Hvað eru margir "ferðamannadagar" á Íslandi?

Það hefur mikið verið rætt um sívaxandi fjölda ferðamanna á Íslandi og hefur mörgum þótt nóg um fjölgun þeirra og jafnvel talið að draga þurfi úr fjölda þeirra, alla vegna um háannatímann.

En það skiptir ekki síður máli hvað um er að ræða marga daga sem ferðamenn dvelja á Íslandi.

Einhversstaðar las ég að um 100.000 ferðamenn muni koma með skemmtiferðaskipum til landsins þetta sumar.  Margir þessara ferðamanna stoppa stutt við, aðeins 8 til 10 tíma (sum skipin stoppa þó á fleiri en 1. stað).

En þessir farþegar setja vissulega mikin svip á viðkomustaðina á meðan á dvölinni stendur, og ekki ólíklegt að þeir eyði meira fé en margir aðrir, mælt á klukkustund.  En þeir gista aldrei á Íslandi og kaupa líklega ekki mikla þjónustu, að frátöldum rútuferðum.

10.000 ferðamenn sem dvelja á landinu í 10 daga hver, eða 20.000 í fimm daga hver, er sami fjöldi mældur í "ferðamannadögum".  En þeir hafa jafnframt "búið til" u.þ.b. 80 til 90.000 gistinætur, hvort sem þær eru á hótelum, gistiheimilum, tjaldsvæðum eða í  íbúðum.

Það má einnig áætla að þeir hafi keypt u.þ.b. 120.000 máltíðir, eða hráefni í slíkar, ótal kaffibolla, gosdrykki og dágóðan slatta af bjór og vínum.

Það er ljóst að það er mikill ávinningur fyrir Íslendinga, ef dagafjöldinn eykst, fleiri dagar per ferðamann, skilar auknum tekjum, en eykur ekki (eða mjög lítið) álagið á helstu náttúruperlurnar.  Fæstir fara nema einu sinni á hvern stað.

Það er líka staðreynd að lang stærsti hluta ferðamanna kemur til Íslands á littlu svæði, það er um Keflavíkurflugvöll og svo höfnina í Reykjavík.

Það þýðir að álagið er lang mest á þá staði sem auðvelt er að komast til frá Reykjavík á skömmum tíma.

Þar er því mest þörf fyrir fé til uppbyggingar og ef til vill nauðsynlegt að reyna að draga úr aukningu yfir vinsælustu mánuðina.

Það liggur því beinast við að það þurfi að vera kostnaðarsamara að njóta þessara staða en annara. Líklega er einfaldast að standa að slíku með því að selt sé sérstaklega inn á hvern stað fyrir sig.  Það má síðan hugsa sér að hægt sé að kaupa kort fyrir fleiri staði í einu, með einhverjum afslætti.  

Síðan má hugsa sér að verðið sé hæst í júlí og ágúst, og jafnvel að það sé ókeypis yfir einhverja af vetrarmánuðunum. Það er enda óvíst að innheimta borgi sig á þeim tíma og það gæti virkað sem hvati fyrir einhverja ferðamenn til að ferðast utan annatíma.

Kort sem allir þyrftu að kaupa allan ársins hring, er afleit hugmynd og gæti auðveldlega skaðað markaðssetningu t.d. yfir veturinn og hvað varðar ráðstefnur.

Annað sem er athyglinnar virði, er sá fjöldi sem ferðast með Icelandair, en félagið setur nú met á met ofan.

Það væri fróðlegt að vita hve margir af þessum fjölda er á leið til og frá Íslandi eingöngu, hve margir stoppuðu aðeins í Keflavík í klukkutíma eða svo, og hve margir notfærðu sér frábært tilboð Icelandair um "stopover".

Hvað skyldi "stopover" skila mörgum "ferðamannadögum" á Íslandi ár hvert?

Hvernig er hægt að fjölga þeim, sérstaklega yfir veturinn?

Það er að mörgu að hyggja í í þjónustu við ferðamenn og hvernig er best að standa að gjaldtöku og uppbyggingu á aðstöðu fyrir ferðafólk.

Líklega er þó ekkert meira áríðandi en að flana ekki að neinu, og tilkynna um lagabreytingar, breytingar á sköttum,  gjaldtöku og aðrar breytingar með ríflegum fyrirvara, helst ekki undir 12 mánuðum.

Þannig er möguleiki fyrir þjónustufyrirtæki að aðlaga sig að breytingum og setja skatta og önnur gjöld inn í verðskrá sínar.

 

 


mbl.is Fjölgun um 81% á 10 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband