Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Skyldu þeir hafa hugleitt að segja af sér, eða hætta?

Það er mikið fjallað um traust í Íslensku þjóðfélagi þessa dagana, aðallega er þó verið að fjalla um skort á því hér og þar og vissulega hafa kannanir leitt í ljós að Íslendingar bera ekki mikið traust til stofnana þjóðfélagsins.

Kröfur hafa verið háværar um afsagnir og berasta þær hæstar frá bloggheimum og fjölmiðlum.

Konnun

 

Í einum af þeim tölvupóstum sem mér hafa borist undanfarna daga var graf og stutt umfjöllun um traust sem Íslendingar bera til fjölmiðla þeirra sem á landinu starfa.

Það er ekki margt sem vekur sérstaka athygli í grafinu, Fréttastofa Sjónvarps stendur eins og oft áður best að vígi og mbl.is og Morgunblaðið koma vel út, þó að það veki ef til vill nokkra athygli að netmiðillinn skákar móðurveldinu örlítið.

En það er þó einn miðill sem stendur alveg einn og sér ef marka má könnunina.  Það er DV, rétt um 70% Íslendinga segjast bera lítið trausts til miðilsins, tæp 5% bera mikið traust til hans.

Í takt við tíðarandann, er ekki hægt að verjast því að sú spurning vakni:  Hefur ritstjórn DV og eigendur DV hugleitt að segja af sér, jafnvel að hætta hreinlega útgáfunni?


Tveir tölvupóstar - Bingi og Steini og Össurarsaga af bankaútrásinni.

Ég fékk nokkuð marga tölvupósta í dag, fæstir þeirra verulega merkilegir, en innihald tveggja vakti þó athygli mína.  Í báðum var tengilll á vefsíður. 

Í öðrum var tengill á nafnlausan dálk í DV (ég les aldrei DV, en þar virðist ýmislegt athyglivert að finna, samanber þetta blogg mitt).  En tengillinn var á nafnlausan dálk í DV, en þeir virðast vera búnir að lífga við Svarthöfða.

Eitthvað virðist Svarthöfða DV vera uppsigað við starfsbræður sína á Fréttablaðinu.  Ef til vill hefur þeim runnið kapp í kinn, nú þegar þessir samkeppnisaðilar eru eign óskyldra aðila, eftir að DV skipti um eigendur í "alvöru viðskiptum".

En pistillinn er býsna harðorður, en þar má m.a. lesa:

"Stundum villist fólk í blaðamennsku án þess að miðlun frétta og upplýsinga sé því sérstakt kappsmál. Sumir komast jafnvel til áhrifa á fjölmiðlum sem er óheppilegt þegar þeir freistast til þess að hafa áhrif á gang mála og hanna atburðarás í stað þess að greina frá atburðum."

"Þegar Dúettinn Matti og Styrmir þagnaði hófu Bingi og Steini, ekki Dúmbó og Steini, upp raust sína. Þessir tveir ritstjórar Fréttablaðsins í Skaftahlíðinni eru á bólakafi í pólitík og eru hvor um sig með puttana á kafi í innansveitarkrónikum tveggja stjórnmálaflokka.
Þorsteinn grefur leynt og ljóst undan sínum forna fjanda Davíð Oddssyni, æðstapresti Sjálfstæðisflokksins, á meðan Björn Ingi er byrjaður að rifja upp gamla og góða hnífakaststakta með Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins, sem skotskífu.

Þorsteinn hefur það umfram Binga að hann er sveipaður ákveðnum virðuleika sem hefur slípast til í gegnum árin í ríkisstjórnum og utanríkisþjónustunni auk þess sem hann skrifar oft einhver orð af viti. Hvað Björn Ingi er að vilja upp á dekk í fjölmiðlum með allan sinn slóða á bakinu er hins vegar hulin ráðgáta. Á meðan hann var taglhnýtingur Halldórs Ásgrímssonar var talað um hann sem PR-mann, jafnvel spunameistara. Örlög Halldórs segja allt sem segja þarf um hæfileika hans á því sviði og brölt hans frá því hann hrökklaðist úr borgarstjórn með REI-forarsletturnar upp eftir bakinu á stífpressuðum fötum sem Framsóknarflokkurinn keypti handa honum sýnir að hann hefur ekkert lært á þessari grýttu braut."

"Það segir sitt um veruleikafirringu Björns Inga að hann telji sig þess umkominn að fjalla um viðskiptalífið, sem blaðamaður, þegar horft er til hans nánustu fortíðar. Björn Ingi lagði sérstaka lykkju á leið sína í leiðara Fréttablaðsins nýlega til þess að ávíta sauðsvartan almúgann fyrir þátt sinn í efnahagshruninu. Þar fauk nú grjót úr glerhúsi manns sem naut sín vel í útrásarflippinu. Höfuðið beit hann svo endanlega af skömminni um síðustu helgi þegar hann fékk útrásarvíkinginn Hannes Smárason í huggulegt spjall til sín í sjónvarpsþáttinn Markaðinn. Ekki var nú meintur blaðamaður mikið að þjarma að Hannesi en kannski var ekki von á mikilli dýnamík í spjalli tveggja aðalleikaranna í REI-afferunni."

En það er vel þess virði að lesa pistilinn í heild sinni.

Hinn tölvupósturinn er meiri söguskoðun, enda mun lengra síðan að hann var ritaður, en en það var 26. mars 2006, sem þessi pistill birtist á heimasíðu Össurar Skarphéðinssonar, núverandi iðnaðarráðherra, en þegar pistillinn var ritaður, var hann þingmaður í stjórnarandstöðu.  Pistillinn ber heitið "Danska Moggakreppan", og fjallar um hvað Morgunblaði er óforskammað að skrifa illa um Íslenkus útrásarbankavíkingana.

En stíllinn er góður og má m.a. lesa eftirfarandi gullkorn í pistlinum:

"Útrás og styrkur íslensku bankanna er það jákvæðasta sem hefur gerst í íslensku athafnalífi síðasta áratuginn. Það stórkostlegasta við hana er ekki bara auðurinn sem þeir hafa skapað og fært inn í samfélagið, heldur hinir miklu möguleikar sem þeir skapa fyrir ný, hálaunuð og fjölbreytt störf fyrir unga fólkið."

"Bankarnir eru það mikilvægasta sem gerst hefur síðustu áratugi í íslensku atvinnulífi hvað varðar nýja möguleika fyrir unga Íslendinga til að fá eftirsóknarverð, vellaunuð störf - eða stuðning við góðar viðskiptahugmyndir.

Eignamyndunin sem orðið hefur í krafti bankanna skiptir líka velferð almennra borgara mjög miklu. Lífeyrissjóðirnir fjárfestu sem betur fer stóra hlunka í bönkunum tiltölulega snemma á stækkunaferli þeirra. Ég las einhvers staðar að hagnaðurinn sem þeir hefðu haft til þessa af þeim fjárfeestingu dygði sjóðunum til að borga allan maka- og örorkulífeyrinn þessi árin. Það munar um minna.

Heimurinn er alltaf að snúast á hvolf. Í gamla daga voru það kommarnir sem voru hræddir við hagnað og nýja peninga og sáum skrattann gægjast úr andlitsdráttum sérhvers sem hagnaðist. Í dag er það Mogginn. Það er engu líkara en Mogginn sjái ofsjónum yfir að það er nýtt fólk, sem ekki tilheyrir gömlu ættarveldunum, sem er orðinn drifkraftur efnahagslífsins í gegnum bankana. Hann fer á taugum ef einhver græðir sem ekki er í liðinu.

Heimsendaforsíða Moggans á dögunum sem fól ekki í sér neitt annað en spádóm um bráða kreppu bankanna átti líklega stærsta þáttinn í að gera íslenskt efnahagslíf og sérstaklega íslensku bankana að skotspæni erlendra öfundarmanna - einkum danskra. Mogginn nýtur gamals álits sem virðulegasta blað Íslandssögunnar. Það er málgagn atvinnulífsins að fornu en ekki nýju, og er þar að auki staðsett hægra megin í samfélaginu og þekkt fyrir að tala röddu ríkisstjórnarinnar. Þegar slíkt blað hefur upp raust sína með þeim hætti sem Mogginn hefur ítrekað gert gegn íslensku bönkunum - og náði hámarki í endemisforsíðunni með heimsendaspánni um daginn - þá vekur það athygli langt út fyrir landssteinana.

Heimsendaforsíðan, þar sem hrun krónunnar og markaðarins og sérstaklega bankanna, var sett upp í stríðsfyrirsögn einsog þriðja heimsstyrjöldin væri brostin á, átti örugglega ríkan þátt í því að gera íslensku bankana að skotspæni erlendra fjölmiðla og veikja um sinn tiltrú á þeim. Forsíðan kom einsog himnasending til svifaseinna danskra fjölmiðlamanna sem ná ekki upp í nefið á sér af öfund vegna velgengni íslensku bankanna - og búa enn að viðhorfi nýlenduþjóðar til hjálendu.

Það er athyglisvert að Mogginn er búinn að vera lengi við þetta heygarðshorn. Fyrir jólin gerði Mogginn miklar fréttir úr texta sem kom úr smiðju Royal Bank of Scotland og varð þá, einsog núna, að skrifa sig frá vitleysunni næstu daga á eftir."

"Ég tek það fram að ég á sjálfur enga hluti í þessum bönkum og því síst um sárt að binda. En ég dái framtak bankanna og finnst þeir standa sig mjög vel, og skil ekki þetta sífellda hælbit Moggans. Væri hann samkvæmur sjálfum sér ætti hann einsog einn dag að snúa sér að efnahagsstefnu ríkisins og reikna út hvað yfirvofandi verðbólguskot vegna viðskiptahalla og afleiðinga hans munu kosta almenna landsmenn á næstu misserum.

Auðvitað skrifar Mogginn ekkert um það. Hann er lesblindur þegar kemur að því að gagnrýna það sem raunverulega er að í efnahagskerfinu, en skrifar af gamalli og óskiljanlegri heift um KB og Landsbankann, sem helst er tekið mark á af afdönkuðum dönskum bankastjórum sem kunna ekki að reka sína eigin banka - enda verða þeir vonandi orðnir íslenskir fyrr en seinna."

Ég er ekki að halda því fram að Össur sé sá eini sem lofsöng bankana, það var enda trú flestra að þeir væru sterk og góð fyrirtæki, sem á sinn hátt þeir voru.

Skrif Össurar (og athugið að hann sat í stjórnarandstöðu þegar pistillinn er skrifaður) enduróma skoðanir sem voru ráðandi á Íslandi.

En þegar margir segja að fjölmiðlar hafi allir sem einn stigið dansinn í kringum "gullbankana" er það heldur ekki rétt, en fáir hlustuðu á gagnrýnina, eða töldu hana jafnvel ósvífna og verk hælbíta.

Em svona var Ísland - árið 2006.

Pistilinn í heild má finna hér


Skrýtinn fréttaflutningur - Af afsögnum

Ég verð að halda fram þeirri skoðun minni að mér finnst frétta flutningur mbl.is oft skrýtinn, og verða æ skrýtnari.

Gott dæmi um það er þessi frétt.  Hér nær fréttamaður mbl.is í fjármálaráðherra og spyr hann í þaula um IceSave reikninga Landsbankans sáluga.  Fréttin snýst um það að ráðherrar komi af fjöllum. 

Þó kemur skýrt fram í svari fjármálaráðherra að málefni banka eða IceSave heyri hreint ekki undir hans ráðuneyti, fjármálaráðuneytið, það heyri undir viðskiptaráðuneytið.  Reyndar hélt ég að sú staðreynd hefði ekki farið fram hjá neinum í fréttaflutningin undanfarinna vikna, en einhverra hluta vegna virðist sú staðreynd ekki hafa verið fréttamanni mbl.is kunn.  Eða megum lesendur mbl.is eiga von á því að fréttamaðurinn leiti hófanna hjá fleiri ráðherrum, um hvenær þeim varð kunnugt um vandræði Landsbankans hvað varðaði IceSave reikningana?  Fáum við ef til vill að heyra í Þórunni Sveinbjarnardóttur, Guðlaugi Þór, Ingibjörgu Sólrúnu eða Jóhönnu Sigurðardóttur? 

Getur það verið að þau hafi öll "komið af fjöllum"?

En þessi meðhöndlun flúttar við ákall Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, en eftir honum er haft í frétt á Vísi, að Björgvin viðskiptaráðherra og Árni fjármálaráðherra ættu að segja af sér. Hann virðist þeirrar skoðunar, eins og að mér finnst undirtónn fréttarinnar, að Björgvin G. Sigurðsson og Árn Mathiesen beri ábyrgð á bankahruninu, umfram aðra ráðherra.

Í fréttinni eru reyndar ekki að finna nein rök fyrir þessarri skoðun Samfylkingarmannsins og forseta ASÍ, en flestir ættu þó að hafa þá vitneskju úr fréttum að viðskiptaráðherra er jafnframt bankamálaráðherra og Fjármálaeftirlitið heyrir undir hann.  Því er varla hægt að komast hjá því að einhver hluti ábyrgðar bankahrunsins falli á hans axlir. 

En hvað með fjármálaráðherra?  Ber hann einhverja ábyrgð á bankahruninu umfram aðra ráðherra?

Hafa ekki ríkisfjármálin verið í þokkalegu standi, þó að ég hafi reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að þó þurfi að skera verulega niður.  En varla ber Árni heldur einn ábyrgð á því?

Að þessu sögðu þá get ég verið sammála Gylfa að það gæti verið klókt og rökrétt að skipta um ráðherra í ríkisstjórninni, það gæti aukið trú og tiltraust almennings á henni.

En auðvitað fer best á því að leiðtogar ríkisstjórnarinnar ákveði það, ég get ekki séð að forseti ASÍ geti gert kröfu um að ráða því.  Betur færi þá líka á að hann færði rök fyrir máli sínu.

En það getur líka verið að hér tali Samfylkingarmaðurinn Gylfi Arnbjörnsson, en hann hafi hreinlega ekki treyst sér til að nefna aðeins Samfylkingarráðherra til sögunnar.

Ef til vill sér hann eftir því að hafa ekki skellt sér í prófkjörið, þá hefði hann hugsanlega meira um ráðherramálið að segja, það er að segja ef hann hefði komist alla leið á þing.


mbl.is Ráðherrarnir koma af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er bara órökstutt bull: Bjargbrúnarkenning seðlabankastjóra slegin af

Einn af hörðustu gagnrýnendum seðlabankastjóra, Seðlabankans og peningamálastefnunar hefur verið hagfræðingurinn Guðmundur Ólafsson.  Hann hefur verið óþreytandi í gagnrýni sinni og hefur oft ekki vandað seðlabankastjórum kveðjurnar.

En í dag er ég leit á síðu Björns Bjarnasonar rakst ég á umfjöllun um athyglivert viðtal við Guðmund á vefsíðu DV fyrir u.þ.b. ári síðan, þar segir:

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir ekki sjá betur en að bandaríski hagfræðingurinn Arthur B Laffer hafi í fyrirlestri hér á landi fyrir helgina slegið af kenningu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að þjóðin væri á bjargbrúninni vega skuldasöfnunar fyrirtækja og einstaklinga erlendis. "Þetta er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Það var í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartaði yfir því um daginn að almenningur keypti leikföng," segir Guðmundur. Nánar er rætt við Guðmund um þetta í nýju viðtali hér á vefsíðu dv.is.

Tengillinn sem vísar á viðtalið virkar ekki og virðist sem viðtalið sé ekki lengur á vefnum hjá DV, það er óneitanlega skaði, en ef einhver hefur tengil á viðtalið væri vissulega fengur að þeim tengli.

Björn birtir glefsur úr viðtalinu á vef sínum.

P.S. Eins og sjá má í athugsemdum, er kominn tengill á viðtalið við Guðmund, það má lesa hér, bestu þakkir til Sveins hins unga.


Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir.

Ég get ekki gert að því að ég hálf glotti þegar ég les svona fregnir.  Eina sem er fréttnæmt í þessu er að hugsanlega verður ekki af sameiningu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins.

Hvaða máli skiptir hvað Jón Ásgeir á mikið í Rauðsól/365/Dagsbrún/Nýrri sýn?

Eru allir búnir að gleyma hvernig eignarhaldið á 365/Dagsbrún lengst af?

Er hægt að ætlast til þess að allir glenni upp þverrifuna og klappi saman höndunum ef Jón Ásgeir seldur einhvern hluta af Rauðsól/365/Dagsbrún/Nýrri sýn til viðskiptafélaga sinna eins og Pálma Haraldssonar?

Þetta skiptir engu máli, enda í raun ekki hægt að setja lög sem koma í veg fyrir að "blokkir" eignist fjölmiðla, það er tómt mál að tala um, það má alltaf finna viljuga leppa.

Það er lang einlægast að vitna í núverandi aðstoðarmann Samgönguráðherra og varaþingmann Samfylkingarinnar, Róbert Marshall:

"Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir."


mbl.is Tilbúinn til að fara niður fyrir 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru flokksmiðlar að snúa aftur?

Það er alltaf ástæða til að fagna nýjum fjölmiðlum.  Sá rekstur er án efa erfiður nú, en nauðsynlegri sem aldrei fyrr.  Því vona ég að þessi nýji fjölmiðill gangi vel.

Það hlýtur að vekja athygli að miðiðill er styrktur af stjórnmálaflokki, slíkt fyrirkomulag hefur ekki verið til staðar um nokkr hríð á Íslandi, en vissulega hefur mátt sjá þess mörg merki að Íslenskt þjóðfélag stefndi "afturábak".

Ef til vill er það tímanna tákn, að nú séu það stjórnmálaflokkur sem styðji fjölmiðla, en ekki fjölmiðlar sem styðji stjórnmálaflokk, eins og hefur gjarna verið í umræðunni undanfarin ár.

Ég vil taka það fram að ég hef ekkert á móti þessu fyrirkomulagi, þegar það er sett hreint fram og án alls feluleiks er jafn sjálfsagt að stjórnmálaflokkar komi að rekstri fjölmiðla sem aðrir.


mbl.is Smuga á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsíður

Aðalfrétt dagsins er að sjálfsögðu kjör Barack Obama.

Globe and Mail er með skemmtilega seríu sem sýnir forsíður blaða héðan og þaðan.


Eru Egill, Samfylkingin og Sigrún Elsa að reyna að endurrita söguna?

Það vakti athygli mína nú þegar ég var að horfa á Silfur Egils á netinu að Egill virtist þakka Sigrúnu Elsu Smáradóttur að REI og GGE voru ekki sameinuð og þekking og viðskiptavild Orkuveitunnar komst ekki í hendur "útrásarvíkinganna".

Elsa vildi nú ekki viðurkenna að hún hefði gert það ein og sér, en virtist nú samt vilja eigna sér einhvern heiður af þessu.

Einhvern veginn get ég ekki skilið hvernig minnihlutinn fór að því að stöðva málið. 

En þessi frétt RUV skýrir ef til vill málið að einhverju marki.

Fréttin sem heild er hér:

 


Einhvern veginn fæ ég ekki skilið hvernig borgarfulltrúinn sem greiddi atkvæði með samrunanum og segist 12. október 2007 ekki hafa skipt um skoðun (þá var fyrsti meirihlutinn sprunginn) hafi bjargað miklu í þessu máli.
Auðvitað voru það "6. menningarnir" svokölluðu sem stoppuðu samrunann, annars hefði borgarstjórn samþykkt gjörninginn. Það var þess vegna sem Björn Ingi sprengdi meirihlutann.  Hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á því sem gerðist þá, er ljóst að þá er ljóst að með því var komið í veg fyrir samrunann.   Atkvæði Sigrúnar Elsu var greitt með samrunanum.
Hvað næst?
Fáum við að heyra um iðnaðarráðherrann sem barðist með kjafti og klóm gegn "orkuútrásinni" og bloggaði gegn henni dag og nótt?

Merkilegt

Hið ólíklegasta fólk er nú að uppgötva að það geti verið hætta á að eigendur noti þá til að koma sínum málstað og skoðunum á framfæri.

Er það ekki nokkuð eins víst og að 3. ár af hverjum 4. hafa 365 daga?


6. mest lesna fréttin á vefsíðu Globe and Mail

Ísland er venjulega ekki fyrirferðarmikið í Kanadískum fjölmiðlum.  Vissulega hefur þó mikið verið fjallað um Ísland undanfarnar vikur, oftast umfjöllun sem Íslendingar hefðu getað verið án.

En í dag er 9. mest lesna fréttin (þegar þetta er skrifað) á vef Globe and Mail um Íslendinga og hvernig þeir takast á við þá staðreynd að hafa verið stimplaðir hryðjuverkamenn af Gordon Brown og Bretum.

Fréttin (sem er að hluta til eða öll komin frá Reuters) segir frá framtaki Þorkels Þorkelssonar ljósmyndara, þegar hann myndaði "Íslenska hryðjuverkamenn".

Þetta framtak virðist hafa gefið ákaflega góða raun, vekur athygli á þeim órétti sem Íslendingar voru beittir af Bretum og umfjöllunin kemur frá Íslenskum sjónarhól, sem því miður hefur vantað nokkuð upp á.

Ákaflega lofsvert framtak hjá Þorkatli.  Það er spurning hvort að hann ætli ekki að setja upp vef þannig að umheiminum gefist tækifæri til þess að berja "hryðjuverkamennina" augum.

Íslendingar þurfa að nota öll tækifæri til að koma sínum málstað á framfæri.

P.S.  Þegar ég bæti þessu við, þegar klukkan er rétt ríflega 2. hér í Toronto (ríflega 6. á Íslandi) hefur greinin færst upp í 6. sæti.  Það þýðir að hún er lesin (og langt í frá bara af Íslendingum) og boðskapurinn kemst til skila.

Ég breytti því fyrirsögninni, úr 9 í 6.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband