Færsluflokkur: Dægurmál

Frekari rannsóknar er þörf - allir ættu að geta sammælst um það, eða hvað?

Skýrsla sem hefur verið lögð fram í nafni meirihluta fjárlaganefndar hefur vakið verðskuldaða athygli. Líklega verður þó meirihluti athyglinnar að teljast neikvæður, en það breytir því ekki að skýrslan hefur vakið athygli á nauðsynlegu máli.

Ég hef ekki haft tíma nema til að renna í fljótheitum yfir skýrsluna. Fljótt á litið virðist mér að sú gagnrýni að ekki sé um rannsóknarskýrslu að ræða eigi við rök að styðjast.  Mun nær er að tala um samantekt og jafnvel endurtekningu á því sem hefur komið fra áður.

Það breytir því ekki að þær spurningar sem skýrslan vekur, hefur í fæstum tilfellum verið svarað með viðunandi hætti.

Það er því fyllsta ástæða til þess að Alþingi ákveði að ýtarleg rannsókn fari fram og góðri rannsóknarskýrslu verði skilað.

Nú þegar hefur ítarlegri skýrslu um atburðarásina fyrir bankahrun verið skilað, en það er ekki síður ástæða til þess að rannsóknarskýrsla verði gerð um atburðarásina eftir hrun.

Ekki til þess að efna til "sýndarréttarhalda" í þeim stíl sem stjórn Jóhönnu og Steingríms (með stuðningi nokkurra Framsóknarþingmanna og þáverandi þingmanna Hreyfingarinnar (m.a. núverandi þingmanns Pírata)), efndi til yfir Geir Haarde, heldur til þess að læra af ferlinu og gera komandi kynslóðir betur undir það búnar að takast á við svipuð vandamál, ef til þess kemur.

Því er nauðsynlegt að kryfja ferlið og fara yfir það sem vel var gert og svo hitt sem betur hefði mátt fara.

Sömuleiðis væri æskilegt að gera skýrslu um samskpti Ísland og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Hvernig þeim var háttað, hver var ávinningur Íslands, í hverju fólst hann, hver voru neikvæðu áhrifin, hver var kostnaðurinn af aðstoð sjóðsins o.s.frv.

Við eigum að vera óhrædd við að gera upp fortíðina og læra af því sem þá var gert. Bæði hinu góðu og hinu sem verr var staðið að.

Því hygg ég að flestir ættu að geta sammælst um að koma á fót rannsóknarnefnd um árin eftir bankahrun og aðgerðir hins opinbera.

En það hefur líka vakið athygli mína að margir vitna til skýrslu sem Brynjar Níelson vann fyrir fáum árum, og segja að hún sanni að engins ástæða sé fyrir skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, eða frekari rannsókn.

Það er að mínu mati hrein rangfærsla, enda segir í skýrslu Brynjars:

 

Nauðsynlegt og eðlilegt er að skoða allt ferlið við endurreisn bankakerfisins og aðgerðir við endurskipulagningu skulda fyrirtækja og einstaklinga í því skyni að styrkja lagaumgjörð, ekki síst heimildir og aðferðir við eignarnám og mat á eignum. Einnig í því skyni að skýra formreglur stjórnsýslunnar og setja skýrari reglur um hlutverk hvers stjórnvalds um sig við aðstæður sem þessar til þess að draga úr tilviljanakenndum ákvörðunum sem óljóst er á hvers sviði eru. Í aðstæðum sem þessum er mikilvægt að skýrt sé hvert er hlutverk hvers og eins og þá er nauðsynlegt að lagarammi sé eins skýr og frekast er unnt. Þá er ekki síður mikilvægt að fram fari endurskoðun á 12. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem snýr að endurskipulagningu, slitum og samruna fjármálafyrirtækja, enda gífurlegir hagsmunir alls samfélagsins í húfi að vel takist til ef aðstæður sem þessar koma upp aftur.

Einnig segir í skýrslunni (örlítið framar):

 Jafnframt þyrfti að mati skýrsluhöfundar að skoða betur aðgerðir stjórnvalda í tengslum við aðstoð við minni fjármálafyrirtæki eins og Saga Capital, Verðbréfastofuna og Askar Capital og á hvaða grunni veitt var ríkisábyrgð á skuldabréfi SPRON og Sparisjóðabankans til slitabús Kaupþings.

Það er því ærin ástæða til þess að hvetja Alþingi til þess að efna til frekari rannsókna á ákvörðunum hins opinbera á þessu tímabili.

Það er vert að hafa í huga þegar talað er um að eingöngu sé um endurtekningu á ásökunum Víglundar Þorsteinssonar sé að ræða, að þegar Björn Valur Gíslason og fyrrnefndur Víglundur ræddu þessi mál, eftir að Sigmundur Davíð hafði hvatt til að málið yrði rannsakað frekar, þá sagði Björn Valur í sjónvarpi að ef að ríkisstjórnin efndi ekki til rannsóknar á málinu, myndi Vinstri græn krefjast þess (þetta segir Björn Valur þegar u.þ.b. 1 mínuta er eftir af viðtalinu).

Það getur því varla verið eftir nokkru að bíða, það er nauðsynlegt að Alþingi komi á fót rannsóknarnefnd til þess að fjalla um "seinni einkavæðingu bankanna" og jafnframt um aðgerðir stjórnvald eftir hrun. 

Æskilegt að mínu mati væri að einnig væri skipuð nefnd sem fjallaði um samstarf Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Hvað hefur komið í veg fyrir að Björn Valur og Vinstri græn hafi krafist frekari rannsóknar á málinu ætla ég ekki að fullyrða um.

En ég hvet til þess að til slíkrar rannsóknar verði efnt. Það er allt sem hvetur til þess að málið verði krufið til mergjar.

Staðreynd eins og fundargerðir hafi ekki verið haldnar, gerir slíkt enn mikilvægara.

Við skulum ekki gleyma því að við erum að fjalla um sömu ríkisstjórn og vildi að Alþingi samþykkti IceSave I samninginn án þess að þingmenn fengju að sjá hann.

Það hvetur því allt til frekari rannsóknar.

Því sameinast þingmenn ekki um það?

P.S. Ég hef áður bloggað um þetta efni, það blogg má lesa hér.

 


mbl.is Ætlar ekki að mæta í „sýndarréttarhöld“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í raun ótrúlegt að ráða fyrrverandi stjórnmálamann til þess að leikstýra Skaupinu

Persónulega hef ég mikið álít á Jóni Gnarr, það er að segja sem grín og húmorista, en síður sem stjórnmálamanni. Ég hef skemmt mér vel yfir ótal mörgu sem hann hefur komið að á grínsviðinu, það að liggur nærri að ég horfi á Vaktaseríurnar einu sinni á ári (sérstaklega ef ég verð veikur og held til í rúminu einn dag eða fleiri).

Það verður þó ekki frá honum tekið að hann náði frábærum árangri í kosningabaráttu, þó eðli málsins samkvæmt séu líklega skiptar skoðanir um hve vel honum tókst upp sem stjórnmálamanni.

En ég get ekki að því gert að mér finnst það virka nokkuð tvímælis af ríkisstofnun sem lögum samkvæmt þarf að feta eftir bestu getu þröngan stíg "hlutleysisins" að ráða fyrrverandi stjórnmálamann til að leikstýra Áramótaskaupinu.

Það felur einhvern veginn ekki í sér hlutleysi að mínu mati.

En hver veit, ef til vill leitar RUV til Davíðs Oddssonar næst. Hann á einnig glæstan feril í gríninu að baki, þó að vissulega sé lengra síðana að Matthildar þættirnir þóttu hin mesta snilld.

Ekki er að efa að um slíka ráðningu myndi ríkja almenn sátt í þjóðfélaginu.

 


mbl.is Jón Gnarr leikstýrir Skaupinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum eða fáfræði?

Því miður er það allt of algengt í pólítískri umræðu að upphrópunum eins og hér má lesa sé slengt fram:  Hvar eru þessar lækkanir?

Ef aðeins veruleikinn væri svona einfaldur.

Vissulega hefur núverandi ríkisstjórn unnið frábært starf í því að lækka ýmsa toll og gjöld, þó betur megi vissulega gera og sömuleiðis hefur íslenskur efnahagur risið hratt með tilheyrandi styrkingu krónunnar.

En eru þetta einu þættirnir í verðmyndun á innfluttum vörum?

Ég held að flestir geti svarað því að svo sé ekki.

Hvað skyldi til dæmis launakostnaður íslenskra fyrirtækja hafa aukist á sama tíma og gengi krónunnar hefur styrkst og gjöld hafa verið lækkuð?

Bæði í gegnum kjarasamninga og svo eins vegna launaskriðs sem eðlilega verður þegar efnahagslífið er þróttmikið og atvinnuleysi næsta lítið.

Skyldi húsnæðiskostnaður íslenskra fyrirtækja hafa aukist á sama tíma?

Er það ekki líklega vegna styrkingar gengisins og niðurfellingar tolla og gjalda sem að verðbólgan sem svo margir áttu von á hefur ekki enn látið á sér kræla?

Það er hins vegar rétt að aukin samkeppni er besta leiðin til að skila betra vöruverði til neytenda. Það má færa ýmis rök fyrir því að hún mætti vera meiri á Íslandi.

En hafa íslenskir stjórnmálamenn staðið vaktina í því að auðvelda og auka samkeppni í landinu? Gera inngöngu á markaðinn auðveldari, dregið úr bákninu og gjöldum til hins opinbera?

Það er heldur ekki ástæða til þess að líta fram hjá því að þegar uppgangur er í þjóðfélaginu og kaupmáttur og eftirspurn eykst, minnkar hvati til verðlækkana. Þannig virkar lögmál framboðs og eftirspurnar.

En það má heldur ekki líta fram hjá því að annar kostnaður getur sífellt verið að aukast, þó að gengi styrkist og gjöld lækki.

Það verður hins vegar ekki hjá því litið að líklega hefur niðurfelling tolla og gjalda ekki getað komið á betri tíma, en þegar annar kostnaður svo sem laun hafa hækkað verulega.

Þannig hefur almenningur fengið umtalsverða kjarabót, í formi aukins kaupmáttar, og ekki síður í því að verbólgan hefur verið með lægsta móti sem skilar sér einnig til almennings í auknum stöðugleika lánaafborgana.

Slíkar fullyrðingar eins og Karl Garðarson slengir hér fram, lykta af lýðskrumi í aðdraganda kosninga, því ég hef enga trú á því að Karl geri sér ekki grein fyrir því að verðmyndun er mun flóknari en hann gefur í skyn með því að auglýsa eftir verðlækkunum.

 

 


mbl.is „Hvar eru þessar lækkanir?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Malta að selja réttinn til að búa og starfa á Íslandi?

Það er mikið rætt um innflytjendamál víða um lönd þessi misserin. Sitt sýnist hverjum eins og í mörgum öðrum málum og jafnvel kemur til handalögmála.  Ekki bara á Austurvelli og oft sínu alvarlegri en þar.

Flestum ætti að vera kunnugt að ein af meginstoðum Evrópusambandsins (og þar með Evrópska efnahagssvæðisins EEA/EES) er frjáls för ríkisborgara landa "Sambandsins" þeirra á milli.

En í ýmsum löndum hefur verið uppi kröfur um að það þurfi að takmarka þennan rétt (sem hefur verið gert tímabundið þegar ný ríki hafa gengið í "Sambandið") og er þá skemmst að minnast rökræðna tengdum "Brexit", en margir vilja meina að hin frjálsa för hafi ráðið miklu um hvernig stór hópur kjósenda varði atkvæði sínu, í báðum fylkingum.

En margir hafa bent á að hin frjálsa för veiti ekki aðeins "Sambandinu" völd í innflytjendastefnu hvers ríkis (nú síðast t.d. þegar "Sambandið" vildi fara að "kvótasetja" flóttamenn), heldur einnig í raun hverju einstöku landi innan "Sambandsins".

Þannig geti eitt ríki, í raun haft mikil áhrif á hve margir og hvaða einstaklingar geti ákveðið að búa, eða starfa í öðrum ríkjum, því engin heildstæð stefna eða lög virðast gilda innan "Sambandsins" í þessum efnum.

Nú síðast hefur nokkuð verið fjallað um að Malta sé að selja vellauðugum einstaklingum ríkisborgararétt, og þar með réttinn til að búa og starfa í öllum Evrópusambandsríkjunum (og auðvitað Noregi, Sviss, Liechtenstein og Íslandi). (sjá t.d. umfjöllun hér ).

Það að eitt ríki auðgist á því að selja "aðgang að svæðinu", vekur upp margar spurningar.  Reyndar hefur mér skilist að Austurríki sé með ekki ósvipað prógram í gangi.

Í raun gerist sami hlutur þegar einstök ríki "opna" landamæri sín og hleypa miklum fjölda inn í land sitt tiltölulega eftirlitslaust.

Ekki eingöngu geta þeir nú þegar ferðast að miklu leyti eftirlitslaust innan "Sambandsins", heldur má reikna með því að eftir 3 til 8 ár öðlist þeir ríkisborgararétt og geti flutt til hvaða "Sambandslands" sem er (og auðvitað Sviss, Noregs, Lichtenstein og Íslands).

Þannig getur hvert aðildarríkjanna um sig haft umtalsverð áhrif á straum innflytjenda til annara ríkja, sé litið til nokkurra ára, enda ljóst að sum ríki "Sambandsins" hafa mun meira aðdráttarafl en önnur.

Ég hygg að þessar staðreyndir hafi haft meiri áhrif en margur hyggur á það hvernig bretar greiddu atkvæði um brottför landsins úr Evrópusambandinu.

Eitt af slagorðum útgöngumanna var enda "Take Control", eða "Tökum stjórnina", enda margir sem hafa vilja færa "völdin heim" og vilja ekki framselja stjórnina til "Brussel" eða annara ríkja "Sambandsins", jafnvel eins og í þessu tilfelli án nokkurra skýrra laga eða reglugerða.

En það er full ástæða fyrir íslendinga, sem aðrar þjóðir á EEA/EES svæðinu að velta þessu fyrir sér og ræða málin.

Sérstaklega þegar einstaka þjóðir hafa byrjað að selja, eða veita frjálslega búseturéttinn á svæðinu öllu.

 

 

 


Endurheimt votlendis lykilverkefni

Það ku vera rétt hjá Reykjavíkurborg að votlendi, varðveisla þess og endurheimt mun vera ákaflega mikilvægt til bindingar kolefna og varðveislu lífríkis.

Það kann því að virka nokkuð skringilegt að ef ég hef skilið stefnu borgarstjórnar rétt er eitt af hennar helstu stefnumálum að þrengja að og byggja í helstu votlendissvæði borgarinnar.

Væri nú ekki ráð að halda stefnunni með niðurlagningu flugvallarins áfram, en í stað þess að leggja stóran hluta svæðisins undir byggingar, væri stefnt að endurheimt og stækkun votlendis?

Þannig fengi borgin "öflugt lunga" nálægt hjarta sínu.

Skyldi slíkt ekki neitt hafa borist í tal í París? Í það minnsta yfir kaffibolla á Champs Élysées?

 


mbl.is „Hér iðar allt af lífi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að borga skatta eða ekki borga skatta - á Íslandi

Ég verð að segja að mér þykir þessi umræða skrýtin. Eykst eða minnkar tjáningarfrelsi á Íslandi í réttu hlutfalli við skattgreiðslur?

Sjálfur hef ég ekki greitt skatta á Íslandi um nokkurra ára skeið, en hef samt leyft mér að hafa skoðanir á ýmsum málum sem Ísland varða.

Það sama gildir reyndar um ýmis önnur lönd í heiminum, sem ég hef enn minni tengsl við en Ísland.

Það er ótrúlegt að alþingismaður á Íslandi standi í þeirri meiningu að tjáningarfrelsi tengist á einhvern hátt skattgreiðslum eða að einungis þeir sem búi á Íslandi hafi rétt til þess að hafa skoðanir á því sem gerist á Íslandi.

Það mætti ef til vill orða það svo að ég hafi efasemdir um að einstaklingur sem hefur þannig sýn á lýðræði og tjáningarfrelsi, sé góður kostur til að vera þingmaður - alveg burtséð frá því hvað hann greiðir í skatta.

Sjálfur er ég sjaldnast sömu skoðunar og Björk, en það breytir því ekki að hennar skoðanir eru jafn réttháar og allra annara, svo lengi sem þær eru settar fram af kurteisi og yfirvegun.

Það gefst best að svara skoðunum annara með rökum, burtséð frá því hvað þeir greiða, eða greiða ekki í skatta.

P.S. Svo að það komi einnig fram, finnst mér ekki aðalatriði hver þýðingin á orðinu "redneck" er. Björk setti niður við að beita slíku orðbragði í sinni baráttu, en breytir engu um rétt hennar til tjáningar. En uppnefni eru sjaldnast gott innlegg í slíka umræðu.


mbl.is „Já ég borga skatta á Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótagreifarnir í 101

Það er fyrir all nokkru búið að setja kvóta á hlutfall veitingahúsa í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir all nokkru varð þessi kvóti fullnýttur, ef ég hef skilið rétt.

Merkilegt nokk, þá var ákveðið þegar kvótinn var settur á að þeir sem höfðu leyfi fyrir heldu þeim, en ekki var farið í að auglýsa þau laus til umsóknar eða að bjóða þau upp.

Eins oft vill verða þegar kvótum er komið á, verður það til þess að "kvótinn" verður verðmæti.

Þannig hefur heyrst að verðmæti veitingaleyfa og -staða, á "kvótasvæðinu" hafi aukist og reynt sé að kaupa veitingaleyfi/veitingarekstur "innan kvóta".

Heyrst hefur af "samþjöppun" á kvótanum og vissulega gerir þetta alla nýliðun erfiðari.

Í raun þarf ekki að efa að almennir reykvíkingar bera skarðan hlut frá borði, þegar arðinum af þeirri auðlind sem miðbærinn í Reykjavík er, er skipt.

Svo ekki sé minnst á eigendur fasteigna sem ekki geta fengið kvóta og eru þannig sviptir frjálsum afnotarétti á eignum sínum. Til framtíðar þarf ekki að draga í efa að kvótaleysið getur orðið til verðlækkunar á fasteignum þeirra

Það má ótrúlegt vera ef borgaryfirvöld, Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri græn og Píratar ætla að láta málið standa eins og það er nú komið.

Það hlýtur að vera á stefnuskránni að innkalla öll veitingaleyfi og endurúthluta þeim með reglulegu millibili, eða jafnvel að bjóða þau út til 1. eða 2. ára í senn.

Þannig myndi arðurinn af miðbæjarauðlindinni skila sér til allra reykvíkinga.

 


Afhjúpar ruglið í innheimtu sóknargjalda

Á örfáum mánuðum hafa yfir 3000 íslendingar skráð sig í trúfélag sem fæstir ef nokkur virkilega þekkir skil á.

Þeim er nokk sama hver átrúnaðurinn er, loforðið um að sóknargjöld verði endurgreidd er þeim nóg, til að skrá sig í óþekktan trúarsöfnuð.

Persónulega skil ég þessa einstaklinga mæta vel, því vissulega er álagning sóknargjalds fyllilega ósanngjörn og óeðlileg.

Það er reyndar rétt að hafa það í huga að staða einstaklinga er misjöfn. Sumir einstaklingar munu fá meira greitt til baka en þeir reiddu af hendi, en aðrir munu tapa, en þó minna en áður.

Því engin "sóknargjöld" eru innheimt af íslendingum. Þau eru "felld" inn í almenna tekjuskattsálagningu. Þannig eiga tekjulágir möguleika á því að fá endurgreitt meira en þeir reiddu af hendi, en tekjuhærri eiga eingöngu möguleika á því að minnka "tapið".

En allir greiða "sóknargjöld", burtséð frá því hvort þeir tilheyra einhverri sókn, eða trúarsöfnuði. Gjaldið er prósenta af tekjum, rétt eins og aðrir skattar.

Það er ruglið í innheimtu "sóknargjalda".

Það er þarft verk sem "Zusistar" vinna með því að afhjúpa vitleysuna, mismununina og ranglætið sem með þessu hefur viðgengist.

Í sjálfu sér er einfalt mál og ekki með öllu óeðlilegt að hið opinbera bjóði upp á innheimtu sóknargjalda, en það ætti þá að vera með því formi að framteljandi haki í tilheyrandi reit, þar sem hann óskra eftir, eða samþykkir að kr. 10.776,- séu dregnar af honum aukalega í sóknargjald.

En ef til vill væri rökréttara að hið opinbera hætti með öllu afskiptum af innheimtu sóknargjalda, sem og trúfélagaskráningu.

Það yrði einfaldlega litið á það sem einkamál hvers og eins.

Það er eiginlega með eindæmum að flokkur sem alla jafna kennir sig við einstaklingsrelsi, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, skuli standa vörð um jafn úrelt kerfi.

 

 

 


mbl.is Zuism fimmta stærsta trúfélagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti Íslands er ekki ráðinn

Ég mun líklega seint verða talinn stuðningsmaður Ólafs Ragnars Grímssonar. En ég hef þó kosið hann einu sinni.

Það var í síðustu forsetakosningum.

Þá eins og í mörgum öðrum kosningum þá fannst mér í sjálfu sér enginn verulega álitlegur kostur og þá vel ég þann skársta. Þannig gerist það oftast í kosningum og ég hef trú á því að það gildi um fleiri en mig.

En forseti Íslands er ekki ráðinn eða skipaður. Hann er kosinn beint af íslensku þjóðinni.

Það er í raun ótrúlegt að margir virðast ekki skilja lýðræðið. Það er ekkert ólýðræðislegt við það að maður á áttræðisaldri verði kjörinn forseti.

Það sem þarf til að svo verði, er að hann njóti stuðnings stærsta hluta kjósenda, njóti meira fylgis en aðrir frambjóðendur. Flóknara er það nú ekki.

Það missir engin kjörgengi vegna aldurs, ekki til forseta, Alþingis né sveitarstjórna.

Það er heldur ekkert sem segir að óeðlilegt sé að eintaklingar sitji lengi, ef þeir njóta stuðnings kjósenda.

Lykilatriði hér er stuðningur kjósenda, það er lýðræði og það er ekkert "bara".

P.S. Ég hvet lesendur til þess að reyna að ímynda sér "fjaðrafokið" í fjölmiðlum, hjá álitsgjöfum og á samfélagsmiðlum, ef einhver hefði látið hafa eftir sér á síðasta kjörtímbili Alþingis,  að það væri skelfilegt að hafa sjötuga konu sem forsætisráðherra, sem í þokkabót væri búinn að sitja á þingi í næstum 35 ár.

 

 


Blakkur föstudagur

Það hefur víða mátt lesa um svartan föstudag, eða eins og algengara er að orða það "black Friday", á vefmiðlum undanfarna daga, bæði íslenskum og erlendum.

Ég veit ekki hversu góð tilboðin voru á Íslandi, en víða hefur mátt sjá hneykslun á orðnotkuninni og svo aftur á hinni "amerísku eftiröpun". 

Hneysklun á "eftiröpuninni" má reyndar sjá um flestar erlendar uppákomur sem stinga upp kollinum á Íslandi.

En þó að ég skilji vel að íslenskir kaupmenn vilji fjölga "kaup- og tyllidögum" þá er auðvitað æskilegt að eitthvert íslenskt heiti finnist yfir daginn.

Ég held að það færi vel á því að kalla hann Blakkan föstudag. Íslenskt orð, sem vísar til þess sem er farið að dekkjast, kallast á við enska orðið "black", og svo er blakkur auðvitað fínt nafn á hesti, sem sem aftur á sér samsvörun í þeim "hrossakaupum" sem boðið er upp á.  :-)

En það er enginn ástæða til þess að vera að æsa sig yfir því þó að alþjóðlegir dagar skjóti rótum á Íslandi. Það er einfaldlega hluti af hnattvæðingunni og "alheimsþorpinu".

Evrópskar hefðir eins og Valentínusardagur og Hrekkjavaka (sem er reyndar frekar slæm þýðing á Halloween), eiga allt eins heima á Íslandi og annarsstaðar. Hrekkjavaka myndi líklega flokkast sem "aðfangadagur Allra heilagra messu", en þegar dagurinn ber upp á föstudag eða laugardag, eins og var í ár, er þetta fyrst og fremst Halló-vín, enda ekki mjög margir nema skemmtirstaðirnir sem virkilega láta til sín taka. Ég hef alla vegna ekki heyrt um mörg íslensk börn sem fara í "grikk eða gott" leiðangur.

Og svona má lengi telja, vissulega eru bandarískar hefðir eins og "Þanksgiving" farnar að láta á sér kræla, en í raun er ekki frekar ástæða til þess að láta það fara í taugarnar á sér en að íslensk verkalýðshreyfing hafi ákveðið að taka upp Dag verkalýðsins, eftir "Öðru alþjóðasambandi kommúnista".

Eða hefur einhver heyrt um baráttuna fyrir al íslenskum degi verkalýðsins?

Al íslensku dagarnir eru Sumardagurinn fyrsti, fyrsti vetrardagur, Bónda- og Konudagur.

Hugsanlega einvherjir sem ég gleymi.

En það er engin ástæða til að láta "ammríska daga" fara meira í taugarnar á sér en daga eins og Bolludag eða Öskudag.

Meginreglan sem ber að hafa í heiðri, er að þeir taka þátt sem vilja.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband