Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Grænar baunir

Ég ætla ekki að fella neina dóma um meint spillingarmál sem mikið er til umfjöllunar í fjölmiðlum á Íslandi í dag.

Líklega er alltaf best að láta slík mál í hendur lögreglu þegar opinberir aðilar eiga í hlut. Það fer best á því.

En mér finnst athyglisvert hvernig grænar baunir skjóta aftur upp kollinum í meintu spillingarmáli á Íslandi.

 

 


Alhæfingar og fordómar hafa alltaf átt sér stað og koma úr öllum áttum

Það hefur mikið verið rætt um alhæfingar og fordóma undanfarna daga, ekki bara í Íslandi heldur líklega um allan heim.

Það er ekki vanþörf á, því líklega teljumst við öll "sek" um slíkt athæfi, ekki bara nú, heldur í svo mörgum tilfellum. 

Að hluta til má segja að málvenjur ali okkur upp við slíkt og hvetji til þess.

Samkvæmt málvenjum er það ekki rangt að segja:  Það voru múslimar sem frömdu ódæðisverkin í París.

En við vitum öll að það eru ekki allir múslimar sem bera ábyrgð á þeim, hvað þá frömdu þau, heldur örfáir einstaklingar sem eru múslimar.  Líklega eru þeir teljandi á fingrunum, sem bera ábyrgð á ódæðisverkunum, á móti þeim hundruð milljóna sem teljast múslimar.

En okkur tamt að tala á þennan veg, og oft felst ekki í því neinir fordómar eða raunverulega alhæfing.

Hversu oft er ekki sagt að "Vesturlandabúar" beri ábyrð á þessu eða hinu? Að þeir hafi arðrænt ríki þriðja heimsins o.s.frv. 

Öðrum er tamt að tala um yfirgang "hvíta kynstofnsins" eða "hvíta mannsins".

Nú tilheyri ég báðum þessum hópum, er hvítur Vesturlandabúi.  En mig rekur ekki minni til að ég eða mínir forfeður hafi tekið þátt í slíku, eða verið spurðir álits.  En ég tek það heldur ekkert nærri mér þó að talað sé á þessa vegu.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að í fæstum tilfellum beinast ásakanirnar að mér.

Þegar Múhameðsmyndirnar birtust í Jótlandspóstinum var það sömuleiðis algengt viðhorf víða á meðal múslima að vilja "refsa Dönum".  Hætta að kaupa vörur framleiddar í Danmörku og svo framvegis.

En auðvitað voru það fáir starfmenn Jótlandspóstsins sem ákváðu að birta myndirnar og starfmaðurinn í mjólkurbúinu, sem framdleiddi jógúrt sem var flutt til margra landa múslima, hafði ekkert með ákvörðunina að gera.

En reiðin beindist þó að hluta gegn honum og samstarfsfélögum hans, sem og milljónum annara Dana, sem voru fundnir "sekir" um að búa i sama landi og þeir sem ákváðu að birta myndirnar.  Hér má t.d. lesa frásögn um að múslimar vilji ekkert eiga saman við Dani að sælda og jafnvel þeir hófsömu á meðal þeirra fyrirlíti samkynhneigða.  Svona getur verið algengt að þeir sem finna fyrir fordómum gegn sér, beri þá gegn öðrum hópum.

Svona má lengi halda áfram að telja upp. Sjálfur er ég sekur um að tala svona margsinnis.  Ég skrifa að Rússar hafi ráðist inn í Krím hérað, þegar ég raunverulega meina að Rússnesk yfirvöld hafi ákveðið að ráðast inn Krím hérað og hrint því í framkvæmd. Ég held líka að flestir skilji það á þann veg og líti ekki svo á að verið sér að varpa sökinni á hinn almenna Rússa.

Ég hygg að þetta muni seint breytast og þó að við öll megum vara okkur á alhæfingum, þurfum við líka að vara okkur á því að taka slíkt alltof alvarlega, ekki of bókstaflega.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að aðskilja Islam og hryðuverk að öllu leyti, því að einhverju marki spretta hryðverkamenn upp úr þeim jarðvegi.

En það er langt í frá eini jarðvegurinn sem hryðjuverk spretta upp úr, né einu trúarbrögðin sem hafa verið misnotuð til réttlætingar á hryðjuverkum.  Og trúarbrögð langt í frá eini "málstaðurinn" sem hefur verið notaður til réttlætingar á voða og ofbeldisverkum.

Og svona má lengi halda áfram.

Ef til vill er það ekki síst þarft fyrir hófsama múslima að opna "gjá" á milli sín og þeirra sem "misnota" trú þeirra.

Við það ættum við öll að aðstoða þá eftir fremsta megni, því múslimar eru sjálfir lykilatriði í slíkri baráttu.

Ef til vill verður einhvern tíma til eitthvað sem kallast getur Islam undir Íslenskum áhrifum.

Á einstaka stað hefur mátt heyra um "Vestrænt Islam" þó að slíkt mæti enn sem komið er hatrammri mótspyrnu, ef ég hef skilið rétt.


mbl.is Voðaverkin ekki á ábyrgð múslíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna beið hann eftir því að Demókratar lentu í minnihluta?

Að mörgu leyti má taka undir margt af þvi sem Obama er að segja nú. Það hlýtur hins vegar að vekja undrun allra hvers vegna hann kýs að bíða með að leggja til slíkar breytingar þangað til að Demókratar eru komnir í öruggan minnihluta?

Vill einhver rifja upp hvað lengi hann er búinn að vera "yes we can" forseti Bandaríkjanna?

Persónulega er ég þó þeirrar skoðunar að alger óþarfi sé í raun að hækka skattprósentur, alla vegna svo nokkru nemi.

Ef allar undanþágur eru afnumdar, myndu skatttekjur hins opinbera í Bandaríkjunum aukast í slíkum mæli á hægt væri að lækka skattprósentur verulega.

Þegar skattalöggjöfin er komin yfir 70.000 blaðsíður, sjá líklega flestir að þörf er á breytingum.

Nema þeir sem lifa af því að finna og "selja" glufur í skattakerfinu.

 

 


mbl.is Obama vill breyta „ósanngjörnu skattkerfi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skattleggja fjármagnstekjur eins og launatekjur, það er slæm hugmynd, en ....

Ég sá á bloggi Styrmis Gunnarssonar að umræða væri nú (eins og stundum áður) um að skattleggja ætti fjármagnstekjur jafnt og launatekjur.

Ef ég skyldi rétt er það Kári Stefánsson sem er upphafsmaður umræðunnar nú.  Vitnað var til einhvers sjónvarpsþáttar sem ég hef ekki séð eða þekki til.

En mér finnst hugmyndin afleit.  Rétt eins og mér hefur alltaf þótt.

Fyrir því liggja margar ástæður.  Þó eins og oftast er ekkert svart og hvítt í þessum efnum.

Réttara væri t.d. að byrja á því að afnema allar undanþágur.  Hvers vegna er t.d. fjárfesting í listaverkum undanþegin fjármagnstekjuskatti?  Hvers vegna er hagnaður af sölu eigins húsnæðis undanþegin fjármagnstekjuskatti?

Persónulega er ég reyndar hlynntur undanþágu gagnvart sölu á eigin húsnæði, en það getur þó vissulega virkað tvímælis.

Hví skyldi sá sem fjárfestir í eigin húsnæði og selur það fimm árum síðar með góðum hagnaði, frekar sleppa við fjármagnstekjuskatt en einstaklingur sem var svipað staddur fjárhagslega og bjó í leiguhúsnæði, eða heima hjá foreldrum sínum, og ákvað að fjárfesta í hlutabréfum?

Hvers vegna á ríkið frekar skilið að fá hlutdeild í hagnaði af hlutabréfum, en húsnæði eða listaverkum?

Síðan er vert að hafa í huga að fjárfestingar eru gjarna afleiðingar af því að einstaklingar hafa sparað.  Þeir hafa sparað af launum sínum sem þeir hafa þegar greitt ríkinu drjúgan hlut af.  Er rökrétt að á þá séu lagðar byrðar, vegna þess að þeir spöruðu og ríkið eigi rétt á stórum hluta ávöxtunarinnar?

Rétt er að hafa í huga að eins og staðan hefur verið á Íslandi oft á tíðum, hefur raun fjármagnstekjuskattur verið mun hærri en skattprósentan segir til um.  Því vextir hafa verið háir, vegna hárrar verðbólgu.  Þegar lagður er fjármagnstekjuskattur á alla vaxtaupphæðina er raun skatturinn hár.

Ef einstaklingur á 1000 krónu í banka á 6% vöxtum í 4% verðbólgu, fær hann 60 krónur í vexti.  40 krónur eru í raun "verðbætur", en 20 krónur í vexti.  Ríkið tekur svo 20% af 60 krónunum, sem gera 12 krónur.  Meira en helming af raunvöxtunum.  Það gerir 60% skatt af raunvöxtunum. Sá sem sparaði fær náðarsamlegast að halda eftir 8 krónum.

Finnst einhverjum virkilega ástæða til að hækka prósentuna enn frekar.

En auðvitað eru til ýmsar leiðir ef ástæða þykir til að auka skattheimtu hins opinbera frekar en orðið er.

Til dæmis má alveg eins segja að erfðaskattur eigi að vera jafn hár og skattur á venjulegar launatekjur, jafnvel hærri.  Því einstaklingar leggja "minna til" þess sem þeir erfa en þeirrar ávöxtunar sem þeir hljóta.

En það er þó ekki mín tillaga.

Annað atriði sem má hafa í huga, ef sterkur vilji er fyrir því að "ráðast" á fjármagnstekjur, er að reyna að skilja frekar á milli þeirra sem eiga "venjulegan" hóflegan sparnað, og þeirra sem í raun lifa og vinna við að ávaxta sitt fé.

Rétt eins og við gerum greinarmun á þeim sem eru að selja sitt eigið húsnæði og þeim sem lifa af því að gera upp fasteignir og selja.

Það mætti til dæmis gera með því að gefa öllum einstklingum "frísparnaðarmark" á hverju ári, t.d. 5 til 800.000.  Það væri flytjanlega á milli ára að einhverju marki, en félli úr gildi t.d. eftir 5 ár.  Það fé sem sparað væri með þessum hætti bæri engan fjármagnstekjuskatt.

Fjármálastofnanir byðu upp "Skattlausa reikninga" og þar gætu einstaklingar ávaxtað fé sitt á þann hátt sem hver kysi, með hlutabréfakaupum, í skuldabréfum eða hreinlega á sparisjóðsbókum.

Öll ávöxtun á slíkum reikningi væri skattlaus og möguleiki á taka hana út, án skatts, eða bæta henni við höfðuðstólinn og hún nyti sömuleiðis skattfríðinda.

Öll ávöxtun utan slíkra reikninga gæti síðan verið skattlögð jafnt og launatekjur.

Þetta gefur öllum sömu upphæð skattfrjálst, óháð tekjum og tekur líka á því að sá sem er t.d. 62 ára, er líklegur til að eiga meira sparnað en þrítugur einstaklingur, og er ekki refsað fyrir að hafa sparað í lengri tíma.

Með slíkum hliðaraðgerðum má réttlæta að hækka fjármagnstekjuskatt upp að launatekjum, en jafnvel þó slíkt sé gert má halda því fram að sanngirniskrafa sé að af fjármagnstekjum utan slíkra reikninga sé leyfilegt að draga frá verðbótahluta, eða vaxtahluta sambærilegan verðbólgu.  Aðeins sé greiddur skattur af raunvöxtum.


Swiss (precise) timing?

Svissneski seðlabankinn kann svo sannarlega að koma á óvart.

Eftir að hafa fullyrt að "gólfið" gangvart euroinu væri algerlega nauðsynlegt fyrir Svissneskt efnahagslíf, kippa þeir því undan því og má reikna með að margir Svissneskir atvinnurekendur hafi færri hár á höfðinu en í gær og hærra hlutfall grá.

En líklega hafa Svissnesku bankamennirnir talið sig sjá fyrir fjármagnsflóðið frá "Sambandinu" og Rússlandi stefna á "grynningar" og rísa eins og tsunami.

Svissneski bankinn hefur keypt euro eins og fíkill, undanfarinn þrjú ár.  Líklega má segja að enginn einn aðili hafi gert meira til að halda uppi gengi eurosins.  Á tímabili er talið að hann hafi einn og óstuddur keypt u.þ.b. helming af útgáfu allra ríkisskuldabréfa á Eurosvæðinu.

Það munar um minna.  Eignir Svissneska seðlabankans eru nú mældar í hundruðum milljarða euroa.

Keypt fyrir euro sem streymdu inn í landið og bankinn prentaði Svissneska franka til að kaupa, og sneri sér svo við og keypti euro skuldabréf. 

En það er sitthvað að "stífla" læk, eða fljót í leysingum.  Og nú gafst bankinn upp.

Euroið hafði á tímabili fallið um 30% á móti frankanum í gær.  Ef genginu hefur verið haldið uppi, hærra en eðilegt getur talist kemur gjarna yfirskot.

Elstu gjaldeyrismiðlarar muna ekki eftir jafn stórum breytingum á krossi á milli tveggja "megin" mynta á svo skömmum tíma.

17% féll euroið gagnvart frankanum yfir daginn.  Við þurfum þó líklega að bíða aðeins eftir að rykið setjist til að sjá hvert "raunverulegt gengi" verður.

En líklega gleðjast flestir á Eurosvæðinu og fagna veikingu eurosins.  Íslenskir "Sambandssinnar" verða svo líklega uppteknir við það næstu daga að útskýra fyrir Íslendingum, að of sterkur gjaldmiðill sé alls ekki eftirsóknarverður og skarpt gengissig sé stundum nákvæmlega það sem hagkerfi þarfnist.

Það kann einnig að hljóma sem öfugmæli, en það er mikið traust á Svissneska gjaldmiðlinum, sem í raun leiðir landið í þessa erfiðleika. Jafn skrýtið og það er getur það til lengri tíma litið verið hagstætt fyrir Sviss, að það álit bíði hnekki.  Það, ásamt neikvæðum stýrivöxtum, mun líklega draga innstreymi fjár í leit að öryggi.

En Svissneski seðlabankinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir aðgerðir sínar.  Það er að vonum, enda hafa margir farið illa út úr gjaldeyrisviðskiptum undanfarna daga og er allt eins reiknað með gjaldþrotum í miðlarabransanum.

En ef að prentvélar Eurosvæðisins fara seinna í mánuðinum á fullan snúning, er ekki nema von a Svissneska seðlabankanum hafi verið hætt að lítast á blikuna.  Því það er allt eins líklegt að það hafi í för með sér mikinn fjárflótta, líklega ekki hvað síst frá Þýskalandi, þar sem þarlendir hefðu viljað skipta euroum sínum fyrir "alvöru pening", Svissneska franka.

Grikkir munu líka hafa verið nokkuð duglegir við að koma fé sínu "í hús".

Og þessar aðgerðir munu hafa víðtæk áhrif fyrir skuldara einnig.

Lán í Svissneskum frönkum eru t.d. algeng hér og þar á Eurosvæðinu, sérstaklega í Austurríki ef éf man rétt, en einnig t.d. í Bretlandi og af öllum stöðum, Grikklandi. 

Hjá slíkum skuldurum verður all snarpur "forsendubrestur" nú.

Spurningin sem margir eru líklega að velta fyrir sér yfir helgina er hvar sé nú eftir af "öruggum" stöðum til að geyma fé sitt.

 


mbl.is Seðlabanki Sviss harðlega gagnrýndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur framboð af stjórnmálahreyfingu breyst í öfugu hlutfalli við framboð á olíu?

Ég var að velta því fyrir mér í dag hversu víðtæk áhrif olía og framboð á henni og verð getur haft á heimsbyggðina.  Oft raunar mikið meiri en okkur órar fyrir.

Framboð og eftirspurn á olíu getur haft að mér sýnist, t.d. áhrif og eftirpurn eftir stjórnmálahreyfingum.  Og á framboð þeirra í fjölmiðlum.

Þannig virðist mér í fljótu bragði að aukið framboð á olíu og minnkandi eftirspurn, hafi haft þau áhrif að eftirspurn fjölmiðla á yfirlýsingum og stefnumálum Fylkisflokksins hafi skroppið saman, jafnvel hraðar en verð á olíutunnu.

Þannig hefur lækkun olíuverðs mörg jákvæð áhrif.


Á ég að segja að ég svín og pylsa?

Við eru búin að vera að lýsa því yfir undanfarna daga að við séu hitt og þetta, og hinir og þessir.

Við erum Charlie og sumir eru líka Ahmed og aðrir eru gyðingar.  Sumir eru allt þrennt.

Þetta gerðum við til að lýsa stuðingin okkar við tjáningarfrelsið, múslima (eða múslimskarn lögreglumann) og gyðinga.  Fórnarlömb árásaranna í París.

Og nú velti ég því fyrir mér hvort ég verði að halda því fam að ég sé svín, nú eða pylsa, eða jafnvel hvoru tveggja.

Því svín og og pylsur liggja undir árásum.  Ekki þessum hefðbundnu, þar sem þau eru hlutuð niður með hnífi og gafli, en þar finn ég mig nokkuð vel.

Nei, nú snýst árásin um að láta þau hverfa, beita þau harðsvírari þöggun.  Það er verið að mælast til þess að þeim verði ekki hleypt í barnabækur.

Útgefandi einn, sendi bréf til þeirra sem voru að vinna barnaefni, og fór fram á að þeir minntust ekki á svín eða pylsur í skáldskapnum, eða annað sem mætti líta á sem svínakjöt.

Með þessu vildi útgáfan komast hjá því að "móðga" múslima og gyðinga.

Slík sjálfsritskoðun er fáranleg.  Það kemur enda skýrt fram í tali múslima og gyðings sem talað er við fréttinni, að slíkt sé alger óþarfi.

Eins og gyðingurinn segir, við borðum ekki svínakjöt, en það er ekkert sem bannar okkur að tala um það.

Þetta hljómar auðvitað ekkert vel, að segja, ég er svín, en eins og öll matvæli hljómar þetta heldur betur á Frönsku,   je suis un cochon.

Á Íslensku mætti auðvitað notast við ég er Ali, því það er vel þekkt fyrir standa með svínunum alveg fram í andlátið.

 

 

 


Að tapa u.þ.b. 260 milljörðum á 681. degi?

Það vita það líklega flestir að smásölubransinn er harður. Mörgum hefur reynst hann gjöfull og þeim hefur sumum virðist ganga þar allt í haginn.

En það eru líka til ótrúlegar sögur, hvernig ekkert virðist ganga upp.

Og einni þannig sögu er nú að fara að ljúka í Kanada.

Target keðjan, sem margir Íslendingar kannast líklega við frá ferðum sínum um Bandaríkin ákvað fyrir all nokkru að tímabært væri að stækka markaðssvæðið og halda í "víking" til Kanada.

Nú þegar 468 dagar eru liðnir frá því að fyrsta verslunin opnaði, tilkynna þeir að öllum 133 verslunum þeirra verði lokað.  Punktur, dæmið gengur ekki upp.

Raunverulegt tap verslunarkeðjunar er talið vera um 2. milljarðar dollara (US) á þessum 681 dögum, eða um 260 milljarðar Íslenskra króna. Rekstrartap er all nokkuð hærra.

Target hitti ekki í mark hjá Kanadabúum.

Það gerir tap upp á u.þ.b. 381. milljón Íslenskra króna hvern dag.

En stundum er betra að "cut the losses" eins og sagt er á Enskunni.  En þetta er vissulega "hraustlegt" tap.  En talið er að verslunarkeðjan hefði þurft að bíða til ársins 2021 til að skila hagnaði.

Kanadíski markaðurinn er vissulega u.þ.b. 100 sinnum stærri en sá Íslenski, þannig að hlutfallslega, væri tapið ekki "nema" 3.8 milljónir á dag, en að sama skapi hefðu ekki verið opnaðar nema 1.33 verslun.

Íslendingar hafa þó líklega einu sinni upplifað svipaða sögu, en það var stórmarkaðurinn Mikligarður, sem var sagður tapa milljón á dag, en það var fyrir ríflega 20 árum síðan og væri líklega ríflegri upphæð framreiknuð.

 

 


Those Who Dare - Heimildamynd um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna og þátt Jóns Baldvins

Mér barst til eyrna í dag að nú sé tilbúin heimildamynd, nefnd "Those Who Dare"  (Þeir sem þora,???,  ég veit ekki hvort það er Íslenska heitið).  Myndin fjallar um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltríkjanna og þátttöku Jóns Baldvins Hannibalssonar í þeirri baráttu.

Myndin mun framleidd af Íslendingi, Ólafi Rögnvaldssyni en meðframleiðendur koma frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen.

Myndin hefur fengið lofsamlegar umsagnir í mín eyru, en hún mun að mestu leyti vera sögð frá sjónarhóli Jóns Baldvins.

Þar sem málið vakti áhuga minn, fór ég strax að leita að frekari upplýsingum, en fann takmarkað.  Þó fann ég stiklur á Vimeo og einhver brot hér og þar, en hef þó ekki haft mikinn tíma til leitarinnar, en heimasíða framleiðenda veitti takmarkaðar upplýsingar. 

Því er ég að velta fyrir mér hvort að einhver þekkir til þessarar myndar og hvar og hvernig hún hefur verið sýnd.

Og ekki væri verra ef einhver vissi hvort og hvernig er hægt að nálgast hana.

Væri þakklátur fyrir frekari upplýsingar, hér í athugasemdum, eða tölvupósti:  tommigunnars@hotmail.com

Those Who Dare from olafur rognvaldsson on Vimeo.

Those Who Dare - 2 from olafur rognvaldsson on Vimeo.


Eurosvæðið í vaxandi vandræðum

Þegar of margir koma að ákvörðunartöku, verður niðurstaðan oft "lægsti samnefnarinn".  Það er niðurstaðan sem getur "sameinað" alla.

Það er hluti vandans á Eurosvæðinu, ríkin eru ólík, með ólíka hagsmuni, ólíkar sveiflur í efnahagslífinu og á ólíkum stað á "þróunarkúrfunni".  En bara einn gjaldmiðil.

Það er enda svo að þó að margsinnis sé búið að "leysa" Eurokrísuna, hefur hún komið heldur oftar aftur.  Líklega væri þó réttara að segja að hún hafi aldrei verið leyst.

Nú er talið að Seðlabanki Eurosvæðisins undirbúi massíva peningaprentun, ekki ósvipaða eins og seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands og Japans (og raunar fleiri) hafa gert á undanförnum árum.

Staðan er enda sú nú víðast, að lítill áhugi er á þvi að hafa sterkan gjaldmiðil, atvinnulíf hefur ekki verið öflugt, atvinnuleysi er hátt og verðhjöðunum blasir við.

Vandamálið sem blasir við á Eurosvæðinu er að enn og aftur eru skiptar skoðanir um hvernig sé best að stana að peningaprentunni, rétt eins og um flestar aðrar aðgerðir.

Á hver seðlabanki að kaupa skuldabréf í sínu landi? Á Seðlabanki Eurosvæðisins að kaupa skuldabréf af öllum ríkissjóðum, eða jafnvel bönkum, eða á hreint ekki neitt að fara út í seðlaprentun?

Til að auka á vandann er svo vaxandi pólítískur órói á Eurosvæðinu og raunar "Sambandinu" öllu.  Uppbyggingin  eykur á vandann, enda eru í sífellu kosningar  hér og þar, sem þarf að "taka tillit til", og auka á vandann. 

"Sambandið" óttast kosningar í Grikklandi, því ef eitthvað er skelfilegri tilhugsun fyrir "Sambandsmenn" en ógöngurnar sem Grikkland hefur ratað í, er það sú tilhugsun að því gæti gengið vel, utan Eurosvæðisins.

Forseti Ítalíu tilkynnti afsögn sína í dag.  Þar er annað land sem má ekki við meiri óróa á pólítíska sviðinu.  Og óvíst að Ítalir geti sætt sig við frekari afskipti Seðlabanka Eurosvæðisins af stjórn landsins.

Seinna á árinu eru svo kosningar í Finnlandi, sem gera það að verkum að Finnar eru nokkuð þversum hvað varðar alla frekari aðstoð við Grikki, eða skuldaniðurfellingu.  Það myndi ekki gera sig í kosningum, og ríkisstjórnin á þegar undir högg að sækja.

Síðan eru kosningarnar í Bretlandi, og þó að það sé ekki á Eurosvæðinu, geta þær haft umtalsverðar afleiðingar fyrir "Sambandið" í heild.

Einu kosningarnar sem ég man eftir í fljótu bragði og enginn hefur áhyggur af er í Eistlandi.

Hryðjuverkin í Frakklandi og vaxandi trúar og menningarnúningur í Þýskalandi og víðar eykur svo á hina pólítísku spennu.

Innrás Rússa í Ukraínu, refsiaðgerðir gegn Rússum, og vaxandi spenna þar, ásamt framfærsluþörf Ukraínu bætast svo ofan á allt saman.

Einhvern veginn lítur árið ekki vel út.  Margir spá því nú að euroið verði 1:1 gagnvart US dollar í árslok. 

Með tilliti til alls þessa þarf engan að undar að frammámenn í "Sambandinu" sé nokk sama hvort áhugi sé fyrir því á Íslandi að ganga  í "klúbbinn" eður ei, og hafi selt Íslendingum sjálfdæmi í málinu.

Þegar litið er til þess að margir þeirra sem helst vilja ganga í "Sambandið" er tamt að tala um að landið sé að miklu leyti "ónýtt", þarf það ef til vill engan að undra.

Margir af þeim sem hafa meiri trú á landinu, sýna hins vegar engan áhuga á "Sambandsaðild":

 

 

 

 

 


mbl.is Hætta á varanlegri stöðnun á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband