversstaðar las ég að um 100.000 ferðamenn muni koma með skemmtiferðaskipum til landsins þetta sumar.  Margir þessara ferðamanna stoppa stutt við, aðeins 8 til 10 tíma (sum skipin stoppa þó á fleiri en 1. stað).

En þessir farþegar setja vissulega mikin svip á viðkomustaðina á meðan á dvölinni stendur, og ekki ólíklegt að þeir eyði meira fé en margir aðrir, mælt á klukkustund.  En þeir gista aldrei á Íslandi og kaupa líklega ekki mikla þjónustu, að frátöldum rútuferðum.

10.000 ferðamenn sem dvelja á landinu í 10 daga hver, eða 20.000 í fimm daga hver, er sami fjöldi mældur í "ferðamannadögum".  En þeir hafa jafnframt "búið til" u.þ.b. 80 til 90.000 gistinætur, hvort sem þær eru á hótelum, gistiheimilum, tjaldsvæðum eða í  íbúðum.

Það má einnig áætla að þeir hafi keypt u.þ.b. 120.000 máltíðir, eða hráefni í slíkar, ótal kaffibolla, gosdrykki og dágóðan slatta af bjór og vínum.

Það er ljóst að það er mikill ávinningur fyrir Íslendinga, ef dagafjöldinn eykst, fleiri dagar per ferðamann, skilar auknum tekjum, en eykur ekki (eða mjög lítið) álagið á helstu náttúruperlurnar.  Fæstir fara nema einu sinni á hvern stað.

Það er líka staðreynd að lang stærsti hluta ferðamanna kemur til Íslands á littlu svæði, það er um Keflavíkurflugvöll og svo höfnina í Reykjavík.

Það þýðir að álagið er lang mest á þá staði sem auðvelt er að komast til frá Reykjavík á skömmum tíma.

Þar er því mest þörf fyrir fé til uppbyggingar og ef til vill nauðsynlegt að reyna að draga úr aukningu yfir vinsælustu mánuðina.

Það liggur því beinast við að það þurfi að vera kostnaðarsamara að njóta þessara staða en annara. Líklega er einfaldast að standa að slíku með því að selt sé sérstaklega inn á hvern stað fyrir sig.  Það má síðan hugsa sér að hægt sé að kaupa kort fyrir fleiri staði í einu, með einhverjum afslætti.  

Síðan má hugsa sér að verðið sé hæst í júlí og ágúst, og jafnvel að það sé ókeypis yfir einhverja af vetrarmánuðunum. Það er enda óvíst að innheimta borgi sig á þeim tíma og það gæti virkað sem hvati fyrir einhverja ferðamenn til að ferðast utan annatíma.

Kort sem allir þyrftu að kaupa allan ársins hring, er afleit hugmynd og gæti auðveldlega skaðað markaðssetningu t.d. yfir veturinn og hvað varðar ráðstefnur.

Annað sem er athyglinnar virði, er sá fjöldi sem ferðast með Icelandair, en félagið setur nú met á met ofan.

Það væri fróðlegt að vita hve margir af þessum fjölda er á leið til og frá Íslandi eingöngu, hve margir stoppuðu aðeins í Keflavík í klukkutíma eða svo, og hve margir notfærðu sér frábært tilboð Icelandair um "stopover".

Hvað skyldi "stopover" skila mörgum "ferðamannadögum" á Íslandi ár hvert?

Hvernig er hægt að fjölga þeim, sérstaklega yfir veturinn?

Það er að mörgu að hyggja í í þjónustu við ferðamenn og hvernig er best að standa að gjaldtöku og uppbyggingu á aðstöðu fyrir ferðafólk.

Líklega er þó ekkert meira áríðandi en að flana ekki að neinu, og tilkynna um lagabreytingar, breytingar á sköttum,  gjaldtöku og aðrar breytingar með ríflegum fyrirvara, helst ekki undir 12 mánuðum.

Þannig er möguleiki fyrir þjónustufyrirtæki að aðlaga sig að breytingum og setja skatta og önnur gjöld inn í verðskrá sínar.

 

 


mbl.is Fjölgun um 81% á 10 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótelíbúðir góð lausn

Það er ljóst að ferðamannastraumurinn til Íslands hefur aldrei verið stríðari.  Metfjöldi túrista leggur leið sína til Íslands, þannig að mörgum þykir nóg um.

Ein af grundvallarþörfum ferðamanna er gististaðir.

Þó að vissulega sé hætta á offjárfestingu og offramboði er lítið hægt við því að gera.  Það er eðli slíkra markaða að þennslu/skorti fylgi offramboð uns oftast jafnvægi næst.

Það er tálsýn að hægt sé að stjórna eða skipuleggja slíkt með nákvæmum hætti og alltof algengur misskilningur að hið opinbera sé rétti aðilinn til þess að taka að sér skipulagninguna.

En hótelíbúðir eru góð lausn þó að fjölgun þeirra leiði líklega til ákveðinna vandræða til skemmri tíma litið.  

En það er líklega mun auðveldara að breyta þeim aftur í hefðbundar vistarverur, ef svo má að orði komast, en sérbyggðum hótelum.

Þess vegna eru hótelíbúðir lausn sem nauðsynleg er á markaðnum.

 

 


mbl.is Sprenging í útleigu íbúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðaþjónustan skapar Íslendingum miklar tekjur

Það alls ekki ólíklegt að krónan hefði gefið eitthvað eftir, hefði þeirra tekna sem ferðaþjónusta færir Íslendingum ekki notið við.

Ferðaþjónusta hefur vaxið með ævintýralegum hætti og hefur sprungið út á árunum eftir bankahrunið.  Þar má að hluta til þakka hinni sömu krónu, sem seig verulega og gerði Íslandsferð að möguleika fyrir marga sem höfðu neitað sér um það áður.

Þó að ég hafi ekki skýra mynd af verðlagi á Íslandi í dag, efast ég um að það sé jafn hátt t.d. í dollurum og var árin 2006 og 2007 til dæmis.  Mér hefur að vísu skilist að verðlagið á Íslandi hafi hækkað mjög ört undanfarna mánuði, en það væri fróðlegt að sjá samanburð á milli þessara ára og verðþróun í dollurum, t.d. frá 2005.

En auðvitað á svo ferðaþjónustan sinn þátt í hinum neikvæða viðskiptajöfnuði sem nefndur er í fréttinni.  Slíkur fjöldi ferðamanna kallar að sjálfsögðu á aukin innflutning.  Það þarf að flytja inn matvæli, áfengi, hreinlætisvörur, svo ekki sé minnst á hina stórauknu fjárfestingu í ferðaþjónustu.

En slíkur innflutningur skilar sér auðvitað margfallt til baka, þó að vissulega geti verið blikur á lofti hvað varðar fjárfestinguna, því varasamt er að treysta á að vöxturinn haldi áfram um ókomna tíð.

 


mbl.is Ferðaþjónustan mikilvæg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvatinn til skattsvika

Það hefur löngum loðað við veitinga og ferðaþjónustu að þar sjái menn svart meira en gengur og gerist.  Vissulega er ekki rétt að alhæfa, en það er mikið talað bæði um undanskot og svokallað "þrepahopp".

Það er kunn staðreynd að eftir því sem skattar verða hærri og skattkerfið flóknara, eykst hvati til skattsvika.  Áhættan kann að þykja þess virði ef umbunin er hærri.

Virðisaukaskatt er t.d. best að hafa í einu þrepi og án undanþága.

Bara svo eitt dæmi sé nefnt.  Ef ég kaupi mér laxveiðileyfi þar sem gisting og fæði er innifalið, hlýtur það að vera álitamál hvað sé virðisaukaskattskylt.  Veiðileyfi eru eftir því sem ég man best undanþegin virðisaukaskatti, en gisting og veitingasala ekki.

Það liggur því beinast við að selja veiðileyfið dýrt og gistingu og fæði ódýrt, eða er hugsanlegt að slíkt sé gefið með veiðileyfinu?

Lægri skattar og einfaldara skattkerfi er nauðsyn og styrkir tekjuöflun hins opinbera til lengri tíma litið.  Er það ekki þannig sem allir vinna?

P.S.  Líklega er svo auka hvati fyrir þá sem þjónusta ferðamenn að stinga undan gjaldeyri á meðan höft eru í gildi.  Skilaskyldan gildir ekki um það sem "ekki kom í kassann".

 

 


mbl.is 17,5 milljarðar ekki verið gefnir upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin erfiða kvöð að fara í utanlandsferðir

Það mun hafa verið óþægileg kvöð að þiggja boðsferðir af hinum svokölluðu "útrásarvíkingum" og fyrirtækjum þeirra.  Eins og sagt er upp á ensku, "it´s a dirty job, but somebody got to do it".

Ef til vill má þó deila eitthvað um skilgreininguna á "dirty" í þessu sambandi.

Nú skilst mér að það sama sem upp á tengingnum hvað varðar boðsferðir hjá "Sambandinu".  Þær þykja erfiðar, illa skipulagðar, leiðinlegar, boðið upp á frekar slöpp hótel, og þó að gaukað sé að mönnum reiðufé í umslagi, er það varla upp í nös á ketti, ef ég hef skilið rétt.

En sem betur fer eru þó ennþá til einstaklingar sem fást til að fórna sér fyrir heildina og fara í slíkar fræðsluferðir, landi og lýð til góðs.

En það er þó eitt sem ég skil ekki til fulls.

Hvað er það sem hægt er að læra um Evrópusambandið í Brussel, sem er ekki hægt að fræðast um á Íslandi?

Hvað er það sem Evrópu(sambands)stofa og sendiráð "Sambandsins" getur ekki frætt Íslendinga um?

Og af því að "Sambandið" hefur hefur verið að reyna að spara undanfarin misseri, væri ekki þjóðráð að senda frekar eins og 2. til þrjá einstaklinga frá "Sambandinu" til Íslands (til viðbótar þeim sem þegar starfa við fræðslu á Íslandi) sem myndu túra um landið og fræða Íslendinga með minni tilkostnaði.

Bæði myndi sparast fé og Íslendingar þyrftu ekki að leggja á sig hinar leiðinlegu utanlandsferðir.

Ef til vill koma jákvæðir sjálfstæðir sambandsmenn, þessari sparnaðartillögu áleiðis til Brussel. 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband