Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Bæði góðar og slæmar fréttir

Það er að sjálfsögðu ekki jákvætt að vöruskiptajöfnuður sé neikvæður, en það þarf samt sem áður að líta á heildarmyndina.

Vissulega þyrftu Íslendingar að flytja út meira, og gott væri ef meira væri framleitt innanlands og minna flutt inn.

En inn í þessar tölur vantar t.d. ferðaþjónustu, sem er að stórum hluta "ígildi" útflutnings.  En til þess að sinna henni, ekki hvað síst nú þegar hún er í svo örum vexti, þarf að flytja inn margskonar varning.

Það þarf að flytja inn eldsneyti, áfengi, matvæli ýmiskonar, hreinlætisvörur, rúmföt og borðbúnað svo eitthvað sé nefnt.

Stóraukin fjárfesting skilar einnig  auknum halla á vöruskiptum.  Sem betur fer hefur fjárfesting verið að taka við sér á Íslandi, ekki eingöngu í ferðaþjónustu heldur einnig í sjávarútvegi og atvinnulífi almennt.

Því er það þannig að þó vissulega sé ekki æskilegt að halli sé á vöruskiptum, felur hann einnig í sér góðar fréttir.

11.8% samdráttur í verðmæti útfluttra sjávarafurða segir einnig sína sögu, og bendir á hve hverfull sá markaður getur verið og varasamt sé að hlaupa upp til handa og fóta með skattlagningu, þó að sjávarútvegur eigi góð ár.

 

 


mbl.is Hallinn nálgast 12 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Regnhlífar gegn Markaðs-Lenínismanum

Það hafa margir sagt að yfirtaka Kínverja á Hong Kong gæti orðið þeim tvíbennt sverð.  Að það frelsi og umhverfi sem Hong Kong búar hafa kynnst myndi frekar hafa áhrif á Kína, en Kína á Hong Kong.

En hin skringilega pólítíska og efnahagslega blanda sem Kínverjar búa við, og ýmsir hafa viljað kalla Markaðs-Lenínisma , á eftir að sýna hvernig það tekst á við mótmæli eins og þau sem núna standa yfir í Hong Kong.

Því miður gefur sagan ekki tilefni til mikillar bjartsýni. 

Kommúnistaflokkurinn hefur uppgötvað að markaðinn og líta á hann eins og margir aðrir, sem gagnlegt tæki eða þjón, en þeir hafa engan áhuga á því að gefa eftir hin eiginlegu völd.

Hingað til hefur þessi sérstaka blanda haldið og raunar en vissulega koma í skelina sprungur með reglulegu millibil.

Hvort að næsta skrefið í þróuninni verði aukið frjálsræði og frjálsar kosningar er á þessu stigi ekki líklegt.  Næsta skref gæti allt að eins orðið Markaðs-Stalínismi.

En kommúnismi, alræði og frjáls markaður, þó aðeins sé að hluta, mun alltaf verða eldfim blanda.


mbl.is Gleði á götum Hong Kong
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðfylkingin og hinir Kommúnísku repúblíkanar og borgarar

Það er rökrétt framhald af þróuninni í Frönskum stjórnmálum að FN (Þjóðfylkingin) fái sæti í Öldungadeildinni.

Öldungadeildin er ekki kosin af almenningi, heldur af hópi sem stundum hefur verið nefndur "ofurkjósendur", sem eru  tæplega 90.000, kjörnir einstaklingar, í sveitar og umdæmastjórnum (region).

Velgengni FN í sveitarstjórnarkosningum hlaut því að skila þeim fulltrúum í Öldungadeildina.

Niðurstaðan er vissulega ekki góð fyrir Hollande, en ég held að þetta hafi verið bæði honum og öðrum ljóst fyrirfram.  Í Frakklandi vegur Þingið meira og hefur úrslitavald, en Öldungadeildin getur vissulega þvælst verulega fyrir málum og tafið.

Í fréttinni er talað um "öfgastimpilinn" sem margir vilja setja á FN, og með tilliti til sögunnar verður það ekki talið að ósekju.

En það er ekkert minnst á að eftir þessar kosningar hefur CRC (sem ég leyfði mér að setja í fyrirsögn sem Kommúnistar, Republikanar og borgarar, en mætti þýða sem Kommunístar, lýðveldissinnar og borgarar) að ég held 18 fulltrúa í Öldungadeildinni, ég held að þeir hafi haft 21 áður.

Nú hafa Franskir kommúnistar vissulega mildast með árunum, en með í tilliti til sögunnar ættu þeir líklega skilið "öfgastimpilinn" ekki síður en FN.

En einhverra hluta vegna er fjölmiðlamönnum ekki tamt að tala um öfgaflokka kommúnista.

En eins og ég sagði hafa Kommúnistarnir mildast með árunum, en gildir það ekki sömuleiðis um FN?

P.S.  CRC stendur fyrir: Communiste, républicain, et citoyen, og er flokkahópur í Öldungadeildinni, en uppistaðan er frá PC (Parti Communiste).

 


mbl.is Þjóðfylkingin fékk tvo í öldungadeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af flikkeruðum myndum

Ég er alltaf nokkuð duglegur við að taka myndir, en það er meiri hætta á því að þær safnist upp, áður en ég kem því í verk að "vinna" þær obbolítið og koma þeim á Flickr.

En hér eru nokkrar af þeim sem ég hef sent þangað nýverið, eins og alltaf má smella á myndirnar nú eða fara á Flickr síðuna og skoða fleiri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Erfiðir dagar fyrir Íhaldsflokkinn

Þeir eru hvorki auðveldir eða skemmtilegir dagarnir hjá Breska Íhaldsflokknum þessar vikurnar.

Erfiðar kosningar í Skotlandi nýafstaðnar og flokksþing framundan.  Þá þarf ráðherra að segja af sér vegna dómgreindarskorts, og annar þingmaður segir sig úr flokknum, gengur í UKIP og efna þarf til aukakosninga.

Það eru því tvær aukakosningar framundan þar sem UKIP á sterka möguleika á því að vinna þingsæti.

Með 2. þingsæti undir beltinu, ætti flokkurinn mun auðveldar með að sannfæra kjósendur um að hann komi til með að ná þingsætum og að atkvæði greidd UKIP sé ekki á glæ kastað.

Það er því ljóst að UKIP gæti höggvið vel í atkvæðafjölda Íhaldsflokksins og náð atkvæðum frá öðrum flokkum líka.

En líklegustu úrslitin, eins og staðan er í dag, er að hann muni taka það mikið af atkvæðum frá Íhaldsflokknum að hann tryggi meirihluta Verkamannaflokksins.

Það kemur enda til með að verða stór hluti af baráttunni hjá Íhaldsflokknum,  að hamra á því að UKIP muni stuðla að meirihlutastjórn Verkmannaflokksins.  Með því muni UKIP svipta Breta þjóðaratkvæðagreiðslunni um veru þeirra í "Sambandinu".

Það og aukin heimstjórn fyrir England og Wales, samhliða auknum völdum til Skota.

Þar hefur Íhaldsflokkurinn náð að koma Verkamannaflokknum í all nokkra klemmu, skiptar skoðanir eru á meðal þingmanna, en forystan virðist nokkuð ráðvillt.

En það eru breytingar í loftinu í Breskum stjórnmálum.  Frjálslyndi flokkurinn er í miklum vandræðum og ef UKIP gengur vel í komandi aukakosningum gæti hann náð að festa sig í sessi sem "þriðja aflið".

En það er ljóst að Evrópusambandsaðild Breta verður eitt af stórum málunum í kosningunum á næsta ári.

P.S. Það á eftir að koma í ljós hvort það sé rétt að ráðherrann hafi sent myndina til blaðamanns sem hafi villt á sér heimildir í samskiptum við ráðherrann á netinu.  Það er þá angi af þeirri nýbreytni að blaðamenn "búi til" fréttir, frekar en að segja frá þeim.

Persónulega myndi ég telja að blaðamaðurinn ætti þá að sjá sóma sinn í því að segja upp sömuleiðis, en það er önnur saga.


mbl.is Myndir urðu ráðherra af falli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Euroið hefði ekki tekið höggið af Íslendingum

Það er alveg rétt hjá Ólafi Ragnari að euroið hefði ekki tekið höggið af Íslendingum.  Ekki frekar en það tók höggið af Kýpurbúum.

Þar voru ekki aðeins sett á "gjaldeyrishöft", heldur þurfti að setja takmörk á notkun á gjaldmiðli eyjarinnar, eurosins.  Leitað var í ferðatöskum við brottför, til að stemma stigu við brot á höftunum.

Ennþá eru takmörk á  tilfærslur á fé á Kýpur (ég held þó að öllum hömlum hafi verið aflétt innanlands).

Atvinnuleysi er u.þ.b. 15%.  Hjá ungu fólki er talan u.þ.b. 35%.

Fasteignaverð féll hratt við bankahrunið á Kýpur, eins og eðilega gerist við slíkar aðstæður.

Launalækkanir voru algengar á bilinu 15 til 30%.

Margt af þessu er þekkja Íslendingar, en atvinnuleysi varð þó aldrei sambærilegt og toppurinn á Íslandi stóð stutt yfir.

Þeir sem halda að euro veiti almenningi skjól við slíkar aðstæður fara villu vegar.

Euroið hefur hins vegar tryggt, að mestu leyti, því alltaf eru einhverjar sveiflur,  að peningar tapa ekki verðgildi sínu.

 


mbl.is Evran hefði ekki gagnast Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eistneska landamæragæslan handtók tvo fyrrverandi KGB menn

Það halda áfram að gerast skringilegir atburðir á landamærum Eistland og Rússlands.

Nýverið handtók Eistneska landamæralögreglan tvo menn á bát sem höfðu farið ólöglega yfir landamærin á ánni sem skiptir ríkjunum á parti.  Ekki mikið, en nóg samt til að afskipti voru höfð af þeim.

Mennirnir veittu mótspyrnu, skáru m.a. á reipi á milli báts síns og lögreglunnar og voru því færðir til yfirheyrslu og úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Nú er komið á daginn að mennirnir eru báðir fyrrverandi liðsmenn KGB.

Það eru býsna merkilegar tilviljanirnar á landamærum Rússa þessa dagana.  

Hermenn "villast" yfir til Ukraínu, hermenn nota "sumarfríið" sitt til að berjast í Ukraínu, Rússar nema á brott Eistneskana leyniþjónustumann, og nú eru tveir fiskimenn, sem fyrir algera tilviljun eru fyrrverandi liðsmenn KGB handteknir röngu megin við landamærin.

Ýmsar getgátur hafa reyndar verið uppi um eftir hverju þeir voru að fiska, en það er önnur saga.

Það er staðreynd að landamærin eru vel merkt á þessum stað, en það er líka staðreynd að á "friðsamari" tímum hefðu þeir fengið lítið meira en klapp á bakið og sekt.

Nú þegar NATO hermönnum fjölgar í Eistlandi, er ekki ólíklegt að fleiri "atburðir" muni eiga sér stað á næstu mánuðum og misserum,  á láði, legi og í lofti.

 


Órói í vændum - Almenningur hefur misst þolinmæðina gagnvart bændum og fyrirtækjum þeirra

Þó að MS eigi vissulega andmælarétt, þá virðist blasa við að fyrirtækið hefur hagað sér eins og fíll í postulínsbúð á mjólkurmarkaði.

Í raun kemur það fáum á óvart.  Það kemur ef til vill mest á óvart að Samkeppniseftirlitið skuli hafa dug til að komast að þeirri niðurstöðu.  En eins og stundum er sagt, lengi er von á einum.

Það sama má ef til vill segja um Framsóknarflokkinn.  Það mega vissulega teljast tíðindi að þingmaður Framsóknar höggvi með þessum hætti að Mjólkursamsölunni.   Betra seint en aldrei myndu líklega margir segja.

Í gegnum tíðina hefur almenningi verið hlýtt til Íslenskra bænda.  Kunnað að meta afurðir þeirra og sætt sig við að greiða fyrir þær mun hærra verð en þyrfti fyrir innfluttar í mörgum tilfellum.

En ekkert varir að eilífu.

Og eins og eins og þekkist frá eldfjöllunum, verður gosið oft öflugra eftir því sem erfiðarar er fyrir kvikuna að ná upp á yfirborðið.

Og það hefur lengi kraumað undir hjá almenningi.

En á undanförnum misserum hefur komið upp á yfirborðið mál sem eru til þess fallin að svifta bændur og afurðasölu fyrirtæki þeirra stuðningi almennings.

Það þykir sjálfsagt að fyrirtæki eins og MS flytji inn tugi tonna af erlendu smjöri, noti það í framleiðslu sína, án þess að upplýsa neytendur sérstaklega um. Þá er engin hætta búin, eða hvað?  Hættan er aðeins ef að almenningur fengi að kaupa það á lægra verði.

Svína og nautakjöt er flutt inn sem aldrei fyrr.  Breytt í beikon og hamborgara og flest það sem nöfnum tjáir að nefna. Stundum og stundum ekki fær almenningur að vita um uppruna.

Bændur og Framsóknarþingmenn básúna svo reglulega um hættuna af innflutningi.  En eina hættan sem þeir virðast berjast gegn, er hættan á að almenningur njóti betra verðs.

Því innflutningurinn er leyfður og er til staðar, en verðið má ekki lækka.

Eftir stendur grímulaus hagsmunagæsla, sem keyrir samkeppnisaðila í þrot, sama hve smáir þeir eru.

Það er nauðsynlegt að brjóta upp kerfið, afnema allar undanþágur frá samkeppnislögum og setja upp 5 til ára áætlun, um stóraukin innflutning, lækkun niðurgreiðsla og tollaafnám.

Því lengur sem það dregst, því meira dregur úr stuðningi við bændur og aðgerðirnar sársaukafyllri þegar þar að kemur.

Leiðin áfram getur ekki verið í óbreyttu kerfi.

P.S. Getur getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig stendur á því að aukin mjólkurframleiðsla velldur skorti á nautakjöti?

 

 

 


mbl.is Stjórnvöld ekki sinnt ábendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankaráð Seðlabankans klofnaði í afstöðu til þess hvort best færi á því að Már Guðmundsson greiddi eigin málskostnað gegn bankanum

Eins og fram kemur í fréttinni (sem færslan er hengd við) hefur meirihluti bankaráð Seðlabanka Íslands ákveðið að best fari á því að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri endurgreiði bankanum, þann málskostnað sem bankinn hafði áður lagt út fyrir.

Það er þó rétt að það komi fram að bankaráðið klofnaði í afgreiðslu sinni á málinu og skilaði minnihluti ráðsins séráliti, þar er lagst gegn þeirr ákvörðun og talið að rétt væri að sú ákvörðun, sem tekin var af fyrrverandi formanni ráðsins,  að Seðlabankinn greiddi málskostnaðinn stæði.

Síðuhaldari mun ekki veita nein verðlaun þeim sem giska rétt á nafn þeirra flokka sem fulltrúar sem mynduðu minnihlutann í ráðinum, sitja fyrir.

Ef til vill nægir að segja að það séu þeir flokkar sem gjarna vilja líta á sig sem fulltrúa almennings, "litla mannsins".

Ef til vill telja þeir Má Guðmundsson, seðlabankastjóra, "lítinn kall".

P.S. Eitthvað virðast skoðanir Hildar Traustadóttur á þessu máli sveiflast til.
mbl.is Greiða ekki málskostnað Más
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar greiða fyrirtæki lægstu skattana?

Oft má heyra eða lesa alls kyns "ranta"um hið gerspillta Bandaríska samfélag sem sé aðeins fyrir fyrirtækin og hina ríku en skilji almenning eftir á köldum klaka.

Hlutirnir séu öðruvísi í Evrópu og hinum "sósíalískari" löndum.

Það kann því að hafa komið einhverjum á óvart að Bandarísk fyrirtæki hafa í all nokkrum mæli "flúið land" í því skyni að greiða lægri skatta.

Og hvert skyldu þau nú flytja?

Jú, þau flytja til landa eins og Kanada (eins og Burger King hyggst gera með kaupum sínum á Tim Hortons.

Þau flytja til landa í Evrópusambandinu eins og Írlands (eins og Chiquita hyggst gera með samruna sínum við Fyffes), Bretlands (eins og t.d. lyfjafyrirtækið Abbvie gerði).

Vert er að hafa í huga að "Sambandslönd" s.s. Írland og Holland eru oft talin þungamiðjan í skatta undanskotum  alþjóðlegra fyrirtækja. 

Hugtök eins og "Double Irish" og "Dutch Sandwich", eða tvöfaldur Íri og Hollensk samloka hafa hlotið nafn sitt vegna þess.

Það þarf því ef til vill ekki að koma á óvart að stærstu útflytjendur á Írlandi eru Google og Microsoft, í þessari röð.  Önnur velþekkt fyrirtæki sem finna má á topp 20 yfir útflytjendur á Írlandi, eru:  Johnson og Johnson, Dell, Oracle, Pfizer, Apple, SanDisk, IBM og Facebook.

Eflaust man einhver líka eftir því að sterk tengsl voru á milli Íslenskra fyrirtækja og eignarhaldsfélaga í Hollandi á blómadögum "útrásarinnar". Og ekki má heldur alfarið láta hjá líða að minnast á Luxembourg þegar minnst er á skattamál.

Ásakanir á hendur fyrirtækjum eins og Starbucks, Google, Amazon og fleirum tengjast einnig "skattafléttum" af þessu tagi.

Rétt er að hafa í huga að enn sem komið er, eru þessi fyrirtæki eru ekki talin hafa brotið nein lög að því ég kemst næst (alla vegna ekki í flestum tilfellum).  

Þau eru ásökuð um að hafa notfært sér möguleika löggjafarinnar til hins ítrasta.  Margir vilja telja það ósiðlegt.

Á móti má spyrja hvort að það eigi að búast við því að einhver greiði meiri skatta en honum lagalega ber?

Og það er eftir all nokkru að slægjast.  Skattar á fyrirtæki eru 40% í Bandaríkjunum en 12.5 á Írlandi.  Ísland er með 20% eins og Finnland, Svíþjóð 22%, en Þýskaland hefur t.d. lækkað sína skattprósentu úr ríflega 38% í 29.5 fyrir fáum árum.

En hvað er til ráða?

Bandaríkin hyggja á lagasetningar sem myndu "múra" fyrirtækin inni, en því er haldið fram að það komi ekki til með að breyta miklu, heldur aðeins snúa við dæminu.  Það er að segja að í stað þess að Bandarísk fyrirtæki kaupi Evrópsk eða Kanadísk, muni Kanadísk eða Evrópsk fyrirtæki kaupa Bandarísk.  Niðurstaðan verði sú sama hvað skattgreiðslur varði.

Margir halda því svo fram í Bandaríkjunum að besta leiðin til að stemma stigu við þessu sé að lækka skattprósentuna verulega og eyða um leið undanþágum.

Margir innan "Sambandsins" hafa talað fyrir því að skattprósentur verði samræmdar innan þess, en aðrir mega ekki heyra á það minnst og er ólíklegt að slíkt verði gert, í það minnsta á næstu árum.

Það er líka ljóst að skattalögfræðingar og aðrir þeir sem véla með fjármál og framtöl fyrirtækja virðast í flestum tilfellum hafa í fullu tré og örlítið betur við þá sem semja og búa til skattalögin.

Mörg lönd, s.s. Írland, Holland, Luxembourg og Sviss, svo nokkur dæmi séu nefnd hafa af því umtalsverðar tekjur,  að bjóða fyrirtækjum lága skattprósentu.  Tekjur sem önnur ríki telja oftar en ekki "tilheyra" sér.

Ein slæm afleiðing þessa er það forskot sem þessi "skapandi reikningsskil" (ef svo má að orði komast) gefa stórum alþjóðlegum fyrirtækjum í samkeppni við smá eða meðalstór "heima" fyrirtæki, sem borga þá mun hærri skattprósentu.

International Tax CompetitivenessEn skattprósenta segir auðvitað ekki alla söguna heldur þarf að taka tillit til skattalöggjafar.  Því er reiknuð út "skattaleg samkeppnishæfi ríkja".  Þar er Eistland talið í fyrsta sæti, þó að skattprósenta á fyrirtæki þar sé t.d. hærri en á Írlandi (og að sjálfsögðu Íslandi), en Svíar koma til dæmis best út af Norðurlöndunum.  Bandaríkin fá þar frekar háðuglega útreið.

Það er því ljóst að það er í mörg horn að líta þegar talað er um skatta og skattbyrði.

Það er ljóst að bæði fyrirtæki og einstaklingar flytja á milli landa til að lágmarka skattgreiðslur. 

Það liggur sömuleiðis í augum uppi að góðir skattalögfræðingar og "skapandi" endurskoðendur munu verða jafn eftirsóttir á næstu árum og verið hefur.

Hvernig getur það verið á annan máta þegar t.d. Bandaríska skattalöggjöfin er sögð vera u.þ.b. 74.000 blaðsíður.

Síðan árið 2001, er sagt að henni hafi verið breytt að meðaltali meira en einu sinni á dag, alla daga.

Hvað skyldu vera sambærilegar tölur fyrir Ísland?

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband