Færsluflokkur: Dægurmál

Flugeldasýningar á aðfangadag

Ég fór óvenjuseint á fætur í morgun.  "Væbblaðist" um, undirbjó matseldina og drakk kaffi.

Fór óvenjuseint á netið þennan morgunin, enda vaninn sá að það eru ekki margar né miklar fréttir á aðfangadag.  Þær snúast um færð og "fílgúd", messur og matseld.

En loksins þegar ég dreif mig á netið blasti við hver "bomban" á fætur annari.

Búið að semja í "Brexit", Kári Stef og Þórólfur allt að því komnir í hár saman yfir því hverjum datt í hug að ræða við Pfizer, og síðast en ekki síst, Bjarni Benediktsson í "hörkupartýi" í miðjum faraldri.

Það kemur einnig fram í fréttum að þar hafi flestir haft áfengi um hönd. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar voru sumir einstaklingar svo óforskammaðir að þeir föðmuðust.

Þannig að ekki vantaði fréttirnar.

Ekki dettur mér í hug að hnýta í Bjarna fyrir að hafa verið þarna.  Ég hefði ábyggilega verið þarna sjálfur - ef aðeins mér hefði verið boðið.

En ég er ekki fjármálaráðherra, né formðaur stjórnmálaflokks, hvað þá að ég hafi verið að hvetja almenning til að gæta ítrustu varúðar í sóttvörnum.  Ég hef farið allra minna ferða án þess að óttast "veiruna" um of.

Allt þetta kann auðvitað að vera skýringin á því að engin hefur boðið mér í partý lengi.

Það mátti reyndar einnig lesa í fréttum að duglegur "kóvídetectiv" hefði tilkynnt samkvæmið til lögreglu og tekið fram að fjármálaráðherra væri staddur í samkvæminu í tilkynningunni.

Það er hollara fyrir alla Íslendinga, ráðherrar meðtaldir, að gera sér grein fyrir því að fylgst er með þeim.

Þannig er reyndar staðan víðast um heim, og boðar okkur engan fögnuð.

En það er, í það minnsta í mínu minni, langt síðan aðfangadagur hefur verið jafn fréttaríkur.

 

 

 


mbl.is Hefði átt að yfirgefa listasafnið strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru rökin sem skipta máli

Ég er í raun alveg sammála Kára að því leyti að ég tel að það þurfi að vera sannfærandi rök fyrir sóttvarnaraðgerðum.

Allt sem virkar órökrétt grefur undan trú almennings á aðgerðunum.

Það að fleiri megi vera inn í matvöruverslunum en öðrum verslunum, óháð fermetrafjölda grefur undan þeirri trú að ákvarðanir séu teknar með sóttarnir að leiðarljósi.

Ákvörðun eins og að það skipti máli í hvaða deild "afreksíþróttamenn" spili grefur undan trú á þvi að ákvarðanir séu teknar með sóttvarnir að leiðarljósi.

Það má vissulega færa fram rök fyrir því að líkamsrækt eigi að vera lokuð, en ef fjarlægðartakmarkanir eru virtir, og "sprittað" á milli notenda, hvernig getur líkamsrækt verið hættuleg?

Það er þarft að hafa í huga að margar líkamsræktarstöðvar eru í þúsunda fermetra starfsaðstöðu.

Ég bý á svæði þar sem er "red zone" en ekki "lockdown" og krakkarnir mínir fara í líkamsrækt 2svar í viku.  Þau færu oftar, en vegna fjöldatakmarkana þurfa allir meðlimir að sætta sig við skert aðgengi.

En allt er umdeilanlegt.

Hvað átti nú aftur að vera langt þangað til Íslendingar ættu að geta byrjað að lifa "eðlilegu lífi"; ef "tvöföld skimun" yrði tekin upp við landamærin?

Var hún ekki tekin upp í ágúst?

 

 

 


mbl.is Litakóðunarkerfið hlægilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið hrós til dómsmálaráðherra

Ekki ætla ég að dæma um hvernig tekst til með skipanir í Hæstarétt, almennt séð eru aðrir mörgum sinnum betur til þess fallnir en ég.

Það er eðlilegt að um slíkt séu stundum skiptar skoðanir og sjálfsagt hefur misjafnlega til tekist í áranna rás.

Slíkt gildir um flest kerfi sem mennirnir smíða.  Hvort að hægt sé að "útrýma mannlega þættinum"; eða það sé æskilegt er líklega hægt að rífast um sömuleiðis.

En það er ekki það sem ég skrifa um hér, heldur langar mig til að hrósa dómsmálaráðherra fyrir orðnotkun.

Birt er, í viðhengdri frétt, skjáskot af færslu hennar þar sem segir m.a.: „Hér er verið að stíga mikilvægt skref í jafnræðisátt þar sem nú verða 3 af 7 dómurum við réttinn konur.

En mér þykir í tilfellum sem þessum rétt að tala um "jafnræði" frekar "jafnrétti".  Það hefur vantað upp á að jafnræði væri á milli kynjanna í Hæstarétti.  Það hefur hins vegar ekkert vantað upp á jafnan rétt kynjana til að sitja, eða taka sæti í réttinum.

Svo má aftur deila um hvort að hvort að jafnræði með kynjunum eigi að vera rétthærra en önnur sjónarmið þegar skipað er í dómstóla eða önnur embætti. Það er enn önnur rökræða.

En mig langaði til hrósa dómsmálaráðherra fyrir að nota orðið "jafnræði" í stað "jafnrétti" í þessu samhengi.

Vonandi verður slík orðnotkun ofan á.

 

 


mbl.is Aldrei jafn margar konur skipaðar í Hæstarétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næst sakar Þorgerður Katrín Samfylkinguna líklega um gyðingaandúð

Ég get ekki gert að þvi að svona "pólítík" eins og Þorgerður Katrín gerir sig seka um í þessu tilfelli þykir mér afskaplega ómerkileg.

Líklega ræðst hún næst á Samfylkinguna og sakar hana um gyðingaandúð, vegna þess að "systurflokkur" Samfylkingarinnar, Breski Verkamannaflokkurinn hefur einmitt nýverið verið fundin slíkur um slíkt.

Corbyn, fyrrverandi formanni flokksins var meira að segja vikið úr flokknum, vegna þessa.  Þó eru líklega fjölmargir af þeim einstaklingum sem eru einmitt "sekir" í málinu enn í flokknum.

En flestir skynsamir stjórnmálamenn (og aðrir) sjá auðvitað að Samfylkingin hefur ekkert með þetta að gera og alger óþarfi að ræsa Loga Má Einarsson í pontu til að gera grein fyrir afstöðu sinni til þess máls.

Þá má auðvitað benda Þorgerði Katrínu á að rifja upp sögu "systurflokks" Viðreisnar á Írlandi og hvernig afstaða hans (og hluta hans er enn) er til fóstureyðingalöggjafar.

Kaþólikkar og áhrif þeirra í stjórmmálum eru víða til vandræða í heiminum hvað þennan málaflokk varðar.

Ef til vill væri líka gott fyrir Þorgerði Katrínu að velta því fyrir sér hvers vegna ríkisstjórnin í Eistlandi, sem er leidd af "systurflokki" Viðreisnar, hafi ákveðið að halda þjóðaratkvæði um hvort að hjónaband geti aðeins verið á milli "manns og konu".

Svo að allrar sanngirni sé gætt, held ég að "Miðflokkurinn" (Center Party á Ensku og Keskkerakond á Eistnesku), "systurflokkur" Viðreisnar í Eistlandi (er það ekki skondið að "Miðflokkurinn" og Viðreisn séu "systurflokkar"), hafi ekki verið mjög áfram um málið en samstarfsflokkarnir hafi haft það í gegn. En "prinsippin" eru ekki sterkari en það.

Reyndar hefur þessi "systurflokkur" Viðreisnar í Eistlandi verið umleikinn spillingarmálum og þótt hallur undir Rússa.  Jafnvel þótt hafa vafasöm tengsl við Pútin. 

En það er engin ástæða til þess að slíkt hafi áhrif upp á Íslandi.

En persónulega hefur mér þótt Þorgerður Katrín setja niður við málflutning sem þennan.  Hún hefur líklega einnig verið allra Íslenskra stjórnmálamanna duglegust við að reyna að skapa einhver hugrenningatengsl á milli pólítískra andstæðinga sinna og Trump.

Það ber að mínu mati vott um málefnafátækt, sem ef til vill helst í hendur við minnkandi erindi Viðreisnar í Íslenskri pólitík.

P.S.  Því má svo bæta við að "Miðflokkurinn" (Keskerakond) í Eistlandi, "systurflokkur" Viðreisnar, er af mörgum talinn "popúlískur" flokkur, þó að um slíka "stimpla" sé gjarnan deilt.


mbl.is Sakaði Þorgerði Katrínu um „þvætting“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtið hagræði við sláttinn

Við eigum það líklega sameiginlegt Reykjavíkurborg og ég að grassláttar er gjarna oftar þörf en að mér þætti best.

Í gær sló ég lóðina hjá mér í 6. sinn það sem af er sumri.

Mér hefur þó ekki dottið það snjallræði í hug að þekja hluta lóðarinnar með grjóthrúgum til að minnka grassláttinn.

Hjá mér er þessu eiginlega öfugt farið.

Mér finnst best að hafa beinar línur og fátt sem þvælist fyrir við sláttinn.  Slátturinn finnst mér vinnast best þar sem fátt er sem þarf að slá í kringum og hvað þá að beita "orfinu".

Ég hefði talið að á svæði sem þessu væri fljótlegast og einfaldast fyrir stóra sláttuvél að slá ef ekkert væri í vegi fyrir henni.

P.S. Einhverjir myndu sjálfsagt velta fyrir sér hvort að efnið væri ekki betur komið í annarri notkun, sem og hvort að "gróðurhúsaáhrif" flutnings og minna grass hefði verið reiknuð út.

Vangaveltur vakna einnig um hvernig Reykjavíkurborg hyggst koma í veg fyrir að illgresi skjóti rótum í grjóthrúgunum?

 


mbl.is Malarhrúgurnar minnka grasslátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illa upplýstir borgarfulltrúar? Eða einbeittur brotavilji?

Reykjavíkurflugvöllur á sér merkilega sögu og undanfarna áratugi hefur hann verið eitt af stærri deilumálum á Íslandi.

Persónulega get ég vel skilið rök þeirra sem telja þetta eftirsóknarverðasta byggingarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu.

En ég get einnig skilið rök þeirra sem vilja halda flugvellinum þar sem hann er.  Vegna nálægðar við Landspítalann, vegna góðs aðgengis að miðbæ Reykjavíkur og stjórnsýslu Íslendinga sem er að stórum hluta staðsett þar.

Einnig er kostnaður við uppbyggingu á öðrum flugvelli gríðarlegur og það er vandséð að mínu mati að innanlandsflug lifði af flutning til Keflavíkurflugvallar.

En í landi eins og Íslandi eru flugsamgöngur mikilvægar, ekki síst hvað varðar heilbrigðis- og öryggismál.

Því verður vandséð að hægt sé að leggja niður Reykjavíkurflugvöll án þess að sambærilegur eða betri kostur komi til.

Það er því ólíklegt að þetta deilumál verði til lykta leitt á næstu árum.

En hinir mismunandi "R-lista meirihlutar" sem stjórnað hafa Reykjavík undanfarin áratug eða svo virðast hafa ákveðið að beita "spægipylsuaðferðinni" til að koma Reykjavíkurflugvelli fyrir kattarnef, það er skera af honum sneið eftir sneið.

En fyrir nokkrum dögum rakst ég á umræður um Reykjavíkurflugvöll á Vísi.is, en umræðan fór fram í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni.

Þar tókust á Pawel Bartosek (Viðreisn) fyrir hönd meirihlutans (sem þó hlaut færri atkvæði en minnihlutinn) og Vigdís Hauksdóttir (Miðflokkurinn) fyrir hönd minnihlutans.

Þetta eru fróðlegar umræður og vert að hlusta á.

Ég hef alltaf borið nokkra virðingu fyrir Pawel sem stjórnmálamanni, en í þessu viðtali tókst honum að þurka hana að mestu leyti út.

Hann virðist illa upplýstur, ekki vita (eða vilja viðurkenna) hvað er að er að gerast þegar talað er um flugskýli flugfélagsins Ernis. 

Hann vitnar ítrekað í kosningu um flugvöllinn sem fór fram 2001 sem eitthvað sem ekki megi líta fram hjá, hún náði ekki bindandi úrslitum, enda hvorki þátttakan næg eða úrslitin nógu afgerandi.  Munurinn á fylkingum var 385 atkvæði og kosningaþátttakan var í kringum 34%.

Þarna þótti mér stjórnmálamaðurinn Pawel setja mikið niður.

 

 

 


mbl.is Verða að virða samkomulagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalaskoðun í Montreal?

Hvalir eiga það til að skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum, en ekki er vitað til þess áður að þeir sýni sig mikið í Montreal.  Þó hafa smærri hvalir s.s. hrefnur og mjaldrar einstöku sinnum heiðrað borgina með nærveru sinni.

En nú hefur  hnúfubakur (humpback whale) glatt borgarbúa síðan í gær.  Ekki er vitað til þess að hvalur af slíkri stærð hafi áður sést jafn langt inn í landi.

Lawrence áin er stór og mikil og fær býsna stórum skipum, þannig að hvalurinn á ekki erfitt með að synda, en þó töldu einhverjir að hann væri þreyttur á að synda á móti straumnum.

Svo er auðvitað spurning með æti í ánni.

En sjón er sögu ríkari og auðvitað var mikill fjöldi mættur í höfnina í Montreal til að sjá og taka myndir.

 

 

 

 


Er þetta ekki bara "sjó off"?

Það hefur verið "stöðug barátta" síðan ég man eftir mér við að styrkja og vernda Íslenskuna.

En hvað er verið að vernda? 

Íslenskuna sem var töluð árið 1900?  Árið 1950?  Árið 1970?

Eða er eingöngu verið að vernda að til sé eitthvað sem er ber heitið Íslenska?

Það þarf ekki að hlusta lengi á Íslenskt útvarp til að heyra viðtöl sem eru svo enskuskotin að sá sem ekkert skildi í hinu engilsaxneska máli, næði ekki fullum skilningi á því sem rætt var um í viðtalinu.

Þannig finnst mér alveg nóg að segja að Íslenska sé opinbert tungumál Íslands.

Að ríkinu sé skylt "að styðja hana og vernda" er svo loðið og teyjanlegt að það hefur enga þýðingu.

Hvað þyrfti Íslenskunni að "hraka" mikið svo að augljóst væri að Íslensk stjórnvöld væru að brjóta stjórnarskránna, með því að standa sig ekki í stykkinu við að "vernda hana og styrkja"?

Perónulega er ég þeirrar skoðunar að best fari á að stjórnarskrá sé með frekar einföldum og skýrum hætti, forðast sé orðskrúð og "feel good" atriði eins og lagt er til hér.

Og fyrst að minnst er á þjóðkirkjuna í fréttinni á að mínu mati að fella þá grein niður.

Þar fækkar jafnt og þétt og lítill meirihluti þjóðarinnar á ekki að hafa stjórnarskrárvarinn rétt á kostnað minnihlutans.

Það er tímaskekkja í stjórnarskrá.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Ríkismálið íslenska í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bocelli streymir á Páskadag

Það hafa margir gaman af Andrea Bocelli (ég er reyndar ekki einn af þeim, en svo margir sem ég þekki eru aðdáendur, að ég ákvað að pósta þessu hér).  Eins og margir listamenn hefur hann ákveðið að streyma tónlist sinni til áhorfenda.

Tónleikar hans verða á Páskadag, að ég held kl. 17:00 að Íslenskum tíma.

Tónleikarnir verða haldnir án áhorfenda í Duomo dómkirkjunni í Milano, en streymt beint á persónulegri YouTube rás Bocelli. Eða þá hér.

Annars hef ég rekist á svo mikið af góðu efni sem er streymt á netinu undanfarið, að ég hef langt frá því komist yfir það.

Pósta ef til vill fleiru fljótlega.

 

 

 

 


mbl.is Tónleikum Andrea Bocelli frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræsni Evrópusambandsríkjanna

Nú er Brexit loksins orðin staðreynd. Bæði Evrópusambandið og þjónar þess í Bretlandi urðu að játa sig sigraða þegar Breska þjóðin felldi dóm sinn í kosningum í desember.

"Sambandið" gat ekki þvælt málin lengur, hundsað úrslitin, eða efnt til annarar þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og svo oft hefur orðið raunin áður, þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki verið "Sambandinu" þóknanlegar.

Blákalt lýðræðið blasti við þeim.

Þá byrjar undirbúningur fyrir samningaviðræður.

Þá ber svo við að "Sambandslöndin" vilja draga á flot allar deilur sem sem þú kunna að hafa haft við Breta í gegnum aldirnar.

Spánn kemur fram með Gíbraltar og Grikkir byrja að tala um "Elgin marmara lágmyndirnar".

En eru þetta ekki eðlilegar kröfur kann einhver að spyrja?

Já og nei.

Þetta á ekkert erindi í fríverslunarviðræður.

En hins vegar, ef "Sambandið" ætlar að endurskoða stefnu og skoðanir sínar í slíkum málum, er betra að taka það upp á öðrum vettvangi.

Getur t.d. verið að Evrópusambandið sé andsnúið að Spánn eigi landsvæði handan Miðjarðarhafsins, í Afríku?

Hvað með allar landareignir Frakka um víða veröld?

En ef til vill er best að leysa allan slíkan ágreining með skipulögðum, lýðræðislegum,  sannjörnum atkvæðagreiðslum, sem væru undir alþjóðlegu eftirliti, hvort sem um er að ræða Gíbraltar, nú eða Katalóníu.

Og hvað varðar meintan "listaverkastuld" Breta í Grikklandi, þá er það sannkallað "Pandórubox", eða ég veit ekki hvort að veröldin sé reiðubúin til þess að það sé opnað.

Ætti að ræða um listaverk sem herir Napóleons rændu á Ítalíu? Nú eða alla fornmunina/listaverkin sem Frakkar rændu í Egyptalandi (þeir eru reyndar langt frá því að vera þeir einu sem eru sekir). 

Ítalir hafa meira að segja á stundum viljað að Mona Lisa snúi heim, því vissulega er hún máluð á Ítalíu, af Ítala, en ekki í Frakklandi.

Hvað um hvernig Spánverjar fóru ránshendi um S-Ameríku? Skyldi eitthvað af þeim list/fornminjum enn að vera að finna á Spáni?

Skyldi Evrópusambandið ætla að að krefjast þess að Rússar skili öllum þeim listmunum sem þeir stálu í lok síðari heimstyrjaldar í Þýskalandi, mörgum sem Þjóðverjar höfðu áður stolið hér og þar í Evrópu?

Eða er "Sambandið" of hrætt við að Rússar skrúfi fyrir gasið?

En það er merkilegt að mörg "Sambandsríkjanna" hafa lýst þeirri skoðun sinni að samstarf "Sambandinsins" og Bretlands í varnarmálum verði jafn mikilvægt og áður og lítið sem ekkert þurfi að breytast.

Slíkum "smámunum" er óþarfi að blanda saman við fríverslunarsamninga.

Sú afstaða helgast auðvitað af því að Bretland var fremsta herveldið (þó að það hafi vissulega látið á sjá) innan "Sambandsins".

Því miður bendir framkoma "Sambandsins" til þess að jafn líklegt sé og ekki að Bretland yfirgefi Evrópusambandið að fullu um næsu áramót, án þess að viðskiptasamningur liggi fyrir.

Það verður til tjóns fyrir báða aðila og vitanlega mun fleiri ríki.

Það verður fyrst og fremst vegna hræsni, hroka og hefnigirni Evrópusambandsins.

Slík er "smásál" "Sambandsins".

Það er vert að hafa í huga.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband