Af gistináttagjaldi - og fúsum og frjálsum vilja

Ég skrifaði um daginn örlítið um gjaldtöku á ferðamannastöðum á þetta blog.

Ef til vill var það út af þvís sem að kunningi minn sendi mér hlekk á blog Egils Helgasonar, þar sem fjallað er um gistináttagjald.  Hann vísaði þar til umfjöllunar á vefsíðunni turisti.is.

Þar var fjallað um hve algengt væri að gistináttagjald væri innheimt, m.a. á fjölmörgum áfangastöðum sem flogið er til frá Íslandi.

Ég ætla ekki að fullyrða um hversu áreiðanlegar þær upplýsingar eru í heild, enda veit ég lítið um það, og hef ekki ástæðu eða tíma til þess að kanna þær upplýsingar í heild sinni.

En ein af borgunum á listanum var Toronto, og sagt að þar væri innheimt gistináttagjald, 3%.

Þar þekki ég hins vegar örlítið til.

Eftir minni bestu vitneskju er enginn skattur á gistinætur í Toronto, né Ontario fylki.  Það er hins vegar rétt að mörg hótel í Toronto og Ontario leggja á 3% gistináttagjald.

En það er af fúsum og frjálsum vilja.  Hótelin hafa tekið sig saman um það og gjaldið er valfrjálst ef svo má að orði komast. 

Hið opinbera hefur ekkert með gjaldið að gera, leggur það ekki á og tekur engar ákvarðanir um hvernig því er ráðstafað.

Gjaldið er oft kallað DMP (Destination Marketing Program), og er notað til að markaðssetja Toronto (eða GTA) sem áfangastað.  Það er á vegum Greater Toronto Hotel Association.

Svipað er upp á teningnum í Ottawa.

Ef til vill er tímabært fyrir Íslenska ferðaþjónustu að standa örlítið á eigin fótum, félagsmenn leggi lítið gjald á þjónustu sína og myndi sjóði til styrktar innviðum og markaðssetningar ferðaþjónustu.

Það bæri vott um "sjálfbærni" og væri meiri reisn yfir, heldur en að horfa eingöngu til hins opinbera og skattgreiðenda.

P.S.  Gistináttaskattur hefur verið algengur í Bandaríkjunum um all nokkurt skeið, og rennur til margvíslegra verkefna, allt frá íþróttaleikvöngum til safna.  Hvað algengast er þó að hann renni beint til ríkis (state) eða borgarsjóða.

Það er ekki fyrr en nýverið að gistináttaskattar fóru að ryðja sér verulega til rúms í Evrópu og ullu þó nokkrum deilum.  Einnig þar er mjög misjafnt hvert þeir renna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband