Færsluflokkur: Vefurinn
29.4.2020 | 15:49
Hvar er best að auglýsa?
Nú er mikið rætt um hvar opinberir aðilar á Íslandi eigi að auglýsa. Fyrirhugað er auglýsingaherferð til þess að fá Íslendinga til þess að ferðast innanlands.
Göfugt markmið.
En hvar á að auglýsa?
Ætti fyrst og fremst að auglýsa hjá Íslenskum aðilum, eða á einnig, og ef til vill í meira mæli að nota hina ýmsu samfélags/samskiptamiðla þó að um sé að ræða erlend fyrirtæki?
Stutta svarið hlýtur að vera að nota þá miðla mest sem bjóða upp á ódýrustu snertinguna.
Auglýsing er eitt og styrkur annað.
Nær einhver Íslenskur fjölmiðill álíka snertingu/verð og vinsælustu samfélagsmiðlarnir gera?
Verður ekki að gera greinarmun á auglýsingum og stuðning/styrk?
Auglýsingaherferðum er ekki ætlað að styðja við fjölmiðla heldur að ná árangri/markmiði.
Líklega verður þó alltaf einhver hluti af auglýsingaherferðinni beint að Íslenskum fjölmiðlum.
En ef "markaðslögmálin" eru látin gilda verður líklega mjög stór hluti af þeim hluta, eytt hjá Ríkisútvarpinu. Það hefur einfaldlega það stóra markaðshlutdeild.
Það er vissulega umhugsunarvert.
Það eru bara einstaklingar með "hjarðfofnæmi" eins og ég sem ekki finnast á samfélagsmiðlum.
Ef ná á til fjöldans, eru þeir líklega besta og ódýrasta leiðin.
24.4.2020 | 12:46
Diskó allan daginn og fram á kvöld
Það er hollt að dansa - heima sem annars staðar. Enn einn föstudaginn blæs tónlistarútgáfan Defected til beins streymis frá athyglisverðum plötusnúðum, hvaðanæva að úr heiminum.
Í dag koma fram Simon Dunmore, Dunmore Brothers, Dennis Ferrer, Catz n´Dogs, Dom Dolla, DJ Spen, Ferreck Dawn, Gorgon City og Themba.
Fjörið byrjar nú klukkan 13:00 að Íslenskum tíma og stendur til 22:00 í kvöld. Sent er út á Youtube og fleiri stöðum.
Þess má geta að ef einhver hefur áhuga á því að spreyta sig, er hægt að sækja um að koma fram í næstu viku.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2020 | 03:02
"Ruslpóstarar" fylgjast með tíðarandanum
Sem betur fer fæ ég ekki of mikið magn af ruslpósti, en alltaf er nú eitthvað. Það eru meiri líkur til þess, virðist vera, að vinna í happdrættum sem ég hef ekki keypt miða í (aldrei vinn ég í þeim sem ég kaupi miða í), einstaklingar sem ég hef aldrei hitt, en bera sama föðurnafn og ég hafa og arfleitt mig að háum upphæðum.
Það ber líka einstaka sinnum við að ég fái póst frá konum sem ég hef aldrei hitt og hafa hrifist af mér, og merkilegt nokk, virðist það algengara en á meðal kvenna sem ég hef hitt.
Svo hafa auðvitað borist tilboð um að lagfæra líkamsparta og annað slíkt.
En í dag barst mér fyrsti pósturinn þar sem mér er boðið að verða umboðs og dreifingaraðili í Evrópu, fyrir fyrirtæki sem framleiðir andlitsgrímur og annan hlífðarbúnað.
Það er "bransinn" sem allir vilja vera í núna.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2020 | 17:41
Risa heima húspartý á föstudaginn langa frá hádegi
Líklega er málsháttur þessarar páskaeggjatíðar, "Hollur er heimafengin baggi". Honum má líklega breyta í t.d. "Holl er heimaskemmtun", "Hollast er heimaferðalagið", eða "Hollast er sér heima að skemmta", nú eða jafnvel "Heima er heilsan vernduð". Síðan má velta fyrir sér málsháttum eins og "Skipað gæti ég væri ég Víðir".
En hefur verið skemmtilegt að fylgjast með allri þeirri afþreyingu sem boðið hefur verið upp á á netinu, ekki bara á Íslandi, heldur um allan heim.
Þannig er hægt að "ferðast" víða um heiminn á netinu, njóta menningar og lista og alls kyns afþreyingar.
Söfn, athyglisverðir staðir, plötusnúðar, skemmtikraftar og tónlistarmenn, hafa verið að streyma alls kyns fróðlegu og skemmtilegu efni.
Á morgun, föstudaginn langa stendur hljómplötufyrirtækið Defected fyrir sínu þriðja "sýndarveruleika festivali". Hin fyrstu 2. voru stórkostleg og ég á von á því að hið þriðja gefi þeim ekkert eftir.
Ég hef hvergi séð staðfestan lista yfir þá sem munu spila, en talað er um að Calvin Harris muni spila undir dulnefninu "Love Generator" og síðan Claptone, Roger Sanches, Mike Dunn, Black Motion, Sam Divine, David Penn og The Mambo Brothers. Ef til vill einhverjir fleiri.
Eftir því sem ég kemst næst byrjar fjörið kl. 12 á hádegi að Íslenskum tíma og stendur til í það minnsta 8.
Tilvalið fyrir þá sem vilja dansa "innanhúss" nú eða gera erobikk æfingar.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2019 | 13:08
Er munur á #metoo og #hann/hún (setjið inn nafn að eigin ósk) did?
Nú fer fram hávær umræða um réttlæti þess að á netið séu sagðar alls kyns sögur um kynferðislegt ofbeldi, áreiti og svo framvegis.
Nýlega kom fram #Metoo, og að var stórmerkilegt framtak. Sumar sögurnar sem ég las fengu hroll til að skríða upp bakið á mér, og hafið ég þó talið mig hafa orðið vitni að "ýmsu".
En þær sögur voru frásagnir sem ekki beindust að neinum, ef svo má að orði komast, nema ef til vill því sem má kalla "karlægri menningu" og auðvitað að einhverju marki okkur körlum.
Auðvitað má, ef vilji er fyrir hendi, draga sannleiksgildi í efa, en það verður þó aldrei aðalatriðið þegar slíkar frásagnir eiga í hlut.
En þegar slíkar "herferðir" beinast gegn einstaklingi fær það mig vissulega til þess að staldra við og hugsa málið.
Ég vil taka það fram að ég er með þessu ekki á neinn hátt að taka afstöðu til sannleiksgildis eins eða neins.
En um slíkt hlýtur þó að gilda önnur lögmál, heldur en þegar um baráttu eins og #Metoo var að ræða.
Ef ég segi að Bjarnfreður Geirsdóttir (nafnið á móður Georgs "vinar okkar allra" úr Vaktaseríunum), hafi áreitt mig kynferðislega snemma á 9. áratug síðustu aldar, og ég hafi átt svo andlega erfitt í kjölfarið að kæra hafi aldrei komið til greina, en hafi hugrekki til þess að koma fram nú 35. árum síðar, hvaða rétt hef ég?
Ég kærði ekki, brotið er fyrnt, en ég kýs að rifja það upp nú.
Hvaða möguleika á Bjarnfreður á því að grípa til varna? Hvað getur hún sagt sem sannfærir alla "lesendur" um sakleysi sitt (ef við nú gefum okkur að sú sé raunin)?
Við þekkjum líklega mörg söguna um Jimmie Saville, en það eru önnur nöfn sem vert er að gefa gaum, s.s. af Cliff Richards, og svo Edward Heath.
Cliff Richards þurfi að lögsækja bæði fjölmiðla og lögreglu vegna ásakana á hendur honum um kynferðisbrot sem áttu að hafa staðið um áratuga skeið.
Ásakanir um umfangsmikið barnanið og jafnvel morð, sem áttu að hafa verið framin af Edward Heath, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, komu fram all löngu eftir andlát hans. Talað var um umfangsmikinn barnaníðingshring í Westminster.
Þær kölluðu á umfangsmikla rannsókn Scotland Yard sem, til þess að gera langt mál stutt, endaði með því að "fórnarlambið" þurfti að svara til saka fyrir falskar aðdróttanir, lygar og blekkingar.
En á meðan hinni umfangsmiklu rannsókn stóð, lét einn af þeim sem þekkt hafið Heath, hafa eftir sér:
Lincoln Seligman, who knew Sir Edward for 50 years, said: "If you make a mass appeal for victims you are sure to get them, whether they are legitimate or not."
Breska lögreglan eyddi vel á fjórða hundrað milljónum íslenskra króna í rannsóknina, en hún endaði með "aðal ákærandann" fyrir rétti.
En það er rétt að taka það fram að auðvitað veit ég ekkert meir um sekt eða sakleysi Cliff Richards eða Edward Heath, en það sem ég hef lesið í fjölmiðlum.
Ég held líka að það megi nokkurn veginn ganga út frá því sem vísu að ásakanirnar muni loða við nöfn þeirra um fyrirsjáanlega framtíð.
Enn og aftur vil ég taka það fram að með þessum pistli er ég ekki að taka afstöðu til ásakana sem birst hafa nýlega á Íslenskri vefsíðu.
Þessum pistli er meira ætlað að koma á framfæri áhyggjum af þróuninni, ef slíkt verður að "norminu" í framtíðinni.
Það er þekkt að fáar fjaðrir geta orðið að heilum "Lúkasi".
En er einhver stofnun á Íslandi sem gæti leitt hið sanna í ljós í slíkum málum?
Eða telja Íslendingar þörf á að koma á fót slíkri stofnun? Er það yfirleitt hægt?
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.1.2017 | 19:12
Hvaðan koma "falskar fréttir"?
Það hefur mikið verið rætt um "falskar fréttir" undanfarnar vikur. Það má ef til vill segja að "falskar fréttir" séu af fleiri en einnar gerðar.
Ein tegund, og hún er vissulega verulega hvimleið, er hreinlega uppspuni frá rótum, oft um þekktar persónur, en einnig um "undarlega" atburði eða svokallaðar "samsæriskenningar".
Oft eru slíkar fréttir eingöngu settar fram til að afla "smella" og þannig höfundum þeirra tekna. Slíkt var nokkuð algengt fyrir nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Mikið af "fréttunum" mátti rekja til ungs fólks í A-Evrópu og Balkanskaga sem aflaði sér umtalsverðra tekna með þeim.
Þó að fréttirnar séu misjafnar að gerð, eru margar þeirra þess eðlis að lesendum reynist ekki erfitt að gera sér grein fyrir því að trúverðugleikinn sé ekki mikill, þó að fyrirsögnin hafi verið þess eðlis að freistandi væri að skoða málið nánar.
Afbrigði af þessu má sjá víða, þar á meðal á íslenskum miðlum, en oftar er þó látið nægja að veiða með fyrirsögn, sem er tvíræð, eða leynir því hvort að um íslenska eða erlenda frétt er að ræða, en beinar "falsanir" eru lítt þekktar (nema ef til vill þegar þær eru teknar beint úr erlendum miðlum). Músasmellir eru peningar.
En fréttir þar sem "sérfræðingar" láta gamminn geysa hafa líka aukist stórum undanfarin ár. Þar má oft lesa stórar fullyrðingar og vafasamar spár sem án efa eru mikið lesnar, en reynast oft hæpnar og beinlínis rangar.
Af þessum meiði eru t.d. þær spár frá Englandsbanka sem er fjallað um í viðhengri frétt. Þær spár fengu að sjálfsögðu mikið pláss í fjölmiðlum. Slíkt enda ekki óeðlilegt.
Spá breska fjármálaráðuneytisins af sama tilefni hefur einnig þótt langt frá lagi og verið harðlega gagnrýnd. Slíkar fréttir sem áttu margar uppruna sinn innan stjórnkerfisins voru sameiginlega kallaðar "project fear". Þegar starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafa reynt að klóra í bakkann eftir á, hefur komið fram að ein af forsendum útreikninganna hafi verið að Englandsbanki myndi ekki grípa til neinna ráðstafanna, yrði Brexit ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Geri nú hver upp við sig hversu líklegt væri að Englandsbanki brygðist á engan hátt við?
Það er rétt að það komi fram að þeir sem börðust fyrir jái, í Brexit atkvæðagreiðslunni gerðu sig einnig seka um að kasta fram ýmsum fullyrðingum, sem voru í besta falli misvísandi og reynast ekki réttar séu allar forsendur teknar með í reikninginn. Einhverra hluta vegna hafa þær þó fengið mun meiri athygli en fullyrðingar þeirra sem börðust fyrir nei-i.
Það má ef til vill að hluta til útskýra með því að það sé síður ástæða til að staðreyndareyna fullyrðingar þeirra sem bíða lægri hlut. En það er ekki eftir að úrslitin eru ljós sem slíkar fullyrðingar hafa áhrif, heldur í kosningabaráttunni.
Íslendingar þekkja ágætlega af eigin raun "fréttir" af slíkum toga. Hvað skýrast komu þær fram í Icesave deilunni, þar sem flestir fjölmiðlar voru fullir af "sérfræðingum" og öðrum álitsgjöfum sem kepptust um að lýsa þeim hörmungum sem myndu dynja á Íslendingum ef samningarnir yrðu ekki samþykktir.
Hvort við segjum að skoðanir "sérfræðinganna" hafi reynst rangar (falskar) eða að fréttirnar hafi verið það er líklega skilgreiningaratriði.
En það er ljóst að fjölmiðlarnir gerðu ekkert til þess að staðreynda kanna fullyrðingarnar, enda ef til vill erfitt um vik, því mér er ekki kunnugt að mikil rök hafi fylgt þeim.
Hvort skyldi svo vera hættulegra lýðræðinu, uppspuni unglinga í A-Evrópu og Balkanskaga eða "fimbulfamb" svo kallaðra "sérfræðinga"?
En eitt er víst að hvort tveggja framkallar músasmelli.
Þriðju uppspretta "falskra frétta" sem nefna má (þær eru vissulega fleiri) eru fréttastofur sem kostaðar eru af stjórnvöldum hér og þar í heiminum.
Ýmsar einræðisstjórnir (eða næstum því einræðisstjórnir) sjá sér vitanlega hag í því að fréttir séu sagðar út frá þeirra sjónarmiðum og hagsmunum.
Slíkt er orðið tiltölulega einfalt og hefur internetið gert alla dreifingu auðveldari og jafnframt ódýrari.
Á meðal slíkra stöðva má nefna sem dæmi RT og Sputnik sem eru kostaðar af Rússneskum stjórnvöldum og svo fréttastöðvar frá Kína, N-Kóreu og fleiri löndum.
Hér og þar á Vesturlöndum má verða vart við vaxandi áhyggjur af slíkum miðlum og æ ákafari áköll um að hið opinbera skerist í leikinn og reki "gagnmiðla" og skeri upp herör gegn ósannindum og "fölskum fréttum".
Persónulega er ég þeirrar skoðunar að góðir og öflugir fjölmiðlar verði seint ofmetnir.
Það er því ótrúlegt ef þeirri skoðun vex stöðugt fylgi að að hinir öflugu fjölmiðlar á Vesturlöndum fari halloka gegn miðlum "einræðisríkjanna".
Ef svo er hljótum við að spyrja okkur að því hvernig stendur á því að þeir hafi tapað svo miklu af trúverðugleika sínum?
Ef það er raunin.
En ég hef líka miklar efasemdir um "sannleiksdómstól" hins opinbera, ég held að slíkt geti aldrei talist lausn. Þó er víða kallað eftir slíku og beita þurfi sektargreiðslum gegn miðlum sem slíkt birta.
Með slíkum rökum hefðu íslenskir miðlar líklega verið sektaðir fyrir að birta fleipur "sérfræðinga" sem fullyrtu að Ísland yrði eins og N-Kórea eða Kúba norðursins.
Það er engin ástæða til þess að feta þann veg.
Það er hins vegar næsta víst að fjölmiðlar muni um ókomna framtíð birta fréttir sem reynast rangar (sumir vilja meina að nokkuð hafi verið um það nú, af stjórnarmyndunarviðræðum) og alls kyns vitleysa líti dagsins ljós. Það er sömuleiðis næsta víst að einhverjir fjölmiðlar sleppa því að birta einhverjar fréttir þegar það hentar ekki einhverjum sem þeir styðja. New York Times baðst nýverið afsökunar á slíku. CNN rak fjölmiðlamann sem lak spurningum til forsetaframbjóðenda.
Fjölmiðlar hafa aldrei, eru ekki og munu líklega aldrei verða fullkomnir.
Þess vegna eigum við öll að lesa eins marga af þeim og við komumst yfir og höfum tíma til. Það er líka æskilegt að við látum í okkur heyra ef okkur er misboðið.
En ég held að engin lausn felist í því að ríkisvæða "sannleikann", eða að koma á fót "fréttalögreglu". Sektir fyrir rangar fréttir munu ekki heldur leysa vandann.
En við þurfum að gera okkur grein fyrir því að fréttir eru ekki alltaf réttar, þær eru líka sagðar frá mismunandi sjónarhornum.
Ef 20 manns horfa á sama atburðinn, er líklegt að lýsingar þeirra séu býsna mismunandi, jafnvel hvað snertir það sem talið væri grundvallaratriði.
Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að "sérfræðingar" hafa skoðanir.
Hafði rangt fyrir sér um áhrif Brexit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt 11.1.2017 kl. 05:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.11.2016 | 16:54
Rétttrúnaðarlögreglan lætur til sín taka
Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega steinhissa. Persónulega þykir mér ótrúlegt að ég sé að fylgjast með atburðum sem þessum á Íslandi árið 2016.
Sjálfur er ég svo illa "tjúnaður" inn á hinn pólítíska rétttrúnað að ég get einfaldlega ekki séð neitt hatur í þeim ummælum sem birt eru í þessari frétt.
Ég sé einfaldlega tjáningu á andstæðum skoðunum.
Og slíku framferði er ég vel kunnugur. Hér á þessari bloggsíðu (og víðar) hef ég átt í "útistöðum" við alls kyns fólk, um hin mismunandi málefni. Þannig gerast skoðanaskipti.
Einn af þeim sem ég hef átt í "rifrildum" við hér er "sökudólgurinn" Jón Valur Jensson.
Oftar en ekki erum við á algerlega öndverðum eiði. Jón er enda einn af þeim sem ég kalla stundum "kristilega talíbana". Það er ekki vegna þess að ég sé að saka þá um að fara um með morðum og limlestingum, heldur vegna þess að fyrir minn smekk eru þeir full trúaðir á "bókstafinn".
En þó að enga hafi ég trúnna, get ég vel unnt öðrum slíkrar bábilju. Slíkt verður hver að eiga og velja fyrir sig.
Ég get vel unnt þeim að slengja á mig "ritningunni" og jafnvel þó þeir hóti mér helvítisvist skiptir það mig engu máli.
Ég hef fulla trú á því að þeir eigi jafnan rétt og ég að tjá sig, og hef haft það að reglu hér á bloggi mínu, að allt sem er kurteislega sett fram fái að standa.
En sagan geymir vissulega margar ljótar sögur af rétttrúnaði. Fjöldi einstaklinga hefur hefur dæmdur fyrir villutrú, píndir, limlestir og drepnir.
Réttarhöld í nafni kristilegs rétttrúnaðar eru svartur blettur á sögunni, en þau sem hafa verið haldin í nafni "pólítísks rétttrúnaðar" eru ekki hætis hótinu skárri.
Nú stefnir allt í réttarhöld "pólítísks rétttrúnaðar" á Íslandi. Það er miður.
Það er að mínu mati umræðunni ekki til framdráttar og réttindabaráttu samkynhneigðra ekki heldur.
"Kristilegir píslarvottar", verða umræðunni ekki til framdráttar.
Skerðing á tjáningarfrelsi er það ekki heldur.
P.S. Það hljóta einhverjir að vera farnir að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að lögin um guðlast taki gildi aftur. :-)
Jón Valur ákærður fyrir hatursorðræðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.3.2015 | 20:28
Rússnesk atvinnutröll?
Ég fékk tengil á þessa frétt RUV sendann í tölvupósti. Þar er fjallað um að Rússar séu með "bloggtröll" á launum við að blogga jákvætt um Rússa og setja jákvæðar athugasemdir á önnur blogg, og gera þau tortryggileg sem eru Rússum neikvæð.
Reyndar hefur verið fjallað nokkuð mikið um slíkt á ýmsum "litlum miðlum" undanfarin 2 til 3 ár, en ég man þó ekki eftir að hafa séð mikið um þetta á almennum miðlum. Reyndar má rekja slíka umræðu mun lengra aftur og í kringum 2003 til 2004 byrjuðu fyrstu fréttir af slíku að koma fram. Var þá talað um að umræður a Rússneskum spjallborðum hefðu tekið merkjanlegum breytingum fljótlega eftir árið 2000.
En vissulega er erfitt að henda nákvæmar reiður á slíku.
En í sjálfu sér er þetta eingöngu rökrétt framhald í þróun áróðurs og tilrauna til að hafa áhrif á "almenningsálitið".
Það verður að teljast ólíklegt að Rússar séu þeir einu sem standi í slíku, þó að vissulega búi þeir við ríka hefð í áróðri, og fáir ef nokkrir standi þeim framar í þeim efnum.
En blog og "athugasemdir" eru orðin partur af nútíma fjölmiðlun og því að sjálfsögðu beitt í áróðursstríði, jafnt af Rússum sem öðrum.
Nútíma stjórnmálabarátta fer ekki síst fram á "samfélagsmiðlum", með bloggum, tístum, myndböndum og skopmyndum.
Stundum skipulega, stundum ekki, og það er auðvelt að missa stjórn á atburðarásinni.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.1.2013 | 16:17
Blekkingarleikur? Hvað hefur breyst? Hví brestur nú flótti í liðið?
Það er nokkuð merkilegt að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ákveði nú að "hægja" á aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið.
Einhver myndi líklega spyrja hvort að hægt sé að fara mikið hægar yfir en gert hefur verð?
En auðvitað breytir þetta engu í raun. Aðeins er verið að reyna að gera málamiðlun þannig að hvorir tveggja geti nokkurn veginn haldið andlitinu, Samfylking og Vinstri grænir. Þetta er nokkuð týpísk moðsuða sem vænta má frá þessari ríkisstjórn. Moðsuða sem gerir flestum kleyft að túlka ákvörðunina á sinn eigin veg.
Það sem þessi ákvörðun á að ná fram, er að reyna að minnka umræðuna um Evrópusambandið fyrir kosningar. Hana hræðast Samfylkingin og þó sérstaklega Vinstri grænir.
Það eina sem hefur breyst er að með hverjum degi styttist í kosningar og það verður erfiðara og erfiðara að horfast í augu við kjósendur með "Sambandsaðildina" á bakinu.
Það er undir kjósendum komið að láta umræðu um málið ekki falla niður.
Rétt er að hafa í huga að:
Áfram heldur aðlögun Íslands að regluverki "Sambandsins".
Það verður ekki hægt á starfsemi undir- og áróðursstofu "Sambandsins" á Íslandi. Áróður hennar mun halda áfram og líklega ekki slakað á fyrir kosningarm, til hagsbóta fyrir aðildarflokka, en gegn stefnu annara. Slíkur áróður erlends ríkjabandalags í aðdraganda kosninga er fordæmalaus á Íslandi.
Það er líka merkileg staðreynd, að ríkisstjórn sem talar svo hátt um að leyfa þjóðinni/kjósendum að að ráða niðurstöðunnin, neitaði að halda þjóðaratkvæðgreiðslu um hvort sækja skyldi um.
Það er líka merkilegt að þessi ákvörðun án þess að hafa nokkurt samráð við Alþingi, hvað þá utanríkismálanefnd. Ákvörðun um að "hægja" á viðræðunum er ríkisstjórnarinnar einnar.
En í raun hefur ekkert breyst, Samfylkingin vill ennþá inn í "Sambandið" frekar en nokkuð annað og VG styður ennþá þá aðild, ekki alltaf í orði, en alltaf á borði.
Því eiga þeir kjósendur sem eru á móti "Sambandsaðild" ekki neinn annan möguleika en að hundsa þessa flokka í kosningunum í vor.
En auðvitað væri best að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um málið samhliða þingkosningunum í vor.
Spurt yrði: Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið?
Svarmöguleikar: Já Nei
P.S. Sé svo í fréttum nú að VG hefur ákveðið að bola Jóni Bjarnasyny úr utanríkismálanefnd. Það er eftir öðru á þeim bænum. Öllum sem ekki fylgja flokkslínunni um "Sambandsaðild" er rutt úr vegi.
Það er ekki "hægt" á þeim "hreinsunum".
Hægt á viðræðunum við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.10.2011 | 13:01
Búið að vera við frostmark í Víti undanfarin misseri
Vaknaði allt of snemma, hellti upp á kaffi og settist við tölvuna. Las fréttir og fór síðan að vinna aðeins í blogsíðunni minni. Henti út bloggvinum sem ekkert hafa sett inn seinnipart þessa árs. Fór svo að glugga í nokkrar gamlar færslur. Rakst þá á þessa frétt af vef mbl, sem ég hafði tengt á.
Netið gleymir ekki hlutum svo glatt.
Frétt mbl.is Fyrr frýs í víti en ég skipti um flokk
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)