Færsluflokkur: Kjaramál

Kaup, kjör og kjararáð

Það er eðlilegt að mikið sé rætt um ákvarðanir kjararáðs. Það má eiginlega segja að þessi hækkun hafi legið í loftinu, allar götur síðan laun embættismanna var tilkynnt.  Það segir sig eiginlega sjálft.

Hvenær hækkunin er svo tilkynnt er ekki tilviljun, enda lang eðlilegast tíminn til að tilkynna slíka hækkun, þ.e.s.a. þegar þing er ekki starfandi.

Ég get alveg tekið undir að hækkunin er mikil og þar af leiðandi umdeilanleg. Að þingararkaup hækki um 338 þúsund á mánuði er gríðarhækkun.

Ef vilji er fyrir hendi hlýtur Alþingi að geta breytt þessari ákvörðun.

En það eru eins og oft fleiri en ein hlið á öllum málum.

Við hljótum að vilja að laun alþingismanna og ráðherra séu það góð að eftirsóknarvert sé fyrir reynsluríkt og velmenntað fólk að setjast á Alþingi.

Alþingismenn hafa í líklega haft laun sem eru ekki ósvipuð og margir sveitarstjórar, lægri en margir bæjarstjórar hafa ef ég hef skilið rétt.

Og þó að ég taki hatt minn ofan fyrir Degi B., að tilkynna að þessi hækkun muni ekki taka gildi hjá Borginni, finnst mér stór spurning að borgarstjóri (almennt, ekki tengt persónunni) eigi skilið að vera með sömu laun og forsætisráðherra.

Er þar ef til vill komin ein skýring á því að margir stjórnendur sveitarfélaga sækjast síður í þingmennsku en oft var áður?

Það þarf einnig að velta fyrir sér öðrum launagreiðslum. Almenningur velur sér þingmenn og borgar þeim eðlilega laun. 

En almenningur velur ekki formenn flokka. Því er óeðlilegt að almenningur greiði formönnum flokka launauppbót ef þeir eru ekki ráðherrar. Þetta er einfaldlega mál flokkanna.

Slíkt á alls ekki rétt á sér.

Þegar litið er til launakjara þingmanna og ráðherra togast á ýmis sjónarmið. Launin eiga að vera góð(um það eru líklega flestir sammála), en það er vissulega teygjanlegt hugtak. Ég man hins vegar varla eftir því að laun þingmanna hafi hækkað, án þess að stórum hópi þyki það "svívirða".

Em það er að mínu mati fyllilega ástæða til að fram fari heildarendurskoðun á launakjörum þingmanna, en ekki síður á hinum "pólítíska rekstri" hins opinbera. 

Persónulega vildi ég t.d. sjá mikinn niðurskurð, eða niðurfellingu á ríkisstyrkjum til flokkanna, en þar eins og í mörgu öðru veit ég að  eru skiptar skoðanir.

 

 

 

 


mbl.is Segir hækkanirnar „algjört rugl“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hárskurður sósíalistanna

Það þurfa flestir á hárskurði (klippingu) að halda og ég myndi ekki halda því fram að það sé ódýrt, en þó viðurkenni að alla jafna er þeim aurum nokkuð vel varið.

Hár er höfuðprýði.

En fréttirnar af launum hárskurðarmeistara Hollande Frakklandsforseta fá mig þó til að staldra við.

Svo virðist sem að Hollande hafi látið franska ríkið borga hárskurðarmeistara sínum í rétt undir 1.400.000 á mánuði, eða tæp 10.000 euro.

Vissulega kann þetta ekki að þykja há uphæð miðað við marga aðra vitleysuna sem hínn sósíalíski forseti frakka hefur framkvæmt á valdatíma sínum, en ég hygg þó að mörgum þyki nóg um, enda um persónulega eyðslu að ræða.

Er að undra þó að traust og tiltrú á mörgum "hefðbundnum" stjórnmálamönnum fari þverrandi?

Er að undra þó að hljómur sósíalistans Hollande þyki holur?

 

 

 


Þegar "barometið" er neglt fast

Hér og þar um netið hefur mátt sjá undarlegar fabúleringar um að Íslenska krónan sé mesta meinsemd samfélagsins og hún muni nokkurn vegin ein og óstudd ræna af Íslenskum launþegum öllum þeim kjarabótum sem þeir kunni hugsanlega að ná.

Yfirleitt fylgir það svo með að euroið sé "lækningin" sem Íslenskt efnahagslíf þurfi og myndi tryggja kaupmáttinn og stöðugleikann.

Það þarf þó ekki að leita lengi til að finna dæmi á Eurosvæðinu um það gagnstæða.

Vissulega hefur euroið verið stöðugri gjaldmiðill en Íslenska krónan, þó að það hafi skoppað umtalsvert upp og niður undanfarin ár. Það er enda erfitt að halda stöðugugum kúrs, í því gjaldmiðlastríði sem segja má að geysi, og í því efnahagsástandi sem ríkt hefur á Eurosvæðinu.

Þeir hafa enda verið margir neyðarfundirnir.

En þó að gengi gjaldmiðilsins hafi staðið þolanlega stöðugt, er ekki þar með sagt að laun þeirra sem fá útborgað í euro hafi gert það, né verðmæti húseigna hafi haldist í þeim gjaldmiðli.

Staðreyndin er nefnilega sú, að þegar gjaldmiðilinn sýnir þess engin merki að efnahagurinn er ekki á réttri leið, eða að framleiðslukostnaður eykst hraðar en í samkeppnislöndunum, verður eitthvað annað undan að láta og því meir sem lengri tími líður áður en gripið er til ráðstafana.

Og það var einmitt það sem gerðist í mörgum löndum á Eurosvæðinu. Gjaldmiðillinn gaf ekki eftir, jafnvel styrktist, varúðarmerkin voru hundsuð, og vandamálunum var ýtt á undan sér, atvinnuleysi jókst og húsnæðisverð lækkaði eða hrundi og auðvitað varð að lækka laun.

En bankainnistæður héldu verðgildi sínu (og styrktust á tímabili) þangað til euroið fór að síga niður á við.

Verst urðu auðvitað þeir úti sem misstu atvinnunna, en atvinnuleysi hefur verið í kringum 25% svo árum skiptir í sumum löndum Eurosvæðisins og á bilinu 10 til 12% á svæðinu í heild.

Það er ekki allt unnið með því að gjaldmiðillinn taki meira mið af því sem er að gerast í öðrum löndum, þvert á móti skapar það umtalsverðar hættur.

Og það er ekki bara í suður Evrópu sem viðvörunarbjöllurnar klingja, t.d. horfast Finnar í augu við tapaða samkepnnishæfi og vaxandi erfiðleika. Þar er talað um niðurskurð og að frysta þurfi laun um árabil. Eða eins og segir í grein Financial Times frá í mars:


At the heart of Finland’s woes is a competitiveness problem. Wage costs have spiralled higher than any other European country in recent years and it has one of the most rapidly ageing populations after Japan. Public finances are in much better shape compared with many southern European countries. But like their cousins to the south, many are beginning to bristle at the constraints of euro membership.
 
Finnar geta ekki leyft sér frekar en aðrar þjóðir að hækka laun, nema um framleiðniaukingu sé að ræða, annars sígur samkeppnishæfi þeirra.
 
Finnar horfast enda í augu við aukið atvinnuleysi og kreppu. Euroið endurspeglaði ekki þeirra efnahagslega raunveruleika.
 
Þar hækkaði kostnaður og samkeppnishæfi minnkaði, án þess að þess sæist nokkur merki á gjaldmiðlinum.
 
Hvernig Lettland brást við "hruninu" er ef til vill eitthvað sem vert er að hafa í huga. Gjaldmiðill þeirra var bundinn við euroið, og þá tengingu vildu þeir ekki gefa eftir.
 
Þar var 30% af opinberum starfsmönnum sagt upp, og laun þeirra sem eftir sátu lækkuð um 26%. Laun lækkuðu einnig almennt á almenna markaðnum og atvinnuleysi var í hárri 2ja stafa tölu.
 
En fastengingin við euroið hélt, og nokkrum árum síðar tóku Lettar upp euro.
 
En hvernig væri ástandið á Íslandi ef atvinnuleysi hefði verið í 2ja stafa tölu svo árum skipti?
 
Væri atvinnuleysi undir 5% og værum við að lesa fréttir þar sem gert væri ráð fyrir 100 milljarða viðskiptaafgangi, ef gengið væri enn á 2007-8 slóðum?
 
Ég er hálf hræddur um ekki.
 
Vissulega er þörf á meiri aga í Íslenskim þjóðarbúskap, en gjaldmiðilsskipti eru ekki töfralausn, slíkt eyðir einu vandamáli, en skapar önnur.

mbl.is Gera ráð fyrir 100 milljarða afgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarabarátta hverra, gegn hverjum,

Ég hef nú ekki haft tíma til að fylgjast náið með fréttum af kjaraviðræðum á Íslandi, en hef þó gripið all margar fréttir.

Fréttirnar eru ekki góðar, en að sama skapi finnst mér þær gjarna lítt skiljanlegar.

Ég er afskaplega litlu nær um hvað er deilt, nema jú auðvitað kaup og kjör.

Fréttir af lélegri þátttöku í atkvæðagreiðslum (t.d. hjá VR) þar sem í raun mjög lítill hluti félagsmanna greiðir atkvæði með verkfallsboðun, vekur einnig athygli.

Að sjálfsögðu ræður meirihluti þeirra sem atkvæði greiða niðustöðum, en þátttakan er engu að síður sláandi.

Það væri sömuleiðis fróðlegt að vita hve stór hópur félagsmanna í VR fær greidd laun samkvæmt kjarasamningum? Er það mikið hærra hlutfall en greiddi atkvæði með verkfalli?

Alla vegna var það svo á þeim árum sem ég var félagi í VR, að mesta áherslan var lögð á svokölluð launaviðtöl og þeir voru ekki margir sem ég þekkti sem fengu útborgað eftir töxtum.

Og eins og hefur komið fram víða, eiga lífeyrisjóðir orðið býsna stóra hluti í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins, jafnvel það sem kalla mætti ráðandi.

Þar á meðal eru tvær af stærstu smásölukeðjum landsins, en oft hefur því verið haldið fram að þar séu greidd hvað lægstu launin, þó að ég ætli ekki að slá því föstu.

En er þá verkalýðsfélag eins og VR, ekki hvað síst að fara í verkfall til þess að hækka launataxta starfsfólks hjá fyrirtækjum sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða?

Og stöðva um leið starfsemi, og jafnvel valda rekstrarerfiðleikum, hjá miklum fjölda smærri fyrirtækja sem borga starfsfólki sínu mun hærri laun en taxtar segja til um?

Það er ef til vill ekki að undra að betur gangi út á landi (sérstaklega ef marka má fréttir frá Húsavík og í Vestmannaeyjum) þar sem nálægðin er meiri og skilningur á milli verkalýðsforkólfa og atvinnurekenda sterkari.

Því auðvitað ætti það ekki að vera markmið að hegna þeim fyrirtækjum sem þegar borga góð laun.

Til lengri tíma litið flyst fólk frá fyrirtækjum sem borga léleg laun til þeirra sem borga betur, ekki síst ef þau síðarnefndu standa betur ef ekki kemur til vinnustöðvunar hjá þeim.

Þannig vinna allir.

 


mbl.is SA breyttu tilboðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill léttir fyrir Íslendinga, en skapar jafnframt áhyggjuefni

Ég hef trú að á flestum Íslendingum sé létt.  Þó að enn eigi eftir að greiða atkvæði um samninginn, þá eru all vegna góðar líkur að starfsemi í heilbrigðiskerfinu færist í samt form.

Það kemur ekki fram í fréttinni hve miklar launahækkanir læknar hljóta, og sjálfsagt að einhverju marki erfitt að fullyrða um slíkt, þegar samið er um fleiri atriði en laun.

En það er næsta víst að það verða líka margir sem fyllast áhyggjum fyrir því hvaða áhrif þessi samningur mun hafa á gerða annara kjarasamninga.

Á meðan á kjaradeilum lækna hefur staðið, hafa margir lýst því yfir að heilbrigðiskerfið sé það mikilvægt að réttlætanlegt sé að laun lækna hækki framyfir aðrar starfsstéttir.

Alþjóðleg samkeppni gera það að verkum að slíkt sé næsta ómögulegt að komast hjá.

En mig rekur ekki minni til að neinar slíkar yfirlýsingar hafi komið frá verkalýðsfélögum eða forystusveit þeirra. 

Þvert á móti.

Það er því líklegt að órói verði nokkuð mikill á vinnumarkaði á næstunni, þó að líklegast færist hann út af heilbrigðisstofnunum.

Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar.

Hvernig lítur hún að samninga við lækna og telur hún eðlilegt að slíkur samningur sé rausnarlegri en við aðra?

Samfylking og Vinstri græn fylgdu þeirri stefnu á síðasta kjörtímabili að engir ríkisstarfsmenn ættu að hafa hærri laun en forsætisráðherra. Læknar ekki undanskildir.

Er það enn stefna þeirra flokka?

Flestum ætti reyndar einnig að vera í fersku minn óróinn sem varð á Landpítalanum á síðasta kjörtímabili, þegar til stóð að hækka laun yfirmanns, eins af starfsliðinu, um ríflega upphæð.

Hver skyldi svo vera skoðun Bjartrar framtíðar og Pírata á hvað langt má seilast til að veita læknum, launaforgang umfram aðrar stéttir, eru eru þeir móti því?

Það vakna því upp ótal spurningar við þessa samning, þó að þeir séu vissulega fagnaðarefni.

 

 

 

 

 


mbl.is Felur í sér algjöra uppstokkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launakjör lækna, verkalýðsfélög og stjórnarandstaðan

Það er eðlilega mikið rætt um launakjör og kröfur lækna og yfirvofandi verkfall þeirra, það fyrsta í Íslandssögunni, ef ég hef skilið rétt.

Þeir eru margir sem hafa lýst samúð og stuðningi við málstað lækna og er það vel skiljanlegt.  Ég hygg að flestum sé hlýtt til heilbrigðiskerfisins og vilji tryggja því sem bestan framgang og starfsfólk.

Margir hafa sömuleiðis sagt að það þurfi að taka heilbrigðiskerfið "út fyrir sviga" og almennir launþegar þurfi að sætta sig við að þar verði meiri launahækkanir en á almennum markaði.

Nú veit ég ekki hversu útbreidd sú skoðun er á meðal almennra launþega, hvort þeir vilji setja laun lækna í algeran forgang framyfir sín eigin.

En það væri vissulega fróðlegt ef einhver myndi gera skoðanakönnun um slíkt.  Slíkt er vissulega ekki stóri dómur, en gæfi vísbendingar.

En ef það er vilji launþega, hljóta þeir að setja þrýsting á forystu verkalýðshreyfingarinnar um að stíga fram og lýsa yfir stuðningi við slíkt. Hingað til hef ég aðeins heyrt forystuna tala í þveröfuga átt.

Ef til vill ættu almennir launþegar að senda verkalýðsforystunni tölvupósta um hver hugur þeirra er í þessum efnum.  Tölvupóstherferðir hafa verið skipulagðar af minna tilefni.

Fjölmiðlar ættu auðvitað að leita skýringa hjá verkalýðsforystunni og hvaða leiðir hún hefur til að leita til að leysa vandann í heilbrigðiskerfinu, sem þjónar ekki síður félögum í verkalýðshreyfingunni en öðrum landsmönnum.

En ríkisstjórninni er vissulega vandi á höndum. Komi til verkfalls lækna, svo ekki sé minnst á ef það yrði langt, myndi án efa valda miklum óróa í þjóðfélaginu og reynast henni gríðarlega erfitt.

Á hinn veginn er henni engir vegir færir til þess að hækka laun lækna langt umfram aðra hópa, nema um það ríki víðtæk samstaða.  Ef þær launahækkanir sem talað er um að læknar vilji fá eiga að gilda almennt, fer þjóðfélagið á hliðina.

Það er því engin auðveld lausn til.

Það er líka nauðsynlegt að stjórnarandstöðuflokkarnir komi fram með sínar lausnir og skoðanir. 

Hvort þeir hafi áhuga á því að koma að lausn á vanda heilbrigðiskerfisins, eða fyrst og fremst nota vanda þess til að "slá pólítískar keilur"?

Það var áberandi að forystumenn stjórnarandstöðunnar forðuðust að svara þessari spurningu í umræðunum í Sprengisandi, þó að Heimir Már ítrekaði spurninguna.

Það er vert að hafa í huga að Katrín Jakopsdóttir og Árni Páll Árnason eru fulltrúar flokka sem á síðasta kjörtímabíli predikuðu þá stefnu að engir ættu að hafa hærri laun en forsætisráðherra. Læknar ekki undanskildir.

Eru það ennþá stefna flokka þeirra?

Myndu stjórnarandstöðuflokkarnir styðja að launakjör lækna hækki t.d. fimm eða tífallt umfram hækkanir á almennum vinnumarkaði?

Myndi ASÍ styðja slíkt?  Myndi BSRB styðja slíkt?  Myndi BHM styðja slíkt? Myndi almenningur styðja slíkt?

Ef það er vilji til slíks myndi slíkt líklega vera mögulegt.

En ef víðtækur stuðningur er ekki fyrir hendi, er það ómögulegt verkefni.

 

 

 


mbl.is Læknar horfi í eigin barm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gætu "arðgreiðslur" til starfsfólks verið hluti af lausninni?

Það er hárrétt hjá Björgólfi að best er að hugsa um kjaramál til langs tíma, bæði bæði fyrir fyrirtæki og starfsfólk.

Til að svo geti orðið þurfa hagsmunir fyrirtækisins, hluthafa og starfsfólks að tvinnast saman eins og mögulegt er.

Ein leið til þess gæti verið að að fyrirtæki bjóði í kjarasamningum, að skuldbinda sig til að greiða starfsfólki "arð", ef fyrirtækið greiðir arð til hluthafa.

Þannig yrði það fest í kjarasamning að ef fyrirtækið greiðir arð, yrði upphæð í ákveðnu hlutfalli við arðgreiðsluna, skipt á milli starfsfólks, eftir fyrirfram ákveðnum reglum.  Þar gætu t.d. blandast saman starfshlutfall, laun, unnin yfirvinna og starfsaldur hjá fyrirtækinu.

Einnig væri hugsanlegt að láta hagnað verka á greiðsluna ef hagnaður fyrir yfir ákveðið margfeldi af arðgreiðslu.

Þannig er hugsanlegt að byggja upp kerfi, þar sem bætt afkoma skilar sér í hærri launum með sjálfvirkum hætti.

Þannig ætti að vera mögulegt að auka stöðugleika og draga úr óróa á vinnumarkaði.

 

 


mbl.is Icelandair móti kjörin til framtíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að standa að baki bæði sókn og vörn

Þetta mál hljómar allt hið undarlegasta.  Starfsmaður fer í mál við vinnuveitenda sinn.  Vinnuveitandinn ákveður að borga allan kostnað sem starfsmaðurinn ber af málaferlunum, en gerir kröfu um það fyrir dómi að starfsmaðurinn beri allan málskostnað.

Óneitanlega nokkuð sérstakt.  Ber óneitanlega keim af því að reynt hafi verið að koma í veg fyrir að vitneskja um hver bæri kostnaðinn kæmi í ljós.  En skýringin getur líka einfaldlega verið sú að lögmaður bankans hafði ekki hugmynd að hann væri að vinna hjá sama launagreiðanda og mótherji hans.

Sömuleiðis sérstakt að lesa í fréttinni að fyrrverandi stjórnarformður telji að málið hafi notið stuðnings meirihluta í stjórninni.  Lykilorðið hér er telji.

Var þá málið ekki ákveðið með formlegum hætti?  Var það einfaldlega ákveðið "óformlega"?  Voru einhverjir í stjórninni á móti þessari ákvörðun? Vissu allir í stjórninni af henni?

Það er eitthvað sem segir að við séum ekki búin að heyra það síðasta af þessu máli.

 

 


mbl.is Var krafinn um kostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þróun húsnæðisverðs í Evrópu

Ég hef skrifað um að gjaldmiðill tryggi ekki kaupmátt eða velmegun.  Hann tryggir ekki heldur verðmæti húseigna.

Lágir vextir eru vissulega af hinu góða en þeir tryggja ekki að húsnæðiseigendur lendi ekki í hremmingum.  Reyndar má segja að verulega lágir vextir bendi til þess að hagkerfi eigi í verulegum vandræðum og við slíkar aðstæður er algengt að húsnæðisverð lækki, og skuldsettir húseigendur lendi í vandræðum og sitji jafnvel uppi með neikvæðan eignarhlut.

Slíkt hefur átt sér stað víða um Evrópu á undanförnum árum.  Þegar við bætist launalækkanir og mikið atvinnuleysi er ekki að undra þó að húseigendur séu margir hverjir í vandræðum.  Afborganir af lánum eru síhækkandi hlutfall af ráðstöfunartekjum, þó að vextirnir séu ef til vill ekki háir.

Eins og flestum ætti að vera ljóst, verður eitthvað undan að láta þegar áföll verða í efnahagslífi landa, eða mistök eiga sér stað.

Sé gjaldmiðillinn festur, verður höggið þeim mun meira hvað varðar launalækkanir, atvinnuleysi og lækkandi fasteignaverð.

Þeir sem eiga laust fé halda hins vegar sínu og geta auðveldlega flutt eignir sínar annað.  Þeir sem eru í störfum sem sleppa við launalækkanir og uppsagnir standa einnig vel.

Hér meðfylgjandi er stöplarit yfir þróun húsnæðisverðs í ýmsum Evrópulöndum (þar á meðal Íslandi) árin 2010 og 2011.

Sé smellt á myndina, og svo aftur á þá mynd, næst hún stór og góð.

Husnaedisverd 2010 2011


Hefur þú efni á því að vera atvinnulaus?

Krónan hefur verið fyrirferðarmikil í umræðunni á Íslandi undanfarin misseri.  Mörgum hefur hefur tíðrætt um þann kostnað sem almenningur ber af misviturri efnahagsstjórn á Íslandi og því gengissigi sem hefur fylgt.  Þennan kostnað vilja margir kenna krónunni um.  Sumir spyrja þeirra spurningar hvort að hinn almenni Íslendingur hafi efni á krónunni.

Það er vissulega  hvimleitt þegar efnahagsstjórnunin er ekki betri en svo að gengissig verður með tilheyrandi hækkunum verðlags og vísitalna.

En það er óhjákvæmilegt að eitthvað verði undan að láta þegar mistök eða áföll eiga sér stað í efnahagslífinu.

Þær þjóðir sem haf fest gjaldmiðil sinn hafa kynnst því.  Þá verður kaupgjald að lækka og/eða atvinnuleysi eykst.   Því fylgir gjarna mikið verðfall fasteigna.

Nýlega birtust fréttir um að meðallaun í Grikklandi hefðu lækkað um 23%.  Sumir hafa þurft að þola lækkun allt að 40%, en aðrir næstum enga.  Atvinnuleysi hefur sömuleiðis rokið upp og er vel yfir 20%.  En gjaldmiðill Grikkja, euroið hefur aðeins sigið lítillega.

Á Spáni er atvinnuleysið í kringum 25%, húsnæðismarkaðurinn er í rúst og margir geta ekki selt húseignir sínar, hvað þá fengið skaplegt verð.  En gjaldmiðill sá er Spánverjar hafa kosið að nota, euroið hefur ekki sigið verulega.

Á Írlandi er atvinnuleysi í tveggja stafa tölu, meðallaun hafa lækkað verulega og húsnæðisverð fallið um 50 til 60%. 

Og þannig er ástandið víðar um Evrópu, húsnæðisverð hefur fallið laun hafa lækkað og atvinnuleysi hefur aukist.  Atvinnuleysi á eurosvæðinu hefur nú náð 11%.

Það verður sömuleiðis algengara að eignarhlutir í húsnæði séu neikvæðir og afborganir, þó að þær standi í stað, verði æ hærra hlutfall af tekjum vegna launalækkana.  Gjaldmiðill tryggir ekki kaupmátt eða velmegun.

Verst eru þeir þó oft staddir sem hafa misst atvinnuna, enda hefur landflótti aukist hröðum skrefum, sérstaklega á meðal ungs fólks, sem gjarna verður verst úti hvað varðar atvinnuleysi.

Þegar spurt er:  Hefur þú efni á krónunni, væri því ekki úr vegi að þeir sem það gera legðu fram aðra spurningu einnig. 

Hefur þú efni á því að vera atvinnulaus?

P.S.  Ef til vill er það ekki tilviljun að mér sýnist að "Sambandsaðild" og euroupptaka njóti hvað mest fylgis á meðal þeirra sem gegna opinberum og hálfopinberum stöðum.  Þar eru líkur á launalækkunum og atvinnuleysi hvað minnstar.   Það er rétt að taka fram að þetta byggir eingöngu á minni tilfinningu, en ekki vísindalegum rannsóknum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband