Færsluflokkur: Dægurmál
15.10.2014 | 14:16
Samkeppni og lýðræði
Það má lesa hér og þar á netinu þessa dagana að einokun sé í mörgum tilfellum besta lausnin fyrir neytendur.
Það hefur líka mátt lesa á netinu, að best og friðvænlegast fyrir ýmis lönd og heiminn í heild að einræði og jafnvel harðstjórn ríki á sumum stöðum.
Að mörgu leyti eiga þessi tvö hugtök, samkeppni og lýðræði margt sameiginlegt. Sömuleiðis einræði og einokun.
Ég ætla ekki að segja að einokun hafi aldrei á neinu tímaskeiði hugsanlega reynst betur en samkeppni. Það sama á reyndar við um einræði, að það hafa verið tímabil á einhverjum landsvæðum, þar sem einræði hefur reynst vel og ef til vill um einhverja hríð verið besta lausnin.
En til lengri tíma litið, eru engir kostir betri en samkeppni og lýðræði, hvort um sig með sínum kostum og göllum.
Samkeppni mismunandi vara og hugmynda, þar sem almenningur greiðir atkvæði með ýmist peninga- eða kjörseðlum eftir því sem á við.
Þannig tryggjum við samkeppni hugmynda, seljenda og og framleiðenda.
Rétt eins og þróun þeirra ríkja sem búa við lýðræði hefur yfirleitt verið hröðust, nýtur hugmyndauðgin, þróunin og viðleitnin til að bjóða betri vöru á hagstæðara verði sín best í samkeppni.
Það er ekkert kerfi gallalaust og flest þeirra þarfnast reglulegrar ef ekki stöðugar endurskoðunar. Hvorki lýðræði né samkeppni eru án galla eins og við erum reglulega minnt á.
En eins og Churchill sagði um lýðræðið, þrátt fyrir alla gallana, er það betra en allt annað sem við höfum reynt. Ég held að það gildi sömuleiðis um samkeppnina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2014 | 06:34
Það er svo mörgu hægt að mótmæla
Persónulega finnst mér ekki óeðlilegt að einstaklingar komi saman til mótmæla. Það er helgur réttur í lýðræðissamfélagi. Það er heldur ekki óeðlilegt að samtök friðarsinna og stuðningssamtök hins og þessa taki þátt í slíku og hvetji sína félagsmenn til mótmæla.
Mér þykir hins vegar nokkuð merkilegt að sjá fjölda stéttarfélaga taka þátt í mótmælum sem þessum. Telja forsvarsmenn þeirra að þeir hafi umboð félagsmanna sinna til þess?
Getur ekki verið að á meðal félagsmanna þeirra ríki skiptar skoðanir í málum sem þessu?
En það virðist nokkuð útbreidd skoðun að Ísraelsher svari árásum á Ísrael með "of miklum krafti", eða umfram "meðalhóf".
Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað "meðalhóf" í andsvari við árásum er? Er það "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn"?
Ef árásaraðilar koma vopnum sínum fyrir á meðal "almennings" eru þau vopn þá friðhelg?
Það má geta þess hér í framhjá hlaupi að áætlað er að á D-degi hafi fleiri óbreyttir Franskir borgarar látið lífið, en Bandarískir hermenn. Hinir óbreyttu borgarar voru þó ekki við eða á "varnarstöðvum" Þjóðverja.
Er það dæmi um árás sem var "umfram meðalhóf"?
Svo er talað um nauðsyn þess að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Ætli það mætti þá ekki skera niður all hressilega þann ríkjalista sem Íslendingar eiga í stjórnmálasambandi við?
Ættu Íslendingar að eiga stjórnmálasamband við Kína? Ríki sem er alræmt fyrir mannréttindabrot. Ríki sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vg kláraði fríverslunarsamninga við nýlega og ýmsir Samfylkingarmenn telja mikilvægasta samning sem Ísland hefur gert í 20 ár eða svo? Ætti Ísland að slíta stjórnmálasambandi við Kína?
Ætti Ísland að eiga stjórnmálasamband við Rússa? Land sem kyndir undir ófriði og ólgu í nágrannalöndum sínum og er í það minnsta óbeint ábyrgt fyrir að hafa skotið niður farþegaþotu nýlega. En varla er verra að eiga í stjórnmálasambandi við Rússa, en að hafa átt áratuga stjórnmálasamband við Sovétríkin. Ríki sem kúgaði og drap þegna sína miskunarlaust, hersat önnur ríki svo áratugum skipti og myrti með skipulegum hætti hundruð þúsunda þegna hersetnu landanna.
En mig rekur ekki minni til þess að margir hafi hvatt til þess að stjórnmálasambandi við Sovétríkin yrði slitið, hvað þá að verkalýðshreyfingar hafi staðið að mótmælum vegna þess.
Ættum Íslendingar að eiga í stjórnmálasambandi við Íran eða Norður Koreu?
En það er mörgu hægt að mótmæla.
Það væri hægt að mótmæla framferði Rússa í Ukraínu. Það væri hægt að mótmæla því að Hamas samþykki ekki vopnahlé.
Það væri hægt að mótmæla því að Ísraelskir ferðamenn skuli hafa þurft vernd lögreglu gegn "mótmælendum" í Berlín, sem hrópuðu: Gyðingur, við munum ná þér.
Það væri hægt að mótmæla því að í París hafi hundruðir "mótmælenda" brotið rúður í gluggum verslana og kaffhúsa gyðinga og brennt "kosher" verslun til grunna.
Það væri hægt að mótmæla því að heimili rabbína í Hollandi hafi verið grýtt tvisvar á einni viku.
Það væri hægt að mótmæla því að "mótmælendur" í Þýskalandi hafi verið staðnir að því að hrópa "gyðingana í gasklefana" og að lögregla í Berlín hafi bannað "mótmælendum" að nota hið "vinsæla" hróp "gyðingur, huglausa svín, komdu og berðust einn".
Það er svo mörgu hægt að mótmæla ......
P.S. Dæmin hér að ofan eru fengin úr frétt The Telegraph.
Þrýsta á íslensk stjórnvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.7.2014 | 12:07
Tilboð frá Costco í tölvupósti
Nú þegar mikið er rætt um hvort að Costco muni opna verslun á Íslandi og svo hvað þar verði á boðstólum, hef ég orðið var við að margir vita ekki hvernig verslun Costo er.
Costco er nokkurs konar blanda af heildverslun og smásöluverslun. Að hluta til nokkurs konar "gripið og greitt", að hluta til hefðbundin smásöluverslun.
Þar við bætist að flestar verslanir þeirra hafa bensínsölu, dekkjaverkstæði, apótek, gleraugnaþjónustu, ljósmyndaprentun og passamyndatökur, bakarí inni í versluninni sem og kjötvinnslu (þó að megnið af kjötvörum sé að keypt að ég tel).
Bakarí og kjötvinnsla er með þeim hætti að við viðskiptavinurinn getur fylgst með því sem þar gerist.
Til að versla í Costco þarf að gerast meðlimur og borga árgjald. Boðið hefur verið upp á tvenns konar aðild. Almenn aðild sem í Kanada kostar 55 dollara og svo 110 dollara aðild, innifelur frekari fríðindi, sem og endurgreiðslu upp á 2% af því sem keypt er (einhverjar vörur undanþegnar ef ég man rétt), þó að hámarki 750 dollurum.
Fyrir þá sem kaupa mikið og eru tryggir Costco, er síðari kosturinn álitlegur og gerir oft meira en að borga árgjaldið.
En hvað selur Costco? Í stuttu máli sagt flest milli himins og jarðar. Vöruúrval er mismunandi eftir búðum, þó að ákveðinn kjarni sé í þeim öllum.
Costco rekur einnig öfluga netverslun. Margt sem þar er boðið upp á fæst einnig í verslununum, en annað er eingöngu í netversluninni. Netverslunin sendir reglulega út tilboð í tölvupósti og má sjá það nýjasta hér.
Rétt er að hafa í huga að þetta er tilboð fyrir Ontario. Öll verð eru án sölskatts, eins og tíðkast að birta verð í Kanada. Samanburður við Ísland er líklega í mörgum tilfellum ekki raunhæfur, þar sem tollar, vörugjöld og annað slíkt spilar sína rullu á Íslandi.
Vöruúrval í netverslun má skoða á www.costco.ca eða costco.com Mismunandi úrval er fyrir Bandaríkin og Kanada.
Hér má svo sjá nýjustu "couponana" eða afsláttarmiðana fyrir Ontario. Þar gildir það sama, að verð eru án söluskatts, en matvæli bera engan söluskatt í Ontario, eins og víðar í N-Ameríku.
Costco hefur orð á sér fyrir að vera "gott" fyrirtæki. Borga starfsfólki sínu vel samkeppnishæf laun og vera góður vinnustaður. Verslanir þess sem ég hef stundað í Kanada, eru t.d. með fleiri "lokunardaga" en margar aðrar verslunarkeðjur og starfsmannavelta þar virðist ekki mikil. Mörg andilt þar ég hef séð frá því að ég fyrst kom inn í verslunina, fyrir ríflega 12 árum.
Auðvitað eru einstaklingar þó mishrifnir af Costco, og sumum finnst ekki henta sér að kaupa inn í stórum pakkningum.
Ég er þó ekki í minnsta vafa um að fyrir Íslendinga væri mikill akkur í því ef Costco setur upp verslun á Íslandi.
Nú má sjá í fréttum að Reykjavíkurborg virðist hafa fallist á að leyfa fjölorkustöð á Korputorgi og er það vel.
Nú er bara að sjá hvert setur og hvort Costco muni opna Íslandi og ef svo fer hvort það verður í Reykjavík eða Garðabæ.
P.S. Eftir að hafa séð þessa frétt, spái ég að Garðabær verði fyrir valinu ef af verður. Skilyrði Reykjavíkurborgar eru einfaldlega of íþyngjandi. Ef skoðað er hvert hlutfall bifreiða notar vistvæna orku og svo aftur "hefðbundna", sést að það er auvitað skrýtið skilyrði að krefjast þess að helmingur dæla sé fyrir vistvæna orku.
Enn eitt dæmið um hvernig skipulagsyfirvöld í Reykjavík virðast vilja þvinga einhverri draumsýn á borgarbúa og fyrirtæki, sem ekki er í takt við raunveruleikann.
Slíkar takmarkanir og skilyrði hindra í raun samkeppni og spilar upp í hendurnar á þeim sem fyrir eru á markaðnum og ekki þurfa að hlýta slíkum skilyrðum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.7.2014 | 10:56
Að flytja eða ekki flytja - til Akureyrar
Fyrirhugaðar flutningur Fiskistofu til Akureyrar hefur eðlilega vakið athygli og umræður. Það er ekki á hverjum degi sem ríkisstofnanir eru fluttar út á landsbyggðina.
Eðlilega sýnist sitt hverjum.
Í mínum huga skiptir tvennt meginmáli.
Er vilji fyrir því að flytja ríkisstofnanir út á landsbyggðina?
Hvernig er best staðið að því?
Sjálfur er ég fylgjandi því að flytja stofnanir út á landsbyggðina, en það má auðvitað finna rök á móti því einnig.
En þó að ég sé þeirra skoðunar að varasamt sé að hafa afskipti af staðsetningu einkafyrirtækja, gildir annað um ríkisstofnanir, sem eðli hlutarins samkvæmt eru kostaðar af landsmönnum öllum og eiga í flestum tilfellum að þjóna þeim öllum.
Og ef flytja á ríkisstofnanir út á land, eru varla margir staðir hentugri en Akureyri og ég ímynda mér að fáar stofnanir henti betur til flutnings út á landsbyggðina en Fiskistofa.
En hvernig er best að standa að flutningum sem þessum?
Eftir því sem ég hef komist næst, stendur ekki til að leggja starfsemina niður í Reykjavík, þar verður eftir sem áður all öflug starfstöð. Það er enda eðlilegt.
Það má sömuleiðis velta því fyrir sér hvað er gott að flytja stóra "bita" af stofnunum í einu, og hvað ætti að gefa sér langan tíma til þess. Sömuleiðis er vert að hafa í huga hvað langur tími ætti að líða frá tilkynningu um flutning, þangað til flutningur hefst. Það gefur starfsfólki tíma til að meta stöðu sína, jafnvel finna sér nýtt starf, nú eða t.d. fyrir maka til að þreifa fyrir sér með starf á nýjum stað, ef áhugi er fyrir því að flytja.
En fyrirtæki og stofnanir eru ekki reknar fyrir starfsfólkið. Jafn sjálfsagt það er að reyna að gera vel við starfsfólk, hafa jafn fyrirtæki sem stofnanir, flutt, dregið saman seglin, lagst niður o.s.frv. í gegnum tíðina og verður svo í framtíðinni einnig.
Það er ekkert óeðlilegt að Fiskistofa flytjist norður á Akureyri, ekki óeðlilegra en reiknað er með að Sýslumannsembættið á Akureyri verði lagt niður og Akureyri sinnt frá Húsavík. Mig rekur ekki minni til að stéttarfélög hafi lagt í mikla baráttu gegn þeim hugmyndum, alla vegna ekki enn.
Það er alltaf ástæða til þess að velta upp hugmyndum um hvernig betur megi standa að hlutunum, en það þýðir ekki að hlutirnir eða hugmyndirnar séu ekki þess virði að framkvæma þær.
P.S. Svo að gagnsæið sé í hávegum haft, er auðvitað rétt að taka fram að þó að bloggari hafi ekki komið til Akureyrar í háa herrans tíð, er hann fæddur þar og uppalinn. Það hefur þó ekki að ég tel haft nein veruleg áhrif á þessi skrif. :-)
Aðferðafræðin skiptir öllu máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2014 | 07:24
Að banna búrkur eða ekki að banna búrkur?
Víða um heim hafa komið upp áleitnar spurningar og hart verið deilt um hvort banna eigi að einstaklingum að klæðast búrkum eður ei.
Það er skoðun margra og ég get tekið undir hana að flestu leyti, að það sé út í hött að banna einstaklingum að klæða sig á ákveðin máta. Hvort sem það er að trúarlegum ástæðum, eða einhverjum öðrum, hljóti það að vera ákvörðun hvers og eins.
Má þá ekki alveg eins banna of stutt pils, of lítil bikini, eða of aðskornar og þröngar sundskýlur?
En búrkan er þó örlítið annars eðlis. Þó að hún eins og bikini og sundskýlur, þyki oft ögra ríkjandi viðurhorfum, gerir hún það á annan hátt.
Hún hylur viðkomandi einstakling og gerir í raun ókleyft að bera kennsl á hann. En það er einmitt einn af hornsteinum nútíma vestræns samfélags.
Ef okkur þykir sjálfsagt að samþykkja búrkur, verðum við líka að velta fyrir okkur hvað okkur þykir eðlilegt að neita þeim um, sem klæðist henni.
Hvaða réttindum afsalar sá er klæðist búrku sér?
Er ekki eðlilegt að neita einstaklingi í búrku um að kjósa? Væri eðlilegt að neita einstaklingi í búrku að keyra bil? Þætti ekki flestum sjálfsagt að neita einstaklingi í í búrku um að greiða með debet eða kreditkorti?
Varla gæti nokkur vafi leikið á því að einstaklingi í búrku yrði neitað um að opna bankareikning.
Gæti einstaklingur í búrku sótt sér aðstoð hjá Tryggingastofnun, eða félagsaðstoð sveitarfélaga?
Þætti ekki sjálfsagt að neita einstaklingi i búrku um afgreiðslu í ÁTVR? (Nú veit ég að að múslimar neyta öllu jöfnu ekki mikils áfengis, en þetta á auðvitað fyrst og fremst við þegar þessi létti og þekkilegi klæðnaður yrði að almennri fatatísku).
Getur einstaklingur í búrku fengið vegabréf eða ferðast á milli landa?
Getur einstaklingur í búrku fengið að taka próf í framhaldsskólum eða háskólum? Eða yfirleitt fengið inngöngu í slíka skóla?
Væri það samþykkt að einstaklingi sem klæddist búrku yrði sagt upp atvinnu sinni, vegna gruns um að það væri ekki sami einstaklingur og hefði komið í atvinnuviðtal? Eða sá sem hefði verið í vinnunni í síðustu viku?
Eflaust velta fyrir sér fleiri álitamálum, en ég læt hér staðar numið.
Finnst okkur eðlilegt og sjálfsagt að einstaklingur afsali sér þessum réttindum, eða gerum við ráð fyrir að búrkan sé eingöngu notuð við einstök tækifæri?
Er sjálfsagt að einstaklingurinn afsali sér slíkum réttindum, ef að hann gerir það sjálfviljugur?
Hvernig getum við verið viss um um um sjálfstæðan vilja sé að ræða?
Eða eins og einn kunningi minn sagði þegar svipað var rætt: "Samþykkjum við þá þrælahald, ef einstaklingur segist vera í því af fúsum og frjálsum vilja?"
Engin þjóð sem ég man eftir hefur gengið jafn langt í að reyna að aðskilja trúarbrögð frá hinu opinbera lífi og Frakkar. Og þeim hefur gengið það býsna vel. Trúartákn og annað slíkt lúta ströngum reglum. Engin giftir nema hið opinbera. Síðan getur hver sem er "blessað" sambandið.
En það verður fróðlegt að heyra af því hvernig niðurstaðan í þessu máli verður. Hún getur haft mikil áhrif í Frakklandi og víðar.
Persónulega spái ég því að bannið verði dæmt lögmætt. En það eru vissulega sterk rök, bæði með og á móti.
Stenst búrkubann lög? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2014 | 12:29
Auðvitað er Framsókn stjórntæk. Fleiri vildu Framsókn í borgarstjórn en Vinstri græn eða Pírata
Ýmsir stjórnmálamenn og álitsgjafar hafa sett sig í yfirlætislegar stellingar og talað um að Framsóknarflokkurinn sé ekki stjórntækur. Þar sem þessar fullyrðingar virðast helst eiga við setu þeirra tveggja kvenna sem hlutu brautargengi til borgarstjórnar Reykjavíkur, er þetta auðvitað alls kostar rangt.
Framsóknarflokkurinn á tvo fulltrúa í stjórn Reykjavíkur, borgarstjórn. Hann situr þar ekki vegna þess að Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð, Píratar eða Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að hann væri tækur í stjórn borgarinnar.
Það var ákveðið af kjósendum, þeim hluta borgarbúa sem hefur atkvæðisrétt og nýtti sér hann.
Það er ekki til neitt sem heitir "góð" eða "slæm" atkvæði, "stjórntæk" eða "óstjórntæk" atkvæði, það er bara til ein gerð af atkvæðum.
Það er rétt að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn fékk fleiri atkvæði en til dæmis Vinstri græn og Píratar. Fleiri Reykvíkingar vildu að Framsóknarflokkurinn kæmi að stjórn borgarinnar en kærðu sig um að Vinstri græn eða Píratar gerðu það.
Að mínu mati er það ekki til fyrirmyndar þegar stjórnmálamenn gera lítið úr kjósendum andstæðinga sinna.
Það eiga allir rétt á að velja sína fulltrúa í lýðræðisríkjum. Gerum ekki lítið úr því. Allra síst fer það þeim stjórnmálamönnum vel sem rétt höfðu það inn í borgarstjórn.
Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu öllum í sjálfsvald sett, hverja þeir kjósa sem samstarfsmenn, en að hefur ekkert með "stjórntæki" eins eða neins að gera.
Framsókn er stjórntæk, hún er í borgarstjórn með 2. fulltrúa, vegna þess að borgarbúar ákváðu að svo yrði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
2.6.2014 | 19:05
Kosningar á netinu auka ekki kosningaþátttöku. Aðeins áhugaverð stjórnmál og stjórnmálamenn geta gert það
Nú að nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum er mörgum brugðið yfir þeirri staðreynd hvað kosningaþátttakan er léleg og hefur farið hratt minnkandi.
Margir telja að nauðsynlegt sé að hefja netkosningar til vegs og virðingar, svo auka megi kosningaþátttöku.
Persónulega er ég á öndverðri skoðun, þó að tækninni fleygi sífellt fram, hef ég ekki séð neinar sterkar vísbendingar um að netkosningar auki kosningaþátttöku, en hins vegar bjóða þær ýmsum hættum heim.
Fáar, ef nokkrar, þjóðir hafa meiri reynslu af netkosningum en Eistlendingar. Þar voru fyrstu kosningarnar með þeim möguleika að greiða atkvæði á internetinu haldnar 2005. Það voru sveitarstjórnarkosningar, en síðan hafa verið haldnar þingkosningar, bæði til þings Eistlands og Evrópusambandsþingsins, þar sem boðið hefur verið upp á þann möguleika að greiða atkvæði á netinu.
Netkosningar fara ávalt fram nokkrum dögum fyrir hinn eiginlega kjördag. Þannig lokar netkosningin 2 til 3 dögum fyrir kjördag. Líklega er þetta gert í öryggisskyni, þannig að möguleiki sé á að hvetja kjósendur til að endurtaka atkvæði sín á "hefðbundin" hátt, ef eitthvað kemur upp á hvað varða e-atkvæðin.
Þeim fjölgar (sem hlutfalli) sem greiða atkvæði sín á netinu. En það hefur ekki orðið til þess að stórauka kosningaþátttöku, sem fer upp og niður eftir sem áður.
Þannig minnkaði kosningaþátttaka í kosningum til Evrópusambandsþingsins sem voru í maí. Þar fór kosningaþátttakan úr u.þ.b. 44% árið 2009 í u.þ.b. 36% í ár. Hvoru tveggja er þó betri þátttaka en árið 2004, er þátttakan var u.þ.b. 22%.
En auðvitað segja prósentutölur ekki alla söguna, það sem skiptir líklega mestu máli er hvort kjósendum finnst kosningarnar skipta máli og hvort að frambjóðendur nái til þeirra. Þannig vilja margir þakka Indrek Tarand aukninguna í Evrópusambandsþingkosningunum árið 2009. Hann var í einmenningsframboði, en hlaut rétt tæp 26% atkvæða. Aðeins 1. stjórnmálaflokkur náði fleiri atkvæðum og var munurinn um 1100, eða um kvart %. Atkvæðafjöldi hans hefði nægt til að koma 2. mönnum á þingið, en hann var einn í framboði.
Þannig hefur kosningaþátttaka verið upp og niður í Eistlandi, en óhætt yrði að segja að Eistlendingar yrðu nokkuð ánægðir með kosningaþátttöku þá sem Íslendingum þykir nú svo arfaslök
Hins vegar færa e-atkvæðagreiðslur þeim sem ekki eru staddir í heimalandinu, eða búa langt frá kjörstað að sjálfsögðu gríðarleg þægindi. Það skiptir miklu máli í landi eins og Eistlandi þar sem tugir þúsunda sækja vinnu í öðrum löndum eða búa jafnvel í öðrum heimsálfum.
En netkosningar koma ekki án galla. T.d. er ekki lengur hægt að tryggja að kjósendur séu "einir í kjörklefanum". Það er hugsanlegt að einstaklingur kjósi undir "pressu" og auðveldara er að fylgjast með því að kosið sé "rétt". Atkvæðakaup eru einnig gerð auðveldari og "tryggari".
Hugsanlegt er að einstaklingar afhendi öðrum aðgang sinn að kosningakerfinu.
Ég held að aðeins áhugaverð stjórnmál og áhugaverðir stjórnmálamenn geti aukið kosningaþátttöku.
Það sem er ef til vill ekki hvað síst áhugavert, er hvað áhugi virðist minni fyrir sveitarstjórnarkosningum (sérstaklega í stærri sveitarfélögum), en t.d. Alþingiskosningum. Þó eru sveitarfélög ekki síður að taka ákvarðanir sem snerta daglegt líf borgaranna.
Margir greiða hærra hlutfall af launum sínum til sveitarfélagsins en til ríkisins. Ef ég man rétt er það ekki fyrr en um og yfir 300.000 króna tekjum sem einstaklingur fer að borga hærri tekjuskatt en útsvar.
Hér fyrir eru tvær greinar af netinu um netkosningar í Eistlandi.
http://www.eui.eu/Projects/EUDO-PublicOpinion/Documents/bochslere-voteeui2010.pdf
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2014 | 11:16
Eðlilegt að Íslendingar vilji tollfrjálsar vörur
Það hefði komið mér verulega á óvart ef meirihluti þeirra sem afstöðu taka vildi ekki tollfrjálsan innflutning á landbúnaðarvörum.
Reyndar er ég þess nokkuð viss að Íslending viljii toll og álagningarlausan innflutning á flestum vörum.
Hver myndi til til dæmis vera á móti því að innflutningsgjöld og aðrar álögur á bílum lækkaði?
Nú eða á bensíni?
Svona mætti líklega lengi áfram telja.
Ég hef trú á því að býsna margir væru sömuleiðis þeirrar skoðunar að virðisaukaskattur mætti vera lægri.
Þegar kemur svo að útgjaldaliðum hins opinbera, vantar hins vegar ekki hugmyndirnar og "bráðnauðsynlega" útgjaldaliði sem, margir þeir sem myndu þiggja lægri álögur telja nauðsynlegar.
Staðreyndin er sú, að það þarf að skera stórlega niður í ríkisrekstri og framlögum og það ekki eingöngu til landbúnaðar.
En það breytir því ekki að krafan um aukin innflutning á matvælum nýtur býsna mikils stuðnings, og er líklegra en ekki að sá stuðningur eigi eftir að aukast á komandi árum.
Það er því áríðandi fyrir Íslendinga að fara að huga alvarlega að uppstokkun og endurskipulagningu á landbúnaðarkerfi sínu.
Því lengur sem það dregst, því verður hvellurinn stærri og erfiðleikarnir meiri.
En það er sömuleiðis áríðandi, að Íslendingur geri þær breytingar á eigin forsendum og með eigin hagsmuni í huga.
Einhvern veginn er erfitt að leyfa sér að vera bjartsýnn á að slíkt takist með góðu móti og í víðtækri sátt, en þessi könnun sýnir enn og aftur þann skoðanmun og núning, sem er að verða á milli höfuðborgarsvæðisins og annara hluta Íslands.
Tæp 50% fylgjandi tollfrjálsum innflutningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.3.2014 | 09:48
Af hinu meinta frjálslyndi
Frjálslynda fólkið að yfirgefa flokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.3.2014 | 10:26
Til hamingju með daginn
Það er full ástæða til þess að óska Íslendingum öllum til hamingju með að 25 ár skuli vera liðinn frá því að banni við sölu á bjór var aflétt.
Ef ég man rétt eru aðeins 2. þingmenn af þeim sem greiddu atkvæði um bjórfrumvarpið svokallaða enn á þingi. Það eru Steingrímur J. Sigfússon sem sagði nei, og Einar K. Guðfinnsson (þá varaþingmaður ef ég man rétt) sem sagði já.
En ég velti því nokuð fyrir mér hvernig áfengisneysla á íbúa er mæld. Á þeim 25 árum sem bjór hefur verið löglegur á Íslandi, hefur ferðamannastraumur stóraukist. Nú þekkja það líklega margir að áfengisneysla er gjarna all nokkur í fríum, ekki hvað síst bjór og léttvínsdrykkja.
Hvernig skyldi neysla ferðamanna vera tekin með í útreikningum um áfengisdrykkju landsmanna, eða er hún það yfirleitt?
Ef einhver kann svar við því, þætti mér fengur af upplýsingum í þá veru, t.d. í athugasemdum hér að neðan.
Hrakspár rættust ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)