Alhæfingar og fordómar hafa alltaf átt sér stað og koma úr öllum áttum

Það hefur mikið verið rætt um alhæfingar og fordóma undanfarna daga, ekki bara í Íslandi heldur líklega um allan heim.

Það er ekki vanþörf á, því líklega teljumst við öll "sek" um slíkt athæfi, ekki bara nú, heldur í svo mörgum tilfellum. 

Að hluta til má segja að málvenjur ali okkur upp við slíkt og hvetji til þess.

Samkvæmt málvenjum er það ekki rangt að segja:  Það voru múslimar sem frömdu ódæðisverkin í París.

En við vitum öll að það eru ekki allir múslimar sem bera ábyrgð á þeim, hvað þá frömdu þau, heldur örfáir einstaklingar sem eru múslimar.  Líklega eru þeir teljandi á fingrunum, sem bera ábyrgð á ódæðisverkunum, á móti þeim hundruð milljóna sem teljast múslimar.

En okkur tamt að tala á þennan veg, og oft felst ekki í því neinir fordómar eða raunverulega alhæfing.

Hversu oft er ekki sagt að "Vesturlandabúar" beri ábyrð á þessu eða hinu? Að þeir hafi arðrænt ríki þriðja heimsins o.s.frv. 

Öðrum er tamt að tala um yfirgang "hvíta kynstofnsins" eða "hvíta mannsins".

Nú tilheyri ég báðum þessum hópum, er hvítur Vesturlandabúi.  En mig rekur ekki minni til að ég eða mínir forfeður hafi tekið þátt í slíku, eða verið spurðir álits.  En ég tek það heldur ekkert nærri mér þó að talað sé á þessa vegu.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að í fæstum tilfellum beinast ásakanirnar að mér.

Þegar Múhameðsmyndirnar birtust í Jótlandspóstinum var það sömuleiðis algengt viðhorf víða á meðal múslima að vilja "refsa Dönum".  Hætta að kaupa vörur framleiddar í Danmörku og svo framvegis.

En auðvitað voru það fáir starfmenn Jótlandspóstsins sem ákváðu að birta myndirnar og starfmaðurinn í mjólkurbúinu, sem framdleiddi jógúrt sem var flutt til margra landa múslima, hafði ekkert með ákvörðunina að gera.

En reiðin beindist þó að hluta gegn honum og samstarfsfélögum hans, sem og milljónum annara Dana, sem voru fundnir "sekir" um að búa i sama landi og þeir sem ákváðu að birta myndirnar.  Hér má t.d. lesa frásögn um að múslimar vilji ekkert eiga saman við Dani að sælda og jafnvel þeir hófsömu á meðal þeirra fyrirlíti samkynhneigða.  Svona getur verið algengt að þeir sem finna fyrir fordómum gegn sér, beri þá gegn öðrum hópum.

Svona má lengi halda áfram að telja upp. Sjálfur er ég sekur um að tala svona margsinnis.  Ég skrifa að Rússar hafi ráðist inn í Krím hérað, þegar ég raunverulega meina að Rússnesk yfirvöld hafi ákveðið að ráðast inn Krím hérað og hrint því í framkvæmd. Ég held líka að flestir skilji það á þann veg og líti ekki svo á að verið sér að varpa sökinni á hinn almenna Rússa.

Ég hygg að þetta muni seint breytast og þó að við öll megum vara okkur á alhæfingum, þurfum við líka að vara okkur á því að taka slíkt alltof alvarlega, ekki of bókstaflega.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að aðskilja Islam og hryðuverk að öllu leyti, því að einhverju marki spretta hryðverkamenn upp úr þeim jarðvegi.

En það er langt í frá eini jarðvegurinn sem hryðjuverk spretta upp úr, né einu trúarbrögðin sem hafa verið misnotuð til réttlætingar á hryðjuverkum.  Og trúarbrögð langt í frá eini "málstaðurinn" sem hefur verið notaður til réttlætingar á voða og ofbeldisverkum.

Og svona má lengi halda áfram.

Ef til vill er það ekki síst þarft fyrir hófsama múslima að opna "gjá" á milli sín og þeirra sem "misnota" trú þeirra.

Við það ættum við öll að aðstoða þá eftir fremsta megni, því múslimar eru sjálfir lykilatriði í slíkri baráttu.

Ef til vill verður einhvern tíma til eitthvað sem kallast getur Islam undir Íslenskum áhrifum.

Á einstaka stað hefur mátt heyra um "Vestrænt Islam" þó að slíkt mæti enn sem komið er hatrammri mótspyrnu, ef ég hef skilið rétt.


mbl.is Voðaverkin ekki á ábyrgð múslíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Góð hugvekja Tómas, almennt er fólk móðgunargjarnt, en þolir svo ekki að taka ummælum um sjálft sig, þó svo að sömu manneskjur skrifi ónotalega ummæli um aðra.

Kveðja frá Houston.

Jóhann Kristinsson, 19.1.2015 kl. 16:57

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jóhann  Takk fyrir það.  Flestum er tamara og finnst auðveldara að líta á sjálfan sig sem "fórnarlamb", en einhver sem býr til "fórnarlömb.

Í mörgum fjölmiðlum hefur mátt lesa lýsingar sem gerir Íslendinga að álfatrúarfólki og jafnvel "fyllibyttum", eða alla vegna einstaklingum með áfengisvandamál.

Er það raunin?

Öll höfum við tilhneygingu til að alfhæfa, en fyrtumst við ef "alhæft" er um okkur.  Nema auðvitað að það sé í jákvæðri merkingu.  S.s. menningar eða bókaþjóð.

Það varð frægt og uppspretta mikillar reiði, þegar Ingibjörg Sólrún lét orð falla í þá átt að fundarmenn væru ekki þjóðin og töluðu ekki í nafni hennar.

Það er auðvitað rétt.  Salur sem tekur 1000 manns eða hér um bil, er ekki þjóðin, né talar í nafni hennar, jafnvel þó að hún sé fámenn.

Þó eru margir sem telja sig geta gert slíkt, og jafnframt dæmt á slíka vegu.

En það er í flestum tilfellum alveg ástæðulaust að láta slíka "bullshittara" æsa sig upp, eða taka hjali þeirra sem móðgun.

G. Tómas Gunnarsson, 19.1.2015 kl. 18:02

3 identicon

Sem einstaklingur sem fengi ekki aðgang í neinn Aríaklúbb og væri kastað á dyr í KKK, ef ég kæmist þaðan lifandi og sem á fjölskyldu og vini af fjölda kynþátta og af öðrum "óæskilegum" hópum í augum rasista, þá get ég fullyrt að mín reynsla er að allir sem eru þjáðir af óhóflega sterkri "hvíta mannssekt" og hafa einhliða sýn á Vestræna menningu sem einkennist af "Við vondir - Þeir góðir", eða þess konar menn sem afsaka allt og bera í bætifálka fyrir það ef Arabi framkvæmdi það eða stunda annars konar pólítískan rétttrúnað (, sömu týpur og eru að verja hryðjuverk út af teiknimyndum eða sjálfsmorðsárásir)...þetta fólk er undantekningalaust laumu-rasistar og getur reynst stórhættulegt og enginn heilvita maður í minni stöðu treystir því hið minnsta, afþví við vitum það öll. Alvöru andstæða rasistans er ekki heimóttarleg hermikráka sem fer með tískufrasa og passar sig að hafa "rétta skoðun", heldur maður sem veit að öll mál hafa margar hliðar og allir menn og menningarheimar eru flóknir og margskonar og ekki hægt að útmála sem sakleysingja og góðmenni eða illmenni og glæpamenn. Sá sem hatar og fyrirlítur sjálfan sig og sitt er dæmdur til að undirniðri hata og fyrirlíta aðra líka, og þó hann reyni að dylja það sjá aðrir í gegnum hann, alla vega þeir sem hafa lært það af nauðsyn. Þetta eru samskonar týpur og hefðu verið nazistar á tímum Þriðja ríkisins, hópsálir og heiglar sem fylgja fjöldanum hugsunarlaust og lifa í svart-hvítum alhæfingum og einföldunum sem eru móðgun við alla mannlega skynsemi. 

Brown man (IP-tala skráð) 19.1.2015 kl. 19:26

4 identicon

Í hvert skipti sem ég heyri frasa eins og "Hvíti maðurinn hefur gert svo margt slæmt..." eða "Vestræn menning er mikið ofbeldisfyllri en austræn" og annað bull, sem setur til hliðar einn "kynþátt" manna og eina menningu eins og annars konar sé hvað varðar eðli sitt heldur en aðrir menn, nákvæmlega eins og gamla kynþáttahyggjan" og í hvert skipti sem ég heyri hið viðbjóðslega orð "austræn menning" (, haldið þið að Arabar, Indverjar og Tíbetar séu eins fólk eða??? Fávitar! Haldið þið það sé ekki særandi?) og í hvert skipti sem ég sé þennan fávita svip sem kemur á fólk ef einhver sagði eitthvað óafsakanlegt, eins og það sé bara í lagi ef hann er Arabi (, eins og að blessa það eða afsaka að höggva hendur af mönnum!), þá skrifa ég nafn þessa einstaklings í litla ósýnilega bók yfir einstaklinga sem ég veit að eru innst inni rasistar og ég myndi aldrei gera að vinum, treysta til að passa litlu blönduðu börnin mín eða taka mark á skoðun þessa einstaklings á nokkrum hlut.

Brown man (IP-tala skráð) 19.1.2015 kl. 19:31

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Brown Man  Þakka þér fyrir þetta sjónarhorn. Þó að mínu mati sé "aríi" algert  aukaatriði, og ekki merkilegra en "aría", þá er þó vert að hafa í huga hvar "aríar" eru upprunnir, sem og okkar "indo-evrópska menning og tungumál. Þeir eru nú varla "klórhvítir" þar.

En við erum að mörgu leyti alin upp við að tala svona. Hvað margir leyfa sér til dæmis ekki að segja um þá næstum 300 milljónir einstaklinga sem teljast Bandaríkjamenn, að þeir séu þröngsýnir og heimskir.

Og þannig getum við talið upp "steríotýpurnar".

Og hversu gott er það ekki að vera "fórnarlamb"? Að telja sig misrétti beittan.

Mér er afar minnisstæð þýska konan sem ég kynntist fyrir all mörgum árum.

Þá var hún líklega u.þ.b. 75 ára. Hún bjó nálægt mér, var ellilífeyrisþegi og labbaði alltaf fram hjá húsinu mínu til að taka strætó í bakaríið.  Vel til höfð, hárið greitt og í "sunday best".  Hún hafði oft eitthvað lítið til að víkja að krökkunum mínum sem léku á lóðinni, sælgæti eða pening.

Síðar kynntumst við betur, og ég sá hana í bakaríinu, og bauð henni oft far heim.

Ég veit ekki hvers vegna, en hægt og rólega fór hún að segja mér hvað á daga hennar hafði drifið. Og hún var ekki bara Þýsk, hún var "Prússnesk".

Hún sagði mér hvernig í stríðslok hún og fjölskylda hennar hafði verið rekin út af heimili sínu. Þeim var ekki leyft að taka neitt með sér.

Hún mundi eftir "göngunni" löngu til þess Þýskalands, sem svo skroppið hafði saman, og hvernig hún var alltaf svöng.  Hún sagði mér frá því hvernig fjölskyldan safnaðist saman í kringum grautarpottinn. Þau áttu pottinn og eina skeið sem gekki frá manni til manns og þannig fengu allir að borða.

Seinna fluttist hún til Bretlands og svo þaðan til Kanada, þar sem við kynntumst.

En það sem var merkilegast við frásagnir hennar, var það að hún upplifði sig aldrei sem fórnarlamb. Hún talaði alltaf um sig sem eina af hinum heppnu. 

Og þegar ég spurði hana út í það sjónarhorn, svaraði hún án þess að hika, já auðvitað, ég lifði af.

Og auðvitað hafði hún oftlega verið "stimpluð" sem ein af "gerendunum", þó að hún væri ekki komin af barnsaldri í stríðslok. Síðar breyttist hún í "innflytjenda" og svo framvegis.  En að verða áttræð leit hún jákvæðum augum á bæði framtíð og fortíð.

Og við þufum ekki að leita að hverju tækifæri til að telja okkur rangindum beitt, eða rangt "flokkuð".

Þó að einhver tali um Araba, Indverja, Þjóðverja, hvíta eða svarta, Asíubúa, flugmenn, Ástrali, o.s.frv. þurfum við ekki að taka það til okkar, þó að við tilheyrum einum eða fleiri þessarar hópa.

Ekki frekar en við þurfum að taka til okkar frasa eins og "fólk er fífl".

Eða "helmingur mannkyns er undir meðalgreind".

G. Tómas Gunnarsson, 19.1.2015 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband