Gríðarlega jákvæðar fréttir

Ég fagna því að stefnt sé að skráningu Síldarvinnslunnar á markað, og ánægjan er enn meiri yfir því að núverandi hluthafar hyggist selja sína hluti, frekar en að "þynna" hlutaféið út.

Enn hefur ekki verið gefið út hvernig staðið verður sölu hlutafjár, þegar skráningin tekur gildi, en ég vona að þar verði að eihverju marki tekið tillit til smærri fjárfesta, líkt og var t.d. gert í hlutafjárútboði Icelandair.

Ég er þeirra skoðunar að fjölgun eigenda í Íslenskum sjávarútvegi geti orðið til mun víðtækari sátt um Íslenskan sjávarútveg.

Lagasetning um lækkun hámarks aflahlutdeildar óskráðra (á markaði) fyrirtækja, með hæfilegum aðlögunartíma, er eitthvað sem ég held að megi einnig huga að. 

Jafnframt má hugsa sér lagasetningu um hámarkseignarhlutdeild í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þannig er hægt að hugsa sér að megi byggja upp framtíðar sátt um sjávarútveg á Íslandi.

En slíkt gerist ekki í einni svipan, eða á fáum mánuðum, en umræða væri af hinu góða.

 

 


mbl.is Hluthafar selja við skráningu Síldarvinnslunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég veit að það kemur málinu ekki við, og er útúrsnúningur og margt slíkt en ég get bara ekki á mér setið.

Hvernig lítur hlutafés út?

ls (IP-tala skráð) 5.2.2021 kl. 09:27

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta.  "Hlutafés", er auðvitað þegar aðeins sést hluti "andlits" þess sem á hlutabréf. Það er að segja að hann reynir að halda eignarhaldi leyndu.   Það var ekki það sem ég ætlaði að fjalla um í þessu tilfelli.  :-)

En ég þakka ábendinguna og er búinn að breyta þessu.

G. Tómas Gunnarsson, 5.2.2021 kl. 11:55

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Miðað við þessa fyrirsögn hjá þér hélt ég að þú værir að greina frá samkomulagi við Pfizer um að bólusetja skuli alla þjóðina...

En ég held nú annars að þurfi ansi mikið meira en einhverjar lagasetningar til að "skapa sátt" um sjávarútveg. Það þarf að verða hugarfarsbreyting meðal kvótagreifa sem fara með kvótann eins og sína eign.

Held að meiri möguleiki á "sátt" (hvað svosem það merkir) liggi í stjórnarskrárbreytingu og minnkandi völdum útvegsmanna innan Sjálfstæðisflokksins.

Svona lagabreytingar eru bara pótemkíntjöld.

Kristján G. Arngrímsson, 5.2.2021 kl. 15:05

4 identicon

Er eitthvað óeðlilegt að líta á það sem maður hefur keypt sem sína eign?

ls (IP-tala skráð) 5.2.2021 kl. 15:26

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Að sjálfsögðu ekki, en ég er nokkuð viss um að ef ég kaupi hjól sem seljandinn stal þá verður það ekki eign mín - þótt ég haldi svo vera.

Kristján G. Arngrímsson, 5.2.2021 kl. 16:04

6 identicon

Hver stal kvótanum af hverjum hvenær?

Hefurðu tilkynnt þjófnaðinn til Lögreglu?

ls (IP-tala skráð) 5.2.2021 kl. 16:49

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hvar sagði ég að kvótanum hefði verið stolið? Ég tók hjólaþjófnað sem dæmi um eitthvað sem ekki skilar eign. 

Kristján G. Arngrímsson, 5.2.2021 kl. 17:47

8 identicon

Þá verð ég að viðurkenna að ég skil ekki hvernig stolið hjól kemur því við að það sé óeðlilegt að líta á það sem maður hefur keypt sen sína eign

ls (IP-tala skráð) 5.2.2021 kl. 18:59

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Stolið hjól sem maður kaupir er ekki eign manns þótt maður kannski haldi að svo sé.

Þess vegna talaði ég um þörf á hugarfarsbreytingu.

Útgerðarmenn eiga ekki kvótann. 

En eignarhaldið á kvótanum er kjarni málsins og það sem deilan snýst á endanum um. Ég eiginlega ætla ekki að ræða það frekar, bara viðra mína skoðun á málinu án þess að ég ætli að rökræða það frekar.

Búinn að "taka þá umræðu" ansi oft.

Kristján G. Arngrímsson, 5.2.2021 kl. 19:22

10 identicon

Fyrst útgerðarmenn eiga ekki kvótann, þá er það stór spurning hvað það var eiginlega sem ríkið gaf fyrir nokkrum áratugum síðan. Menn hafa borgað fullt af peningum fyrir það, bankar tekið veð í því og hvaðeina. 

ls (IP-tala skráð) 5.2.2021 kl. 20:30

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Hef ekki leyfi til að segja þér neitt um Pfizer "dílinn", enda hann ekki til umræðu hér  LOL

Í sjálfu sér er lagabreytingar hvað varðar kvótakerfið ekki á döfinni, en þó er aldrei hægt að fullyrða um það.

En ég held að það verði til bóta ef fleiri sjávarútvegsfyrirtæki yrðu skráð á markað og yrðu í dreifðari eignaraðild.

Ég hef trú á því að slíkt myndi vissulega geta skapað meiri sátt um fyrirkomulag sjávarútvegs á Íslandi.  En eins og svo margt sem er skrifað hér er um að ræða mína skoðun.

Ef ég man rétt, er Brim hf, eina skráða fiskveiðifyrirtækið á Íslandi.  Þar er t.d. ríflega 30% í eigu lífeyrissjóða á Íslandi, þar á meðal lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna og Verslunarmanna. 

Ég vona t.d. að Brim borgi út mikinn og vænan arð og standi sig vel í rekstri, enda jákvætt að lífeyrissjóðir ávaxti sitt pund vel, og ekki veitir af, til að borga lífeyri framtíðarinnar.

En kvótaeigendur hafa flestir eðli málsins samkvæmt keypt sína hlutdeild, ef ekki alla, þá mestan part.  Þau viðskipti hafa að ég best veit farið fram eftir þeim lögum sem hafa verið i gildi hverju sinni.

En þeir eiga ekki fiskinn í sjónum, eins og augljóslega kemur í ljós t.d. undanfarin ár, hvað varðar loðnuveiðar.

En þeir eiga hlutdeild í þeim kvótum sem kann að verða úthlutað.

En um allt þetta er skipað til með lögum.  Þeim er í auðvitað hægt að breyta.

Hvenær sem er getur hið ríkisvaldið, eða í raun Alþingi breytt lögum og breytt þvi hvernig fiskveiðistjórnarkerfið/kvótakerfið er útfært.

Það er í raun ekkert fjarlægara en að hið opinbera geti í stórum stíl bannað atvinnurekendum að nýta eignir sínar og hafa starfsemi eins og gert er nú.

En núverandi kerfi kvóta og framsals hefur skilað Íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð. 

Sem betur fer hefur gríðarleg fjárfesting átt sér stað undanfarin ár, bæði í skipum og landvinnslu.

Það er líka þarft að velta fyrir sér hvort að sjávarútvegur í öðrum löndum, t.d. þeim þar sem hann er stærri en á Íslandi, skili meiri tekjum til hins opinbera en sá Íslenski gerir?

Hvað innheimtir Noregur mikið í veiðigjöld?  Hvað innheimta Evrópusambandsríkin mikið í veiðigjöld?

Hvar er staðið betur að verndun fiskstofna en á Íslandsmiðum?

P.S.  Ég keypti ýsuflök í matinn handa fjölskyldunni í gær. Um það bil 1.2 kíló.

Í bakkanum voru 8 flök (roðlaus og beinlaus).

G. Tómas Gunnarsson, 5.2.2021 kl. 21:29

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Spurningin var um hvað gæti "skapað sátt" um íslenskan sjávarútveg. Svo undarlega sem það kann að hljóma í eyrum þeirra sem hugsa í hagnaði þá er eins víst að aukinn hagnaður Brims og annarra útgerða myndi auka ósáttina.

Ef ykkur finnst þetta algerlega út í hött ætla ég ekki einu sinni að reyna að útskýra þetta fyrir ykkur. 

Eins og ég hef áður nefnt er ekkert endilega neitt athugavert við kvótakerfið, en ýmis útfærsluatriði á því orka tvímælis. Ég velti því fyrir mér hvernig það geti staðist að auðlind þjóðar sé sett í eigu fáeinna einstaklinga. Er það ekki einhverskonar rán?

Svo er vert að benda á að aukinn ójöfnuður eykur ósamlyndi. 

Að fullyrða að núverandi kerfi kvóta og framsals hafi skilað íslenskum útvegi í fremstu röð krefst aðeins betri útskýringar og stuðnings, myndi ég segja. Það er ekkert sem segir að fjárfesting hefði ekki orðið mikil með öðru fyrirkomulagi.

Svo er náttúrulega spurning hvort aukinn hagnaður réttlæti allt - þar með talið ósátt og ósamlyndi?

Kristján G. Arngrímsson, 5.2.2021 kl. 21:59

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er allt eins víst að aukinn hagnaður Brims myndi skapa úlfúð, ósætti og öfund.

Það eru svo margir sem kynda undir í þá átt.

Tölum áfram um Brim.

Snemma á síðasta ári greiddi Brim út arð fyrir rekstrarárið 2019. Arðurinn var í kringum 1.9 milljarða. Vissulega há upphæð, en þó leiðinlega lág, ef þú spyrð mig.

Þó var gert mikið með upphæðina og sjálfsagt fannst mörgum mikið til um "gróðann" í Íslenskum sjávarútvegi. Sumum fannst rétt að "ráðast" á fyrirtækið.

https://frettatiminn.is/04/04/2020/af-aflogufaerum-fyrirtaekjum-brim-akvedur-ad-greida-1800-milljonir-i-ard/

https://kjarninn.is/frettir/2020-02-27-brim-hagnadist-um-47-milljarda-i-fyrra/

https://www.vb.is/frettir/brim-greidir-ut-taeplega-2-milljarda-i-ard/160990/

Hagnaður fyrirtækisins var sem betur fer all nokkuð hærri, eða 4.7 milljarðar.

En fyrirtækið hefur staðið í miklum fjárfestingum sem vonandi skila fyrirtækinu meiri hagnaði og hækka arðgreiðslur í framtíðinni.

En aftur að arðgreiðslunum.

Þær voru ca. 1.9 milljarðar, eða 2.6% af hlutafé. Það er að segja að var greiddur 2.6% arður.

Hefðir þú keypt fyrir 1.000.000, í Brimi, hefðir þú fengið 26.000, í arð. Það er allt og sumt.

Það er reyndar undir ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, sem mér skilst að sé 3.5%.

Líklega er það einnig vel undir þeirri ávöxtun sem t.d. fasteignaeigendur í Reykjavík fengu áríð 2019.

Eðlilega hafa kvótaeigendur eignfært kvótaeign sína, enda hafa flestir þeirra keypt hana dýrum dómum.

En sú eign er einskis virði ef fiskistofnar hrynja, eða ef ríkisvaldið ákveður að breyta um tilhögun.

Spurðu bara þá sem eiga t.d bar í miðbæ Reykjavíkur, hvers virði fjárfestingar þeirra reyndust þegar hið opinbera ákvað að þeir mættu ekki starfa?

Auðvitað er alltaf "smekksatriði" hvort að Íslenskur sjávarútegur er í fremstu röð eða ekki. Ég tel þó ótvírætt að svo sé.

En það festir enginn fé sitt í sjávarútvegi, nýjum skipum, hátæknibúnaði í skipum eða í landi, ef þeir sjá ekki fram á að fé í það minnsta þokkalega arðsemi af fjárfestingunni.

Það hefur heldur enginn áhuga á því að fjárfesta í nýum skipum, vinnslubúnaði o.s.frv, ef hið opinbera ætlar sér að taka arðasemina af því með því að hækka gjöld á sjávarútveg.

Þeir sem eldri eru muna þegar sjávarútvegur var eilíflega til "vandræða" og hið opinbera þurfti reglulega að grípa til aðgerða svo að hann gæti haldið áfram starfsemi.

Ég held að enginn vilji hverfa aftur til þeirra tíma.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2021 kl. 00:29

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei, það vill held ég enginn hverfa aftur til þeirra tíma.

Soldið leiðinlega algengur misskilningur að ef eitthvað í nútímanum er gagnrýnt þá sé þar með verið að mæla með afturhvarfi til fortíðar.

Eins og aðeins séu tveir möguleikar - núið eins og það er og svo fortíðin. En er þá núið eins og það er einhver óhjákvæmileg örlög eða sannleikurinn eini?

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2021 kl. 08:43

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Rétt eins og þú þá vona ég að enginn vilji hverfa aftur til þeirra tíma þegar afkoma sjávarútvegs á Íslandi var að segja má "stýrt" af hinu opinbera.

En þó virðist mér býsna margir vilja "skammta" útgerðinni afkomu, eftir því hvað þeir telja hæfilegt.

Afkoma útgerða, eins og annara fyrirtækja er þó vissulega misjöfn.  Brim er alla jafna talið í hópi öflugustu og best reknu sjávaraútvegsfyritækja Íslands.

Finnst þér hagnaður þeirra eða arðgreiðslur fyrir árið 2019 yfirgengilegar?  Ósanngjarnar? Þarf hið opinbera að stíga inn í og "breyta formúlunni"?

"Stýra" afkomunni?

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2021 kl. 11:49

16 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Verður sátt um sjávarútveg ef tekið verður upp það fyrirkomulag að útgerðir greiði markaðsverð fyrir aðgang að auðlindinni? Þeir sem aðhyllast markaðshagkerfi ættu að vera sáttir þá. En hvað með aðra?

Þorsteinn Siglaugsson, 6.2.2021 kl. 13:17

17 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það sem gæti skapað sátt um útgerðina er að pöpullinn í landinu (ég þar á meðal) hafi á tilfinningunni að útgerðarmenn virði það að auðlindin sem þeir nýta er í eigu þjóðarinnar, en láti ekki eins og þeir séu sægreifar og kvótakóngar með hugarfarið "ég á þetta, ég má þetta".

Hvernig næst þetta markmið?

Ekki með núverandi kerfi þar sem kvóti er reglulega tekinn burt úr bygðarlögum eins og um sé að ræða eign þess sem fer með hann. Þetta fyrirkomulag býður því heim að ósætti skapist - ekki vegna öfundar yfir stórum hagnaði heldur virðingarleysis og "entitlement". (þetta síðastnefnda hefur alltaf verið megineinkenni á sjálfskipuðum yfirstéttum).

Ef er bara horft á fiskveiðistjórnunina út frá því hvað skili mestum hagnaði þá er það fádæma skammsýni og skilningsleysi.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2021 kl. 14:03

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Það sem ég held að margir finni "markaðsverð" er að þá verði samþjöppunin enn þá meiri, ef ekki eru settar reglur um hvað mikið megi eiga, hvernig eigi að veiða það, stærðarflokkar báta o.s.frv.

En það er reyndar ekki hægt að horfa fram hjá því að mest af núverandi kvóta hefur verið keyptur á "markaðsvirði", en þær fjárhæðir fóru ekki til hins opinbera, heldur þeirra sem hurfu úr greininni.

Hvort að þeir hafi átt þann "stuðning" skilið er svo allt annað mál. 

En þannig greiddu núverandi útgerðarmenn fyrir hagræðingu í greininni.  Ég held að það hafi verið verkefni sem stjórnmálastéttin á Íslandi hafði getu til að sinna, eða kærði sig um.

En það má alveg hugsa sér að næstu skref verði einhvers konar kvótauppboð til lengri tíma, en ég held að það verði vandasamt að smíða kerfi utan um það, þannig að allir verði sáttir.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Upplifun er mismunandi frá einstaklingi til einstaklings, en persónulega hef ég ekki séð útgerðarmenn með hugarfarið "ég á þetta, ég má þetta". 

Þeir enda bundnir af alls kyns lögum og reglugerðum, hafa til dæmið ekki mátt veiða loðnu, allt útlit er fyrir að humarveiðar verði bannaðar o.s.frv.

Hins vegar verulega varasamt fyrir Íslendinga ef þeir kjósa að hafna hagnaðarsjónarmiði í útgerð, fyrir önnur óskýrari markmið.

Staðreyndin er sú að tækniframfarir í útgerði eins og mörgu öðru gera það að verkum að mun færri þarf til að verka sama afla, mun betur en áður var.

Það er einfaldlega ekki til nægur fiskur til handa öllum, né þarf þann fjölda til að vinna fisk sem áður var.  Einn frystitogari veiðir jafn mikið og verkar og ca 2 togarar og 1 frystihús gerði áður.

Það er hins vegar ekkert nýtt að slíkar breytingar séu sársaukafullar.  Hafnaverkamenn víða um lönd börðust gegn gámavæðingu. 

Það eru margir ósáttir við að sauðfé hafi fækkað um meira en helming á Íslandi.

Svona má lengi telja. 

Hitt er svo að sem "eign þjóðarinnar", ætti kvótaeignin auðvitað að vera að flytjast til Höfuðborgarsvæðisins, enda fólkflutningar þangað hafnir löngu fyrir kvótasetningu.

En ein tillaga sem kom fram fyrir all löngu var einfaldlega að skipta kvótanum á milli Íslendinga, sem síðan gætu gert við hann líkt og þeim þóknaðist.  Selt hann, veitt hann, gefið hann eða einfaldlega láta fiskinn synda óveiddan.

En slíkar hugmyndir fengu ekki miklar undirtektir, allra síst hjá stjórnlyndum stjórnmálamönnum.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2021 kl. 15:59

19 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Skil ég þig rétt að þér sýnist núverandi kvótakerfi vera gott og skila góðum árangri og að allar aðrar hugmyndir hafi reynst vera eitthvað bull og vitleysa eða eitthvað sem stjórnmálamenn hafi ekki kært sig um? Það sé því alger óþarfi að velta fyrir sér einhverju öðru fyrirkomulagi. 

Ef svo er, er þá ekki tómt mál að tala um "víðtækari sátt" um íslenskan sjávarútveg? Eða er lausnin á þeim vanda einfaldlega fólgin í því að skikka allan almenning til að skilja að hagnaðarsjónarmiðið er hinn eini stóri sannleikur í sambandi við fiskveiðar, og að það er "varasamt" að velta öðru fyrir sér?

Hljómar soldið eins og það sem oft er kallað forræðishyggja, þú fyrirgefur.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2021 kl. 16:41

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Í stuttu máli sagt já.  Ég tel núverandi kvótakerfi vera gott og framsalið hefur tryggt hagkvæmni og framfarir í Íslenskum sjávarútveg.

Það þýðir ekki að sjálfsagt er að hlusta á aðrar og nýjar hugmyndir, en það á ekki að breyta "bara til að reyna eitthvað nýtt".

Þannig myndi ég telja það af hinu góða að fleiri útgerðarfyrirtæki yrðu að almenningshlutafélögum og jafnvel mætti hugsa sér að slík fyrirtæki gætu átt hærri aflahlutdeildir en fyrirtæki í "lokaðri" eign.

Auðvitað má einnig hugsa að sér að skipta kvóta einfaldlega upp eins og ég minnist á hér að ofan, milli allra Íslendinga. Þá ráðstafar hver sínum hlut.

En ég hef hvorki reynt að skikka þig né nokkurn annan til að taka undir mín sjónarmið.  Allt tal um forræðishyggju er því eitthvað sem er eingöngu í huga þér.

Auðvitað er öllum frjálst að hafa sínar skoðanir og setja þær fram, það er nákvæmlega það sem ég er að gera.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2021 kl. 16:49

21 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eitt af því sem lengi framan af var sagt um kjósendur Donalds Trump var að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir væru að kjósa gegn sínum eigin hagsmunum. Þess vegna voru sumir sem héldu því fram að þessa kjósendur einfaldlega skorti menntun (sem var veigrunaryrði fyrir gáfur) og alveg spurning hvort svona "deplorables" ættu að hafa kosningarétt.

Þeir sem héldu þessu fram voru að sjálfsögðu menntafólkið og líberalelítan á austur- og vesturströndinni. Ég meira að segja sá þessu haldið fram af Íslendingi hérna heima á Facebook.

Kannski þarf á sama hátt að útskýra fyrir vitgrönnum Íslendingum að þeir verði að skilja að í sjávarútvegi sé stórkostlega varasamt - ef ekki beinlínis barnalegt - að lítal til annarra gilda en hagnaðar.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2021 kl. 16:50

22 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

En við getum líklega verið sammála um að á endanum eru það kjósendur sem svara spurningunni. 

Jafnvel þótt við kjósendur séum margir hverjir frekar barnalegir þegar kemur að sjávarútvegi.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2021 kl. 16:53

23 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

En fyrir forvitni sakir: Hvers vegna heldurðu að jafn fá útgerðafyrirtæki og raun ber vitni séu á almennum markaði?

Hvernig (hver) ætti að tryggja að útgerðir á hlutabréfamarkaði fengju hærri kvóta en þau fyrirtæki sem eru t.d. fjölskyldufyrirtæki?

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2021 kl. 19:40

24 identicon

Miðað við útreikningana hér að ofan um Brim eru útgerðarfyrirtæki alls ekki spennandi fjárfestingakostur, skárra að kaupa steinsteypu eða leggja í banka. 

Kvótabraskið var heimilað fyrir rétt rúmum þrjátíu árum með það yfirlýsta markmið að stuðla að hagræðingu. Það tókst. 

ls (IP-tala skráð) 6.2.2021 kl. 20:09

25 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Styrmir segir (og ég trúi því þarafleiðandi) að það hafi verið ríkisstjórn VG, Samfó og Framsó sem kom kvótabraskinu á.

Þarf ekki að rifja upp að Styrmir og Moggi voru einarðir andstæðingar kvótaframsals án veiðigjalds.

En ef hagræðing er upphaf og endir alls (eins og gjarnan er í hugum þeirra sem hafa í rauninni engin lífsgildi nema verðgildi) þá er málið einfalt - hafa útgerðarfyrirtæki stór og fá. Grandi, Samherji, Síldarvinnslan - þarf ekki fleiri.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2021 kl. 20:43

26 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er rétt að hafa það í huga að frá því að kvótakerfið, frjálst framsal og allt það kom til sögunnar, hafa farið fram fjölmargar kosningar á Íslandi.  Ég hef ekki getað lesið úr úrslitum þeirra að kjósendur hafi viljað brjóta upp núverandi kerfi.

En auðvitað eru það þeir sem kjósa alþingismenn sem eru á endanum þeir sem ákveða kerfið.

Ætli Frjálslyndi flokkurinn sálugi sé ekki sá sem mesta áherslu hefur lagt á slíkt, hlaut þokkalegt fylgi, en varð aldrei stór flokkur.

Ég held enda flestir kjóesendur séu þeirrar skoðunar að vel rekin sjávarútvegur með hagnað að leiðarljósi komi (næstum) öllum til góða.

Þegar ég segi næstum öllum, á ég við að þeir sem kynnu að hagnast á því að fá kvóta úthlutað út frá öðrum sjónarmiðum, myndu líklega hagnast á því.

Síðan eru deilur um hvað veiðigjald á að vera hátt og hvernig á að ákveða það.  Þar hefur það sjónarmið verið nokkuð ríkjandi að það má ekki vera hærra en svo að þeir sem eru ekki með "besta reksturinn" verða líka að hafa efni á því að borga það.

Það voru mun fleiri sjávarútvegsfyrirtæki skráð á markað seint á síðustu öld.  En í "bankabólunni", voru þau ekki mjög "sexy", eða þóttu eftirsóknarverð. 

Þá var einnig hægt að fá gnægð lánsfjár og bankar kynntu undir yfirtökur og sameingingar. 

Því fór svo að þau fóru eitt af öðrum af markaði. 

En þegar bankabólan sprakk, hefðu líklega margir frekar viljað eiga hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum en bönkum. 

Á þeim punkti stóðu eigendur sjávarútvegsfyrirtækjana með (fiskinn) pálmann í höndunum.

Ætli megi ekki segja að nokkurn veginn frá þeim tíma hafi þeir tekið við af "bankabarónunum" sem "óvinur alþýðunnar" í ákveðnum "kreðsum".

Það er Alþingi sem setur lög um sjávarútveg. Ef vilji er til þess að ívilna almenningshlutafélugum, t.d. með því að þau geti átt hærri aflahlutdeild en "lokuð" félög, þá er það sett í lög.  Það mætti hugsa sér að setja lög um hámarkseign í slíkum félögum, eins og má t.d. hugsa sér með banka.

Eins og annað er þetta einfaldlega sett hér fram sem hugmynd.  Sjálfsagt líst öðrum misjafnlega á slíkt.

@ls, þakka þér fyrir þetta.  Já, þetta er nú allur "ofsagróði" útgerðarinnar.  Þó þykir eftir því sem mér skilst Brim á meðal best reknu útgerðarfélaga landsins.

En upphæðirnar geta verið háar, en það gleymist hvað mikið fé er bundið í þeim tækjum og tólum sem þarf til útgerðar.

En persónulega hef ég trú á framtíð Íslensks sjávarútvegs, ekki síst vegna þess að undanfarin ár hefur hann haft bolmagn til fjárfestinga.  Eins og áður verða það fyrirtækin sem hagnýtas sér nýja tækni og hafa afl til þess að fjárfesta í henni sem verða ofan á.

En arðurinn af steypu hefur verið meiri, en það er erfitt af finna góða ávöxtun með því að leggja pening í banka nú á dögum.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2021 kl. 21:06

27 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

En væri ekki hið opinbera (Alþingi) að "stýra" afkomu fyrirtækjanna með því að lögbinda að fyrirtæki á markaði fengju meiri kvóta en önnur?

Væri það æskilegt?

Og ef rekstur útgerða er svona mikið basl og vond fjárfesting (t.d. fyrir lífeyrissjóðina) þá skil ég ekki alveg hvers vegna þú telur þetta með Síldarvinnsluna svona "gríðarlega góðar fréttir". Eigum við ekki frekar að vera þakklát útgerðarmönnunum sem taka sjálfir á sig þessa vondu fjárfestingu og basl með því að reyna ekki að koma henni yfir á herðar grunlausra hlutabréfakaupenda?

Ég sé ekki að það muni "skapa sátt" um útgerðina ef lífeyrissjóðirnir byrja að tapa á henni.

En eins og ég nefndi í upphafi, þetta með að skapa sátt snýst held ég ekki um peningahliðina heldur hugarfar og gildismat.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2021 kl. 21:38

28 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er alveg rétt hjá Styrmi að það var "vinstri stjórn" sem kom á kvótaframsalinu.  Einhver myndi líklega segja að engum er alls varnað.

Jafnvel þá skyldu "vinstri menn" að óbreytt ástand fól í sér feigðina.  Það þurfti samþjöppun og hagræðingu.

Ég veit ekki hvort að 3 fyrirtæki yrði niðurstaðan en ég held að óhjákvæmilegt sé eigi að síður að þeim fækki og þau verði stærri.  Ekki síst ef Íslendingar vilja að þau greiði vaxandi upphæðir til hins opinbera.

Líttu í kringum þig.  Hvað eru margar "sjálfstæðar" matvöruverslanir?  Hvers vegna hafa "kjósendur" ekki fylkt sér um "small is beautiful" verslanir sem eru jafnvel í eigu "heimamanna" eða þeirra sem búa í hverfinu?

Hvað eru margar prentsmiðjur starfræktar á Íslandi?  Hvers vegna hafa t.d. bókaútgefendur (og tímarit á undan þeim) ekki skipt við gamalgróin fjölskyldufyrirtæki í þeim geira?

Út af hverju flykkjast "kjósendur" í viðskipti við erlendar streymisveitur?  Skilja þeir ekki að þeim er fyrir bestu að skipta við littla innlenda aðila og í raun þurfa þeir ekkert meira en RUV sem þeir eru skyldaðir til að borga fyrir?

Eru ekki alls kyns veitingastaðakeðjur (beint eða óbeint) þeir sem koma best (eða ætti ég að segja skást) út úr rekstrarvandræðum dagsins í dag?

En ég tel ástæðu til þess að vera bjartsýnn fyrir hönd Íslensks sjávarútvegs.  Síðasti áratugur hefur almennt verið greininni nokkuð góður.  Sem betur fer hefur verið ráðist í miklar fjárfestingar, bæði í skipum og landvinnslu, þannig að allt að má tala um byltingu í þeim efnum.

En eftir því sem fyrirtækin verða færri og stærri (enn mjög lítil á alþjóðlegan mælikvarða), þá tel ég þó verða betur í stakk búinn til að mæta ákorunum til framtíðar og betri fjárfestignarkost.

En auðvitað er enginn neyddur til að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum, ekki frekar en t.d Icelandair.

En ég held að það sé jákvætt, bæði fyrir sjávarútveg og Íslendinga að fleiri eigi hlut í honum, þó útgerðum muni fækka.

Alþingi er ekki að stýra afkomu fyrirtækjanna, ekki frekar en öll lagasetning gerir slíkt.

Enda "fengju" þau ekki meiri kvóta en önnur, heldur mættu eiga (þ.e. kaupa) hærri hlutdeild af heildarafla.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2021 kl. 22:30

29 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, þau "fengju" ekki meiri kvóta en þau "fengju" að kaupa meiri kvóta - á þessu er í mesta lagi stigsmunur en ekki eðlis. Í báðum tilvikum er hið opinbera (Alþingi, ríkið) með puttana í afkomu fyrirtækjanna. Leyfa einum en banna öðrum - það er stýring, ekki satt?

Þá vaknar sú spurning hvers vegna ekki megi stýra öðru varðandi útveginn. Hver ákveður hverju má stýra og hverju ekki? 

En allt hitt sem þú segir, þetta með "hagræðinguna", blasir við hverju mannsbarni. Mig persónulega varðar þetta lítið og ég er löngu hættur að kaupa bækur nema hjá Besosi.

Við getum lýst því hvernig þetta er, það er ágæt æfing, sagnfræði stundum og fréttaflutningur stundum. 

En þetta verður fyrst áhugavert þegar við förum að velta fyrir okkur hvort þetta sé jákvætt eða neikvætt, sanngjarn eða ósanngjarnt. Það er að segja þegar við tökum siðferðilega afstöðu. Og við tökum hana, jafnvel þegar við höldum að við séum að forðast það. Því að í sumum málum gildir að það að "taka ekki afstöðu" er afstaða með ríkjandi fyrirkomulagi, afstaða með núverandi valdhöfum. (Reyndar hefurðu sagt beinlínis að það sé þín afstaða varðandi útveginn.)

Allt sæmilega skynsamt fólk getur tekið undir lýsingu þína á þróuninni og ég veit ekki betur en útgerðum á Íslandi hafi fækkað stórkostlega undanfarna áratugi. Er að jákvæð þróun?

Já, tvímælalaust ef maður er hagræðingartrúar. En hvað þá með það fólk sem hefur misst lífsafkomu sína af þessum völdum? Hvað með þá sem hefur verið "hagrætt út af borðinu"? Bara collateral damage? Fariði og finnið ykkur eitthvað annað að gera.

Vegir Guðs eru órannsakanlegir, segjum við við þetta fólk eins og prestarnir sögðu í gamla daga við fólk sem missti börnin sín. Eignastu bara önnur í staðinn.

Þú talar stundum niðrandi um þá sem eru á "ríkisjötunni" - þannig gefurðu í skyn að þeir þurfi ekki að bjarga sér sjálfir, séu hálfgerðir dugleysingjar. (Þannig hef ég að minnsta kosti stundum skilið það sem þú skrifar). Ég held að þeir sem beygja sig umyrðalaust undir vald hinna sterku mættu kannski aðeins gyrða sig í brók.

Kristján G. Arngrímsson, 7.2.2021 kl. 08:28

30 identicon

Við endum alltaf á að finna okkur eitthvað annað að gera ef vinnan okkar verður úrelt.

Það er stundum kallað nýsköpun.

Oftast er því reyndar hampað og talað fjálglega um framtíðina og hvað sé að verða betra.

Og er það ekki líka betra að einhæfum framleiðslustörfum fækki?

ls (IP-tala skráð) 7.2.2021 kl. 11:18

31 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Þetta er "sama" stýring eins og er í núverandi núverandi lögum um kvótakerfið, sem er í raun ein stór "stýring".

Sá sem ákveður hverju má stýra, er auðvitað löggjafinn, það er ekkert flókið.  Löggjafinn er síðan valinn af kjósendum eins og flestir vita.

Það er alveg rétt að hagræðingin blasir við eiginlega hvar sem er í þjóðfélögum víðast hvar um heiminn.

Sjávarútvegsfyrirtækjum hefur fækkað á Íslandi og er það vel (að mínu mati).

Það voru einfaldlega of margir fiskimenn, á of mörgum fiskiskipum og of margt fiskvinnslufisk að eltast og höndla með þann fisk sem var í boði, og í þokkabót líklega um ofveiði að ræða.

Það varð að grípa til einhverra ráða.

Það er til ágætis dæmisaga um tvo "ráðamenn" sem gengu fram á hóp manna sem var að grafa stóran skurð með skóflum.

Annar varpaði fram þeirri spurningu hvort að ekki væri rétt að nota stórvirkar vinnuvélar?  Hinn svaraði að vissulega væri það hraðvirkara og ódýrara, en það þyrfti að huga að þvi að fleiri fengju vinnu við skurðgröftinn.

Hinn sagði þá að í þvi ljósi væri líklega best að taka skóflurnar af mönnunum og láta þá fá matskeiðar.

Í því dæmi má segja að skóflur hafi "tekið" atvinnu af hópi fólks.

Það hefur alltaf verið einhverjir hópa sem "missa spón úr aski sínum" við breytingar.

Hvað misstu margir vinnuna þegar mjaltavélar ruddu sér til rúms?  Þegar bændur eignuðust sláttuvélar?

Strikamerki hafa aukið afköst í verslunum, er það slæmt? 

Heilu starfsgreinarnar innan prentiðnaðarins hafa horfið. 

Sem betur fer hefur það yfirleitt farið svo að einstaklingirnir hafa fundið sér önnur störf.  Störfum á Íslnandi hefur ekki fækkað þó að mun færri starfi en áður t.d. við sjávarútveg, landbúnað, fataiðnað, prentiðnað o.s.frv.

Ég er tvímælalaust á þeirri skoðun að Íslenskur sjávarútvegur sé á réttri leið.  Nýting afla er mun betri en var, verðmætasköpun hefur aukist, þrátt fyrir að mun færri einstaklingar starfi í greininni.

Ég tel það jákvætt.

Í mörgum löndum er sjávarútegur ríkisstyrktur.  Ég tel Íslendinga ekki hafa efni á slíku sé litið til lengri tíma.

Því er (að ég tel) hagræðing og öflugur rekstur nauðsynlegur fyrir sjávarútveginn, þannig að fyrirtækin geti staðið í miklum fjárfestingum (sem þörf er á) og greitt út arð til eigenda.

Persónulega teldi ég jákvætt að sjávarútvegsfyrirtæki yrðu almenningshlutafélög, en það þýðir ekki að eitthvað sé að öðrum eignarforum.

Ef Íslendingar vilja hins vegar fela "óhagnaðardrifnum" fyrirtækjum að sjá um veiðar og vinnslu og sú leið nýtur almenns stuðning, verður sú leið líklega farin.

Ef mikill áhugi er fyrir slíkri leið, verður líklega einhver til þess að tala fyrir henni í komandi kosningum.

Ekkert að því, þó að ég telji það ekki vænlegustu leiðina. 

P.S. Að tala um einhvern á "ríkisjötunni" er ekki orðalag sem ég hef tamið mér.  En ég hef vissulega talið að rétt sé að minnka umsvif hins opinbera og mörg verkefni þess séu betur komin hjá einkaaðilum.

Ég hef líka talað um að það ætti að draga úr framlögum hins opinbera til stjórnmálaflokka.

Ég sé ekki að fjölgun ríkisstarfsmanna sé leiðin fram á við.

G. Tómas Gunnarsson, 7.2.2021 kl. 17:01

32 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég get sosum tekið undir flest ef ekki allt sem þú segir, svo undarlega sem það kann að hljóma. Til dæmis er ég alls ekki áhugamaður um fjölgun ríkisstarfsmanna, en ég er samt heldur ekkert þeirrar skoðunar að ríkisstarfsmenn séu eitthvað lítilsigldari en þeir sem starfa "á eigin verðleikum". 

Ég sé enga ástæðu til að draga ekki úr framlögum til stjórnmálaflokka.

Ég sé ekkert að því að stýra fiskveiðum, og engin ástæða til að borga með útgerðum.

Allt í fína að útgerðarfyrirtæki fari á markað. Ég er ekki heldur neinn Luddíti, sem er andvígur tæknivæðingu. Í góðu lagi mínvegna að útgerðarfyrirtækjum fækki og þau stækki.

Og ég er auðvitað líka sammála því að á endanum ákveði kjósendur hvaða leiðir eru farnar. Vonandi ber einhver stjórnmálaflokkur gæfu til að hafa raunverulega á stefnuskránni að auka hagnað þjóðarinnar af auðlindinni, ekki bara hagnað útgerða af henni.

Um hvað erum við þá eiginlega ósammála?

Tja, það var þetta með leiðir til að "auka sátt" um íslenskan sjávarútveg. Ég held að til þess sé ekki nóg að breyta eignarfyrirkomulagi útgerðarfyrirtækja eða sjá aukinn hagnað þeirra. Það sem þarf er afdráttarlaus skipan eignarhalds á auðlindinni. Og viðhorfsbreyting útgerðarmanna sem þurfa að láta af forréttindahugsunarhætti sínum.

En kannski er ekkert eftirsóknarvert að "auka sátt" um íslenskan sjávarútveg. Það gæti nefnilega þýtt minni hagnað. (Vil taka fram að ég er ekki með því að mæla með "óhagnaðardrifnum" (stórkostlegt orð) fyrirtækjum.)

Kristján G. Arngrímsson, 7.2.2021 kl. 18:13

33 identicon

Útgerðin greiðir reyndir einhvern slatta í veiðigjöld sem er eingöngu skattur fyir sð nota auðlindina. Mig minnir að það sé reiknað út frá hagnaði greinarinnar. Sé það rétt munað er bara fínt fyrir okkur ef það er myljandi gróði af útgerð.

ls (IP-tala skráð) 7.2.2021 kl. 19:18

34 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Persónuega held ég að næstum allir séu sammála um hvað horfi fram á við fyrir Íslenskan sjávarútveg. 

En í smærri atriðum eru þó ábyggilega skiptar skoðanir.

Ég held að flestir vilji að sjávarútvegsfyrirtæki séu nægilega öflug til að fjárfesta í nýrri tækni og stefna fram á við, hvort sem það þýðir fækkun starfa, eður ei.

En ég tala eingöngu fyrir sjálfan mig.

En ég held að eins og oft sé vert að huga að sögunni. 

Það er t.d. vert að hafa í huga að Samherji, sem nú er stærsta sjávartútvegsfyrirtæki Íslands (en var ekki þá) var skráð á markað þangað til 2005, ef ég man rétt.

Þá gerðu stærstu hluthafar í fyrirtækinu yfirtökutilboð sem næstum allir aðrir hluthafar samþykktu?

Hvers vegna?

Ekki að ég geti svarað fyrir hvers vegna aðrir hluthafar tóku þá ákvörðun, reikna ég með að þeir hafi metið tilboðið það gott, að framtíðar hagnaður fyrirtækisins væri ekki meira virði.

Slikt var einfaldlega þeirra mat á framtíðarhorfu Íslensks sjávarútvegs og ef til vill hafa þeir metið svo að betra væri að festa fé sitt í öðrum geirum, s.s. fjármálastarfsemi (bönkum) eða öðru. 

Engin getur svarað fyrir það nema þeir sem tóku ákvarðarnar.

Ef ég man rétt var einnig svo að t.d. í kringu síðustu aldamót var Útgerðarféla Akureyringa (sem þá var almenningshlutafélag), stærsta sjávarútvegsfélag á Íslandi, eða í það minnsta með hæstu aflahlutdeild.

Það er síðan ekki fyrr en það félag hefur farið í gegnum eignarhald margra aðila sem það endar í eign Samherja.  Hvers vegna?

Hitt er svo að þó að ég sé ekki sérfræðingur í rekstri Samherja hefur um langa hrið stærri partur af starfsemi félagsins verið utan Íslands.

Ef ég hef skilið rétt gildir það sama um hagnaðinn. Fyrir 2 eða 3ur árum var svo skilið þar á milli.

Er erlendur hagnaður Samherja eitthvað sem Íslendingar þurfa að hafa áhyggjur af, eða breyta fiskveiðilöggjöf sinni vegna?

Ég held ekki..

Þá geri ég ekki lítið úr þeim ásökunum sem fyrirtækið hefur orðið fyrir í Namíbíu. 

En þær eru einfaldlega viðfangsefni dómstaóla, í Namíbíu og Íslandi og óskyllt fiskveiðilöggjöf.

Í slíkum vangaveltum er t.d. rétt að hafa í huga að fjárfestingar Samherja í Eimskipum, eru gerðar af erlendum hluta starfsemi Samherja.

Er það slæmt að fyrirtækið fjárfesti hagnað af erlendri starfsemi á Íslandi?

Ég er hins vegar þeirra skoðunar að það yrði jákvætt ef að fleir sjávarútvegsfyrirtæki yrðu almenningshlutafélög, hagnaður þeirra dreifðist víðar um samfélagið og ef til vill að hluta til til lífeyrissjóða.

Væri eitthvað neikvætt við það?

@ls, þakka þér fyrir þetta. Ég er ekki sérfræðingur í útreikningum veiðigjalda.

En mér hefur verið sagt að eitt af vandræðunum við ákvörðun þeirra sé mismunandi staða útvegsfyrirtækja.

Þau sem standa rekstrarlega verr, geta ekki borgað jafn hátt gjald og þau sem eru í bestum rekstri.

En enginn vill að rekstrarlega verri fyrirtæki fari á "höfuðið" vegna hárra veiðigjalda.

Því allir vita hvaða fyrirtæki standa betur, og gætu keypt þau fyrirtæki sem færu á höfuðið, en mega það þó í raun ekki, vegna þess að þá færu aflaheimildir þeirra langt yfir leyfileg mörk.

Hvað er þá til ráða?

Hitt er svo að engin fyrirtæki borga fyrir að sýna ferðamönnum Gullfoss og Geysi, Þingvelli, Dettifoss o.s.frv.

Líklega eru engir sem borga fyrir takmarkaðar auðlindir nema sjávarútvegur og ljósvaka/símafyrirtæki, sem mér skylst að borgi fyrir tíðnisvið, sem eru vissulega takmörkuð gæði.

Engin borgar t.d., ef ég hef skilið rétt, fyrir þau réttindi að reka veitingastað í miðborg Reykjavíkur, þó að slík leyfi hafi verið takmörkuð.

Reyndar niðurgreiddi Reykjavíkurborg svo húsnæði fyrir veitingastaði í svokölluðum "mathöllum" t.d. á Hlemmi, en sjálfsagt var það mat meirihlutans í Borgarstjórn, að það þyrfti að fjölga veitingastöðum í miðborginni.

En það eru margir sem vilja setja traust sitt á visku stjórnmálamannanna, þvi að "bisnessmenn" eru jú ekki mikils virði.

G. Tómas Gunnarsson, 8.2.2021 kl. 01:17

35 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, aumingja útgerðarmennirnir. Það er níðst á þeim umfram aðra og allir eru vondir við þá.

Kristján G. Arngrímsson, 8.2.2021 kl. 07:00

36 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég held að að sé í sjálfu sér ekki níðst á útgerðarmönnum umfram aðra á Íslandi, en vissulega hafa margir þeir sem hafa auðgast á Íslandi mátt þola illt umtal.

En nú er t.d. enn farið að ræða um hagnað útgerða og veiðgjöld á Íslandi.

En næstum engir gera t.d. greinarmun á hagnaði innanlands eðe í öðrum ríkjum og enn síður er gert t.d. greinarmunur á hagnaði frá fiskveiðum og svo fiskvinnslu.

Þó er ljóst að engin veiðigjöld eru greidd af fiskvinnslu, enda hafa þeir sem selja fiskvinnslu hráefni greitt slík gjöld.

En hagnaður stærstu fyrirtækjanna kemur einmitt að hluta til af fiskvinnslu, enda hafa þau fjárfest milljarða í nútíma fiskvinnslum.

G. Tómas Gunnarsson, 12.2.2021 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband