Færsluflokkur: Menning og listir

List, glæpur eða hrein og bein vitleysa

Það er óhætt að segja að "listræn sprengjuhótun" Íslenska listnemandans hafi vakið athygli hér í Kanada, eða alla vegna hér í Toronto.  Fréttirnar voru auðvitað um helgina og sjá þeir sem lesa þær að fjölmiðlar segja flestir ef ekki allir frá þjóðerni málsins, og það án þess að nokkur saki þá um "kynþáttahatur". 

Eins og eðlilegt má teljast hefur umræðan ekki síst snúist um hvað sé list, hvað sé glæpur og hvað sé hreinlega vitleysa.  Sjálfur hef ég fengið á mig nokkur skot, sem Íslendingur, og einn kunningi minn spurði mig hvort að ""islömsk list" sé í miklum metum á Íslandi"?

Persónulega hef ég ekki séð neinn í fjölmiðlum réttlæta verknaðinn sem list, nema lögfræðing gerandans og þá sem eru titlaðir vinir hans.  Hér má sjá umfjöllun CityNews og "exclusive" viðtal stöðvarinnar við gerandann hér.

Sjálfur er ég svoddan "ókúltiveraður barbari" að ég reikna með því að ef ég sæi eitthvað sem líktist sprengju í neðanjarðarlestinni, nú eða á flugvellinum hérna, eða hreinlega í verslunarmiðstöð, þá myndi ég reikna með því að væri um sprengju að ræða.  Mér dytti ekki fyrst í hug að þar væri á ferð sniðugur listamaður sem væri að reyna að fá mig til að velta fyrir mér "stöðu þjóðfélagsins", eða "stöðu mína í í samfélaginu".

Ég myndi því án efa reyna að forða mér í burtu og kalla til lögregluna.  Persónulega myndi ég ekki heldur ráðleggja lögreglunni að ef miði væri festur við hlutinn sem segði "þetta er ekki sprengja", að hún einfaldlega hefði sig á brott, og léti húsvörðinn um að fjarlægja hlutinn.

Hér að neðan er smá samtíningur af fréttum er varða þetta mál.

Umfjöllun Globe and Mail má sjá hér, og fréttir National Post hér og hér.

Toronto Star fjallar að sjálfsögðu um málið eins og sjá má hér og Toronto Sun, einnig hér.

The Torantoist, er með umfjöllun hér og skoðanakönnun, um hvort gjörðin sé list eður ei, þegar ég leit þar inn höfðu þó ekki margir tekið þátt.


Íslendingabók á Háaloftinu

  Fyrr í kvöld horfði ég á þátt úr myndaflokknum "Ancestors in the Attic", sem sýndur er hér á "Sögusjónvarpinu" (History Television).

Í þættinum í kvöld var fjallað um á meðal annara hluta, Íslendingbók og gríðarlegan áhuga Íslendinga á ættfræði.  Vissulega var umfjöllunin hröð og ekki mjög djúp, en það mátti samt hafa gaman af þessu.

Í þættinum var spallað við væntanleg brúðhjón, Jónas og Lindu, rætt var við Véstein Ólason um Landnámu, Eiríkur Guðmundsson sýndi og ræddi um manntalið frá 1703 og loks var rætt við Friðrik Skúlason um Íslendingabók og ættfræðiáhuga hans.

Allt þetta fólk kom alveg prýðilega fyrir og útskýrði málin svo þekkilegt var.

Þetta er reyndar í fyrsta sinn sem ég sé einhvern af þessum þáttum, enda horfði ég eingöngu vegna þess að fjallað var um Ísland.  Ekki er það svo heldur að ég fylgist svona vel með sjónvarpsdagsskránni, heldur er forsagan sú að snemma á árinu hafði einn af þeim sem sinnir rannsóknarvinnu fyrir þáttinn, Chris Robinson,  samband við mig til að forvitnast um Íslendingabók.  Hann heimsótti mig svo og sýndi ég honum í hvernig vefsíðan virkar og sagði honum frá því sem ég vissi um sögu hennar.

Þessi færsla er endurbirt hér vegna þess að hún féll einhverra hluta út, líklega vegna minna eigin mistaka.


Listfeng sprengjuhótun: Íslendingur á bakvið gervisprengju í listasafni í Toronto

Einhvern veginn varð ég orðlaus.  Ekki endilega af því að um Íslending var að ræða, heldur hitt að mér þykir þetta með svo miklum ólíkindum.

Torkennilegur pakki eða taska finnst á Konunglega listasafni Ontario, eftir að hringt var í safnið og sagt að það væri ekki sprengja í andyrinu.

Eins og við var að búast var lögreglan kvödd til, sprengjusveitin ræst út, safnið tæmt, góðgerðardansleik frestað, götunni lokað og þar fram eftir götunum.  Þetta gerðist allt í gærkveldi og Bloor street (sem líklega má líkja við Laugaveginn) var lokað í 4. tíma.

Í dag kom svo í ljós að þetta er "hápunktur" í "listrænu lokaverkefni" sem Íslenskur "listamaður" vinnur að í Listaháskóla hér í Toronto.  Ef marka má fréttir hafð hann borið "gjörninginn" undir lögfræðing stúdentafélagsins, og það hafði það í för með sér að hann merkti sprengjueftirliíkinguna "Þetta er ekki sprengja".

Skólayfirvöldum var þó ekki skemmt, og hefur nemandanum verið vikið úr skólanum, fyrir brot á siðareglum skólans.

Undarlegu myndbandi sem titlað er "Fake footage of the fake bombing at the ROM, Toronto", var svo póstað á vef Youtube.´

Í dag gaf listastúdentinn sig svo fram við lögreglu, en áður gaf hann sér þó tíma til að koma fram í fjölmiðlum.  Viðtal við hann má sjá hér

Fréttir Kanadískra fjölmiðla má sjá hér, hér, hér og hér.

Það hefur oft vakið undrun mína hvað menn telja sig geta gert í nafni listarinnar, en ég held sjaldan eða aldrei eins og núna.

Þessi færsla er endurbirt hér vegna þess að hún féll einhverra hluta út, líklega vegna minna eigin mistaka.  Því  miður eru því athugasemdirnar við hana því týndar.


Af innflytjendum og aðkomumönnum

Ég var að lesa á netinu um alla þá athygli og fjaðrafok sem sú ákvörðun vertsins á Kaffi Akureyri, að setja ákveðin hóp Pólverja í straff á staðnum, hefur valdið.

Þetta er eiginlega grátbroslegt mál.  Auðvitað skiptist fólk í tvo hópa, með og á móti, og margir hafa sakað vertinn um kynþáttafordóma.

Hún er hvimleið þessi síaukna notkun á orðinu kynþáttafordómar.  Mér best vitanlega eru Pólverjar ekki kynþáttur (það eru Gyðingar ekki heldur, þó að það komi málinu ekki beint við), hvað þá að ákveðinn hópur Pólverja sé það.

Það er auðvitað ekkert nýtt að einstaklingar og hópar séu settir í straff á veitingahúsum á Akureyri.  Sagan segir að á ákveðnu tímabili hafi bæði bæjarstjórinn og bæjarfógetinn verið í straffi í Sjallanum (fyrir langa löngu og hefur ekkert með þá að gera sem gegna þessum embættum nú) og svo hafi verið um hríð, án þess að forsvarsmenn hússins hafi verið sakaðir um fordóma gagnvart embættismönnum.  Þessir einstaklingar höfðu einfaldlega gerst brotlegir við "húsreglur", sömu sögu er líklega að segja af Pólverjum þeim sem nú lenda í straffii.

Það er auðvitað út að saka vertinn um útlendingahatur (hvað þá kynþáttafordóma), enda aðeins um ákveðinn hóp Pólverja að ræða.

Ef hægt er að saka einhverja um að kynda undir útlendingahatur, væru það líklegast þeir fréttamenn sem skrifuðu fréttir af þessu máli.  Það er varla að það hafi borið brýna nauðsyn til þess að taka fram að viðkomandi menn væru Pólverjar.

Þeir hefðu sem best getað látið sér nægja að fylgja "Akureysku hefðinni" og segja að hópur aðkomumanna hefði verið settur í straff á Kaffi Akureyri.

En ef til vill segir það meira um Íslenskt samfélag (þá sem lesa fréttirnar ekki síður en þá sem skrifa þær) en vertinn, að fréttamenm skuli velja þetta sjónarhorn.

 

 


Af "ofurfrjálslyndi" og bókabrennum

Kunningi minn einn sem gjarna hefur þótt ég vera frekar of langt frá miðjunni í stjórnmálum vakti athygli mína á því sem hann sagði feikna góða "Bakþanka" Guðmundar Steingrímssonar í Fréttablaðinu á föstudaginn.  Sagði að ég yrði að lesa þá.

Ég dreif í því að "dánlóda" Fréttblaðinu og lesa "Bakþankana".  Ég verð að segja að mér þótti ekki mikið koma til skrifanna.  Guðmundur virðist hafa undarlegar skoðanir á því hvað frjálslyndi er, alla vegna frá þeim sjónarhóli sem ég stend á.

Í "Bakþönkunum" mátti lesa meðal annars:

"En flestir eru hins vegar mjög ákveðið á móti bókabrennum, skiljanlega. Hinir ofurfrjálslyndu líka. En spurningin er: Af hverju er það? Jú, þær tengjast ákveðinni viðurstyggð í sögunni. En hér blasir við klemma: Þeir sem hvað harðast mæla með því að það sé fullkomlega í lagi að gefa út bækur eins og Tíu litla negrastráka hljóta að telja það jafnframt hið sjálfsagðasta mál að fólk brenni slíkar bækur ef það svo kýs. Þetta eru í stuttu máli ógöngur hinna ofurfrjálslyndu."

Nú tel ég mig frjálslyndan mann en skammast mín ekkert fyrir að segja að ég er á móti bókabrennum, þykir þær ekki til fyrirmyndar.  En ég er sömuleiðis á móti því að banna þær.  Það liggur nefnilega himinn og haf á milli þess að vera ósammála einhverju og vilja að sami hluturinn sé bannaður, eða þaggaður niður.  Auðvitað eiga allir rétt á því að brenna þær bækur, hljómplötur, geisladiska, myndir eða hvað annað sem þeir vilja brenna.  Það er sjálfsagður réttur hvers og eins, svo lengi sem þeir brjóta ekki lög t.d. hvað varðar eignarétt eða hegðun á almannafæri með athæfi sínu.  Ég reikna t.d. ekki með að lögreglan væri ginkeypt fyrir því að leyfa bókabálköst á Austurvelli, né heldur að slökkviliðið gæfi því meðmæli.

En frá þeim sjónarhóli sem ég hef tekið mér stöðu á, þykir mér það einmitt vera frjálslyndi þegar menn telja það sjálfsagt að gefnar séu út bækur eins og "10 litlir negrastrákar" eða sú sama bók brennd, það þótt önnur athöfnin eða báðar séu mönnum á móti skapi.

Frjálslyndi felst ekki síst í því að geta unnt öðrum skoðanir, eða athafnir sem eru við sjálf höfum ekki áhuga fyrir, eða erum á móti.

Það er því ekkert athugavert við að vera á móti bókabrennum, svo lengi sem ekki er verið að kalla eftir því að þær séu bannaðar.  Það er sjálfsagt að segja sínar skoðanir á athöfnum annarra eða því sem þeir eru að hvetja til.

Þegar ég las þetta rann hins vegar upp fyrir mér hvers vegna mér þykir oft að frjálslyndi þeirra sem gjarna kalla sig "frjálslynda jafnaðarmenn" vera lítið þegar á reynir.  Þeir virðast einfaldlega leggja annan skilning í orðið frjálslyndi heldur en ég.  Þegar á reynir virðast þeir líta svo á að það sem menn séu ekki samþykkir, það vilji þeir banna.  Oft virðast þeir reyndar líka vilja banna allt það sem þeir sjálfir eru ekki samþykkir.

P.S.  Það má svo ef til vill bæta hér við að allir þeir sem eru "réttsýnir" og hafa "samfélagslega vitund" hljóta að vera á móti bókabrennum, þeir vita jú að pappír er ekki brenndur heldur er farið með hann í endurvinnsluna.


Óþarfa áhyggjur?

Ég las það nýlega á vef mbl.is, að einhverjir væru farnir að hafa af því áhyggjur að kenninafnasiður Íslendinga ætti undir högg að sækja og ef fram héldi sem horfði þá liði hann undir lok.

Ég er einn af þeim sem þætti það miður ef svo færi, því mér þykir geta góð og gild hefð.  En ég vil hins vegar vara við því að Íslendingar fari að grípa til þess ráðs sem þeim virðist einna tamast þessi misserin, það er að segja að setja ný lög eða herða á þeim eldri, til að varðveita þennan góða síð.

Lagasetning í kringumstæðum sem þessum er ekki rétta leiðin.

Það verður að horfast í augu við það, að ef Íslendingum sjálfum er þessi siður ekki kærari en svo að þeir haldi honum ekki við, þá sé eðlilegast að hann verði hægt og rólega úr sögunni.  Ef Íslendingar vilja ekki viðhalda siðnum gera engir aðrir það og heldur ekki lagabókstafurinn.

Það hafa enda verið að ég best veit í gildi lög í langan tíma sem takmarka eftirnöfn, en þó fjölgar þeim Íslendingum sífellt sem þau bera og er ekki nema hluti þeirrar skýringar aukning Íslendinga sem eru af erlendu bergi brotnir.  Íslensk ættarnöfn eru nefnilega þeirrar náttúru að erfast í flestum tilfellum bæði í kven og karllegg, öfugt sem gerist víðast hvar annarsstaðar.

Það þarf heldur ekki að fara víða um þjóðfélagið til að sjá hve áberandi hin Íslensku ættarnöfn eru.

Það er því lang eðlilegast að fella niður öll takmörk, gefa Íslendingum frjálst val um hvaða sið þeir vija nota, ættarnöfn verði skráð gegn vægu gjaldi hjá Hagstofunni.  Síðan kennir hver sig við móður, föður, eða notar sitt ættarnafn, eða skráir nýtt ef hann kann ekki við "fjölskylduættarnafnið". 

Jafnvel gætu menn tekið upp Rússneska siðinn og notað hvorutveggja.  Jón Guðmundsson Mýrdal svo dæmi væri tekið.

Í leiðinni væri mannanafnanefnd lögð niður og eiginnöfn sömuleiðis gefin frjáls.

Það er reyndar rétt að geta þess að ég er það hrifinn af kenninafnasiðnum, að börnin mín eru Tómasson og Tómasdóttir, þó að þau séu fædd hér í Kanada og ættu eftir þeim síð sem hér er algengastur að vera "Gunnarsson" jafn illa og það myndi hljóma fyrir dóttur mína. 

En Kanadamenn eru frjálslyndir í þessum efnum sem ýmsum öðrum.  Á eyðublaðinu sem fylla þarf út þegar börnin eru tilkynnt til skráningar, þá er gefin sá möguleiki að barnið beri annað kenninafn en foreldrarnir og er þá merkt með í viðeigandi reit, hvort það er sé af "ethnic" eða "relligous" ástæðum.  Flóknara er það ekki.

Það hefur heldur ekki skapað okkur vandræði að við berum fjögur mismunandi kenninöfn hér að Bjórá, pósturinn kemst til skila, enginn fettir fingur út i þetta.  Einstaka sinnum veldur þetta þó smá misskilningi, eins og þegar hringt er frá lækni sonarins og spurt hvort að ég sé ekki Mr. Tómasson eða konan Mrs. Tómasson, þar sem drengurinn er auðvitað skráður undir því nafni hjá þeim.

En það er ekkert til þess að láta fara í taugarnar á sér.

 


Brennivins Rulapizza Eating Contest

Brennisvins Pizza hus

Ég er ekki alveg klár á því hvað "Brennivins Rulapizza" er, en fæ það sterklega á tilfinninguna að um sé að ræða pizzu með rúllupylsu.  Hljómar spennandi ekki satt?

En eftir því sem ég kemst næst er kappát með slíkri pizzu eitt af dagskráratriðum á Íslendingadeginum (sem er reyndar orðinn nokkrir dagar) sem haldinn er í Gimli ár hvert. 

Sjálfur hef ég aldrei verið á Íslendingadeginum, en fór í fyrsta skipti nú nýverið til Winnipeg og Gimli og ók þar um Íslendingaslóðir.

Þá tók ég meðfylgjandi mynd af pizzastað í Gimli, sem heitir því frábæra nafni "Brennivins Pizza Hús", sem ég hef sömuleiðis grun um að tengist fyrrnefndri keppni.

En Íslendingadagurinn er um næstu helgi, löng helgi hér í Kanada líkt og á Íslandi.  Dagskrá hátíðarhaldanna má finna hér.


Köttur dauðans

Undanfarin 2. ár hefur Oscar, köttur dauðans, gengið um ganga Steere House Nursing and Rehabilitation Center á Rhode Island.  Þeir sem Oscar velur virðast að öllu jöfnu ekki eiga nema u.þ.b. 4. tíma eftir ólifað.

Ef marka má frétt Globe and Mail, gerir Oscar ekki mörg mistök. Þeir sem hann velur kveðja jarðvistina.

En í fréttinni má m.a. lesa eftirfarandi:

"Oscar the cat seems to have an uncanny knack for predicting when nursing-home patients are going to die, by curling up next to them during their final hours.

His accuracy, observed in 25 cases, has led the staff to call family members once he has chosen someone. It usually means they have less than four hours to live.

"He doesn't make too many mistakes. He seems to understand when patients are about to die," said David Dosa. He describes the phenomenon in a poignant essay in today's issue of the New England Journal of Medicine.

The two-year-old feline was adopted as a kitten and grew up in a third-floor dementia unit at the Steere House Nursing and Rehabilitation Center. The facility treats people with Alzheimer's, Parkinson's disease and other illnesses. After about six months, the staff noticed Oscar would make his own rounds, just like the doctors and nurses. He'd sniff and observe patients, then sit beside people who would wind up dying in a few hours."

"Doctors say most of the people who get a visit from the sweet-faced, grey-and-white cat are so ill they probably don't know he's there, so patients aren't aware he's a harbinger of death. Most families are grateful for the advance warning, although one wanted Oscar out of the room while a family member died. When Oscar is put outside, he paces and meows his displeasure.

No one's certain if Oscar's behaviour is scientifically significant or points to a cause. Dr. Teno wonders if the cat notices tell-tale scents or reads something into the behaviour of the nurses who raised him.

Nursing home staffers aren't concerned with explaining Oscar, so long as he gives families a better chance at saying goodbye to the dying."

Vissulega athyglivert, enda kettir vissulega merkileg dýr.  Hér í fyrndinni voru þeir gjarna tendgir skrattanum, en ég hefði gaman af því að vita ef einhverjir þekkja svipaðar sögur af dýrum.

 


Samstaða?

Ég fagna því auðvitað ef fylgi við lækkun áfengisskatts er að aukast á Alþingi.  Það er löngu tímabært að ríkið slaki á klónni hvað áfengið varðar.

En það er eitthvað sem segir mér að það sé sömuleiðis "pólítísk samstaða" um að hafa álögurnar óbreyttar eða hækka þær.  Áfengismál hafa löngum gengið þvert á flokkslínur og hafa þingmenn gjarna ákveðnar skoðanir í þessu efni.

En áfengisverð á Íslandi er alltof hátt, og finnst mörgum Íslendingum þetta vera óþarfa áþján sem á þá er lögð. 

Það þekkist líklega ekki víða að þegar menn ræði um sumarleyfi sitt, þá komi áfengisverð á sumarleyfisstaðnum sterkt inn í umræðuna. 

Ennfremur má nefna að hið opinbera sem stendur jú fyrir þessari álagningu, þykir sjálfsagt að selja þeim sem hafa tök og efni á því að ferðast erlendis áfengi með lægri álagningu við heimkomuna.

Það væri vissuleg fróðlegt að sjá tölur yfir hvað mikið áfengi kemur til Íslands með þeim hætti. 

Lægra áfengisverð gæti sömuleiðis dregið úr smygli og heimabruggi og væri hvoru tveggja tvímælalaust til bóta.

Nú er bara að vona að "pólítíska samstaðan" sé víðtæk og sú fylking sem vill lækka verðið, sé stærri en sú sem vill halda í horfinu.


mbl.is Pólitísk samstaða um lækkun áfengisverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að upplifa "sósíalismann" - í örfáa daga.

Það er einhvern veginn svo að eftir hæfilega langan tíma virðist allt verða að "nostalgíu", ef til vill ekki alveg allt, en þó um flest.

 Á vef Spiegel hef ég fundið nokkur margar greinar um "nostalgíu" eftir "gömlu góðu" dögunum þegar sósialisminn réði ríkjum í A-Evrópu. 

Nú er hægt að gista á hóteli sem býður upp á "Austur Þýsk" herbergi, Trabantinn hefur gengið í endurnýjun lífdaga, og alls kyns vörur frá mótorhjólum, til þvottaefnis og kóladrykkja frá "sælutíð sósíalismans" nýtur nú vaxandi vinsælda.

Þessi "nostalgía" teygir arma sína alla leið hingað að Bjórá, því konan er einmitt alin upp í einu af þeim ríkjum sem þá töldust til "sæluríkja sósíalismans".  Þess vegna færist oft yfir hana bros þegar hún sér sumt af því sælgæti sem á boðstólum er í Pólsku, Rússnesku eða Úkraínsku verslunum hér.

Bragð af uppvextinum er alltaf vel þegið.

En þetta er auðvitað jákvætt, enda engin ástæða til að þessi tími gleymist, þvert á móti.  Sagan er alltaf þess virði að gefa henni gaum og halda henni til haga.

Þessum svæðum flestum veitir heldur ekki af atvinnu og auknum túrisma.

Svo gæti auðvitað farið svo að þetta gæti "læknað" einhverja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband