Færsluflokkur: Ferðalög

Gróflega gengið á rétt neytenda

Ég get alveg skilið að ástandið er erfitt.  Það er erfitt fyrir flugfélög og ferðaskrifstofur að endurgreiða ferðir.  Lausafjárstaða þeirra er erfið.

En, að ganga jafn freklega á rétt neytenda og mörg stjórnvöld vilja, þar á meðal Íslensk, er verulega hættulegt fordæmi.

Það er verið að segja að lög og réttur, neytendavernd gildi aðeins við "bestu aðstæður".

Hvaða skilaboð eru það?

Ennfremur verður að hafa í huga að allt eins líklegt er að einhver af flugfélögum og ferðaskrifstofum sem um ræðir eigi eftir að fara í greiðslustöðvun og jafnvel verða gjaldþrota.

Hvers virði eru inneignarnóturnar þá?

Einskis.


mbl.is Vilja takmarka neytendavernd flugmiðahafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hættulegt að fólk fari yfir landamæri?

Kórónuveiran hefur vissulega breytt heiminum.  En eins og oft gerist í storminum miðjum koma upp alls konar skoðanir sem í raun er erfitt að sjá séu rökréttar.

En hvað er rökrétta samhengið og hvaða mælistikur á að nota?

Hversu hættuleg er Kórónuveiran?  Hvaðan kemur hættan? Er óhætt að einstaklingar ferðist á milli landa?

Tölfræðilega má líklega segja að Vestmannaeyar og Vestfirðir hafi verið með sýktustu svæðum í heimi, miðað við hina margfrægu höfðatölu.

Hins vegar hafa smit á Norðausturlandi og Austurlandi verið afar fá.

Má þá ekki segja að meiri ástæða hafi verið til þess að vernda íbúa Austurlands á ákveðnum tímapunkti gegn komu Vestfirðinga og Vestmanneyinga, en því að einhverjir Norðmenn, Danir eða Þjóðverjar komi með ferju til Seyðisfjarðar?

Hvort voru hærri tölfræðilegar líkur til að smitast af Dana, eða Vestfirðingi eða Vestmanneyjabúa?

Þessum skrifum er ekki ætlað að virka sem hvatningu til þess að setja hefði átt alla Vestfirðinga og Vestmanneyinga í einangrun, loka þjóðvegum og leggja Herjólfi.

En tölfræðilega er ekki hægt að segja að það sé marktækt meiri munur á hættunni af því að smitast af t.d. Norðmanni en af Íslendingi.

Það sama gildir t.d. um Pólverja, sem eru með lægra dánarhlutfall/íbúa en Íslendingar.

Svipað gildir um Finna, Eistlendinga, Letta og Litháa, svo nokkur lönd sem við þekkjum ágætlega til séu nefnd.

En næstu vikur munu skipta miklu máli og munu líklega sýna hvar á "kúrfunni" lönd eru stödd.

En það er líklegt að skynsamlegt sé að "aftengja" Schengen um all nokkurn tíma, gera hins vegar samninga við einstök lönd, sem byggðist þá á nýgengi smita og hvaða ráðstafanir þær myndu gera á flugvöllum.

Einnig þyrfti að fara varlega varðandi farþega frá "þriðja" landi og fá mun meiri upplýsingar en nú tíðkast.

Meira að segja Austurríki sem hefur fengið á sig "pestarbælisstimpil", þar Kórónuveiran er sögð hafa grasserað óhindrað all nokkra hríð er með ótrúlegar lágar tölur, bæði um andlát/milljón íbúa, eða 65 og virk smit undir 2000.  En þeir gætu vissulega hafa staðið betur í skimunum (eru þó með þokkalega háa tölu/á milljón), en það gildir um ótal þjóðir.

Það er rétt að taka fram að auðvitað þarf alltaf að taka tölulegum upplýsingum með fyrirvara, en samt komust við oft ekki hjá því að byggja á þeim við ákvarðanatöku.

En í heild sinni er engin ástæða til þess að trúa því að meiri hætta sé á því að smitast af útlendingum en Íslendingum, nema þeir komi frá svæðum þar sem smit eru mjög  útbreidd.

Ekki frekar en ástæða er til að trúa því að minni hætta sé á smiti í strætó en á öðrum fjölförnum stöðum.

P.S. Allar tölur sem nefndar eru í pistlinum eru fengnar frá Worldometers.


mbl.is Vitum ekki hvort botninum sé náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð flugvél - með "samanbrjótanlega vængi".

Það er alltaf ótrúlegt að sjá flugvélar af þessari stærð taka á loft.  Þar sem sonur minn er með ólæknandi flugvéladellu, hef ég eytt nokkrum tíma í kringum flugvelli og þá er jafnan reynt að velja tímann með tilliti til brottfara Boeing 777 og Airbus 380, þannig að tækifæri gefist til að sjá báðar tegundir.

Ég hef síðan flogið með bæði 777 - 2- og 300 og það er ánægjulegt, þó að mitt uppáhald sé Dreamliner.  Enn hef ég ekki náð að fljúga með Airbus 380, og sé það ekki alveg í framtíðinni, þó ég væri meira en til þess reiðubúinn.

En ég vona að ég eigi eftir að ná því að fljúga með 777 X, hún virkar vel á mig.

Það er áhugavert að horfa á myndbandið af hennar fyrsta flugi og sjá hana "slétta út" vængina.  Það mun víst vera haft svo til að hún komist að venjulegum "rana" og ekki þurfi að búa henni sérstakt rými á flugvöllum.

En nú hafa flestar tegundir flugvéla einmitt vængi með svipuðu sniði, en ekki þessa "sléttumöguleika".  En ég er ekki nógu fróður til að segja til um hvers vegna því sniði er ekki haldið fyrir þessa tegund nema á jörðu niðri.

 

 

Það er ástæða til að óska Boeing góðs gengis með þessa nýju týpu af 777, ekki veitir þeim víst af þessa dagana.

P.S. Mér er sagt að hvor hreyfill um sig hafi jafn mikið afl og Soyuz eldflaugin sem skilaði Yuri Gagarin út í geim.


mbl.is Boeing prófaði nýjan risa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrt á Íslandi - með strætó á milli landshluta

Síðasta færsla hér fjallaði um hve mikið hagstæðara væri að taka bílaleigubíl heldur en fjöldasamgöngur á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.

En hvað ef ferðin liggur áfram, frá Reykjavík til Akureyrar?

Er ekki sniðugt að taka strætó?

Enn og aftur er leiga á bíl mikið hagstæðari.

Á heimasíðu Strætó má finna eftirfarandi upplýsingarLeiðin milli Reykjavíkur og Akureyrar keyrir í gegnum 22 gjaldsvæði. Þess vegna er verðið milli Reykjavíkur og Akureyrar 10.340 krónur (470 x 22) eða 22 strætómiðar."

Fram og til baka á milli Reykjavíkur og Akureyar kostar með öðrum orðum, 20.680, eða 41.260 fyrir tvo.

Eins og kom fram í síðasta pistli, kostar 6 daga leiga á bíl ódýrasti kostur í ca, 21.000, en algengt verð var í kringum 24.000.

Hvort er nú líklega að ferðamaðurinn velji?  Að hafa bíl í 6. daga eða taka strætó á milli Reykjavíkur og Akureyrar?

Frelsi bílsins, möguleiki á því að fara í Mývatnsveit, skreppa til Dalvíkur, Ólafs- og Siglufjarðar, renna við á Húsavík?

Hvað skyldi Strætó á alla þessa staði kosta?

Frelsi og þægindi á móti strætó?

Það er rétt að hafa í huga að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef borga farþegar aðeins u.þ.b. 40% af rekstrarkostnaði Strætó á landsbyggðinni, en ég tek fram að ég veit ekki hvernig hlutfallið er á leiðinni Reykjavík - Akureyri, en það getur vissulega verið misjafnt á milli leiða.

Enn á ný fá fjöldasamgöngur (almenningssamgöngur) á Íslandi falleinkun.

Í dæmum sem þessum virðast þær fyrst og fremst auka vegslit og svifryk.

 

 


Dýrt á Íslandi, eða ekki?

Það er mikið rætt um að ferðafólki finnist flest dýrt á Íslandi og má það sjálfsagt til sannsvegar færa.  Það má líka velta því fyrir sér hvort að það eigi ekki að vera dýrt að koma til Íslands, en margur myndi líklega segja að fyrr megi nú rota, en....

En því finnst mörgum ferðamanninum áríðandi að reyna að spara á ýmsum sviðum.

Ég sá til dæmis frétt á Visi, þar sem fjallað var um hækkun á fargjöldum flugrútunnar.  Nú kostar víst 6500 að fara til Reykjavíkur og til baka.

Það er frekar dýrt að margra mati.

Nú vill svo til að ég hef verið að aðstoða kunningjafólk mitt við að undirbúa Íslandsferð, þau ætla að vera á Íslandi í 6. daga.

Ódýrasti bílaleigubíllinn sem ég fann fyrir þessa 6. daga var 21.000, en algengt verð í kringum 24.000. Síðan mátti auðvitað finna verð upp úr.

Að fara fram og til baka með rútu kostar því frá einum fjórða yfir í ríflega 30% af því að hafa bíl í 6. daga.

Þar sem þau þyrftu tvo miða í rútuna, er rútuverðið komið langt yfir helming af leiguverði bílsins, en jafnvel fyrir einn er bílaleigubíll aðlaðandi kostur.

Ekki hef ég þó heyrt neinn tala um að bílaleigubílar á Íslandi séu óeðlilega ódýrir.

Þannig að þetta er auðvelt val.

Enn og aftur eru fjöldasamgöngur á Íslandi að fá afleita einkunn.

 

 


Vandi skemmtiferðaskipa er ekki vandi Íslendinga

Þó að Íslendingar myndu að sjálfsögðu gera allt sem í þeirra valdi stæði, ef skemmtiferðaskip væri í vandræðum undan ströndum landsins, er engan veginn hægt að ætlast til þess að Íslendingar kaupi björgunartæki sem dugi fyrir stærstu skip, eða hafi stórar sveitir reiðubúnar ef svo illa færi.

Ábyrgðin á farþegum skipanna liggur hjá skipstjóra þeirra og útgerðum. Þau vonandi búinn besta hugsanlegum öryggisbúnaði og nægum bátum til að taka alla farþega.

Það er tómt mál að tala um að Íslendingar beri ábyrgð á þeim sem sigla um lögsöguna eða kjósa að koma til hafnar.

Það er ástæða til þess að huga að mengunarvörnum, því stór skip hafa gríðarmagn af olíu og öðrum efnum um borð.

Það má velta fyrir sér þeirri spurningu hvort að ástæða sé til að leggja sérstakan skatt á skip sem hingað koma til að standa straum af hluta kostnaðar við slíkt.

Einnig þarf að byggja upp rafmagnstengingu á helstu viðkomuhöfnum, og krefjast þess að skipin tengist á meðan þau eru við bryggju.

En það hefur nokkuð verið deilt um ábatann af komu slíkra skipa til landsins, miðað við tekjur og álag/mengun sem þau skapa.

Það er ábyggilega umræða sem vert er að taka.

 

 

 


mbl.is Öryggi farþega háð fiskiflotanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu allir borga í Vaðlaheiðargöngin?

Þó að ég hafi verið einn af þeim sem var ekki mjög hrifinn að undarlegum ákvörðunum varðandi Vaðlaheiðargöng og þeirri undarlegu "einkaframkvæmd" sem þau eru framkvæmd með, geri ég mér fulla grein fyrir því að tímanum verður ekki snúið við og því fagna ég göngunum sem slíkum og á án efa eftir að aka þar í gegn í framtíðinni.

Ég vona að rekstur þeirra gangi vel og verði vonandi greiddur upp fyrr en áætlanir gera ráð fyrir, þó að vissulega geti án efa brugðið til beggja vona með það.

En ég velti því fyrir mér hvernig hið nýja og tæknivædda greiðslukerfi ganganna muni virka.

Hvernig verða t.d. þeir bílar sem koma með Norrænu til landins rukkaðir, ef þeir greiða  ekki af frjálsum og fúsum vilja?

Verða eigendur þeirra eltir uppi um alla Evrópu (eða lengra) með tilheyrandi kostnaði?  Verða rútur sem oft koma með Norrænu (og sumar dvelja að mér skilst sumarlangt eða lengur) rukkaðar, og þá hvernig?

Eða verður gjaldheimtan enn eitt dæmi um að þeir sem eru innlendir og standa skilvíslega skil á sínu, standi höllum fæti í samkeppninni?

Verður öllum farartækjum sem koma á land með Norrænu (eða öðrum ferjum) gert skilt að gefa upp kreditkortanúmer sem má gjaldfæra "gangagjald" á?  Eða stríðir það gegn reglum um frjálsa för á Evrópska efnahagssvæðinu?

Ég veit ekki neitt um það, en mér þætti fróðlegt að vita hvernig Íslenskir eigendur ganganna hafa hugsað sér að standa að að þessum málum.

Ekki verður litið hjá því að slíkar lausnir verða þeim mun meira áríðandi ef viðamiklar hugsanir um vegatolla verða að veruleika.


mbl.is Sparnaður bæti fyrir gjaldtökuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Schengen eða ekki Schengen?

Það hefur mikið verið rætt um Schengen samstarfið á Íslandi undanfarna daga og reyndar víðar en á Íslandi.

Það er eðlilegt, enda má segja að samstarfið sé í gríðarlegu uppnámi, jafnvel við það að liðast í sundur.

Það hefur endar reynt mikið á samstarfið og gallar þess komið í ljós. Ytri landamærin ráða ekki við álagið, stórir hlutar Evrópu (og þar með Schengen svæðisins) hafa í raun verið án virks landamæraeftirlits á köflum.

Undir slíkum kringumstæðum er ekki óeðlilegt að vilji sé fyrir því að ræða framhaldið og hvernig best slíku samstarfi sé háttað, nú eða hvort rétt sé að hætta því.

Slíkt er best að gera á yfirvegaðan hátt og án upphrópana eða slagorða.

Opin landamæri án eftirlits (þau eru þó aldrei án alls eftirlits) eru eftirsóknarverður kostur og auðvelda bæði ferðalög og viðskipti. Ávinningurinn (og áhættan) er þó mun meiri á landamærum samliggjandi landa, svo ekki sé talað um þegar þannig er hægt að ferðast í samfellu í gegnum mörg lönd.

Ávinningur eylanda verður aldrei eins mikill (né áhættan).

Það er vert fyrir íslendinga að velta því fyrir sér að líklega er um eða innan við helmingur þeirra farþega sem fer um Keflavíkurflugvöll á leið til einhvers aðildarríkis Schengen samningsins.

Þó að ég hafi ekki mikla reynslu í ferðalögum til og frá Íslandi undanfarin ár, þá get ég ekki sagt að ég hafi heyrt að Íslendingum þyki erfitt, eða verulega erfiðara að ferðast til landa utan Schengen svæðisins.

Þannig hefur staða Bretlands utan Schengen svæðisins ekki komið í veg fyrir að landið sé einn allra vinsælasti áfangastaðurinn frá Íslandi og fljúga þangað nokkrar flugvélar frá Keflavíkurflugvelli á hverjum einasta degi.

En Schengen er meira en landamæragæsla. Mikilvægur hluti samningsins snýr að upplýsingabanka og dreifingu, SIS, eða Schengen Information Systems. Þar safna aðildarþjóðirnar, og dreifa sín á milli, upplýsingum um einstaklinga og annað það sem þeim þykir skipta máli varðandi samstarfið.

Ýmsir hafa haft orð á því að það að missa slíkan aðgang væri slæmt fyrir lög- og landamæragæslu á Íslandi og get ég ekki séð nokkra ástæðu til að draga það í efa.

En það er spurning hvort að Ísland ætti möguleika á því að halda þeim hluta samstarfsins, þó að hætt yrði þátttöku í samstarfinu að öðru leyti. Að standa utan samkomulagsins hefur ekki komið í veg fyrir að bretar og írar taki þátt í upplýsingakerfinu.

Þannig er að ýmsu að hyggja, en jafn sjálfsagt að ræða þessi mál eins og önnur.

Fá mál eru meira áríðandi fyrir stjórvöld en öryggi íbúa landsins.

 

 


Að fljúga hingað eða þangað?

Það væri vissulega gott að geta dreift ferðamannastraumnum víðar um Ísland en nú er. En ég hygg að þetta sé líklega hvorki fyrsti né  síðasti starfshópurinn sem fjallar um svipað eða skylt mál. Ég held að þeir hafi verið á ýmsum stjórnsýslustigum.

Ég bloggaði um samam málefni í nóvember síðastliðnum.

Viðskiptamódel Icelandair byggist að stórum hluta á því að selja tvo leggi, það er að segja alla leið yfir Atlantshafið. Inn í slíkt módel hentar illa að bæta við ferðum til annara flugvalla. Og WOW er að stefna á sama model sýnist mér.

Það væri því helst erlend flugfélög sem gætu séð hag sinn í því að bjóða upp á aðra flugvelli, sérstaklega ef það væri ódýrara.

En þegar rekstur allra flugvalla er á einni hendi, má sömuleiðis velta því fyrir sér hvort að það félag sjái sér ekki bestan hag í því að nýtingin á aðalflugvellinum sé sem best, og vilji síður gefa afslætti á öðrum flugvöllum, nema aðalflugvöllurinn sé að verða "fullur"?

En myndi einhver annar vilja taka að sér rekstur flugvallar á landsbyggðinni? Jafnvel þó að þeir fengju hann gefins?

Myndi einhver vilja taka yfir rekstur Húsavíkurflugvallar með því markmið að byggja hann upp? Þar er stutt í afar vinsæla ferðamannastaði, stutt til Akureyrar (eftir að Vaðlaheiðargöng koma í gagnið), og nálægðin við Austurland sömuleiðis plús.

Eða væri til bóta að aðskilja rekstur Keflavíkurflugvallar frá öðrum, þannig að samkeppni skapist frekar?

Það er eitthvað sem segir mér að þessu myndi fylgja meiri kostnaður en ráðlegt væri, fyrir 300.000 manna þjóð.

Skyldi hafa verið gerð einhver könnun meðal ferðamanna á Íslandi, hve margir þeirra settu það ekki fyrir sig að koma ekki til Reykjavíkur á ferðalagi sínu?

Því það er ljóst að heimamenn duga ekki til að halda uppi flugi, sem margir meira að segja setja það fyrir sig, að komast ekki í "almennilega fríhöfn", ef flogið er frá öðrum stöðum en Keflavík.

En vissulega geta skapast einhverjir möguleikar á að fljúga inn á einum flugvelli, og út á öðrum.

En ég á erfitt með að sjá að auðveld lausn finnist á þessu máli.

 


mbl.is Millilandaflug um Egilsstaði og Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvíræðar túrismaauglýsingar

Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafa stundum legið undir ámæli fyrir nota tvíræð skilaboð í  auglýsingum sínum. Ýjað sé að kynlífi og lauslæti.

Líklega fer því best á að vera ekkert að tala mikið um "Bárðarbunga" og eldgosið þar í grend, á Ítalska markaðnum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband