Launakjör lækna, verkalýðsfélög og stjórnarandstaðan

Það er eðlilega mikið rætt um launakjör og kröfur lækna og yfirvofandi verkfall þeirra, það fyrsta í Íslandssögunni, ef ég hef skilið rétt.

Þeir eru margir sem hafa lýst samúð og stuðningi við málstað lækna og er það vel skiljanlegt.  Ég hygg að flestum sé hlýtt til heilbrigðiskerfisins og vilji tryggja því sem bestan framgang og starfsfólk.

Margir hafa sömuleiðis sagt að það þurfi að taka heilbrigðiskerfið "út fyrir sviga" og almennir launþegar þurfi að sætta sig við að þar verði meiri launahækkanir en á almennum markaði.

Nú veit ég ekki hversu útbreidd sú skoðun er á meðal almennra launþega, hvort þeir vilji setja laun lækna í algeran forgang framyfir sín eigin.

En það væri vissulega fróðlegt ef einhver myndi gera skoðanakönnun um slíkt.  Slíkt er vissulega ekki stóri dómur, en gæfi vísbendingar.

En ef það er vilji launþega, hljóta þeir að setja þrýsting á forystu verkalýðshreyfingarinnar um að stíga fram og lýsa yfir stuðningi við slíkt. Hingað til hef ég aðeins heyrt forystuna tala í þveröfuga átt.

Ef til vill ættu almennir launþegar að senda verkalýðsforystunni tölvupósta um hver hugur þeirra er í þessum efnum.  Tölvupóstherferðir hafa verið skipulagðar af minna tilefni.

Fjölmiðlar ættu auðvitað að leita skýringa hjá verkalýðsforystunni og hvaða leiðir hún hefur til að leita til að leysa vandann í heilbrigðiskerfinu, sem þjónar ekki síður félögum í verkalýðshreyfingunni en öðrum landsmönnum.

En ríkisstjórninni er vissulega vandi á höndum. Komi til verkfalls lækna, svo ekki sé minnst á ef það yrði langt, myndi án efa valda miklum óróa í þjóðfélaginu og reynast henni gríðarlega erfitt.

Á hinn veginn er henni engir vegir færir til þess að hækka laun lækna langt umfram aðra hópa, nema um það ríki víðtæk samstaða.  Ef þær launahækkanir sem talað er um að læknar vilji fá eiga að gilda almennt, fer þjóðfélagið á hliðina.

Það er því engin auðveld lausn til.

Það er líka nauðsynlegt að stjórnarandstöðuflokkarnir komi fram með sínar lausnir og skoðanir. 

Hvort þeir hafi áhuga á því að koma að lausn á vanda heilbrigðiskerfisins, eða fyrst og fremst nota vanda þess til að "slá pólítískar keilur"?

Það var áberandi að forystumenn stjórnarandstöðunnar forðuðust að svara þessari spurningu í umræðunum í Sprengisandi, þó að Heimir Már ítrekaði spurninguna.

Það er vert að hafa í huga að Katrín Jakopsdóttir og Árni Páll Árnason eru fulltrúar flokka sem á síðasta kjörtímabíli predikuðu þá stefnu að engir ættu að hafa hærri laun en forsætisráðherra. Læknar ekki undanskildir.

Eru það ennþá stefna flokka þeirra?

Myndu stjórnarandstöðuflokkarnir styðja að launakjör lækna hækki t.d. fimm eða tífallt umfram hækkanir á almennum vinnumarkaði?

Myndi ASÍ styðja slíkt?  Myndi BSRB styðja slíkt?  Myndi BHM styðja slíkt? Myndi almenningur styðja slíkt?

Ef það er vilji til slíks myndi slíkt líklega vera mögulegt.

En ef víðtækur stuðningur er ekki fyrir hendi, er það ómögulegt verkefni.

 

 

 


mbl.is Læknar horfi í eigin barm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband