Píratar skulda skýringar

Það er eðlilegt að taka undir áhyggjur Árna Páls Árnasonar hvað varðar framkvæmd á prófkjörum hjá Pírötum.

Ekki síst ef rétt er eftir einum af trúnaðarmönnum þeirra haft hjá RÚV:

…hann gekkst við því meðal annars að hafa fengið, eins og hann orðaði það, nokkra félaga, 20-30 manns, til að skrá sig í flokkinn til þess að kjósa sig og samkvæmt þeim tölfræðigögnum sem voru birt um kosninguna, þá kusu 18 af þessum eingöngu hann og engan annan í prófkjörinu en fólki var frjálst að raða öllum sem að voru í framboði á kjörseðil hjá sér.

Það verður seint talin mikil "smalamennska" að hafa fengið ríflega 20 einstaklinga til að ganga í flokk til þess að kjósa sig.

En það getur ekki talist alvarlegi hluturinn.

Ef hins vegar einhver innan Pírata telur sig geta fullyrt um hvernig þeir einstaklingar sem taldir eru á meðal þeirra "smöluðu" hafa kosið, eru prófkjör og kosningar innan þess flokks komnar á hættulegt stig.

Við teljum okkur vita að innan Pírata starfi margir einstaklingar sem kunna fótum sínum vel forráð á hinum "stafrænu slóðum", en að þeir noti þá þekkingu sína til að kortleggja hvernig einstaklingar nota atkvæðisrétt sinn er hrollvekjandi tilhugsun og setur flokkinn allan í vægast sagt slæma stöðu, ef rétt er.

Píratar skulda almenningi og ekki síður þeim sem tekið hafa þátt í prófkjörum þeirra útskýringu á þessum málum.

Ég er hins vegar sammála því að enn sem komið er að minnsta kosti, ef svo verður nokkurn tíma, er ekki tímabært að kosningar fari fram á netinu.

Til þess eru hætturnar of margar og öll rök um að slíkt auki þátttöku, hafa að mínu mati reynst hjómið eitt.

Í raun virðast prófkjör Pírata og þátttaka í þeim styðja slíkar skoðanir.

Persónulega tel ég að aðeins áhugaverð stjórnmál og stjórnmálamenn megni að auka þátttöku.

Að mörgu leyti má líklega segja að prófkjör á Íslandi undanfarnar vikur styðji þá skoðun mína.

 

 


mbl.is Rétta fólkið kosið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held reyndar að einn núverandi þingmanna Pírata (þessi þarna með taglið) hafi lýst því yfir í fjölmiðlum að netkosningum sé ekki treystandi, þannig að hann er sammála þér. Ég reyndar líka.

Kristján G. Arngrímsson, 6.9.2016 kl. 21:42

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þakka þér fyrir þetta Kristján. Ég held að flestir skynsamir einstaklingar hafi stóran fyrirvara hvað varðar netkosningar.  Þær eru einfaldlega ekki nógu traustar.

Ég er ekki hissa á því þó að Helgi Hrafn hafi það líka.

En það breytir því ekki að Píratar þyrftu að gefa skýringar á því hvernig einstaklingur á þeirra vegum getur gefið yfirlýsingar um hvernig "smalaðir "einstaklingar" hafi greitt atkvæði í prófkjöri á þeirra vegum.

Sé það rétt er um skelfilegan atburð að ræða.

Reyndar finnst mér Píratar stöðugt verða skelfilegri og skelfilegri flokkur, þó að ég geti ekki neitað því að ég ber að ýmsu leyti hlýjan hug til þeirra.

En því miður virðast þeir vera að breytast í enn einn "leim" vinstri flokkinn.

Það er engu líkara en vinstri menn þurfi sífellt nýjan flokk, og með æ stytra millibili.

Það var Nýr vettvangur og Þjóðvaki, og svo Samfylkingin, allir "hipp og kúl" á sínum tíma, svo kom Björt framtíð og þar vantaði nú ekki "kúlið" og nú Píratar.

Og sama fólkið virðist að all nokkru þvælast á milli í leit að "vinstrinu".'

Hreyfingin, Dögun og aðrir eru svo á jaðri mengisins en tengjast þessu líka.

G. Tómas Gunnarsson, 7.9.2016 kl. 16:52

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Dálítið til í þessari greiningu þinni á vinstrinu, en nýjungagirnin virðist vera að smitast til hægri með klofningi Sjálfstæðisflokksins. Hann er orðinn of mikið íhald fyrir suma.

Kristján G. Arngrímsson, 9.9.2016 kl. 12:27

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þakka þér fyrir þetta Kristján.  Vissulega er það full mikið íhald fyrir suma einstaklinga að geta ekki haft þá stefnu að afsala sjálfstæðinu til "Sambandsins".

Ef það er íhald, þá er ég íhald, þó að ég öllu jöfnu líti ekki á mig sem slíkt.

En það kyndir líka undir að sjaldan eða aldrei hafa möguleikar nýrra flokka verið jafn miklir.

G. Tómas Gunnarsson, 11.9.2016 kl. 16:59

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tja, þetta er spurning um hvernig maður skilur "sjálfstæði". Bestu greiningu á algengum ranghugmyndum Íslendinga um sjálfstæði er að finna í Sjálfstæðu fólki.

Mér er alvara þegar ég segi að Íslendingum væri betur borgið undir erlendum yfirráðum, sérstaklega ef þau væru norsk.

Kristján G. Arngrímsson, 11.9.2016 kl. 18:00

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að deila um hvað sjálfstæði og fullveldi er, ekki að mínu mati.

En það er einmitt gott dæmi um það þegar menn vilja fara að "endurskilgreina" hugtökin, þegar þau þjóna ekki pólítíska viljanum lengur.

Hitt er svo allt annað hvort að menn telji sjálfstæði og fullveldi óþarft og eins og þú segir ef til vill til bölvunar.

Það er önnur umræða.

G. Tómas Gunnarsson, 12.9.2016 kl. 01:13

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Að "þjóna pólitíska viljanum" er magnaður frasi. Manni detta í hug Sovétríkin sálugu. Sendir kalt vatn milli skinns og hörunds ...

Kristján G. Arngrímsson, 12.9.2016 kl. 09:57

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Hinn pólítíski vilji er staðreynd. Og þegar ekki má segja almenningi (kjósendum) sannleikann, eins og t.d. að þeir vilji gefa fullt sjálfstæði upp á bátinn til þess að ganga í Evrópusambandið, þá grípa þeir til þess ráðs að endurskilgreina hugtök eins og sjálfstæði og fullveldi.

En ég er ekki hissa þó að ýmsum renni kalt vatn á milli skins og hörunds þess vegna, en hef þó ekki orðið þess var hjá þér áður.

Ég hef oft vitnað til orða Jurgens Ligi, Eistnesks stjórnmálamanns, sem er menntamálaráðherra nú, en var fjármálaráðherra þegar Eistlendingar tóku upp euroið.

Hann sagði einfaldlega við þjóð sína að hann teldi að Eistland hefði ekki efni á fullu sjálfstæði. Þess vegna taldi hann að landið ætti að vera í "Sambandinu" og taka upp euroið.

Ég dáðist að hreinskilni hans þá og geri enn.

Hann er eins og flestir Eistlendinga á hans aldri uppalinn undir hernámi Sovétríkjanna og kynntist vel þeirra endurskilgreiningum á orðum og hugtökum.

Og vildi líklega ekki falla í þá sömu gryfju.

En hvernig hefur umræðan á Íslandi verið?

G. Tómas Gunnarsson, 12.9.2016 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband