Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Leiðin liggur fram á við með fríverslunarsamningum

Það er fyllsta ástæða fyrir Ísland að sækjast eftir fríverslunarsamningi við Japan.  Íslendingar ættu að sækjast eftir fríverslunarsamningum við sem flesta.  Láta þau skilaboð liggja frammi að þjóðin sé opin fyrir og sækist eftir fríverslunarsamningum.

Fríverslunarsamningur við Japani væri mjög æskilegur og myndi án efa skila báðum þjóðum umtalsverðum ávinningi.

Það hlýtur svo að vekja athygli að fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er enginn annar en Össur Skarphéðinsson, fyrrum prímusmótor inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Össur veit að fjöldi ára er þangað til möguleiki er á því að sá draumur hans verði að veruleika.  Það sem meira er, það er all langt síðan hann gerði sér grein fyrir því.

Þess vegna dreif hann m.a. í því að klára fríverslunarsamning við Kína, eins og flestum ætti að vera í fersku minni.

Það má gefa Össuri plús í kladdann fyrir að gefast ekki upp og snúa sér að fullum krafti að fríverslunarsamningum.  En auðvitað færi það betur á að hann væri hreinskilinn við almenning hvað varðar það sem í raun er ekki hægt að kalla annað en viðræðuslit á milli Íslendinga og "Sambandsins".

 


mbl.is Kalla eftir fríverslun við Japan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eiga orðin, er það hægt?

Ég velti því fyrir mér í kringum þá frétt að B og L hefði í heimildarleysi notað línur úr söngtexta, hvort að hægt væri að eiga orðin, og hvernig sá eignaréttur væri tilkominn?

Þurfa orðin eða orðnotkunin t.d. að vera ákveðinn orðafjöldi óbreyttur, eða getur það jafnvel bara verið eitt orð?  Varla er hægt að eigna sér eitt orð, en hvað þurfa á orðin að vera mörg svo að eignaréttur myndist?

Og mér datt í hug þegar ég sá þessa frétt um frumsýningu á Gullna hliðinu, eiga erfingjar Davíðs Stefánssonar, stóra óinnheimta skuld hjá hinni sívinsælu og gleðigefandi hljómsveit Sálinni Hans Jóns míns?

Þó að ekki væri greidd nema 100 krónur fyrir hvert skipti sem "Sálin hans Jóns míns"  hefur sést á prenti, væri ekki ólíklegt að sú skuld hlypi á milljónum, ekki síst ef greiða þyrfti fyrir hvert eintak.

Og er "mér finnst rigningin góð", eign Vilborgar Halldórsdóttur?

Önnur frétt af svipuðum toga sem vakti athygli mína er um deilur tveggja Danskra veitingastaða.  Þar er deilt um notkun hins algenga nafns Jensen.  Jensen Bøfhus, virðist eftir fréttinni að dæma telja sig eiga notkunina á nafninu Jensen í veitingageiranum.

Mörgum Dananum finnst þetta eðlilega býsna langt gengið.

En er ekki málið svipað á Íslandi?

Nýlega féll úrskurður þar sem einn aðili virðist eiga orðið fabrikka í veitingageiranum, meðal annars vegna þess að það er "frumlegt".

Þó þekkjast bæði "hamborgara fabrikur", eða "factories" um víða veröld og sömuleiðir "Pizzafabrikkur".  

Af sama meiði er tilraunir Íslensks fyrirtækis til þess að eigna sér orðið "gull" í bjórframleiðslu, sem er í notkun um víða veröld.  En ef til vill þykir það "frumlegt" að hafa dottið slík notkun í hug á Íslandi.

Og ef ég man rétt, var einu fyrirtæki gefin einkaeign á hinu almenna orði "bónus" í verslunarrekstri á Íslandi.

Og af því að ég er nafni eins þekktasta veitingamanns á Íslandi, verð ég líklega að gefa upp á bátinn þann draum að geta opnað veitingastað á Íslandi, sem héti "Tomma Pizzur", eða "Hjá Tomma".   :-)

Það getur bara verið einn Tómas í þeim bransa á Íslandi.

Gætu "Kentucky Fried Chicken" og "Southern Fried Chicken" bæði hafa verið stofnuð á Íslandi, eða hefði verið hætta á "ruglingi"?

Þessar vangaveltur eru ekki settar fram í neinni illgirni, eða það að ég hatist við höfundar eða vörumerkjarétt.

En ég held að það sé hollt fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvernig við viljum að sé staðið að þessum málum og á hverju er rétt að gefa einkaleyfi eða notkun.  Hvað skapar höfundarétt og hvað ekki?

Það þarf að reyna að eyða "gráum svæðum" eins og kostur er, þó að líklega sé það aldrei að fullu hægt.

Það má til dæmis nefna til samanburðar að "Wal Mart" hefur að sjálfsögðu varinn rétt á því nafni, en ekki á orðinu "Mart", það er of almenns eðlis.

Þess vegna hafa Amerísk fyrirtæki í vaxandi mæli gerst "skapandi" í stafsetningu og reyna þannig að búa til eitthvað "einstakt" sem hægt er að skrásetja og fá vernd á.

"General Electric", hefur vernd fyrir nafn sitt, en hvorki "general" eða "electric", alla vegna eftir því sem ég kemst næst.

Ef til vill verður það lausnin í framtíðinni að notast við Ensku, þar sem of margar orðasamsetningar í Íslensku verða höfundavarðar.

Góðar stundir.  (Skyldi nú ekki einhver eiga þann "frasa"?)

P.S.  Til að hafa "allt upp á borðum" (á ekki einhver þennan frasa?), er rétt að taka fram að ég á mjög góða kunningja á meðal skyldmenna Davíðs Stefánssonar, en færslan er ekki skrifuð að þeirra frumkvæði, né vita þau af henni.  Samskipti mín við liðsmenn Sálarinnar hans Jóns mín (sem m.a. hefur innifalið fyrrverandi starfsfélaga) hafa öll verið góð og hef ég ekkert upp á þá að klaga. 

Ég hef ekki snætt á neinum þeim veitingastöðum sem nefndir eru í greininni, nema KFC, þau viðskipti fóru eðlilega fram, skipt á mat og fé.  Ég tengist engum þeirra á neinn hátt.

Ég hef drukkið drjúgt magn af "gull" bjór um víða veröld, en tengist framleiðslu þeirra ekki á neinn hátt eða hef af henni hagsmuni.

 


mbl.is Skemmtu sér á Gullna hliðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga allar þjóðir og þjóðarbrot sama rétt til sjálfsákvörðunar?

Það hefur mikið verið rætt um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, þjóðarbrota og minnihlutahópa undanfarna mánuði.

Hæst hefur borið þjóðaratkvæðagreiðslan í Skotlandi í síðustu viku, en sjálfsákvörðunarrétturinn hefur einnig borið á góma varðandi baráttu svokallaðra "aðskilnaðarsinna í A-Ukraínu og í kringum hinar undarlegu kosningar sem haldnar voru í Krím héraði.

En eiga allar þjóðir, þjóðarbrot og minnihlutahópar sjálfsákvörðunarrétt í sama mæli?  Eru ekki fleiri þættir sem taka þarf tillit til?

Jú, ég er þeirrar skoðunar og þar vegur líklega þyngst sagan.

Tökum dæmi.

Narva er þriðja stærsta borg Eistlands, liggur við eins austarlega og verða má í landinu, við landamærin að Rússlandi.

Narva hefur skipt um hendur ótal oft í gegnum söguna, lotið yfirráðum Dana, Svía, Rússa og var borg Hansa kaupmanna.

Borgin var í gegnum aldirnar nokkuð alþjóðleg ef svo má að orði komast, en stærstur hluti íbúanna þó það sem síðar var skilgreint sem Eistlendingar.

Þegar Eistland varð sjálfstætt ríki árið 1918, voru Eistlendingar í yfirgnæfandi meirihluta og árið 1939 voru þeir 88% af íbúum landsins.  Stærstu minnihlutahóparnir voru Rússar, Þjóðverjar, Svíar, Lettar, Gyðingar, Finnar, Pólverjar og Ingríar.

Rússar voru taldir um 8% íbúanna.

Sovétríkin hertóku Eistland ásamt hinum Eystrasaltsríkjunum árið 1940.  1941 hófust umfangsmiklir Síberíuflutngar og voru þúsundir einstaklina á öllum aldri fluttir á brott, þar á meðal fjöldinn allur frá Narva, sem var helsta iðnaðarborg Eistlands.

Síðan kom hernám Þjóðverja og urðu all nokkrar skemmdir í bardögum um borgina, en hún varð þó fyrir tiltölulega litlu tjóni.  Það breyttist árið 1944, þegar harðir bardagar voru háðir um Narva, og var borgin að miklu leyti jöfnuð við jörðu.  Mesta einstaka tjónið varð líklega í miklum loftárásum Sovéska flughersins í mars 1944.  Fáir íbúar borgarinnar týndu þó lífi í þessum hildarleik, enda höfðu Þjóðverjar rýmt borgina í janúar.

En eftir að Sovétmenn náðu valdi yfir Narva og náðu Eistlandi á sitt vald, var fyrrum íbúum Narva meinað að snúa aftur til heimkynna sinna. Sovétmenn höfðu uppi ráðagerðir um að byggja þar leynilega uraníumvinnslu, sem hefði þýtt að Narva yrði "lokuð borg" (all mikið uraníum finnst í Eistlandi).

Þó að horfið væri frá þessum ráðagerðum, og uraníumvinnslan í stað þess byggð í bænum Sillamäe, ekki langt  þar frá, hafði þessi aðgerð mikil áhrif að framþróun Narva.

Eftir stríð hófst önnur hrina Síberíuflutninga (engin veit hve hve margir voru drepnir og fluttir á brott frá Eistlandi í þessum hreinsunum, en nefndar eru tölur allt að 110.000), en mikill fjöldi Eistlendinga hafði einnig notað tækifærið fyrir og í kringum stríðslok og flúið land.  Þessir þættir ásamt mannfalli í stríðinu leiddu af sér talsverða fólksfækkun í Eistlandi.

En Sovétmenn hófu umfangsmikla iðnaðaruppbyggingu í Narva.  Jöfnðuðu rústirnar við jörðu (þó að ýmsir teldu að hægt væri að byggja þær upp) og byggðu fjöldan allan af íbúðarblokkum og fluttu inn vinnuafl frá Sovétríkjunum, að stórum hluta Rússa.

Þetta gilti þó ekki eingöngu um Narva, heldur Eistland sem heild.

Til að gera langa sögu stutta féll hlutur Eistlendinga í íbúatölu Eistlands jafnt og þétt niður á við og var kominn niður í 61% árið 1989. Það gerðist þrátt fyrir að stór hluti af þeim svæðum þar sem Esto Russian borderRússar voru hvað fjölmennastir fyrir hernám, höfðu verið flutt yfir til Rússlands, með breyttum landamærum, þar á meðal borgin Novgorod, sem hafði verið hluti Narva (þau landamæri má sjá á kortinu sem er hér með, en merkilegt nokk hefur Putin og Rússar, engan áhuga á því að hverfa til fyrra horfs þar).

Langmestur fjöldi innflytjendanna kom til svæðisins í kringum Narva og svo höfuðborgarinnar Tallinn.

Á árunum 1945 til 1990, jókst fjöldi Rússa í Eistlandi úr u.þ.b. 23.000 í 475.000.  Heildarfjöldi innfluttra frá Sovétríkjunum var talinn 551.000.

Þess vegna er staðan sú að í Narva nútímans eru u.þ.b. 94% íbúanna Rússneskumælandi, þar af u.þ.b. 82% Rússar.

Samsvarandi hlutfall fyrir Tallinn er talinn u.þ.b. þriðjungur.

Þessi er staðan þrátt fyrir að Rússum hafi fækkað mikið, þeir fluttu margir á brott þegar Eistland endurheimti sjálfstæði sitt 1991, og svo fækkaði þeim verulega þegar síðustu liðsmenn Sovéska hersins yfirgáfu landið 1994.

Staðan er því nú að Eistlendingar eru u.þ.b. 70% íbúanna, en þeir sem eru af Rússnesku bergi brotnir eru u.þ.b. 24%, en eins og áður sagði að mestu leyti í kringum Tallinn og Narva.

Síðan Eistland endurheimti sjálfstæði sitt hefur íbúum að sama skapi fækkað um ríflega 300.000 og fækkar enn.

Hér hefur verið farið hratt yfir sögu um íbúaþróun Eistlands, og er þetta auðvitað ekki tæmandi frásögn.

En svipaða sögu, með mismunandi tilbrigðum má segja af öllum Eystrasaltsþjóðunum, Ukraínu (þar með talið Krím héraði) og fjölmörgum öðrum fyrrverandi  Sovét "lýðveldum".

En þá komum við að upphaflegu spurningunni.  Eiga allar þjóðir, þjóðarbrot og minnihlutahópar (ef þeir eru í meirihluta á ákveðnu svæði) sama rétt til sjálfsákvörðunar?

Persónulega held ég að það verði að meta það með hliðsjón af sögunni, og hvernig það er komið til að viðkomandi þjóð, þjóðarbrot eða minnihlutahópur er í meirihluta á viðkomandi svæði.

Það er engan veginn hægt að bera saman kringumstæður sem valda því t.d. að Rússar eru í meirihluta á svæðinu í kringum Narva, og svo aftur sjálfstæðiskröfur Skota eða Katalóníubúa.

Að sama skapi eru kringumstæður Rússa (aðskilnaðarsinna) í A-Ukraínu orðnar til með allt öðrum hætti en þær sem lögðu grunninn að friðsamlegum aðskilnaði Tékka og Slóvaka, eða Norðmanna og Svía (sem ég held að sé í fyrsta sinn sem ríkið varð sjálfstætt án bardaga eða blóðsúthellinga).

Allt tal Putins og Rússa um að þeir þurfi að "vernda" minnihlutahópa af Rússneskum uppruna, er í raun ekkert annað en áframhaldandi ofbeldi og ógnanir af hendi Rússa, rétt eins og þeir hafa beitt í árhundruð gagnvart nágrannaríkjum sínum.

Það er ótrúlegt að heyra og sjá hvað margir eru þeirrar skoðunar að það sé "réttur" þeirra og sjálfsagt sé að þeir hlutist til um innanríkismál nágranna sinna.

Og þá er ég ekki að tala um Rússa.

Sjálfsákvörðunarréttur er göfugt hugtak og góð stefna, en það verður að taka mið af kringumstæðum og sögunni.


Lettneska ríkissjónvarpið ásakar Rússneska sendiráðið um að aðstoða við ráðningu málaliða fyrir "aðskilnaðarsinna" í Ukraínu

Lettneska ríkisútvarpið ásakar í frétt sinni Rússsneska sendiráðið um að aðstoða við ráðningu málaliða fyrir "aðskilnaðarsinna" í Ukraínu, á Lettneskri grundu.

Í fréttinni kemur fram meðal annars:

Declining to reveal their identities, the anonymous prospective fighters explained that the Russian Federation’s embassy was prepared to quickly handle all of the necessary paperwork and even help volunteers with expenses.

...

 We simply renounce (our) national citizenship and right there at the embassy they give you your tickets and you’re off to Russia. They said they are just waiting for us to come and sign up. My thought is, I’m prepared to go anywhere to fight, and I don’t know how much time I’ll spend there in Russia, but I will know that I am defending my identity, that I am a Russian and that I have a right to be Russian,” he said.

Ef Rússneska sendiráðið er að aðstoða við ráðningu málaliða, er það auðvitað grafalvarlegt mál.  Sömuleiðis er það að sjálfsögðu grafalvarlegt að bera slíkar sakir á sendiráð erlends ríkis.  

En þetta sýnir að hvaða stig deilurnar eru að komast á þessum slóðum.  Rússar virðast staðráðnir í að sýna "mátt sinn og megin", hvort sem það er með ráni á Eistneskum leyniþjónustumann, broti á Sænskri og Finnskri lofthelgi, eða með aðstoð við ráðningu málaliða á Lettneskri grundu.

Það er því ljóst að spennan vex og mun líklega gera það á næstu mánuðum og misserum.  Rússar virðast æ djarfari, eftir því sem innrás og yfirtaka á héruðum Ukraínu gengur betur.

En baráttan á þessu stigi er ekki síst barátta um að koma upplýsingum á framfæri og "vinna" það stríð.

Eistneska ríkisstjórnin hefur t.d. nýverið samþykkt að Ríkisútvarpið opni rás sem sjónvarpi á Rússnesku.

En það er þó nokkur "hiti" í "kalda" stríðinu við Rússland.

 


Gæslumenn sérhagsmunanna

Gæslumönnum sérhagsmunanna skýtur oft upp í umræðunni á Íslandi (og auðvitað miklu víðar).  Þeir eru oft litnir hornauga og sakaðir um að vilja skara eld að sinni köku.

Og það er auðvitað rétt, eins langt og það nær, flestum er jú tamara að hugsa um eigin hagsmuni en annara, eða heildarinnar.

Þannig þarf engum að koma á óvart að heyra rithöfunda og bókaútgefendur berjast á móti því að virðisaukaskattur á bækur sé hækkaður.

Þeir berjast fyrir sínum hagsmunum eins og aðrir.

Þeir vilja lægri virðisaukaskatt, og hærri starfslaun.  Það eru þeirra baráttumál, það eru þeirra sérhagsmunir.

 

 


Íslenskur ananas?

Allar upplýsingar um vöru eru af hinu góða og hjálpa kaupandanum að taka ákvarðanir.  Að fá upplýsingar um upprunaland er af hinu góða en vissulega má deila um það hvort það er nauðsynlegt.

Það má alltaf deila um það hversu langt að ganga að binda eitt og annað í lög, en ég er þó þeirrar skoðunar að hér eins og víða, verði það krafa neytandans sem verður ofan á, alla vegna á endanum.

Sýni neytendur skýran vilja til að fá upprunamerkingar, þá munu þeir framleiðendur sem veita þær upplýsingar verða ofan á.

Í Kanada er t.d. að sjálfsögðu nóg að segja að vara sé framleidd í Kanada, en margir ganga lengra og segja að að varan sé framleidd í Quebec, Alberta eða Newfoundland.  Enn aðrir merkja framleiðsluna býli sínu.  Bæði í Kanada og í Bandaríkjunum má sjá orðunum "with pride in" bætt við fyrir framan fylkis eða ríkisnafns.

Sömuleiðs held ég að það sé orðið í flestum tilfellum nóg að merkja vöru sem framleidda í EU, í "Sambandinu", en flestir merkja hana framleiðslulandinu.

En svo er það hitt sem minnst er á í fréttinni, sem vert er að gefa gaum að.

Það er að vara teljist Íslensk ef hún hefur tekið "umtalsverðum breytingum" eftir að hún var flutt til landsins.  

Mér þætti fróðlegt að vita meira um þær reglur og hvað "umtalsverð" breytingin þarf að vera og hvernig það er reiknað út.

Ég veit að í Kanada er miðað við hvað "virðisaukinn" hefur verið mikill, það er að segja hvað innlenda "breytingin" bætti miklu við verðmætið.

Mér er t.d. minnistætt þegar ég sá skilti í verslun, þar sem á stóð:  "Cored Pineapple, made in Canada, with imported parts.".

Ætli mætti heimfæra það upp í Íslenskar aðstæður sem:  "'Kjarnhreinsaður og flysjaður Ananas, Íslensk framleiðsla, úr innfluttum íhlutum"?

Ég held full þörf sé á að ræða mun frekari upplýsingaskyldu í slíkum tilfellum og líklega veitir ekki af góðri umfjöllun um hvernig vörur verða "Íslenskar" með þessum hætti.

 

 


mbl.is Vilja betri upprunamerkingar matvæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færri undanþágur - skilvirkara kerfi

Það er hárrétt að undanþágur frá virðisaukaskatti eru of margar. Það ætti að vera forgangsverkefni að fækka þeim.

Eins og ég hef margsinnis minnst á áður, ættu veiðileyfi t.d. að vera vsk skyld.  Það sama gildir til dæmis um Bláa lónið.  Ég get ekki fundið nein rök fyrir því að undanskilja vinsælasta ferðamannastað landsis virðisaukaskatti.

En það er nokkuð skemmtilegt að lesa að einn af forsvarsmönnum Bláa lónsins, vilji fækka undanþágunum, sem hans fyrirætki nýtur meðal annara.  Það er til fyrirmyndar og hlýtur að segja fjármálaráðherra og alþingismönnum, að það sé ekki eftir neinu að bíða.

En hitt er svo annað, að það er nauðsynlegt að gefa upp fyrirhugaðar hækkanir með góðum fyrirvara, þannig að fyrirtækjum gefist tóm til að undirbúa sig fyrir hækkanirnar.

En hve langur hann á að vera, má eflaust lengi deila um.

 


mbl.is Ætti að fella flestar undanþágur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inntökupróf í grunnskóla

Ég er búinn að fá þessa mynd senda nokkuð oft á undanförnum vikum.  Það er því líklegt að margir séu búnir að sjá hana.

En myndin var, að því að mér er tjáð, hluti af inntökuprófi hjá grunnskóla í Hong Kong og hefur vakið það mikla athygli að hún hefur farið víða.

Spurningin er enda hrein snilld, og því ákvað ég að birta hana hér.

Hong Kong Elementary

 

 

 

 

 

 

Það á sem sé að finna út númerið á bílastæðinu sem bílnum er lagt í.

 

Fyrir þá sem ekki hafa séð þetta áður og reyna að glíma við þetta segi ég góðar stundir.

Ef menn vilja er hægt að setja svar í athugsemdir.


Sameinaðir standa þeir - Skotar hafna fullu sjálfstæði

Það er orðið ljóst.  United Kingdom, hið Sameinaða Konungdæmi er ekki að hverfa á vit sögunnar.  Meirihluti Skota hefur greitt atkvæði gegn sjálfstæði.

Það er ljóst að margir anda léttar í Bretlandi, sértaklega í stjórnsýslunni og viðskiptalífinu, enda sjálfstæði Skotlands nokkur óvissuferð, sem ekki er fyrirséð hvernig hefði endað.

En vonbrigði sjálfstæðisinna eru veruleg, sérstaklega eftir að þeir virtust stefna að sigri, fyrir rétt rúmri viku síðan.

Þegar hafa heyrst raddir sem krefjast þess að Alex Salmond víki.

En kjörsókn virðist hafa verið afar góð, sem er fagnaðarefni og sýnir að kjósendur mæti þegar þeim finnst þeim málið varða og hafa skýra kosti.

En nú hefst eftirleikurinn sem verður ekki síður fróðlegt að fylgjast með.  Þegar er búið að lofa Skotum frekari sjálfstjórn.  Það kemur þó líklega ekki til framkvæmda alveg strax og gæti orði fyrirferðarmikið mál í næstu þingkosningum í Bretlandi, á næsta ári.

Það gæti einnig haft veruleg áhrif á þær, enda ekki ólíklegt að Skotar fylki sér um Verkamannaflokkinn enn frekar en verið hefur.  

En það eru sömuleiðis þegar uppi raddir um að England vilji fá frekari völd yfir til sín, og það sé óréttlátt að Skotar stjórni Skotlandi en geti sömuleiðis hlutast til um "innanríkismál" í Englandi.  Það verður því fróðlegt eins og áður sagði að fylgjast með hvernig málin verða leyst.

Walesbúar hafa einnig lýst yfir áhuga á því að flytja frekari völd heim í hérað.

En sigur Nei-hreyfingarinnar stefnir í að verða býsna góður.  Sá sigur er ekki síst sigur Verkamannaflokksins og þeirra "Íslandsfjanda", Alistair Darling og Gordons Brown.  "Saviour of the Union",  heyrist æ oftar tengt við nafn Browns.  Svona breytist hið pólítíska gengi.

Ég hugsa að þessi úrslit fari langt með að tryggja Verkmannaflokknum meirihluta í næstu kosningum og minnka þannig líkur á því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.  Þessi úrslit minnka sömuleiðis líkurnar á því að slík úrsögn yrði samþykkt, ef svo ólíklega vildi til að hún yrði haldin.

Ég hugsa að úrslitin taki nokkurn vind úr seglum sjálfstæðissinna víða um Evrópu, en þó breyta þau ekki miklu annarsstaðar, en Já sigur hefði auðvitað sett afgerandi fordæmi.

En fyrst og fremst er kosningin fordæmisgefandi um velheppnaða, friðsamlegar og vel útfærðar kosningar um sjálfstæði og/eða aðskilnað ríkis, eða héraðs.

Því segi ég til hamingju Skotar.


mbl.is Skotar hafna sjálfstæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnaður dagur - stórmerkilegar kosningar

Hvernig sem kosningarnar í Skotlandi fara eru þær magnaðar og stórmerkilegar.  Spennan er mikil og í raun virðast úrslitin geta fallið á hvorn veginn sem er.

En það er ekki síst ástæða til að vekja athygli á því hve vel baráttan hefur farið fram.  Eins og ég hef getað fylgst með fréttum hefur ekkert það skeð sem setur ljótan blett á kosningarnar, þó einstaka núningur hafi átt sér stað.

Það er óskandi að þessar kosningar verði að því leyti fyrirmynd þeirra sem sem berjast fyrir sjálfstæði landa sinna eða héraða, hvað það varðar.

Mér sýnist sömuleiðis að skipulag kosningabaráttunnar hafi verið með ágætum, sjónvarpskappræður, fjöldi funda og þar fram eftir götunum.  Báðar fylkingar hafa staðið sig með sóma.

Það er einnig ánægjulegt, þó ekkert sé hægt að fullyrða á þessari stundu, þá er útlit fyrir að kjörsókn verði góð.  Það er óskandi, enda nauðsynlegt í kosningum sem þessum að sem flestir taki þátt, sem styrkir kosningarnar.

Persónlulega spái ég því að Skotar muni segja nei, hafna fullu sjálfstæði og vera enn um sinn í hinu Sameinaða konungsdæmi.

En líklega verður mjótt á mununum.

En það verður ekki síður fróðlegt að fylgjast með eftirleik kosinganna, hvernig hinar mismunandi fylkingar munu "spila" úr úrslitunum og hvernig sem þær fara verða að öllum líkindum miklar breytingar í Skotlandi.

Ef að Já-fylkingin ber sigur úr býtum, upphefjast langar og flóknar viðræðum um sambandsslitin, en ef Nei-fylkingin hefur sigur, kemur sjálfstæði og sjálfstjórn Skota til með að breikka og aukast og verður ábyggilega fylgst með því víða um Evrópu.

Það er enda víða áhugi fyrir auknu sjálfstæði, sjálfræði og sjálfstjórn.

 

 

 


mbl.is Spennan í algleymingi í Skotlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband