Færsluflokkur: Dægurmál
27.11.2015 | 16:56
Mega ekki allir styrkja starfsemi trúfélaga á Íslandi?
All nokkuð hefur verið rætt um starfsmemi og styrki til trúfélega á Ísland undanfarin misseri. Líklega er ekki of sterkt til orða tekið þegar sagt er að nokkur munur sé á skoðunum í þessum efnum.
En mér vitanlega er ekkert sem bannar einum eða neinum að styrkja trúfélög á Íslandi og líklegra er en ekki, að mínu mati að mörg þeirra fái og/eða hafi fengið einhverja styrki erlendis frá.
Sem eðlilegt er og ekkert út á það að setja.
Er ekki nákvæmlega jafn eðilegt að útlendingar láti fé af hendi rakna til trúarstarfsemi og trúboðs á Íslandi og að íslendingar geri slíkt til trúboðs og tengdrar starfsemi í fjarlægum löndum?
Og hver ætti að meta hvaða aðilar eru hæfir til að gefa fé og hverjir ekki? Og eftir hvað lögum og reglum ættu þeir að vinna?
Þess vegna virðist mér allt tal um að kanna hvaðan fjármagn kemur marklaust, hvort sem það kemur frá borgarstjóra eður ei.
Og hvernig á svo að vinna málið áfram?
Ef 200 einstaklingar gefa milljón hver, hver á að rannsaka að allir einstaklingarnir hafi raunverulega gefið eigið fé, eða hafi efnahagslega burði til þess?
Mér virðist þetta allt nokkuð marklaust.
Hún er líka áhugaverð umræðan um að allir trúarsöfnuðir á Íslandi verði að starfa í samræmi við íslensk lög, þar sem m.a. er kveðið á um að ekki megi mismuna einstaklingum eftir kyni.
En það verður að hafa í huga að stjórnarskráin íslenska tryggir trúfrelsi og það er þarft að velta því fyrir sér, hvort að það sé ekki sterkara.
Að sá sem velur sér trúfélag, hafi í raun þá gefið hluta af öðrum réttindum sínum eftir.
En ég hef velt þessu fyrir mér áður, og má lesa það hér.
Staðreyndin er sú, að ef að horft er í til íslenskra laga, eru það líklega fleiri en eitt og fleiri en tvö trúrfélög sem gætu lent í vandræðum.
En hvað verður þá um trúfrelsið?
Þeir sem hafa lesið þetta blogg reglulega vita líklega að mér hefur sjaldan legið mjög gott orð til trúfélaga. Get ekki sagt að ég beri mikla virðingu fyrir þeim.
En því má ekki rugla saman við virðingu mína fyrir trúfrelsi og frelsi einstaklinga til að iðka trú sína. Sú virðing er mikil.
En hún hefur vissulega sín takmörk.
Spurningin er hvar mörkin liggja og hvar íslendingar vilja draga þau.
Það er umræða sem þarft er að taka, en líklega eldfim.
P.S. Ég vil taka undir með þeim sem hafa lýst aðdáun sinni á teikningu af fyrirhugaðri mosku í Reykjavík.
Mér þykir næsta víst að bygginguna eigi ég aldrei eftir að sjá innan frá, en fyrirhugað útlit hennar er gott og kom mér skemmtilega á óvart.
Óeðlileg pressa frá leigusölunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.11.2015 | 21:53
Andri og Björk að berja á ríkisstjórninni með baráttumáli Samfylkingarinnar?
Þeir sem hafa lesið þetta blogg í gegnum tíðina er líklega ljóst að ég hef ekki verið hrifinn af því að lagður yrði raforkustrengur á milli Íslands og Bretlands. Þó hef ég ekki lagst eindregið á móti rannsóknum þess efnis, enda upplýsingar í eðli sínu oftast af hinu góða.
Bloggið hér á undan er ágætis dæmi um það.
En mér fannst samt sem áður nokkuð merkilegt að lesa um blaðamannafund Andra Snæs og Bjarkar. Sérstaklega vakti athygli mína herkvöð þeirra gegn ríkisstjórninni.
Það kemur mér ekki á óvart að Andri Snær og Björk séu andstæðingar lagningar sæstrengs til raforkuflutnings frá Íslandi til Bretlands, ekki síst vegna þess að mér þykir nokkuð einsýnt að til að slíkt eigi möguleika á því að bera sig, þurfi til frekari virkjanir.
En að leggja dæmið upp eins og fyrst og fremst sé þörf á að berja á og berjast gegn núverandi ríkisstjórn fannst mér nokkuð langt til seilst og raunar gefa herferð þeirra nokkuð flokkspólítískan blæ.
Því það er langt í frá að núverandi stjórnarflokkar hafi barist hart fyrir lagningu sæstrengs, eða að það geti kallast þeirra baráttumál.
Núverandi ríkisstjórn hefur frekar verið legið á hálsi fyrir að draga lappirnar í málinu.
Staðreyndin er auðvitað sú að utan Landsvirkjunar (og reyndar að hluta til einnig þar) hefur málið fyrst og fremst verið keyrt áfram af liðsmönnum Samfylkingarinnar.
Fyrrverandi ráðherrar, Össur Skarphéðinsson, Katrín Júlíusdóttir og Oddný Harðardóttir eru þau sem fyrst og fremst börðust og töluðu fyrir sæstreng.
Ég minnist ekki að Andri Snær og Björk hafi barist hart á móti þeim áformum þegar þau voru á forsjá ráðherra ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar.
En auðvitað hefði verið best að berjast gegn þeim frá upphafi.
Sumir þeirra höfðu í huga tröllsleg áform um að sæstrengi og orkusölu frá Grænlandi, um Ísland, til Evrópu.
Í þessari frétt er Oddný Harðardóttir að dásama möguleika sæstrengs á ársfundi Landsvirkjunar.
Hér er Oddný svo að skora að núverandi iðnaðarráðherra að keyra málið áfram.
Hér lýsir Katrín Júlíusdóttir yfir fyllsta stuðningi ríkisstjórna Samfylkingar og Vinstri grænna við kannanir Landsvirkjunar varðandi sæstreng.
Hér er fyrirsögnin: Íslensk stjórnvöld íhuga að leggja sæstreng til Skotlands. Með er mynd af Katrínu Júlíusdóttur og vitnað í hana.
Hér má lesa (og horfa á) umræður á Alþingi um sæstreng. Hér er svo skýrslan sem lögð var fram á Alþingi í oct 2013.
Það er því óneitanlega sérstakt að mínu mati að lesa um að Björk Guðmdundsdóttir biðji um stuðning gegn núverandi ríkisstjórn.
Nær hefði verið að biðja um stuðning gegn Alþingi, eða hreinlega íslensku stjórnmálastéttinni, því málið getur á engan hátt talist sem baráttumál núverandi ríkisstjórnar, þó að hún hafi vissulega komið að því. Líklega verður þó Samfylkingin að teljast drifkrafturinn í málinu.
Vinstri græn hafa verið meira efins og beggja megin girðingar, ef svo má að orði komast, og hefur Steingrímur J. Sigfússon alls ekki viljað útiloka stuðning við sæstreng, rétt eins og lesa má í þessari frétt. Þar er haft eftir Steingrími: "... að ein rök með sæstreng væru hámarksnýting á orkunni í stað þess að geyma forða til vara fyrir stóriðjurnar í öryggisskyni vegna t.d. álframleiðslu, orku sem annars lægi dauð í kerfinu.Þetta eru langsterkustu rökin fyrir sæstreng. Umhverfisflokkar í Evrópu, græn samtök í t.d. Hollandi og Bretlandi styðja sæstreng af því að það bæti nýtingu orku og minnki notkun á kolum og kjarnorku. Ísland býr þó ekki við sambærilegar aðstæður."
Steingrímur verður enda líklega að teljast einn af sporförunum í umræðunni um sæstreng, ásamt Svavari Gestssyni, en þeir félagar lögðu fram þingályktunartillögu um að slíkur kostur yrði athugaður árið 1992.
Það var þegar þeir félagar voru ennþá rauðir í gegn og höfðu enga græna skel.
Hér má lesa frétt um tillöguna frá þessum tíma.
En ég er ekkert hissa á því að Andri Snær og Björk kjósi að berjast á móti sæstreng til Bretlands. Sjálfur er ég fullur efasemda um slíka framkvæmd og finnst umræðan um hana fyrst og fremst hafa snúist um mögulegan ofsagróða. Ég er þó líklega ekki skoðanabróðir þeirra hvað varðar virkjanir, ef góð not eru fyrir orkuna.
En mér finnst framsetning þeirra skrýtin og hvernig þau kjósa að setja málið fram eins og málið hverfist um núverandi stjórnarflokka og það ríði á að koma þeim frá.
Það má leiða rökum að því að ef til dæmis Samfylkingin kæmist í stjórn yrði það sæstrengsmálinu til framdráttar og aukin kraftur mynid færast í það. Sagan segir okkur svo að Vinstri græn myndu ekki kæra sig um, eða megna að standa á mót málinu í ríkisstjórn með Samfylkingu. Það var alla vegna ekki raunin í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.
Mig rekur heldur ekki minni til annars en að Björt framtíð hafi verið frekar áfram um sæstreng, en afstöðu Pírata þekki ég ekki.
Það má því segja að Björk og Andri hafi sett undarlega flokkspólítískan blæ á málið með því að beina baráttu sinni fyrst og fremst gegn núverandi stjórnarflokkum.
Það setur undarlegan vinkil á blaðamannafund þeirra.
Kom mér all nokkuð á óvart og mér þykir þau bæði setja verulega niður fyrir vikið.
Það er ekki til nein álfaorka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.11.2015 | 14:09
Kvótastjórnmál - skilyrt lýðræði?
Kynjakvótar hafa verið mikið í umræðunni undanfarin ár og all nokkuð notaðir, sumir lögfestir.
Nú sá ég svo að lagt er til í Samfylkingunni að næsta skref sé stigið. Aldurskvóti.
Auðvitað er í sjálfu sér ekki óeðlilegra að ungt fólk krefjist kvóta en konur. Þó að aldur, ólíkt kyni, sé stigvaxandi, hefur hann oft þótt skipta fólki upp í mismunandi hópa, með mismunandi skoðanir.
En hvar endar þetta?
Vissulega er allta gott ef stjórnmálin endurspegla þjóðlífið, en það er ekki gott að "skipuleggja" lýðræðið, eða er það?
Hvaða hópar þurfa kvóta?
Konur, karlar, ungt fólk, ellilífeyisþegar, "hinsegin fólk, íslendingar sem eru af erlendu bergi brotnir, bankamenn, listamenn, landsbyggðarfólk, dreifbýlisbúar og svo mætti lengi áfram telja.
Ég vil taka það fram að ég er ekki á móti kynjakvótum, þegar skipað er nefndir eða stjórnir á vegum hins opinbera.
En ég er alfarið a móti "skilyrtu lýðræði", sem er í raun ekki lýðræði. Því eru allir kvótar alfarið óþarfir þegar kosið er. Þar gilda atkvæði einstaklinga.
P.S. Að sjálfsögðu er rétt að taka það fram að mér kemur auðvitað ekkert við hvað Samfylkingin ákveður, og læt mér það í frekar léttu rúmi liggja.
En þessar hugmyndir innan hennar gáfu mér tilefni til almennra vangaveltna um þessi málefni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2015 | 19:14
Allt dýrara á Íslandi miðað við höfðatölu?
Í umræðum um Ríkisútvarpið undanfarna daga hefur oft mátt sjá þá röksemd að eðililegt sé að rekstur slíkrar stofnunar kosti mun meira per íbúa á Íslandi en hjá stærri þjóðum.
Í sjálfu sér er ekki hægt að bera á móti því að ýmis rök styðja við slíkar fyllyrðingar.
Líklega mætti þá segja að býsna margt annað ætti að vera mun dýrara á íbúa á Íslandi en í fjölmennari löndum.
Líklega er sínfónían dýrari á hvern íbúa, listasöfn sömuleiðis, Þjóðleikhúsið, íþróttaiðkun, vegakerfið, heilbrigðiskerfið og svo mætti eflaust lengi áfram telja.
Sannleikurinn er þó líklega sá að svo er í sumum tilfellum, en öðrum ekki.
Það liggur í hlutarins eðli að oftast nær geta Íslendingar ekki leyft sér meira en að eyða svipuðu hlutfalli af þjóðartekjum, eða skatttekjum og aðrar þjóðir til sambærilegra hluta.
Það blasir við að ef flestir hlutir væru dýrari á hvern íbúa en hjá öðrum þjóðum, væru lífskjör Íslendinga verulega slakari en þekkist annars staðar, því þó að þjóðartekjur á einstaklinga séu með ágætum á Íslandi, skara þær á engan hátt fram úr.
Það liggur því í hlutarins eðli að íslendingar verða að sníða sér stakk eftir vexti. Flestum þætti líklega eðlilegt að slíkt snið næði jafnt yfir Ríkisútvarpið og aðra starfsemi.
En vissulega má deila um það eins og flest annað. Það er einmitt það sem er verið að gera þessa dagana og getur varla talist óeðlilegt.
Ríkisútvarpið er að mörgu leyti merkileg stofnun, en flokkast þó ekki undir grundvallarþjónustu ríkisins, eða þá mikilvægustu, alla vegna ekki í mínum huga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.9.2015 | 17:32
Er betra að einkavæða eða aumingjavæða?
Það hefur verið nokkur hiti í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarna viku, vegna umdeilds sniðgönguáls gagnvart Ísrael, sem meirihlutinn lagði fram og samþykkti og vildi síðan draga til baka, sem hann og gerði.
Það er því ekki nema von að borgarstjóri, Dagur B., hafi gripið það feginshendi þegar borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins talaði um að þörf væri á einkavæðingu í félagsþjónustunni.
Þar sá hann möguleika á því að leiða umræðuna frá "viðskiptabannsklúðrinu".
En hann gleymdi því auðvitað að sami (fyrrverandi) borgarfulltrúi og lagði fram tilöguna um "viðskiptabannsklúðrið", hafði nýlega í blaðaviðtali gefið félagsþjónustunni á vegum Reykjavíkurborgar algera falleinkunn og talað um að þar færi fram aumingjavæðing, þó að hún reyndar notaði kurteislegra orðalag og talaði um veikleikavæðingu.
Ég gat ekki betur skilið en að sú aumingjavæðing væri ein af meginástæðum þess að hún hefði ákveðið að yfirgefa borgarmálefnin, hún hefði verið í forsvari fyrir þeim málefnum og ekki haft erindi sem erfiði.
En auðvitað er slík aumingjavæðing í réttu framhaldi af loforði Besta flokksins, "allskonar fyrir aumingja", sem Dagur B. féllst á að framfylgja eftir að hafa horft a "Wired" og myndaði með Besta flokknum meirihluta.
Það getur varla heldur verið í andstöðu við Bjarta framtíð, sem gaf sig út fyrir að vera arftaka Besta flokksins í borgarstjórn.
Boðun einkavæðingar kanna að vera nokkur atkvæðafæla fyrir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og aumingjavæðing að sama skapi skapað atkvæði fyrir meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.
En valið er auðvitað borgarbúa.
Hvert finnst þeim rétt að stefna, eða er til hin "þriðja leið"?
Er rétt að vona að enn sé hægt að finna leið til að láta aumingjavæðinguna virka, eða þurfa borgarfulltrúa að vera að láta af störfum til þess að sjá að svo sé ekki?
Svörin fást líklega ekki fyrr en í næstu borgarstjórnarkosningum, en mér þætti skrýtið ef þetta verður ekki eitt af stóru deilumálunum þá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.8.2015 | 20:15
Kynlegar kvikmyndir
I fjölmiðlum hefur undanfarna daga mátt lesa ákall ýmissa frammámanna um kynjakvóta hvað varðar úthlutun hjá Kvikmyndasjóði Íslands (ég vona að þetta sé rétt nafn).
Vissulega hljómar þetta nokkuð göfugmannlega, og er látið líta út eins og spor í átt til jafnréttis, og komandi frá "stútungsköllum", er varla vogandi að andmæla þessu.
En krafa um kynjakvóta vekur þó vissulega upp ýmsar spurningar.
Það er vissulega möguleiki að ég hafi eitthvað miskilið tilganginn með Kvikmyndasjóði (ég á stundum nokkuð erfitt með að skilja tilgang ýmissa opinberra styrktarsjóða), en ég hef staðið í þeirri meiningu að honum væri ætlað að styðja við vænlegar (til vinsælda) Íslenskar kvikmyndir, og jafnvel myndir sem styrktu á beinan eða óbeinan hátt, Íslenska menningu.
Vissulega eru slík markmið óviss og teigjanleg, og lengi má deila um hvaða leið sé best að þeim.
En eru þeir sem kalla á eftir kynjakvóta að segja að slík markmið hafi verið hundsuð, vegna þess að hallað hefur á konur í úthlutunum?
Hafa "síðri myndir" orðið fyrir valinu, til þess að koma körlum að?
Hefur "Sjóðurinn" ekki staðið sig sem skyldi þegar styrkþegar hafa verið valdir, og eitthvert annað sjónarmið en "kvikmyndalegt" verið haft að leiðarljósi?
Eða er hlutverk Kvikmyndasjóðs eitthað allt annað en að styrkja "vænlegar kvikmyndir"?
P.S. Mega Íslendingar vænta þess að "kynjakvóti" verði settur á forlög í bókaútgáfu og gallerí sem sýna myndlist?
P.S.S. Hefur einhver skoðað hlutfall kynjanna sem umsækjenda um styrki frá Kvikmyndasjóði, og hvert ef til vill sé fylgni á milli umsókna og styrkveitinga, frá "kynlegu" sjónarmiði?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.7.2015 | 09:04
En áfengi er ekki selt á bensínstöðvum
Áfengi og sölufyrirkomulag á því, ásamt sölustöðum virðist vera frjótt ágreiningsefni fyrir Íslendinga.
En í raun, ef ég hef skilið rétt, er bjór, vín eða annað áfengi hvergi selt á bensínstöðvum.
Svo mun hins vegar vera að veitingastaðir sem deila húsnæði með bensínstöðvum selja áfenga drykki. Eins og þeir gera víða um land.
Þó að innangengt sé á milli bensínafgreiðslu og veitingastaðar, er varla hægt að segja að bensínstöðvarnar selji áfengið.
Ekki frekar en hægt er að kaupa áfengi í fatabúðum í Kringlunni, þó að vissulega sé áfengi selt í sama húsnæði, bæði í smásölu og veitingarekstri. Það mun ennfremur vera algengt að einstaklingar komi á bíl til áfengiskaupa.
Umsögn lögreglunnar á Blönduósi bendir enn fremur til þess að ölvunarakstur stjórnist ekki af hvaða annar rekstur er í sama húsi og áfengissali.
Gagnrýna bjór á bensínstöðvum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.7.2015 | 08:54
Að fara í kleinu yfir hringjum
Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki Dunkin´ maður. Þó að ég hafi keypt mér kaffi og meðlæti þar, þá er það ekki nema einu sinni eða tvisvar. Þetta er einfaldlega ekki fyrir mig.
En ég hef aldrei getað skilið hvers vegna svo margir verða æstir yfir því að einhverjar veitingahúsakeðjur, opni hér eða þar. (eins og virðist nú vera yfir Dunkin´ Donuts).
Í mínum huga gildir alltaf það forkveðna, komi þeir sem koma vilja. Þeir hinir sem ekki hafa áhuga, einfaldlega beina viðskiptum sínum annað.
Og ef þeir sem vilja koma eru ekki margir, segir sig sjálft að yfirleitt loka slíkir staðir.
Ef þeir bjóða ekki upp á eitthvað sem heillar, þá verða þeir ekki í rekstri af hugsjóninni einni saman.
Og ef ég man rétt hefur slík örlög beðið margra veitingastaða á Íslandi, þar á meðal nokkurra alþjóðlegra keðja. Þeim hefur einfaldlega verið lokað.
Persónulega man ég ekki eftir því að hafa nokkur staðar gengið verslunargötu, eða komið í slíka miðstöð að eingöngu hafi verið búðir sem mér þótti áhugaverðar, eða eingöngu veitingastaðir sem ég hefði áhuga á að snæða á.
En slíkt læt ég mér í léttu rúmi liggja og fer einfaldlega þar sem mér líst vel á, nú eða heim ef enginn heillar.
Dunkin´Donuts fer ekki framhjá neinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2015 | 18:04
Sýndarveruleiki Samfylkingarinnar?
Þegar ég las þessa frétt fékk ég það á tilfinninguna að fulltrúar Samfylkingarinnar hljóti að lifa í einhverjum sýndarveruleika.
Það er að segja að veruleikinn liggi þeim ekki alveg ljós. Þessi tillöguflutningur finnst mér bera þess nokkur merki.
Auðvitað er skipulagsvald merkilegt vald.
En það ber að hafa í huga að Ísland er ekki stórt land, hvorki að íbúafjölda né flatarmáli, þó að vissulega sé flatarmálið á íbúa all nokkurt.
En íbúarnir eru þó ekki fleiri en svo og landið ekki stærra en að eðlilegt geti talist að líta á hvoru tveggja sem eina heild.
Þannig er það nú algengt að íbúar eins landsvæðis telji sig hafa sitthvað að segja um ráðstöfun landgæða í öðrum landsfjórðungum, og getur varla talist óeðlilegt.
Ekki man ég eftir að það þætti óeðlilegt að Reykvíkingar ættu rödd (eða raddir) um nýtingu Eyjabakka eða Kárahnjúka, og voru ekki Reykvíkingar á meðal þeirra sem mótmæltu vegalagninug í Garðabæ?
Getur það því talist óeðlilegt að fleiri en Reykvíkingar vilji hafa skoðun, og krefjist þess að á þá sé hlustað, þegar talað er um einn af meginflugvöllum landsins, flugvöllinn sem tengir landbyggðina við höfuðborgina?
Eða er það aðeins skipulagsmál höfuðborgarbúa?
Eru virkjanir, vegalagnir, flugvellir o.s.frv. aðeins skipulagsmál viðkomandi sveitarfélags, eða snerta slík málefni íbúa landsins alls?
Auðvitað sjá allir (nema einhverjir Samfylkingarmenn) hvað fáránlegt það væri að kljúfa Reykjavík frá Íslandi, og hve litla möguleika Reykjavíkurborg ætti á því að standa ein, en samt finnast pólítískir fulltrúar stjórnmálaflokks, sem þykir þörf á því að kanna slíkan vilja.
Ég spyr, í hvaða sýndarveruleika lifa slíkir pólítíkusar?
P.S. Ég bloggaði um tengt efni fyrir all nokkru, þann pistil má finna hér.
Viltu að Reykjavík verði borgríki? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.3.2015 | 16:40
Jón Gnarr: Eina leið Samfylkingarinnar til að stjórna á landsvísu?
Ég hugsa að engin sé fremri Össuri Skarphéðinssyni í "pólítískri refskák" á Íslandi í dag.
Össur hefur enda marga pólítíska fjöru sopið og lofað mörgm "gullpottum handan við hornið".
Nú sér Össur auðvitað að næsta vonlítið er að Samfylkingin hljóti gott brautargengi í næstu kosningum. Hún er löskuð, þreytt og lúin, og ekki bætti nýafstaðið Landsþing hennar úr skák.
Þá verður að "skera atkvæðarefi annara", og þeir sem best eru fallnir til slíkrar "rúningar" nú um stundir eru Píratar.
Og ekki væri verra að kalla til Jón Gnarr, sem leyfði einmitt Samfylkingunni að stjórna Reykjavíkurborg í fjögur ár, í sínu nafni.
Það var býsna árangursríkt "mynstur", ekki síst vegna þess að Samfylkingin bar "ekki ábyrgð á neinu", það gerði Jón, og við hann loddi ekkert, frekar en góða teflonhúð. Grínisti getur alltaf leyft sér að svara út í hött, eða skauta fram hjá aðalatriðunum.
Það sést reyndar mílu vegar (þrátt fyrir allar holurnar) hvað Dagur Eggertsson á mikið erfiðar með að fóta sig, nú þegar hann er sá sem ábyrgðina ber.
Ýmsir vilja meina að það sem þurfi til að skipt verði um meirihluta í næstu kosningum, sé einmitt að Dagur komi meira og oftar fram.
En það er nú annað mál.
En nú sér Össur hins vegar tækifæri til þess að "hanna atburðarrás" sem gæti skilað Samfylkingunni að kjötkötlunum í stjórnarráðinu. Og hvað væri þá betra en að hafa forsætisráðherra, sem væri meira fyrir að "koma fram", en að standa í pólítíkinni sjálfri?
Össur gerir sér enda grein fyrir því, að miðað við óbreytt ástand ætti Samfylkingin engan séns á því að fá forsætisráðuneytið í nokkurri stjórn. Það er því nokkuð sjálfgefið að gefa það eftir og reyna að krækja í utanríkisráðuneytið, en þar er einmitt allt "Sambandsfjörið".
Og ef allir þessir viltustu draumar gengju eftir, að það tækist að plata Ísland á einhvern hátt inn í "Sambandið", þá fengi Össur ef til vill sæti við borðið.
Það er að segja þægilegt skrifborð í Brussel, þar sem slaka má á eftir langan stjórnmálaferil á Íslandi. Það er enda þreytandi að þurfa að standa í kosningum á fjögurra ára fresti, og óvíst hvernig prófkjör ganga fyrir næstu kosningar.
Þess vegna finnst þessum fyrrverand formanni Samfylkingarinnar, vænlegast að segja "in Gnarr We Trust".
Árni Páll er ekki til stórræðanna og Bjartri framtíð má ýta til hliðar, eins og hækju sem aldrei þurfti að nota, er hún ekki orðin minnsti flokkurinn í skoðanakönnunum?
Jón Gnarr líklegur forsætisráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)