Færsluflokkur: Kjaramál

Innflutt hús betri kostur en "innlend"?

Mér kemur það ekki á óvart að ýmsir aðilar gagnrýni að Íslensk verkalýðsfélög standi fyrir því að flytja inn einingahús frá Lettlandi.

Þó að ég hafi ekki hugmynd um hvað þeir sem vinna við framleiðslu á einingunum fá í laun, þá veit ég að lágmarkslaun í Lettlandi eru u.þ.b. 340 euro á mánuði.

Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að mögulegt er að fá einingar framleiddar þar fyrir töluvert lægra verð en á Íslandi.

En ég tek hinn ímyndaða hatt minn ofan fyrir verkalýðsfélögunum að fara þessa leið.  Auðvitað á að gefa Íslenskum verktökum möguleika á að bjóða í verkið, en að sjálfsögðu á að velja þann ódýrasta af sambærilegum kostum.

Þannig gerast viðskiptin best og ég er reyndar hissa á Íslenskum verktökum að hafa ekki gert slíkt í miklu meira mæli á undanförnum árum.

Það ætti að geta aukið byggingarhraða, dregur úr þennslu á innlendum markaði, dregur úr húsnæðisþörf fyrir verkamenn, eykur sveigjanleika, o.sv.frv.

Ég held að flestum sé ljóst að þörf er á auknu framboði á húsnæði á Íslandi, en aukin þennsla síður eftirsóknarverð.

Þetta er því líklega góð lausn.

 


mbl.is Erlendu húsin betri kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna hefur matarverð hækkað mun meira á Íslandi en í Noregi?

Það hefur mikið verið rætt um hvers vegna í nýlegri verðkönnun á milli höfuðborga Norðurlanda, Ísland kom út svo dýrt.

Sérstaklega hafa margir furðað sig á því hvers vegna "karfan" (sem var vissulega umdeilanlega sett saman) var svo mikið dýrari í Reykjavík en Oslo.

Það er auðvitað margar mismunandi ástæður fyrir því, en hér vil ég birta eina þeirra.

Þetta línurit af gengi Norsku og Íslensku krónunnar. Eins og sést hefur það breyst gríðarlega á undanförnum 10. árum.

NOK ISK 10 year

 


Matvara er mjög dýr á Íslandi - ekki síst landbúnaðarvörur

Það er ekki ódýrt að kaupa í matinn á Íslandi. Ég fann það ágætlega þegar ég ferðaðist um landið síðastliðið sumar.

En ef hverju er það?

Þessi niðurstaða er mikil umskipti frá því árið 2012, en þá var Ísland talið ódýrast Norðurlandana ásamt Finnlandi og ódýrast í heildkostnaði við framfærslu.

(En það er rét að hafa í huga að hér er langt í frá um sömu "körfu" að ræða, og því ekki fyllilega samanburðarhæft, þó að vissulega gefi það vísbendingar)

En margt hefur breyst síðan þá, og líklega ekki hvað síst gengið.  Íslenska krónan hefur styrkst.  Þannig ýkjast verðbreytingar upp þegar borið er saman við erlend verð.

Og auðvitað væri fróðlegt að sjá samanburð á breytingum á öðrum rekstrarkostnaði matvöruverslana á sama tímabili.  Hvað hefur launakostnaður stigið, hvað hafa fasteignagjöld hækkað, rafmagn og hiti o.s.frv?

En það sem hjálpar til að Finnar geta verslað svona ódýrt, er að hluta til Putin að þakka, og því innflutningsbanni sem hann setti til Rússlands, var það ekki 2013.

Það hafði gríðarleg áhrif á verðlag landbúnaðarvara, sérstaklega mjólkurafurðir, enda féll útflutningur gríðarlega og hélt áfram að falla árin á eftir. Á milli 2013 og 2016, dróst útflutningur Finna á landbúnaðarafurðum til Rússlands um ríflega 70%, eða eitthvað yfir 300 milljónir euroa.

Þetta hafði gríðarleg áhrif bæði í Finnlandi og "Sambandinu" í heild, sérstaklega austan megin, enda voru fleiri lönd sem höfðu allt í einu offramboð á mörgum landbúnaðarvörum.

Það hefur líka áhrif að "risarnir" tveir á Finnskum matvörumarkaði hafa háð grimmilegt verðstríð, sem hófst á svipuðum tíma. Og það stendur enn yfir.

Bændur eru ekki hressir, enda hafa rannsóknir sýnt að hlutur þeirra í heildarverði fer minnkandi (og afkoma þeirra sömuleiðis), en það gerir reyndar hlutur verslunarinnar einnig. Það eru matvælaiðnaðurinn sem eykur sína hlutdeild.

En ég get tekið undir gagnrýni þeirra Bónusmanna að því marki að þessi könnun sýnir lítið meira en að Íslenskar landbúnaðarafurðir eru mjög dýrar.

Einstaka atriði (fyrir utan hátt verð á Íslenskum landbúnaðarafurðum)könnunarinnar vekja sérstaka athygli. 

Ég bý 80 kílómetra sunnan við Helsinki, þar sem verðlag er að öllu jöfnu örlítið lægra en þar. Sjá má Finna fylla innkaupakörfurnar hér áður en þeir halda heim á leið.

En ég hef aldrei séð 500g af pasta á 26 kr, eins og boðið er upp á í Helsinki, ég hef aldrei seð lítra af appelsínusafa á 88 kr eins og hægt er að kaupa í Osló. Hrísgrjón á 108 kr eru heldur ekki á boðstólum hér.

Önnur verð kannast ég vel við, og margt heldur ódýrar en þarna er nefnt.

En svo kemur Ísland alls ekki illa út í brauði, banönum og hrisgrjónum. En verðið á gulrótum á Íslandi hlýtur svo að vera sérstakt rannsóknarefni.

En heilt yfir þykir mér munurinn oft ótrúlegur á milli borga í þessari könnun. Það er ekki langt á milli Helsinki, Stokkhólms, Osló og Kaupmannahafnar, en munurinn samt sem áður verulegur á mörgum vörum.

En það væri fróðlegt að sjá betur "balanseraða" könnun, sem væri ef til vill nær því sem hefðbundin fjölskylda kaupir inn.

Mér finnst frekar "ódýrt" hjá verkalýðsforingjum að tala eins og sá munur sem þarna kemur fram sé munur á framfærslu í Reykjavík og Helsinki.

Enn "ódýrara" að tala eins og munurinn liggi eingöngu hjá Íslenskri verslun.

En umræðan er þörf, enda velkist enginn í vafa um að matvælaverð er afar hátt á Íslandi og það skiptir máli.

Set hér að lokum, ef einhver hefur gaman af því að skoða "tilboð" í Helsinki, tengla á vefsíður, þriggja verslana, LIDL, K-Supermarket (KESKO), Prisma.

P.S. Bæti hér við 8. febrúar tengli á ágætis umfjöllun hjá Bændablaðinu. Þar er tafla sem segir að hlutfallsleg eyðsla Íslendinga (af launum) sé heldur lægri en hinna Norðurlandaþjóðanna. En líklega eru þetta tölur frá 2017.

Googlaði örlítið og fann þessar upplýsingar frá Eurostat, en þær eru frá 2017. Þær eru ekki alveg samhljóða þeim frá Bændablaðinu, en sýna þó svipaða niðurstöðu, Ísland heldur sigið niðurávið.

P.S.S. Bæti hér við 9. febrúar. Grein frá Ernu Bjarnadóttur á Vísi.is og tentill á grein frá Viðskiptaráði.

 

 

 


mbl.is Furðar sig á samsetningu vörukörfu ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrot vegna eldsneytisverðs og veikingar gjaldmiðils?

Það er aldrei skemmtilegt að lesa um gjaldþrot fyrirtækja, og alls ekki flugfélaga. Strax koma upp í hugann myndir af ferðalöngum sem strandaglópum í fjárlægum löndum o.s.frv.

En þetta hefur verið algengt upp á síðkstið og einhvers staðar las ég nýlega að á 3ja hundrað flugfélaga hafi lagt upp laupana á síðust 10. árum eða svo.

En hér talar forsvarsmaður Þýska flugfélagsins Germania að félagið sé komið í þrot vegna hás eldsneytisverðs og lækkandi gengis.

Þetta er líklega eitthvað sem Íslendingum finnst þeir hafa heyrt áður, en munurinn er þó sá að hér er verið að tala um euroið.

Á Íslandi kenna svo ferðaþjónustufyrirtæki og útflytjendur um hækkandi gengi um erfiðleika, en innflytjendur barma sér ef það lækkar.

Yfirleitt er eingöngu minnst á ytri aðstæður.

 

 

 


mbl.is Flugfélagið Germania gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgan er of há, en hvað veldur henni?

Verðbólgan er eitthvað sem allir hafa skoðun á. Yfirleitt í þá veru að hún sé of mikil, en þó kemur fyrir hér og þar (ekki á Íslandi svo ég muni) að áhyggjur kvikna yfir því að hún sé of lág, eða hreinlega að verðhjöðnum eigi sér stað.

Margoft hefur því verið haldið fram að til að ná tökum á verðbólgunni þurfi að skipta út gjaldmiðli og helst ganga í "Sambandið" og taka upp euro.

Þá verði verðbólga á Íslandi eins og hún er á eurosvæðinu.

En hver er verðbólgan á eurosvæðinu?

Þá er yfirleitt svarað eitthvað í þá átt að hún sé 1.9%, eins og hún var að mig minnir þar í desember.

En verðbólgan á eurosvæðinu var frá því að vera 0.5% að mig minnir í Grikklandi upp í það að vera 3.4% í Eistlandi.  Það er jú þessi gamla tugga með meðaltalið.

Aðeins norður af Eistlandi, í Finnlandi var hún 1.18%.  80 kílómetrar geta framkallað umtalsverðan mun.

En ef verðbólga á Íslandi er aðeins 0.3% hærri á Íslandi en í ríki sem hefur euro, er þá eittvhað sem segir að verðbólga myndi minnka á Íslandi ef það væri gjaldmiðilinn?

Sé svo húsnæðisliðurinn tekinn út á Íslandi, er verðbólga mun lægri á Íslandi en í eurolandinu Eistlandi. En sjálfsagt á eftir að rökræða um hvort að húsnæðisliðurinn eigi að vera í vísitölunni all nokkur ár i viðbót.

Og hverjar eru nefndar sem helstu ástæður fyrir hárri verðbólgu í Eistlandi?  Orkukostnaður og þennsla á vinnumarkaði.

Og spár gera ráð fyrir því að verðbólga í Eistlandi verði áfram verulega hærri en meðaltal eurolandanna á komandi árum.

Og svona af því að ég er byrjaður að ræða euroið, skyldu Íslendingar eiga sér sér þann draum að Seðlabankinn stæði í því að "prenta" peninga, kaupandi upp ríkisskuldabréf og skuldabréf stórfyrirtækja (varla þó Samherja :-)) reynandi eftir fremsta megni að keyra upp eftirspurn og verðbólgu?

Ja, reyndar væri hann í þann veginn að hætta því, eftir að hafa stundað það nokkur undanfarin ár.

Því það er það sem seðlabankar Eurosvæðisins hafa verið að gera, og enginn gat skorast undan, líka sá Eistneski.

Þó að flestir kunni að meta lága vexti (nema innlánaeigendur) þarf einnig að spyrja sig að því hvers vegna þeir eru svo lágir, ekki síst ef þeir eru það sem margir myndu kalla óeðlilega lágir.


mbl.is Dregur úr verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða hlutir hleypa upp húsnæðisverði?

Það hefur mikið verið rætt um húsnæðisverð á Íslandi undanfarin misseri. Skipaðar hafa verið nefndir, og kastað hefur verið fram ótal hugmyndum og skoðunum.

Auðvitað eru þær mismundandi, en flestir eru þó sammála um að málið sé brýnt og húsnæðiskostnaður sé stór þáttur í framfærslu og þá að sjálfsögðu lífsgæðum einstaklinga og fjölskyldna.

Jafnframt hefur verið talað um að aðgerðir í húsnæðismálum séu mikilvægur þáttur í kjarasamningum.

Því vakti það athygli mína þegar ég sá fjallað um húsnæðisverð í Þorlákshöfn. Þorlákshöfn er ef ég hef skilið rétt, ca. 35 mínútu akstur frá Reykjavík (nema þegar umferðarteppur eru) og hefur fengið sívaxandi athygli þeirra sem vilja eignast húsnæði.

Þar má fá rétt ríflega 50 fermetra íbúðir á tæpar 15 milljónir króna. Sambærilegar íbúðir í Reykjavík kosta víst vel yfir 40 milljónir.

Í hverju liggur munurinn?

Einfalda svarið við því, er eins og fasteignasalarnir segja:  Staðsetning, staðsetning og staðsetning.

Það verður aldrei fram hjá því litið að staðsetning skiptir miklu máli.  En er engin "ódýr staðsetning" á höfuðborgarsvæðinu, eða þarf að leita alla leið til Þorlákshafnar eða lengra til þess að finna slíka?

Þó að ekki sé hægt að fullyrða um slíkt, er freistandi að álykta að stærstur hluti mismunarins sé lóðaverð og tengdar greiðslur, enda getur kostnaðurinn við bygginguna sjálfa varla verið mikið eða nokkuð ódýrari í Þorlákshöfn.

En auðvitað er eðlilegt að lóðir séu dýrari miðsvæðis í Reykjavík samanborið við Þorlákshöfn, ég held að því mótmæli engin.

En hveru dýrari, og svo eru það lóðirnar sem eru í Reykjavík, en ekki "miðsvæðis"?  Hvað er eðlilegur munur þar?

Ekki getur það kostað meira að gera lóðir byggingarhæfar í Reykjavík?  Ætti Reykjavík ekki, ef eitthvað er, að njóta samlegðaráhrifa stærðarinnar?

Ég held að þetta sé nokkuð sem vert sé að skoða og velta fyrir sér.

Það er líka áhugavert að hugsa um hvort að þéttingarstefna Borgarinnar, hafi orðið til þess að þeir sem sækja vinnu til höfuðuborgarinnar hafi dreifst yfir stærra svæði en nokkru sinni fyrr, og þannig stóraukið umferð og vegalengdir sem eru keyrðar?

Er það ekki þvert á markmið stefnunnar?

Eða er stefnan einfaldlega að hámarka hagnaðinn af lóðasölu og til þess að svo megi verða halda uppi ákveðnum skorti?

 


Er ástæða til að hafa áhyggjur af vaxandi eignamun, eða á hann sér eðlilegar ástæður?

Það hefur mikið verið rætt um vaxandi mun á eignum einstaklinga og mismunandi "þjóðfélagshópa" á undanförnum misserum, líklega ekki hvað síst á Íslandi.

Það er eðlilegt að margir hafi af þessu miklar áhyggur, en er víst að eitthvað sé óeðlilegt við þennan aukna eignamun?

Þegar vel árar í þjóðfélaginu, jafnvel svo vel að talað er um eignabólu, segir það sig eiginlega sjálft að eignamunur eykst. Ef fasteignir rjúka upp í verði, ef hlutabréfamarkaðir eru hækkandi, þá vænkast hagur þeirra sem eiga eignir langt umfram þeirra sem eru eignalausir.

Fyrir til þess að gera fáum árum töluðu margir pólítíkusar á Íslandi fjálglega um að stór hópur Íslendinga vildi ekki eiga húsnæði, heldur kysi frekar "örugga leigu".

Örugga leigan hefur að ég tel ekki gengið eftir, en það ætti ekki að koma neinum á óvart að þeir sem ákváðu að kaupa sér fasteign fyrir t.d. 6 eða 8 árum, standi sem hópur nær örugglega betur eignalega séð, en þeir sem gerðu það ekki.

Það dregur hins vegar oft saman með hópunum þegar kreppir að eða samdráttur ríkir.

Ég held einnig að fasteignakaup hafi í gegnum tíðina verið afar góð fjárfesting þegar á heildina er litið.  Það væri til dæmis fróðlegt að sjá samanburð á fjárfestingu í fasteign og greiðslu í lífeyrissjóð.

Það er enda þekkt að víða um lönd er fasteign álitin hluti af lífeyrissparnaði. Hægt að selja og minnka við sig á eldri árum og hefur einnig þann kost að ganga til erfingja.

En það sem hefur líklega ekki síður valdið því að eignamunur hefur aukist á Íslandi, er mikill fjöldi innflytjenda.

Mikill fjöldi innflytjenda, að mestu leyti eignalausir, fara líklega beint í neðsta eignahópinn.

En það fjölgar í öllum tekjuhópum, þannig að tekjuhæsti hópurinn eykur eðlilega hlut sinn.

En það er fleira sem gerir það að verkum að eignaminnsti hópurinn verður verr úti en aðrir. 

Þannig er vitað að sumir í þeim hópi stoppa aðeins í nokkur ár.  Þeir safna eins miklu og þeir geta og vilja fara með "auðsöfnun" sína til annarra landa og setja í eignir þar.  Í stað þess koma svo aðrir "eignalausir", og svo koll af kolli, þannig að eignamyndun í lægst hópnum verður því hægari.

Sumir kunna þegar að eiga eignir í "heimalandinu" og koma til Íslands til að auðvelda sér eignamyndunina.

Fleira má nefna sem veldur því að eignamyndun innflytjenda er oft hægari en þeirra sem fyrir eru.

Þar má nefna til að þeir eiga erfitt með að komast úr láglaunastörfum vegna tungumálaerfiðleika, sumir þeirra senda reglulega hluta launa sinna úr landi, til foreldra eða annarra fjölskyldumeðlima og svo að þeir fá lítinn eða engan arf eftir foreldrana, öfugt við aðra íbúa þróaðri og auðugri ríkja, s.s. Íslands.

Ekkert af þessu er óeðlilegt og lítið við því að gera nema tungumálaörðugleikunum.

Það er rétt að taka það fram að ég er ekki að setja þetta fram hér og segja að ekki þurfi að ræða eignamismun.

Það er jafn sjálfsagt að ræða það eins og allt annað.

En það þarf að reyna að finna allar breyturnar og taka tillit til þeirra.

Það er ekkert óeðllilegt að mikill fjöldi innflytenda hafi áhrif á eignaskiptingu, en hversu mikil þau áhrif eru veit ég ekki, og man ekki eftir því að hafa séð tölur um slíkt, en það væri vissulega þarft rannsóknarefni.


Stytting vinnuvikunnar - 33% aukinn launakostnaður fyrir mörg fyrirtæki?

Það hefur mikið verið rætt um styttingu vinnuvikunnar á Íslandi upp á síðkastið og ég sá á vef RUV að verið er að ræða um slíka styttingu í tengslum við kjarasamninga.

 

Ég hef líka séð marga tala á þeim nótum að kostnaður vinnuveitenda vegna slíks yrði lítill, enda myndi frameleiðni aukast og margir geti afkastað svo gott sem því sama á 6 tímum og 8.

Ég ætla ekki að efast um að slíkt sé rétt - í undantekningartilfellum, en ég held að það þurfi að líta á heidlarmyndina.

Að sjálfsögðu er öllum atvinnurekendum frjálst að minnka" viðveruskyldu" starfsmanna sinna og ég myndi reikna með því að margir myndu taka þann kost ef þeir sjái fram á að framleiðni standi í stað og starfsfólkið sé hamingjusamara.

En "viðvera" getur líka skipt miklu máli, jafnvel þó að ekki sé "brjálað að gera".

Það blasir við að hjá mörgum fyrirtækjum ykist launakostnaður um ca 33%.

Þau fyrirtæki sem eru opin allan sólarhringinn, yrðu að reka sig á 4. 6. tímavöktum í stað 3ja 8 tíma vakta áður.

Hefur einhver reiknað út hver áhrif þess yrðu til dæmis á heilbrigðiskerfið?  Á öldrunarþjónustu?

Hvað skyldi launakostnaður hótela aukast við slíka breytingu, hvaða áhrif hefði hún á matsölustaði?  Hvernig yrðu heildaráhrifin á hina sívaxandi ferðaþjónustu?

Hver yrðu áhrifin á löggæslu, slökkvilið?

Hvernig ætti að reka slík fyrirtæki án þess að launakostnaður þeirra ryki upp?

 

 

 


Ísland - dýrast í heimi?

Það hefur víða um netið (aðallega Íslenska hlutanum) mátt lesa fréttir þess efnis að Ísland sé dýrasta land í heimi, hvergi sé dýrara að lifa eða ferðast um.

Hafandi komið til Íslands ásamt fjölskyldunni í sumar þá finnst mér þetta nokkuð sennilegt þó að ég geti ekki fullyrt um slíkt með 100% vissu.

En vissulega var dýrt á Íslandi, ég held að um slíkt efist engin, né reyni verulega að mæla því mót.

En þó að ég efist ekki um að ýmislegt mætti betur fara og dýrir aðdrættir, skortur á samkeppni, hár launakostnaður og háir skattar og opinber gjöld, dugi ekki til að réttlæta hið háa verðlag, er það þó býsna mikill hluti af útskýringunni.

Vissulega er verðlag víða um heim og jafnvel í löndum ekki langt frá Íslandi afar aðlandi og stórskemmtilegt að njóta veitinga og verslunar á Íslenskum "kaupmætti".

En glansinn getur verið fljótur að fara ef ef standa þarf undir neyslunni á innlendum lágmarkslaunum.

Þannig hafa þeir sem fylgjast vel með fréttum sjálfsagt tekið eftir því að þegar Macron Frakklandsforseti reyndi að friðþægja "gulvestunga", þá var ein af aðgerðum hans að hækka lágmarkslaun úr 1400 euroum í 1500.  Ég er hálfhræddur um að það verði erfitt að lifa og leigja þokkalega íbúð í París á slíkum launum.

Og hér í Eistlandi þar sem ég er núna, voru lágmarkslaun hækkuð nú um áramótin, úr 500 euroum í 540.  Býsna góð prósentuhækkun, en upphæðin ekki há.

En mér kom í hug þegar ég fór með lítin bíl og skipti yfir á vetrardekk, og borgaði fyrir það 40 euro, að það þæti sjálfsagt frekar ódýrt á Íslandi.  En þó að ég þekki ekki hvað dekkjaskipti, umfelgun og jafnvægisstiling kosti á Íslandi þá þá þykir mér líklegt að sá kostnaður sé lægra hlutfall af lágmarkslaunum á Íslandi en Eistlandi.

En það eru aðrir hlutir sem spila stóra rullu. Eftir því sem ég kemst næst (hef ekki grandskoðað Eistneska skattalögjöf) borga Eistlendingar engan skatt af 500 euroum (sá afsláttur fylgir ekki upp launaskalann og það þarf að sækja um hann).

Í höfuðborginni Tallinn borga íbúar engan fasteignaskatt af húsnæði, svo lengi sem eigandinn býr í því, og lóðin fer ekki yfir ákveðna stærð (sem er að mig minnir um 1500 fermetrar).

En það þarf að borga verktaka lága upphæð fyrir sorphirðu (hægt að velja hvort að tunnan er losuð á 1., 2., eða 4. vikna fresti), og borgin rukkar fyrir vatnið eftir mæli (það stendur undir kostnaði vatnsveitu og holræsakerfis).

Það er frítt í strætó, en bara fyrir íbúa borgarinnar (það virðist ekki þvælast fyrir borginni að ekki megi mismuna eftir búsetu) og hefur verið svo í kringum 6. ár.  Það er að sjálfsögðu mikil búbót fyrir tekjulægri hópana.

(Því má skjóta hér inn að þó að frítt sé í strætó, og sérakgreinar hafa verið gerðar fyrir vagnana, hafa samt verið byggð tröllaukin mislæg gatnamót í borginni og unnið er að greiða umferð einkabíla eftir sem áður).

Mig minnir líka að engin í Frakklandi borgi skatt af tekjum undir ca 1500 euroum (en Franska skattkerfið er býsna flókið), en þetta segi ég þó án ábyrgðar.

En ég er ekki að segja að Íslenskir launþegar í lægri launahópum eigi ekki skilið að hafa meiri "í veskinu".  En það hljóta flestir að ajá að krónutöluhækkun ein sér breytir ekki miklu til langframa, allra síst þegar staðan er sú að meirihluti launþegar heldur eftir minnihluta launa sinna við útborgun.

Þá hlýtur að þurfa að horfa til annara þátta.

Líklega eru tveir stærstu útgjaldaliðir flestra heimila skattur (tekjuskattur og útsvar) og húsnæðiskostnaður.

Það hlýtur að þurfa að beina sjónum þessum tveimur meginpóstum.  Hvers vegna er húsnæði svona dýrt á Íslandi og hvers vegna eru skattar svona háir?  Því borið er saman lífeyrisfyrirkomulag á Íslandi og í öðrum löndum, eru skattar gríðarháir á Íslandi.

Hækkandi fasteignaskattar (í krónutölu langt yfir verðbólgu) eiga aldrei aðra leið en út í verðlag, bæði á vörum og þjónustu og ekki síst húsaleigu.

Sama gildir auðvitað um hátt bensínsverð og svo má lengi áfram telja.

 

Price level index for food and non alcoholic beverages, 2017 (EU 28=100)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P.S. Set hér inn graf af verðlagi í mörgum af helstu ríkjum Evrópu, en grafið er fyrir 2017, en ég einfaldlega fann ekki nýrri samanburð, sem mér fannst góður og áreiðanlegur.


Eru alþingismenn launalegir eftirbátar verkalýðsforystunnar?

Nú er fátt rætt af meiri þrótti en launamál alþingismanna og nýfallinn úrskurður kjararáðs.  Engin leið er að segja annað en að launahækkunin sé mikil. Verkalýðsforkólfar og margir aðrir hafa farið "hamförum á sviðinu", ef svo má að orði komast.

En við hverja á að miða þegar laun alþingismanna eru ákvörðuð?

Maður sem að alla jafna hefur reynst mér góð og sönn uppspretta upplýsinga sendi mér póst í dag og sagði mér að þrátt fyrir ríflega launahækkun, væru laun alþingismanna enn lægri en þekktist t.d. í "verkalýðsforingjageiranum".

Þannig séu laun t.d. forseta ASÍ mun hærri en þingfararkaup.

Skyldi það vera rétt?

Hver skyldu vera laun annarra verkalýðsforingja?

Er eitthvert "kjararáð" starfandi í verkalýðsfélögunum?

Hver ætti nú "goggunarröðin" hvað varðar laun að vera?  Ættu alþingismenn að vera með hærri laun en verkalýðsforingjar, eða öfugt?

Hvað finnst þér.


mbl.is „Meðlimir kjararáðs eru ekki vont fólk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband