Færsluflokkur: Dægurmál

Slaufanir og nornaveiðar

Það hefur býsna mikið verið fjallað um svokallaðan "cancelkúltúr", eða "slaufunarmenningu eins og er byrjað að kalla fyrirbærið, upp á síðkastið.

Það kemur ef til vill ekki til af góðu, enda hefur fyrirbærinu vaxið hratt fiskur um hrygg á undanförnum misserum.

Margir hafa líkt þessu við fasisma, enda hefur "cancelkúltúr" líklega hvergi átt betra skjól en hjá alræðisstjórnum s.s. kommúnisma og fasmisma.

Kínverski kommúnistaflokkurinn er ekki síður duglegur við að "cancela" einstaklingum en "Twitterherinn".

Trúarbrögð hafa einnig ljóta sögu hvað slíkt varðar og "canceluðu" mörgum sér ekki þóknanlegum  bókstaflega endanlega, og slíkt virðist enn mæta velþóknun í sumum trúarbrögðum.

Ekki er úr vegi að minnast á nornaveiðar og -brennur í þessu samhengi, enda margt keimlíkt með athöfnunum, þó að nú á tímum séu bálkestirnir og heykvíslarnar næstum eingöngu "sæber".

Þessi árátta er lang mest áberandi nú á vinstri væng stjórnmálanna nú á dögum, en hægri menn hafa vissulega spreitt sig á þessum vettvangi á ýmsum skeiðum. 

Nægir þar að minna á "óameríkanska tímabilið" um miðja síðustu öld.  Þar naut "cancelkúlturinn" sín vel, þó að undir öðru nafni væri. Fáir voru þar líklega "dæmdir" saklausir, ef það að vera kommúnisti er talið saknæmt athæfi, en hversu eðlilegt er að telja stjórnmálaskoðanir saknæmt athæfi?

Reyndar má segja að ekkert sé nýtt í þessu efnum og allt snúist í hringi.  Eins og áður sagði hafa t.d. kristin trúarbrögð "cancelað" (t.d bannfært) marga einstaklinga í gegnum tíðina, en á upphafsárum þeirra trúarbragða létu (í það minnsta ef trúa má frásögnum) Rómverjar ljón sjá um að "cancelera" ýmsum áberandi kristnum einstaklingum.

Það sem ef til vill sker "cancel culture" nútímans hvað mest frá fornum tímum, er að nú á dögum nýtur hann alls ekki stuðnings, eða atbeina hins opinbera nema á stöku stað.

Líkamlegt ofbeldi, þó að það sé ekki óþekkt, er einnig sem betur fer fjarverandi í flestum tilfellum.

"Aftökustaðirnir" eru fjöl- og samfélagsmiðlar og refsingin smánun og atvinnumissir, frekar en "beinar aftökur".

"Athugasemdir" og "statusar" hafa leyst af "heykvíslar" og "kyndla", og vissulega má telja það að til framfara tæknialdarinnar:-)

En að sama skapi krefjast þær framfarir minna af þátttakendum í "blysförunum" sem þurfa ekki að einu sinni að hafa fyrir því að yfirgefa þægindi heimila sinna.

Það má "hafa allt á hornum" sér á sama tíma og steikin er í ofninum, nú eða vinnunni sinnt á "faraldurstímum".

En af hverju eiga svo margir erfitt með að umbera andstæðar skoðanir, önnur trúarbrögð, eða hvað það svo sem er sem fer í taugarnar á þeim?

Auðvitað er alltaf eðlilegt og sjálfsagt að ræða málin, rökræða, berjast um hugmyndir eða "fræði" þeim tengd.

En þýðir það að þeir sem eru andstæðrar skoðunar séu óalandi, óferjandi, eigi skilið að missa vinnunna, eða að engir eigi að kaupa hugverk þeirra?

Auðvitað verður hver að svara fyrir sig.

En frjálslyndi, umburðarlyndi og skilningur á mismunandi sjónarhornum virðast mér víða vera á undanhaldi.

Þó er eðlilegt að halda fram eigin skoðunum og mótmæla þeim sem viðkomandi er ekki sammála.

Jafnvel af festu, en ekki ofstæki.

 


Að þola andstæðar skoðanir

Vilja til að hindra eða "útrýma" andstæðum skoðunum verður vart í vaxandi mæli nú á tímum.

Umburðarlyndi virðist víða fara þverrandi.

Starfsfólk New York Times þoldi t.d. ekki að grein hefði birst í blaðinu sem það var ósammála og þótti ekki samrýmast stefnu blaðsins að það "neyddi" ritstjóra aðsendra greina til að segja upp störfum.

Starfsfólk útgefanda J. K.  Rowling mótmælti harðlega að barnabók hennar yrði gefin út af fyrirtækinu, að því virðist vegna skoðanna sem hún hefði viðrað á samfélagsmiðlum. 

Bókin, The Ickabog, eða efni hennar virðist hafa verið aukatriði.

Kanadíski sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson, virðist einnig hafa "strokið rangælis", starfsfólki útgáfyrirtækis síns, að það krafðist að fyrirtækið hætti við að gefa út nýjustu bók hans.

Bókin sem mun heita:  "Beyond Order: 12 More Rules for life", er reyndar ekki komin út, er væntanlega 2. mars.

Sumir segja reyndar að bók Peterson gæti ekki fengið betri auglýsingu, en alla þá sem virðast vera á móti útgáfunni, en það er líklega önnur saga.

Fjölmargir sem starfa "útgáfubransanum" hafa einnig skrifað undir ákall um að bókaútgefendur gefi ekki út endurminningar þeirra sem starfað hafa í ríkisstjórn Donalds Trump.

Að sjálfsögðu er öllum frjálst að hafa sínar skoðanir í málum sem þessum, en mér finnst merkilegt hvað margir virðast þeirra skoðuna að andstæðar skoðanir eigi helst ekki að heyrast.

Nú geri ég mér ekki grein fyrir því hvað mikill markaður er fyrir endurminningabækur þeirra sem störfuðu með Trump á síðasta kjörtímabili. Ég tel heldur ekki líklegt að ég eigi eftir að kaupa þær. 

Heilt yfir er ég ekki mikill aðdáandi sjálfskrifaðra bóka stjórnmálamanna, en af þeim hefur vissulega verið meira en nóg framboð undanfarin ár.

En ég sé ekkert að því að fyrrverandi ráðherra gefi út bækur, ef áhugi er fyrir þeim þá seljast þær.

Rétt eins og ég tel það fjölmiðlum til tekna ef þeir birta breitt svið skoðana.  Slíkum miðlum fer því miður fækkandi.

Frekar er reyndum blaðamönnum sagt upp vegna "skringilegra" atvika sem áttu sér stað fyrir einhverjum árum. Einstaklingar missa vinnu vegna "tísta" o.s.frv.

Merkilegt nokk, virðast oft í fararbroddi einstaklingar og fjölmiðlar sem kenna sig við og stæra sig af "frjálslyndi".

Umburðarlyndið virðist ekki partur af frjálslyndinu og raunar víðs fjarri.

Síðan undrast margir "pólaríseringu" og að heift hlaupi í umræðu.

En einhvern tíma var sagt að mest væri ástæða til að hafa áhyggjur þegar svo gott sem allir væru sammála.

Ef til vill er sitt hvað til í því.

 

 

 

 

 


Með "skömmtunarmiða" frá Framsókn í bjórkaupum?

Þó að ég fagni því að meira að segja í Framsóknarflokknum skuli vera komin hreyfing í frelsisátt á sölu á áfengi, þá get ég ekki finnst mér skrýtið að vilja setja svona gríðarleg takmörk á þann fjölda sem megi kaupa af bjór hjá framleiðendum.

Það er svona eins og að vera með skömmtunarmiða um hvað megi kaupa mikið áfengi.

Er eitthvað hættulegra að kaupa bjór hjá framleiðenda en hjá ÁTVR, eða er fyrst og fremst verið að hugsa um að tryggja hagsmuni ríkisfyrirtækisins ÁTVR?

Þó er t.d. alveg hugsanlegt að ölgerð sé í bæ þar sem engin verslun ÁTVR, er.

Er rétt að takmarka kaup til dæmis Akureyrings sem staddur er a Höfn í Hornafirði, við 6. bjóra?  Hvers vegna ætti hann ekki að geta tekið með sér nokkra kassa ef honum líkar ölið?

Hið opinbera tapar engu, enda verða eftir sem áður allir skattar og álögur hins opinbera innheimtar.

Þó að vissulega sé þörf á stærri skrefum í frjálsræðisátt, er ástæða til að fagna þessu littla skrefi sem dómsmálaráðherra leggur fram, og engin ástæða til þess að setja þau magn takmörk sem Framsóknarfólk vill.

Hitt er svo að það er ástæða til þess að taka upp tillögu Framsóknarfólks um að smásöluheimild nái einnig til þeirra sem framleiða léttvín sem og sterk.

Þannig mætti gera betra frumvarp með því að taka það besta úr báðum.

En ég held að það sé varasamt að taka upp tillögu Framsóknarfólksins um að mismunandi áfengisskattur sé eftir þvi hvað mikið magn framleiðandi framleiðir.

Þó að ég skilji hugsunina að baki, þá er varasamt að skattur sem áfengisskattur sé mismunandi eftir framleiðslu, það eiginlega stríðir gegn tilgangi hans.

Það er að mínu mati skrýtin skattastefna að verðlauna óhagkvæmari framleiðslu.

Það má hins vegar velta því fyrir sér hvenær í söluferlinu áfengisskattur eigi að greiðast.

Það er eftirsjá af tillögu um innlenda netverslun með áfengi úr frumvarpi dónsmálaráðherra.

En ef engin stemmning er fyrir slíku á Alþngi, verður svo að vera.

Það væri þó gaman að sjá slíka breytingartillögu lagða fram, og í framhaldi af því atkvæðagreiðslu til að sjá hug þingheims.

En það er vert að hafa í huga að það verða 32. ár, þann 1. mars næstkomandi frá því að löglegt var að selja bjór á Íslandi.

Það er ekki lengra síðan að afturhaldið og forsjárhyggjan varð að láta undan hvað það varðar.

En það er gott að áfram er málum otað í frjálsræðisátt, jafnvel þó að hægt fari.


mbl.is Ölsala handverksbruggara leyfð en ekki vefverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundabrú eða göng

Ekki ætla ég að þykjast vera sérfræðingur til að dæma um hvort brú eða göng séu rétta lausnin til að beina umferð yfir sundin og vestur um land og norður.

Í raun lýst mér vel á umbætur á umferðinni, og þarft að hefjast handa sem fyrst. 

En það er talað um 14 milljarða mun á brú og göngum og vissulega munar um minna.

En hver er munurinn til lengri tíma, t.d. hvað varðar viðhald, snjómokstur og opnunartíma?

Ég hef heyrt talað um að Hvalfjarðargöng þurfi mun minna viðhald en sambærilega langir vegarspottar. 

Hverju munar það á ári hverju?

Hver er áætlaður kostnaður við snjómokstur á hverju ári?

Hvað kostar hver dagur í töpuðum tekjum, ef t.d. þarf að loka hábrú vegna vinds?

Ekki það að ég sé endilega að mæla fyrir því að göng verði gerð, en það væri vissulega fróðlegt að sjá samanburðinn og fá vissu fyrir því að allra handa kostnaður hafi verið tekinn inn í útreikninga.

 

 

 

 


mbl.is Sundabrú hagkvæmari en jarðgöng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlega jákvæðar fréttir

Ég fagna því að stefnt sé að skráningu Síldarvinnslunnar á markað, og ánægjan er enn meiri yfir því að núverandi hluthafar hyggist selja sína hluti, frekar en að "þynna" hlutaféið út.

Enn hefur ekki verið gefið út hvernig staðið verður sölu hlutafjár, þegar skráningin tekur gildi, en ég vona að þar verði að eihverju marki tekið tillit til smærri fjárfesta, líkt og var t.d. gert í hlutafjárútboði Icelandair.

Ég er þeirra skoðunar að fjölgun eigenda í Íslenskum sjávarútvegi geti orðið til mun víðtækari sátt um Íslenskan sjávarútveg.

Lagasetning um lækkun hámarks aflahlutdeildar óskráðra (á markaði) fyrirtækja, með hæfilegum aðlögunartíma, er eitthvað sem ég held að megi einnig huga að. 

Jafnframt má hugsa sér lagasetningu um hámarkseignarhlutdeild í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þannig er hægt að hugsa sér að megi byggja upp framtíðar sátt um sjávarútveg á Íslandi.

En slíkt gerist ekki í einni svipan, eða á fáum mánuðum, en umræða væri af hinu góða.

 

 


mbl.is Hluthafar selja við skráningu Síldarvinnslunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjóri ræktar "garð sinn" og bílastæði

Það er rétt að taka það fram í upphafi að þessi færsla er tengd við ríflega 3ja ára gamla frétt af mbl.is.  Ég minnist þess ekki að hafa tengt færslu við jafn gamla frétt.

En í fréttinni kemur fram að Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hafi samþykkt á funti sínum stækkun á lóð í eigu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.

Það kemur jafnframt fram að lóð nágranna minnki samsvarandi.

Ekkert við það að athuga og um eðlileg viðskipti virðist að ræða.  Dagur segir í svari til mbl.is, að bætt hafi verið við lóð hans "órækt og rósarunnum".

Þar kemur einnig fram að lóðin sem minnkar, er skilgreind sem íbúðahúsalóð.  Þar sé þó ekki bygging, heldur sé hún nýtt að mestu leyti sem bílastæði.

Ég held því að öllum sem hefðu lagt á sig lágmarks heimildavinnu hafi mátt vera ljóst að ekkert óeðlilegt sé við að húseign Dags (og konu hans) hafi 2. til 3. einkabílastæði (ég veit ekki hver heildarfjöldinn er, þó að keypt hafi verið 2. af nágranna).

Sjálfur hefði ég líklega ekki hikað við að taka sömu ákvörðun, hefði verðið verið ásáttanlegt, enda líklegt að verðgildi húseignarinnar hækki með aðgangi að bílastæðum.

En það sem vekur ef til vill upp pólítískar spurningar, er hvers vegna oddviti þess meirihluta í borgarstjórn sem hefur tekið "bíllausan lífstíl" upp á sína arma, og talið byggingar fjölda íbúða án bílastæða til framfara, telur sig þurfa þessi bílastæði?

Ef til vill er þetta gott dæmi um stjórnmálamenn sem segja, ekki gera eins og ég geri, gerið eins og ég segi?

Slíkt væri vissulega ekkert einsdæmi, en það væri fróðlegt ef fjölmiðlar myndu beina slíkum spurningum að borgarstjóra.

 


mbl.is Borgarstjóri stækkar garðinn sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágúst Ólafur og fyrirgefningin

Það er rétt að byrja á því að segja að ég hef aldrei kosið Samfylkinguna og líklega mun verða í það minnsta frekar svalt í víti áður en til þess kemur (gæti verið klókt að gera það á mínum síðustu árum, til að gera vistina þar bærilegri).

En ég hef samt sem áður fylgst með þeim skoðanaskiptum sem hafa orðið í kjölfar um hvaða sæti Ágúst Ólafur Ágústsson, ætti að skipa á lista flokksins, af áhuga.

Frá pólítísku sjónarmiði hafa ýmsir áhugaverðir vinklar komið fram eða ekki.

Mjög áberandi sjónarmið er að Ágúst sé látinn gjalda þess að hafa játað sig sekan um kynferðislega áreitni.

Það er skiljanlegt, enda hlýtur slíkt að teljast verulega íþyngjandi fyrir stjórnmálamann. 

Jafnframt má heyra að Ágúst hafi leitað sér aðstoðar við áfengisvanda, og er talað um að verið sé að fremja "ódæðisverk" gegn óvirkum alkólístum.

Ég get ekki að því gert að mér þykir þetta merkilegt sjónarmið.

Ekki síst vegna þess að mér finnst það skrýtið sjónarhorn að skilgreina frambjóðanda eftir því hvort að hann sé óvirkur alkóhólisti eður ei, og einnig þess sem mér finnst örla á, að áfengismeðferð sé nokkurs konar "aflátsbréf" fyrir það sem á undan hefur gengið.

Ekki ætla ég að fullyrða um hvaða sjónarmiðum uppstillingarnefnd Samfylkingar hefur starfað eftir, en er ekki hugsanlegt að hún (og þeir sem greiddu atkvæði) hafi litið til starfa þingmannsins og jafnframt talið sig eiga kost á betri og öflugri frambjóðendum?

Ekki mitt að dæma, en ég get ekki séð hvernig uppstillingarnefnd hefði átt með góðu móti að ganga gegn þeim vilja sem kom fram í skoðanakönnunni, sérstaklega eftir að þeim hafði verið lekið út.

En ekki síður forvitnileg spurning í pólítískum vangaveltum er, hver lak niðurstöðunum?

En eins og oft þegar stjórnmálamenn hljóta "ótímabæran pólítískan dauðdaga", eru margir, jafnvel pólítískir andstæðingar sem bera lof á þann sem er á útleið.

Þar er að verki bæði sá Íslenski siður, að "allir eru góðir þá gengnir eru" og svo hitt, að það er gott að læða því að kjósendum að andstæðingurinn sé svo "vitlaus" að vera að stinga sína bestu menn í bakið.

Að mestu leyti er "fall" Ágústs Ólafs því "hversdagsleg pólítík", því að eins og á Glæsivöllum, þá "í góðsemi (pólítík) þar vega þeir hver annan".

Hvort að þetta eigi eftir að koma Samfylkingunni til góða í næstu kosningum er svo óráðið.

Ég held að uppstillingaraðferðin hafi ekki gert það og hvort listarnir verða sterkari verður ekki skorið úr um fyrr en í haust.

 


Mýtan um fylgistap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins er enn á ný komin á kreik

Nú eins og oft áður er mikið fjallað um meint fylgistap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnum.

Það er enda, nú sem endranær, mikilvægt í pólítískri skák að reka fleyga á milli samstarfsflokka. 

Jafnvel hefur mátt heyra "virta fræðimenn" taka undir þessa mýtu.

En er hið meinta fylgistap raunverulega til staðar?

Ef sagan er skoðuð er það alls ekki einhlýtt.

1959 byrjuðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í samstarfi, með 39.7 og 15.2% atkvæða á bak við sig.  Í kosningunum 1963 vann Sjálfstæðisflokkur á um 1.7% stig en Alþýðuflokkur tapaði 1% stigi.

Aftur var kosið 1967, þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.9% stigum, en Alþýðuflokkur vann á, 1.5% stig.  Þegar hér er komið í sögu Viðreisnarstjórnarinnar hefur Alþýðuflokkur því unnið á um 0.5% stig frá upphafi hennar, en Sjálfstæðisflokkur tapað 2.2% stigum. 

Enn er kosið 1971 og þá tapar Sjálfstæðisflokkur 1.3% stigi til viðbótar en Alþýðuflokkurinn tapar 5.2% stigum.

Á meðan þeir tóku þátt í Viðreisnarstjórninni, þá tapar Alþýðuflokkur því 4.7% stigum en Sjálfstæðisflokurrinn 3.5% stigum.  Það er allur munurinn.  Sé horft til þess að nýr flokkur var kominn fram á sjónarsviðið á vinstri væng stjórnmálanna, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna sem fékk 8.9% 1971, þá getur það varla talist stórundarlegt þó að Alþýðuflokkur hafi tapað örlítið meira.  Enginn talar þó um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að vera í samstarfi við Alþýðuflokkinn.

1974 vinnur svo Sjálfstæðisflokkurinn á um 6.5% stig, en Alþýðuflokkurinn heldur áfram að tapa, þá 1.4% stigi, án þess að hafa verið í stjórn, hvað þá með Sjálfstæðisflokki.

Þá tekur við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þegar kosið er svo 1978, tapar Framsóknarflokkur 8% stium en Sjálfstæðisflokkur tapar 10% stigum.  Sjálfstæðisflokkur tapaði sem sé 2% stigum meira heldur en Framsóknarflokkurinn.  Samt talar enginn um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að sitja í stjórn með Framsókn.  Alþýðuflokkurinn vinnur stórsigur, A-flokkarnir leiða Framsókn til öndvegis, vegna þess að þeir geta ekki komið sér saman um hvor þeirra eigi að fá forsætisráðuneytið.

Enn er kosið 1979.  Þá tapar Alþýðuflokkurinn 4.6% stigum, en Framsóknarflokkur vinnur á um 8% stig.  Engan man þó eftir að hafa talað um að það hafi verið Alþýðuflokknum sérstaklega slæmt að vera í stjórn með Framsókn.

Þá tekur við ríkistjórn Gunnars Thoroddsen.  Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og lítill hluti Sjálfstæðisflokks.

Síðan er kosið 1983.  Sjálfstæðisflokkur vinnur á, 3.3% stig, en Framsóknarflokkur tapar 5.9% stigum.  Þeir mynda saman stjórn.

1987, Sjálfstæðisflokkur tapar 11.5% stigum, en Framsóknarflokkur tapar aðeins 0.1% stigum.  Rétt er þó að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Borgaraflokkurinn fram og fékk 10.7%.  Þó að það sé tekið með í reikninginn, þá tapar Sjálfstæðisflokkurinn meira heldur en Framsóknarflokkurinn.

1991. Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir fyrri styrk og eykur fylgi sitt um 11.4% stig.  Framsóknarflokkur stendur í stað og Alþýðuflokkur eykur fylgi sitt um 0.3% stig.  Viðeyjarstjórnin er mynduð.

1995.  Sjálfstæðisflokkur tapar 1.5% stigi af fylgi sínu en Alþýðuflokkur tapar 4.1% stigi af sínu fylgi. Framsóknarflokkur eykur fylgi sitt um 4.4% stig og fær 23.3%  Það verður þó að hafa í huga þegar þessi úrslit eru skoðuð, að Alþýðuflokkurinn hafði klofnað, Jóhanna Sigurðardóttir hafði stofnað Þjóðvaka og fengið 7.2% atkvæða. Tap Alþýðuflokksins hlýtur því frekar að skrifast á Jóhönnu Sigurðardóttur heldur en samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.  Það er ekki alls ekki ólíklegt að ríkisstjórnin hefði haldið velli, og haldið áfram samstarfi ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki klofnað, en vissulega er engan veginn hægt að fullyrða um slíkt.

Þá hefst langt ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Kosið er 1999.  Þá vinnur Sjálfstæðisflokkurinn á um 3.6% stig fær 40.7% atkvæða en Framsókn tapar 4.9% stigum og fær 18.4%.  Nýtt flokkakerfi er komið til sögunnar, Samfylkingin fær 26.8%, VG 9.1% og Frjálslyndi flokkurinn 4.2%.

Komið er að kosningum 2003.  Þá fær Sjálfstæðisflokkur 33.7%, tapar 7% stigum og Framsóknarflokkur 17.8% og tapar 0.6% stigi. 

Hvor flokkurinn var að tapa meira?

Og Framsóknarflokkurinn tapaði í kosningum árið 2007. Ef ég man rétt tapaði Framsókn í kringum 6% stigum og Sjálfstæðisflokkurinn vann á í kringum 3% stig.  En þá, hafði Framsóknarflokkurinn átt í löngu basli og formannsskiptum sem ekki gengu eða virkuðu vel.

Þá tók við ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.  Ekki er hægt að segja Samfylkingin hafi riðið lakari hesti en Sjálfstæðisflokkurinn frá þeirri ríkisstjórn í kosningunum 2009. Þá tapaði Sjálfstæðisflokkurinn 12.9% stigum, en Samfylkingin bætti við sig 3.  En ég er ekki þeirrar skoðunar að það hafi verið samstarfsflokknum að kenna, hvernig fylgið reittist sf Sjálfstæðisflokknum.

Það er síðan óþarfi að rifja það upp sérstaklega hvernig fór fyrir þeirri ríkisstjórn sem var mynduð 2009, þegar kosið var 2013. Evrópumet í fylgistapi litu dagsins ljós og báðir stjórnarflokkarnir töpuðu gríðarlegu fylgi.  Engin talaði um það væri vegna samstarfslokksin, enda held að að báðir flokkarnir hafi átt fylgistapið skilið.

Samfylkingin tapaði ríflega helmingi fylgis síns, eða 16.9% stigum, en VG "aðeins", 10.8% stigum, rétt tæplega helming af fylgi sínu.

Sé aðeins litið til stjórnarsamstarfs, er það því Samfylkingu mun "hollara" að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokk en Vinstri græn, án þess að ég sé sérstaklega að mæla með slíku samstarfi.

Rétt er að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Björt framtíð fram, undir forystu fyrrum Samfylkingar og Framsóknarmannsins Guðmundar Steingrímssonar, og hlaut 8.2% atkvæða, sem líklega voru að einhverju marki frá Samfylkingu komin.

En bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur unnu á 2013, sérstaklega Framsóknarflokkurinn sem vann eftirminnilegan kosningasigur og bætti við sig 9.6% stigum.

Þeir mynduðu síðan ríkisstjórn.

Næst var síðan kosið 2016.

Sjálfstæðiflokkurinn vann lítillega á, bætti við sig 2.3% stigum, en Framsóknarflokkurinn, undir nýrri forystu, tapaði stórt, eða 12.9% stigum.  En ég held að fæstir sem fylgdust með stjórnmálum telji það að miklu leyti tengt við samstarf við Sjálfstæðisflokk.  Innanmein flokksins spiluðu þar líklega stærri rullu.

Samfylking hélt í þeim kosningum áfram að helminga fylgi sitt, og tapaði 7.2% stigum, og það þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu.

Viðreisn kom í fyrsta sinn til sögunnar og hlaut góðar undirtektir, hlaut 10.5% atkvæða.

Þá var mynduð skammlíf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjarrtar framtíðar.

Kosið var enn á ný 2017.

Þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.8% stigum og Viðreisn sömuleiðis 3.8%, stigum, í þeim kosningum undir nýrri forystu.

Björt framtíð tapaði 6% stigum, og náði ekki inn manni á þing og hvarf úr sögunni. Sjálfsagt má skrifa tapið að einhverju marki á ríkisstjórnarþátttöku.  Það var enda svo að á köflum var erfitt að sjá hvar BF endaði og Viðreisn byrjaði.  Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að flokkinn hafi jafnframt vantað "undirstöðu". 

En sjálfsagt kjósa einhverjir að skrifa þetta alfarið á samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.

Samfylkingin náði ágætri kosningu og tvöfaldaði fylgi sitt, jók það um 6.4% stig undir nýrri forystu.

Miðflokkurinn kom til sögunnar og hlaut góða kosningu, eða 10.9%.

Rikisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna var mynduð.

Við eigum svo eftir að ajá hvernig fer í næstu kosningum.

Meginlínan í Íslenskum stjórnmálum hvað tap varðar, er að ríkisstjórnarflokkar tapa fylgi, stjórnarandstöðu gengur betur.  Þó vissulega með athyglisverðum undantekningum, t.d. hjá Samfylkingu árið 2016.

Sé "góðæri" getur það einnig hjálpað stjórnarflokkum.

Samfylking hefur aðeins átt í stjórnarsamstarfi við tvo flokka, Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn.  Báðir flokkarnir fengu afleita kosningu eftir slíkt samstarf.  Sjálfsagt mundu einhverjir draga þá ályktun að samstarf við Samfylkingu væri "eitraður kaleikur", en það er ekki sanngjarnt, það verður eins og í öllum öðrum tilfellum að líta til kringumstæðna.

En það er heldur engin raunveruleg innistæða fyrir því að allir samstarflokkar Sjálfstæðisflokks tapi fylgi, sérstaklega þegar litið er til kringumstæðna, s.s. klofning samstarfslokka, nýrra flokka og annarar "vandræða" sem samstarfsflokkar hafa glímt við.

P.S. Þessi færsla er að stórum hluta byggð á færslum mínum um sama efni, árið 2007 og 2016.

 


mbl.is Grímuklætt ríkisráð fundaði á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóttvarnir, faðmlög, kirkjusókn, ábyrgð og afsagnarkröfur

Það gengur mikið á í "sóttvarnarmálunum þessi dægrin. Skammt stórra högga á milli. 

Fjármálaráðherra gripinn í veislu/gallery/verslun þar sem eitthvað virðist hafa skort upp á viðeigandi sóttvarnarráðstafanir.

Kaþólikkar á Íslandi verða uppvísir að því að telja guð voldugri en "sóttvarnartroikuna" og hlýða kalli hans til messu.

Ég get þó ekki annað en velt því fyrir mér, hvort að þar hafi verið fleiri en 5 einstaklingar á hverja 10 fermetra, eins og mér hefur skilist að sé leyft í verslunum.  En ég hef enga hugmynd um hvað Landakotskirkja er stór.

Það sama gildir reyndar um "galleryið" sem Bjarni var "böstaður" í.  Er "gallery" eitthvað meira en venjuleg verslun?

Hvað er "galleryið" stórt og þýðir 40 til 50 manns að það hafi verið fleiri en 5 á hverja 10 fermetra?

Skyldi einhverstaðar í miðbæ Reykjavíkur hafa verið fleiri en 5 einstaklingar á 10 fermetra svæði á Þorláksmessu?

En "hinir vammlausu" eru líklega fleiri en oftast áður.

Birti hér mynd sem ég rakst á seint í gærkveldi þegar sem ég var að lesa Íslenskar fréttir.

Á myndinni má sjá Katrínu Jakobsdóttur faðma grímulausa konu (sem að ég best veit er ekki í "jólakúlunni" hennar.  Sigurður Ingi stendur þar grímulaus hjá, líklega í meters fjarlægð.  Myndin er "tekin að láni" frá mbl.is, ljómyndari er Eggert Jóhannesson.  Hún er birt hér án leyfis og verður fjarlægð sé þess óskað. (sendið email til tommigunnars@hotmail.com).

Ef til vill er "sóttvarnartroikan" búin að "missa salinn". 

En ég held að það sé ljóst að "hinir vammlausu" hafa nóg að sýsla þessa dagana.

Kata fadmar mbl.is eggertjohannesson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P.S. Ekki kæmi mér á óvart ef að rakningarteyminu tekst að rekja smit til akkúrat samkomanna í kaþólsku kirkjunnar og "gallerysins".  Þó hafa líklega þeir sem þar hafa verið, komið víða við á undanförnum dögum.


mbl.is Málið skaði traust milli ríkisstjórnarflokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól

Þá eru jólin komin, einu sinni enn. Dimmur, en góður tími, þar sem (skert) samvera og vinátta eiga sviðið. 

Reyndar tekur matur og drykkur æ meira pláss, og segja má að margir "blóti" jólin. 

Það er reyndar (eins og ég hef oft skrifað hér áður) einn stærsti kosturinn við jól, það er að segja orðið sjálft.

Það er allra og getur staðið fyrir ótal mismunandi atriði.

Það tilheyrir heiðni, það er ein heilagasta hátíð kristinna og trúleysingjar eins og ég eigum auðvelt með að tileinka okkur jólin, enda nokkurn veginn á sólhvörfum, sem eru alltaf tímamót.

Ég óska öllum nær og fjær, gleðilegra jóla og vona að þeir njóti þeirra í friði og spekt.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband