Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Af lekum og lekendum

Sú deila, sem á köflum er býsna farsakennd, sem geysar um hver hafi brotist inn í tölvukerfi tengd Demókrataflokknum í Bandaríkjunum vekur upp ýmsar spurningar.

Flestum þeirra er ekki auðvelt að svara, en margar þeirra eru þess eðlis að það er vert að gefa þeim gaum, velta þeim aðeins fyrir sér - alla vegna að mínu mati.

Ein af spurningunum er: Skiptir það máli hver lekur, hver er "lekandinn"?

Á ekki meginmálið ætíð að vera efni lekans? Og þá jafnframt spurningin á efni lekans erindi við almenning?

Hefðu Íslendingar litið öðruvísi á innihald "Panamaskjalanna" eftir því hver lak þeim?

Skiptir ekki innihaldið meginmáli?

Það segir sig einnig sjálft að það hlýtur að vera óraunhæf krafa að "lekendur" gæti jafnvægis í lekum sínum. Þá skiptir engu máli hvort að um sé að ræða tvísýnar kosningar eða aðra atburði eða kringumstæður.

"Lekendur" hljóta einfaldlega að miðla því efni sem þeir hafa komist yfir.

Önnur hlið er svo að ef viði viljum meina, eins og margir gera nú, að Wikileaks sé ómarktæk upplýsingaveita, og sé handbendi Rússa, getum við litið sömu augum á fyrri upplýsingaleka þeirra?

Er Wikileaks einfaldlega eitt af áróðurstólum Pútins og Rússa? Er það tilviljun að Snowden kýs að halda sig í Rússlandi?

Við engum þessum spurningum er til hrein og bein svör.  Alla vegna ekki fyrir okkur sem búum ekki yfir neinum "innherjaupplýsingum".

Hitt er löngum vitað að leyniþjónustur flestra ríkja njósna um andstæðinga og einnig samherja. Hvernig þær kjósa að nýta sér þær upplýsingar sem þannig er aflað er annar handleggur og vissulega eru til ýmis dæmi um leka sem erfitt hefur verið að rekja.

En það er líka rétt að hafa í huga að leki um að reglur og gott siðferði hafi verið haldnar vekja yfirleitt litla athygli.

Það er jú innihald lekanna sem vekur athygli.

 

 


mbl.is Háttsettir vitna gegn Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar skulda skýringar

Það er eðlilegt að taka undir áhyggjur Árna Páls Árnasonar hvað varðar framkvæmd á prófkjörum hjá Pírötum.

Ekki síst ef rétt er eftir einum af trúnaðarmönnum þeirra haft hjá RÚV:

…hann gekkst við því meðal annars að hafa fengið, eins og hann orðaði það, nokkra félaga, 20-30 manns, til að skrá sig í flokkinn til þess að kjósa sig og samkvæmt þeim tölfræðigögnum sem voru birt um kosninguna, þá kusu 18 af þessum eingöngu hann og engan annan í prófkjörinu en fólki var frjálst að raða öllum sem að voru í framboði á kjörseðil hjá sér.

Það verður seint talin mikil "smalamennska" að hafa fengið ríflega 20 einstaklinga til að ganga í flokk til þess að kjósa sig.

En það getur ekki talist alvarlegi hluturinn.

Ef hins vegar einhver innan Pírata telur sig geta fullyrt um hvernig þeir einstaklingar sem taldir eru á meðal þeirra "smöluðu" hafa kosið, eru prófkjör og kosningar innan þess flokks komnar á hættulegt stig.

Við teljum okkur vita að innan Pírata starfi margir einstaklingar sem kunna fótum sínum vel forráð á hinum "stafrænu slóðum", en að þeir noti þá þekkingu sína til að kortleggja hvernig einstaklingar nota atkvæðisrétt sinn er hrollvekjandi tilhugsun og setur flokkinn allan í vægast sagt slæma stöðu, ef rétt er.

Píratar skulda almenningi og ekki síður þeim sem tekið hafa þátt í prófkjörum þeirra útskýringu á þessum málum.

Ég er hins vegar sammála því að enn sem komið er að minnsta kosti, ef svo verður nokkurn tíma, er ekki tímabært að kosningar fari fram á netinu.

Til þess eru hætturnar of margar og öll rök um að slíkt auki þátttöku, hafa að mínu mati reynst hjómið eitt.

Í raun virðast prófkjör Pírata og þátttaka í þeim styðja slíkar skoðanir.

Persónulega tel ég að aðeins áhugaverð stjórnmál og stjórnmálamenn megni að auka þátttöku.

Að mörgu leyti má líklega segja að prófkjör á Íslandi undanfarnar vikur styðji þá skoðun mína.

 

 


mbl.is Rétta fólkið kosið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Straumhvörf?

Rafhlaða eins og þessi getur valdið straumhvörfum, í bókstaflegri merkingu. Þegar tæknin er orðin góð, ódýr og endist vel, er líklegt að "bylting" verði í raforkuframleiðslu.

Grundvöllur fyrir aukinni notkun lítilla vindmylla og sólarorku gjörbreytist.

En mér sýnist þó að kostnaðurinn við þessar rafhlöður og geymslugetan sé með enn með þeim hætti að notendur geti ekki tengt sig frá netinu, nema á sólríkustu og/eða vindasömustu stöðum.

En án efa eiga þessir "rafhlöðuskápar" eftir að verða öflugri, endingarbetri og ódýrari. Það er því líklegt að innan skamms tíma verði "orkuveggur" á flestum "betri heimilum".

En enn sýnist mér að eingöngu sé um öflugan varaaflgjafa að ræða.

 

 

 


mbl.is Tesla kynnir nýja ofurrafhlöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neikvæðar auglýsingar

Ég geri mér vel grein fyrir því að í fjölmiðlumhverfi samtímans er baráttan hörð. Þegar æ færri eru reiðubúnir til þess að greiða fyrir fjölmiðlanotkun, þá verður æ erfiðara fyrir þá að ná til fjármagn, til að veita þá þjónustu, sem við viljum þó svo gjarna njóta.

Ég er mikill notandi "ókeypis" fjölmiðla, bæði Íslenskra og annara.

Ég á auðvelt með að sætta mig við auglýsingar, því ég geri mér grein fyrir því að þær eru órjúfanlegur þáttur ókeypis miðla, og jafnvel þeirra sem þó krefjast áskriftargjalds.

En of ágengar og "ruddalegar" auglýsingar virka neikvætt, í það minnsta á mig, bæði fyrir auglýsenda og fjölmiðil.

Því eru vefir Vefpressunar komnir út af mínum fjölmiðlarúnt.

Ég þoli einfaldlega ekki auglýsingar sem spila síendurtekin skilaboð.

Það má þola þau einu sinni eða svo, en ekki meir.

Enn síður, fá slíkar auglýsingar fá mig til að skipta við viðkomandi fyrirtæki.

 


Misskilin mannréttindi

Íslendingar ættu auðvitað að taka sig saman og þakka Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness fyrir frábært og óeigingjarnt framtak.

Líklega hefðu margir Íslendingar ekki getað horft á sólmyrkvann ef þeir hefðu ekki staðið sig eins og hetjur.

En það er óneitanlega leiðinlegt að lesa um að þeir hafi setið undir skömmum og jafnveld verið ásakaðir um mannréttindabrot, vegna þess að þeir hafi ekki átt gleraugu handa öllum sem vildu.

En það leiðir hugann að því hvernig æ fleiri virðast nú á dögum misskilja og mistúlka hugtök eins og mannréttindi og jafnrétti.

Auðvitað átti engin kröfu á því að fá ókeypis "sólmyrkvagleraugu", hvað þá að það teljist sjálfsögð mannréttindi að fá slíkt að gjöf.

Það er heldur ekki á skjön við neitt jafnrétti þó að sumir hafi fengið slíkt að gjöf (eða getað keypt) en aðrir ekki.

En það er ef til vill ekki að undra að skilningur á hugökum eins og mannréttindum og jafnrétti séu á niðurleið, ef þeir sem leiðbeina börnum og unglingum setja fram skoðanir líkt og þessar.

P.S. Ég eða mín börn höfðum auðvitað ekkert með gleraugu að gera, en nutum þess að horfa á frábæran sólmyrkva á netinu, bæði frá íslandi en en betri var þó útsendingin frá Svalbarða.

 

 

 


mbl.is Hystería í aðdraganda sólmyrkvans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hubble sjónaukinn gerir ekki myndir

Stórkostleg mynd, bæði frá sjónarmiði ljósmyndunar og stjörnufræði (þó að ég hafi takmarkað vit á stjörnufræði).

Til fyrirmyndar að mbl.is skuli birta hana og leyfa lesendum að njóta.

En Hubble sjónaukinn "gerir" ekki myndir, alla vegna finnst mér það klaufalega orðað.

Hubble tekur myndir.

Ljósmyndarar gera sumir hvoru tveggja.  Það er að segja þeir "stilla upp" myndefninu áður en þeir taka myndina.  Hagræða ljósum, sviðsmunum, fólki o.s.frv.

En þó að tækninni fleygi fram, efast ég um að slíkt sé á færi Hubble, eða stjórnenda hans hvað þessa mynd varðar.

Þessi orðnotkun rímar alla vegna ekki við mína máltilfinningu.


mbl.is Endurgerði frægustu mynd sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barist á netinu

Það er barist þar sem mögulegt er að berjast.

Eftir því sem netið verður stærri þáttur í daglegu lífi, er líklegt að baráttan þar aukist og harðni.

Það er hægt að ímynda sér margt skelfilegt í þeim efnum og hægt að teikna upp hræðilegar "sviðsmyndir", svo ég sletti nú tískuorði.

Það eru margar sögusagnir á kreiki í kringum þessa árás. Flestir virðast hafa talið a "hakkarar" í N-Kóreu væru þess ekki megnugir að gera árás sem þessa. 

Talað er um að þeir hafi notið aðstoðar frá "hökkurum" í Rússlandi, Kína og jafnvel Íran.

Líklega má færa rök fyrir því að þessar þjóðir hafi óttast til hvaða landa yrði farið ef um framhaldsmyndir yrði að ræða :-)

En þetta er þörf áminning fyrir þjóðir heims að skylda til þeirra til að vernda borgara sína nær einnig til netsins og tölvukerfa.

Fullkomið öryggi er ekki til, en það er hlýtur samt að vera hægt að gera betur.

Innbrotið hjá Sony Pictures sýnir að enginn er öruggur.

Mörg fyrirtæki og ríkisstjórnir hljóta að vera hugsandi þessa dagana og velta því fyrir sér hvað skuli til bragðs taka.

"Netöryggir", eða svipuð orð gætu hæglega orðið eitt af "tískuorðunum" árið 2015.

 

 

 

 


mbl.is FBI sakar N-Kóreu um tölvuárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð orkunýting

Varmadælur eru stórmerkileg og orkusparandi fyrirbæri. Það er enginn vafi að því að þær geta nýst vel á "köldum" svæðum á Íslandi og sparað raforku og notendum kostnað.

Varmadælur eru í notkun á svæðum þar sem mun kaldara er en á Íslandi, s.s. í Kanada, Bandaríkjunum, Finnlandi, Svíþjóð og Eistlandi, svo einhver dæmi séu nefnd.

Með því að leggja aukna áherslu á varmadælur má án efa bæta kjör og lífsgæði margra þeirra sem búa á svokölluðum köldum svæðum á Íslandi.

Jafnframt má útrýma þörfinni fyrir niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði, því þeim peningum er betur varið til að styrkja uppsetningu á varmadælum.

 


mbl.is Varma dælt úr sjónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnar bitu í súr epli

Það hljómar skringilega þegar forsætisráðherra  segir að velgengi eins fyrirtækis eigi stóran þátt í vandræðum þjóðar sinnar.

En þegar Finnski forsætisráðherrann segir þetta er ekki hægt að neita því að hann hefur eitthvað til síns máls.  Reyndar er auðvitað orðum aukið að segja Apple sé um að kenna minnkandi pappírsnotkun og hrun Nokia, en vissulega má segja að Apple hafi startað þeirri byltingu snjallsíma og handtölva sem hefur leitt til minnkandi pappírsnotkunar og kom Nokia næstum fyrir kattarnef og alla leið fyrir nef Microsoft.

Þetta sýnir að velgengni og hraður vöxtur fyrirtækja getur haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér, þegar og ef þau tapa forskoti sínu, þó að vissulega leggi þau mikið til með sér þegar vel gengur.

Og það má vissulega segja um Nokia, því rétt eins og  sjálft sig færði það Finna "úr stígvélunum" og í hátækniðnað.

En fyrirtæki koma og fara, sérstaklega í hátækni iðnaði og fallvölt gæfa þar, enda mörg "heimsfræg" merki sem hafa komið þar og farið.  Og Apple, átti einnig langa eyðimerkurgöngu, og er reyndar ekki mjög algengt í þeim geira, að fyrirtæki snúi aftur, úr slíku eyðimerkurráfi, með þeim glæsibrag sem Apple hefur gert.

Og auðvitað hefur minnkandi sala dagblaða, og aukin útgáfa á þeirra og einnig bóka á rafrænu formi áhrif á eftirspurn eftir pappír og timbri.

En vandamál Finna magnaðist upp vegna gjaldmiðils þeirra, sem tók ekkert mið af efnahagsaðstæðum Finna, þeir enda smáþjóð á Eurosvæðinu.

Þannig jókst kostnaður þeirra meira en keppinautanna á þeim kafla þegar euroið styrkti sig hvað mest.  Á árabilinu 2001 til 2008 styrktist euroið um u.þ.b. 50% gegn hinum Bandaríska dollar.  En var það í takt við efnahag Finna?

Síðan þegar fer að harðna á dalnum, þá er gengið ennþá sterkt.

Finnar halda áfram góðum kaupmætti og geta farið til nágrannalandanna s.s. Eistlands til innkaupa.  Sparifjáreigendur eiga sitt sparifé "óskert", en æ fleiri Finnar missa vinnunna og vandamálin hrannast upp í efnahagslífinu.

Timburiðnaðurinn í vandræðum, Nokia svo gott sem horfið og Rússneskum ferðamönnum, sem hafa verið mikilvægir, sérstaklega í austurhéruðum Finnlands, snarfækkar, enda minna sem þeir fá fyrir rúblurnar, sem hefur fallið skarpt í takt við efnahagsástandið í Rússlandi.

Útflutningur til Rússlands hefur sömuleiðs fallið skarpt, bæði vegna gengis og ekki síður viðskiptatakmarkanna á báða bóga. (Það hefur reyndar orðið Finnskum neytendum til góðs, enda má nú kaupa t.d. "Putin" ost og smjör í Finnlandi á verulega niðursettu verði.  Það eru vörur sem eru í umbúðum fyrir Rússland, en fást ekki seldar þangað lengur.  Neytendur kætast og hamstra, en Finnskir bændur og framleiðendur í matvælageiranum eru í vandræðum.)

Svo alvarlegt er útlitið hjá Finnum nú, að þeir hyggjast leita ráða hjá fyrrverandi fjármálaráðherra Svía, við nokkuð blendnar undirtektir í Finnsku stjórnmálalífi.  Borg er þekktur fyrir að segja skoðanir sínar á efnahagsstjórnun annara ríkja án hiks, og vonandi reynist hann Finnum vel.

Ofan á allt þetta er svo útlit fyrir vaxandi óróa í Finnskum stjórnmálum og spurning hvort að Finnska stjórnin springi vegna ágreinings um kjarnorku?

Þau eru vissulega frekar súr eplin sem Finnar hafa bitið í undanfarin ár,  og þó að ég telji ekki rétt að segja að euroið sé rót vandans, hefur það ekki hjálpað til og unnið gegn Finnum.

En ég hef fulla trú á Finnum og að þeir eigi eftir að vinna sig úr vandræðunum, því öfugt við mörg önnur ríki Eurosvæðisins virðast þeir ætla að ráðast á vandann nú þegar, en ekki bíða eftir því að eitthvað gerist og mæna á Seðlabanka Eurosvæðisins.

Nú þegar þeir hafa misst AAA lánshæfiseinkunn sína, sem kemur til með að þýða hækkandi vaxtagreiðslur, bretta þeir upp ermarnar og hyggjast vinna í sínum málum.

En euroið gefur þeim lítinn sveigjanleika, og líklega eiga Finnar fá ráð, nema niðurskurð.  Launalækkanir eru erfiðar viðurfangs í Finnlandi og ekki líklegt að þeir geti aukið útflutning verulega við núverandi aðstæður.

Líklega mun því atvinnuleysi halda áfram að aukast í Finnlandi á næstu mánuðum, og mun áreiðanlega verða eitt meginmálið í kosningunum, sem áætlaðar eru í apríl á næsta ári.  Það er að segja ef ríkisstjórnin springur ekki áður.

En, rétt eins og á Íslandi, er lítil hefð fyrir minnihlutastjórnum í Finnlandi og því líklegt að kosningum yrði flýtt ef ríkisstjórnin springur.

 

 


mbl.is Meðaleinkunn ESB-landa versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar á netinu auka ekki kosningaþátttöku. Aðeins áhugaverð stjórnmál og stjórnmálamenn geta gert það

Nú að nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum er mörgum brugðið yfir þeirri staðreynd hvað kosningaþátttakan er léleg og hefur farið hratt minnkandi.

Margir telja að nauðsynlegt sé að hefja netkosningar til vegs og virðingar, svo auka megi kosningaþátttöku.

Persónulega er ég á öndverðri skoðun, þó að tækninni fleygi sífellt fram, hef ég ekki séð neinar sterkar vísbendingar um að netkosningar auki kosningaþátttöku, en hins vegar bjóða þær ýmsum hættum heim.

Fáar, ef nokkrar, þjóðir hafa meiri reynslu af netkosningum en Eistlendingar. Þar voru fyrstu kosningarnar með þeim möguleika að greiða atkvæði á internetinu haldnar 2005.  Það voru sveitarstjórnarkosningar, en síðan hafa verið haldnar þingkosningar, bæði til þings Eistlands og Evrópusambandsþingsins, þar sem boðið hefur verið upp á þann möguleika að greiða atkvæði á netinu.

Netkosningar fara ávalt fram nokkrum dögum fyrir hinn eiginlega kjördag.  Þannig lokar netkosningin 2 til 3 dögum fyrir kjördag.  Líklega er þetta gert í öryggisskyni, þannig að möguleiki sé á að hvetja kjósendur til að endurtaka atkvæði sín á "hefðbundin" hátt, ef eitthvað kemur upp á hvað varða e-atkvæðin.

Þeim fjölgar (sem hlutfalli) sem greiða atkvæði sín á netinu.  En það hefur ekki orðið til þess að stórauka kosningaþátttöku, sem fer upp og niður eftir sem áður.

Þannig minnkaði kosningaþátttaka í kosningum til Evrópusambandsþingsins sem voru í maí.  Þar fór kosningaþátttakan úr u.þ.b. 44% árið 2009 í  u.þ.b. 36% í ár.  Hvoru tveggja er þó betri þátttaka en árið 2004, er þátttakan var u.þ.b. 22%.

En auðvitað segja prósentutölur ekki alla söguna, það sem skiptir líklega mestu máli er hvort kjósendum finnst kosningarnar skipta máli og hvort að frambjóðendur nái til þeirra.  Þannig vilja margir þakka Indrek Tarand aukninguna í Evrópusambandsþingkosningunum árið 2009.  Hann var í einmenningsframboði, en hlaut rétt tæp 26% atkvæða.  Aðeins 1. stjórnmálaflokkur náði fleiri atkvæðum og var munurinn um 1100, eða um kvart %.  Atkvæðafjöldi hans hefði nægt til að koma 2. mönnum á þingið, en hann var einn í framboði.

Þannig hefur kosningaþátttaka verið upp og niður í Eistlandi, en óhætt yrði að segja að Eistlendingar yrðu nokkuð ánægðir með kosningaþátttöku þá sem Íslendingum þykir nú svo arfaslök

Hins vegar færa e-atkvæðagreiðslur þeim sem ekki eru staddir í heimalandinu, eða búa langt frá kjörstað að sjálfsögðu gríðarleg þægindi.  Það skiptir miklu máli í landi eins og Eistlandi þar sem tugir þúsunda sækja vinnu í öðrum löndum eða búa jafnvel í öðrum heimsálfum.

En netkosningar koma ekki án galla.  T.d. er ekki lengur hægt að tryggja að kjósendur séu "einir í kjörklefanum".  Það er hugsanlegt að einstaklingur kjósi undir "pressu" og auðveldara er að fylgjast með því að kosið sé "rétt".  Atkvæðakaup eru einnig gerð auðveldari og "tryggari". 

Hugsanlegt er að einstaklingar afhendi öðrum aðgang sinn að kosningakerfinu.

Ég held að aðeins áhugaverð stjórnmál og áhugaverðir stjórnmálamenn geti aukið kosningaþátttöku.

Það sem er ef til vill ekki hvað síst áhugavert, er hvað áhugi virðist minni fyrir sveitarstjórnarkosningum (sérstaklega í stærri sveitarfélögum), en t.d. Alþingiskosningum.  Þó eru sveitarfélög ekki síður að taka ákvarðanir sem snerta daglegt líf borgaranna.

Margir greiða hærra hlutfall af launum sínum til sveitarfélagsins en til ríkisins.  Ef ég man rétt er það ekki fyrr en um og yfir 300.000 króna tekjum sem einstaklingur fer að borga hærri tekjuskatt en útsvar.

Hér fyrir eru tvær greinar af netinu um netkosningar í Eistlandi.

http://blogs.lse.ac.uk/europpblog/2013/10/04/the-estonian-experience-shows-that-while-online-voting-is-faster-and-cheaper-it-hasnt-increased-turnout/

http://www.eui.eu/Projects/EUDO-PublicOpinion/Documents/bochslere-voteeui2010.pdf

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband