Tveir tölvupóstar - Bingi og Steini og Össurarsaga af bankaútrásinni.

Ég fékk nokkuð marga tölvupósta í dag, fæstir þeirra verulega merkilegir, en innihald tveggja vakti þó athygli mína.  Í báðum var tengilll á vefsíður. 

Í öðrum var tengill á nafnlausan dálk í DV (ég les aldrei DV, en þar virðist ýmislegt athyglivert að finna, samanber þetta blogg mitt).  En tengillinn var á nafnlausan dálk í DV, en þeir virðast vera búnir að lífga við Svarthöfða.

Eitthvað virðist Svarthöfða DV vera uppsigað við starfsbræður sína á Fréttablaðinu.  Ef til vill hefur þeim runnið kapp í kinn, nú þegar þessir samkeppnisaðilar eru eign óskyldra aðila, eftir að DV skipti um eigendur í "alvöru viðskiptum".

En pistillinn er býsna harðorður, en þar má m.a. lesa:

"Stundum villist fólk í blaðamennsku án þess að miðlun frétta og upplýsinga sé því sérstakt kappsmál. Sumir komast jafnvel til áhrifa á fjölmiðlum sem er óheppilegt þegar þeir freistast til þess að hafa áhrif á gang mála og hanna atburðarás í stað þess að greina frá atburðum."

"Þegar Dúettinn Matti og Styrmir þagnaði hófu Bingi og Steini, ekki Dúmbó og Steini, upp raust sína. Þessir tveir ritstjórar Fréttablaðsins í Skaftahlíðinni eru á bólakafi í pólitík og eru hvor um sig með puttana á kafi í innansveitarkrónikum tveggja stjórnmálaflokka.
Þorsteinn grefur leynt og ljóst undan sínum forna fjanda Davíð Oddssyni, æðstapresti Sjálfstæðisflokksins, á meðan Björn Ingi er byrjaður að rifja upp gamla og góða hnífakaststakta með Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins, sem skotskífu.

Þorsteinn hefur það umfram Binga að hann er sveipaður ákveðnum virðuleika sem hefur slípast til í gegnum árin í ríkisstjórnum og utanríkisþjónustunni auk þess sem hann skrifar oft einhver orð af viti. Hvað Björn Ingi er að vilja upp á dekk í fjölmiðlum með allan sinn slóða á bakinu er hins vegar hulin ráðgáta. Á meðan hann var taglhnýtingur Halldórs Ásgrímssonar var talað um hann sem PR-mann, jafnvel spunameistara. Örlög Halldórs segja allt sem segja þarf um hæfileika hans á því sviði og brölt hans frá því hann hrökklaðist úr borgarstjórn með REI-forarsletturnar upp eftir bakinu á stífpressuðum fötum sem Framsóknarflokkurinn keypti handa honum sýnir að hann hefur ekkert lært á þessari grýttu braut."

"Það segir sitt um veruleikafirringu Björns Inga að hann telji sig þess umkominn að fjalla um viðskiptalífið, sem blaðamaður, þegar horft er til hans nánustu fortíðar. Björn Ingi lagði sérstaka lykkju á leið sína í leiðara Fréttablaðsins nýlega til þess að ávíta sauðsvartan almúgann fyrir þátt sinn í efnahagshruninu. Þar fauk nú grjót úr glerhúsi manns sem naut sín vel í útrásarflippinu. Höfuðið beit hann svo endanlega af skömminni um síðustu helgi þegar hann fékk útrásarvíkinginn Hannes Smárason í huggulegt spjall til sín í sjónvarpsþáttinn Markaðinn. Ekki var nú meintur blaðamaður mikið að þjarma að Hannesi en kannski var ekki von á mikilli dýnamík í spjalli tveggja aðalleikaranna í REI-afferunni."

En það er vel þess virði að lesa pistilinn í heild sinni.

Hinn tölvupósturinn er meiri söguskoðun, enda mun lengra síðan að hann var ritaður, en en það var 26. mars 2006, sem þessi pistill birtist á heimasíðu Össurar Skarphéðinssonar, núverandi iðnaðarráðherra, en þegar pistillinn var ritaður, var hann þingmaður í stjórnarandstöðu.  Pistillinn ber heitið "Danska Moggakreppan", og fjallar um hvað Morgunblaði er óforskammað að skrifa illa um Íslenkus útrásarbankavíkingana.

En stíllinn er góður og má m.a. lesa eftirfarandi gullkorn í pistlinum:

"Útrás og styrkur íslensku bankanna er það jákvæðasta sem hefur gerst í íslensku athafnalífi síðasta áratuginn. Það stórkostlegasta við hana er ekki bara auðurinn sem þeir hafa skapað og fært inn í samfélagið, heldur hinir miklu möguleikar sem þeir skapa fyrir ný, hálaunuð og fjölbreytt störf fyrir unga fólkið."

"Bankarnir eru það mikilvægasta sem gerst hefur síðustu áratugi í íslensku atvinnulífi hvað varðar nýja möguleika fyrir unga Íslendinga til að fá eftirsóknarverð, vellaunuð störf - eða stuðning við góðar viðskiptahugmyndir.

Eignamyndunin sem orðið hefur í krafti bankanna skiptir líka velferð almennra borgara mjög miklu. Lífeyrissjóðirnir fjárfestu sem betur fer stóra hlunka í bönkunum tiltölulega snemma á stækkunaferli þeirra. Ég las einhvers staðar að hagnaðurinn sem þeir hefðu haft til þessa af þeim fjárfeestingu dygði sjóðunum til að borga allan maka- og örorkulífeyrinn þessi árin. Það munar um minna.

Heimurinn er alltaf að snúast á hvolf. Í gamla daga voru það kommarnir sem voru hræddir við hagnað og nýja peninga og sáum skrattann gægjast úr andlitsdráttum sérhvers sem hagnaðist. Í dag er það Mogginn. Það er engu líkara en Mogginn sjái ofsjónum yfir að það er nýtt fólk, sem ekki tilheyrir gömlu ættarveldunum, sem er orðinn drifkraftur efnahagslífsins í gegnum bankana. Hann fer á taugum ef einhver græðir sem ekki er í liðinu.

Heimsendaforsíða Moggans á dögunum sem fól ekki í sér neitt annað en spádóm um bráða kreppu bankanna átti líklega stærsta þáttinn í að gera íslenskt efnahagslíf og sérstaklega íslensku bankana að skotspæni erlendra öfundarmanna - einkum danskra. Mogginn nýtur gamals álits sem virðulegasta blað Íslandssögunnar. Það er málgagn atvinnulífsins að fornu en ekki nýju, og er þar að auki staðsett hægra megin í samfélaginu og þekkt fyrir að tala röddu ríkisstjórnarinnar. Þegar slíkt blað hefur upp raust sína með þeim hætti sem Mogginn hefur ítrekað gert gegn íslensku bönkunum - og náði hámarki í endemisforsíðunni með heimsendaspánni um daginn - þá vekur það athygli langt út fyrir landssteinana.

Heimsendaforsíðan, þar sem hrun krónunnar og markaðarins og sérstaklega bankanna, var sett upp í stríðsfyrirsögn einsog þriðja heimsstyrjöldin væri brostin á, átti örugglega ríkan þátt í því að gera íslensku bankana að skotspæni erlendra fjölmiðla og veikja um sinn tiltrú á þeim. Forsíðan kom einsog himnasending til svifaseinna danskra fjölmiðlamanna sem ná ekki upp í nefið á sér af öfund vegna velgengni íslensku bankanna - og búa enn að viðhorfi nýlenduþjóðar til hjálendu.

Það er athyglisvert að Mogginn er búinn að vera lengi við þetta heygarðshorn. Fyrir jólin gerði Mogginn miklar fréttir úr texta sem kom úr smiðju Royal Bank of Scotland og varð þá, einsog núna, að skrifa sig frá vitleysunni næstu daga á eftir."

"Ég tek það fram að ég á sjálfur enga hluti í þessum bönkum og því síst um sárt að binda. En ég dái framtak bankanna og finnst þeir standa sig mjög vel, og skil ekki þetta sífellda hælbit Moggans. Væri hann samkvæmur sjálfum sér ætti hann einsog einn dag að snúa sér að efnahagsstefnu ríkisins og reikna út hvað yfirvofandi verðbólguskot vegna viðskiptahalla og afleiðinga hans munu kosta almenna landsmenn á næstu misserum.

Auðvitað skrifar Mogginn ekkert um það. Hann er lesblindur þegar kemur að því að gagnrýna það sem raunverulega er að í efnahagskerfinu, en skrifar af gamalli og óskiljanlegri heift um KB og Landsbankann, sem helst er tekið mark á af afdönkuðum dönskum bankastjórum sem kunna ekki að reka sína eigin banka - enda verða þeir vonandi orðnir íslenskir fyrr en seinna."

Ég er ekki að halda því fram að Össur sé sá eini sem lofsöng bankana, það var enda trú flestra að þeir væru sterk og góð fyrirtæki, sem á sinn hátt þeir voru.

Skrif Össurar (og athugið að hann sat í stjórnarandstöðu þegar pistillinn er skrifaður) enduróma skoðanir sem voru ráðandi á Íslandi.

En þegar margir segja að fjölmiðlar hafi allir sem einn stigið dansinn í kringum "gullbankana" er það heldur ekki rétt, en fáir hlustuðu á gagnrýnina, eða töldu hana jafnvel ósvífna og verk hælbíta.

Em svona var Ísland - árið 2006.

Pistilinn í heild má finna hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband