Allt dýrara á Íslandi miðað við höfðatölu?

Í umræðum um Ríkisútvarpið undanfarna daga hefur oft mátt sjá þá röksemd að eðililegt sé að rekstur slíkrar stofnunar kosti mun meira per íbúa á Íslandi en hjá stærri þjóðum.

Í sjálfu sér er ekki hægt að bera á móti því að ýmis rök styðja við slíkar fyllyrðingar.

Líklega mætti þá segja að býsna margt annað ætti að vera mun dýrara á íbúa á Íslandi en í fjölmennari löndum.

Líklega er sínfónían dýrari á hvern íbúa, listasöfn sömuleiðis, Þjóðleikhúsið, íþróttaiðkun, vegakerfið, heilbrigðiskerfið og svo mætti eflaust lengi áfram telja.

Sannleikurinn er þó líklega sá að svo er í sumum tilfellum, en öðrum ekki.

Það liggur í hlutarins eðli að oftast nær geta Íslendingar ekki leyft sér meira en að eyða svipuðu hlutfalli af þjóðartekjum, eða skatttekjum og aðrar þjóðir til sambærilegra hluta.

Það blasir við að ef flestir hlutir væru dýrari á hvern íbúa en hjá öðrum þjóðum, væru lífskjör Íslendinga verulega slakari en þekkist annars staðar, því þó að þjóðartekjur á einstaklinga séu með ágætum á Íslandi, skara þær á engan hátt fram úr.

Það liggur því í hlutarins eðli að íslendingar verða að sníða sér stakk eftir vexti. Flestum þætti líklega eðlilegt að slíkt snið næði jafnt yfir Ríkisútvarpið og aðra starfsemi.

En vissulega má deila um það eins og flest annað. Það er einmitt það sem er verið að gera þessa dagana og getur varla talist óeðlilegt.

Ríkisútvarpið er að mörgu leyti merkileg stofnun, en flokkast þó ekki undir grundvallarþjónustu ríkisins, eða þá mikilvægustu, alla vegna ekki í mínum huga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Útvarpsgjaldið á Íslandi á hvern haus er ekki hærra en í nágrannalöndunum heldur lægra.

Ómar Ragnarsson, 1.11.2015 kl. 01:36

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ómar Þakkar þér fyrir þetta. Ég tel sjálfan mig engan sérfræðing í afnotagjöldum, langt í frá. En mér hefur skilist að þetta sé nokkuð málum blandið í nágrannalöndum okkar.

Mér hefur til dæmis skilist að í Danmörku sé greitt fyrir heimilið, ekki nefskattur. Slíkt sé í sumum tilfellum ódýrara en á Íslandi á einstakling, en í öðrum dýrara, allt eftir samsetningu heimilisins. Mér skildist á kunningja mínum fyrir all nokkru að heimili hans borgaði í kringum 40.000 íslenskar krónur.

En ég veit að í Finnlandi er ekki sjónvarpsgjald, heldur skattur. En ekki nefskattur eins og á Íslandi, heldur tekjutengdur. Eftir því sem é kemst næst þá borgar "meðalmaðurinn" þar í kringum 20.000 íslenskar krónur. Tekjuháir borga u.þ.b. 2fallt það, ef ég hef skilið rétt, en tekjulágir borga ekkert.

Hvernig þetta allt kemur út "á haus", veit ég ekki, þ.e.a.s. hvernig samsetningin er.

En það þarf auðvitað að líta á heildarmyndina, heildarkostnað.

Er hægt að reikna með því að til lengri tíma hafi íslendingar efni á því að kostnaður sé langtum hærri á íbúa en í öðrum löndum?

Og þá er ég ekki eingöngu að tala um ríkisútvarpið.

Varð ekki danska ríkisútvarpið að skera heiftarlega niður fyrir fáum árum, vegna fjárhagsvandræða (sem komu að stórum hluta til vegna fasteignabygginga, ef ég man rétt.)

G. Tómas Gunnarsson, 1.11.2015 kl. 08:45

3 identicon

Mér finnst með algjörum ólíkindum ef Ríkisútvarið kostar aðeins um 20% meira á íbúa en hjá þjóðum með fimmtán sinnum fleiri íbúa og þaðan af meira. Fyrirfram hefði ég haldið að munurinn væri margfaldur enda hefur fjöldi íbúa lítil áhrif á rekstrarkostnaðinn.

Ef rekstrarkostnaður RÚV væri aðeins þriðjungur af rekstrarkostnaði DR myndi kostnaður á íbúa vera meira en fimmfalt meiri hjá RÚV en DR.

Það er auðvitað fráleitt að ætlast til að lítið land eins og Ísland verji ekki meira á íbúa í útvarpsrekstur á vegum ríkisins en lönd með íbúafjölda af allt annarri stærðargráðu. Slíkur hugsunarháttur leiðir óhjákvæmilega aðeins til þess að gæðin lúta í lægra haldi.

Skýrslan sýnir því að mínu mati að það þarf að leggja miklu meira fé í RÚV. Ef útvarpsgjaldið rynni óskert til starfseminnar og væri ekki skert heldur hækkað í samræmi við verðlagshækkanir væri það mjög vel sloppið ef það nægði.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2015 kl. 11:08

4 identicon

Rekstrarkostnaður RÚV á ári er mun lægri en lækkun veiðigjaldsins, aðeins rúmlega helmingur af auðlegðarskattinum, sem nú hefur verið aflagður, og aðeins um 1/15 af skuldalækkuninni eða jafnvel um 1/20 ef skattaafsláttur komandi ára er talinn með.

Þessar tölur sýna að við höfum vel efni á vandaðri útvarpsdagskrá. Að takmarka kostnaðinn við sama kostnað á íbúa og hjá margfalt stærri þjóðum er því fráleitt og þjónar ekki öðrum tilgangi en að leggja starfsemina í rúst.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2015 kl. 11:46

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Eins og áður sagði hér er ég enginn sérffæðingur í afnotagjöldum, né heldur fjölmiðlarekstri.

En það er bæði gömul og ný sannindi að hagkvæmni felist í stærð og mannfjölda.

Þar sem mannfjöldi er meiri og byggð þéttari, eykst gjarna hagkvæmni og hægt er að leyfa sér meira á ýmsum sviðum.

En það verður líka að koma fram að DR býður eftir því sem ég best veit upp á 10 útvarpsrásir og 6 sjónvarpsrásir.

Það er líka ljóst að ef litlar þjóðir keyra kostnað "á haus" upp á mörgum sviðum, þá finnst fyrir því hjá almenningi.

Auðvitað eru ýmsir eins og þú, sem vilja keyra upp skattlagninu til slíkra aðgerða, en slíkt er ólíklegt til að virka vel til lengri tíma.

Það var því varla tilviljun (og frekar skynsamlegt) að skattur eins og "auðlegðarskattur" var lagður á til takmarkaðs tíma og eðlilegt að að hann væri látinn "renna út".

G. Tómas Gunnarsson, 1.11.2015 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband